27.2.04

Gömul saga

Hérna að lokum kem ég með gamla sögu frá 2001, hún fjallar um ýmislegt.

Maðurinn sem hvarf af vegi dyggðarinnar.

Fyrir allt sem er ódýrt og auðvelt.

Fyrir athyglina,
fyrir stundaránægjuna,
fyrir skjótfengin gróða.
Nennti ekki að leggja neitt á sig

Sjón hafði daprast það skýrði og stýrði flestum ákvörðunum hans. Hann sá meter fram í tíman. Engin hugsjón lengur en vika, mánður, dagur. Allar strategíur gufuðu upp, andvana í fæðingu, fengu hvorki hjálpardekk né hækjur.

Hann fór aldrei í sunndagsskóla og hafði því aldrei heyrt getið um miskunnarsama Samverjan en hafði heyrt að Guð hjálpi þeim sem hjálpi sér sjálfum. Kristindómurinn var stopull eftir því.

Hann átti vini sem voru í bransa. Þeir sýsluðu með bréf og skuldir og eitthvað annað sem máli skiptir. Hver ætlar ekki að meika það? Einu sinni meikuðu menn það í tónlsit og friði. Var það ekki pabbi þegar hann reykti hass og áður en hann þroskaðist og mamma fyrir barneignir og íbúðarkaup.

Velgengni í lífsgæðakapphlaupi var lykill sem máli skipti. Hann vildi ekki viðurkenna það fyrir sjálfum sér en hann vissi það samt. Einu kapphlaupi var deginum ljósara að hann ætlaði ekki að tapa, lífsgæðakapphlaupinu. Hann setti sér ný mörk, spara fyrir næstu afborgun, hann gæti jafnvel aukið við nýja hluti í kringum sig. Honum leið svo vel með nýja hluti í kringum sig – svo góð tilfinning. Hverju máli skiptir notagildið á tímum ofgnóta, engin kreppa núna. Gefa gamla hluti til þriðja heimsins, góðverk, endurvinnsla.

Lífsskoðanir: Allar þær sem högnuðust honum vel. Peningar gefa fresli til athafna.

Vissi það sem máli skiptir, umhverfi mótar skoðanir, það er erfitt að velja umhverfi. Það eru sjónvarpsstöðvar, fólk í kringum mann, föt, bækur og veraldleg gæði. Hann settist niður og sá hvað kom sér best. Frítíminn var honum ofviða til skipulagningar. Hann fann samt fyrir þroska. Hann var allt annar maður en fyrir 7-8 árum. Eðlilega hann hafði þroskast, numið fræði, eignast nýja vini, komið sér í farveg. Þegar mamma sagði “þú ert svo breyttur, þú varst ekki svona” þá skildi hún ekki að tímarnir breytast og mennirnir með, hún skildi ekki að hún var stöðnuð og líf hennar í of föstum skoðum, eitthvað sem hann gat ekki sæst við. Hann var með sítengt aldrif skynsemi, raunhyggju og nýungagirni. Hann hafði ferðast víða og fannst hann víðsýnn. Hafði komið til fimm heimsálfa og séð hvað fólk bjó ömurlega sumstaðar. Hafði í sömu ferðum gist á góðum hótelum og borðað afbragðs humar. Skógarferðin í Amazon, bátsferðin á Níl og flugið yfir Tælandi var eitthvað sem sat eftir.

Nauðsynlegt að eiga sér íkona. Fólk sem maður getur litið upp til, fólk sem gerir allt rétt.
Gera íkonar allt rétt? Sumir virðast ekki gera mistök, eru þeir þjálfaðir í að gera allt rétt, eða lærðu þeir af mistökum og stukku svo fullsmíðaðir fram í sviðsljóðir, baðaðir af ljósum og tilbúnir að taka sterkum flössum, áreyti og öðru tilheyrandi.

Fólk með orð sem verða að óskráðum lögum, hálfgerðir hálfguðir, falsguðir en samt var ekkert annað semí við það. Þótt maðurinn sé breyskur þá er að bara töff hjá sumum, lofaðir lestir og brestir. Það er púki í öllum, vertu stolltur af þínum!

Skrítinn metnaður, ólympíuhugsjónin yfirfærð á allan andskotan, hugsjón í orðum en ekki gjörðum, orð á blaði tengd öðru en inntak og skilnginur ekki sá sami.

Hverja þekkti hann?
Fjölskyldu og vini jú. Fyrrverandi þetta og hitt.
Konur. Vissi stundum ekki hvort hann var að koma eða fara. Heyrði ýmsu fleygt. Voru allar konur hórur?

Er líf íkona eins og við höldum. Er það ekki bara sýndarverkuleika matreiddur léttsteiktur, meðalkryddaður ofan í okkur. Þegar sjálfið er orðið að eftirprentun fyrirmyndar. Ljósrit, ógreinilegt ofanvarp

Vinir var mark takandi á þeim. Hann var að spá í það. Hann þoldi ekki gagnrýni og það neikvæða. Vildi klapp á bak en ekki kinnhesta. Einhverjir “vinir” að gefa honum heilræði og það sem máli skipti – hvað vita þeir um það. Þeir voru ekki hann og öfugt. Alltaf að reyna yfirfæra málshætti og úrelt orðatiltæki á hann og hans líf, slitin úr samhengi.

Maður þarf ekki að lifa lífinu í samhengi.

Opna bók og loka henni.

Líf og dauði.

Er hægt að rífa bókina í sundur?
Er hægt að verða eins og einhver annar?
Getur maður allt í einu farið að tala ensku eða þýsku?
Er ofurmennið lifandi í okkur?

Auðvelt að virkja flatann veruleikan.
Í stað þess að fljóta með straumnum er hægt að synda skriðsund með honum.

