23.2.05

Ógagnvirkur áhrifavaldur

Nokkrar spurningar vakna með orðinu gagnvirkni. Gagnvirkar netsíður, gagnvirkt sjónvarp, gagnvirkar auglýsingar... nei, ehe, auglýsingar eru ekki gagnvirkar. Við neytendurnir erum það sem máli skiptir, við höldum hagkerfi heimsins gangandi. Framboð og eftirspurn ráða ferðinni. En hvað veldur því að eftirspurn eftir hinu og þessu skapast? Auglýsingar eru af ýmsu tagi. Sumir auglýsendur auglýsa til að halda stöðu sinni á markaði eða auka hana. Auglýsingafræðin eru þverfagleg og sem fræðigrein byggð upp á grunni sem mætti nefna hagnýt vísindi rétt eins og verkfræði er hagnýting raunvísinda. Auglýsingafræðin reyna að kortleggja markaðinn og neytendurna með sálfræði, félagsfræði, landafræði og statistík af ýmsum toga. Hef fjallað um þetta efni einhvern tíman. Auglýsingarnar eru þýðingarmiklar þegar ný vara kemur á markað og akur er plægður. Þegar akur er plægður og sáð í hann þarf að bíða uppskeru og oftar en ekki tekur tíma fyrir markaðinn að taka við sér, þannig að vara byrjar ekki að tikka í sjóðsbókum samsteypa og fyrirtækja á degi 1 – velgengni er langhlaup. Dæmi um þetta eru 1944 réttirnir. SS stækkaði neytendabás tilbúinna rétta en það gerðist ekki á degi 1. SS þurfti að ryðja brautina og koma því inn í höfuðið á okkur að þetta væri eitthvað sem þörf væri á og gæti nýst okkur í dagsins önn. Varan byrjaði ekki að seljast að ráði fyrr en eftir 18 mánuði að mig minnir. Ljóst var að þörf væri á vöru af þessu tagi, langur vinnutími veldur því að einstaklingar vilja eyða frítíma í eitthvað annað en eldamennsku - kannski helst um helgar. Fólk á mínu reki kann að elda gourme rétti en undirstöður vantar í þessu hversdagslega sem 15.000 kr. Matreiðslubók Nönnu kennir okkur. Vegur heitu borðanna í verslunum hefur aukist frá degi 1 hjá 1944.



Vörur hafa líftíma og líftímakúrfa 1994 er vel ofan við 0-ásinn. Með því að halda markaðshlutdeild þarf varan að vera góð, sem hún er og einnig þarf að stunda nýsköpun. Vörur deyja út eins dýrategundir, aðlögunarhæfni getur verið í formi nýrra umbúða og tilbrigða af vörunni. En sumar vörur lifa ekki lengi, hver man ekki eftir drykknum Gosa og Póló. Fyrirtæki á borð við SS og MS eyða ákveðinni prósentu af veltu í nýsköpun. Ef skorið er á nýsköpun getur það verið upphafið á endinum. SS sagði okkur ekki að varan væri góð með því að telja upp næringarinnihald hennar líkt og gert hefði verið 30-40 árum fyrr. SS sýndi fallegt fólk í dagsins önn á öllum aldri á þeytingi borða 1994. Auglýsingarnar klikktu svo út með því að þulur sagði alla borða 1944 - við ákváðum sjálf hvort við værum í hópi hinna útvöldu. Allir borða sjáflstæðiðárið, hugsa um íslenska fánann og Jón Sigurðsson. Þjóðarréttur sem lifir góðu lífi og enn hefur engin velt honum úr sessi, rétt eins og Sprite, sem fallega fólkið drekkur og allir hinir.

Blaðasnápar spyrja í spurningadálki sýnum: Hafa auglýsingar áhrif á þig. Fólk svara já og fólk svarar nei. En viti menn, auglýsingarnar virka á báða hópanna. Það eru nefnilega til auglýsingar fyrir þá sem segjast ekki verða fyrir áhrifum. Miðillinn kann á okkur. Sjónvarpið talar við okkur en það heyrir ekki í okkur, það hefur ekki eyru – engin gagnvirkni. 1944 selur sig með tilbúinni ímynd eins og flestar auglýsingar. Við þekkjum þetta. Vörur eru fastar inn í undirvitund okkar og mig langar í skyndibita við að heyra orðið pítsa eða kjúklingaborgari, hvað þá að sjá auglýsingu í sjónvarpinu. Satan býr í imbanum og segir okkur að borða McFrænda og drekka kók í öll mál. Engin hamingja ef við fylgjum ekki Satan, svo fáum við kannski sykursýki í jólagjöf einn daginn.

Hvað er hægt að gera, eigum við að gefast upp og meðtaka mötunina – er eitthvað að því? Mæli með Fast Food Nation á Amazon.co.uk eða í Mál og menningu.

|




18.2.05

Mas

“Þú ert eins og Kjartan frændi þinn, talar og talar. Þú verður að vera hnitmiðaðri í framsögn”. Þetta hefur pabbi sagt fjöl oft við mig. Hef tekið þetta til greina og reynt við knappari framsetningu hugsana minna. Held mér hafi orðið eitthvað ágengt, kjarninn verður að komast til skila á knappan og hnitmiðaðan hátt, annars missir viðmælandinn athyglina og fer að horfa yfir öxlina á þér. Fátt eitt er betra fyrir masarann taumlausa en að hitta fyrir einhvern á sama reiki í masinu. Þá kristallast mas í belg og biðu fyrir honum. Hann sér viðmælandann speglast í sjálfum sér. Þá er um að gera að hefja hæggengt ferli breytinga. Einn góður vinur minn sagði mér að eitt sinn þegar við spjölluðum í síma hefði hann lagt tólið frá sér og tölt sér niður til pabba síns, komið svo aftur 10 mínútum síðar og tekið upp tólið. Æ, hvað á ég að segja...
Svo ég snúi mér að persónulegri málefnum þá hef ég farið á nokkur stefnumót um ævina. Í kringum tvítugt fór ég á stefnumót með stelpu sem ég hitti á skemmtistað. Ég mótíveraði mig fyrir stefnumótið, var nokkuð stressaður, með nokkur topics bak við eyrað. Á stefnumótinu held ég að ég hafi verið nokkuð hæper, malaði og malaði, hafði frá mörgu að segja – hvort þetta hafi ekki verið Árni frá a-ö. Kannski ekki öll ævisagan en smá innsýn á því áhugaverðasta. Svo þegar ég kom heim þá runnu á mig tvær grímur. Var ég alveg óður, hvað var ég að fara, hvílík sturlun og stórslys. Ég beindi myndavélum að mér úr öllum áttum til að sína að einstaklinginn mig eins og demant - það fer nefnilega eftir því hvaðan ljósið skín á gimsteininn hvaða ásjónu þú færð á hann, reyndi að sína allar á mér. Ég masaði 70-80% af tímanum, x?j%&#. Stefnumótið var ágæt lexía og ekkert varð af stefnumóti nr. 2 – reynslan er harður meistari. Hef verið nokkuð afslappaðri síðan – vona ég. Bar þetta undir vini og þeir sögðu stelpur vilja tala, leiðandi spurningar væru vænlegri til árangurs. Hef haft þetta hugfast síðan. Fór á stefnumót í fyrravetur. Hitti úrvals-stelpu nokkrum sinnum á skemmtistað. Úr varð stefnumót þar sem við hittumst á low-profile stað. Þetta var erfitt stefnumót. Sama hvað ég reyndi, ég fékk bara já og nei svör og ég þurfti að hafa mig allan við til að fylla upp í klukkutímann. Ekki varð af frekari kynnum, ég var kannski fullharður – heyrði síðar að stelpan væri mjög feimin. Ég gæti fjallað um fleiri spaugileg stefnumót eins og t.a.m. línuskautastefnumótið þar sem ég steig á línuskauta í fyrsta skipti eftir að hafa keypt þá hálftíma áður, meira af því síðar.
Það er með masið eins og aðra hluti, maður galla sína, ef galla skyldi kalla einna best þegar maður sér sjálfan sig speglast í öðrum. Þá er um að gera að fara í naflaskoðun og finna út hvað betur megi fara. Takmarkið er að verða betri maður í dag en í gær og það tekst ekki nema með síkviku umbótaferli, meðvituðu sem ómeðvituðu. Það er bannað að rembast.

|




Swing...

