31.1.06

Útréttingar

Ég er farinn að tala of ört um ekki neitt. Hef ekki viljað hafa þetta þannig. Nú eru endalausar útréttingar að hefjast fyrir MÍ 15-22 ára innanhúss sem félagið heldur. Búinn að vera við símtólið nokkur kvöld - hringt frá 20:30-23:00. Gamlir iðkendur og foreldrar fengnir til að vinna.

Æfing:

- 30 mín hlaup, ca. 5,5 km
- Vaxandi 4*60 m

- 8*200 m með 1 mín hvíld milli spretta
Hlaupa á 800 m tempói (30 sek)
Tímar - 28, 28, 28, 29, 30, 28, 28, 30 sek

- Hvíld 15 mín

- 600-400-200 m á 800 m tempói, hvíld 3 mín milli spretta
(30 sek á hverja 200 m)
Jæja, hljóp fyrsta á 96 sek, næsti sprettur var bara
300 því ég hljóp fyrri 200 á 28 sek, síðasti sprettur á 28 sek.

Heildarmagn: 8,54 km

Blabla

|




Dr. og þvottur

Já, ég er hvergi hættur að þvo. Eins og að vera nýkominn með bílpróf á þvottavélina keyri ég henni út. Amerísk heimili urðu þvottavélavædd á undan evrópskum. Velmegunargleði breiddist út í Ameríku meðan Íslendingar upplifðu höft og sumir eymd, en þvottavélin kom hingað, það kom að því.

Hef gert nokkuð að því að horfa á Celeb-stöðina E! með systur. Ég á næðisstund með systur þegar við horfum á E! Nú er hún horfin af klaka um nokkra hríð svo ég verð að horfa einn sem ég hef nú ekki gert. Vappaði yfir á E! í gær. Það var hinn magnaði þáttur Dr. 90210. Þrjú meginviðfangsefni voru í gangi. Kinnbeinaplast var fjarlægt og nýtt sett í staðinn, sjúklingurinn var kona á óræðum aldri en leit nokkuð vel út, hefur atvinnu af að hengja króka í bakið á sér og e-u öðru sem ekki var sýnt. Svo voru tvær vinkonur teknar fyrir. Önnur var þvengmjó lagleg ljóska en vinkona hennar var viðamikið hnakkastykki sem þurfti að sníða til. Ég fylltist ekki viðbjóði vegna svínkunar. Mör og skinn var fjarlægt um miðhlutann og pokar sem hengu leiðréttir. Ég fylltist viðbjóði vegna þeirrar þvengmjóu. Hún var einkar fallega frambyggð af náttúrunnar hendi en vildi meira. Vildi meira því hæskúl-útskriftin nálgaðist. Sautján ára grislingi langaði í nýtt leikfang og móðirin kóaði með. Svo eftir aðgerð leit þetta asnalega út - úr B eins og Dr. Allimao sagði í full C. Þetta var lélegur brandari og allir sögðu amen.

Svo er það Hr. Ísland sem er orðinn Hr. Pappakassi. Jæja, held hulstrið sé nú að reyna kreista allan safann úr þessu máli með hámarksathygli fyrir hæfileikalausa þáttinn sinn. Jafnvel hægt að spá hvort dreng hafi þótt karlmennska sín gengisfelld með þátttöku í keppni af þessu tagi og nú sé hluti hennar endurheimt. Of erfitt að ganga gegn ríkjandi gildum. En heimabærinn Kef. hefur löngum verið þekktur fyrir mikinn fjölda af allskyns fegurðar- og módelkeppnum þrátt fyrir að þar búi hvorki ljótari né fallegri stúlkur m.v. landsmeðaltal. Það er þessi nálægð við Völlinn sem gerir þetta að verkum. Manneskjan sem markaðsvara, manneskjan sem postulínsdúkka.
Hef reyndar reynt að setja upp í huga mér hvort ég hefði aðrar hugmyndir um svona fyrirbæri ef stúlkur kæmu fram á ballett-táskóm að undangenginni 4 ára þjálfun og .... æ, veit ekki, sama pælinginn enn í gangi.
Bíð spenntur eftir því að sjá Ms. Little Sunshine sem sýnd nú á Sundance hátíðinni. Þar er fjallað um fegurðarsamkeppnir barna.

Æfing gærdagsins:

- 30 mín hlaup, ca. 5,5 km
- 25 mín þrekhringur
- Teygjur

|




30.1.06

Helgi

Nú er ég byrjaður að þvo. Búinn að klæðast enn ljótari íþróttafötum en ég geri venjulega vegna ólyktar á þeim sem eru aðeins skárri. Tók mig til og skellti í vélar. Það verður ekki aftur snúið, held ég sé orðinn fullorðinn.
Sjónvarpsmót heppnaðist vel í Laugardalshöll og Árshátíð FRÍ um kvöldið. Úrvalsréttir og hvert og eitt félag með skemmtiatriði. Frétti af því þegar ég mætti á staðinn. Ég var settur í hlutverkið fyrir hönd Ármanns og gaulaði eitthvað og fór með létt sprell. Heyrði víst að ég hefði sungið annað lagið þrisvar við svipuð tilefni – æ!!! Hef mjög gaman af þessum FRÍ hátíðum sem ég hef farið á. Þær eru örlítið eins og langt atriði úr Líf myndum Þráins B. Ekki sást áfengi á nokkrum manni, nema e.t.v. aðila frjálsíþróttadeildar KR.

Ættarmót eru kapítuli útaf fyrir sig. Leggurinn sem blátt blóð rennur um æðar hélt mót á laugardaginn. Skondið, hitti fólk sem ég er búinn að þekkja lengi m.a. Hemma ÍTR jaxl. Við erum þremenningar, svo var þarna sæt stelpa sem ég hef séð ótal sinnum, erum víst þremenningar. Systir hitti fyrir þrjá vinnufélaga til lengri tíma, allt þremenningar. Mismunandi yfirbragð yfir leggjum. Því miður þurfti ég að fara á brott snemma vegna mótahalds og ekkert varð af spjalli.

Æfing:

- 50 mín hlaup, ca. 10 km.

|




28.1.06

Tilkynning

Ég þvoði hvíta skyrtu áðan. Vissi ekki hvaða prógram átti að velja, rúllaði á 30 hnappinn og þvoði hana í 2 tíma og 40 mín. Einu sinni er allt fyrst.

Æfing:

- 30 mín hlaup
- Þrekhringur í Íþróttahúsi HÍ

Magn: 6 km

|




27.1.06

Æska og æfing

Ekki merkilegir hlutir sem gerður í dag nema þá helst að ég ætla að taka að mér strákaklúbb í Tónabæ, 12 ára pjakkar. Hvað gera strákar á þessum aldri! Hitt og þetta, segi ég.

Annars lítur heimurinn öðruvísi út í hugum þeirra yngri. Þegar ég var pjakkur þá safnaði ég smábílum og suðaði oft í mömmu og átti heila 105 bíla þegar best lét. Ég naut góðs af því að eiga frænku sem átti dótabúð. Maður gekk í gegnum skeið, Legó, Playmó, He-Man kallar (átti 35 og á þá enn, nokkur farartæki, dýr og kastala - Baldur átti svipað magn), byssur, byssur með gulum skotum og tæknilegó. Byssurnar með gulu skotunum voru frábærar, maður veiddi flugur með þeim. Svo bjó ég mér til vopn á tímabili. Við átum forlátt Saba vídeótæki og horfði ég á margar Kung-Fu myndir, Chuck Norris og Neggerinn. Ég útskrifaðist í B-myndum 11 ára. Í skúrnum heima voru heimasmíðaðar karate-kylfur, bogar, prik, tálgaðar kylfur, túttubyssur, teygjubyssur, ninja-stjörnur og einnig prófaði ég framleiðslu Molotov-kokkteila ásamt Erni Ellingsen nágranna mínum. Við sugum bensín úr bíltanki föður hans og fórum með fylltar bjórflöskur (smygl) föður hans niður í móa þar sem við köstuðum þeim logandi á steina. Ég reykti aldrei njóla, púaði einu sinni, hef alltaf verið andstæðingur reykinga. Neitaði afa um að skjótast eftir vindlum. Ég var greinilega heltekinn af ofbeldi þótt ég beitti vopnum mínum ekki á lifandi verur. Ég sullaði efnum úr skúrnum heima ásamt Ödda og helltum við því á lirfur og egg. Mikið eiturbras það.