Eitt sinn gerðist hann bísnessmann. Fór með félaga, keypti atvinnutæki og tók þátt í útboði. Bauð lægst en sem verktaki var hann ekki hæfur. Af vanefnum. Hann átti dráttarvél eina atvinnutækja og bauð í einhvern Vatnsfellsáfanga og frægt það varð. En svona er þetta. Lögfræðingur á ekki að gaspra um skipulagsmál, viðskiptafræðingur ekki um arkitektúr og trésmiður ekki um málmsmíði. Þessa speki sagði mér maður, kannski las ég hana. Spekin er tvíþætt. Þú kemst að því, því meira sem þú fræðist og lest þá sérðu hversu lítið þú veist, heildarmyndin stækkar því sjóndeildarhringurinn stækkar og þú veist hlutfallslega alltaf minna og minna. Þeir sem vita og kunna ýmislegt hneigjast til að telja að reynsla manns og kunnátta í einni grein geri mann hæfan og dómbæran um allt milli himins og jarðar. Tilhneiging að halda að kunni maður eitthvað fyrir sér á einu sviði, sé maður sjálfkrafa fær í ýmsum öðrum efnum.

Okkar manni fannst hann vera um það bil að höndla hamingjuna. Spilaborgir og loftkastalar voru í byggingu. Hann átti kannski eftir að komast að því að hamingjan fælist ekki í því að eignast meir af peningum og veraldlegum gæðum. Tíminn dæmir. Með sterkum glerjum sér hann kannski að hamingjan er ofin úr gæðum sem spretta af góðmennsku, andlegri og siðferðilegri auðlegð sem fátækir, valdasnauðir og óþekktir kunna að eiga ekki síður en þeir sem veraldargæða njóta í ríkari mæli.

Ógöngur geta endað sem frekari ógöngur en einnig getur veglaus endað á vegi. Það eru engar fastar reglur fyrir neitt. Lögmál Murphy’s á við. Hann hann var eins og stjórnlaus bíll. Ferð án takmarks og ófyrirsjáanlegs endis.

Er hann þú eða ég? Einhver sem við þekkjum? Þekkjum við kannski ýmislegt frá honum? Allt á sér hliðstæður og skyldleika? Lífið er uppfullt af upphrópunum og spurningamerkjum. Við erum stundum á villigötum og vitum ekki að því þótt ýmis merk þjóti fram hjá okkur. En það þýðir ekki að vera í eilífri naflaskoðun og efast um allt sem gert er. Framfarir byggjast m.a. á sjálfstrausti og trú á það markmið sem unnið er að hverju sinni hvort sem í einkalífi er eða vinnu.

Hvað hef ég um þetta að segja. Afhverju skrifa ég um þetta? Er ég sturlaður?
Það eru freistingar víða. Það er auðvelt að falla fyrir þeim, stórum og smáum. Þetta er oft spurning um viðhorf gagnvart hlutunum.

Ef einhver segði “Ert þú að skrifa um sjálfa þig eða vini” þá gæti ég svarað viðkomandi að ég væri að fjalla um freistingarnar sem ég hef reynt að forðast að falla fyrir eftir besta megni og sama gildir um félaga mína. Þú þekkir freistingarnar sem orðið hafa á vegi þínum, og einnig af afspurn og lestri. Þú þarft ekki að hafa dottið í díið til að fjalla um það.

|




Af greiðslum og grunnhugtökum

Einu sinni velti ég greiðslum fyrir mér, ég þori bara að setja þessa inn - hinar ekki bjóðandi, of mikið diss. Svo eins og svo margir aðrir velti ég fyrir mér grunngildum sem allir spá í. Skrifaði þetta um mitt sumar 2000 þegar ég var að sálast úr leiðindum í Búnaðarbankanum. Takið með fyrirvara.

Hyljan:

Þessir einstaklingar eiga við sama vandamál að stríða og anorexíusjúklingar, þeir sjá sjálfa sig ekki í réttu ljósi í spegli. Viðkomandi aðili finnst hann vera uppfullur af hári en raunin er að hann er bara með langar lufsur í hnakka og hliðum sem hann greiðir villivekk yfir skallann til að hylja hann. Það er allur gangur á því hvernig menn safna í hylju, hnakkinn getur orðið fyrir valinu allt eins og önnur hvor hliðin. Hyljan hefur tamið sér nokkra kæki í formi hálshnyggja sem gegna því hlutverki að sveifla hyljunni aftur upp á toppinn. Þetta getur verið afkáranlegt. Ef þið sjáið einstakling með tíða hálshnykki þá skuluð ekki álykta að hann sé þroskaheftur eða haldinn geðveilu, það getur verið að viðkomandi eigi heima í rokrassgati. Á vindasömum stöðum eins og á Suðurnesjunum er hyljan sífellt á ferðinni og þá þurfa menn að hafa snör handtök ef menn eiga ekki að halda að þeir séu sköllóttir. Í miklu roki þá þurfa menn hreinlega að halda hyljunni niðri. Gott dæmi um hyljmeistara er Jón hlaupari (hnakkahyljari) og verslunarstjórinn í Austurríki (hliðarhyljari). Hyljan helst líka í hendur við gömul brún jakkaföt, slitnar gallabuxur og flöskubotna gleraugu. Hyljan er greiðsla sem kemur aldrei í tísku og fer þ.a.l. aldrei úr tísku, hún er svona eins og minnihlutahópur sem siglir með og hefur sig til hlés.

Siðferði – Afbrýði

Hvað fær maður upp úr því að rausa um eitthvað sem menn geta fundið sér til aflestrar á bókasafni? Það sem ég fæ upp úr því er náttúrulega æfing á því að koma skoðunum mínum á framfæri og æfingin skapar meistarann. Ástæðan fyrir því að ég er að röfla um þetta er sú að maður talar oftast um það sem er næst hjartanu og liggur efst í huga. Vinnu minnar vegna hef ég ekki getað fylgst nægjanlega vel með fréttum og hef þ.a.l. ekki getað skrifað af viti um þjóðmál og flaggað skoðunum mínum á þessum málum. Þar sem ég hef nú lesið eitthvað í frístundum um siðferði og hluti því tengdu þá finnst mér ekki svo galið að varpa fram smá hugleiðingum. Þetta er jú eitthvað sem tengist öllum og flestir hafa skoðanir á, þrátt fyrir að sumir viti varla hverjar eru en þær leynast þarna einhversstaðar.