Það er swing dansnámskeið í íþróttahúsi háskólans um helgina, kennt báða daganna. Ég hef verið bænheyrður af stúdentaráði. Áður en ég held lengra þá ætla ég að reyna telja mér trú um að danskennsluhugmyndin sé runnin undan mínum ryfjum. Ég fór á stefnumótunarfund hjá H-listanum í fyrra að beiðni vina minna og úrvalskappanna Boga Guðmundssonar og Jóa Líndal (hef kosið allt mögulegt í HÍ). Líflegur fundur þar og ef ein rödd sem ákvað fyrir löngu síðan að taka ekki þátt í stúdentapólitík fengi að segja nokkur orð og hafa áhrif á stefnumótun, þá var þetta staðurinn. Ég ræddi ekkert um lánamál enda hafa þau ekki snert mig. Það er hægt að ræða ýmislegt annað en um lánamál í stúdentapólitík. Meðan á dvöl minni í háskólanum hefur staðið þá hefur mér þótt vanta á samkennd meðal háskólanema. Nokkuð hefur verið gert og er nýnemavikan dæmi um það. Best heppnuðu uppákomur nemenda háskólans finnst mér vera bjórhátíð þýskunema. Yfirburðaframtak sem á sér vart hliðstæðu. Einnig voru Þórsmerkurferðir verkfræðinema líflegar áður en Langadalsbúllunni var lokað, nú skunda háskólanemar á Skóga en ég held að auðvelt væri að finna skemmtilegri stað í skóglendi í námunda við Húsafell og Borgarfjörð (lítið tjaldgjald þarf að greiða fyrir leigu á túnum eða álíka landspildum). Verkfræðinemar eiga að hugsa lengra, búa til litla útihátíð með takmörkuðu sætaframboði aðeins fyrir háskólanema. Það er ekki mikið mál að leigja rafstöð, klósett, risatjald, borð og bekki og græja leiki, kvöldvöku, varðeld og dansleik með hljómsveit sem miðpunkt laugardagskvöldsins - hef ágætis reynslu af svona löguðu eftir að hafa staðið í eldlínunni fyrir Siglunes í árlegri starfsmannaferð ÍTR á Arnarstapa 2003. Nú er Stúdentakjallarinn orðinn sá virki staður sem ég sá hann alltaf fyrir mér, þökk sé Magga x-Delimanni og þeim sem fetað hafa í fótspor hans. Ég fór í námsferð til Þýskalands eitt vorið. Skoðaði m.a. tvo háskóla og annar var Háskólinn í Karsruhe. Við vorum á heimleið eftir gleði þegar mér var litið inn um franska glugga á byggingu við torg háskólans. Þar sá ég danskennslu fara fram, ég var bergnuminn. Ég fór að velta ýmsu fyrir mér upp frá því. Það eru ýmis tækifæri sem má nýta betur til að ná meiri samkennd meðal nemenda – þá er ég að tala um smærri atburði. Margt smátt gerir eitt stórt. Eitt af púslunum er ÍS, Íþróttafélag stúdenta. ÍS heldur úti blak- og körfuboltaliði sem er ágætt útaf fyrir sig, en það nýtist fáum háskólanemum. Ég vil sjá íþróttafulltrúa HÍ skipaðan og gera ÍS að almenningsíþróttafélagi í þágu stúdenta. Ég nefndi þetta á H-lista fundinum. Þar greindi ég frá því að ég vildi sjá víðavangshlaup og danskennslu, íþróttaskóla fyrir börn stúdenta á laugardögum (reyndar hefur svona skóli hafið göngu sína nú í vetur) og sitthvað fleira. Ég vildi að á könnu íþróttafulltrúans væri yfirumsjón með sameiginlegum íþróttaviðburðum og viðburðum milli deilda. Margar skorir hafa íþróttafulltrúa en ekki er mikið samstarf þeirra á milli. Það er ýmiskonar starfsemi úti í bæ sem snýr að dansi og íþróttum en ég hef það á tilfinningunni að stúdentar séu ekki eins virkir og þeir gætu verið. Flestar skemmtanir tengjast áfengisneyslu á einn eða annan hátt. Það er hægt að bæta við. Almennt klúbbastarf er ekki virkt, hef heyrt góðar sögur frá kunningjum sem numið hafa í Noregi og Svíþjóð. Á haustin væri hægt að bjóða upp á siglingar í Siglunesi í samstarfi við ÍTR, skautakvöld á tjörninni þegar færi gefst og dansnámskeið í íþróttahúsinu, sem nú virðist vera orðið að veruleika. Það eru svo margir sem sitja heima og horfa á Friends-þætti. Hægt er að virkja fólk upp úr sófunum. Það er mikið að gera í náminu en það er held ég alltaf tími fyrir svona nokkuð. Það sem mælir móti þessu er að stór hluti háskólanema kemur af höfuðborgarsvæðinu og þarfnast ekki aðstoðar við félagsiðju sína, fólk hefur sinn vinahóp og sinnir honum, einnig er vart bætandi á félagsstarf í deildum eins og verkfræðideildinni þar sem ekki er dauður föstudagur allt skólaárið, en ekki eru allar deildir og skorir svona virkar. En það sem mér hefur þótt miður er að hver deild er í sínu horni, ég hef dvalið mína hunds- og kattartíð í VR ásamt verkfræði- og raunvísindanemum og lítið séð af fólki úr öðrum deildum nema þá hjúkkur á árshátíð og hagfræðinema á Hagfræði-verkfræðidaginn. Háskólatorgið er frábær hugmynd sem er á teikniborðinu og rektor hefur talað fyrir. Svoleiðis bygging myndi rúma mötuneyti, (eitt sinn var starfrækt mötuneyti við HÍ) þar sem stúdentar gætu borðað eitthvað annað en Sómasamlokur og Delibrauðbita sem er ágætis fæða svo langt sem hún nær, og sali og félagsaðstöðu fyrir millistórar skemmtanir stúdenta. Það er nóg af fólki sem langar að vinna að félagsmálum en finnur sig ekki í flórunni sem er til staðar, íþróttamál eru m.a. vettvangur sem ég held að margir stúdentar með höfuðið fullt af hugmyndum væru til í að starfa á. Þannig að kannski á ég örlítið í Swing-danskennslunni eða kannski eru þetta bara hugarórar í mér. En kannski maður swingi á laugardaginn í Íþróttahúsi HÍ, ef ekki sjáumst í þrektíma hjá Gumma Ólafs íþróttakennara á mánudögum, miðvikudögum og föstudögum kl. 16:00, kíkjum svo í háskólasaununa sem er nota bene eitt best geymda leyndarmálið innan HÍ eftir að prentkvótinn var settur á prentarana í tölvuverum 3. árs véla- og iðnaðarverkfræðinema (2. hæð VR) og umhverfis- og byggingarverkfræðinema (3. hæð VR).

|




17.2.05

Ég dansa ekki...