Í níu ára bekk stofnuðum við Davíð Örn Halldórsson (Hamar) Hryllingsklúbbinn. Við teiknuðum einhverja Frankensteina og söfnuðum glerjum í FB og fórum með þau í Hraunbergsjoppuna og fengum aur sem við notuðum til að gúffa hamborgurum og frönskum í okkur á þeim mæta stað Berggrilli. Svo kom að því að klúbburinn varð vinsæll og fjölguðum við í honum og héldum inntökupróf. Farið var í leiðangur og umsækjendur þurftu að kollvarpa skúringafötum ræstitækna í Hólabrekkuskóla, gera dyrabjölluat og safna glerjum í FB. Af inntökuprófi loknu kveiktum við í ruslatunnum fyrir utan Gerðuberg fyrir slysni. Þetta fór úr böndunum og þær skíðloguðu, við forðuðum okkur og sáum stuttu síðar slökkvibíla fyrir utan pleisið. Hákon stóð sig einna best, var djöfull þorinn. Hann var ekki mikill skólamaður og varð svo ólánssamur mörgum árum síðar að ræna Hraunbergssjoppuna með hamri. Vildi þá svo illa til fyrir Hákon að Bjöggi dökkhærði sér hamarhafann af nokkru færi hlaupa með góssið fyrir sjoppuhornið, Bjöggi bregður sér í hetjulíki og fer í hummátina á harðahlaupum eftir ógæfumanninum, braut næstum uppi heimilishurð foreldra hans. Í dag er Hákon öryrki.
Hryllingsklúbburinn hélt reglulega fundi heima hjá mér og bökuðum við pítsur og horfðum á B-myndir. Verð að minnast á Goonies - eftirminnileg ræma. Það er synd að efnilegasti kandídatinn skyldi meiða sig og fara heim í miðju prófi. Við vorum harðir við Vigni og það þýddi ekki að gefa afslátt á inngönguprófinu.

Mikið æði greip um sig þegar eldspýtur sem hægt var að kveikja á þeim með því að strjúka við hart yfirborð komu á markaðinn. Gömul uppfinning en ný fyrir æsku landans. Eitt sinn var Hryllingsklúbburinn að störfum við glerjasöfnun í FB. Við vorum með þessar spánýju eldspýtur og vorum í skoti fyrir ofan efstu hæðina í FB. Kveiktum við á hverri eldspýtunni á fætur annarri og steiktum plastdáta og pappír. Vill þá svo illa til að ræstitæknir (segjum kona á fimmtugsaldri) þefar okkur uppi, það kom einhver lykt af þessu. Í slagtogi við nema fær hún svælir hún okkur úr greninu með skömmum og segist ætla fara með okkur til skólameistarans. Hjartað sló eins og í æstum kjúklingi og íhugaði ég að flýja með því að hoppa úr stigunum af þriðju hæð niður á aðra - 3 metra fall. Af því varð ekki og þegar ræstitæknirinn leit undan neyttum við færis og skutumst fram hjá henni á harðahlaupum og tókum stigana í 3 stökkum með hana hrópandi á eftir okkur. Sílið ég var hræddur.
Davíð vinur minn átti foreldra sem voru 10 árum yngri en mínir. Ég man eftir mynd sem hékk á veggnum heima hjá honum, Dóri pabbi hans með vinum úti á Spáni í þrítugsafmæli hans, mér fannst hann fullorðinn kall. Mikið klúbbæði greip um sig nokkru eftir stofnun hryllingsklúbbsins og stofnaðir voru ýmsir klúbbar og jafnvel ljóðafélög. Halli reyndi að nappa athygli Davíðs með því að fá hann í Hundavinafélagið sem samdi ljóð. Ég varð eitthvað afbrýðissamur og fór af veikum mætti að semja smásögur, nefndi þær Siggasögur. Tómt rusl um Sigga sem lenti í ævintýrum sem ég þráði að eiga, eitthvað blindaður af Ævintýra- og Fimm bókum Enid Blyton. Var ekki með á hreinu hvernig ætti að byggja upp sögur.
Leiðangrar voru farnir með krökkunum úr botlanganum niður í Indíánagil, vaðið og sullað. Öll sumarkvöld var skólavöllurinn troðfullur af krökkum í fótbolta. Allan ársins kring var spilaður fótbolti, smalað var í lið með hringingum, bekkjarmót voru haldin á malarvellinum rétt við Hólaborg. Maður átti spaða, tennisspaða og einhverjar útgáfur af honum. Það greip mig æði allir spiluðu einhverja útgáfu af veggtennis við 15 m háan og 30 m breiðan vegg út í FB, það var myndin Pelotas sem gerði útslagið, enn ein mögnuð B-ræman. Skil ekkert í að ég skuli ekki hafa spilað með landsliðum. Fyrst núna sem ég eygi tæknilega möguleika á því sem boðhlaupsmaður.

Þegar fótboltaiðkun mín stóð í blóma í 5. eða 6. flokki þótti mér merkilegt að heyra að kvenforeldri eitt sagði kvöldsnarl vera uppáhalds máltíð sína. Hún og maðurinn hennar sem ók út Moggann fengu sér oftar en ekki Borgarnes pítsu sem var agalega góð

Tók æfingu áðan, vissi ekki af því en það var Rabbkvöld hjá ÍTR. Svona 100 manns í húsinu, tók eftir því þegar hluti af því horfði á mig á æfingu. Eftir hana afhenti ég bæklinga deildarinnar svo allir gætu ræktað líkama rétt eins og sálina sem allir eru svo uppteknir af þar.

Hvers vegna að birta þessar æfingar á vef! Þetta er aðhald, aðhald, geysilegt aðhald. Að birta þetta þýðir að ég get ekki misst úr nema þegar hvílt er. Svo er yngri systir í Lundi og vill hafa sama prógram og ég. Yfirleitt erum við á svipuðu prógrammi þar sem við hentum best í 400 m hlaup og 800 m, hef þó meiri trú á 800 m til lengri tíma, ef ég miða við getu mína til að hlaupa undir heimsmeti kvenna í greinunum. Get það í 800 m. Svo má ekki gleyma 400 m grindahlaupi, Stefán Hallgrímsson telur mig efnilega hæfileikamann á því sviði því ég tek sterkleg og stór skref, við sjáum hvað setur. Mæli samt með heimasíðu æfingastöðvar hans, Steve Gym. Hann var besti tugþrautarmaður Íslands á 8. áratug síðustu aldar og enginn hvetur betur en hann. Helst vill hann að fólk æfi það hart að það taki bólgueyðandi eftir æfingar.

Fólk spáir í spegli, það skoðar sig hátt og lágt og hann er í raun mælikvarði. Kjörþyngdarmælingar segja oft ekki mikið því beinabygging er misjöfn - spegillinn lýgur ekki. Virkni vöðva skiptir mestu að mínu áliti, þeir einstaklingar sem æfa í líkamsræktarstöðvum verða að passa sig að þeir geti notað kjötið, það sé ekki bara til sýnis því það er tómt húmbúkk. Þess vegna mæli ég frekar með lausum lóðum til líkamsstyrkingar en vélum. Fólk á að ganga á fjöll, stunda sjósund, standa og ganga á höndum og break-dans er góð æfing. Inni í stöðvum metast einstaklingar sín á milli með tölur í bekkpressu. Í frjálsum er frekar talað um klín og snörun. Ég á 105 í klíni og pumpa með 60-85 kg en veit ekki hvað ég tek max í snörun, pumpa með 50-65 kg. Ég á 115 kg í bekk frá 2001.