Hvað get ég sagt um siðferði og afbrýði?
Það eitt veit ég að siðferði og siðfræði mótar gjörvallt þjóðfélagið og þjóðfélög, heimskulegt að halda annað, ha!
Hvað kallar maður gott siðferði? Að fara í kirkju, standa upp fyrir gömlu fólki í strætó og hjálpa fólki í neyð? Kallar maður siðleysi klámáhorf, hlæja að óförum annarra, einelti, lyfjamisnotkun, lyfjanotkun og sjálfsfróun? Lögbrot eru siðleysi, við höfum líka óskráðar reglur sem ná ekki innfyrir ramma laganna. Það er hægt að fleygja endalausum spurningum og vangaveltum um siðferði og siðleysi fram. Í orði er ekki sama og á borði. Fólk sem lætur eitthvað koma sér á óvart er undarlegt. Fólk veit að mannleg hegðun á sér fá takmörk. En þjóðfélag þarf á leikreglum. Rétt eins og í knattleik þá verður að setja mörk og þeir sem ekki virða þau eru úthrópaðir, utan rammans. Góður borgari viðhefur ákveðna hegðun. Ég tel mig góðan borgara en enginn veit nema ég hvort ég sé siðleysingi eða góður nágranni (GN - sjá pistil Skrattans). Það býr oft myrkur í ólíklegasta fólki og mér er minnistætt þegar genginn maður sagði að í sér byggi fól. Hvað þarf til þess að falla af vegi dyggðarinnar? Ætli það þurfi ekki að brenna nokkrar brýr og taka nokkra steina úr götunni, stíflunni, svo hún bresti. Þegar fyrsti steinninn er farinn fylgja hinir í kjölfarið. Ég hef velt því fyrir mér hvort það sé erfiðara í dag en í gær að viðhafa gott siðferði. Það er meira framboð af öllu. Það er meira áreyti og það er auðveldara að misstíga sig. Vegurinn er að mjókka. Þetta er vandamálið við frelsið. Frelsi veitir fólki áhrifamátt. Áhrifamátt til að geta stjórnað sínu eigin lífi. Með auknu frelsi getur fólki veist erfiðara að standa á svellinu. Þeir hæfustu lifa, hinir eiga í hættu að detta og jafnvel falla í vök. Okkur ber að hugsa um hagsmuni heildarinnar. Það þýðir ekki að týna sér í að rýna í smáatriði, minnihlutahópa. Það verða alltaf minnihlutahópar, rétt eins og atvinnuleysi. Frelsi er línudans sem þú dansar ekki á hælunum. Þú velur þér flugbraut og ef vel tekst til þá tekstu á loft. Gangverkið er viðkvæmt og ekki má raska jafnvægi um of.

Ræturnar

Samfélagið stendur af þremur meginsviðum: stjórnmálum, efnahag og menningu. Þessi svið eru svo sett saman úr undirkerfum. Kerfi eins og hugmyndakerfi, siðakerfi og tjáningarkerfi. Hugmyndakerfi gera mönnum t.a.m. kleift að átta sig á tilverunni og auka skilning og þekkingu á hlutunum. Við erum ekki dýr, ekki apar eða ljón. Við bjuggum okkur til trúarbrögð, tömdum okkur og tileinkuðum okkur annað siðferði, valdið varð skipulegra og ljósara hver það bar. Okkur fjölgaði og taumhald varð að vera skýrt svo óreiðan yrði minni. Var þetta ekki svona hjá Grikkjum og Rómverjum?

Siðferði á alltaf erindi. Siðferði tengist samvisku. Við fæðumst með þann eiginleika að læra milli þess sem er rétt og rangt. Við setjum reglur um það, skráðar og óskráðar, hvað sé gott siðferði og hvað sé siðleysi. Svo köllum við það nöfnum: viðskiptasiðferði, læknavísindi og siðferði, vísindi og siðferði. Það eru tvær hliðar á öllum málum minnst. Góð hlið getur táknað slæma hlið. Þegar kvikmyndatökuvélin var uppgötvuð var vélbyssan það líka. Þegar atómið var klofið fylgdi sprengja í kjölfarið.
Nasistar gerðu siðlausar læknisfræðilegar tilraunir á fólki. Kenningar og niðurstöður voru afar ómerkilegar og þjónuðu fyrirfram ákveðnum forsendum og gildum sem áttu ekki við rök að styðjast. Er hægt að tala um hlutleysi vísinda? Í hvaða tilgangi störfuðu læknar nasistanna, þjónuðu þeir sannfæringu sinni í leit að nýjum uppgötvunum á sársauka – vildu prófa þanþol líkamans, hvað þola nýru, lifur og andinn, hversu langt er hægt að ganga.

Samtíminn

Hver er afstaða okkar? Erum við ábyrg gagnvart einhverjum? Getum við eitthvað gert? Einn maður getur fátt annað gert en að taka afstöðu. Afstaðan gerir honum kleyft að lifa í sátt við sjálfan sig. Afstaðan er gerð á hans eigin forsendum. Hún þjónar hagsmunum hans og vonandi annarra. Við viljum ná lengra, hærra, fara hraðar. Þetta á við um allt. Davíð og Kári hafa metnað. Menn hafa misjafnar leiðir til að ná árangri. Árangur drífur fólk áfram. Fólk má ekki hefta. Einstaklingur í dag hefur meira frelsi en áður. En frelsi er ekki hægt að mæla. Ég fer frjálslega með orðið enda var okkur það gefið og því feri illa að geymast upp í hillu og rykfalla. Ég er alltaf að komast að því með hverjum deginum sem líður að heimurinn er flóknari en ég hélt. Það getur verið hægara sagt en gert að komast til botns í þeim málum, finna aðalatriðin. Það eru margar gildrur, sjónhverfingar og samsæriskenningar. Einfaldar lausnir eru fallegastar.

