31.3.04

Ekkert mál fyrir Jón Pál

Las grein í Fréttalblaðinu þar sem kona sem er fráhverf hefðbundnum íþróttum datt inn í endursýningu á gammalli “Sterkasti maður heims” keppni. Þar var Jón Páll að vinna titilinn annað skipti í röð. Mikið var gert úr persónum keppninnar. Einn átti við eymsli í öxl, annar var gamall og ekki í nógu góðu formi og ætlaði að sýna að það væri töggur í honum og sá þriðji var að keppa í sinni fyrstu keppni og ná sér í mikilvæga reynslu.
Ég man eftir því sjálfur hvað ég hefði gaman af því að fylgjast með þessum keppnum, og ekki síst viðtölum við garpana. Jón Páll var íslenski víkingurinn og frummynd nútímakraftakarls, síðan þá hafa margir sporgöngumenn komið og titlað sig víkinga en ekki verið jafn orðheppnir og Jón Páll og hefur enskan hjá þeim verið misstopul.
Jón Páll auglýsti Svala m.a. og sagðist stundum borða allt að 50 egg á dag. Svo vellti hann Fiat Uno bifreiðum við og blés upp og sprengdi hitapoka hjá Hemma Gunn. Við erum að tala um meiriháttar “show-man”. Hann var á forsíðunni á íslenskri útgáfu heimsmetabókar Guinnes og einhversstaðar sá maður mynd af honum þar sem Neggerinn var að heilsa upp á hann. Neggerinn hefði komist fyrir innan í Jóni Páli. Þar sem ég hef ávallt verið mikill áhugamaður um statístík las ég heimsmetabókina spjaldanna á milli, Jón Páll var nefndur á nafn í bókinni vitanlega en auk þess fékk Kazmæerinn sitt pláss – hans met fólst í því að borða fiskabúr – drekka og gleypa gullfiska.
Ég held að frasinn “ekkert mál fyri Jón Pál” hafi komið þegar hann setti Íslandsmet í kraftlyftingum eða eitthvað. Svo var það áramótaskaupið 1984, það ár vildi J.P. ekki pissa í lyfjaglas og varð mikil umræða úr því. Erfitt fyrir svona menn eins og hann að svissa eilíft milli vaxtaræktarkeppna og kraftlyftinga – maður þarf kannski eitthvað hrossamjöl til þess – miklar þyngdarbreytingar og svona.
Var hægt að byðja um meira karlmenni.
Á þessu tímabili ( var svona 9 ára) þá vandi ég viðkomu mína á fjölmörgum listasöfnum, því foreldrar mínir voru tengdir listafólki. Á þessum sýningum skrifaði ég ávallt nafn mitt í gestabækur og skrifaði þá oftar en ekki Jón Páll Sigmarsson. Málið var að undirskirft Jóns Páls var á öllum Svalaauglýsingum og ég fullur sjálfstrausts, enda hæstur í 8 ára bekk í skrift, kvittaði fyrir komu Jóns Páls.
Svo rétt fyrir andlát hans voru einhverjar þreyfingar um kvikmyndahlutverk, en ekkert varð af því af náttúrulegum ástæðum.

Ástæða ímyndar

En hvað um það. Man ekki eftir að hafa séð aðra norræna garpa í kraftakeppnunum arka um með víkingahjálma á höfði. Víkingurinn er sterkur í okkur. Í byrjun aldarinnar tuttugustu var sjálfsmynd Íslendingsins á reiki. Við höfðum þraukað á klakanum við erfið skilyrði bylgja tækni, efnahags- og fræðsluframfara dundi yfir okkur í byrjun aldarinnar. Okkar iðnbylting var upphaf vélbátaútgerðar. En nærtækast var að taka víkinginn sem hetju og fyrirmynd, og póstkort af görpum eins og Jóhannesi Borg voru prentuð. Jóhannes fór í víking og safnaði fé fyrir byggingu Hótel Borg og náði að byggja hótelið fyrir 1000 ára afmæli Alþingis. En tímarnir hafa breyst og mennirnir með, en ég held þó að eitthvað eymi eftir að víkingnum í okkur.