Morgunæfing:

- 30 mín morgunskokk ca. 5,5 km
-------------------

Kvöldæfing

- 33 mín skokk ca. 6 km
-------------------
- Drillur: Háar hnélyftur, spark í rass og valhopp - ca. 400 m
- Vaxandi sprettir: 5*80 m
-------------------
- Sprettir: 200-400-600-400-200 m, síðustu 200 m af krafti.
Hvíld - 200 m skokk á milli spretta
25,5 s - 62 s (28 s) - 1:46 (29 s) - 64 s (28 s) - 28 s

- Niðurskokk 7 mín, ca. 1 km

- Teygjur

- Magn: 15,9 km

Jæja, systir nú er að spretta úr spori.

Bla, bla...

|




25.1.06

Skipulag

Óreiðan er ólag á sál, hún veldur angist. Næstu helgar eru lagðar undir mótahald frjálsíþróttamóta eins og var með þar síðustu helgi. Þetta er tómt vesen, það þarf að útvega starfsfólk, 15 manns næstu helgi og 40 helgina þar á eftir. Herjað verður á foreldra yngri flokka og gamla iðkendur. Svo er allt umstangið og smáatriðin sem fylgja - veitingasala, verðlaunapeningar, keppnisnúmer, tímaseðill, gistipláss fyrir keppendur og sitthvað fleira.
Er að nálgast yfirsýn svo ólgan verður minni. En hvað tekur við, mót í maí og aðalhluti meistaramótsins í sumar auk götuhlaups sem félagið heldur. Tómt vesen.

Hjartað tekur öran kipp þegar rætt er um nagladekk. Fór inn á Deigluvefinn fyrir nokkrum dögum og krossaði já við því að taka ætti gjald af nagladekkjanotkun. Vinur minn hefur aldrei ekið um á nöglum en ég hef gert það á veturna. Öran kipp sagði ég, já vann nefnilega skýrslu í sumar sem var stuðst við af nefnd sem kom með tillögur fyrir nokkrum dögum þess efnis að gjaldtaka af nagladekkjum væri hið besta mál. Nú þegar ég sæki um vinnu á næstu dögum ætla ég að setja yfirmann naglamála sem meðmælanda á skjalið mitt. Fór í vinnuferð sl. helgi upp í (M)unaðarnes. Þetta var meiri ferðin.
Á erfitt með að halda í mér meðan útsölur ganga um garð, ástæðan er væntanlega Svíþjóðarferð þar sem systir verður sótt heim, það úir allt og grúir af HM búðum þar og “second-hand-stores”. Veit bara ekki hvenær ég á að fara...

Set hérna æfingu dagsins fyrir systur því við tökum sama prógram:

- 30 mínútna hlaup
---------------------------
- 2*50 m ganga með háum hnjályftum
- 2 mín sipp
- 2*50 m háar hnjályftur
- 2*80 m vaxandi
- 2*60 m löng valhopp
- 2*60 m há valhopp
- 2*100 m vaxandi
- 2*100 m spark í rass út í hlaup
- 2 mín sipp
- Endurtaka
----------------------------
- 5*600 m (ég hleyp undir 1.50 mín, systir prófaðu 2.20 mín). Hvíld 2 mín milli spretta
- Hvíld 10 mín
- 5*150 m á 100% hraða, hvíld 3 mín milli spretta
- Niðurskokk í 10 mín
- Teygja, muna að teygja

- Heildarmagn: 9,85 km

Systir það þýðir ekkert annað en að vera hörð, notaðu æfingadagbók, þú verður að kaupa þér gaddaskó ef þú ætlar að hlaupa á klakalagðri tartanbrautinni sem er fyrir utan húsið þitt. Spáið í að það er 400 m tartanbraut fyrir utan húsið hennar.

|




24.1.06

Sófaspjallið ögrar ekki

Það er illt að vakna upp um miðja nótt. Gerði það áðan og brá mér þá á fætur og fékk mér hálfan kexpakka og mjólk. Æ... Mig dreymdi áðan að ég væri inni í stórverslun og fengi vopn til að bjarga mér á svæði sem var sambland af frumskógi og steppu. Ég gerði ekki annað en að hlaupa og spennan lá í loftinu, náði að bjarga mér undan ljóni með því að hlaupa í skjól. Það virðist allt svo eðlilegt í draumum, svo vaknaði ég í kófi.

Ef ég væri spurður hvort ég ætti mér uppáhalds greinarhöfunda í blaðasnápunum myndi ég svara sem svo að ég læsi alltaf greinar Jónasar Bjarnasonar efnaverkfræðings, heimasíðu Jónasar Kristjánssonar fv. ritstjóra og greinar verkfræðings sem ég man ekki alveg hvað heitir en er með gleraugu og nokkuð þéttur að sjá á myndinni sem fylgir greinum hans og er í kringum sjötugt. Jón Ormur Halldórsson, Egill Helgason og Þorvaldur Gylfason eru einnig góðir. Þessir pennar eiga það sameiginlegt að mér finnst þeir hitta naglann á höfuðið eða þá ekki, skrif þeirra ögra og hreyfa lítið eitt við mér. Hvað útvarpsmenn áhrærir hef ég einkar gaman af því að hlusta á Ingva Hrafn. Hann skýtur og hæfir eða missir marks – það sem Ingvi Hrafn gerir svo vel er að sparka í mann þegar hann talar, hann rasar og masar og ögrar sellunum, því oftar en ekki tekur maður afstöðu með eða á móti – hann er umdeildur. Það er þetta sem ég fer fram á ef ég gef miðlum brot af mínum tíma. Þetta er það sem mér finnst vera hlutverk miðlana, annars nenni ég þeim ekki.
Svo eru einnig þættir / greinar sem líta dagsins ljós þar sem samhljómur á sér stað, rétt eins og að horfa á ræmu eftir Bergman og maður líður með. Þótt myndskeiðið eigi að heita langdregið að sumra mati þá er það fallegt og maður hefur enga skoðun á því hvort það sé of langt eða of stutt, það bara er og á að vera og er ekki betra á einn né annan veg.
Þættir sem ögra ekki huganum, þ.e. koma mér ekki til að hugsa almennilega en koma mér samt til að undrast og spyrja mig spurninga eru t.d. Ísland í bítið og Ísland í dag (það sem ég sá af því fyrir 3 mánuðum þegar ég horfði síðast), svo ekki sé minnst á dægurmálaútvarp Bylgjunnar. Ísland í bítið er fyrir mér sem algert dægurrusl. Hann er dægur og það á hann víst að vera, veit ekki hver skilgreiningin er, hvort annar þáttastjórnandinn haldi að það sé verið að stinga á kýlum, það eru frekar sápukúlur. Þessi þáttur er verri en ekkert, hann er einskis verður og hefur enga vigt – á hann að hafa hana? Þátturinn er svo slakur að hann á ekki að vera til. Ef ég kveiki á imba og horfi á þáttinn þá er það bara til að fóðra ergelsi mitt. Er það kannski kollurinn á mér sem er í ólagi? Það sem ég vil segja um þessa þætti tvo er að þá skortir allan metnað og alla fagmennsku. Þeir sem vinna við þá geta eflaust betur, held það allaveganna.

Það er "allt" sett í sjónvarpið undir því yfirskyni að verið sé að sinna jaðarhópum, jaðarefnum. Er þá ekki hægt að gera kröfu til þáttastjórnenda að þeir tali með munninum en ekki rassgatinu, spyrji spurninga sem hæfi einstaklingum eldri en 12 ára og viðmælendur séu ekki tímabundin stofustáss á skjánum. Allt er þetta of þægilegt fyrir minn smekk. Það er til nóg af hæfileikafólki þarna úti sem myndi sóma sér betur en sumt sem fyrir er, hvernig er þetta annars, fær fólk svona vinnu sem greiða fyrir vel unnin störf á öðrum vettvangi, viðkomandi búinn að vera húsgagn lengi og þekkir til og fær að spreyta sig á nýju sviði. Reynsla og menntun hlýtur að skipta máli en í raun gerir hún það ekki, svona svart á hvítu – en gæðin spegla hvort hún er fyrir hendi eða ekki. Ég þarf náttúrulega ekki að horfa. Þetta er eins og með vinnuna, ef hún ögrar ekki og heldur manni á tánum og launin halda ekki í mann, þá er best að snúa sér að öðru.