Afbrýði

Þetta eru bara hugleiðingar. Öll eigum við kenndir sem búa innra með okkur og þegar síst skyldi brjótast þær fram. Sjálfsmeðvitund skiptir máli. Afbrýði og siðferði tengjast. Þegar þú finnur til afbrýði veistu innst inni á stundum hvort hún sé rétt eða röng – er svo, erum við hlutlaus? Ég hef fundið fyrir afbrýði, en í leit minni að betri gildum þá hef ég talið mér trú um að réttast sé að sjattla þessi hugarvíl þegar þau koma upp.
Nærtækt – Ástir og afbrýði. Afbrýði út í náungann – hann gerir svo vel. Við finnum allt um afbrýði í biblíunni, hún kennir gott siðferði og til vitnis um það eru boðorðin. Sígildar kenningar Sókratesar og Platons, Aristótelesar, speki Stóu og kristni, Hobbes, Immanúel Kant, John Stuart Mill og Hegel ættu að vera heimagangar á hverju heimili.

Siðfeðri herra vísitölu mótast af umhverfi, sögu, mennigum o.fl. Hann er Vestur-Evrópubúi, gekk í menntaskóla. Hefur rætur sem ná til Grikkja, fékk kennslu í réttu og röngu. Foreldrar, kirkjan, sjónvarpið, bíómyndirnar, fjölmiðlarnir og vinirnir og kennararnir kenndu honum rétt og rangt. Þetta er nóg í bili. Ef þú hefur skoðun segðu mér hana. Er ég heill?
Lifið heil.

Heiðarleiki

Vítt hugtak, samt einfalt. Annað hvort ertu heiðarlegur eða ekki. Heimur hinna fullorðnu er flókinn, það spinnast svo margir þræðir inn í að erfitt getur verið að greina þá sem máli skipta. Lífið er þannig. Þú lifir, þú deyrð. Ef þú skyggnist nær þá lifðirðu, fermdist, gekkst í skóla, giftir þig, áttir börn, lentir í áföllum og þú dóst. Við getum rýnt frekar og sagt frá daglegum viðburðum en þá erum við komin út í hluti sem skipta ekki máli. Hvaða hlutir skipta svo ekki máli? Ef maður tekur sjálfan sig sem dæmi þá tek ég ekki gúmmíhanskana, sem ég stal þegar ég var sjö, til að búa til túttubyssu eða bensínið sem ég stal frá nágrannanum þegar ég var níu til þess að búa til Molotovkokteila. Sumt slapp ég með en á heildina þá lærði ég mína lexíu og í heimi barns þá spilar samviskan stóra rullu og það sem er ljótt og vont og getur skaðað annann, það á ekki samleið með lítilli sál og hún sér að sér, breytir rétt. Ég er ekki hreintrúarmaður í því flestu sem ég tek mér fyrir hendur. Það má ekki taka hluti of bókstaflega. Lesum milli línanna. Hvít lygi er ekki dæmi um óheiðarleika.

Heiðarleiki og samviska eru skyldmenni. Sá sem vill vera góður maður hann lifir eftir ákveðinni línu, rétt eins og fyrirtæki sem skal reka vel. Það þýðir ekki að koma nýja stefnumótun mánaðarlega. Lykilatriðið er að vera sannur og heill, virða skoðanir annarra, taka tillit - Palli er ekki einn í heiminum. Hegðun er lærð og heiðarleiki er línudans samviskunnar. Dans sem dansaður er í takt við réttu gildin. Heiðarleiki er línudans einstaklings við sjálfan sig í sátt við sjálfan sig.

Menn vita ekki alltaf réttu svörin og oft eru upplýsingar á huldu, rangar eða villandi. Einhver sagði að þetta mætti, þetta væri rétt, svona gerðu allir og þetta væri viðtekin venja. Hvað segja þessi orð okkur. Þau segja okkur að viðkomandi er að réttlæta eitthvað sem er á gráu svæði, eitthvað sem orkar tvímælis og viðkomandi er með kökk í hálsi og samviskubit. Viðkomandi vill telja sjálfum sér trú og öðrum að hans verknaður sé sá rétti án efa. En viðkomandi veit og jafnvel fleiri vita að svo er ekki..

Hvar er upplýsingaflæði ónógt? Þar sem menntun er af skornum skammti, þar sem fjölmiðlar villa um fyrir fólki og þar sem landsherrar fylla lýðinn með skrumi og einhverju bulli sem hentar herrunum eða stefnu þeirra. Er ljósið okkar, erum við handhafar sannleikans? Það er svar við spurningunni og það er það enginn er handhafi sannleikans. Nóg í bili nenni ekki að röfla meira.
Lifið heil

|




Efinn

Oft efast fólk hvort það sé á réttri leið og spyr sig spurninga og fer í naflaskoðun. Einu sem oftar var svo komið fyrir mér og skruddurnar voru að gera mig vitlausar. Í sögunni hér fyrir neðan eru tilvitnanir í ýmislegt sem gerst hefur.

Urmull, Jesú og verkfræðin...


Urmull var lengi búinn að velta fyrir sér möguleikum lífsins og hrærði skynsemi og tilfinningum í pott og fann út að verkfæðin væri hans hilla, í bili.

Jesú kom til Urmulls í draumi og þeir sátu saman í hvítum sófa. Urmull sagði honum frá verkfræðinámi sínu og Jesú sagði honum að hann hefði oft efast en Jesú sagði líka að hann hefði hugsað líkt og hlauparinn er flutti fréttir af sigri Aþeninga yfir Persum, hann sá bara heimahöfnina, markið koma bara eitt til greina. En Urmull spurði Jesú um freistingarnar. Jesú svaraði því til að hlauparinn hefði verið sérvalinn og hann hefði ekki trú á því að hann hefði stöðvað til að fá sér ís ef einhver hefði verið og hvað þá að njóta gleðikonu. Jesú sagði Urmul frá því að sjálfsagi væri málið og hann yrði að hengja gulrót á prik og hafa það fyrir augum sér svo hann sæi markmiðið og það væri bara ein átt og engar hliðarstefnur. Jesú sagði Urmul að hann mætti ekki garfast í smámálum sem skiptu hann minna máli en aðra, þá myndi Urmull bara enda uppi sem veggfóður eða gólftuska á óhrjálegum stað.

