29.11.06

Bíómynd

Líf mitt sem bíómynd. Hvað er raunveruleiki og hvað ekki. Er þetta ekki allt spurning um hugarástand og framsetningu. Við teljum okkur trú um eitthvað og spáum í spilin og umhverfið. Göngum með sjálf okkur og göngumst við sjálfum okkur í dagsins önn. Annað er ekki hægt, hugsanir þjóta í gegnum kollinn og sátt við sjálf okkur líður dagurinn eða ekki. Berum okkur saman við náungann og fáum útkomu sem er fyrir framan eða aftan núllið. Sjálfsmyndin sprottin úr umhverfinu og hafurtaski okkar í lifanda lífi. Hvað viljum við vera, hvað er eftirsóknarvert? Í leit okkar náum við ekki strikinu, förum yfir það, en að lokum finnum við það og höldum göngunni á því áfram eins og um línudans væri að ræða.

Hversdagslegar athafnir tekst okkur misvel að uppfylla. Einn daginn eru þær leikur einn, annan daginn virðast þær óyfirstíganlegur hjall. Markmið mitt að fara að sofa á kvöldin og vakna á morgnanna hefur gengið upp og ofan. Næ nú yfirleitt að halda mér á réttu róli en um daginn keyrði um þverbak og leiðréttingar var þörf. Nú svo til að viðhalda góðum árangri hét ég mér að fara framkvæma úrbótaferli á sjálfum mér. Orðtök, tæki og tól atvinnulífsins með öðrum nálgunum má nota á einstaklinginn.

Hver man ekki eftir Ground Hog day! Hef upplifað þetta, vera nánast í sömu sporunum í dag og í gær. En margar kvikmyndir hefjast á lagi og persónur og leikendur vakna og rísa úr rekkju við undirspil tóna. Hví ekki að prófa þetta sjálfur. Er vekjaraklukkan ekki bara þreytt fyrirbæri, hvað þá síminn sem tvöfalt öryggi.

Í gærkvöldi náði ég mér í vekjaraklukkur á netinu. Tölvan oft í gangi yfir blánóttina og hví ekki að slá tvær flugur í einu höggi. Ég get vaknað við háværa tónlist og þá er nokkuð öruggt að ég vakni og geri það í ákveðinni stemmingu. Ég prófaði þetta í morgun og vaknaði við Running with the devil með Van Halen. Spurði sjálfan mig þegar ég vaknaði hvað væri að gerast. Svo í gítarsólóinu stökk ég fram úr eins og ekkert væri sjálfsagðara. Ég byrjaði daginn vel og hann var eins og bíómynd.

Eins og margir aðrir viðburðir úr hversdagslífinu þá er raunveruleikinn oft ótrúlegri en skáldskapurinn, hvað þá það sem fest er á filmu. Gæti þulið upp eitt en ekki annað. Því rýmri mörk sem ramminn hefur því skringilegri verður einstaklingurinn. Á þetta ekki við mig? Vandræði bílsins, vegstikur, skemmtanahald á ættarmóti hjá ókunnugu fólki, Færeyingarnir, líf í skáp, bindi um háls í óþekktum bíl fyrir framan Náttúrulækningafélag Íslands, smíði gufubaðs upp á hálendinu, leðjurennsli, heimatilbúin útihátíð sem kemur í fréttum, sprell í kjörbúð úti á landi, Sahara, lestarstöð, gaul fyrir ég veit ekki hvern - Ísland sem útlönd, hrekkir sem aldrei komast upp, jólasveinn...

Þetta er allt spurning um matreiðslu. Á maður ekki að lifa því lífi sem vert er að festa á filmu - litríkur betra en litlaus! Takmark útaf fyrir sig. Það er víst svo að enginn hlutur er svo ómerkilegur að ekki er fjallað um hann og hann festur á filmu sem enn ein ræman.

|




Bækur

Einn hlutur í einu...
Ég garfast í bókum þessa daganna sem eru ekki gleðilestur. Er samt jákvæður. Mótvægis er oft þörf og þá er skáldskapurinn og góðar sögur og spjall tilvalið til að vega upp á móti þurrum staðreyndum og verkefnum sem þeim fylgja.