|




26.3.04

Námsráðgjöf heimilisins

Hinar ýmsu skólastofnanir hafa á að skipa námsráðgjöf með fjöldan allan af námsráðgjöfum; félags- og sálfræðingum

Nútíminn snýst um hámörkun á hinum ýmsu breytistærðum. Markaðurinn biður um hámarksarð, fólk leitar hámarkshamingju, hámarksstundaránægju og hámarks frístundaránægju. Til að uppfylla óskir fólks eru fjölmörg fyrirtæki og aðilar sem bjóða upp á ráðgjöf, viðburði og margt annað sem gleður fólk. Fólk fer í raftingferðir, víkingaleika, keilu, á skauta, gengur til sálfræðings og ræðir við presta. En hvað með unglingana – fjöregg þjóðarinnar. Unglingarnir hafa íþróttafélög, tónlistar-, ballet- og dansskóla til að svala þroskaþörf sinni og útrás að ógleymdum félagsmiðstöðvunum. Félagsmiðstöðvarnar hafa tekið stórum breytingum á síðastliðnum árum með ÍTR í broddi fylkingar. Þar finna unglingarnir fullorðið fólk sem tekur þeim sem jafningjum og gefur þeim góð ráð við ýmsum áhyggjuefnum sem hvíla á þeim.
Ráðgjafafyrirtæki lifa góðu lífi. Fyrirtæki bjóða upp á rekstrarráðgjöf, gæða- og þjónustustjórnun. Sálfræðingar bjóða fólki þjónustu til að greiða úr flækjum sínum og koma lífi sínu í þann farveg sem fólki þykir ásættanlegur o.s.frv. Fjöldi bóka er gefinn út svo fólk geti svalað þekkingarþörf sinni í þessum efnum. Foreldrar geta fjárfest í uppeldisbókum og svo geta þeir sjálfir verslað sér lesefni sem fræðir þá um hvernig megi öðlast velgengni í lífinu. En mitt í öllu þessu hefur eitthvað gleymst. Ég hef ekki rekist á bækur sem lúta að því hvernig eigi að búa til fyrirmyndarunglinginn. Ferli sem hefst við skólaaldur og lýkur á framhaldsskólaaldri, eða þegar unglingurinn er tilbúinn að taka sjálfstæðar og vel ígrundaðar ákvarðanir um líf sitt og framtíð. Það vantar bókina um draumaunglinginn. Fræðsluefni sem hefur forvarnargildi hefur verið gefið út og vert er að minnast á bók sem kom út fyrir síðustu jól og hefur notið nokkurra vinsælda.
Þetta er geiri sem hefur verið vanræktur og hefur eflaust mikil sóknarfæri. Vert er að gefa þessu gaum og fyrir athafnasama, jafnvel rekstur sem gæti verið ábatasamur og gefandi.
Ráðgjafafyrirtæki unglingageirans myndu gefa foreldrum ráðgjöf hvernig ætti að ala upp draumaunglinginn. Margt ber að varast því unglingar eru margbreytilegir og hafa hæfileika á ólíkum sviðum. Með ráðgjöf sem þessari myndu foreldrar eignast ósýnilega hönd sem myndi leiða barnið/unglinginn áfram í átt að einhverju sem myndi hámarka getu og færni hans, hvort sem er í námi eða tómstundum. Hæfileikar hvers og eins yrðu grundvallaðir í ráðgjöfinni. Margir foreldrar eiga erfitt með að stefnumarka framtíð barna sinna því þeir hafa e.t.v. ekki til að bera fulla yfirsýn yfir þá möguleika sem í boði eru. Ráðgjöfin væri í formi gæðstjórnunar og foreldrar myndu sækja mánaðarlega fundi til þess að greina frá stöðu mála og spáð væri í spilin. Þetta myndi efla vitund foreldra. Umræða myndi skapast í samfélaginu um þetta og myndi vekja fólk til umhugsunar sem ekki myndi óska eftir ráðgjöf sem þessari en telja sig þess umkomið að marka sína eigin stefnu í þessum málum.

