27.4.06

Annir

Já, vill ekki einhver ráða mig í vinnu. Ekki í fyrra fallinu að útvega mér starf. Annir, eilífar annir tengdar því sem skipta minna máli... Fór á íshokkíleik áðan. Ég hef ekki verið áhangandi íshokkís á Ólympíuleikunum en ég verð að segja að leikurinn Ísland 8 – Írland 0 var góð skemmtun. Mikil tónlist, pústrar og útafrekstur. Íshokkí er ekki fyrir hjartveika. Framhald af Satani og Gabríel er að vænta – einhver betri bygging er í vændum. Annars er Cleo Lain söngkona að mínu skapi.

Uppáhaldleikmaðurinn minn á leiknum áðan var án ef Kitchen, leikmaður númer 3 hjá Írunum. Það var ótrúlegt hvað Kitchen gerði og gerði ekki. 160 kg flykki á skautum, þarf fleiri orða við. Kitchen var inn á vellinum og útaf honum. Tíðir brottrekstrar urðu til þess að hann var endanlega útilokaður. Töddi félagi minn sagði mér deili á leikreglunum – átti eitt sinn tölvuleik og lærði af honum. Kitchen óð upp völlinn og það sem fyrir honum varð féll af honum uns hann datt vegna skorts á fótafimi. Annars eru íslensku strákarnir ansi lunknir og leikflétturnar og hraðinn voru augnayndi. Kitchen varð stundum reiður en fékk lítið upp úr krafsinu.

Ég veit ekki með formið á mér og er svartsýnn á að keppa, allaveganna er fyrri hluti sumarsins úti. Æfingaskorti um að kenna. Hleyp reyndar upp á dag, fartleikir og interval á götum borgarinnar, ljósastaura á milli. Stundum verður maður að forgangsraða og súrt að 400 m og 800 m skuli hafa orðið útundan, það er samt nægur tími til stefnu, ég er ekki það gamall. Meðan liðið var úti á Spáni sippaði ég nokkuð og stundum upp í hálftíma...

|




18.4.06

Af smásögum

Þegar mikið er að gera er gott að hafa einhvern fastann punkt í tilverunni sem maður getur leitað í. Sumir teikna myndir, ég tala með rassinum á vefinn. Jæja, ég setti saman sögubrot fyrir einhverju síðan og ætlaði lengra með söguna. Málið var að þegar ég settist fyrir framan tölvuna vissi ég iðulega ekki hvert haldið skildi og kom það niður á sögunni, hún varð óreiðukennd. Sagan sem ég er að tala um er Meistarinn, Satan og Gabríel. Eftir sex sögubrot settist ég niður og pældi í strúktur fyrir þennan óskapnað. Lengra komst ég ekki í sögunni en ég ætla að halda áfram og set því þessi sex sögubrot á vefinn. Sumir þeirra fáu lesenda þessara síðu hafa lesið efnið en aðrir ekki. Lífið er ágætt þessa daganna. Páskar yfirstaðnir. Æfingar hafa ekki verið nógu harðar en ég fer út að hlaupa daglega og eru það þá ljósastaurahlaup – intervalsprettir og fartleikir. Nóg um það.


Meistarinn, Satan og Gabríel #1

(Vera kann að einhver kunni að hvá við fyrirsögninni. Ég fór áðan yfir pistla mína undanfarið og sá að þeir eru tómt þvaður svo ég ákvað að spýta í lófanna og koma með frekari vitleysu. Fyrirsögnin er stolin að hálfu og efniviðurinn einnig. Bók Búlgakovs Meistarinn og margaríta er meistarastykki svo vægt sé til orða tekið en mín skrif verða líkast til aftanómur af einhverju tagi. Meistarinn og margaríta fjallar um baráttu góðs og ills - það er einmitt það sem ég ætla að gera að yrkisefni mínu. Lovestar er skemmileg bók. Maður er eilíft að pæla í umhverfinu og hvaðan áhrifin komi og allt það sem markar tímann og sporin sem stigin eru. Við eitthvað mismerkilegt verður maður að dunda sér. Saga í nokkrum hlutum kemur inn. Vera má að ég muni eitthvað laga það sem kemur inn síðar.)

Satan og Gabríel voru ferðafélagar. Þeir voru í heiminum á mismunandi forsendum, annar á réttunni hinn á röngunni. Þeir gátu ekki án annars lifað, þeir vógu hvorn annan upp. Þeir voru par. Vinur – óvinur, góður – slæmur, fagur – ljótur. Þeir stóðu fyrir þessi orð og voru málssvarar fyrir sinn hvorn málstaðinn. Þeir höfðu verið sendir sem keppinautar, því ef engin er samkeppnin þá hneigist einstaklingurinn til að verða værukær og sofna á verðinum. Þeir vissu af hvor öðrum og voru því iðulega á tánum, laumandi inn skilaboðum og ósýnilegum áróðri. Þeir rifust yfir málefnum og toguðu og teygðu umræðuna og það sem hæst bar í deiglunni hverju sinni.

Satan stóð fyrir stríð, erjur, óreiðu, ólgu, samsæriskenningar, vont veður, fúla pytti, ljótleika, Skítamóral, erki-líkamsræktarstöðvar, FM957 og vont háskólarokk og dægurblöðin Vikuna og Séð og heyrt. Það datt engum í hug að Satan væri að vasast í þessu nema stöku efasemdarmönnum sem héldu samsæriskenningum á lofti, en enginn tók mark á þeim. Þeir hinir sömu höfðu orðið vitni ýmissa atburða eða þá áskynja einhvers. Satan hafði komið fyrir daunillum gufum og súrum öndum víðar en á ritstjórnarskrifstofum. Gufurnar voru til þess gerðar að skapa andúð, tortryggni og illt umtal. Sumir voru veikari en aðrir og voru sítuðandi. Satan var hausaveiðari í eðli sínu og hafði þá nokkra í poka sínum. Menn eins og Eiríkur Jónsson blaðamaður og Mikael Torfason höfðu gerst hans skósveinar óafvitandi. Satann hafði gert sér dælt við ýmsa þjóðþekkta einstaklinga og orðið misvel ágengt. Honum líkaði illa hversu reykingar voru á undanhaldi og hafði gert marga atlöguna að Þorgrími Þráinssyni en sá einstaklingur hafði svo sterk innra siðferðisþrek að ekkert beit á honum. Satann hafði stundað handayfirlagningar illra anda á honum í svefni en Toggi ávalt komið tvíelfdari til baka og annað hvort skrifað metsölubók eða hafið nýja árangursríka herferð gegn reykingum. Ástæða fyrir veru ferðafélagana á Íslandi var hversu ginkeyptir og móttækilegir Íslendingar eru fyrir allskyns kukli og nýjungum. Ferðamálaráð alheimsins hafði sent þá Satan og Gabríel á skerið til að búa til nokkurs konar sítengdan veruleikaþátt fyrir guðina. Ef prufuþátturinn myndi skora vel, þá yrði hann keyrður á jörðinni allri. Ástæðan var sú að í guðaráðinu höfðu staðið yfir deilur um hvort hið illa eða hið góða ætti að ráða á jörðinni. Mennirnir höfðu drýgt ýmis afrek á sviði góðmennsku og illvirkja. Jarðabúarnir héldu að þeir væru í eðli sínu góðir og ræktuðu jákvæða eiginleika sína, en leiddu hjá sér hið dökka eðli sitt sem var ríkjandi þáttur, en niðurbældur vegna kæfandi hegðunarþjálfunar frá vöggu til grafar. Tekið var hart á grimmd, ofsa og voðaverkum. Því var ekki farið alls staðar í alheiminum. Á öðrum hnöttum voru menn verðlaunaðir fyrir fólskuverk og fengu að koma kyni sínu áfram með því útiloka aðra.
Guðaráðið hafði tekið eftir því að á jörðinni var eldfimmt ástand og fór það í taugarnar á ráðinu. Ráðið vildi skýrar línur og misklíð manna vegna ólíkra túlkunar á því hvernig ætti að lifa lífinu hafði ollið atburðarás sem ekki sá fyrir endann á. Það var ótrúlegt hvað mennirnir gátu tuðað