Hef undanfarið rennt nokkrum niður þegar erfitt hefur verið að festa svefn. Eimir enn eftir af rembingi að komast yfir stórvirki heimsbókmenntanna. Mis stór þó. Hér eru nokkrar sem liggja á náttborðinu. Búinn að lesa síðustu blaðsíðu víða en ekki allstaðar.

Höfundur Íslands – alveg frábær. Sprengingar í gangi í hverri setningu, Hallgrímur Helgason er minn maður. Nauðsynlegt að hafa lesið helstu Laxnessbækurnar áður en þessari er torgað
Manntafl Stefan Zweig í einni bunu. Doktor Fástus og Búddnbrooks Thomasar Mann eru stórvirki. Hamskipti Franz Kafka koma á óvart. Tómas Jónsson metsölubók eftir Guðberg Bergsson er krufning. Minnisblöð úr undirdjúpunum eftir Dostojevskí er torræð. Godfather of the Kremlin er mögnuð og skýrir um margt gang mála og eftirleik sem staðið hefur hátt síðustu daga með láti fv. rússneks njósnara, Don Kíkóti Cervantes segja sumir þá bestu og svo eru smásögur John Cheever ekki af verri endanum.

|




10.11.06

Smælki eða lágmenning!

Ég er oft bara svona í smælkinu. Greinilegt að það umlykur mig. En hef tekið eftir skoðanakönnum sem mæla hitt og þetta og mini-viðtölum við einstaklinga. Ungt fólk, þ.e. milli 18-32 er oft spurt hvað sé best í heimi, oft slæðast 33 ára einstaklingar, e.t.v. 36 og þeir reyna að fitta inn í flokkinn.

Jæja ég ætla að búa til hermilíkan af spurningalista og svörum:

Hvað er best í heimi:

1. Prada stígvélin mín
2. Gucci sólgleraugun mín
3. Tanið frá P&A
4. Bestustu dekurkvöld hjá Sissó
5. Bíbí þegar hún leikur fílinn
6. Knús frá Dídí


Mér finnst fólk stundum ekki vera nógu raunsætt og hugsa um hvað skiptir virkilega máli. Nú ætla ég að koma með minn eiginn

Hvað er best í heimi:

1. Rúmið mitt, ekki vildi ég sofa á gólfinu (eða láta aðra gera það sem vilja kynnast mér)
2. Föt, þau eru sum töff og við búum á Íslandi
3. Mamma, því hún eldar
4. Pabbi, því hann gerir við bílinn minn
5. Systir mín, því hún skutlar mér þegar það þarf til
6. Vinir mínir, því kaupa drykki handa mér
7. Tannþráður og tannbursti, annars skemmast tennurnar
8. Vatn og sápa, heimurinn væri óbærilegur án þess
9. Fólk, svo einhver hlusti á mig
10. Bækur, svo ég geti sagt fólki eitthvað

.........

Svo hægt að bæta við þáttum eins og

Matur
Bækur
Borgir svo við þurfum ekki að búa í sveit
Virkjanir, svo við mengum ekki með kolum
Lögreglan, svo hún passi að við gerum ekki öðrum mein og keyrum á 200
Slökkviliðið svo húsin brenni bara smá en ekki til kaldra kola...

Já, ég gæti haldið áfram, eftirlæt ykkur það svo ég tæmi ekki ímynduraaflið...

|




Svart og hvítt - starfsmannagleði

Veröldin er uppfull af einhverju, bara hinu og þessu og þetta er nokkuð almennt. Jamm og jæja gæti ég haldið áfram. Hjá ÍTR var alveg makalaus kúltúr og samkvæmi. Þess var krafist að starfsmenn mættu einir eða svona nánast, ekki nema makinn væri nokkuð ruglaður og passaði inn í hópinn. Það var þögult samkomulag að makar sem voru eins og mýs, bólur á rassi starfsmanns væru heldur heima heldur en að trufla sinn betri helming með kláða svo hann gæti ekki einbeitt sér að vitleysunni. Margir uppskáru eyru daufs skilnings og sumir sem sitja þurftu heima þegar havarí var í gangi voru undrandi, en það voru nú bara þeir sem áttu heima, heima. Hefðu ekki skilið þetta og svona. Við erum að tala um almennt og óalmennt sprell sem ég nefni ekki, en aldrei var nokkuð kynferðislegt eða svona í alvöru málsins eitthvað í gangi. Daður er leyfilegt enda hluti af leiknum og ekki neitt sem fylgdi alvara heldur bara eins og leikrit og spuni því gleðin var sönn og einlæg eins og gerist hjá góðum vinum.