Því að gera hlutina sjálfur þegar þú hefur fagmenn til að sjá um þetta fyrir þig. Þetta er nú bara hugmynd sem ég var að velta fyrir mér. Eins og ég kom inn á áðan hefur æskulýðsgeirinn farið vaxandi. Aldrei að vita nema einn góðan veðurdag skjóti upp einkarekinni félagsmiðstöð, það getur allt eins gerst, þarfir samfélagsins breytast með nýjum og breytilegum kröfum. Í dag eru starfræktir semi-einkaskólar líkt og Tjarnarskóli og Landakotsskóli. Þar greiða foreldrar fyrir menntun barna sinn auk þess að skólarnir fá borgað fyrir hvern haus sem í skólanum er.

Aldrei að vita nema fyrirtækið Draumaunglingurinn skjóti upp kollinum. Fyrirtæki sem myndi leggja út með fullmótaðan ungling við 16 ára aldur. Einstakling sem væri fullfær á sviði íþrótta, ræðumennsku, tónlistar og mannlegra samkipta.

Við bíðum og sjáum hvað verður.

|




24.3.04

Sæmilegasta æfing

Ég æfi sæmilega vel, fór reyndar út á laugardaginn og braut eitthvað niður. Mótsagnir þetta að hella eli í sig þegar maður hleypur og æfir alla daga vikunnar. Æfing í Egilshöll: Skokk í 20 mín, svo tóku við drillur og vaxandi. Æfingin samanstóð svo af 10*100m á 80% (13,5-14 s) og skokk til baka. Endaði svo á að taka ca. 8 120m 80% spretti þar sem ég skokkaði 70 m milli spretta. Ekki sú erfiðasta hingað til, en ég var djöfull svangur, fékk mér Cherrios um kl. 11.00 og ekkert nema kaffibolla þar til eftir æfingu. Þetta er á svarta listanum.

Spennandi æfing á morgun. Fer á völlinn með Bjössa Margeirs og Bjössa Arngríms. þar verður boðið upp á 200m spretti á 30 sek, veit ekki hversu marga né um hvíld á milli. Þetta er svona stöðumat, sjá hvernig ég held í þá.

|




23.3.04

Raunheimur – ímyndaður heimur

Er sá ímyndaði ekki í raun, er hann af holdi og blóði?
Afhverju ímyndaði ég mér? Getur ekki allt orðið eða verið að einhverju leyti sem ímyndun. Er það ekki einhvers raun, einhvers raunveruleiki, raðaður saman úr mörgum brotum.

Er líf?
Krossgáta sem endar aldrei. Er mitt líf krossgáta sem endar einhverntíman en á sér nýtt upphaf við nýtt líf. Þegar tvær krossgátur verða 1+1 = 3. Nýtt líf. Er eitthvað vit í því, er óvit?

Engin(n) þekkir lífið. Lífið er bara skilgreining. Er lífið eitt form af fleirum? Er ímyndun ekki þekking, er þekking ekki reynsla, raunreynsla og ímynduð.

Allt er mennskt sem getur skilgreint fortíð, nútíð og framtíð.

Er eitthvað meira? Er einhver tilgangur annar en grunnþarfirnar? Er hann tilbúningur, höfum við þörf á að gefa okkur margþættari tilgang? Eru það skildur samfélagsins? Er það tilgangur að vera eitt hinna fjölmörgu tannhljóla sem drífur gangverkið áfram? Eigum við að skrifa nýtt guðspjall, höfum við stjórnaskrár í staðinn fyrir trúarverk? Er stjórnarskráin Biblía hins upplýsta manns?

Hvaðan kemur mátturinn, hvað knýr gangverkið? Þarf ég tálsýn, þarf einhver að leiða mig í gegnum öldudalinn? Lifi ég þá ekki á röngum forsendum? Til hvers er lifað ef lifað er á röngum forsendum, grunnforsendum sem fjarstýra lífinu beint og óbeint.

