24.4.05

Raunir Höðurs

Í mörkinni sem umlukin er jöklum og fjöllum og þar sem eitt sinn riðu hetjur og útilegumenn ráfuðu, skáluðu nú unglingar í landa um helgar og fjölskyldur nutu samvista. Þar bjó einnig lítið lamb sem villst hafði langa leið frá hjörð sinni. Beit var með öllu bönnuð í Þórsmörk en hvað vissi lambið, það yrði ekki ljóst að það væri týnt fyrr en í smölun í haust rétt fyrir slátrun. Frændur og frænkur færu á innanlandsmarkað, sum til Færeyja og önnur til hinnar stóru Ameríku, markaðssett og seld dýrum dómi sem lúxuslömb. Lambið átti óljósar vonir og drauma því það þekkti hvorki fortíð sína skilgreinilega og hvað þá heldur framtíð og gat sér móðukenndar hugmyndir um nútíðina sem það lifði í. Lambið lifði fyrir daginn í dag eins og öll dýrin í skóginum nema maðurinn. Maðurinn trúir á einn guð, líkneski, sjálfan sig eða ekki neitt og þekkir skil á fortíð, nútíð og framtíð, því manninum er tungumál og munnleg geymd ásköpuð. Til allrar lukku var lambið ekki af forystukyni því þá hefði það stangað mann og annan og verið hirt fyrir athæfið af landvörðum og sent í sína heimahaga. Lambið var orðið nokkuð feitt því nóg var að bíta og brenna í mörkinni. Lambið var Höður, prins merkurinnar. Nokkuð vítt var til allra átta fannst Heði því hann þekkti fátt annað og minni sauðfés er stopult. Grasbítar hafa ekki þurft að hafa fyrir máltíðum líkt og rándýrin sem beita klókindum við veiðar og heilastarfsemin því ekki flóknari en raun ber.
Verslunarmannahelgi var í nánd og Höður sá dalinn fyllast af fólki. Óhljóðandi kassarnir frussuðust yfir beljandi jökulfljótið, mikill hávaði var í sumu mannfólkinu en aðrir gengu hljóðlegar um en allt reisti það litlar hálfkúlur eða þríhyrninga. Tómt vesen þetta að vera ekki vaxin ull og þurfa að klæða sig í marglit efni en það er annar handleggur og eldri saga sem snýr að hinu fullkomna kælikerfi mannsins sem þróaðist þegar maðurinn veiddi sér til matar með því að elta uppi bráð sína í heitari álfu og gat ekki dokað við og andað til að kæla sig líkt og önnur dýr steppunnar, því að tími er matur, tími er líf. Hárlaus líkami var ekki alveg rétta kaffið á norðurslóðum en ekki var hægt að snúa þróunarferlinu við úr þessu.
Höður lét lítið fyrir sér fara, fólk virtist hafa gaman af lukkudýri í Slippugili.
Höður átti sér einskis ills von þar sem hann lapti úr læknum. Það var þrifið í afturlappirnar og hann hljóðaði. Heði var dröslað eftir grasinu og hann sá lækinn fjarlægjast og heyrði hróp nálgast. Einhverjir voru illskulegir á svip gagnvart fangaranum en aðrir klöppuðu á bak honum. Fjallalamb komið í tjaldbúðir og snarkandi eldur, sem er ekki vinur neinna lifandi vera annarra en mannsins, var nærri . Heði var lyft upp og slengt til jarðar. Hann heyrði hljóð sem hljómuðu "ég rotaða sem steinbít og grilla í kvöld", en skerandi öskur heyrðist svo "ertu siðferðislega brenglaður, maður fer ekki svona með dýr, láttu lambið vera, farðu aftur með það að læknum". Höður var aumur í annarri afturlöppinni. Fangarinn fjarlægðist og minna mannfólk ataðist í honum, kvenkyns líklegast eins og sumt hans skyldfólk. Fangarinn tók Höð upp og gekk með hann að sprænunni sem hann hafði stuttu áður lapið lífsins vökva úr. En eitthvað var ekki eins og það átti að vera. Höður var reikull í spori, hægri afturlöppin var brotin og snéri skringilega. Höður dröslaðist með undarlegu göngulagi á brott frá mannabúðunum. Næstu daga heyrðust skringileg hljóð í fólki og úr trékössum. Svo var dalurinn tómur og umbúðir einar eftir. Höður fylgdist með fólki í samfestingum týna smáhluti og umbúðir af flöt dalsins. Dagarnir liðu og þeir urðu Heði sífellt erfiðari og erfiðari. Höður vissi ekki að hann var með opið beinbrot og sýkingu í löppinni. Svo var það dag einn að ógnarhvasst var í dalnum. Höður hafði ekki yfirgefið dalinn eftir ófarirnar, hlíðarnar voru brattar og grjótið við enda dalsins var ófrýnilegt yfirferðar svo hann hafði ekki reynt að kanna frekara beitiland. Vindurinn var mikill og Höður réði ekki við hann. Hann hrökklaðist nær enda dalsins og gat sér ekki rönd við reist. Í grjótinu veltist hann og sá dalinn fjarlægjast og grjótbreiðuna stækka. Höður hringsnérist og sá nú jökulána fyrir framan sig. Hann stóð stjarfur og feyktist nær því. Kindur eru þeim óeiginleika búnar að geta ekki gengið afturábak og Höður átti ekki þann kost vænstan að reyna bakka frá fljótinu og vindurinn hleypti honum hvorki til hægri né vinstri, bara nær fljótinu. Svo kom kviða og Höður léttur og eitt sinn lipur hófst á loft og stakkst ofaní gruggugan strauminn. Hann gat ekkert gert, landið hreyfðist en fljótið ferðaðist á sama hraða og hann. Hann gat ekkert gert. Höður var orðinn máttfarinn og sá brú nálgast. Höður lokaði augunum og gaf upp öndina. Hvítfyssandi jökuláinn breiddi úr sér og ferðalangurinn flaut hreyfingarlaus á yfirborðinu flæktur í trjágrein. Fljótið og lítið lamb sameinuðust hafinu og langt ferðalag tók við. Það var svo á haustdögum að lítið rotið lambhræ kom upp að ströndum Vínlands rétt eins og áar þess höfðu gert með Leifi heppna og öðrum landnemum röskum þúsund árum fyrr, en hann endaði ekki líf sitt á leg, heldur láði. Þetta er sagan af lambinu sem enginn mun heyra, sagan af lambinu sem ferðaðist ekki með flugfragt eða flutningaskipi til Ameríku. Þetta er sagan af lambinu Heði sem hafstraumar báru til fjarlægrar álfu. Sagan af á sem dó í á.