Hef ekki enn séð NFS nema þá fréttatímann sem sýndur er á Stöð 2. Hef hlustað á NFS á Talstöðinni (NFS yfirtók Talstöðina). Það sem ég finn þessari stöð til foráttu í útvarpinu er í fyrsta lagi þessi bassa-fílter sem settur er yfir masið. Þetta er eitthvað útvarpsdæmi, það virka allir með þykkar raddir og s-in eru skrýtin áheyrnar, ég bara nenni þessari amerísku aðlögun ekki. Svo hef ég verið að hlusta og lendi á einhverju spjalli sem er ekki að fara neitt, skoðanir á engu í gangi. Æsingur yfir engu, spjallstjórnandi með púls 160 slög og verið að tala um hundarækt – hefði kannski ekki tekið eftir neinu ef hann hefði verið í 80 slögum, þetta sló mig bara. Svo eru það sumir fréttamennirnir á Stöð 2. Ég spyr, er ekki hægt að borga undir framsagnarnámskeið fyrir þá – er ekki að tala um gömlu hundana þarna. Ég hristi hausinn þegar ég heyri í þessu fólki og missi af því sem það segir fyrir vikið.
Það er þetta með frítímann, maður má ekki eyða honum í vitleysu, frekar að eyða honum í ekkert og vera með sjálfum sér í þögninni og hugsa. Kastljósið er breytt, en er það bætt. Ég kunni betur við það eins og það var, það var afmarkaðra, Mósaík er farið og nú kemur umfjöllun um menningu líðandi stundar fyrir í Kastljósinu, en ég veit ekki hvenær hún kemur og nenni ekki að leita að henni í vefsjónvarpinu. Oft eru breytingar ekki til batnaðar, þá er bara að hafa manndóm í sér að notast við bestu lausnina þótt það sé sú gamla og snúa til hennar jafnvel þótt það kosti að sumir éti hattinn sinn. Ég verð bara að una við Víðsjá og Hlaupanótuna.

Þunnir dægurþættir eru fyrir mér sem suð og ískur í eyrum. Suðið hjálpar fólki að komast í gegnum daginn með sem minnstri hugsun. Suðið fyllir upp í tóm sem annars færi í sjálfstæða hugsun. Suðþeginn flýtur með straumnum og ánetjast léttmetinu, suðið ristir aldrei djúpt, heldur skautar á yfirborðinu. Heimspeki leiðindana segir okkur að þau séu nauðsynleg upp að vissu marki, svona til að meta gott og vont, þekkja báðar hliðar, auka dýpt. Dægursuðið sér til þess að dagurinn líður eins og bein lína, engin ris né botn, bara bein tilbreytingarlaus lína sem er í rauninni rauði þráðurinn í tilverunni.

Fyrir mann sem veit lítið um mikið er fengur í því að fá að fræðast mikið um lítið í afmarkaðan vel skilgreindan tíma í stað þess að fræðast lítið um mikið í sófaspjalli á skjá og í útvarpi. Það hefur ekkert upp á sig, til hvers er miðillinn þá, til að eyða þögninni og gera óbærilega tilveruna léttari.

|




23.1.06

Hvað flokk eiga Bína og Hjörvar að velja sér #1

Bína og Hjörvar vissu ekki í hvorn fótinn þau áttu að stíga. Hjörvar af gengnum og góðum Framsóknarættum í fjóra ættliði og langafi hans sjálfur margumtalaði Kaupfélagsstjórinn á Húsavík, Sambandsforkólfur og drottnari til sjávar og sveita. Pabbi kallinn hafði notið góðs af en nú var ekki á vísan að róa. Bína var hins vegar úr Garðabænum og tveir pólar toguðust á í henni. Móðir hennar listakonan hafði verið gallhörð Kvennalistamær en pabbi hennar af forstjórakyni og allir vita hvar í flokki þeir halda sig. Það var eins og þau vildu helst sópa þessari ákvarðanatöku á undan sér, veggur sem þau bara nenntu ekki að kljást við. Þau höfðu samt einsett sér að komast að niðurstöðu hvað ætti að kjósa í næstu Alþingiskosningum sem allra fyrst. Fyrir hvað vildu þau standa – félagshyggju eða markaðinn. Þetta var ekki svona einfalt. Verkfræði- og stjórnmálafræðinemi í kröppum dansi með ófyrirsjáanlegan endi í ákvarðanatöku. Það var ljóst að ekki var hægt að breyta og bæta heiminn ef skoðanir væru ekki afmarkaðar, þau voru á byrjunarreit, sjálfum sér.

Fyrir norðan var ungliðahreyfing Framsóknar nokkuð virk en hér í borginni var því öðruvísi farið, ungir Framsóknarmenn fóru með það sem mannsmorð nýja félagskírteinið í flokknum uns þeir höfðu þor í sér að stíga út úr Framsóknarskápnum, þá nokkuð fullskapaðir og þess umkomnir að svara fyrir gjörðir flokksfeðra. Þetta hafði ekki alltaf verið svona. Var hann tilbúinn að gangast þessum flokk á hönd. Fannst félagar sínir í háskólanum sleppa nokkuð auðveldlega. Það lýsti ekki stjórnmálaskoðunum þeirra þótt þeir væru í (Sjálfstæðis)flokknum. Sjálfstæðiflokkurinn var svona fyrirbæri, ef þú eygðir á frama þá var þér hollast að skrá þig á réttan stað, allaveganna hér áður fyrr, en nú voru línur móðukenndari og ekki með öllu ljóst hvort skírteinið í flokknum myndi veita fólki þá vegsemd sem það óskaði eftir. Allaveganna var metorðastiginn ekki jafn þyrnum stráður hjá Framsókn og í flokknum. Æ, hvað var þessi leit hans að sannleikanum að plaga hann, þetta var eins í Sovétinu hér forðum, flokksskírteinið var ekki ávísun á að menn væru gegnheilir hugsjónamenn kommúnismans, bara leið til að koma sér áfram. Hjörvari fannst hann bara vera svo djöfull mikið hulstur ef hann færi bara eftir því sem myndi henta honum best, hann vildi að val hans myndi endurspegla hann sjálfan en ekki það sem hann vildi vera eða það sem hann vildi að aðrir ættu að halda að hann væri. En, hvað er málið, verður maður ekki það með tímanum sem maður stefnir á, gæti hann verið sáttur í sína hjarta þannig. Er ekki hver næstur sjálfum sér.
Bína hafði ekki alveg fundið sig hjá fundum Femínistafélagsins. Vinkona hennar var mjög virk þar en vinir hennar úr LHÍ voru með of úfið hár fyrir hana, en ekki gat hún alhæft út af einni vinkonu með úfið hár.

Í verkfræðideildinni reykti engin(n), fáir voru með tattú og margir skráðir í Heimdall. Í stjórnmálafræðinni vildi fólk ekki vera að gefa neitt uppi til þess að láta svo merkja sig sem eitthvað ákveðið, það var nú samt allur gangur á því enda viðfangsefni greinarinnar á þá leið að erfitt var að taka ekki afstöðu. Frekar að hægt væri að skipta fólki í flokka eftir afstöðu til ákveðinna málefna.

