30.11.04

Er sígandi lukka ekki bara best!

Af Agli og raunum hans

Egill hafði gengið í gegnum lífið eins og bíll í hægagangi og vannýtt hæfileika sína. Hafði alltaf átt meira inni, rétt eins og íslenska handboltalandsliðið, hugur og hönd hafa bara ekki verið alveg samstillt. Tommi í rokkinu myndi orða það svo að hann hefði ekki sett öll eggin í sömu körfuna. En við hvern var að sakast, gengur lífið útá tóma vanmetakennd yfir öllum markmiðunum sem nást ekki og áramótaheitum sem hafa ekki gengið eftir, boginn strengdur fullhátt. Egill vissi það svo sem að hann var ekki nægilega raunsær í markmiðasetningunni, var ekki alveg að taka þetta skref fyrir skref, heldur miðaði í stökkum og stökkin höfðu stundum endað með magalendingu. Mottóin sem höfðu fylgt honum höfðu breyst. Mottó á borð við “ekki geyma það til morguns sem þú getur gert í dag” höfðu verið á vörum hans en nú var það bara að láta hvern dag nægja sína þjáningu. Hann ætlaði ekkert að verða beiskur en einhvern veginn fann hann fyrir beiskjunni.

Egill hafði ávalt haft ofurtrú á sér og stokkið í hvert verkefnið á fætur öðru sigurviss. Gosverksmiðja í Hafnarfirði, Spa-stöðin, forstöðumaður Framkvæmdasýslu Norðurlands og hvaðeina.

Það fylgdi honum ákveðið mynstur. Hann átti góða byrjunarleiki en fylgdi svo ekki startinu eftir. Hann var svona eins og fjöllistamaðurinn Sigurður Guðmundsson. Þroski fæst við að reyna nýja hluti, ekki festast, kannaðu nýjar slóðir. Já, hann hafði numið eftir þessu en ólíkt listinni sem byggir á fyrri verkum og þróun þá var ekki um neina þróun að ræða þegar svissað var milli greina, sammerkt var að yfirleitt var byrjað á núllpunkti en ekki byggt ofan á.

En í hverju lá hið hæggenga fall hins efnilega?

Hinn efnilegi heldur að lukkan sé sjálfgefin, það að takast í fyrsta skipti sé eðlilegt en ekki slembilukka. Það vantaði seigluna sem einkennir sigurvegarana.

Hundurinn lá grafinn á hlaðinu heima, hann hvarf frá fyrri gildum, sóttist ekki nógu hart eftir þeim, kunni ekki að velja og hafna og framtíðin varð afrakstur undangenginna daga sem voru of brotagengir til að mynda þá framtíðarmynd sem hann sjálfur hafði haft óljósa í huganum. Hann vissi það, gæfan er hliðholl þeim sem rækta garðinn sinn.

Hvað segir þetta okkur? Tja, spurning. Kannski að reyna halda okkur á sporinu og einblína ekki á of marga hluti – ekki gleypa heiminn í einum bita. Sá sem það gerir situr eftir með sárt ennið og poka minninga sem svíða.

|




29.11.04

Alveg heví

Fátt betra þegar maður heyrir eitthvað sem manni finnst alveg heví. Einhver meistaralög maður skemmir heyrnina enn meira með. Fólk alltaf að segja frá lögunum í lífinu. Ég ætla að segja ykkur frá nokkrum. Þarf ekki endilega að endurspegla það sem ég hlusta á í dag en gefur smá forsmekk. Maður er á lífi og síiðandi - opin fyrir nýjungum.

Das Model - Kraftwerk: Ég kolféll fyrir þessu lagi, ég átti það á kasettu og spilaði það út í gegn, var svo sjö eða átta ára.
Hocus, pocus - Focus: Þetta lag fannst mér æði og ég söng með þessu lagi, var nokkuð lunkinn í jelúlala kaflanum. Átta ára og vissi ekkert um Britney Spears.
In Name of Love - U2: Æ, er ekki klár hvort þetta sé rétti titillinn á laginu. Þetta hlustaði ég á og gaulaði og hoppaði í rúminu hjá mömmu og pabba.
Dark Site of The Moon - Pink Floyd: Ég nefni alla plötuna því enga plötu hef ég hlustað jafn oft á út í gegn. Það á ekki að setja fólk á prósak, heldur bara láta það hlusta á plötuna og finna fyrir þunglyndinu.
Elanor Rigby - Bítlarnir og fleiri: Hef hlustað ótal oft á lagið í útgáfu Shirley Bassey - hún er alveg heví.
A Day in Life - Bítlarnir: Ég er mikið fyrir kaflaskipt lög.

Diskó og Burt Bacharach: Æ, ég nenni ekki að nefna diskólögin og Burt. Diskóið á bara sterka taug í mér. Langar að læra diskódansa og breik.
Snoop Dogg: D-Style platan er heví.