Gabríel stóð fyrir einfaldleika, sokkabuxur, ballett, varalit, mannasiði, kærleik, bræðralag, jafnrétti og nekt. Sá munur var á Gabríel og Satan að Satan klæddist kufli en hinn heitfengi Gabríel klæddist engu og sveif um loftin blá ósýnilegur alla jafnan, en þegar hann gerði sig sýnilegan olli það umferðaröngþveiti og yfirliði kvenna vegna hins fagurskapaða Gabríels. Gabríel átti launsoninn Brad Pitt sem lagði stund á kvikmyndaleik. Ungar stúlkur frá tíma til tíma höfðu notið ávaxta aldingarðsins og afraksturinn átti heitar taugar í Gabríel og ein hans helsta ástæða fyrir tíðum jarðferðum.

En ljóst var að ef prufuþátturinn gengi upp, þ.e. einhver sinnaskipti yrðu á Íslandi þá yrði þátturinn prufukeyrður með hliðsjón af útkomunni og kryddaður og úrslit ákveðin í samræmi við það. Möguleg úrslit í stöðunni voru óðaverðbólga, glæpir, gjaldþrot, ofbeldi almennra borgara, upplausn, aukið brottfall úr skólum, vegsauki FM957, aukin tölvuleikjavæðing og gosdrykkja, fleiri plötur frá Á móti sól, stóriðja og mengun sem leiddi til gjaldþrots Íslands eða þá aukinn kaupmáttur, sameining stétta, aukin menntun, Ísland áfram hamingjusamasta þjóð í heimi, áframhaldandi velgengni íslenskra fegurðardísa á erlendri grund, heimsyfirráð Mugison og annarra tónlistarmann og svo síðast en ekki síst ný gullöld frjálsra íþrótta, sem þýddi sigur Íslands, gleðinnar og góðra siða.

Teningunum var kastað og ...

---------------------------------------------------

Gabríel og Satan keppa #2

Þegar kemur að keppni skiptir mótivering keppnismanns miklu máli. Keppnismaðurinn má ekki láta neitt koma sér á óvart, best er að þekkja alla klækina sem má brúka og ekki brúka. Munurinn á görpunum var sá að Satan var ári fjölhæfur – Gabríel einbeittur og einfaldari. Gabríel vann oftar, einbeitti sér að einu í einu. Mistök ekki leifð í keppni. Tímanýting nauðsynleg, gott að þekkja muninn á aukaatriði og aðalatriði. Sjálfsagi dyggð. Þú býrð til tíma og rúm og stjórnar áhættudreifingunni. Í þessu var Gabríel betri.

Guð hafði oft á tíðum dálæti á Satan þótt hann tapiði oftar, hann átti djarfari leiki – spilaði ekki seif – veðjaði á skjótfengin gróða og áhætta, hlutabréf vs. skuldabréf. Munurinn á Satan og Gabríel var eins og á Kasparov og Karpov.

Gabríel og Satan holdgervingar ákveðinna manntegunda. Þeirra sem ná hámarksárangri og þeirra sem ná ekki eins góðum árangri, en árangri samt. Fjölhæfi gutlarinn sem vinnur ómarkvist í sínum ranni og hinn stefnuvirki og stefnumiðaði haukur sem drífur sig áfram af metnaði og sigurvilja.

Satan hafði oftsinnis setið að sumbli á Kaffibarnum, boðið mönnum í glas og hellt í þá veigum Bakkusar. Kannski hann sé útvíkkuð mynd Bakkusar í annarri trú. Gabríel valdi frekar stutt kaffisamsæti á upplestrarkvöldi Hannesar Hólmsteins eða þá ljóðaupplestur á Súfistanum.


Birtingarmyndir Satans eru greinilega margvíslegar. Hann getur allt eins verið í jakkafötum og verið nágranni þinn og verið í valdamikilli stöðu. Við höfum öll séð þetta í kvikmyndum.


Satan átti engin prinsipp um allt mátti semja. Hjá Gabríel voru prinsipp ofar öllu.
Satan hafði í sér allar hvatir mannsins, slæmar og góðar, en oftast var það freistnin sem rak hann áfram. Hann kunni ekki að neita sér um freistingar og felldi aðra í freistni. Satan svipaði örlítið til Tolstoj, hann var maður manna eins og Trotskí hafði sagt við andlát Tolstoj, allar hvatir mannsins sameinaðar í einum manni. Gabríel var hins vegar hreinn og beinn eins og Pétur Blöndal, sá allt í skýrum línum og það voru engin vafaatriði. Hugmyndaheimur Satans var heldur á gráu svæði, allt nokkuð óljóst og fjölhyggjan hélt honum tangarhaldi og tækifærissemin. Satan var þessi týpa sem sóttist eftir sortuæxlum og msg, fenólín og aspartam. Gabríel frekar með sólhlíf og hvíta húð, át grænmetisrétt ef því var að skipta og lísubaunir. Gabríel hreinn og beinn, einn litur hvítur, sem rúmaði samt alla hina í sínu litrófi. Fágaður á móti óhefluðum Satani. Jákvæður og neikvæður, Satan gat reyndar verið jákvæður, en jákvæðnin hafði skolast að mestu burt eins og dropinn holar steininn. Líf Satans var eins og jarðskjálftalínurit ofan og neðan núll-ássins, líf Gabríels svona eins og sínusbylgja hliðruð allmikið ofan við núllásinn – áferðafalleg og óskeikul en fyrirsjáanleg.

Gabríel hreyfst af fólki sem lifði fyrir einfaldar athafnir og hafði sitt á þurru, hann var ekki endilega af því sauðahúsi, en hann vissi að þær týpur voru árangursmiðaðar, jafnvel örlítið naívskar því misjöfn reynsla hafði ekki mótað það og hrukkulaus andlit báru vott um áhyggjuleysi, sakleysi og fegurð. Það gátu ekki allir verið í hinu útvalda A-liði, ISO-gæðavottunnar Gabríels.

