21.2.03

Tóninn hreini og sanni og skrumið


Eftir hverju leitar fólk? Tóninum eina og sanna, þeim hreina. Sumir leita ekki, aðrir vita ekki hvers þeir leita. Leitum tónsins eina. Hvernig förum við að? Leitum og leitum - við finnum hann kannski aldrei, en við komumst alltaf nær honum. Er líka ekki gott að ganga brattann þann hæsta; þegar á toppinn er komið þá liggur leiðin bara niðurávið. Klífum há fjöll. Látum okkur ekki linda hóla og fell. Sá sem kemst nálægt tóninum hreina sér falstónana skýrar. Sá sem klýfur, horfir niður og sér láglendið. Sá sem gengur ekki götuna spyr sig ekki hvort hann hafi gengið hana til góðs. Í kringum okkur er skrum sem vill festa okkur í fen, byrgja okkur sýn með móðu meðalmennskunnar.
Hvað hangir á önglinum, hver er beitan? Viljum við frægð. Ég vil ekki klýfa hóla. Frekar vil ég vera í fámenni á stóru fjalli heldur en í margmenni á litlu felli. Sá sem klýfur aðeins fell og safnar þeim eins og skurðgoðum og hampar þeim er skammsýnn maður, jafnvel nærsýnn. Sá sem er meðal fjöldans á felli fær klapp á bak og hrós, hrósin eru sem þykkar gufur. Gufur eru gegnsæjar og standa fyrir það sem ekkert er.


Þekking er vald. Ment er máttur. Þessi orð eru hvert öðru sannara. En jafnvel sá sem hefur þekkinguna á sínu valdi getur villst í þéttum skógi, vaðið í villu, villst af braut og lent í djúpum helli. Einhæf þekking á bók er ekki ávísun á tóninn hreina og leiðarvísir á mikil fjöll. Ég veit ekki alveg af hverju ég var að leita, en ég held áfram, held það sé best. Ég held göngunni áfram og slæ ekki af, til hvers að slá af; gleðin verður meiri er ég lít við þegar hærra er komið. Sá sem er óþreyttur skal halda áfram.


Þrekæfingar. Rétta hugarfarið er lykillinn að skránni. Ef maður gerir hlutina áreinslulaust þá er það vegna þess að maður hefur gert þá svo oft að maður hefur ekki tölu á þeim. Einbeittu þér og láttu ekki sjóngervingarmenn slæva dómgreind þína. Í rauninin er ekkert ókeypis. En sá sem viðhefur meðalmennskuna á lausnarorðið - ókeypis. Láttu ekki glepast, ekkert er gefið og ferð án enda er ferð sem vert er að fara í.

|




20.2.03

kynvera

Er náttúruna kona og hugurinn karl, er hugurinn kona og náttúran karl? Er náttúran karl þegar mér finnst eitthvað gerist sem kveður að? Er hugurinn karl þegar hugurinn bregður á leik og slær sér upp með vísindunum? Eru náttúra og hugur kannski í siðsömu hjónabandi en vita ekki hvort hlutverki þau gegna eða eru kannski skilin að borði og sæng og gegna báðum hlutverkum kynjanna?


Vísindi eru lykill að völdum. Þekking er vald / mennt er máttur. Framfarirr eru afleiðingar vísindauppgötvana. Hrein vísindi, veita þau vald?. Hagnýt vísindi þau veita vald. Rómverjar fundu upp steinsteypuna.

|




14.2.03

skrif í DV

Síðdegisblaðið DV rær lífróður um þessar mundir; blað á 100 kall. Samkeppni er erfið, en fyrirsagnirnar selja ekki, heldur innihaldið. Húsið mitt hefur verið ákskrifandi snepilsins í þónokkurn tíma og hefur DV farið í gegnum 3 skeið síðan þá. Þegar Jónas Kristjánsson stýrði blaðinu og það kom heim þá var blaðið þunnt, Fókus stundum í góðu lagi. Ég efaðist um hvort það væri rétt að sóa aurum í blaðið, það væri ekki sú upplýsingaveita sem ég gerði kröfur til. Svo kom nýr ritstjóri eftir nokkurra missera áskrift; Sigmundur Ernir. Ég tók eftir því að blaðið efldist og réð til sín fréttamenn sem skrifuðu þykkar greinar og voru með fréttaskýringar sem bragð var af. En svo upp á síðkastið þá hefur blaðið dalað og það er selt á 100 kall. Ástæðurnar eflaust bágur fjárhagur og ekki aur í búri til að greiða mönnum fyrir skrif og þess vegna brugðið á það að stækka letur á forsíðu og fjalla um "kattarkonuna" * og "hnífamanninn" **. Já ég nenni varla að renna í gegnum blaðið lengur, en það er þó einn penni sem ég staldra við; les Jónas Kristjánsson. Jónas skrifar góðan texta og notar semíkommur af miklum móð. Hann er efnaverkfræðingur. Greinar hans eru ætíð á miðopnu.