Ýmsir hafa gefið út boðorð. Boðorð um árangur, betra líf, formfastara líf, boðorð um réttan flöt á forminu. Brian Tracy, Stephen Covey og Dan Pena, eru þetta guðspjallamenn samtímans, mennirnir sem fólk borgar fúlgur fyrir að hlusta á, tekur mark á og fylgir – Jesúar samtímans, með fylgihjarðir hugsandi manna. Er hlutverk presta og biskupa það að vera hliðarherbergi sem þú veist af og villt hafa svo þér líði vel – hluti af stoðum samfélagsins en ekki það sem lýsir veginn framundan. Ómandi boðskapur kemur út úr herberginu, boðskapur um rétt og rangt, hækjur, stafir og stoðir – siðferðispostular grunngilda sem við erum mótuð úr.

Bíómyndir á borð við Matrix , Truman Show og Vanilla Sky fjalla um raunheim og ímyndaðan heim. Margar fleiri fjalla um útópíusamfélagið. Ef við getum ekki hannað það í raun, afhverju ekki að hanna það í ímyndun. Er lífið oft ekki bara tómur tilbúningur og hannaðar gerviþarfir sem allt eins myndu njóta sín í ímynduðum heimi. Fólk liggur í dvala og dreymir það sem verða vill, græn engi og bláan himin, fullkomnar ástir og taumlausa hamingju. Heimurinn fallegt líkan sem aldrei getur orðið í raunveruleikanum en birtist lifandi sem tilbúningur. Ætti að vera val í framtíðinni, þriðji heimurinn svo fjölmennur að fólki er boðið upp á raunveruleika eða ímyndun. Betra að lifa í tilbúningi heldur en fótumtroðinni mannmergð þar sem búkar heimta orku sem ekki er framboð á vegna fólksfjölda, næring í æð í stað hrísgrjóna og fallegir draumar í stað eilífs brauðstrits. En þegar allt kemur til alls, fyrir hvað er lifað? Ég er, þess vegna hugsa ég, þess vegna er ég til – ég dreymi, er ég til? Ævisögur tilbúins fólks sem afrekar það ómögulega, hleypur hraðar, klífur hærra og upplifir allt það sem draumar geta boðið upp á. Ég er ekki James Bond og hann ekki ég, lífið er ekki hvít lýgi.

Við viljum fullkomið samfélag, útópíu – við leitumst við að skera kýli af, rétta skakkar burðarsúlur sem annars gætu hrunið. Kapítalismi fremur en kommúnismi, Kristindómur í stað Islam, Kerry frekar en Bush, trúleysi frekar en trú! Hin mörgu brot samfélagsins berjast sín á milli eða mynda bandalög um að koma sínum málefnum á framfæri. Þrýstihópar hjálpa til við að fylla í mósaíkmyndina – leitin og framþróunin í átt að útópíu sem aldrei næst því breytinga er ávallt þörf því að tímarnir og þarfirnar breytast og eitt form tekur við af öðru og það þarf að þróa meðan öðru er kastað fyrir róða.

Verða prestar framtíðarinnar siðferðispostular, menn sem boða rétt og rangt og hin gráu svæði.

Framtíðarsamfélag

Allt skilgreint til hlýtar einnig óvissu og óreiðuþættir. Framþróun og breytingar fá sinn hlut í síbreytilegu reiknilíkani alheimsins, hlutverk ríkisins að skilgreina regluverk.