Landinn var lítt inn í þessum efnum, hann hefði eflaust haldið að Gísli Marteinn væri einn hinna staðföstu sauða Gabríels, en ef þeir bara vissu. Sál hans í skjóðu Satans – samkomulag um eitt stykki forsætisráðherrastól einn daginn. Fleiri fylgismenn Satans en flesta grunaði.
Nú fór brátt í hönd stærsta landkynning Íslands nokkru sinni og þeir vissu ekki af henni. Ferðamálaráð búið að baksa öll þessi ár með lambakjötið, fegurðina og hreinleikan. Á döfinni var bein útsending til alheimsins frá Íslandi, landið yrði aldrei samt.

Guðunum fannst Íslendingar ekki átta sig á því hversu gott þeir hefðu það.
Misskipting heimsins mikil og Ísland sæluríki. Rapparar töluðu fjálglega um ánægju á Kúbu – áttuðu sig ekki á skortinum í landinu þar sem fólk vann, skeit og dó. Það þekkti ekkert annað, eilífur skortur, ellilífeyrisþegar betla, engin millistétt. Bara yfirstétt og fátækir. Rússland var að fara sömu leið.

Það skemmtilega við Íslendinga var hvað þeir voru nýjungagjarnir og snöggir að komast upp á lagið með ótrúlegustu hluti. Sjálfsbjargarviðleitnin greipt í genin – það voru engin tré til að týna ávexti af eins og á öðrum hnitum jarðkringlunnar. Þeir voru oft á tíðum efni í góða brandara, og þá hlógu guðirnir og það lengi, oft dögunum saman. Tíminn er svo afstæður í eilífðinni, þeir sem lifa að eilífu munar ekki um tvær vikur í góð bakföll yfir einhverju ansasköftum mörlandans. Guðunum fannst best að taka því rólega, því að vinna og vinna og vinna þegar þú getur tekið því rólega og frestað því til morguns sem gera á í dag, því hvað er ein klukkustund, dagur, vika eða jafnvel öld fyrir einhverjum sem lifir að eilífu. Íslendingar unnu og unnu og keyptu og keyptu en gátu sjaldnast notið gæðanna sem þeir unnu til. Þeir voru svo frumstæðir en samt svo fjarri hinum sönnu gildum veiðimannsins, hirðingjans, safnarans... Inúítar og veiðimenn sunnan Sahara unnu og hvíldu sig svo, þeir unnu ekki meira en þeir þurftu til. Flestir Evrópumenn höfðu verið á réttri leið, styttu vinnuvikuna svo þeir gætu varið lengri tíma með tærnar upp í loft. En jafnvægið er brothætt, þeir sáu fyrir sér að offjölgun eftirstríðssáranna hafði í för með sér að færri handa nyti við til að vinna fyrir sífjölgandi gamalmennum svo skera þyrfti niður ellilífeyri komandi gamalmenna ef vinnuvikan héldi sömu lengd. Stjórnmálamennirnir sem réðu öllu og voru á miðjum aldri og eldri sáu sér vænstan kostinn að lengja vinnuvikuna því ekki vildu þeir þurfa að líða skort. Reyndar var lífeyriskerfi Evrópumanna meingallað – þeir söfnuðu ekki í forða, þ.e. séreignarlífeyrissjóði, heldur notuðust við skatttekjur hvers tíma til að borga lífeyrinn út. Að því leiti voru Íslendingar sniðugri – vanir því að þurfa að sjá fyrir sér sjálfir og því nauðsynlegt að eiga forða til mögru áranna eins og áður. Íslendingar, höfðu góða tengingu við miðaldir því þær aflögðust nánast af við aldaskilinn þar síðustu.

Nú átti eftir að ákveða plottið í fyrsta þætti þeirra. Um hvað áttu þeir að keppa – hvað gat farið úrskeiðið o.s.frv. Þetta átti að taka fyrir á næsta guðaráðsfundi, fundarboð höfðu verið send út. Fundarefni voru mörg og að mörgu þurfti að hyggja en meir um það seinna.

---------------------------------------------------------


Gabríel og Satan leysa þrautina “Sálum snúið með frjálsri aðferð” #3

Satan og Gabríel höfðu lokið við fyrstu þrautina.
Hvernig í sjálfum mér gat ég látið hafa mig út í þessa vitleysu, tautaði Satan. Orðinn þreyttur á þessum heimskulegu leikjum, en þessi vígvöllur verður minn vígvöllur, held ég eigi bandamenn hérna. Ísland er skrítið land. Þetta hraun á vel við mig, minnir mig á tunglið. Glufur í hrauni opnast, fólk dettur niður og þá búið, hver heyrir hjálp í óbyggðum án sambands. Nóg af glufum í sálum fólks og í landslaginu. Jöklar sem fóstra verðandi beljandi fljót og iður jarðar sem hita. Hverir og leirböð – allt það sem ég hef heima í helvíti. Minn heimavöllur, ójá. Þessi skeina á hnénu getur orðið dýrkeypt, ætti ég að breyta mér í svartan pardus, loppurnar höndla bara ekki þetta apalhraun, frekar áttfættan hest með þrjú horn, gæti kannski áunnið mér vinskap álfanna, ég sé þá en landinn ekki. Kvikan í Gabríel er þunn eins og pappír, ég get rifið hana, krumpað og kveikt í á góðum degi. Langar að losna við þennan aftaníossa guðanna, þeir elska hvíta sæta afglapann og jámanninn. Þessi fyrsta þraut var erfið, Gunnar Kross var ólseigur biti. Hélt þetta væri ekki gerlegt.

Satan hafði tekist hið ómögulega, að snúa Gunnari í Krossinum frá Guðs vegum - vegir drottins eru órannsakanlegir, hver hefði trúað hinu ótrúlega. Verkið fullkomnað og siðferðispostuli hreintrúargilda farinn fjandans til. Gunni var eins og fasti, eitthvað óbifanlegt - sannfæring svo staðföst að þegar þetta fréttist var eins og Suðurlandsskjálfti hefði riðið yfir sálir fólks. Fyrst Mogginn birti myndir og skrifaði um atburðinn þá hlyti þetta að vera satt og rétt, sögðu Önundur í Unufelli, Grímur í Grímsbæ og Halla í Hvassaleiti. Landsfaðir og undirsátar höfðu ekkert látið hafa eftir sér, nema að svo bregðast krosstré sem önnur tré. DV leitaði skýringa og Fréttastofa Stöðvar 2 sat um hús Gunnars. Lögreglan vildi ekkert aðhafast, sagði Gunnar hafa átt þessar kindur, blóðið væri í rannsókn og það væri hans mál hvað hann gerði við sinn líkama. Það væri ekki í þeirra verkahring að garfast í hans málum, dýrin heyrðu ekki undir þeirra starfssvið, heimaslátrun væri reyndar ekki leyfileg en engin vitni voru að verknaðinum, bara ljósmyndir af Gunnari tattúveruðum rauðum röndum frá 0-185 cm. Fórnaraltarið gæti selst á e-bay.