Svo hefur maður heyrt í gegnum tíðina af makalausum skemmtunum í fjármálageiranum sem hafa verið svo makalausar að þær hafa riðið hjónaböndum að fullu. Svo makaleysi er víst ekki vinsælt þar ekki að ósekju. Siðferðisþrekið bara ekki jafn sterkt og í félagslega geiranum. Enda lögmál kannski önnur. Hjá uppeldisstofnunni var alltaf gullna reglan í starfinu að halda sig innan rammans og virða umhverfi sitt og fólkið í kringum sig. Frekar afslappað andrúmsloft enda haldin námskeið reglulega í peppi, umburðalyndi, jákvæðni og mannlegum samskiptum hvaða nöfnum sem tjáir að nefna þau. Það var nefnilega nauðsynlegt því oft á tíðum áttu kúnnarnir (unglingarnir) til með að fara í taugarnar á sumu starfsfólkinu sem er skiljanlegt því að ekki eru allir fæddir skemmtikraftar og þýðir þá lítið fyrir starfsmann að beita ungling andlegu ofbeldi þótt kunnáttan og getan sé fyrir hendi - þá kemur annað vandamál í staðinn sínu verra og starfið hefur snúist upp í andhverfu sína.

Í fjármálageiranum e.t.v. annað fólk, meira gredda í gangi, hærra, stærra, lengra, meira, víla, díla, keppni – bara svona alvöru líf þar sem veiðimenn og bráðir (vörur markaðarins) háðu baráttu, allir á tánum. Líka eitt sem er að innan ÍTR kom metnaðurinn fram á annan hátt. Metnaðurinn snérist um að vera öðrum góð eftirbreytni og ógleymanleg fyrirmynd. Ekki áttu öll börn föður og sums staðar pottur brotinn eða einhver brotinn auk meirihlutans sem sólin skein á. Metorðastiginn annar, ekki beint stöðubarátta hjá ÍTR – það kemur bara að þér. Enda víst reynsla það sem telur. Ég undi mér vel sem prins, draumaprins, nokkurs konar Pétur Pan hjá ÍTR. Það var allt bara frábært, frelsi til að gera hluti sem hugurinn stóð til og eilíft hugmyndarússíbani í gangi. En þroskinn felst í því að geta byrjað á nýju viðfangsefni, snúa pólum. Ef hangir of lengi í sömu sporunum verður maður bara áfram prins eins og Jacko, sem er ekki lengur draumaprins eins og Pétur Pan heldur meira núna svona “Prince of Darkness” – komi eitthvað sliðruorð – ekki alveg að beita réttum aðferðum á börnin.

Mæli með Jóa Ben. Fer vel með pennann ávalt og sér skarpa vinkla.

|




9.11.06

Undur veraldar

Háfleyg fyrirsögn. Síminn fundinn og bíllinn fékk skoðun. Þegar maður á bíl sem er varla sléttur flötur á og hreint áhættuatriði á stundum að aka um stræti borgarinnar, sætir tíðindum þegar svona jálkur/beygla/drusla kemst í gegnum nálarauga skoðunarmannsins. Bílarnir sleppa víst eitthvað betur þessa daganna en fyrir daga samkeppninnar. Svona stálfákar eru nefndir af eigendum sínum nöfnum á borð við þruman, eldingin eða það sem hugmyndaflugið leyfir til að persónugera bílinn, ljá honum sál, enda lúinn og hokinn (beyglaður) af reynslu eins og oft verður með mannfólk sem komið er langt eftir tímalínunni. Nefni minn þá bara Gullvagninn úr þessu.