Þau voru búin að hugsa sér próf til að ákveða sig, hver þau væru og hvað þau aðhylltust. Spurningar eins og við hvað ætla ég að vinna, hverjar verða tekjur okkar, hvað viljum við borga mikla skatta, hvaða velferðastig viljum við, skiptir mannúð og miskunn meira máli en hámarkshagkvæmni. Fara þessi markmið saman... Já, ótal spurningum þurfti að svara og eitt var ljóst að með því að svara þeim öllum játandi gátu þau nánast endað í hvaða flokki sem var. Hver yrðu svo hitamálin í kosningunum. Síðast voru það húsnæðismálin m.a. og vegna þeirra sáu þau vart fram á að geta keypt sér sómasamlega íbúð nema upp til sveita eða í öðru bæjarfélagi ef þau ætluðu að búa á þessu vinnusvæði sem stórborgin er.

Þetta var allt í svo mikilli móðu. Þau ætluðu að verða sér úti um stefnuplögg flokkanna og leggjast yfir þau. Næsta miðvikudag væru þær plöggin komin í hús og þá yrði helgin framundan notuð í að nálgast sannleikann.

|




Félagsstörf

Hef farið flatt á því að stunda þau af kappi, gleymi mér í þeim og þau eru yfirleitt skemmtilegri en þau viðfangsefni sem eiga að standa manni nær. Við lifum á menningarsvæði þar sem vinnan á víst að göfga manninn og létta honum lundina í jarðlífinu. Vinnumenning skiptir nokkru um hvernig þjóðfélögum farnast. Sést það best á Suður- og Norður-Ameríku. Iðnvæðingin varð hjá mótmælendum sem voru framfarasinnaðir. kaþólikkar sunnar í álfunni voru íhaldssamari og aðlögun þeirra að framförum var verri vegna mótsstöðu valdhafa. Ef Spánverjar og Portúgalar hefðu numið land í norðri en Bretar og þjóðir Norður-Evrópu í suðri væri staðan e.t.v. önnur en hún er í dag. Þegar hjólin byrjuðu að snúast var vinnugöfgi mikil í N-Ameríku en í S-Ameríku var vinnan kvöð, hún var til þess gerð að eiga ofan í sig og á. Einstaklingar vildu frekar sinna félagsstörfum og sjálfum sér en þurfa að standa í brauðstriti. Þetta hefur ekki alltaf verið svona og meðal Grikkja var litið niður á líkamlegt erfiði. Þar áttu alvörumenn þræla og fólk fæddist í stéttir sem erfitt var að vinna sig upp úr. Rómverjar sóttu korn sitt til Norður-Afríku, forðabúr heimsveldisins og í dag er verksmiðja heimsins Kína. Í Saudi-Arabíu vinnur fólk frá 3. heiminum skítverkunum. Við flytjum inn fólk til að vinna í fiski. Athyglisverð staðreynd er að árið 2003 voru 120 íbúar 3. heims landa teknir af lífi í Saudi-Arabíu en enginn vesturlandabúi.

Ísland er með 91. stærsta hagkerfi í heiminum. Lýðveldið Kongó er með minna hagkerfi en við en þar búa 50 miljónir. Þar stunda íbúar víst sjálfsþurftarbúskap af meira kappi en hér. Vinur minn var í Dóminíkanska lýðveldinu um jólinn sl. Þar sagði hann íbúa ekki vinna, fólk ætti eina belju og rætkaði sitt allt árið um kring. Reyndar bendir Jónas Kristjánsson á það á heimasíðu sinni að verg landsframleiðsla í BNA eykst ef byggt er fangelsi fyrir 10.000 atvinnulausa blökkumenn og þeir vistaðir þar, í stað þess að láta þá ganga frjálsa. Þessi hugtök eru skrítin og merking þeirra.

Bla, bla, bla...

|




Einstaklingsíþróttir vs. Hópíþróttir

Hef prófað bæði, hóp – og einstaklingsíþróttir. Hóf íþróttaiðkun mína hjá Leikni í knattspyrnu. Fótboltann æfði ég lengst og síðast af einhverri alvöru sumarið 1995 með Stjörnunni. Annars varð ég Landsmótsmeistari með Fjölni ’97 og er það stærsti titillinn sem mér hefur áskotnast og raunar sá eini. Við Leiknismenn sópuðum titlunum ekki að okkur en Leiknishjartað slær alltaf. Spilaði með Tekk í utandeild sumarið 2000 þar sem við töpuðum úrslitaleik. Ég spilaði yfirleitt miðju upp alla flokka en í seinni tíð kannt og framherja. Handboltaiðkun hófst 1988, fór með Halla bekkjarfélaga og æfði upp í 2. flokk þá með Stjörnunni. Afrekaði nokkrar meistaraflokksæfingar með Stjörnunni en svo leið að nemendamóti og tók ég það fram yfir. Sumarið ’93 mætti ég á æfingar hjá sunddeild Ármanns og bætti stílinn aðeins. Hef alltaf synt mikið og það frá fjögurra ára aldri þegar ég í Breiðholtslaug svamlaði 300 m af bringusundi einn og óstuddur.
Frjálsíþróttir hóf ég æfa 23 ára. Fór reyndar á eina æfingu með Svenna tilvonandi leikara sumarið ’87 en fleiri urðu þær ekki í bili. Er duglegur að æfa og stefni á bætingar í sumar. Í framtíðinni verða svo þríþrautir og Laugavegsmaraþon. Maður gerir þetta fyrir sjálfan sig, hefur markmið og hefur þetta sem lífsstíl.

Í hópíþróttum lærir viðkomandi hvernig er að vera hluti af liði og þurfa að stóla á samherja og vinna saman með þeim að ákveðnu markmiði. Lengi vel var ég sáttur ef ég átti góðan leik, sólaði eitthvað og skoraði jafnvel mark/mörk. Oft var það jafnvel til travala því ég gaf ekki boltann. Það hefur allt lagast í dag. Búningsklefahúmorinn ræður ríkjum og í yngri flokkum getur verið örlítil stéttaskipting. Sumir henta ekki í hópíþróttirnar, Salli sem er 14 ára viðkvæmur drengur og spilar á fiðlu og teiknar mikið auk þess að vera nokkuð viðkvæmur á e.t.v. ekki erindi sem erfiði á æfingu hjá knattspyrnudeild Vals. Viðmótið er einnig annað, í boltanum sullar fólk/unglingar meira. Í einstaklingsíþróttunum stóla iðkendur á sjálfa sig og eftir frammistöðu dagsins horfir viðkomandi í spegil og veit hver var ástæða sigurs eða taps. Sjálfsaginn lærist í einstaklingsíþróttum, hann er meira á reiki í hópíþróttunum, líkast til er það undir þjálfara komið.

Ég veit ekki hverju hefur ekki verið stolið af mér á handbolta- og fótboltaferli mínum. Ég hef annars gert það að leik mínum að skilja eftir verðmæti á frjálsíþróttaæfingum og mótum. Allt kemur fyrir ekki, það er ávallt allt á sínum stað.

Svo eru það foreldrarnir. Við Reykjavíkurfélögin héldum Reykjavíkurleika þar síðustu helgi. Ég gantaðist við einn húsvörðinn og sagðist spenntur að sjá hve mikið af efnilegum einstæðum mæðrum ég myndi sjá þann daginn. Ég var fyrir miklum vonbrigðum, það var ekkert foreldri á mínu reki, aldursbilið var 35-50 ára hjá 6-11 ára iðkendum. Þar komum við að því. Foreldrar barna í knattspyrnu t.d. eru að meðaltali mun yngri en foreldra barna í frjálsíþróttum, ræddi þetta m.a. við aðstoðarþjálfara í félaginu (Ármann) sem þjálfar yngri flokk hjá stóru félagi á höfuðborgarsvæðinu. Þjálfarinn segist frá upphringingar frá saltvondum foreldrum sem vilja skýringar af hverju barnið sé ekki í A-liðinu. Andinn er allt annar í frjálsíþróttunum, þetta er allt mikið settlegra. Svo eru það vinir mínir sem stunda boltaspark, þeir skilja ekkert í öllum þessum hlaupum mínum. Ljóst að tvo þjóðflokkar er að ræða, hóp- og einstaklingsíþróttafólk.

|




19.1.06

Félagi tekinn í þurrt taðið

Já, falleg fyrirsögn. Þetta útleggst að vera tekinn í bakaríið, viðkomandi lætur leika á sig. Oft notað um lið eða einstakling sem fer halloka í meira lagi í rimmu. Sumir tala um hreinan anal. Einhver gæti fengið hugmyndina fangelsi, beygja sig eftir sápu!!!
Einn kunningi minn í Versló hnýtti hnúta sína ekki alveg sömu böndum og samferðamenn sínir. Bakgrunnur hans var annar. Sómadrengur mikill. Persónulega hef ég verið tregur til að spila með fólk, sérstaklega þegar viðkomandi aðilar geta ekki hönd fyrir höfuð sér borið. Einhverjir myndu líkja hrekkjunum sem félaginn var beittur sem minniháttar einelti. Þeir myndu svara sem svo að kappinn okkar hafi bara boðið upp á þetta, hann gaf algerlega færi á sér.