|




19.3.04

Árinn og aldurinn

Ég var að skoða einhverjar bloggsíður á vefnum. Ég er hreinlega bara ekki fyrir svífandi höfrunga, rósir og hjörtu, það er bara ekki ég. Á eftir væmna fasann, alltaf gott að eiga eitthvað eftir. Hef átt erfitt með mig þegar ég hef hitt á Bachelorette á Skjá einum og brúðkaup Tristu er í gangi. Skemmti mér betur yfir Joe Millionere. Hérna fyrir neðan eru einhverjar línur um stemminguna sem ég hafði fyrir ákveðnum aldri þegar ég hafði ekki enn náð honum. Þegar maður er yngri þá virðast fjarlægðirnar vera aðrar en t.d. í dag. Deit á ofurfyndna gamanmynd er ekki sniðugt dæmi fyrir mig. Þegar maður fer með félögum á svoleiðis myndir uppsker ég bara olnbogaskot yfir þvi að hlæja of hátt og of mikið. Söngvarinn hlær stundum neðan úr rassi. Man eftir því þegar ég fór á Idioterne. Það voru fáir í salnum og ég hló á stöðum sem aðrir hlógu ekki á, svo hló ég áfram og aðrir byrjðu bara að hlæja, hlæja því þeir föttuðu eitthvað eða þá líklegast bara að hlæja að mér. Þegar ég fór á Dumb and Dumber fékk ég nokkur olnbogaskot, ég hló líka ofsalega þegar ég var að lýsa fyrir öðrum hvað mér fyndist myndin fyndin. Þegar ég fór á Fear and Lothing in Las Vegas þá hló ég svo mikið að tveir einstaklingar sem sátu fyrir framan mig fyrir hlé sátu þar ekki lengur eftir hlé.
Svo er það eitt. Afleiðslu og aðleiðsluvísindi. Aristóteles ástundaði afleiðsluvísindi, hann bjó til kenningu og leiddi sig út frá henni með rökhyggju, hann þurfti ekkert að prófa hlutina, erfitt að gera athuganir á ýmsum þeim kenningum sem hann setti fram. Svo kom Francis Bacon til sögunar og olli vísindabyltingu með náttúruvísindum sem samanstóðu af aðleiðsluvísindum, hann gerði athuganir, safnaði gögnum og setti síðan fram kenningar út frá þeim. Kirkjan tók ástfóstri við Aristóteles og margir þurftu að súpa seiðið af því og heimurinn tók ekki kenninguna sem Galíleó Galílei þróaði frekar um að jörðin væri hnöttótt fyrr en þónokkru eftir hans daga, enda þurfti hann að sverja fyrir spænska rannsóknarréttinum að hún snérist ekki um sólu o.fl. En af árunum og aldrinum.

Þegar ég var 12 fannst mér 24 vera áfangaaldur, því þá ætlaði ég að vera búinn með háskólapróf sem væri 4 ára nám. Ég miðaði það við fjögur ár því viðskiptafræði er 4 ár og Kristján Arason var viðskiptafræðingur og aðalmaðurinn í landsliðinu. Þetta hugsaði ég þegar ég var að skrifa þriggja blaðsíðna ritgerð, með agnarsmáu letri og nánast engu línubili á tölvu, með Halla sem átti pabba sem var jöklafræðingur. Ætli þetta hafi ekki verið í mars og ég í boltanum, handboltanum og fótboltanum. Ekki kláraði ég viðskiptafræðipróf 24 ára.

Þegar ég var 13 fannst mér 18 vera merkilegur aldur, þá ætti maður kærustu og væri í menntaskóla og hellingur að gerast. Böll og svona og mikil ærsl. Það hlaut að vera að ég ætti frænku sem var átján. Hún var í Verzló, átti kærasta, spilaði handbolta og tók meira að segja þátt í fegurðarsamkeppni, einnig sagði hún mér að í skólanum gengi hún aldrei í íþróttaskóm. Ég leit dálítið upp til hennar, en fór nú ekki í Verzló fyrir hennar tilstilli.

Þegar ég var 11 þótti mér 30 vera dálítið há tala, því vinur minn Davíð átti pabba sem var rétt rúmlega þrítugur. Uppi á vegg í andyrinu heima hjá honum í Suðurhólunum hékk mynd af pabba hans Dóra í sundskýlu ásamt vinum sínum á fjarlægri sólarströnd með áletrun um hversu vel afmælið hafi verið. Þessi mynd hefur verið nokkuð greipt í huga mér og aldrei að vita nema ég hengi upp mynd af mér úr komandi þrítugsafmæli þegar að því kemur.