Annars er undarleg lykt af orðum Magnúsar Þórs Hafsteinssonar og Jóns Magnússonar þessa daganna. Tala um stóreflismistök við flæði erlends verkafólks sem vann störfin sem enginn vildi vinna. Stutt í kosningar. Hlustaði á Sigður G.T. á Sögu rabba við gamla fauska berja í borðið hinu megin við línuna, segjandi mælinn fullann, útlendinga orsökina á hækkandi leiguverði og komandi skálmöld. Einstaklingar með "mér finnst - af því bara" skoðanir, peppandi hvorn annan upp í vitleysunni því það er svo gaman að vera í einhverju félagi, e.t.v. trúfélagi, unun að deila skoðunum með fólki og vera í jákór - vera hluti af heild. Finna til sín og tilheyra hóp.

Nú eru máske dagar þrýstihópa að koma. Náttúruverndin og "Ísland fyrir Íslendinga"-hópurinn dæmi um það, tveir hópar á sitthvorum ásnum reyndar. Oft ágætt að stíga á bremsurnar hvað sumt varðar en lítt tjóar að stífla straumharða á - þá flæðir hún yfir, frekar að stýra henni. Ómálaefnalegir þrýstihópar með illa undirbyggðar "mér finnst bara skoðanir" finna sér alltaf einhverjar átyllur. Fyrst mátti ekki gult og svart, svo mátti ekki ókristið þótt flestir séu það, svo mátti ekki hvítt að austan. En sumir eru naskir því þeir vita betur en aðrir að þeir fiska sem róa og sérvelja sér atkvæði. Er á því að þingmaður eigi að vinna að því að breyta og bæta heiminn eftir sannfæringu sinni. Svona einstaklingar sem þrýfast á óánægju og tala gegn betri vitund, því það gefur á bátinn, þurfa á naflaskoðun að halda. Ef þú ert ekki á þingi til að vinna Íslandi heilla, heldur til að fá hæ fæv frá stráum sem hríslast í vindinum, þá ertu betur settur liggjandi með þeim heldur en strjúkandi toppa þeirra.

Ég bíð spenntur eftir yfirborðsumræðu Frjálslyndra því meðal flokksmanna er fyrrverandi forstöðukona sáluga Fellahellis í Fellaskóla þar sem mörg prufuverkefni ÍTR er varða nýbúa og önnur skyld og óskyld málefni hafa verið keyrð.

Nauðsynlegt að stíga hægt til jarðar og viðhafa málefnalega umræðu. Í mörgum efnum oft ekki gott að rugga bátnum um. Ekki er bragðmunur á Litháa og Rúmena. Nýbúar ekki velkomnir ef þeir vilja ekki jafnrétti kynjanna og bann við hryðjuverkum. Nýbúar eiga að samþykkja almenn vestræn gildi. Stjórnvöld verða svo að hjálpa til svo aðlögun geti gengið snurðulaust fyrir sig. Ef svo gerist ekki enda nýbúar (brot af þeim) á jaðri samfélagsins og meiri tengsl eru þar við glæpi en nær miðjunni. Svoleiðis er það bara.

Annars álag sem stendur og framundan. Skóli, vinna og fleira. Reyni að hnoða kómík saman fyrir laugardaginn þegar ég er kynnir á Tvenndarleikum ÍTR.

Ekkert er nýtt undir sólinni, síst af öllu ofangreind orð. Bla, bla...

|




Tjón

GSM síminn minn er týndur - hefur líklegast poppað upp úr vasa þegar dansglaumur hefur verið sem mestur á laugardaginn. Komentið ef þið vitið um hann eða eruð með uppástungur hvar hann gæti verið. Þeir einstaklingar sem vilja ná í mig geta sent mér tölvupóst á arnigeorgs@gmail.com ...





Þarna eru tveir misgóðir. Pinochet og Helgi Hjörvar. Annar þreyir þorrann og vill gott sæti. Hásæti hins er fallið og elta margir ólar við hann enda stjórnaði hann með óstjórn og pyndingum. Ekki margt líkt með þeim en þegar ég sá auglýsinguna hans Helga Hjörvars þá poppaði Pinochet upp í huga mér. Annar til hægri í stjórnmálum (hreinn fasisti) og hinn skilgreinir sig eitthvað til vinstri frá miðju.

|