Jæja, nóg um það. Félaginn fékk nokkur viðurnefni og þ.á.m. viðurnefnið Kreditkóngurinn.
Kreditkóngurinn kom frá Danmörku fyrir 3. bekkinn með vatnsgreitt hár í grænum fermingarjakka, sagðist hafa spilað í dönsku 2. deildinni í fótbolta og einnig fyrirtækjadeildinni. Kredit átti víst að hafa unnið skrifstofuvinnu og tók sjálfan sig nokkuð hátíðlega. Hann stundaði það að þurrka af borði sínu ótt og títt á fyrsta skólaári. Hann gaf sig út fyrir að vera íþróttamaður en þegar hann þreytti próf í að sippa eða hoppa yfir bekk í leikfimi glumdi í skólanum allt upp á fjórðu hæð - vantaði eitthvað upp á mýktina í hnjánum sem brasilískir knattspyrnukappar eru svo frægir fyrir. Við vorum saman í leikfimi fyrsta skólaárið. Eitt sinn erum við í körfubolta og ég hyggst gefa stoðsendingu yfir hálfan völlinn með því að senda bloltann gegnum klof Kredit, vill svo ekki betur til en að miðið hjá mér klikkar og ég þrykki knetti í klof hans og lá hann eftir og engdist allur til. Hann var búinn á því og allan þann dag kveinkaði hann sér og gekk skakkur í leit að samúð. En sá tími kom að hann fékk leið á græna fermingarjakkanum og bindinu og festi kaup á leðurjakka og ljósakorti. Samfara því breyttist vinahópurinn. Við áttum semsagt sameiginlega vini. Kredit var ágætlega máli farinn og sæmilega að sér um hin ýmsu málefni en samt sem áður örlítið á reiki með að staðsetja sjálfan sig í allri flórunni. Svo kom að meðvirkni hans gerðist all nokkur og auðnaðist honum að fá sér þrjú tattú á skömmum tíma, þótti mér hann setja niður við það og kenndi ég nýju félögum hans að nokkru um. Svo er það að líður að skíðaferð í 5. bekk, hann var enn ómerktur þá og ók um á gömlum þrjúlínu Bimma, þýskum vínrauðum eðalvagni árgerð ’82. Viðgerðar- og viðhaldskostnaður var nokkur. Þrír aðalspaðar, jafnaldrar og ærslabelgir véla hann til að vera dræver upp í Skálafell, mig minnir að skíði hafi ekki verið sett á topp Bimmans, enda eru þau aukaatriði í ferðum sem þessum. Hituðu þeir sig upp áður en þéttbýlið var kvatt með því að rúnta um lúgusjoppur bæjarins og versla sér sælgæti og voru farþegar og bílstjóri klæðalausir með öllu. Fregnir af þessu voru fljótar að berast út og var félögunum tekið með kostum og kynjum við komuna upp í Skálafell. Skíðaferðin var viðburðarík - sögur um paraferðir í kyndiklefann gengu og sitthvað fleira. Hinir fjórir fræknu halda svo í bæinn og endareitur skildi vera klæðalaus rétt eins og byrjunarreiturinn. Heimferðin gengur vel, en þegar komið er að Höfðabakkaljósum sem þá, voru lætur Kredit bílinn rúlla að ljósunum og fitlar við gírstöngina með handapati en ákveður svo að slengja bílnum á nokkurri ferð í bakkgír, þar lauk skíðaferðinni og sögu Bimmans á götunum með fjórum klæðalausum drengjum.

Viðurnefnið Kreditkóngurinn fékk félaginn þegar hann vann á Domino’s pítsustað við Grensásveg. Tveir kappar notfærðu sér góðsemi Kredit og litu oft við og létu hann skrifa bökur á sinn reikning. Þegar svo Kredit fékk nóg af pítsum var hann í allsherjarskuld við staðinn, alveg í kredit – tekinn í þurrt taðið.

Hef ekki heyrt af honum í þó nokkurn tíma. Síðast þegar ég vissi nam hann einhver fræði út í Köben og lóðsaði Júróvisjónförum.

|




18.1.06

Ögranir

Maður hefur oft gaman af að létt-stuða fólk. Þá erum við ekki að tala um eitthvað ergelsi sem veldur því að við hreinlega fleygjum fólki inn á teygju- og óþægindasvæði þeirra. Bara svona frekar svona létt ögranir á hugann. Eitthvað sem kemur á óvart. Ef maður ástundar hrekki sem koma fólki út á teygjusvæðið er oft ágætt að þeir séu nafnlausir og nokkuð meinlausir en sniðugir. Ég er ekki að koma með uppástungur svo nokkru nemi, vil ekki spilla hrekkjum. En væri samt til í að keppa á móti á næstunni með létta silfurskikkju. Við erum bara að tala um að búta auman regnjakka, jafnvel tvo, svo hægt verði að sauma skikkju, e.t.v. get ég fengið svona nokkuð í Hókus pókus. Myndi líklegast keppa í 200 m með skikkjuna, ekki 400 m, það er of langt, myndi kannski sjá eftir því að hafa sett hana á herðar mér þegar ég væri búinn að hlaupa 350 m. Svo myndi ég útbúa borða sem ég setti á upphandleggina á mér. Svo á ég líka 2 kattarbúninga frá því í Versló, svona heilklæðnað úr spandexi sem ég hef klæðst á grímuballi, annar með vömb og hinn ekki. Ekki verri hugmynd er að fá sér plastvöðva He-Man brynju og láta einhvern bíða með sverð við endalínu eða veldissprota. Hvernig væri að setja hólklaga púðadólg innan á þrönghlaupabuxur og taka æfingu í þeim með dólginn niður á mitt læri... sumir myndu segja híhí.

Ég verð að melta þetta með mér.

Fjáraflanir eru höfuðverkur. Alltaf eitthvað vesen. Ég held ég hafi nú setið uppi með flest allt sem ég átti að selja eftir 16 ára aldurinn. Skil ekkert í ættmennum mínum, fúlllynt fólk greinilega. Í Versló átti ég að selja lakkrís og endaði með nokkur kíló heima, Baldur vinur hefur verið verri í þessu. Þegar ég var yngri var ég frekar ýtinn og fór mikinn í flöskusöfnun og getraunasölu. Eitt sinn safnaði ég fyrir Skotlandsferð, 14 ára gamall. Við seldum mosaeyði og áburðarpoka. Ég var grimmur og seldi víst í einhverjum götum sem ég átti ekki að seja í, tróndi efstur á sölulistanum nokkuð glaður. Haldiði ekki að ég hafi mætt fjórum drengjum stuttu síðar úti á skólavelli, ári eldri en ég. Það var mars og frost og einn þeirra gaf mér kjaftshögg. Helvítis, þeir voru 4 - þar á meðal var einn frændi minn, jafn uppburðarlítill og drengurinn sem gaf mér höggið. Ég hljóp á brott og þeir á eftir mér, þeir náðu mér ekki og ég fékk ekki fleiri högg. Ég var svo kokkí. Ég hringdi í félaga sem var hissa, við vissum sem var að högggjafinn var ekki í liðinu og skoraði ekki vel í skólanum og vorum sammála um hugleysi hans.