Þegar ég var níu eða tíu fannst mér skipta máli að geta troðið í mig miklu magni af mat, hamborgarar og pylsur voru mælikvarði útaf fyrir sig, enda talið þá í stykkjatali. Erfitt að henda reiður á 400 grömm af hamborgarahrygg og 8 brúnaðar kartöflur ásamt glás af öðru meðlæti sem rennt væri niður með ég veit ekki hversu miklu magni af jólablöndu. En tölurnar þrír og fimm greiptust í huga mér þegar ég var á níu og tíu. Það var einmitt í Þjórsárdal þar sem ég hesthúsaði þremur grilluðum hamborgurum eftir að hafa vaðið upp Sandá, farið í skógarferðir og unnið ötullega að stíflugerð framundir kvöldmat. Pabbi klappaði létt á öxlina á mér og mér fannst eins og ég hefði áorkarð einhverju sem yrði ekki af mér tekið, svona líkt og prófgráða, ég var þriggja hamborgara maður. Ári síðar áorkaði ég í 10 ára afmæli hjá Anneli að gúffa í mig fimm pylsum og me’þí fyrir utan kökurnar sem ráðist var á milli þess sem maginn beið færis. Það tekur þetta enginn frá mér, þetta eru líkt og drengjamet í frjálsum. Síðar átti ég eftir að slá þessu við og jafnvel systir mín – hún setti stúlknamet í álverinu þegar hún hesthúsaði 9 pylsum, án brauðs og meðlætis.

Það er atvik á leikskóla sem ég kenni við steypu. Þegar ég var fimm ára þá leyfði ég stelpu sem seinna átti eftir að læra hjá sama píanókennara og ég að þefa af bensínloki sem ég fann á leikskólalóðinni, hún hljóp skælandi frá mér og ég hlaut skammir fyrir vikið. En steypatvikið sem sat í mér var þegar við nokkrir félaga, Baldur, Óli, Davíð og ég veit ekki hverjir fleiri voru að búa til hóla sem áttu að vera hýbýli úr drullu, mold og sandi. Ég klappaði hólnum fast með lítilli skóflu, lófunum og fótunum. Hóllinn var harðara en allt hart og ég hafði meðal annars búið hann til. Hann var álíka harður og veggur að mér fannst. Ég sagði við sjálfan mig að ég hefði búið til steypu. Hóllinn stóð eitthvað áfram. Á leikskólanum voru leikdagar. Á seinasta ári í leikskólanum var ég kominn með vísi af því sem átti síðar eftir að verða ógurlegt Playmósafn. Ég man bara eftir því að einu sinni lánaði ég Ómari hvíta playmóhestinn minn þar við gobbedíuðumst um borð og stóla. Í miðjum hamaganginum varð hesturinn þrífættur. Ég veit ekki hvar hesturinn er í dag, kannski er hann uppi á lofti. Ég veit ekkert um Ómar í dag.

Ein sú gjöf sem ég hef verið ánægðastur með voru perludemantarnir sem Baldur gaf mér eftir að við höfðum skoðað fokhelda Máshóla 17. Við vorum fimm og fórum þangað rakleiðis eftir leikskólann. Baldur hafði meðferðis bláa, rauða, gula og græna plast demanta sem mátti nota í perlufesti. Held að ég hafi ekki verið neitt sérlega hrifinn af perlufestum en hjartað var uppfullt af gleði þegar Baldur gaf mér góðan slatta af plastdemöntum. Demantar höfðu þá meiri merkingu fyrir mér en aðrir hlutir. Á heimili mínu var þýskt vídeótæki úr sjónvarpsmiðstöðinni. Úr vídeótækinu voru spilaðar spólur eins og Týndi gimsteinninn (Bleiki pardusuinn) og aðrar myndir þar sem óprúttnir aðilar vildu komast yfir demanta. En þær tvær myndir sem sitja sem fastast í mér frá því ég var fimm eða sex ára eru kúrekamyndin 100 rifflar og svo Goldfinger.