24. apríl 2005, Vesturbergi, Reykjavík
Árni Georgsson

|




22.4.05

Kláraðu af disknum...

Sem ungur drengur vildi ég standa undir væntingum föður míns og ég kláraði af disknum í matarboðum. Ég át allt sem að kjafti kom. Hvað fær maður fyrir það frá ættingjum, jú klapp á bakið og nokkur sei sei – drengurinn er vel upp alinn og efnilegur. Já, maður skar fituna og byrjaði á henni svo maður þyrfti ekki að eiga hana eftir. Svo át ég líka svo djöfull mikið, ætlaði aldrei að hætta – maður áleit magn vera dyggð. Maður var minntur á það að fara fleiri ferðir í stað þess að hrúga á diskinn. Ég sem át ekki ost átta ára gamall. Veit ekki af hverju ég var svona metnaðarfullur gagnvart umheiminum. Kannski var ég í samkeppni við Völu systur sem át allt. Hún át selskip, hvalkjöt, hákarl - já allan fisk, allt grænmeti og kjöt og óttaðist ekkert, bara át það sem á borð var borið og sleikti útum. Kannski hefur þessi metnaður orðið til þess að nú í dag vil ég ólmur prófa eitthvað nýtt og láta koma mér á óvart. Ég hafði ekki sömu náttúrulegu hæfileikana (áunnir hæfileikar sem hjá systur minni byggðust á því að troðið var í hana með góðu eða illu) til að gleypa hvaða mat sem er. Ég er þá lifandi dæmi í átinu að vinnusami meðalmaðurinn nær lengra en lati snillingurinn. Á kannski að senda alla í sveit?

Frumburðurinn er svona prótótýpa, prufueintök – generalprufa. Þetta er eins og við forritun, þróunarfasinn verður að vera langur og ítarlegur, það er svo kostnaðarsamt og mikið vesen að leiðrétta hönnunarvillur í forritun, betra að gera þetta rétt í fyrstu atrennu. Svo þegar reynsla er komin á þetta þá rúllar allt áfram með styrkri hönd. Hvað uppeldið varðar ef grislingarnir verða fleiri en tveir þá verður uppalandi kannski kærulaus og latur og þá verður krakkinn agalaus og latur, ofdekraður eins og er oft með yngstu börn...