Sölustörf eru vanþakklát.

Þetta var fyrsta kjaftshöggið sem ég hafði fengið. Maður hafði bara verið að hnoðast í gannislögum og einhverjum hálf-glímum. það kýldi enginn þegar hann slóst, kunni það eflaust enginn. Svo heyrði maður sögur af drengjum sem voru í karate og það átti ekkert að virka, einhver hafði verið buffaður og svona og karate-ið komi ekki að notum. Hin tvö kjaftshöggin sem á mér hafa dunið komu rétt eftir tvítugt. Í fyrra skiptið var ég friðarstillir og var satt best að segja ekki upp á mitt besta, var held ég 23 ára. Annar drengurinn sem hafði verið með dólgslæti var argur, ég var eitthvað kokkí og spurði hvað þessi hegðun ætti að þýða, hvort viðkomandi væri með öllu menntunarlaus og illa gefin, illa máli farin o.s.frv. Það endaði með því að hann launaði mér með höggi á ennið og ég féll aftur og nýr friðarstillir kom til sögunnar, engin frægðarför þar. Svo er það þriðja kjaftshöggið. Var klæddur í silfurjakkaföt á lokahófi frjálsíþróttamanna, held ég hafi verið 24 ára. Eftir gleðina var för haldið í bæ og endastöðin var Thomsen, þótti ágætt að fara þangað þá - neðri hæðin var samt vafasöm í meira lagi. Ég er reifur og geng niður stiga, vill þá ekki svo vel til að það mætir mín hnefi sem fer í skoltinn á mér, hann kom úr óræðri átt og ég lá. Fór upp á slysó og það var saumað eitthvað. Kannski var gleðispillirinn í annarlegu ástandi og vildi upp hella olíu á fjörið og kanna hvort sá kjaftstóri væri hnefagleypir. Semsagt, ég lít á mig sem friðarins mann. Jónsi vinur er sá eini sem hefur mætt mínum hnefa þegar við tókum fjórar lotur í box-gymmi í Hafnarfirði sem hann æfði í. Ég kom einu höggi á hann fyrir hverja lotu, en dansaði mest allan tímann og tók við fleirum af hans hendi... sumt verður ekki umflúið. Annars held ég að best sé að eiga góða hlaupaskó, þeir forða manni frá flestu.

Bla, bla, bla...

|




17.1.06

Heilagur janúar

Mikill fjöldi starfsmann í B2, þ.e. borgarhlutinn minn hjá ÍTR hefur sett markið hátt á nýju ári og nefnir janúarmánuð heilagan, átak undir yfirskriftinni Heilagur janúar. Er það gott og gilt ef fólk vill færa lifnaðarhætti sína til betri vegar, enda þeir sem taka þátt í þessu einstaklingar sem þurfa á þessu að halda. Nú eru tíðar verslunarferðir í Heilsuhúsið og snætt er á Grænum kosti og á Á næstu grösum, auk þess sem salatbarirnir eru skimaðir. Ég fussa hvorki né sveia, heldur fagna. Ég vona að úthaldið verði nokkuð. Því vill nefnilega bregða svo við að áramótaheit sem þessi eiga það til að renna út í sandinn, en ef fólk getur ekki stundað hollustu nema í skorpum þá er það betri leið en engin hollusta. Hugarfarsbreyting gerist í smáskrefum eða þegar bylting á sér stað, sbr. vísindabyltingar og annað slíkt.
Nú er mörlandinn farinn af stað og verslar sér líkamsræktarkort. Eru þeir í meirihluta af þeim sem ég þekki sem munu mæta duglega í janúar, svo mun mætingin deyfast í febrúar og verður svo lítil í mars. Fólkið sem fer af stað með heitstrengingum í janúar er nefnilega dálítið í líkingu við þá öðlinga, að ég held, sem taka þátt í Heilögum janúar.
Líkamsræktarstöðvarnar myndu líklega aldrei anna þeim fjölda sem á kort í stöðvunum, það er segin saga að nokkur hluti þeirra sem eiga kort kaupir þau í janúar en notar lítið. Fær samviskubit fyrir vikið og vanlíðan fyrir að rækja ekki heitið góða og er þá betur heima setið en út haldið eða hvað... Einmitt, byltingar, gerast í smáskrefum.
Ég hváði við þegar ég heyrði um Heilagan janúar, sagði mig ekki þurfa að taka þátt í honum, enda lifi ég nokkurn vegin heilsusamlegu líferni allt árið um kring og hreyfi mig eflaust meira en allir starfsmennirnir til samans. Svo er það eitt með þessar stöðvar, ég hef æft í stöð og líkaði ágætlega – hitti marga og hreyfði mig eitthvað, það sem vakti athygli mína var að stór hluti fólks hreinlega svitnaði ekki.
Svo eru það fyrirmyndirnar í stöðvunum – vaxtaræktar og fitness liðið. Með ofurtrú á bekkpressu og upphandleggsvöðva. Étandi eitthvað sterkara en C-vítamín. Það eru öfgar í öllu.

Segi bara fylgið mér, gerið smámarkmið, ekki klífa Everest í fyrstu tilraun, reynið frekar við Úlfarsfellið. Ef markið er sett allt of hátt upplifið þið bara vonbrigði, eitt skref er betra en ekki neitt. Hver vegur að heiman er vegurinn heim. Ekki gleyma þér mitt í öllu æðinu og hver ástæðan var fyrir hreyfingunni og heilsuátakinu. Ekki verða hulstur, þ.e. umbúðir spegla innihaldið en ekki öfugt.

|




12.1.06

Ótti

Ég fékk út úr prófi fyrir stuttu – það sem ég fékk voru góðar fréttir. Hafði ætlað í það nokkrum sinnum en bara beilað á því. Ótti við að mistakast, á ögurstundu horfðist ég í augu við sjálfan mig í speglinum og sá sem var að ég hafði ekki gengið götuna á enda og var e.t.v. hálfnaður í yfirferð. Ég vissi sem var, þetta var óvinnandi orrusta þótt andstæðingurinn væri ekki burðugur. Ótti við spurningar, prófbók og yfirferð kennarans varð yfirsterkari og ég mætti ekki og svaf út með samviskubit og skráði mig veikan. Veit ekki hvað heimilislæknirinn heldur!!! Ég hefði bara átt að fara í próflesturinn með því hugarfari að sveltu börnin í Afríku myndu ekki bjargast ef ég nýtti ekki nótt sem nýtan dag við að yfirstíga þröskuld hins óburðuga andstæðings. Í prófinu sjálfu var ég skrítið fyrirbæri. Ég hló, sló taktinn með hægri og vinstri fæti hratt og tók ekki eftir auganu sem þorði ekki að trufla mig og biðja um engan takt, próftökumaður sá var bara ekki í sama takt og ég, tempóið eitthvað hægara eflaust, honum hefur þá e.t.v. ekki gengið nógu vel fyrst hann einbeitti sér að trommufótunum mínum.

Óttinn sem skapast af viðfangsefninu er eins og veggur. Þú grefur þig ekki undan honum eða sveigir fram hjá honum, það er ekki hægt. Sama hvað þú reynir af þessum ofangreindu meðulum, hann verður áfram bara fyrir framan þig í tveggja skrefa fjarlægð og nagar í sálina. Yfir vegginn, að klifra, hjakka í honum óttanum og komast yfir hann, þannig fer hann og kemur ekki aftur, allaveganna í bili. Að stíga ekki yfir hann er að læra ekki af mistökunum, heldur slá höfði í stein. Ef óttanum er bara skóflað á undan sér án þess að takast á við hann veldur því að fleiri vinir hans slást í för og fyrr en varir eru alls konar komplexar farnir að hanga á honum. Ef þú brýtur ekki óttann á bak aftur með klifri þá brýtur hann þig – minna egó, minna sjálfstraust.