Ég dansa ekki, stelpur dansa, ég dansa ekki, stelpur dansa... lüftgítar. Svona hljómuðu orð Sjóns við lagið Lüftgítar. Veit ekki fulla meiningu en ég hef alltaf fílað þetta lag. Eflaust hefur þessi fjórmenningur föður míns dansað víða við spúsu sína og alt óperusöngkonuna Ásgerði Júníusdóttur. Eitt sinn dönsuðu strákar ekki, og ef þeir dönsuðu þá voru stelpurnar skopparakringlur sem strákarnir fleygðu hægri-vinstri, hentu upp og niður og gripu eða misstu. Reynslan er harður meistari. Tískuslys geta orðið og einnig stórslys á gólfinu. Innsæi, tilfinning og þekking spila stóra rullu þegar kemur að leðurbotnum og parketfjölum, svo má ekki gleyma sjálfstraustinu sem er hvatinn að öllu saman og innbyggðum takti hvers og eins. Svo við skiljum hvort annað þá kemur pistill minn að amatörum, svona fólki eins og mér og þér. Við vorum aldrei hjá Jóni Pétri og Köru, Bára tók okkur aldrei í djassballetttíma og afró er ekki okkar kaffi enn.

Ég tek það fram hér að fyrsta vangadansinn dansaði ég 12 ára við Margréti fv. nágranna minn. Þetta var á 12 ára kvöldi í Hólabrekkuskóla. Margrét var 15 ára og svaka skutla, tók þátt í Elite keppni 2 árum síðar. Ég var upp með mér, fannst dansinn heví og greiðastarfsemi hennar var góðverk gagnvart nágrannanum mér.

Þegar teknóið var í mikilli sveiflu og ég í 10. bekk þá var plötusnúðaráð einnig hliðhollt teknóinu með MIM (Mind In Mosion) í broddi fylkingar og hátalarar þandir í ógnarstórum sal skólans. Ég skil ekki enn í dag hvernig sumir dönsuðu við teknóið, hef ekki séð neinn dansa svona hvorki í dag né í myndböndum frá þessum tíma. Eftir að hafa starfað þó nokkuð lengi að unglingastarfi í félagsmiðstöðvum ÍTR þá hefur mér orðið ljóst að dansmenningin í Hólabrekkuskóla var ekki langt á veg komin, kannski í lægð og unglingarnir ekki búnir að ná tökum á taktinum enda ekkert PoppTíví - það er ekki sama, þá og nú. Maður dansaði ekki mikið, jú samt eitthvað, en lunginn af krökkunum sat á borðum meðfram dansgólfinu eða labbaði um svæðið, vafrandi og spjallandi um ekki neitt, grín og brandarar og eitthvað svoleiðis, jú svo var hægt að spila borðtennis inni í saumastofu sem var inn af salnum.

Ég vann á balli í Vogaskóla áðan. Tveir menningarheimar hittust á vinaballi Langó og Vogó. Hátalarar biluðu svo aðrir voru sóttir. Oft hefur það sannast að dj-inn þarf að hafa tötsið fyrir tónunum. Dansinn er tjáning án orða og reynist unglingum misauðveldur, en lokadans kvöldsins var vangadans þar sem stelpur dönsuðu við stelpur og strákar dönsuðu við stelpur. Í félagsmiðstöðinni dansa stelpur á mánudögum og miðvikudögum á góðum degi og Páll Óskar náði nýjum hæðum sem dj á Nýársballi í Borgarhluta 2.

Við amatörarnir, þ.e. ófaglærðir skemmtistaðadansarar, erum mislangt komnir á þróunarbrautinni. Sumir ná aldrei lengra en að verða homo habilis eða erectus að því gefnu að við byrjum sem austrolopithecus (stofninn á ættartré mannsins - þið munið hana Lucy - var það hún Lucy eða LCD þegar Bítlarnir sungu Lucy in the skies with Diamonds, formóðir sem stjarna á himinhverlfingunni) ef við líkjum dansinum við þróunarsögu mannsins. Þeir sem ná nokkuð langt eru homo neandertalensis og þeir sem ná lengst eru homo sapiens (viti borinn dansari). Við getum svo nefnt önnur þroskastig eins og homo ergaster eða homo rudolfensis. Það má líkja amatörnum við ófulltíða ungling þar sem sjálfstraustið er mismikið, yfirsýn ekki næg og dansspor prófuð - ákveðin trend koma og fara. Aðalatriðið er að sleppa sér, vera óhræddur við nýjungar því annars þroskumst við ekki á gólfinu og dansfróunin verður minni. Aðlögunarhæfnin gerir það svo að verkum að við komumst lengra á þróunarbrautinni rétt eins og líkingin að ofan segir til um.
Dansarinn getur gefið steitment eftir gír hverju sinni, t.a.m. þýðir bindi á enni að viðkomandi sé funheitur (on fire), í 5 gír. Dansinn er línudans í sjálfu sér því varhugavert getur verið að ofhitna, þá er nauðsynlegt að vera með handklæði og 1-2 aukaboli því ekki nær dansarinn öllum svitanum úr bolnum með því einu að vinda hann vel. Dansklæðnað verður hver og einn að velja eftir sinni hentisemi. Hann þarf að vera best til þess fallinn að laða fram sjálfstraustið í okkur. Amatörinn getur fundið sig vel í óhefðbundnum dansi, líkt og fugladansi, þursadansi, leikandi mann á slátturvél, leikandi markvörð, taktleysisdansi og hvaðeina sem er fyrir atvinnumanni sem hreint dansklám, þ.e. útjöskun á gólfi og leðurbotnum. Fyrir mér er munurinn á amatör og pro dansara, munurinn á hermanni (soldier) og stríðsmanni (warrior). Hermaðurinn kann öll trikkin í bókinni og viðhefur agaðar kórréttar hreyfingar, gerir hlutina hratt og örugglega, allt er innan rammans - jafnvel sést fyrir örlítill ástríðublossi í fyrirfram úthugsuðum hreyfingunum, hann gerir hlutina rétt án þess að hugsa. Stríðsmaðurinn dansar sem ólgandi sósa í potti, ófyrirsjáanlegur þar sem stemmingin gegnir lykilhlutverki, ósamhæfðar hreyfingar sem eru hluti af stóru myndinni - þ.e. gleðinni. Stríðsmaðurinn er ekki skipulagður og veit ekki hvort hann er að koma eða fara, miðpunkturinn er trans. Samanburðurinn er ójafn, við munum hvernig hermennirnir sölluðu indíánana niður, töpuðu stöku orrustu en stríðið vannst. Handboltaleikur milli Rússlands og Alsír sýnir glögglega muninn á amatör og pro. Alsíringarnir geta glatt augað, en við vitum öll hvernig fer að lokum.
Fyrir nokkuð mörgum árum fann ég mig vel í silfurjakkafötum sem ég fékk fyrir söng í áramótapartíi hjá Sævari Karli, hlutastarfsvinnuveitanda mínum. Silfurfötin mín eru nú komin á eftirlaun enda svitnaði ég eins og svín í þeim og Kaðallinn er enn með þau í láni eftir grímupartí í Siglunesi þar sem hann var í hlutverki Sonny Anderson a.k.a. Miami Vice.