Elliheimilið Evrópa"

Efitr orð Rumsfelds um Evrópu fellur kastljósið á ástandið þar; stéttastríð er að mestu gleymt eða yfirstaðið, einmitt í álfunni sem fóstraði stjórnmálaheimspeki 19du aldar og framhald frönsku byltingarhugsjónanna. Nú er hún Snorrabúð stekkur. Hugsjónir snúast nú um svínkjöt og flugfargjöld. Í stað stéttastríðs er komið kynslóðastríð, sem einkennist af eftirlaunavandamálum og fjárlagahalla, skiptingu kökunnar á milli kynslóða ásamt fólksfækkun vegna lítils barnaáhuga, atvinnuleysi, innflytjendavandamálum.... "


Já, svona malar hann. Kemur með góða vinkla. En nóg í bili.


* Kattarkonan geymdi búrhníf innan klæða og hugðist bregða honum fyrir sig ef í hart færi; maður tryggir ekki eftirá.

** Hnífamaðurinn stakk konu á aðfangadag út í "löngu vitleysunni", 800 m langri blokk sem enginn kemst yfir nema fuglinn fljúgandi og jú nema að hafa lykil. Maðurinn og konan höfðu þráttað eflaust yfir því hvernig elda hætti jólasteikina með fyrrgreindum afleiðingum. Hnífamaðurinn var hnepptur í hald eftir atlögu sína við konuna. Þegar maðurinn endurheimti frelsi sitt eftir nokkurra daga inniveru í steininum þá fréttum við af því hjá DV.

|




13.2.03

Heimildir

Ég verð nú að geta heimilda, fyrst ég er nú að byrta þessa leyniuppskrift sem vilja finna dýrið í sjálfum sér. Þessi pistill er eftir Jónas Sen píanóleikara með meiru. Fyrst ég hef ekkert skrifað af viti þá verð ég nú að setja eitthvað bitastætt á síðuna og uppörvandi. Fyrir þá sem nenna ekki að lesa það sem stendur þá er ÚLFURINN (að taka úlfinn) hjálparmeðal sem kemur mönnum lengra en ella í amstri dagsins og samkeppni, sem er nú harðari sem aldrei fyrr.

|




Hvernig á að breyta sér í ÚLF

Nýlega kom út ævisaga Antons Szandors LaVey, höfuðsmanns "Kirkju Satans" sem ég minntist á í síðasta pistli. Heitir bókin "The Secret Life of a Satanist", og er eftir konu að nafni Blance Barton. LaVey er líka höfundur nokkurra kafla sjálfur, og fjallar einn þeirra um hvernig má gerast varúlfur.
Varúlfur er sá eða sú sem hefur breyst í úlf. LaVey segir að auðvitað sé það ekki hægt í eiginlegri merkingu, heldur sé það sálin sem umbreytist. Hann vill þó meina að umbreytingin geti haft ótrúlega sterk áhrif á líkamann. Fólkið í söfnuði hans sem upplifi þetta ástand finnist að það hafi klær, vígtennur, trýni, o.s.frv. Engin hætta sé samt á að neinn "festist" sem varúlfur, til þess sé mannseðlið allt of sterkt.


Samkvæmt LaVey mun rándýrseðlið vakna í hverjum þeim sem fylgir eftirfarandi leiðbeiningum. Afleiðingarnar verði betra samband við dýrslegu þættina; fólk verði almennt grimmara, og því muni þar með ganga betur í lífsbaráttunni. Í hnotskurn gengur aðferðin út á það að gera sjálfan sig hræddan, en hugsa sér síðan að maður hafi að sama skapi máttinn til að gera aðra hrædda. Best er að útskýra þetta nánar. Nokkrum dögum fyrir fullt tungl skaltu fara á einhvern stað sem vekur hjá þér óhug. Þetta gæti verið eyðibýli að nóttu til, en líka máttu fara eitthvert út í náttúruna langt frá mannabyggð. Þú verður að vera ein(n), og dveldu þarna um stund. Síðan skaltu fara burt, en komdu aftur næstu nótt. Gerðu þetta svo í nokkur skipti, og reyndu að upplifa eins mikinn ótta og þú getur.