Ég á tvo vini. Gullmolar. Það er taug sem liggur á milli mín og í sitt í hvorn vininn. Það er gleði að geta þagað saman og hlegið að dulmáli sem heitir að þekkja inn á hvorn annan. Vita hvenær viðkomandi er að reyna að spila með þig, plata þig með aulahrekkjum eða veiða upp úr þér eitthvað sem þú geymir inni í skáp. Það má kalla þennan vinskap þríhyrning. Þrír einstaklingar hver í sínu horni í jafnarma þríhyrning, greinilega jafnræði á ferð – rétt hlutföll. A hefur verið duglegur að vinna í sjálfum sér og hefur lagt dágóðan spotta að baki í þroskaferlinu eftir hvert þrepið sem hann hefur lokið við, sama má segja um B en bara á ólíkan hátt. Þeir viðhafa ólíka nálgun á leiðina A til B, þeir A og B. Þeir eru á öndverðum eiði við mínar hugmyndir að ég lifir og dey og svo kemur ekkert. A vinnur í sjálfum sér með tilgang lífsins að leiðarljósi, tilganginn sem hann leitar og hefur komist á snoðir um og nálgast óðfluga þótt leitinni ljúki aldrei. Inn á við pælingar getum við nefnt þetta. Inn á við pælingar eru leiðarvísirinn að árangrinum, sáningin og lykill að uppskeru. B vinnur í sjálfum sér með út á við verknaði, gjörðir breyta og bæta, þú ert það þú gerir og hann gefur ekki mikið fyrir pælingar A þótt hann virði þær. B forðast að ræða um aðferðir A við hann sjálfan, nennir ekki að standa í því, finnst að vera non-sense leið að markinu, vill ekki láta A reyna bjaga sína sýn. Sýn B er til staðar og óþarfi að skrapa upp í botnfallinu til að byrgja sýn í pollinum. Báðir eru þeir á því að lífið í heild, þ.e. fyrir utan þennan heim sem við lifum í sé lagskipt sósa. Svona eins og borð í tölvuleik, þú ferð upp eða niður eftir frammistöðu. Nú er ég sammála í að leitin að sjálfinu og tilganginum er það sem skiptir máli, við förum ólíkar leiðir að markinu. Ég er mitt eigið tré til að hanga í, það er erfiðara þannig en. Samkvæmt minni skilgreiningu þá eru þeir raunsæir rómantíkerar en ég frekar rómantískur raunsæismaður. Allt er efni, efnið er kalt eins og vatnið sem holar steininn og meitlar vitundina og dýpkar holuna sem svo fyllist af viskuvökva.
Við getum allir lesið sama textann en leggjum misjafnan skilning í hann, nýtum hann samt en ólíkur grunnur okkar, þ.e. lagskiptur hugur okkar og nálganir gera það að verkum að útkoman verður misjöfn.
Fyrir mér er gulur bara gulur, grænn bara grænn þótt hann sé blanda af gulum og bláum. Tek hlutunum eins og þeir koma og það er bara ein leið, beint áfram. Við gerum lífið flókið með því að fresta orrustunni við óttann, eina leiðin er að skora hann ó hólm. Með því að taka einn hlut fyrir í einu er leiðin einfaldari í stað þess að verða flókið hrúgald sem veldur valkvíða, það er ekki hægt að heygja orrustur á mörgum vígstöðvum í einu.

|




11.1.06

Herra Viljandi-Haltur, frú Forvitin og kalrmennskan!

Stundum veit maður bara ekki görn hvað maður getur sagt á vef. Er bara hræddur, kveikfarháttur að láta ekki slag standa, slengja bara orðunum fram, bíða, vona og sjá hvort einhver verði fúll og gefi manni auga, heilsi jafnvel ekki næst. Já, það er erfitt að vera maður, erfitt að segja sögur af fólki. Ég þekki fólk sem er skylt mér. Þau heita herra Haltur og frú Forvitinn. Fólk þetta er uppfullt af kostum, á því er enginn vafi. Herra Haltur minnir stundum á Bjart í sumarhúsum, forhertur í sínum skoðunum og erfitt að rökræða við hann ef hann kemst á flug, þá er bara barist um orðið og talað á móti út í eitt, nonsense-nonstop... Það er gaman af því, þjálfun e.t.v. Frú Forvitinn má ekki heyra hljóð, hún snarast að því og vill vita hvað það var. Frú Forvitinn og herra Haltur eru sönn í gegn, það er málið... búið að meitla þau til. En hvað er fals.

Karlmennskuímyndin er á faraldsfæti, þegar ég var 10-11 ára þá átti ég hetjur sem eiga ekki upp á pallborðið í dag. Karlmennska fyrir mér var pabbi að saga og tala um stjórnmál, handhafi sannleikans, Ásgeir Sigurvinsson og Kristján Arason, ekki má gleyma Jóni Páli. Ég stundaði það reyndar að rita nafn hans í gestabækur listasafna sem ég sótti ótt og títt með foreldrum mínum. Hann auglýsti Svala í tímaritum og staðfesti það með undirskrift sem ég æfði nótt sem dag við að ná tökum á. Hótel Borg, Kjarvalsstaðar...
Gott framtak hjá foreldrum, skárra en að rúnta á bílasölum, uppeldislegt gildi meira. Hvaða 10 ára drengur leit ekki upp til Stalíns árið 1942, landsfaðirinn er aðalspaði hverju sinni. Hjá mér var það víst Steingrímur Hermannsson, það var bara eitthvað við hann, chief in commander. Ef það var skotið í lærið á mér í leik þá gat ég helst ekki klórað mér aðeins í því heldur harkaði af mér, hafði aldrei séð þetta gert í sjónvarpinu, svona klór Þannið að traust, vald, styrkur og festa voru púslin í myndina. Ég var greinilega í einhverju amen umhverfi. Aðrir húktu úti á landi og áttu stóran bróður sem kunni að slást. Töffheitin voru karlmennska, það að vera harður nagli og þorinn var kalmennska. Berjast á móti vindi milli húsa illa klæddur og öskra í vindinn, hvað annað.
Í dag er karlmennskan meira fljótandi, karlmennskan hefur fleiri grímur, myndin hefur hliðrast og fengið örlítið önnur hnit en samt voða svipuð. Í stað skíts undir nöglum og slubbagalla eru komin jakkaföt. Maður sem þénar, kann að spila á fólk, á öxl sem hægt er að skæla í en sýnir ekki tilfinningar útávið. R&B veður uppi og klámið einnig. Fjölmiðlarnir ota misheppilegum einstaklingum að ungviðinu sem leitar sjálf síns. Karlmennskan í dag er að þekkja sjálfan sig, svo er sagt. Margir þekkja samt ekki sjálfan sig og óska skjótfengins frama, uppskeru án sáningar að nokkru viti, hámarks athygli fyrir lágmarks hæfileika og kunnáttu. Tónlistarmyndböndin niðurlægja konur og drengir fá vöðvamaníu á að horfa daginn út og inn á myndbönd á PoppTíVí og Skjá einum með Usher, 50 Cent og láta plokka sig eftir að horfa á leik með Beckham – stelpunum þykir Chad Michael Murray í One Tree Hill æði því hann er svo skilningsríkur og stelpurnar orga... Svo eru það dægurblöðin hérna heima sem skauta á yfirborðinu og búa til innihaldslausar fígúrur sem ég hugsa að flestir sjái í gegnum, sama hvort viðkomandi heiti Gilz, Arnar Grant eða eitthvað annað. Viðkomandi eru mögulega goð í augum smástelpna en fyrirlitin af unglingsdrengjum og jafnöldrur líta ekki við þeim. Enda glansmyndin ekki burðug, hulstrið er innihaldið, hvað leynist bakvið grímuna sem var smíðuð? - Glært hlaup eða hvít froða.
Húmbúkk fær of mikið rými, það sem ekkert er veður uppi.

|