Ég hef gefið út þá yfirlýsingu að forgangsröðin sé samkvæmisdansar fyrst, golf síðan. Þar sem áttræð amma mín stundur mini-golf og línudans af miklum móð finnst mér ég fullstutt á veg kominn eftir tímalínunni til að feta í fótspor hennar. Ef það er orka í búknum á maður að gera eitthvað annað en að golfast og dansa línudans. Stefnan var sett á að finna dansnámskeið sl. sumar ásamt félögum, break-dans, hip-hop eða freestyle... en tíminn var lítill svo dansinn bíður enn. Varðandi samkvæmisdansana þá er hræðilegt að þurfta láta dömunni herrahlutverkið í té, maður er ófullfær um að leiða, er kominn á hálan ís ef sporin eru suður-amerísk.
En dansarinn áttar sig á því eftir þrautargöngu um dansgólfið á leðurbotnum að hver vegur að heiman er vegurinn heim. Þegar við erum búin að dansa í hring, þ.e. frá austrolopithecus að homo sapiens, sjáum við að það eru það sömu vopnin sem við notum frá upphafi að leiðarenda – sjálfstraust og innsæi. Gleðin fellst í að sleppa sér á skipulagðan eða óskipulagðan hátt, taumleysi í takt. Dansinn tekinn á ipponi og gólfið pínt. Þá er eins, þá og nú. Sjón hafði dansafélaga í raun, ekki stelpu heldur Lüftgítar.

|




15.2.05

Gabríel og Satan leysa þrautina “Sálum snúið með frjálsri aðferð” #3

Satan og Gabríel höfðu lokið við fyrstu þrautina.
Hvernig í sjálfum mér gat ég látið hafa mig út í þessa vitleysu, tautaði Satan. Orðinn þreyttur á þessum heimskulegu leikjum, en þessi vígvöllur verður minn vígvöllur, held ég eigi bandamenn hérna. Ísland er skrítið land. Þetta hraun á vel við mig, minnir mig á tunglið. Glufur í hrauni opnast, fólk dettur niður og þá búið, hver heyrir hjálp í óbyggðum án sambands. Nóg af glufum í sálum fólks og í landslaginu. Jöklar sem fóstra verðandi beljandi fljót og iður jarðar sem hita. Hverir og leirböð – allt það sem ég hef heima í helvíti. Minn heimavöllur, ójá. Þessi skeina á hnénu getur orðið dýrkeypt, ætti ég að breyta mér í svartan pardus, loppurnar höndla bara ekki þetta apalhraun, frekar áttfættan hest með þrjú horn, gæti kannski áunnið mér vinskap álfanna, ég sé þá en landinn ekki. Kvikan í Gabríel er þunn eins og pappír, ég get rifið hana, krumpað og kveikt í á góðum degi. Langar að losna við þennan aftaníossa guðanna, þeir elska hvíta sæta afglapann og jámanninn. Þessi fyrsta þraut var erfið, Gunnar Kross var ólseigur biti. Hélt þetta væri ekki gerlegt.

Satan hafði tekist hið ómögulega, að snúa Gunnari í Krossinum frá Guðs vegum - vegir drottins eru órannsakanlegir, hver hefði trúað hinu ótrúlega. Verkið fullkomnað og siðferðispostuli hreintrúargilda farinn fjandans til. Gunni var eins og fasti, eitthvað óbifanlegt - sannfæring svo staðföst að þegar þetta fréttist var eins og Suðurlandsskjálfti hefði riðið yfir sálir fólks. Fyrst Mogginn birti myndir og skrifaði um atburðinn þá hlyti þetta að vera satt og rétt, sögðu Önundur í Unufelli, Grímur í Grímsbæ og Halla í Hvassaleiti. Landsfaðir og undirsátar höfðu ekkert látið hafa eftir sér, nema að svo bregðast krosstré sem önnur tré. DV leitaði skýringa og Fréttastofa Stöðvar 2 sat um hús Gunnars. Lögreglan vildi ekkert aðhafast, sagði Gunnar hafa átt þessar kindur, blóðið væri í rannsókn og það væri hans mál hvað hann gerði við sinn líkama. Það væri ekki í þeirra verkahring að garfast í hans málum, dýrin heyrðu ekki undir þeirra starfssvið, heimaslátrun væri reyndar ekki leyfileg en engin vitni voru að verknaðinum, bara ljósmyndir af Gunnari tattúveruðum rauðum röndum frá 0-185 cm. Fórnaraltarið gæti selst á e-bay.

Satan hugsaði með sér, hvernig ætli Gabríel hafi tekist til með sitt verkefni, hann hefði nú getið setið fyrir mér en kannski var hann að plotta eitthvað annað, það er reyndar ekki eftir bókinni, hann er svo fyrirsjáanlegur. Hættulegur því hann gengur beint til leiks og hans dagsverk nánast búið áður en vísifingri vinstri handar er lyft.

Á vígða skál í skuggum trjánna skenkti Gabríel kokkteilinn syndaaflausn-fyrirgefning. Hann fór á bari, í fangelsi, hitti byggingarverktaka á sjöttu kennitölu, spillta stjórnmálamenn og ríkisforstjóra og hellti í glas þeirra drykknum góða. Eftir nokkra sopa byrjuðu þeir hinir sömu nýtt líf. Urðu góðir eiginmenn, gáfu upp og greiddu skatta, hættu svindli og fyrirgreiðslum, fóru í kirkjur og blessuðu drottinn. Eitt stórt amen. Efnileg vonarglæta í versnandi heimi.
Íslendingar voru ginkeyptir fyrir húmbúksmergunarkúrum í formi formúlu-ávaxtasafa og dufts. Gabríel kom nýju trendi á fót. Aflátsbréf forsetaframbjóðans fv. voru prump miðað við þetta töff stöff hjá Gabríel. Þessi auglýsing með kokkteilnum syndaaflausn-fyrirgefning var hreint súper. Mektarfólk sem áður hafði verið handgengið Satani sagði: “Ég var nýr maður eftir nokkra sopa – ekki fara á mis við lífsins listisemdir – drekktu til að gleyma, það kemur ekki nýr dagur á morgun, það kemur nýtt líf... “

Gabríel hafði leikið viturlega. Satan valdi jaðarmann sem gat vart talist áhrifamaður, nema hjá fólki sem hafði lítil sem engin ítök. Fyrst hann valdi það verkefni að leika sér með sértrúarsöfnuð þá hefði hann frekar átt að velja Fíladelfíu. Sá söfnuður hafði þó mikil áhrif innan Framsóknarflokksins og djöfulgangur þar hefði jafnvel getað lamað ríkisstjórnina að hluta.