Satan hugsaði með sér, hvernig ætli Gabríel hafi tekist til með sitt verkefni, hann hefði nú getið setið fyrir mér en kannski var hann að plotta eitthvað annað, það er reyndar ekki eftir bókinni, hann er svo fyrirsjáanlegur. Hættulegur því hann gengur beint til leiks og hans dagsverk nánast búið áður en vísifingri vinstri handar er lyft.

Á vígða skál í skuggum trjánna skenkti Gabríel kokkteilinn syndaaflausn-fyrirgefning. Hann fór á bari, í fangelsi, hitti byggingarverktaka á sjöttu kennitölu, spillta stjórnmálamenn og ríkisforstjóra og hellti í glas þeirra drykknum góða. Eftir nokkra sopa byrjuðu þeir hinir sömu nýtt líf. Urðu góðir eiginmenn, gáfu upp og greiddu skatta, hættu svindli og fyrirgreiðslum, fóru í kirkjur og blessuðu drottinn. Eitt stórt amen. Efnileg vonarglæta í versnandi heimi.
Íslendingar voru ginkeyptir fyrir húmbúksmergunarkúrum í formi formúlu-ávaxtasafa og dufts. Gabríel kom nýju trendi á fót. Aflátsbréf forsetaframbjóðandans fv. voru prump miðað við þetta töff stöff hjá Gabríel. Þessi auglýsing með kokteilnum syndaaflausn-fyrirgefning var hreint súper. Mektarfólk sem áður hafði verið handgengið Satani sagði: “Ég var nýr maður eftir nokkra sopa – ekki fara á mis við lífsins listisemdir – drekktu til að gleyma, það kemur ekki nýr dagur á morgun, það kemur nýtt líf... “

Gabríel hafði leikið viturlega. Satan valdi jaðarmann sem gat vart talist áhrifamaður, nema hjá fólki sem hafði lítil sem engin ítök. Fyrst hann valdi það verkefni að leika sér með sértrúarsöfnuð þá hefði hann frekar átt að velja Fíladelfíu. Sá söfnuður hafði þó mikil áhrif innan Framsóknarflokksins og djöfulgangur þar hefði jafnvel getað lamað ríkisstjórnina að hluta.

Satan sagði sitt val hafa verið auðvelt, hann vildi hrella fólk með sjónleik og sýna fólki hversu tilveran væri brothætt þegar hinir staðföstustu þjónar létu bugast og gengu öðrum öflum á hönd. Hversu megnugur hinn almenni borgari gagnvart mótbyr sem í aðsigi var þegar Gunnar lét bugast. Satan hafði byggt skýjaborgir og séð taumhald þjóðfélagsins losna og siðferði gufa upp, hann bjóst við sálarverðbólgu og orsakavaldurinn væri ofneysla á skyndilausnum til bjargar sálinni - engin vildi verða Gunnarsveiki að bráð, var sögð bráðsmitandi veikum sálum. Það bjargar sér hver sem betur getur þegar náungakærleikurinn er floginn útum gluggann. Gunnar hafði haft umskipti – áður sannfæring svo sterk að engin gat henni bifað, staðfastasti maður sinnar kynslóðar svona rétta eins og Helgi Hóseason áður. Fyrir atburðinn gátu hvorki vindurinn né regnið fengið hann af skoðun né ákvörðun sem tekin var, hans orð kom frá alföðurnum eins og safnaðarmeðlimir vissu. Því var þannig háttað að fáir efuðust og þeir sem létu í sér heyra var kunngert að þeir væru ekki í hópi hinna útvöldu og þyrftu að finna sér nýja hjörð. Þessi táradalur sviðinna orða gerði mörgum óleik og enduðu margir sjálfviljugir á baðkars- eða sjávarbotni, blóði drifin sál og líkami þoldi ekki meira, helvíti beið í dag og á morgun, því ekki að fara þangað sem fyrst að steikja hamborgara með Tomma á rokkinu fyrir Loka Laufeyjarson og fleiri svanga kjamma. Atburðirnir komu sem atburðirnir þruma úr heiðskýru lofti fyrir safnaðarmeðlimi sem nú mældu margir hverjir götur bæjarins því herinn var höfuðlaus og tilveran á hvolfi.

Eftir fyrstu þraut hafði bil stétta aukist, gott og slæmt? Svikulir valdhafar hvítþvegnir og fengu amen-ásjónu, urðu sem þæg lömb sem breyttu rétt en meðlimir sértrúarsafnaða sátu eftir með sárt ennið í öfugsnúinni tilveru og biðu vítisvistar.

Satan varð að gera betur í næstu lotu, þurfti að finna betri markhóp.

----------------------------------------------

Hófar Satans #4

Setti Satan hófa á sig og lék sér með þrífork? Var hann kentár, að hálfu maður og að hálfu hestur? Það voru raunar mennirnir sem höfðu fundið þetta gervi upp, einhver skálskapur úr goðafræði sem hafði svo selst vel síðar. Mennirnir vildu búa til grýlur, það voru kirkjunnar menn sem máluðu Satan/Skrattann sem óværu með hófa og hala, klaufir og horn, tvískipta tungu og með þrífork í hendi til að ota í augu, eyru og munn. Þetta var nú ekki alveg sannleikurinn, bara örlitlar sjónhverfingar enda skipti birtingarmynd Satans hann ekki máli, hann gat verið hver sem er, en ef einhver horfði inn í augu hans þá gat sá hinn sami séð sál sína rauðglóandi og feigð ef því var að skipta.

Mennirnir vildu sjá töfrasprota, geislabaug, þrífork, eld og brennistein og vændi. Þetta var allt svo barnalegt. Heldur ófrumlegur skáldskapur skrifaður fyrir lengra komna og börn sem víti til varnaðar í formi dæmisagna.

Nú var komið að keppninni sjálfri, guðaráðið var orðið ansi spennt. Scooter og Satan umhverfis landið á 20 dögum - Bling, bling 2005 var nafnið á herlegheitunum. Gabríel ætlaði að túra með Bylgjulestinni, Nylon og Hildi Völu milli þess sem hún kæmi fram með gleðibjöllunum Stuðmönnum. Sá aðili ynni sem fengi meiri aðgangseyri á sín gigg. Mínus ætlaði að slást í lið með Satan og Scooter ásamt einhverjum rappböndum. Satan yrði skreyttur gullhófum með hala í rauðmálaðri lendarskýlu. Slög og lundir yrðu grilluð upp úr BBQ-sósu fyrir utan böllin og Tommi í rokkinu sæi um kolin og grillið.

Reyndar var ein Nylon stúlkan véluð undir Satans mann, einhver hljóðmaður sem Satan hafði borgað með BSDM-klúbbakvöldum undir því fororði að hann spillti stúlkunni í 9 mánaða sambandi en það var annar handleggur. Geirum var att saman. Gleðipopp gegn rokki djöfulsins. Reyndar voru báðir aðilar að reyna að fá Geirmund Valtýsson og Silvíu nótt til liðs við sig til að breikka aldursflóruna sem kæmi á tónleikana. Samningaviðræður við Birgittu Haukdal og Jónsa höfðu runnið út í sandinn.

