26.2.09

Ljósmyndin...

Myndir skilja eftir sig spurningar. Myndir skilja eftir sig svör. Myndir segja þér eitthvað. Á svarthvítum fleti eða lituðum lítum við myndir og þær tala við hugann. Fékk í jólagjöf ljósmyndabók, öllu heldur bók sem inniheldur verk Sigurðar Guðmundssonar fjöllistamanns. Sigurður segir þroskann liggja í því að loka einni hurð og opna aðra. Það er áfangi. Margir að loka hurðum þessa daganna eða þeim þá skellt á fólk eða af því. Í útvarpi talað um innávið pælingar í kjölfar kaflaskila í innra og ytra lífi. Við stjórnum því innra með okkur en hið ytra getur haft áhrif á hið innra. Sjálfið. Við getum stýrt sjálfinu, það er langhlaup að stjórna sjálfinu.
Hver á ekki stafræna myndavél? Ég á eina slíka. Ég tek margar myndir en þær segja mér ekki margt umfram það sem á myndinni er, stóll, fólk, fjalll. E.t.v. ekki mitt að dæma myndirnar. Ég nefndi Sigurð Guðmundsson, hann nær því svo vel að skilja ekki eftir spurningu, hann svarar spurningunni sem þú hugsanlega hafðir. Það er allt á myndinni sem á að vera þar. Maður segir bara við sjálfan sig, aha, helvíti sniðugt. Hann hittir naglann á höfuðið.

Bara að það væru fleiri eins og Sigurður. Eftirá séð virðist allt svo augljóst. Þetta gildir um margt. Efnahagsmál, íþróttir, bókmenntir. Sigurvegararnir skrifa söguna. Til skamms tíma voru þeir aðrir fyrir ári en nú í dag. Falsspámenn gærdagsins eru handhafar sannleikans í dag. Sá sem sigldi gegn straumi í gær, rær með honum dag. Sá sem bakaði pönnukökur í gær er búinn að kveikja í eldavélinni í dag og svissar því um ás og kaupir örbylgjuofn. Það er hasar í loftinu. Rafmagnið sem gerir ofangreint kleift, stuðar einn og hjálpar öðrum. Rafmagnið flytur fjöll, ekki bergið sjálft, heldur myndina af því. Rafmagnið flytur fjöll í gegnum þræði. Vonandi að næstu dagar flytji okkur góða strauma.

|