Satan sagði sitt val hafa verið auðvelt, hann vildi hrella fólk með sjónleik og sýna fólki hversu tilveran væri brothætt þegar hinir staðföstustu þjónar létu bugast og gengu öðrum öflum á hönd. Hversu megnugur hinn almenni borgari gagnvart mótbyr sem í aðsigi var þegar Gunnar lét bugast. Satan hafði byggt skýjaborgir og séð taumhald þjóðfélagsins losna og siðferði gufa upp, hann bjóst við sálarverðbólgu og orsakavaldurinn væri ofneysla á skyndilausnum til bjargar sálinni - engin vildi verða Gunnarsveiki að bráð, var sögð bráðsmitandi veikum sálum. Það bjargar sér hver sem betur getur þegar náungakærleikurinn er floginn útum gluggann. Gunnar hafði haft umskipti – áður sannfæring svo sterk að engin gat henni bifað, staðfastasti maður sinnar kynslóðar svona rétta eins og Helgi Hóseason áður. Fyrir atburðinn gátu hvorki vindurinn né regnið fengið hann af skoðun né ákvörðun sem tekin var, hans orð kom frá alföðurnum eins og safnaðarmeðlimir vissu. Því var þannig háttað að fáir efuðust og þeir sem létu í sér heyra var kunngert að þeir væru ekki í hópi hinna útvöldu og þyrftu að finna sér nýja hjörð. Þessi táradalur sviðinna orða gerði mörgum óleik og enduðu margir sjálfviljugir á baðkars- eða sjávarbotni, blóði drifin sál og líkami þoldi ekki meira, helvíti beið í dag og á morgun, því ekki að fara þangað sem fyrst að steikja hamborgara með Tomma á rokkinu fyrir Loka Laufeyjarson og fleiri svanga kjamma. Atburðirnir komu sem atburðirnir þruma úr heiðskýru lofti fyrir safnaðarmeðlimi sem nú mældu margir hverjir götur bæjarins því herinn var höfuðlaus og tilveran á hvolfi.

Eftir fyrstu þraut hafði bil stétta aukist, gott og slæmt? Svikulir valdhafar hvítþvegnir og fengu amen-ásjónu, urðu sem þæg lömb sem breyttu rétt en meðlimir sértrúarsafnaða sátu eftir með sárt ennið í öfugsnúinni tilveru og biðu vítisvistar.

Satan varð að gera betur í næstu lotu, þurfti að finna betri markhóp.

|




Satan og meistaramótið

Annasöm helgi að baki, lítið sofið í síðustu viku og meistaramótið að baki, botnlausri vinnu hjá Árna og Steinþóri sem var óumflýjanleg er lokið. Kata var límið sem hélt þessu saman. Reyndar tóku stórstjörnurnar ekki þátt, en efnilegt ungviði og Óli Guðmunds létu ljós sitt skýna. Bjóst reyndar við meiri fjölmiðlaumfjöllun þar sem ég var duglegur að senda póst og hringja, en svona er þetta, gildismat íþróttafréttamanna er misjafnt og sumar íþróttir eiga ekki upp á pallborðið, kannski breytist það síðar. Meistaramót Íslands í frjálsíþróttum er tvisvar á ári, inni og úti, en körfuboltaleikir karla og kvenna allan veturinn. Margt þetta íþróttafólk sem tók þátt æfir 10x í viku á móti 4x í körfunni, Helgarsportið hefði mátt sýna meiri áhuga. Sagan um Satan og Gabríel heldur áfram og von er á nokkrum línum bráðlega - fer eftir nennu minni.

|




Fyrirheitna landið

Haraldur, ertu þarna? Haraldur, svaraðu mér! Erik bankaði og bankaði en fékk ekkert svar. Hann hafði hamast og hamast, sparkað og sparkað, reynt fortölur, svívirðingar, saur og kallað til miðil en Haraldur vildi engu svara.
Erik fór á fætur, klæddi sig og burstaði í sér tennurnar meðan hann gerði morgunverkin. Cocoa-Puffs fyrir lyklabörn, hafragrautur fyrir Erik.
Maímorguninn var sólríkur eins og aðrir morgnar fyrirheitna landsins. Akrarnir gáfu fimm uppskerur á ári og engan áburð þurfti. Erik burstaði elginn sinn meðan hann hlustaði á Útvarp Hólpinn. Kennarinn yrði ánægður að fá heimadæmin. Það voru ekki margir fjórtán ára drengir sem gátu státað af því að skrifa sex ritgerðir á tveimur dögum og klára stærðfræði 5-8. Hann var meira segja stundum kallaður A. Þeim þótti það fyndið strákunum. Gáfnaljósið Erik var sólskinsdrengur sem bundnar voru væntingar til.
Erik steig á bak elg sínum og saman þeystust þeir af stað, mikið verk var fyrir höndum, bera þurfti út Gleðitíðindi til allra bæjarbúa fyrir fyrsta tíma morgunsins.
Þarna voru frú Hamingja og herra Sigur, frú Glettin og herra Glettinn, allir fengu lesefnið á réttum tíma og gátu lesið um kraftaverk í nærlægum bæjum, allt það sem þurfti til að takast á við óskir umheimsins. Fyrirheitna landið var sannkallað himnaríki. Græn engi og gullnir akrar, blóðrautt sólsetur og heiðskýr sólarupprás; staðurinn sem þið þekkið af póstkortum.
Skóladagurinn var hverjum öðrum líkur, sem betur fer, hann var fullkominn. Þegar heim kom hóf Erik dagleg húsþrif, hann fór herbergi úr herbergi uns hann stoppaði og stirðnaði upp, hann trúði ekki sínum eigin augum. Erik hljóp niður með tárin í augunum og sagði kjökrandi við móður sína, hvar er Haraldur! Móðir hans svaraði, “ég henti honum, þú ert orðinn svo stór strákur að mér fannst þú eiga skilið eitthvað betra.” “Hvernig gastu hent Haraldi, Haraldur var mér sem bróðir, ég finn aldrei dýnu sem þessa á ný. Ég vil ekki þetta ameríska rúm”. Erik varð aldrei samur á ný.

|




10.2.05

Einfeldningurinn / barnið

“Ég hef aldrei farið í vinnuna – ha, rétt! Ég geri bara það sem mér finnst gaman.”

Þetta eru orð Borisar Berezovsky (’46), milljarðarmærings sem efnaðist í Rússlandi við lok kalda stríðsins og á 10. áratugnum. Berezovsky er með fullnaðarpróf (doktorspróf) í stærðfræði og óþreyjufullt sjarmatröll sem hefur á undanförnum 15 árum efnast óheyrilega m.a. vegna ófullkomins lagaramma í Rússlandi og vegna þess að hann var fljótari en aðrir að átta sig á tækifærum morgundagsins. Greini frekar frá kappanum þegar ég hef lokið við lestur bókar David E. Hoffman, “The Oligarchs – Wealth and power in the new Russia”. Bókin fjallar um sex af helstu auðmönnum Rússlands og misskítuga leið þeirra að auðæfum sínum og völdum.

Ég er ekki fylgismaður patentlausna, feta oft þröngt einstigi en einfaldar lausnir eru yfirleitt bestar. Fegurðin liggur í einfaldleikanum.

“Þú verður að horfa á heiminn í gegnum augu barnsins.”

Þessi orð eru höfð eftir ofangreindum Berezovsky. Við endalok Sovétríkjanna leitaði hann tækifæra sem hægt var að auðgast á. Hann var réttur maður á réttum tíma.