Jesú sagði Urmul að skemmtanir væru bara flótti frá markmiðinu. En Jesú sagði einnig að gott væri að setja heilan í saltpækil í formi göróttra drykkja á Prikinu, þar gæti Urmull hitt annað skrítið fólk sem væri uppfullt af flækjum og hefði ákveðið að sópa þeim undi mottu svo sem eina kvöldstund. Jesú sagði líka að þar gæti Urmull fengið skæri lánuð til að greiða betur úr sínum flækjum því hans eigin væru orðin bitlaus og Prikið væri góður staður fyrir skærabítti því þar væri mikið um flækjuhausa. Urmull fór á Prikið en gleymdi skærum sínum heima, súrt það, en hann fékk skrúfur að gjöf og skiptilykla með því fororði að hann notaði þá í góða þágu, eigendurnir væru fullhertir og hefðu ekki not fyrir varninginn.

Urmull sagði Jesú að hann hefði prófað að vera páfagaukur. Hann hefði hitt aðra gauka en svo séð að þetta ætti ekki við sig, reynslunni ríkari. Gaukarnir voru á allt annarri bylgjulengd en hann og þeir skyldu hann ekki, hljóðin rímuðu ekki. Urmull hafði farið víða og reynt á samhljóm og samstöðu áður en flakkinu lauk og hann snéri sér að hagnýtari hlutum.

Urmull spurði Jesú út í Skrattann. Jesú sagði hann bleyðu sem hefði fallið af himnum og væri sífellt að villa á sér heimildir í formi fólks sem væri tvöfallt í roðinu og meinti ætíð eitt en gerði annað.

Jesú og Urmull spjölluðu um vitundina. Jesú sagði að hún væri bara skráargat hugans og hans biði meira. Urmull spurði Jesú um hlutabréf, græðgi og víf. Jesú sagði að þessi hlutir væru á gráu svæði. Sumir vildu meina að þetta væri allt undan Skrattanum komið og hann væri að vekja upp kenndir og spila með okkur líkt og strengjabrúður í flóknum vef.

Urmull og nýju gaddaskórnir. Jesú sagði Urmul að það væru ekki skórnir og hjólabuxurnar sem kæmu honum áfram heldur hans eiginn styrkur. Kjarninn væri að Urmull mætti ekki sækja styrk í skurðgoð, fæðurbótarefni og orð misvitra manna, ábyrgðin væri hans og skellurinn einnig auk sigrana ef þeir kæmu einhvern tímann.

Urmull spurði Jesú um trúmálin og gang himintunglanna. Jesú sagði Urmul að þessi himintungl og sólir kæmu sér ekki við, vissi raunar lítið um þau, hefði alltof mikið á sinni könnu og enginn tími væri til að fræðst um þau. Jesú sagði Urmul að Biblían væri góð skáldsaga og þetta væru mestmegnis ýkjusögur en hann sjálfur hefði nú verið þokkalegur rokkari í eina tíð en það væri nú með þetta eins og annað, fjarlægðin gerði fjöllin blá. Jesú sagði líka að hann hefði nú ekki alltaf hirt um þessi helvítis boðorð, málið væri að trúin flæktist alltof oft fyrir mönnum. Jesú sagði heilagan sannleik væri hreint ekki að finna í Biblíunni, hann væri bara ekki til, það væri eitthvað mikið að ef menn væru að leggja allan sinn trúnað á eina bók en leggja sitt helsta vopn, skynsemina á rykfallna hillu og taka hana bara af hillunni þegar hausinn væru orðinn illa blóðgaður af steinaíbarning....

....Urmull var hvergi nærri búinn en svo vaknaði hann bara. Það voru fleiri spurningar sem biðu svars. Urmul hefur ekki dreymt neitt undanfarið og er orðinn óþreyjufull, vill komast í tæri við vitundarlyf. Hvað á Urmull að gera? Hann er eitthvað ringlaður í kollinum, hvað gera menn þá. Skola hann aflfræði-ringl burt með öldrykkju einni í vísindaferð? Er það skammgóður vermir?

|




Erfiðleikar aðlögunar

Í janúarbyrjun 2001 þá slengdi ég inn stuttri sögu af ólukkulegum kródódíl sem tekinn er úr sinu upprunalega umhverfi og plumar sig ekki sem skildi. Þetta á jafnt við um við um erlenda knattspyrnuleikmenn sem skipta um umhverfi og dýr í dýragörðum.

Lúlli var ekki Jesú, hann var af skinni og blóði

Drottnari fensis, krossfestur, dáinn og urðaður. Hann steig ekki upp, hvorki á fyrsta né síðasta degi. Hann hvílir nú við hægri hönd gamals fataskáps í haug og mun ekki dæma lifendur og dauða því hann tilheyrir seinni hópnum að eilífu.

Hann var Lúlli krókódíll. Sem krókódíll var hann efstur í fæðukeðjunni í fenunum í Flórída. Hann var langur sem slanga og kröftugur sem fíll. Sem krókódíll þá var hann lifandi steingervingur og heimskur eftir því. Það var ekkert til í höfðinu á honum sem hét hugsun, bara borða og maka sig. Lúlli lifði í núinu. Lúlli var með ættartöflu svo magnaða að undrum sætir – náði tugi milljóna ára aftur í tímann, aftur fyrir tímann þegar loftsteinn lenti á jörðinni og þurrkaði út frændur hans marga.

Lúlli vissi þetta ekki því hann kunni ekki að lesa, en genamengi hans og gáfur staðfestu þetta.
En hver hefði búist við því að drottnari fensins lenti á einkabúgarði Elísabetar Taylor?

Elísabet hafði lengi langað í voldugt gæludýr, sem hún gæti svo nýtt eftir dauðdaga þess. Hún hafði alltaf haldið upp á volduga jakka, stígvél og töskur.

Frú Taylor tók upp tólið einn góðan daginn og hringdi í einn sinna eftirlifandi fyrrverandi eiginmann og bað hann um að redda sér krókódíl, seppi væri dauður og hann vantaði eitthvað hressandi, eitthvað dýrslegt. Viti menn stuttu síðar var kominn króksi í tjörnina í Southfork.