Satan hafði undirmarkmið. Hann ætlaði að sanka að sér áhangendum og búa til þrælabúðir gleðinnar sem myndu fylgja honum. Skipti ekki máli hverjir það yrðu. Goth-liðið var velkomið og auk hálfstálpaðra unglinga í sjálfsmyndarleit. Satan ætlaði að túra með krúið sitt öfugan hring og byrja á Selfossi – auðvitað, en Gabríel færi réttsælis og fyrsti áfangastaður væri Borgarnes.

Gabríel var sniðugur, hann auglýsti sín gigg sem fjölskylduskemmtun að degi til með trukki og dífu að hætti Bylgjunar og kvölddagskráin fjölsótt af tjald- og sumarbústaðalið, sætaferðir úr bænum ef því var að skipta. Satan vildi bara sjá óeirðir á böllum og slagsmál, drykkju og vesen, íslenskur kokteill. Hann var sérlega hrifinn af Eldborgarhátíðinni og Uxa, hann vissi hvað landinn var fær um.

Nú var stutt í túrinn...

---------------------------------------------------

Satan og Gabríel. Lærir mannfólkið aldrei. #5

Hvernig gat mannfólkið skilið það sem fram fór. Fullmenntaður öldungur segir ekki aldagömlum gleðigosa hvernig á að lifa lífinu. Það er eins og að spyrja lítið barn um gang himintunglanna og mátt sólarinnar. Framfarir byggðust á því undangengna og samsuðu þekktra stærða í eitthvað nýtt. Lífið er eintóm greining og þjálfun. Fyrir hvað svo? Einu sinni ljós og síðan allt búið og svart. Þjálfun fyrir stórvirki? Mennirnir voru bara eins og flugur í hugum guðanna. Héldu að það væri eitthvað meira, upprisa, endurnýjun lífdaga og hvað datt þeim ekki í hug. Kenningakerfi höfðu verið smíðuð, bækur skrifaðar sem kallaðar voru heilagar svo borin væri meiri virðing fyrir þeim. Þær voru nú ekki tómt húmbúkk, þær voru til þess gerðar að koma skikk á hlutina og sanka fólki saman í hópa til þess eins að ná stjórn yfir þeim. Hópur ósamstærðra manna var höfuðlaus her. Ef hægt var að steypa fólkinu í sama mótið þá var hægt að stjórna því og láta heilu samfélögin lúta vilja eins manns eða nokkurra. Tilgangurinn helgaði meðalið. Heimspekikenningar höfðu ekki virkað á herskáar þjóðir, þær þurftu sameiningartákn. Einn guð, einn páfa, kalífa, bara eitthvað sem héldi fólkinu saman til að lúta vilja valdhafanna. Stórvirkar byggingar byggðar og lífum fórnað. Allir unnu e.t.v. fyrir það eitt að finna sælustað í ósýnilegri paradís sem var ekki til. Lífið var bara spil sem snérist um völd, sagan hafði endurtekið aftur og aftur. Í þeim efnum var ekkert nýtt undir sólinni.

Satan sem hinn útvaldi

Sem tákngervingur þess fullkomna vissi Satan að hann gæti orðið skurðgoð, elskaður og dáður. Hann var allt sem maður gat verið, en var ekki maður. Hann var mikið meira. Reynslan hafði kennt honum margt. Hann ætlaði að verða hæp hæpsins. Leiðin að völdum var kræklóttur stígur sem hinn klóki þekkir betur en nokkur annar. Sem flókin vera vissi hann að styrkleikinn lá í þverfagleikanum, að þekkja alla leikina eins og í skák. Ekki nóg að eiga spretti eins og Gabríel og vinna stöku orrustu. Það er stríðið sem verður að vinnast. Hann valdur höfundur eigin örlaga og hafði nú ákveðið hver þau yrðu. Hann hafði valið sjálfan sig og var því útvalinn.

Satan í hnotskurn
Efinn ólgaði inni í Satan eins og sjóðandi málmur. Hann var líkt og kjarnasamruni, hreint óstöðvandi, hann fann aldrei sín mörk og neina keppinauta sem gátu stöðvað hann. Aldrei var stoppað, bara vaðið beint áfram. Hindranir voru bara til þess að mölva þær, á ljóshraða eftir framabraut sem hann tók ekki eftir.
Hann var að brenna upp líkt og vængir Íkarusar sem flaug of nærri sólu.

Ólgan brann inni í honum og festu hjartans hafði hann sleppt, hann fann fyrir ódauðleika þess unga sem finnst lífið endalaust en tíminn er takmarkandi til stórra verkefna og smárra. Hann var alltaf ungur því hann valdi sér aldur, gamall eða ungur hafði enga merkingu því lífs hins ódauðlega er allt þar á milli, fæðing – dauði, enginn millikafli, bara lína út í hið óendanlega. Hann var margt, hann var vera, hann var maður, hann var dýr, hann var engill sem féll af himnum ofan, hvað var hann ekki?

Brot úr degi eins og eilífð en samt svo stutt. Hverju er hægt að koma í verk á engum tíma. Hugmyndir, plön, skýjaborgir á traustum grunni, yfir honum sungu valkyrjur Wagners. Góður orðstýr deyr aldrei, lifað fyrir goðsögnina sem þú smíðar eins og dagurinn í dag sé sá síðasti af öllum dögum. Allt lagt undir, allt lagt á eitt spil, dínamík alger. Ég er allra alda maður... endurreisnarmaður á nýrri öld upplýsingarhraðbrautarinnar. Eins og átta arma kolkrabbi stýrði hann afmörkun sinni.
Mannsandinn í sinni dýrlegustu og dýrslegustu mynd, holdi klædd í einum einstaklingi, ríðandi inn í óvissuna líkt og landnemi inn í blóðrautt sólarlagið. Nýjar lendur og sléttur hugans, akur plægður frá sólarupprás til sólarlags.
Helvíti allt, jörðinni allt, umhverfinu allt.
Þeir deyja ungir sem guðirnir elska voru falleg orð, hann var guðunum fallinn og dauður, hann var elskaður eitt sinn en ekki lengur, hann ríkti í sínu ríki. Skúta skerpir skauta, óumflýjanleg örlög þess sem koma skal. Einmitt þetta gerði hann svo sterkan. Í kapp við tíman, eina mannsævi, svo margt að nema svo mörg verfæri að slípa. Í startblokk fyrir hvert hlaup sem fór fram á sekúndu fresti, augnablikið tamið – hámarksárangur.
Svo kom að lokastundinni, endastöð, ekki varð lengra komist en að sólu vængir hans brunnu og hann féll til jarðar, hver var hann – bara draumur. Allir draumar okkar, vonir og þrár til samans. Ást, skefjalaus undur fegurðarinnar í sinni tærustu mynd.
A, 10 – hann var allt sem allir þráðu en enginn gat orðið.
Messías – Jesú nýrra tíma – hann var leikur að orðum.
Satan spurði sig “Hver ert þú”, og svaraði “ég er hann, sá útvaldi. Það vill enginn viðurkenna mig, ég er bara einhver anti, á eftir að fá stimplun og vottorð, það kemur síðar, sagan mun skrifa mig sem raunverulegan Messías en ekki einhvern antímann.”
Hann hlaut ekki náð, en í raun ætlaði hann að sanna sig, of miklar öfgar, ekki herra neins. Hvernig var þá hægt að verða Messías ef maður spilaði ekki eftir leikreglum þess æðsta. Nú, með því að kollvarpa því sem fyrir er og byggja svo nýjan leik og smíða nýjar reglur í nýju ríki heimsins. Það var nú bara það sem var. Þegar öllu var á botninn hvolft þá var hann of stór til að falla inn í heildarmynd guðaráðsins sem vildi forma allt og alla til eftir sínu höfði.
Hann var sá sem allir þrá en engin(n) fær að vera. Hann var maður manna, hann var A-Ö, allt rófið.
Ég er lokatakmarkið, lokalausnin. Merki þess að lengra verði ekki komist og endalokin ein bíði því þegar fullkomnun er náð verður ekki farið lengra. Hann var mannsandinn, fæddur, dáinn og grafinn.
Agi, konuleysi, óheftur, stríð og friður, þetta var eldsneytið sem hélt honum ólgandi, hann var drifkraftur allra verka.