Barnið sér hlutina í svarthvítu. Það er rétt og það er rangt, aðalatriðin eru skýr, það eru engin aukaatriði. Brátt sér fyrir endann á skólagöngu minni í bili og því ekki að setja á sig krakkagleraugu og spá í spilin. Hvað finnst mér gaman og hvað langar mig að gera. Hvar er von að ég geti gert eitthvað skemmtilegt og haft eitthvað upp úr því. Ýmislegt er skemmtilegt en það gefur ekkert af sér. Vinur minn sagði eitt sinn við mig eitthvað á þessa leið: “Þú ert það sem þú þénar – þannig skipar þú þér í stigveldisröð fullorðinna”. Mér fannst þetta ógnar órómantískt og keypti þetta ekki alveg, svona á yfirborðinu, en orðunum gleymdi ég ekki. En vinur minn er kominn í ágætis álnir. Hver hafði á réttu að standa? Barnið segði vinur minn.

Skoðum aðeins kosti einfeldningsins / barnsins. Skoðum starfstéttir, geira – hvað fellst í ákveðnum störfum. Hvað laðar það besta fram í mér og hvernig get ég hagnast á því á huglægan og hlutlægan hátt.

Hvað, hvers vegna, hvernig, hvar...

Óperusöngvari / performer / leikari: Frá 9 ára aldri hefur hinn og þessi spáð þessu, hef einhverja hæfileika. Fær maður eitthvað borgað fyrir gaul? Er óperan að nálgast endalokin? Ég verð að fara drífa mig í að læra meira – sjá hvort maður eigi eitthvað í þetta. Hægt að gera þetta með öðru. Dýrt spaug. Hvenær get ég þá byrjað að lifa venjulegu lífi. Þarf einhver á big-band-gaulara að halda. Á Íslandi eða í útlöndum. Læra á Íslandi, flytja til útlanda og læra meira, fá vinnu í útlöndum, flytja heim ef gefur ekki mikið af sér – syngja þá við sem flest tilefni, vera áberandi til að fá meira að gera. Kenna söng eða fara í MBA-nám ef gengur ekki. Það gengur lítið að fara að læra leiklist. Erfiður markaður, eru margir söngvarar leikarar. Allt önnur átt en ég hef stefnt að og unnið í. Nóg af þessum leikurum. En áhættan getur gefið ríkulega af sér.

Stofnanir: Fær verkfræðimenntaður maður vinnu á stofnunum? Já, við eitthvað. Maður byrjar ekki á toppnum, starf á hjá Orkuveitu, Landsvirkjun. Hafa markmiðið að klífa metorðastigann, fá feitari stöður. Ráðgjafastarfsemi... Vinna í ákveðinn tíma og fara svo við annan mann eða fleiri út í sjálfstæðan rekstur á sviði ráðgjafastarfsemi á tengdu sviði. Öðlast orðstýr. Er ekki gott að ná í fleiri próf, er það gaman, gefur það eitthvað?

Stjórnmál: Hvaða flokkur er auðveldastur að klífa, hef ég sannfæringu og hugsjónir? Þarf ekki persónutöfra og sambönd, hvernig öðlast ég þau. Fara í ungliðastarf eða byrja eftir að hafa öðlast reynslu annarsstaðar. Getur verið ágætlega borgað sem hluta- og aðalstarf.

Banka- og fjármálastofnanir: Margir með ógnar-laun. Er þessi markaður ekki að mettast, erfitt að klífa stigann. Maður getur fengið vinnu í útlöndum. Uppgangur sem ætlar engan endi að taka. Þarf ég þá ekki að læra tungumál til að eiga meiri séns og fleiri gráður.

Lyfjaiðnaður: Uppgangur hjá þeim núna. Mikið um ráðningar, ráðgjöf/bestun er málið. Markaðsstörf, þarf ég ekki að læra meira. Vinna í útlöndum möguleg.

Verslun: Tengist þetta ekki öðru? Ekki heildsala, heldur stærra fyrirtæki. Vinna við hvað, skrifstofustarf eða stjórnun – kann ég eitthvað í henni, hef ég æft mig annarsstaðar. Er ekki bara málið að vinna hratt og vel og greina kjarna frá hismi, vera á undan öðrum – alltaf á tánum. Nýta tækifærin þegar þau gefast. Mannleg samskipti skemmtileg. Er ég samningamaður.

Kennsla: Þetta er eitthvað skemmtilegt, hvar á að kenna – framhaldsskóli eða stundarkennsla einhvers staðar. Sem hluta- eða aðalstarf. Virkilega gefandi, farið að borga betur en áður. Skemmtilegur starfsstaður.

Annað: Er vinna hjá íþróttahreyfingunni og ÍTR ekki bara tómt tómstundagaman og líki félagsstarfa. Gefandi og gleðilegt. Mannleg samskipti og fleira sem er spennandi. Eru ekki til allskonar störf sem gefa eitthvað af sér sem byggjast á þverfaglegri þekkingu, eru það kannski ekki öll störf. Vill fasteignafélagið Stoðir fá mig í vinnu? Er fjör að vera starfsmannastjóri?

Þetta er smávegis upptalning, hefði verið hægt að bæta fleiru við, barnið þreytist ekki á nýjum vettvangi, er lærdómsfúst og tileinkar sér nýja hluti fljótt.

Nú heldur einhver nærri mér að ég sé alveg galinn eða villtur í feni eigin hugsana og spyr mig, hvað ég hafi verið að fara í þessum pistli, af hverju á ég heima í þessum geira, kann eitthvað í þessu. Ég svara: “Þetta er skurður sem þarf að grafa rétt eins og aðrir skurðir sem ég hef grafið og ég hef gaman af því að grafa þennan.” Maður heldur áfram og tileinkar sér ný viðfangsefni með sömu aðferðum og ferlum og maður leysti hin fyrri. Maður byrjar á reit eitt og endar síðan ég veit ekki hvar – það er ekkert gaman að vita hvernig fótboltaleikurinn fer, maður þarf að skóla sig betur til og ná í meiri þekkingu einhversstaðar - maður er svoddan síli, vona að ég sé ekki að missa af lestinni. Við skulum sjá hvað setur.

Barnið hefur talað.

|




9.2.05

Góð grein

Vil benda á góða grein. Minnir mig á vel gefinn sægreifason sem slengdi því fram í tíma að hann vildi að einstaklingar tækju sér bankalán fyrir námi sínu.

|




8.2.05

Lastaselur

Sumir vinir mínir hafa spurt mig að því hvort ég vilji ekki spila meiri bolta. Þeir segja mig vera hópíþróttamann að upplagi. Skilja ekki hvað ég sé að garfast í frjálsíþróttum, skilja ekki drenginn sem æfir oftast einn en sé svo mikil félagsvera og uni sé best í hópi sem hrókur alls fagnaðar. Já, mannskepnan ríður ekki við einteyming, hún lifir ekki í einni vídd. Fólk verslar sér sjálfshjálparbækur og bækur sem miða að því að koma einstaklingnum upp aðferðum til að ná hámarksárangri. Ég hef eitthvað grúskað í þessum fræðum til að finna mér útgönguleið úr námi mínu. Nám mitt, iðnaðarverkfræðin, lýtur að þessum efnum. Yfirleitt snúast þessar bækur um ferlapælingar, fólk komi sér upp ferli sem dugar því í dagsins önn, hjálpar fólki að ná markmiðum sínum skref fyrir skref í stað þess að byrja á öfugum enda.
Bækurnar sjálfar búa ekki til meistarann heldur tekur einstaklingurinn brot héðan og þaðan og smíðar sitt eigið kerfi sem miðar að því að gera hann árangursmiðaðan. Einstaklingurinn sannreynir brotin á sjálfum sér. Róm var ekki byggð á einum degi og þetta getur verið sársaukafullt ferli. Það hefst fátt markvert án blóðs, svita og tára.