Nenni ekki að skrifa meira. Það eru fleiri lög á listanum.

|




25.11.04

Samsettur raunveruleiki

Raunveruleikinn sem blasir við okkur samsettur úr ótal brotum sem mynda mósaíkmynd sem fyrir okkur er raunveruleiki. Við týnum þessi brot víða að. Flugferð, ganga, þreksalur, bíó, tölva, fólk, rými, stóll, bíll, hjarta og lifur, drykkir, skemmtanir o.s.frv. Við erum flókin fyrirbæri - nokkuð ljóst. Framtíðin er mótuð af núinu, við getum víst lítið gert við hana nema bíða eftir henni og vinna í núinu að henni. Það sem leiðir huga minn að þessu er skrafefni fólks. Um hvað skrafar fólk sín í millum! Ég hef tekið eftir því hvað miðlarnir í kringum okkur hafa afgerandi áhrif á daglegt líf okkar, er annað hægt. Fólk lifir fyrir hversdagslegar þarfir sem hafa plantað sér inn í líf okkar. Vikan hjá mér fyrir utan það nauðsynlegasta, sem er vinna, sofa, læra og fara frá A til B, samastóð af Amerca's Next Top Model, Gattaca, upplýsingalestri á vef og spjalli um allt þetta. Já, raunveruleiki minn þessa vikunna er hlaðinn tilbúnum heimi, sem er svo hlaðinn hugmyndum og tilbúningi einhvers annars. Hrein upplýsing eða hvað? Hversu stór hluti mósaíkmyndarinnar er samsettur úr hreinum tilbúningi? Er nokkuð við það að athuga, er tilbúningurinn betri en það sem er af "holdi og blóði"? Þurfum við ekki að fylla inn í eyðurnar, ekki leysum við krossgátur alla daga og förum í göngur eða réttir okkur til dægrastyttingar. Samsettur raunveruleiki getur verið auðveldur því það sem við fyllum upp í hann með getur verið af meiði auðveldrar mötunar - mötunin er ekki torveld. Hið auðvelda togar í okkur því við slökkvum á okkur og hlöðum inn einhverju sem við getum svo átt í skoðanaskiptum við aðra einstaklinga sem eru steyptir í sama mót, en flókindi eru þarna á ferðinni því við skoðanaskiptin vinnum við úr tilbúningnum sem við gripum af upplýsingahraðbrautinni. Hið torvelda er ekki svo auðvelt að deila með öðrum, því þeir sem það sækja eru ekki á hverju strái.

Hvað er þá málið, hvað er ég að fara? Þetta er ör-naflaskoðun; á sér stað vikulega. Naflaskoðun er eins og milliuppgjör fyrirtækja, svona til að líta yfir farinn veg, sjá hvert við stefnum, hvaða slóð við gengum, erum við nokkuð á einhverri rangalabraut án samferðamanna. Förum af og til í naflaskoðun, pössum okkur á mötuninni og höldum góða siði. En mötunin getur hjálpað okkur við að halda góða siði. Sumt sem við erum mötuð á hefur farið í gegnum nálarauga siðferðispostula. Líklegast er að við fáum réttan dagskamt, sitt lítið af hverju - spennu, rómantík, fjöri og sorg. Eitthvað sem örvar okkur og fæst jafnvel ekki í umhverfinu. Greinilegt að mötunin er ekki öll sem hún er séð.

|




17.11.04

Gildi hreyfingar

Gildi hreyfingar verður seint fullmetið. Í nútímasamfélagi þar sem stór hluti fólks hvílir með botninn á setu er dagleg hreyfing búksins af einhverju tagi nauðsynleg, hvort sem er fyrir skólafólk eða það vinnandi. Heilsumál eru nokkuð í deiglunni þessa dagana, enda fitan að verða heilbrigðismál nr. 1 í hinum vestræna heimi. Fitan sem er þá afleiðing slæmra matarvenja og hreyfingarleysis er svo orsakavaldur líkamlegrar og jafnvel andlegra kvilla síðar á lífsleiðinni. En hreyfing og hreyfing er ekki það sama. Fólk strengir heit við hver áramót þegar naflaskoðun á sér stað og heitir því að ná af sér mörinni en springur svo á limminu stuttu seinna. Hundurinn liggur grafinn á hlaðinu heima oft á tíðum. Fólk gleypir við gylliboðum líkamsræktarstöðvanna sem eru svo sem góð og gild en mest um vert er að hreyfingin sé fólkinu áhugaverð og veiti því andlega jafnt sem líkamlega gleði. Það er síður til heilla að púla í líkamsræktarstöð ef það er fólki kvöl og pína, þá er heldur betra að fólk velji sér eitthvað sem það geti hugsað sér að stunda til langframa. En þó ber að geta þess að fyrstu skrefin eru yfirleitt þau erfiðustu og ekki lokum fyrir skotið að þau séu flestum kvöld og pína ef fólk hefur ekki hreyft rass frá spönn í þó nokkurn tíma, hvort sem um tækjasal, kappróður eða hjólreiðar um ræðir.


Of mikið af því góða, tólg, tólg, tólg...


Matarvenjurnar skipta nokkru máli. Grannur einstaklingur sem treður í grímuna á sér hamsatólg og harði fitu, sísporðrennandi kexi í tíma og ótíma og kjammsandi á skyndibitum í öll mál er í áhættuhópi. Kransæðakíttið gerir ekki mannamun.

Vakning á sér stað í kjölfar umræðu og nú eru að spretta upp íþróttaskólar, samstarf ÍBR og íþróttafélaga, víðsvegar um borgina. Íþróttaskólar þessir eru ætlaðir yngstu skólabörnunum og gott er að koma ungviði snemma á agnið. En ekki er seinna vænna því við Íslendingar gerum óspart grín af spikuðum Kananum þess óafvitandi að sjálf erum við feitastir Norðurlandaþjóða. Skv. könnun á BMI tölum þjóða (BMI er þyngd í kg deilt með hæð í metrum í öðru veldi) þá þjást 19-20% Íslendinga af offitu á móti 6% Norðmanna. Betur má ef duga skal.

|




10.11.04

24

Nú veit ég hvað er málið með þessa 24 þætti. Þessir þættir eru svarthol á tíma, maður ræður hreint ekki við sig og horfir á hvern þáttinn á eftir öðrum. Nú er ég búinn með aðra þáttaröðina og ætla að fara mér hægt í þeirri þriðju. Njósnir, samsæriskenningar, svik á svik ofan - það er ekki hægt að hafa þetta betra.

|