Ég grillaði pylsur í nokkra klukkutíma í dag fyrir börn og fullorðna. Ég bauð uppá eina með öllu auk þess sem kartöflusalat var á boðstólum. Ég spurði þá krakka sem fengu sér eina með öllu og jafnvel kartöflusalat hvort þau væru frumburðir foreldra sinna og nær undantekningalaust var svo. Magnað. Það var sem ég hélt, þeir sem áttu nokkur systkini voru meiri gikkir, vildu jafnvel bara tómatssósu eða ekkert á pylsuna – meiri gikkir og áttu miðaldra foreldra. Man ekki hvort frumburðirnir voru með lykla um hálsinn og foreldralausir því foreldrarnir voru að vinna yfirvinnu. Talandi um þetta kartöflusalat. Þetta var afgangur frá síðustu helgi þegar ég pantaði heil 18 kíló. Afgangur uppá 11 kíló. Síðustu daga er ég búinn að borða kartöflusalat á hrökkbrauð, samlokur og með öðrum mat, en haldiði ekki að Ottó Tynes hafi hent salatinu eftir daginn, ekki pláss í ískápnum í Tónabæ og ég og Björn félagi sem hugsuðum okkur gott til glóðarinnar út vikuna. Ég hlessa, hvað nú. Hvað er til í frystinum – lærissneiðar og humar. Maður er svo lengi að elda...
Ég tek áhættu í lífinu og hugðist gera það út vikuna. Hvað fæst út úr því að borða gamlan mat ef maður veikist ekki? Kannski sterkara ónæmiskerfi, ofþrifnaður veldur ofnæmi segja sérfræðingarnir. Þetta eru húmbúkfræði sem ég fer eftir. Pabbi borðar ótrúlegustu afganga sem mamma hendir ef hún rekst á. Hef ekki ælt síðan ég var unglingur, en spurning hvort það verði ekki mín síðasta máltíð ef ég tek of mikla áhættu. Er það karlmennska að borða gamlan mat, berja sér á brjóst og segja tja þetta er nú ekkert eða þá bara heimska. Og þetta með karlmennskuna, er hún ekki skrifuð af körlunum. Ég hefði viljað fá svartan kvenpáfa.

|




20.4.05

Endimörk vaxtarins

Stjórnmálamenn skrifa sömu greinarnar aftur og aftur - umorða þær gömlu aðeins. Hef séð þetta þegar ég hef farið yfir greinasöfn einstaklinga sem halda úti greinum á vef. En nota bene, er ekki nauðsynlegt að hamra á sömu hlutunum ef þeir skipta sköpum og hagsæld er í húfi. Þeir verða allaveganna að minna á sig.
Jónína Ben var gestur Kastljóss fyrir stuttu. Sigmar ræddi við hana um gleði, sigra og endimörk vaxtarins þegar hún snéri kvæði sínu í kross eftir fall líkamsræktarstöðvarinnar. Hún byggði sér hurðarás um öxl og kappið og metnaðurinn varð forsjálninni yfirsterkari. Drifkraftur okkar er að vaxa og Jónína vildi stærri stöð og óx en endaði svo með tvær hendur tómar. Gæfan sem byggðist á drifkrafti og því að stækka og vaxa snérist í höndum hennar. Ólympíuhugsjónin hærra, lengra og hraðar átti ekki við á þessum vettvangi. Endimörk vaxtarins urðu til þess að hún settist á skólabekk og nú bíður landinn spenntur eftir því að reynsla hennar af spilltum karlaheimi viðskiptanna líti dagsins ljós í bók sem væntaleg er. Hún segist hafa kortlagt hverjir stálu góssinu og sáu við vel meinandi stjórnmálamönnum sem vissu ekki betur. Einkavinir sáu betur og ferðuðust á hraðskreiðari fákum og sitja nú við sjóndeildarhringinn með fulla vasa af söluhagnaði sem þeir þakka vinum sínum við Austurvöll.

Sigurður Guðmundsson nefndi það í heimildarmynd Ara Alexanders, Tuttugu bit, að hann þroskaðist við að takast á við nýja afkima listarinnar. Fjöllistamaðurinn Sigurður hefur hug- og höggmyndalist, skúlptúra, hljóðverk og ég veit ekki hvað. Mér kunnugri konur og menn um listina hafa sagt mér að hann sé mikill áhrifavaldur í íslenskri list. En má ekki frekar segja að þroskinn felist í því að setja lokapunktinn aftan við það sem maður fæst við hverju sinni. Þroskinn felist í því að geta hætt því sem maður er að gera - maður vaxi upp úr því. Því næst hefst maður handa nýtt viðfangsefni. Nokkuð ljóst að einn ferill tekur við af öðrum og sjóndeildarhringurinn breikkar við það að hnika ásnum sem mest og halda í nýja átt. Meiri ögrun felist í hinu nýja og óræða en hinu gamla. Þægindin og öryggið við gömlu fótsporin eru ekki til staðar þegar inn í nýjan hring er stigið og skilningarvitin eru opin upp á gátt við að kanna ókunnar slóðir og marka þar ný spor í sandinn.