Maður vinnur með sjálfan sig eins og hvert annað verkefni. Veröld mín er samansett úr ótal brotum og er að mér finnst fullflókin. Ekki það að ég þurfi að sjá fyrir meðlagi eða sé með stóran skuldahala á bakinu. Það er bara með þetta frelsi, erfitt að velja og hafna. Ég hef ekki tíma til að spila fótbolta alla daga þótt mér þætti það gaman. Ég hætti skipulegri og markmiðasettri knattspyrnuiðkun fyrir nokkru síðan en tók stuttu síðar að æfa frjálsar, nánar tiltekið fyrir 400 m og 800 m hlaup. Í frjálsunum set ég mér markmið og reyni að ná þeim. Frjálsarnar eru hluti af stóru heildarmyndinni. Ég æfi hart til að ná markmiðum, allt eins og í skólanum og vinnunni. Ef ég stend við þessi markmið mín þá venst ég því að ná árangri í því sem ég tek mér fyrir hendur og það verður norm. Ég sái í akurinn og uppsker eftir því. En það eru hindranir verða víða á veginum, lífið er flóknara nú en þegar ég var 16 ára. 16 ára þekkti ég ekki allar flóðgáttir frelsisins sem nú bjóðast. Einstaklingurinn á að þjóna sjálfum sér og þegar þeirri þörf er uppfyllt er í lagi að þjóna öðrum. Erfitt getur verið að þjóna öðrum ef maður ræktar ekki sjálfan sig því þá er brotalöm og maður gengur ekki heill til skógar, gefur ekki jafn mikið af sér og ella. Ef þú ætlar að breyta og bæta heiminn byrjaðu þá á miðju hans, sjálfum þér. (Ef fjárhagsáhyggjur plaga listamanninn eilíft kemur það niður á sköpunarkrafti hans, hann verður að yfirvinna þær til að geta einbeitt sér að viðfangsefninu. En glíman við fjárhaginn getur kannski dýpkað hann eitthvað. Leiðin að fjárhagsöryggi nýtir hann sér í sköpuninni síðar meir.)

Þótt ég hafi afar gaman af boltasparki þá gegnir sparkið veigaminna hlutverki í lífi mínu en sprikl í sokkabuxum í Egilshöll, í sundlaugum, í lyftingarsölum og víðar þar sem sáð er í akurinn. Markmiðið er að æfa 7x í viku. Svo koma helgarnar inn í, þá kemur fyrir að maður brjóti niður í stað þess að byggja upp. Þá vinn ég greinilega gegn öðrum markmiðum sem ég hef sett mér, en uppfylli önnur. Maður ræður stundum ekki við sjálfan sig og velur of margt, en skerum lestina af, skref fyrir skref.
Hámarksárangur einstaklingsins er augljóslega jafna sem samansett er úr ótal breytum, stikum og forsendum. Þannig getur helgarbrölt verið nauðsynlegur þáttur af heildarmyndinni þótt það skekki árangur á öðrum sviðum. Aftur á móti væri ég eflaust búinn að ljúka námi ef ég hefði ekki farið á svona margar æfingar, unnið svona mikið fyrir ÍTR og staðið í félagsmálabrölti. Ég ákvað að sinna öðru en náminu einu, hélt ég yrði e.t.v. súr kappi ef ég mótaði mig ekki meðfram því á öðrum sviðum. Ætlaði greinilega að útvíkka mig, bæta á mig þriðju höndinni.
Hvaða ráð get ég gefið fólki! Æ, maður er engin Jesú, patentlausnirnar liggja ekki á víð og dreif. Meistarinn sagði: Guð hjálpar þeim sem hjálpa sér sjálfir (margir gullmolar eru í heimspeki- og sjálfshjálparritinu Biblíunni). Það eru orð að sönnu. Veljið það sem gefur, hvort sem það eru skólabækur, helgarbrölt (meðalhófið), hlustið á Víðsjá, Spegilinn og Hlaupanótuna, kynnið ykkur stjórnmál, heimspeki og hagfræði og lesið skáldskap. Rétt sjónvarpsefni og bíó getur einnig verið uppörvandi. Bla, bla, bla...

Vonandi finnið þið ykkur sjálf einhvern tímann. Kannski gerist það aldrei, lykilatriðið er að hætta aldrei leitinni (leitið og þér munuð finna), gefast ekki upp - þið komist nær markinu. Svo ef þið finnið ykkur, þá áttið þið ykkur á því að það var ekki markmiðið sjálft sem var svo merkilegt, heldur leiðin að því. Amen.

Ps. Ef þið eruð við að missa móðinn þá er smá mótívering sniðug. Farið á fyrirlestur hjá Þorgrími Þráins eða Magga Scheving, kaupið Brian Tracy spólu, bækur DAVID ALLENS á netinu (www.amazon.co.uk - Getting Things Done) og bók Önnu Valdimarsdóttir, Leggðu rækt við sjálfan þig, og hreyfið ykkur. Hreyfing er besta geðlyf sem um getur, morgunfúlir velji morgunskokk – endorfínið veitir bros fram að hádegi og jafnvel örlítið lengur.

|




4.2.05

Fræga fólkið

Þær eru margar fréttirnar sem verða á vegi manns. Yfirleitt er það alls kyns smælki sem grípur hugann fyrst og til að árétt það þá fyrir ykkur þá byrja ég oftast aftast á blöðunum, þ.e.a.s. Mogganum, Fréttablaðinu og DV. Mann þyrstir svo í smælki og slúður. Þetta höfðar til annarra kennda en fréttatengt efni. Þykkildið þarfnast meira næðis og maður fær ekki sálarró fyrr en búið er að svala dauðasyndinni græðgi á þessum öftustu síðum. Ég held að mörlandinn sé betur að sér um hjónalíf og athafnir stórstjarna heldur en gengur og gerist. Paris Hilton, Justin, Beyonce, Britney og hvað þau öll heita eru nánast daglegir gestir snápanna. Enda ekki að undra, frekar ófullkomið fólk sem á í mesta basli við líf sitt rétt eins og við hin og við getum samsamað okkur þeim og gjörðum þeirra að því gefnu að við deilum upp í skandalana og gjörðir með hárri tölu og rót í nefnara. Þau eru ekki fullkomin, þá væru þau ekki fréttaefni.

Ég las frétt á mbl.is nýverið þar sem sagði frá þreytu Frakka gagnvart yngsta syni Gaddafis, Hannibal Gaddafi. Hannibal, sem er jafnaldri minn, en ekur eflaust á betri kerru, lagði hendur á kærustuna sýna sem er barnshafandi. Hannibal gekk berserksgang gagnvart hótelmunum glæsihótelsins og unnustu sinni. Amlóðið veifaði byssu í hvívetna en ekki er vitað hvort hún hafi verið hlaðin. Unnustan var lögð inn á nærliggjandi sjúkrahús en reyndist ekki alvarlega slösuð. Unnustan Alib Skaf er araba-celeb og því ekki óviðeigandi að birta myndir af henni. Þykir það bara ansi viðeigandi. Vonandi særi ég ekki blygðunarkennd neins.

Eldri bróðir Hannibals hefur reynt fyrir sér með ítölsku knattspyrnuliði sem faðir hans á hlut í. Kappinn féll á lyfjaprófi en er eitthvað farinn að leika með liðinu eftir ófarnirnar. Veit ekki hvort synirnir beri prinsnafnbót, en ég held ekki. Þeir eru ígildi prinsa.