---------------------------------------------------


Gabríel og Satan. Satan vill kollsteypa. #6

Aldrei skaltu vanmeta andstæðing þinn. Það eru mestu mistökin (Kasparov ekki sá eini sem segir það). Mest um vert er að setja sig í spor hans og skilja hvernig hann hugsar, þá getur þú brugðist við næsta leik hans og komið honum í opna skjöldu og skákað og mátað. Þegar andstæðingurinn skynjar hvernig þú hugsar og skynjar að þú skilur hann og lest hann eins og opna bók og það er ekki gagnstætt, þá fyllist hann óöryggi og spilar af sér, heldur ekki einbeitingu því óttinn og efinn um réttmæti eigin ákvarðanna hans taka upp orku frá því sem skiptir máli. Andstæðingurinn er í ójafnvægi og er senn felldur á eigin bragði og það á heimavelli.

Satan les Gabríel, því Gabríel vanmetur Satan. Gabríel er einfaldur en fullkominn, en í fullkomnuninni fellst hans Akkilesarhæll. Sá fullkomni skilur ekki ófullkomleikann því hann hefur aldrei komist í tæri við hann og getur ekki sett sig í spor hans. Sá ófullkomni skilur þann fullkomna og getur sett sig í spor hans þótt hann geti aldrei orðið fullkominn sjálfur.
Sá fullkomni misstígur sig aldrei, en gerir það samt með því að gera það ekki; af mistökum læra menn skoða sig í nýju ljósi, í naflaskoðun. Ekkert ögrar þeim fullkomna, næsta skref er hið sama og hið fyrra og ferill hans bein lína og fyrirsjáanleg, eins og línan í gær og í dag og á morgun. Sá ófullkomni þarf að finna nýja leið til að nálgast fullkomnun, en hún næst aldrei þótt hún færist nær. Í ófullkomleikanum fellst ögrunin. Að vinna á veikleikunum. Sá fullkomni hefur enga veikleika og því enga ögrun og stendur því í stað og stöðnun er sama og afturför, dauði, en samt ekki því línan er sú sama og áður, bein og fyrirsjáanleg.
Á endanum fellur sá fullkomni á eigin bragði, fullkomleikanum.
Stærsta ögrun lífsins er að kljást við sjálfan sig, því við erum okkar erfiðustu andstæðingar. Sá fullkomni þarf ekki að kljást við sjálfan sig því hann þarf engu að breyta og hefur ekki ögrun lífsins, sjálfan sig, sem gulrót. Ögrun sjálfsins endar með dauða en endar samt aldrei.

Satan vinnur með sólskin, gleði og fögnuð, þ.e. styrkleika Gabríels, mælistiku guðaráðsins um fullkomleika. Gabríel vinnur ekki með syndina, svartnættið, kúgunina og allt það sem Satan stendur fyrir.

Guðaráðið – Satan – Gabríel – keppni
Hvað á að gera við jörðina. Mun úrslitakeppnin valda dómínó-áhrifum? Fellur jörðin sem höfuðvígi hugmyndafræðibaráttu, suðupottur andstæðra hugmynda og hugmyndafræðikerfa. Jörðin fellur og ein hugmyndafræði tekur við. Þá er Satan á heimavelli og í svartnættinu er hann sterkastur. Guðaráðið er að prófa sig áfram í hugmyndafræði. Það hefur alltaf einblínt á einfaldleika og fegurð. Í svartnættinu er guðaráðið á hálum ís, það hefur alltaf boðið út skítverkin til undirverktaka á borð við Satan. Þegar Satan situr svo að kjötkötlunum, gefur hann valdasprotann ekki svo auðveldlega frá sér heldur kúgar með ráðgjöf sem leiðir guðaráðið á refilstigu alls sem ráðið hefur unnið á móti. Ráðið festist í feni, því andstæðingurinn, Satan, getur sett sig í spor þess (þar sem hann eitt sinn tiplaði á hvítum ökklasokkum. Guðaráðið getur ekki sett sig í spor Satans.

Viðurkenningin er alheimsyfirráð og alger völd bakvið tjöldin, en guðaráðið endar sem strengjabrúða Satans, sem situr með alla þræði í höndum sér og gefur ráð í formi falsráða sem leiða til meira svartnættis. Guðaráðið getur ekki fótað sig í feninu með millustein um hálsinn. Satan upplifir sigur sinn í niðurlægingu fyrrum drottnara sinn - sjaldan launar kálfur ofeldið. Dauðir eru þeir gagnslausir, en dauðir geta þeir ekki verið og eru því dæmdir til eilífrar niðurlægingar í hyldjúpu svartnætti, óviðsnúanlegu ferli á krossgötum í sjálfheldur á þaki heimsins.
Þá er bara eitt ráð, senda Gabríel til helvítis og brenna vængi hans. Láta hinn fullkomna í spor sem hann hefur ekki fótað sig í áður, í dýflissu óvissunnar hvar hann mun til að finna til ófullkomleika síns og berjast fyrir tilverurétti sínum í eilífri baráttu góðs og ills. Þú berst með eldi gegn eldi, með illu skal illt út reka. Andstæður heimsins spila saman og ekkert er nýtt undir sólinni. Skrefin sem gengin eru, eru skref annarra og sagan endurtekur sig sem kunnuglegt stef í nýrri mynd, í nýju formi.