Sigurður Guðmundsson: Láréttar hugsanir, 1970-71.


Endimörk vaxtarins eru óhjákvæmileg rétt eins og sá tími kemur að alheimurinn hættir að þenjast út, lífið endar og við hættum að stækka. Endimörk vaxtarins segja okkur að tími sé kominn á nýjan vettvang.
Þetta leiðir hugann að sjálfum mér. Nokkuð ljóst að endimörk vaxtarins hjá ÍTR eru ljós. Stöðnun er sama og dauði. Eins og Sigurður held ég að mér sé holt að skipta um vettvang og vaxa og fást við nýjar ögranir því ljár minn klýfur loftið eitt í þessum geira og ljóst að nýr vettvangur verður að næra sálina svo eldurinn logi áfram.

|




14.4.05

Af neyslu, beitastýringu og landbúnaði

"Mjólkin er svo kostgóð að hún mun trúlega heita rjómi hjá fólki sem hefur ekki fundið sannleikann."

Halldór Laxness, 1960.

|




America’s Next Top Model er minn negri

Ekki það að Tyra sé að hálfu blökkukona, ég hafa bara svo gaman að þessum þáttum. Maður hlær þegar síst skyldi. Endalaust drama og skæl á víxl, bandalög sem halda eða hvað? Bablað um hæfileika og bakgrunn. Svo er pían með háskólaprófið farin að líta eitthvað stórt á sig finnst sumum, en hún vinnur allar keppnirnar og bíður vinkonum á víxl, deilir og drottnar. Nú var það Nicole sem datt út. Dómarar sögðu hana flata en ég held hún hafi verið solid og feimin eða eitthvað – vildi frekar frá Amöndu íssaugu út. En hún er búin að gera svo mikið fyrir þá sem eru blindir eða að hálfu blindir. Svo var það Toccara með sinn magnaða persónuleika sem big-mama í hópnum, með breitt bak brosti hún og veifaði hinum þegar hún var felld út og “vinkonur” skældu. Hef heyrt að þessir þættir séu kid-stöff miðað við Australia’s next top model, vá bíð spenntur eftir þeim á netinu.
Fyrir James Bond vonnabí eins og mig, mann sem þráir að tala sex tungumál, þrjú svört belti í sjálfsvarnaríþróttum ásamt svona 4 háskólagráðum, þá eru þættir eins og 24 og Alias eitthvað fyrir mig. Mannlegar ofurhetjur sem kunna ekki að taka rangar ákvarðanir. Svo eru það Lost þættirnir. J.J.Abrams er alveg að gera það. Skrifar núna handritið fyrir nýju Mission Imposible myndina. Þar mætast svart og hvítt, á nýju ári eins og vændiskonan í Forest Gump segir “það fá allir nýjan séns á nýju ári” – everybody get a second chance... Já, glæpakvendið fær nýtt start á einni og bakgrunnurinn plagar hana ekki. Þetta eru skilaboð til þeirra sem feta refilstigu hins óræða og vafasama. Boðberi hins góða og hinna réttu gildi og prinsippa er náttúrulega læknir, hvað annað. En eins og allir er hann meira en bara íkon og spegilmynd allra góðra lækna. Hvað lærir maður í læknisfræðinni – að vera góður maður og eignast fjölskyldu og sverja eið. Já, þeir eru margslungnir sjónvarpsþættirnir frá Ameríku. Kristilegt siðferði og eftirbreytni í hávegum höfð. Við vitum alltaf næsta leik í O.C., One Tree Hill og Mountain. Sápur sem eru eftirmynd annarra sápa. Harvard skólaðir handritshöfundar starfa eftir forskrift framleiðenda sem vilja bæta heiminn, eða hvað? Þegar unglingarnir hlusta ekki á foreldrana er þá ekki bara málið að koma boðskapnum á framfæri í gegnum mismunandi steríótýpur í sápum. Það læra allir sína lexíu og reynsla er raun og ímynduð, fundin af eigin rammleik, í gegnum vini eða þá sjónvarp þar sem fyrirmyndirnar ganga í gegnum ótrúlegustu hluti. Þegar unglingarnir lenda í bobba eða þurfa að búa sér til sitt eigið ákvörðunartré þá hugsa þeir um reynsluna, raun og ímyndaða, lærða og leikna. Reynslan getur verið harður meistari og það tekur blóð, svita og tár fyrir óstálpaða að fullorðnast, en púsluspilið gengur oftast upp hjá okkar fólki, þar sem samúðin liggur. Já, velgengni er langhlaup.