Lúlli hafði aldrei lent í öðru eins havaríi. Svona verur eins og hann hafði oft borðað höfðu gómað hann. Slengt maze úða í augu hans og vafið hann í net. Svo kólnaði lúlla og hann gat sig ekki hreift. Það er vandamál að vera með kalt blóð, maður lifir ekki á norðurslóðum, nema hafa frostlög eða einhvern andskotann í æðunum.
Svo fór fyrir Lúlla að eftir að hann fór á búgarð frú Taylor þá hreyfði hann sig nánast ekkert, var bar í móki, það var svo kalt. Frú Taylor fékk leið á króksa, hann hreyfði sig ekki, leit ekki við hræinu af seppa sem hún hafði fryst, né T-steikunum úr kjörbúðinni. Þetta kallaði frú Taylor ekki karlmennsku svo frú Taylor fór að kalla Lúlla Súsí og leyfði vinum og kunningjum að klappa Lúlla og slá hann með vendi. Já, fallinn var foringinn, Frú Taylor formælti honum, hún vissi náttúrulega ekki muninn á heitu og köldu blóði og reyndi bara að gefa honum skerf af pilluskammti dagsins þegar hann fúlsaði við stórsteikunum. Frú Taylor gafst svo upp á honum þegar líða fór að jólum kyssti Lúlla Júdasarkossi, og lét Larry Fortinsky, trésmið og sinn 11. og seinasta eiginmann choppa hann niður með vélsög og smella honum í frysti. Lúlli var hamflettur og töskur, stígvél, jakkar, svipur og hálsmenn búinn til úr jarðneskum leifum hans. Megnið af búk Lúlla endaði á haug sem fyrr segir en lunginn af skinni hans fór til vina og kunningja um víða veröld, svo Lúlli endaði sem heimsborgari og lifði áfram sem verndari fólks gegn kulda, regni og fleiru.

En hvað kennir þetta okkur? Lúlli átti aldrei viðreisnarvon eftir að hann kom úr fenunum. Þar voru hans heimkynni. Hann var sem fiskur á þurru landi í búgarði, afskræmt leikfang sem beið dauðdaga síns. Lúlli og Pochahontas eru hliðstæður, þau urðu bæði fórnarlömb órökstuddar ástar og notuð sem sýningargripir. Það vita fáir hvað varð um Pochahontas eftir að hún fór með John höfuðsmanni til Englands. Þar varð hún óhamingjusöm og lagðist í drykkju líkt og margur skrælinginn hefur gert, enda veikir fyrir veigum.

Frummyndir verða aldrei annað en veikar eftirmyndir ef þú hrifsar þær úr eðlislægu umhverfi sínu og setur þær á svell. Aðlögun getur orðið frummyndunum að falli og líklegast að þær bráðni gegnum svellið, sökkvi dýpra og dýpra og endi á botni þar sem engin björg er veitt. Frummynd orðin að ógreinanlegu ofanvarpi.

|




Gamall skætingur

Einu sinni útataði ég hverfið mitt saur og talaði um mikilvægi gagnrýnnar hugsunar, því eitt vissi ég að gott væri að hafa hann sín megin, þótt kannski hafi ég ekki haft hana!

AF BREIÐHOLTINU OG WILLIAM CLIFFORD


Mun birta á næstu dögum útreið Breiðholtsins, Bandaríkja Reykjavíkur. Sundurlaust hverfi þar sem hverfaóöld hefur ríkt milli ungmenna. Ungmenni skæla og brosa á víxl yfir misfögrum fermingargjöfum. Greiningardeild glensara ætlar að meta verðmæti og menningarígildi Ding Dong sem útvarpsþáttar og fyrirbæris. Í upphafi skal endinn skoða og fær þátturinn falleinkunn en í greiningunni mun koma fram afhverju. Nauðsynlegt að hafa greiningardeild á netinu rétt eins og í öllum helstu fjármálastofnunum sem vilja láta taka sig alvarlega. Ef einhver vill vera með í geiminu þá hefur sá/sú hin(n) sami/sama samband. Próf og strúktúrar vel þegin.


Ef þér finnst textinn fyrir ofan innihaldsrýr þá skal ég bæta þér það upp. Hingað til þá er hann samt vel fyrir ofan netmeðaltalið. Afhverju get ég fullyrt það?


Heimspeki er hverjum manni holl. Í formi bókalesturs, íhugunar og reynslu. Það hafa margir menn gengið þessa jörð á undan okkur og það sem við mælum og segjum er byggt að miklum hluta á þeirra pælingum. Við erum alltaf að stækka og hækka húsið. Tíminn, lífið og maðurinn eru ein hringrás sem við getum bundið saman í keðju samhangandi hlekkja.


Sumir telja sig hafa til að bera gagnrýna hugsun, það hefur alla veganna kristallast vefspjalli síðastliðinna daga. En spilaborgir geta hrunið og hús byggð á sandi verða skökk eða sökkva en það sem á bjargi er byggt stendur. Hver er munurinn? Forsendurnar. Lykilatriði eru forsendurnar. Súrt fokk það ef fólk lifir á röngum forsendum.


Til að fræða ykkur aðeins um gagnrýna hugsun langar mig að segja ykkur frá breska stærðfræðingnum William Clifford. Í ritgerð sinni "Ethics of Belief" eða "Rétturinn til sannfæringar", færir Clifford rök fyrir því að lögmál gagnrýninnar hugsunnar hafi almennt gildi. Hann sagði að það væri rangt, alls staðar og fyrir hvern mann að trúa einhverju á ófullnægjandi forsendum.


Kenningar Clifford í fyrrnefndu riti eru þessar:


1. Það er óheimilt að telja mann sekan fyrr en sekt hans er sönnuð.
2. Sérhver eiginleg sannfæring hefur áhrif á athafnir þess sem hana hefur.
3. Engin sannfæring manns eða skoðun er einkamál sem varðar enga aðra.


Aðrir menn fylgdu í kjölfar Clifford og ýmist löstuðu hann eða mærðu eins og gengur og gerist. Sem amatör þá vil ég minna aðalfund Vélarinnar, Félags Véla- og iðnaðarverkfræðinema, föstudaginn 6. apríl einhversstaðar í sal út í bæ. Ef þú ætlar að mæta, mættu þá fyrir 20.00, því þá lokar húsi. Mættu með þitt eigið bús og samloku að heiman til vara. Styddu mig. Þökk sé.

|




Enn af gömlu efni

Ég skrifaði snemma árs 2001 pistil um tilganginn sem maður leitar í öllum sköpuðum hlutum. Oft er bara málið að hugsa ekki of mikið. Ekki kryfja hlutina í botn. Rögnvaldur Möller, garpur sem kenndi mér stærðfræðigreiningu 1 og 2 sagði að góðir stærðfræðingar færu bil beggja - skildu ekki allt og reyndu það ekki, sumt bara eru svona...