Hannibal Gaddafi barði kærustuna eins og harðfisk. Afar óviðeigandi framferði, engum til eftirbreytni.

|




Ég er prins!

Það er fátt eitt betra en að vera prins. Prinsinn hefur takmarkaða ábyrgð. Það er verra að vera krónprins, þá þarf maður að bera þungar klyfjar þeirrar tilhugsunar að óbærileg ábyrgð muni setjast á herðar manni í fyllingu tímans. Þá er ekki hægt að leika lausum hala glaumgosans, með botnlaust ávísanahefti laus við áhyggjur. En ekki er allt sem sýnist!

Eitt sumar hér á landinu bláa heiðraði Kristján IX Danakóngur landann með nærveru sinni og lét okkur í té stjórnarskrá á 1000 ára afmæli Íslandsbyggðar. Prins var með í för, minnir að Valdemar hafi hann heitið, eða var það krónprinsinn sem síðar varð konungur. Þetta var sumarið ’74 (minnir á lag Stuðmanna Sumarið ’75 – efni pistilsins er nokkuð í ætt við efni lagsins), réttara sagt sumarið 1874. Níu mánuðum eftir dvöl kóngsins eignaðist fögur stúlka Guðrún að nafni dreng er Karl var skýrður. Karl var Karlsson með réttu en hvergi er getið um Karl hinn eldri og Íslendingabók segir Karl Karlsson föðurlausan með öllu. Prinsar víða um Evrópu ferðuðust löngum hér áður fyrr líkt og í dag og dreifðu sæði sínu með gleðiprikinu. Sumarið ’74 í Reykjavík var engin undantekning á því. Svo vill til að ofangreindur Karl Karlsson er langafi minn. Þannig að öllum má ljóst vera að um æðar mínar rennur blátt blóð þótt ekki standi það á pappírum.

Mér þótti gaman að heyra af þessu því þetta styrkti móðurlegginn allnokkuð, þar sem skyldmenni mín í föðurlegg voru kappsamari ættfræðingar með skyldleikann við hin ýmsu "stórmenni" á hreinu. Tómir bændur og hákarlaformenn, prestar, læknar og lögfræðingar. Það var ljós í myrkrinu. Enda hefur mér oftsinnis þótt ég hafa margt það sem góðan prins þarf að prýða. Á auðvelt með að gera mér gera með glaðan dag, ávalt góðglaður á gleðistund, uni mér best áhyggjulaus við íþróttir og leiki.

En misgæfulegar hafa konungsættirnar verið. Skyldmenni dönsku konungsfjölskyldunnar voru hinir rússnesku Romanov-ar, með fremstan í flokki ó-mannvitsbrekkuna Peter Romanov Rússlandskeisara sem drepinn var í rússnesku byltingunni og hafði ólíkindatólið og lastaselinn Raspútín um tíma sem sinn helsta ráðgjafa. Hvað þá ég fari nánar út í konungsfjölskylduna bresku.

Var þetta happadráttur? Allaveganna er ég sprelllifandi og vísa í ætternið við hentugleik. En Séð & Heyrt hefur látið á sér standa óafvitandi um prinsinn mig og alla hina skylda og óskylda sem tengjast sumrinu ’74 á sama hátt.

|




3.2.05

Framsókn eða kannski framasókn (móðukenndar hugleiðingar)

Já, hvað er þetta með Framsóknarflokkinn eða þá frekar hvað er Framsóknaflokkurinn? Ég veit ekki hvar maður finnur framsóknarmenn almennt. Inni á Flokksskrifstofu flokksins eða úti á landi eða uppi til sveita, eða í námunda við álver og stóriðjur. Reynsluboltinn Dóri leiðir að því er virðist sundurleita hjörð sem rýfst sitt hvoru megin við miðjuna. Alla veganna hefur fjölmiðlaumfjöllunin ekki verið flokknum hliðholl síðustu daga og hlægilegur er aðalfundur kvenfélags flokksins í Kópavogi.

Ég þekki nánast enga Framsóknarmenn og hvað segir það mér? Að ég þekki enga framapotara, eða þá
a) að þeir framapotarar sem ég þekki hafi þykk ættartengsl innan
Sjálfstæðisflokksins
b) þeir séu skyldir Merði Árnasyni eða öðrum Sellumeðlimum
c) að þeir séu loðnir um lófana og sé þá í lófa lagið að vappa um eftir
hentisemi sinna segla þar sem vindurinn blæs þeim í hag og allt er falt
fyrir rétta upphæð?

Veit ekki. En á samtölum mínum í gegnum tíðina við fólk um menn og málefni höfum við þó á einu máli verið að Framsóknarflokkurinn sé flokkur sem fólk á að ganga í ef það þráir skjótan frama. Í grein á Deiglunni er greint frá því að nánast sé gefið að einstaklingur sem gangi í flokkinn muni gegna trúnaðarstarfi fljótlega. Er Framsókn Útvarps-Bylgja stjórnmálanna, það sem allir hlusta á (meginþorri miðaldra húsmæðra) en enginn höndlar, er það frekar Sjálfstæðiflokkurinn.

Ég á ættir að rekja norður í land, allt til Húsavíkur. Ættmenni mín eru Framsóknarmenn og –konur í einhverja ættliði. Mér er sagt að Hryflu-Jónas sé nokkuð skyldur mér. Eitthvað er Framsóknarblóðið farið að þynnast. Veit ekki hvað þetta er með mölina, framsóknin ekki "inn" á mölinni, meira svona upp til sveita. En erum við ekki öll Framsóknarmenn inn við beinið. Krúttlegur flokkur án öfga, vill frjálsræði en velferð í senn. Vill ríkisrekstur, en ekki of mikinn - svona bland í poka eftir því hvað gefur best á bátinn hverju sinni. Er þá engin hugsjón? Við getum öllu nafn gefið – kannski er hugsjónin velferð, púsluspil ólíkra þátta, mósaíkmynd. Flokkurinn er óviss hvort eigi að stíga í hægri eða vinstri fótinn en vinur allra. Það líkar öllum sæmilega við hann - eins gott, hann er oftar en ekki þriðja hjólið undir vagninn.

Erum við ekki bara Guðjón bakvið tjöldin og þorum ekki að koma út úr skápnum. Kannski bara best að hætta þessum feluleik og ganga skrefið til fulls og draga tjöldin frá. Þá hittum við kannski Guðjón á hverju götuhorni, enginn feluleikur og öllum líður betur. Þá birtast allir þessir Framsóknarmenn sem framámenn flokksins tala um en enginn veit hverjir eru, kannanirnar segja þá fáa.

Kannski komið mál að linni, búinn að fá nóg af þessu skólastússi. Ef til vill hringi ég bara í Ragnar Reykás og við skráum okkur í flokkinn...

Ps. Lengi vel hafa ýmisr í kringum mig haldið mig Sjálfstæðismann (hef ekkert gefið uppi). Man eftir rifrildi við skólasystur í 12 ára bekk í myndmenntartíma. Hún var staðföst á því að um mér rynni sjálfstæðisblóð (blátt blóð! segi síðar frá bláa blóðinu sem rennur um æðar mér), ég væri þannig týpa, vel greiddur drengur með svörin á hreinu. Var þarna stimplaður í einum vettvangi fyrir það eitt að vera ekki með úfið hár í óreimuðum skóm. Hef lent fjöloft í þessu síðan.

|