Eftir fáeina daga, þegar tunglið er orðið fullt er komið að næsta skrefinu. Það geturðu tekið heima hjá þér. Klæddu þig í svört föt, og ef þú átt gamlan pels, er það ekki verra. Best er að setja upp úlfsgrímu ef hún er fáanleg. Það hljómar auðvitað fáránlega, en þá má benda á að töfralæknar hjá ýmsum "frumstæðum" þjóðum beita keimlíkri aðferð. Þeir klæða sig í dýrsfeld, setja upp viðeigandi grímu, syngja, dansa og berja á trumbu. Þetta virkar sem sjálfsefjun; von bráðar fer þeim að finnast að þeir séu viðkomandi dýr og þá öðlast þeir mátt þess. Það er allavega hugmyndin. Svipað ert þú að fást við, og nú skaltu ímynda þér að þú getir vakið skelfingu hjá öðrum. Láttu sem að þú hafir ummyndast í úlf, og að aðrir óttist þig, alveg eins og þú hefur fundið fyrir ótta undanfarnar nætur. Reyndu að ganga eins langt og þú getur með því að urra, góla, þefa út í loftið, o.s.frv. Skynjaðu grimmd villidýrsins og láttu hana magnast upp í æði. Ef þér tekst þetta muntu finna að ýmsir vöðvar fara að kreppast saman, að því er virðist ósjálfrátt. Þú byrjar að gretta þig; neðri vörin geiflast fram, þú skýtur upp kryppu og hendurnar verða eins og loppur. Þegar þetta skeður ertu orðin(n) að varúlfi! Vertu þannig nokkra stund, en svo skaltu slaka á. Láttu þá ástandið ganga til baka, þar til þér finnst að þú sért orðin(n) að manneskju aftur.


Þetta er galdur sem er stundaður af djöfladýrkendum í "Kirkju Satans", og má hver reyna sem vill. En í sumum galdrareglum, þ.á.m. söfnuði vúdú-biskupsins Micaels Bertiaux, sem ég hef áður minnst á í nokkrum greinum, er gengið enn lengra. Þá fer galdramaðurinn eða konan sálförum í líki úlfs. Fyrst er gerður galdur af svipuðum toga og ég lýsti hér að ofan, og þegar viðkomandi er orðinn að varúlfi fer hann út úr líkamanum (ég mun fljótlega kenna lesendum mínum það). Sem varúlfur er svo ferðast um svörtustu afkima ósýnilega heimsins, en þar eiga að búa allskyns demónar og púkar. Þessar verur myndu ráðast á hvern sem færi um þeirra svæði, en sé maður sjálfur í úlfsmynd verða púkarnir aftur á móti hræddir og flýja burt. Af þessu má sjá að úlfsgaldrar geta verið jákvæðir og notaðir til verndar. Hugmyndin er einfaldlega sú að ef eitthvað skelfilegt ræðst á mann, er best að vera bara fúll á móti.


Galdraseremónía, sem er í svipuðum dúr og er ættuð frá Indlandi, má gera ef manni finnist eitthvað óhreint að handan vera nálægt. Aðferðin er mjög einföld. Sestu á stól og ímyndaðu þér fjóra úlfa í kringum þig, einn í hverri höfuðátt. Þeir horfa allir út frá þér, eru illilegir á svipinn og gæta þín. Sjáðu fyrir þér fjögur hvít bönd sem tengja líkama þinn við úlfana. Hugleiddu þannig nokkra stund, en svo skaltu hugsa þér að úlfarnir leysist upp og verði að ljósboltum. "Sogaðu" síðan boltana inn í þig.


Þetta er aðferð sem hægt er að beita hvenær sem er. Hún dugir ekki aðeins gegn draugum, heldur líka ef einhver er að hugsa illa til manns. Sterkar, fjandsamlegar hugsanir geta nefnilega verið máttugar

|




10.2.03

Borðinn er lýti


Meistarmót að baki og ég vann ekki.

|




6.2.03

Hulk og mennirnir

Ár eitt að nýju. Það fá allir annan séns.

Eftir að sokkarnir hjá tripod gerðu mér lífið leitt (held þeir séu byrjaðir að rukka) þá er stefnan sett á nýjan stað. Hlýir heimahagar blogger.com.

|