KONTRASTAR - LYKILLINN AÐ TILGANGI LÍFSINS?


Sumir eiga það til að pæla um of í því sem ekkert er. Með báðar hendur fullar þekkingar á hinum ýmsu stærðum umhverfisins. Ekki vitandi þess vits að sumt er ekki vert að velta sér upp úr. Það súrasta í þessum eltingaleik við skottið á sér er ef fólk vel af þekkingu búið er að eyða tíma sínum til einskis.


Það að afla sér þekkingar í skóla eða annarsstaðar, snýst meðal annars að útvíkka sjálfan sig og bæta. Gera sig stefnuvirkan og þjálfa upp gagnvirka og rökrétta hugsun. Vinsa kjarna frá hismi. Gera sjálfan að betri greinanda.


Þá er komið að því. Semi-mannvitsbrekkur lesa í eitthvað sem ekkert er. Brekkurnar telja sig vera beturvitandi, síhugsandi greinendur með lestrarvél hugans á eilífu flakki um tilveruna, leitandi af skilaboðum úr umhverfinu. En umhverfið er oft bara atómljóð sem þarfnast skynjunar frekar en skilnings. Umhverfið er ekki tilbúinn réttur á gnægtarborði þekkingarneytenda sem finnst þeir knúnir til að leyta sér tilgangs með tilveru sinni og annarra með sífelldri krufningu á því sem ekkert er.


Nota bene, ég tek vilja framar verki. Hvað geta brekkurnar fengið að launum fyrir misvel plægðan akur. Sá sívinnandi uppsker að lokum. Þótt afurðin gefi ekki vel af sér á heimsmarkaðnum þá skiptir það kannski minna máli, það er heimurinn heima, heimasveitin sem skorar betur. Hljóta brekkurnar kannski lífsskylning svo djúpan að hvarflar við hyldýpi sturlunarinnar. Engin fúnksjón en fullur skylningur. Kannski er þá hægt að breyta skylningi í fúnksjón upp frá því? Þetta hyldýpi sturlunarinnar felst í skylningi á tilgangi lífisins sem er öðrum sem þríhöfða þurs.


Ekki hef ég fundið tilgang lífsins. Það eru nokkrar leiðir að markinu.
Kannski er besta leiðin að því að finna sitt hyldýpi að vera uppfullur af kontröstum? Svart og hvítt, bleikt og blátt, gullt og grátt, líf og dauði, hamingja og hatur. Máske liggur hundurinn grafinn á hlaðinu heima, heimskur er heimaalinn. Til þess að skylja hvað hlutirnir ganga út á verður viðkomandi að hafa yfirsýn yfir leikvöllinn.


“Það sem drepur þig ekki styrkir þig” – var það Rambo eða hver var það sem baunaði þessu? Sálarkreppa, missir, sigrar………. öll lífsreynsla er góð í nesti á leiðinni að gerast tilli*.


Þetta er ekki gagnrýni heldur hjal á brúninni.


*tilli = maður sem hefur fundið tilgang lífsins

|




Af endurunnu efni

Í tilefni þess að ég ætla að taka gömlu síðuna mína útaf netinu þá ætla ég að birta hérna fjögurra ára pistil. Já, hef greinilega verið lengi að í blogginu. Hún fjallar um hversu hörð lífsbaráttan er og einstaklingurinn gefur engin grið ef því er að skipta

Hulk,Sebri og þurrkatíminn...

Hulk og sebrahesturinn gengu eftir sléttunni. Hulk sem forsvari efsta hlekks fæðukeðjunnar og sebrahesturinn farskjótur hans og einnig hlekkur, bara aðeins neðar því hann var grasbítur. Það var stutt í regntímabilið og þeir félagar höfðu náð að þrauka og stutt var í sælu og gott leðjubað. Tvíliti fótbrái treysti þeim einlita enda sagðist sá einliti vera verndari hans.

Þeir félagar höfðu gert með sér siðferðislegan samning. Hulk ætlaði ekki að brytja Sebra niður í gúllas og Sebri leyfði Hulk þess í stað að njóta hlýju sinnar að næturlagi. En Hulk var mannlegur og hafði smátt letur í sínum samningi sem Sebri sá ekki. Það var þess efnis að samningurinn héldi ef það hentaði Hulk. Hulk var mannlegur og gerði hvað sem er til að þrauka.

Siðferði, hver er næstur sjálfum sér, líka miskunnsami Samverjinn. Hver er sinnar eiginn gæfu smiður. Deyja í eyðimörk, ekki fórna minni hagsmunum fyrir meiri. Hvað var Sebri annað en KR-ingur. Hulk var bjargvættur stórborgarbúa gagnvart krimmum. Líf voru í húfi að Hulk kæmist af. Jafnvel þótt það þýddi að hann þyrfti að rýfa Sebra á hol og drekk blóð hans og borða vöðva, nýru og lifur og útbúa svo ábreiðu af skinni Sebra. Fórn á altari hvers. Örlög smápeða og undirsáta sem gleymast í sögunni.

Samviskan plagaði Hulk. Hann vissi að ef til þess kæmi að hann þyrfti að bjarga eiginn skinni þá myndi eitthvað annað tapast. Eitthvað í sálunni myndi deyja og glatast. Sjálfið yrði ekki samt. Hvernig ætti hann að geta tekist á við daglegt vandamál stórborgarbúa á ný, gidlismat hans yrði brenglað. Hulk vissi að fólk mótaðist af gjörðum sínum og ekkert áfallahjálparnámskeið myndi breyta orðnum hlut.