Hvað bíður svo hins litla James Bond? Fá vinnu, útskrifast, kaupa sér eitthvað, kannski fjárfesta í íbúð og ná sér í skuldir. Áskotnast jeppi og versla sér seglbretti, svig-/telemarkskíði á útsölu, kayak og kannski Laser bát, svo maður minnist ekki á köfunargræjur og tökuvélar. Salt Lake City, Vancover og Chamonix bíða mín. Langar mig ekki allt eins að búa til stuttmyndir eins og aðrir - býr ekki handrits-/rithöfundur í mér eins og öðrum hverjum Íslendingi. Íslenskur heimilisiðnaður er margt annað en prjónaskapur og flugugerð. Þetta er allt sama kaffið.

|




12.4.05

Fyrirmyndin - ímyndin

Í viðtalsþáttum og blaðaviðtölum birtast oftar en ekki fyrirmyndir okkar hinna. Þurfum við ekki öll einhverja íkona til að halda í og hvertja okkur áfram. Ekki endilega Jesú, heldur kannski bara Ólaf Jóhann, Súperman, Kasparov eða Davíð Oddsson. Við þurfum bara að gera eins og þau, vera hörð og öguð og ná þannig árangri. En eru fyrirmyndirnar það sem við höldum að þær séu, eða eru þær kannski bara ofur líkar okkur. Okkar Súperman, Ólafur Jóhann, birtist okkur sem rithöfundur að morgni, forstjóri risafyrirækis eftir hádegi og ástríkur faðir og eiginmaður upp úr kvöldmat. Erum við að kaupa ímyndina þegar við kaupum bækur hans. Bækurnar eru svona góðar því hann er svo góður. Hann er mögnuð söluvara, alger Súperman. Hann hefur náð góðri sölu hér heima líkt og erlendis. Líklegast er ímyndin ekki hreint ofanvarp af frummyndin, eftirmyndin er eitthvað bjöguð, hreinslípuð. Hefur það ekki komið fyrir okkur að við gerum okkur hugmyndir um hinn og þennan en svo þegar til kastana kemur þá reynist ímyndun okkar á frummyndinni sem við sáum úti á götu eða á mynd ekkert lík. Trúðu engu af því sem þú heyrir og helmingnum af því sem þú sérð...


Hvað gefur það manni að hugsa um Einstein meðan maður leysir eðlisfræðidæmi? Kannski minnimáttarkennd eða þá eldmóð, því hann spilaði á fiðlu eins og maður sjálfur kannski - en örugglega ekki svarið. ´Las það einhversstaðar að Einstein hefði átt 11 eintök af sömu fatasamsetningunni. Vanafastur greinilega.

|




Kreditlistinn og að kunna sig

Það er búið að setja mig á kreditlistann fyrir kvikmyndina Bítlabærinn Keflavík. Eflaust er þetta bara trikk til að þrýsta á mig til að safna milljónum frá styrktaraðilum sem ég á að herja á. Getur verið andlega erfitt að koma á teppi hjá fólki sem maður reynir að kríja eitthvað út úr - nauðsynlegt að undirbúa sig andleg með góðum skammti af peppi og tala jafnvel við sjálfan sig.

Það er þetta með væntingarvísitöluna. Vonir og væntingar. Félagi minn sagði mér eitt sinn frá Dr. Love á netinu. Ég var forvitinn og las nokkrar greinar eftir dr. Love og hann er greinilega eldri en tvævetra þessi sálfræðingur. Dr. Love býður spólur og bækur, árangri er lofað. Það er næg eftirspurn eftir megrunarbókum, stefnumótabókum og sjálfshjálparbókum. Dr. Love svaraði fyrirspurnum spyrjenda sem voru annað hvort hönkar eða lúðar. Dr. Love sagði menn að varast væntingar. Já, það er nokkuð til í þessu - ég með miklar og þú litlar og ég kæfi þig - ætti að tempra svo þú fáir ekki nóg... Vona að þessar væntingar til auglýsingarsöfnunar kæfi mig ekki.

|