Þegar ég var 15 í 10. bekk þá fannst mér ég læra geðveikt mikið svona um hluti almennt, hafði ekki litið út um alla gluggana og uppgötvaði þá bara og það var ágætis útsýni. Tók þátt í ræðukeppni og viðburðum og bjó til stuttmyndir og söng einhver lög upp á sviði, ég var hreinlega í meiri félagslegum samskiptum en ég hafði verið, hef alltaf haft gaman af þeim. Gaurarnir sem ég leit upp voru 19 og 20. Ég fór á skólakynningu í Verzló og sagði amen. Það var ákveðið. Fór á einhverja ræðukeppni því ég var í ræðustússi og mér fannst þetta heví, enda töluðu kunningjar sem voru árinu eldri en ég um skólann eins þeir hefði himinn höndum tekið tveim (þetta er ekki alveg rétt orðað held ég). Svo fór ég í Verzló fannst hann alveg vera málið. Gaulaði lag í nemendamótinu og það var bara allt að gerast, svo þekkti ég aðalgaurana og hlakkaði til klífa bekkina.

|




17.3.04

17 lögmál persónulegs árangurs

Enn af guðspjallamönnum. Garpur nokkur sem kom á Klakann um daginn prédikaði það sem er hérna fyrir neðan um daginn. Húsfylli var í Borgarleikhúsinu og einhverjar verkefnastjórnunarhetjur lögðu orð í belg auk þess sem Magnús Scheving mætti og hélt tölu. Þið hafið eflaust lesið þessar lífsreglur einhversstaðar en hérna er samanþjappaður pakki.

1. Skýranleiki tilgangs: Grundvöllur alls árangurs er að vita hvað þú vilt.

2. Snillingslögmálið: Samstilling átaks tveggja eða fleiri manneskja í anda fullkomins samræmis / samhljóms til að ná tilteknu markmiði.

3. Hagnýt trú: Hugarástand þar sem markmið manns, langanir, áætlanir og tilgangur verða að veruleika.

4. Geðfelldur persónuleiki: Geðfelldur persónuleiki hjálpar þér að ná fullkomnu valdi á helstu ástæðu misbrests –vanhæfni til að eiga góð samskipti við fólk.

5. Að leggja aukalega á sig: Að veita meiri og betri þjónustu en manni er greitt fyrir að veita, að gera það alltaf og gera það með jákvæðu viðhorfi.

6. Persónulegt frumkvæði: Drifkrafturinn sem er upphaf allra aðgerða; krafturinn sem hvetur mann til að ljúka öllu sem maður tekur sér fyrir hendur.

7. Sjálfsagi: Hæfileikinn til að stjórna hugsunum okkar og tilfinningum. Sjálfsagi er það eina í lífinu sem maður hefur algjöra, óskoraða og óvéfengjanlega stjórn á.

8. Alger einbeiting: Æðsta form sjálfsaga, það að samræma alla hugarstarfsemi manns og nýta hana í einum ákveðnum tilgangi.

9. Eldmóður – ákafi: Smitandi hugarástand sem hjálpar manni ekki aðeins að öðlast samvinnu annarra heldur hvetur mann líka til að virkja ímyndunaraflið.

10. Ímyndunarafl: Æfing, ögrun og ævintýri hugans. Það nýtir gamlar hugmyndir og staðreyndir, raðar þeim upp í nýjar samsetningar og finnur ný not fyrir þær.

11. Að læra af mótlæti og ósigri: Erfiðleikar og mótlæti eru aðferð náttútunnar til að kenna öllum lifandi verum ýmsa hluti sem þær myndu ekki læra með öðru móti.

12. Að skammta tíma og peninga: Fólk sem hefur náð langt þekkir sjálft sig, ekki eins og það heldur að það sé, heldur eins og venjur hafa mótað það. Notkun tíma og peninga eru mikilvægustu venjurnar.

13. Jákvætt andlegt viðhorf: Til að stjórna eigin lífi þarf maður að geta stjórnað eigin huga og það er grundvöllur alls auðs, bæði andlegs og veraldlegs.

14. Nákvæm hugsun: Nákvæmur og góður hugsuður viðurkennir allar staðreyndir lífsins, bæði góðar og slæmar, og axlar þá ábyrgð að aðskilja þær og flokka, velja þær sem þjóna þörfum hans og hafna hinum.