Hulk var í raun eins og stórfyrirtæki. Umhverfi hans var honum undirorpið að mestu og eins og staðan var þó þjónaði hún hagsmunum hlutafjáreigenda, þ.e. skv. skilgreiningunni “ég á mig sjálfur”. Engin yfirtaka í nánd, en ef milliuppgjör var í nánd og slæmar horfur framundan þá gæti ýmislegt eftir að breytast. Hulk var sinn aðaleigandi og var ábyrgð á sjálfum sér, hann hafði lausn á hungrinu.

|




20.2.04

Þróttur hugans

Það er margt sniðugt sem maður hefur ekki prófað. Hef samið nokkur lög einn og með félaga og félögum. Lagasmíðar eru hugaleikfimi þar sem rennt er blint í sjóinn og þrautseigja skiptir höfuðmáli þegar maður nennir ekki að garfast áfram eftir að mestur vindurinn er runninn úr manni. Allt er þetta geymt á diktafón spólum en diktafónninn gaf upp öndina fyrir nokkrum misserum svo ég þarf á nýjum að halda. Árna finnast melódíurnar vera höfuðmálið. Gott að ganga með diktafón á sér líkt og ganga með svarta minnisbók, því stundum koma hugmyndirnar og lagastúfarnir sem sigra heimin þegar síst er von á þeim. Þá er diktafónninn tæki sem gott er að treysta á svo lagastúfarnir verði ekki gleymskunni og bráð og enn eitt glatað tækifæri á að gleðja heiminn eða bara mig. Svo er það forritið GoldWave af neti og míkrafónn í tölvu, þá er komið eitt heimastúdíó.
Einn bróðir er sniðugur, Jói Ben., hann er mikill meistari og hefur sent mér þrjú lög sem hann setti saman ásamt DTU félaga sínum Bjarna Gísla, einnig er hann fullfær að skrifa góðan prósa í líki smásagna. Við verðum að passa okkur á imbanum því hann rænir okkur tíma, að er alltaf tími til að bæta sig á ýmsum sviðum. Ég dáist af þeim sem prjóna við sjónvarpið, þeir einstaklingar eru löglega afsakaðir.

N? er gle?i ? v?ndum ?v? mi?larnir fyllast br?tt af komandi forsetakostningum ? BNA. S? Kastlj?s ?ar sem ?lafur Sigur?sson tala?i af miklu inns?i me?an A?alhei?ur og Bj?rgvin G. S. l?ku minni sp?menn.

Ég er hrifinn af sjálfsþurftarbúskap. En hagfræðin kennir okkur að hann ekki sniðugur. Það eru aðrir sem búa til betri húsgögn en ég. Betra fyrir mig að vinna og fá laun og láta aðra um að hanna og smíða. En ég fæ lítil sem engin laun. Ég verð að gera eitthvað við frítímann. En ég er laus við frítíma, því miður. Að vera þverfaglegur er takmarkið. Smíða úr tré og járni, sauma og prjóna, semja tónlist til eigin nota, gera við bílinn sinn og raftækin og smíða tæki og tól er nokkurn veginn það sem mér finnst ég þurfa að gera til þess að teljast fullorðinn, vera orðinn stór. Vera eiginn bústólpi. Ég átti að verða bóndi, bóndi er bústólpi. En vandamálið er það að kúabændur fá sjaldan frí og ef þú ert að hugsa um frí horfðu þá á Dalalíf. Sauðfjárbændur hafa Það víst svo skítt sumir hverjir svo það er ekki efnilegt, vinna jafnvel í álveri og svona. Sá sem stundar sjálfsþurftarbúskap er e.t.v. með Bjartsheilkenni (Bjartur í Sumarhúsum), þ.e. er þvergirðingur. Ég er í þeim fasa nú um stundir að ég tel það óviðeigandi fyrir mig að slappa af, ég er alltaf að reyna að klára verkefni vikunnar/dagsins og hef vart tíma til fyrir önnur verkefni. En herðir það ekki? Verður maður ekki að herða sig, er ég Íslendingur ef ég legg ekki allt í sölurnar.

Svo er það Ruth Reginalds, hef misst af henni, bara lesið um hana í blöðum. Nú eru gleðigjafinn André Bachman og Ruth með sönggleði á Borginni þar sem höfðað er til hóps sem hættur er að skemmta sér. Markaðsfulltrúi staðarins hefur séð að ekki væri ráðlegt að höfða til þeirra sem fara út á lífið allajafnan, margir hverjir einhleypingar. Markaðsfulltrúinn hefur ályktað sem svo (æ, ekki markaðsfulltrúi - þetta er ekki stórt batterí - bara gaurinn sem er með staðinn, hann tilheyrir hópnum sem á að fá út á gólfið og hella í sig brennivíni) að fólk með börn og buru sem fór á staðinn vilji koma aftur og upplifa gömlu stemminguna, hann er sennilegast á sama gírnum. Þessi aðili hefur reynt að sækja fé til "áhættufjárfesta" en e.t.v. hefur fáum líkað viðskiptaáætlunin svo félagi hefur veðsett og tekið skammtímalán. Ég veit ekki, kannski bull í mér. En André Bachman er prýðissöngvari - í meira uppáhaldi en Ruth. Mér finnst Ruth og Anna Vilhjálms (fráskilin að vestan) vera svipaðar söngtýpur, svona reykingaraddir sem reykja kannski ekki. En gott kaffi að syngja á stað, ég hef líti? gert af því, bara sungið undir berum himni við skál hér og þar og innan dyra.

Eitt sinn óskaði ég þess að fá blóðnasir. Ég var töluvert yngri en ég er nú, töluvert. En aldrei fékk ég blóðnasir og bíð enn, en þrái þær ekki lengur.

Ég biðst velvirðingar á því að ég les sjaldan yfir það sem ég skrifa.

|




11.2.04

Kæru landar

Nú er komið að því að skrifa meira. Svefnóregla hefur valdið því að ég hef ekki skrifað, hef lítið frekara ómerkishjal sitja á hakanum. En nú verður ekki lengur við unað, hef verið þurr í svefnóreglu í 10 daga. Því fylgja morgunhlaup, ómæld gleði um tíu leitið yfir því að vera vaknaður og hádegið rann upp svo ég gat fengið mér hádegismat í hádeginu í stað þess að fá mér morgunmat í hádeginu.

|