Heimurinn er bara verkfæri, tæki. Það skiptir ekki máli hvað verkfærin heita. Þau spila með skynjun og skilning og móta heiminn á mismunandi plönum.

|




12.4.06

Draumar

Það er ekki oft sem okkur dreymir drauma þar sem við erum við meðvitund, eða það finnst okkur allaveganna. Í draumum virðist allt vera svo eðlilegt og ótrúlegustu vitleysur fara fram eins og ekkert væri sjálfsagðara. Mig dreymdi einn svona í nótt, man hluta af honum. Ég var á harðaspretti á klár. Ég tók því sem föstu að þetta væri arabískur gæðingur. Mér var veitt eftirför og fannst ég hafa alla þræði í hendi mér. Ég var eltur af hópi manna með klút á höfði. Landslagið var harðgert, fannst þetta vera líkt Landmannalaugum, var ég í Afganistan? Ég fór upp tröppur og fór meðfram byggingum og niður af þeim aftur og hélt leið minni áfram. Svo kom ég að nýtískulegu þorpi/bæ. Ég gerði ráð fyrir að þetta væri Hvammstangi. Háar grænar (e.t.v. Framsóknarvísun – blokkir úti á landi) blokkir í hlíðum og allt niður á láglendi á móts við mig. Ég fór að klifra upp blokkirnar, svo rifnaði stykki úr byggingunni þegar ég var við efstu hæð, ég var í loftköstum en rétt náði taki á ný. Svo tölti ég niður tröppur og er undraskjótt kominn í svona gámabyggð sem líkist þeirri sem er í Hrauneyjum. Þar er teiti allfjörugt og heitur pottur, glensa ég við íþróttaskólanema og ræði við þá. Þá kemur í ljós að þetta er ekki Hvammstangi enda lítur hann allt öðruvísi út, heldur hverfi í Blönduósbæ.

Hvað segir þetta mér, hundeltur – hef e.t.v. lítinn tíma og þarf að hespa einhverju af.

Það voru kosningar á Ítalíu á sunnudaginn. Ég hef fylgst eilítið með og þetta virkar á mig sem hálfgerður farsi. Prodi gegn Berlusconi. Berlusconi plantar einkaviðtali við sig á besta tíma á aðalsjónvarpsstöðinni sem hann á sjálfur. Hann þurfti víst að bakka með viðtalið. Svo er maður að skoða myndbrot af kappanum sem sæmir varla manni í hans stöðu en það er virðist vera líf í karlinum og hann lætur hafa eftir sér óheppilegar setningar eins og að finnskur matur sé hræðilegur og svona. Já, svo eru það kosningarnar sjálfar. Fyrstu tölur og útgönguspár bentu til ótvíræðrar forystu Prodi en svo vinnur Berlusconi... Þetta er eins og draumur, virkar allt fáránlegt en er samt ofureðlilegt – svona er Ítalía.

|




4.4.06

Holur raunveruleiki

Sá auglýsta stafræna myndavél á vefnum fyrir nokkrum mínútum. Fór að velta á ný fyrir mér hvort ég ætti að kaupa. Búinn að kaupa og kaupa en ekki myndavél. Af hverjum og af hverju ætti ég að taka myndir? Myndir skjalfesta atburði og þeir fá þá fastari sess sem minningar, best of eitthvað. Þessi hugsun dvaldi við örskotsstund og svo kramdi ég hana með hamri. Raunveruleiki minn er frekar holur þessa daganna. Ég lifi í hálfgerðu millibilsástandi. Ástæðan fyrir því að ég er í skóla er sú að ég er að næla mér í gráðu. Er það langt genginn með hana að það tekur því ekki að skipta yfir í annað og þessi er víst sögð góð. Hvort ég hangi ekki í meðaltalinu þegar ég útskrifast.
Sem sagt, holur raunveruleiki sem ekki er vert að festa á "filmu". Hef ég e.t.v. á röngu að standa? Við bútum lífið niður og það virðist einfalt þegar athafnir eru flokkaðar. Skóli, vinna og frítími. Lærum í skóla, öflum peninga með vinnu og svölum metnaði og hæfileikum. Frítíma eyðum við í fjölskyldu ef við eigum eina, stundum líkamsrækt, eflum huga og þroskum með tónlist, bókalestri og áhugaverðum samræðum. Við semjum tónlistina kannski sjálf og erum í saumaklúbbshljómsveit, jafnvel í tónlistarskóla. Svo eru það myndmiðlarnir, tölvan og sjónvarp. Við eyðum tímanum vel og illa. Við erum bara og lifum lífinu. Föst jafnvel í hjólafari eða á fínu róli í okkar masterplani, okkar 5 ára áætlun. Söfnum í sarpinn, reynsla sem er ekki eftirsóknarverð í dag getur verið það síðar.

Sem sagt, mér finnst tilveran vera eitthvað hol þessa daganna, eitthvað millibilsástand í gangi og masterplanið með nokkra lausa enda og ekki alveg ljóst hvert skal stefna. Þetta er vandamálið við frelsið, allt þetta val. Við lifum á bestu tímum allra tíma. Í dag getum við gert nánast allt sem huganum þóknast. En ef einhver árangur á að nást verður að gefa allt í verkefnin hverju sinni. Nálgunin gagnvart verkefninu verður að vera sú að um mót sé að ræða, vertíð. Á vertíðinni þýðir ekki að bora í nefið, þ.e. sinna því sem ekki gefur á bátinn.

Tökum mig sem dæmi. Ég er í námi en sinni vinnu, félagsstörfum, skemmtunum og hreyfingu. Þarna er nokkuð ljóst að orkunni er dreift of víða. Vandamálið er að skórnir eru eitthvað svo fast bundnir að ég get ekki hreyft fætur, hvorki til hægri né vinstri. Er orðinn svo óþreyjufullur eftir breytingu að mér er orðið mál og verð að passa mig að pissa ekki í skóna, heldur leysa hnúta og fara jafnvel úr þeim.

Hver er ég? Hvaðan kom ég og hvert er ég að fara? Samansett tilvera úr mörgum brotum, mósaíkmynd sem alltaf bætist í og stækkar. Best er ef innbyrðis tengingar eru milli brota en ekki bara myndir út í loftið sem tengjast ekki. Ef svo er, þá er ekki um neina heild að ræða. Sjálfsmyndin er púsluspil þess sem á undan er gengið. Við getum mótað okkur á meðvitaðan hátt þegar við áttum okkur á stöðu okkar og hver við erum. Ef svo á að vera er nauðsynlegt að vökva blómið "okkur" og hlúa við rætur og sjá til þess að vaxtarskilyrði blómsins séu næg, þ.e. ylur og sólskin. Hornsteinn tilverunnar er sá fasti punktur sem við vinnum í og að – gráða, starf, fjölskylda, áhugamál. Hornsteinninn er rammi okkar eigin tilvistar. Ef rammi er vel afmarkaður sleppum við frekar við óvænt áföll, vonbrigði og ósigra.