15. Góð líkamleg heilsa: Lykillinn sem sameinar allar aðrar meginreglur og hrindir öllum hugmyndum í framkvæmd. Góð heilsa er grunnurinn að því góða í lífinu.

16. Samvinna: Samvinna er miðill sem gerir manni kleift að öðlast mikið persónulegt vald; fús samvinna og samræming átaks til að ná settu markmiði.

17. Vanavald: Vanavaldið er jafnvægislögmál alheimsins, grundvallar náttúrulögmálið sem öll önnur náttúrulögmál byggja á.

Amen...

|




Geðboðorðin 10

Það getur verið hollt fyrir þá sem eru eitthvað súrir að skoða einhverja speki, hvort sem er speki samtímaguðspjallamanna á borð við Brian Tracy, David Allen, Stephen Covey eða þá speki Stóu og Kristni eða þá bara geðboðorðin 10 frá Geðrækt. Smálesefni getur verið hollt.

1. geðorð. Hugsaðu jákvætt, það er léttara
2. geðorð. Hlúðu að því sem þér þykir vænt um
3. geðorð. Haltu áfram að læra svo lengi sem þú lifir
4. geðorð. Lærðu af mistökum þínum
5. geðorð. Hreyfðu þig daglega, það léttir lundina
6. geðorð. Flæktu ekki líf þitt að óþörfu
7. geðorð. Reyndu að skilja og hvetja aðra í kringum þig
8. geðorð. Gefstu ekki upp, velgengni í lífinu er langhlaup
9. geðorð. Finndu og ræktaðu hæfileika þína
10. geðorð. Settu þér markmið og láttu drauma þína rætast

|




15.3.04

DV

Blöðin sem koma heim til mín á morgnanna taka full mikinn tíma frá mér, er að spá í að skrifa á vegginn fyrir ofan rúmið "enginn blaðalestur á morgnanna". Ég bara festist stundum, og það sem ég hef gert undanfarna morgna er að byrja á DV. DV höfðar til annarra hvata, manni stundum ofbýður forsíðan og svo er það sumt efnið. Ég vil fá Jónas Bjarnasoon efnaverkfræðing til að skrifa fleiri greinar í blaðið. T.a.m. var grein í Fókushluta DV sem ég er að spá í að ramma inn. Þar er drengur sem segist sennilegast vera mest spennandi maður á Íslandi. Þetta er spurning um forsendur og sjónarhorn. Hvað ef mér þætti ég vera einn mest spennandi maður á Íslandi, eða á manni ekki að þykja það, ef manni þykir það lifir maður þá í sjálfsblekkingu? Getur maður talað sig upp, hæpað sig upp og sagt, ég er bara djöfull spennandi, er best að vera slakur, er maður spennandi áreynslulausk, án rembings. Er heimsmyndin smá hjá manni ef maður er þess fullviss um að maður sé ákaflega spennandi náungi, er orðið "mest spennandi" ekki fullafdráttarlaust. Ef maður segir þetta er það þá ekki eitthvað sem maður vill að aðrir haldi en er ekki alveg viss um sjálfur. Á maður að þurfa að segja það sjálfur, á það ekki frekar að vera þannig að einhver annarr sé þess fullviss. Ef maður kemur með svona fullyrðingu er það þá til þess að aðrir haldi það og maður sé að tala sig upp um deild. Hvað er það sem gerir fólk ótrúlega spennandi, er það vinna, menntun, vinir, áhugamál, fjölskylda, búseta eða bíll. Er maður spennandi ef maður talar bara með rassgatinu eða getur fleigt fram tilvitnunum úr verkum Tolstoj, rætt um þætti í óperum Verdis og Puccinis - spurning? Eða er þetta nokkur spurning? Þetta er engin spurning, þarf að ræða þetta frekar, nenni ekki að tala frekar um þetta.

|




9.3.04

Sambandsleysi

Hef verið sambandslaus við umheiminn. Nettenging mín liggur niðri og einnig hafa símamál verið í ólestri. Hef þess í stað einbeitt mér af því að læra meira sem er gott, einnig hef ég hripað niður frekar þunga og torræða pistla sem ég hyggst setja á vef.

|