Arkitektinn Mies van der Rohe sagði: "Guð er í smáatriðunum". Ef við ræktum okkar útvöldu dyggðir þá sleppum við frá því sem heftir. Við erum okkar helsti óvinur og við þekkjum okkur í þaula eftir sigra og töp. Holur raunveruleikin er berstrípaður þegar einstaklingurinn er á krossgötum. Rætur einmanaleika, græðgi, hroka og drambs felast m.a. í óuppfylltum hvötum og lækningin er að ráðast að rótum vandans sem eru eftir allt nokkuð augljósar. Þá er að rífa sig upp úr hjólförunum - því dýpri, því meira átak við að gera það. Ef stöðnun viðgengst, leiðir það til enn meiri stöðnunar og neikvæðar hugsanir hola okkur líkt og dropinn steininn og taka sér fastari bólfestu í sálum okkar og skyggja á það góða sem í okkur býr.

Ef raunveruleikinn er holur þá er bara að reyna að fóðra hann. Lost og 24 hjálpa þér ekki í lífsbaráttunni. Sjónvarpið stelur frá okkur tíma, það er nokkuð ljóst. Við lifum ekki til að þóknast öðrum. Framfarir verða í smáskrefum eða jafnvel með biltingu. Nurlum við höfuðdygðgði Platóns: Hugrekki, visku, réttlæti og hófsemi. Amen.

Við viljum öll bæta okkur, bölsýni nagar okkur upp. Stebbi Jó lét mig einu sinni fá vélritað blað. Það er hérna fyrir neðan. Við tileinkum okkur boðorð annarra, finnum ekki upp hjólið í þeim efnum. Reynsla mótar skoðanir, þær standa uns aðrar betri finnast.

Uppskrift af árangri

Í hvert skipti sem íþróttamaður gengur til keppni gerir hann það með því hugarfari að vinna. Það er augljóst að það er tvennt sem hann þarf að hafa íhuga. Í fyrsta lagi, hann verður að vera viss um að þjálfun líkamans sé góð. Í öðru lagi, hann verður að þjálfa hugann þannig að líkami og hugur vinni sem ein heild. Hann verður að tala sjálfan sig til. Þetta er gert á eftirfarandi hátt.

1. Settu sjálfum þér visst mark sem hægt er að ná. Settu langtímamörk eða/og ákveðin mörk á vissu tímabili og farðu oft fram úr þeim.

2. Notaðu jákvætt hugmyndaflug og teldu sjálfum þér trú um að þú sért nægilega góður til þess að ná takmarkinu. Mundu að þu ert þú sjálfur og þitt innra afl sem býr í þér er þitt sterkasta vopn.

3. Vertu metnaðargjarn og ákveðinn, forðastu allt neikvætt, jafnvel að umgangast neikvætt fólk sem hefur neikvæð áhrif á þig, þú þarfnast þeirra ekki.

4. Þróaðu með þér sjálfsaga og samviskusemin verður að vera fyrir hendi.

5. Þú verður að vera áhugasamur og ástundunarsamur. Drífðu þig áfram af eldmóð ef þú ætlar að ná takmarki þínu. Allt sem þú þarft að gera er að byrja að starfa eins og þú hafir þegar náð því.

6. Íþróttamaður dagsins í dag gerir hlutina í dag en geymir þá ekki til morguns.

7. Vertu viljugur að reyna nýjungar, þegar fólk hugsar og gerir alltaf sama hlutinn veldur það stöðnun. Fjölbreytni í æfingum verður að vera allt árið, annað gæti valdið stöðnun.


Enn af guðspjallamönnum. Garpur nokkur sem kom á Klakann fyrir einhverju síðan prédikaði það sem er hérna fyrir neðan um daginn. Þið hafið eflaust lesið þessar lífsreglur einhversstaðar en hérna er samanþjappaður pakki.

17 lögmál persónulegs árangurs

1. Skýranleiki tilgangs: Grundvöllur alls árangurs er að vita hvað þú vilt.

2. Snillingslögmálið: Samstilling átaks tveggja eða fleiri manneskja í anda fullkomins samræmis / samhljóms til að ná tilteknu markmiði.

3. Hagnýt trú: Hugarástand þar sem markmið manns, langanir, áætlanir og tilgangur verða að veruleika.

4. Geðfelldur persónuleiki: Geðfelldur persónuleiki hjálpar þér að ná fullkomnu valdi á helstu ástæðu misbrests –vanhæfni til að eiga góð samskipti við fólk.

5. Að leggja aukalega á sig: Að veita meiri og betri þjónustu en manni er greitt fyrir að veita, að gera það alltaf og gera það með jákvæðu viðhorfi.

6. Persónulegt frumkvæði: Drifkrafturinn sem er upphaf allra aðgerða; krafturinn sem hvetur mann til að ljúka öllu sem maður tekur sér fyrir hendur.

7. Sjálfsagi: Hæfileikinn til að stjórna hugsunum okkar og tilfinningum. Sjálfsagi er það eina í lífinu sem maður hefur algjöra, óskoraða og óvéfengjanlega stjórn á.

8. Alger einbeiting: Æðsta form sjálfsaga, það að samræma alla hugarstarfsemi manns og nýta hana í einum ákveðnum tilgangi.

9. Eldmóður – ákafi: Smitandi hugarástand sem hjálpar manni ekki aðeins að öðlast samvinnu annarra heldur hvetur mann líka til að virkja ímyndunaraflið.

10. Ímyndunarafl: Æfing, ögrun og ævintýri hugans. Það nýtir gamlar hugmyndir og staðreyndir, raðar þeim upp í nýjar samsetningar og finnur ný not fyrir þær.

11. Að læra af mótlæti og ósigri: Erfiðleikar og mótlæti eru aðferð náttútunnar til að kenna öllum lifandi verum ýmsa hluti sem þær myndu ekki læra með öðru móti.

12. Að skammta tíma og peninga: Fólk sem hefur náð langt þekkir sjálft sig, ekki eins og það heldur að það sé, heldur eins og venjur hafa mótað það. Notkun tíma og peninga eru mikilvægustu venjurnar.

13. Jákvætt andlegt viðhorf: Til að stjórna eigin lífi þarf maður að geta stjórnað eigin huga og það er grundvöllur alls auðs, bæði andlegs og veraldlegs.

14. Nákvæm hugsun: Nákvæmur og góður hugsuður viðurkennir allar staðreyndir lífsins, bæði góðar og slæmar, og axlar þá ábyrgð að aðskilja þær og flokka, velja þær sem þjóna þörfum hans og hafna hinum.

15. Góð líkamleg heilsa: Lykillinn sem sameinar allar aðrar meginreglur og hrindir öllum hugmyndum í framkvæmd. Góð heilsa er grunnurinn að því góða í lífinu.

16. Samvinna: Samvinna er miðill sem gerir manni kleift að öðlast mikið persónulegt vald; fús samvinna og samræming átaks til að ná settu markmiði.

17. Vanavald: Vanavaldið er jafnvægislögmál alheimsins, grundvallar náttúrulögmálið sem öll önnur náttúrulögmál byggja á.

Amen...

|