16.2.07

Matur og matarvenjur fólks

Það er viðtekin venja og siður að blóta mötuneytiskokkum í sand og ösku. Því mörgum finnst helvítið ekki kunna að elda. Allt sé ofsoðið eða ofsteikt, þurrt eða viðbrennt og oft á tíðum skelfilegur matseðill sem margur segist ekki láta bjóða sér.

Áður en ég ræði um reynslu mína af mötuneytiskokkum vil ég koma inn á það sem hefur flogið inn um annað eyrað og út um hitt svo eftir stóð ómurinn og einnig viðhorf mín til matar.

Þegar ég var yngri þá þótti það ekki góð latína að leifa og setja of mikið á diskinn. Sóun og græðgi á sama disknum á mismunandi tíma. En engin(n) lifir nema að fara yfir strikið og á hlaðborðum á mínum yngri árum átti ég það til að troða öllum sortum á diskinn í sömu ferðinni í stað þematengdra ferða og ganga síðan slagandi út úr húsi af mat loknum. Ég tróð oft afar miklu magni í trantinn á mér og þótti það dyggð að hesthúsa sem mestu magni. Ég áleit nánast Jón Pál þann mann einan sem stæði föður mínum framar hvað afl áhrærði. Pabbi gat hesthúsað kynstrunum öllum af mat í miklu magni, enda vann hann myrkrana á milli og þurfti víst á orkunni að halda.

Segja má að þegar ég borðaði þrjá hamborgara níu ára gamall í Þjórsárdal þá hafi það verið gert fyrir pabba til að þóknast honum og til að sýna að ég væri verðugur að vera hans sonur. Þegar ég át fimm pylsur í tíu ára afmæli Annels þá var það gert til að sýna að ég gæti eitthvað sem öðrum væri ekki kleift. Ég tek það fram að ég var ekki feitur heldur æfði ég fótbolta með Leikni og hanbolta með Fra og var á ferðinni allan liðlangan daginn við íþróttir og leiki en bókalestur stundaði ég þegar rökkvaði.

Í kjörlendi mínu, þ.e. heima við matarborðið, hef ég ávalt beitt gafli með hægri hönd og hníf með þeirri vinstri. Í matarboðum höfðu hnífapörin handaskipti til að sýna að ég hefði gott uppeldi fengið (eða fela það) og kláraði af disknum mínum. Sjaldan voru borðaðir færri en þrír diskar og kláraði ég fituna fyrst af kjötinu því hún þótti mér vond en byrjaði svo á ketinu og öðru meðlæti. Ég lærði síðar að setja aðeins kjöt upp í mig og síðan kartöflur og svo baunir en ekki kartöflur, baunir og kjöt á gaffalinn í sama munnbitanum.

Ég hef heyrt frá móður minni í gegnum tíðina af vanvirðingu samstarfsmanna gagnvart mat. Fólki hefur mislíkað mötuneytismaturinn, borðað utan vinnustaðarins og svo hefur það gerst trekk í trekk að nýjum mat hafi verið fleygt í sorptunnuna í stað þess að geyma leifarnar eða senda einhvern með þær heim.

Systir mín sagði mér sögu áðan af ferð sinni í mötuneyti móður okkar í Sjóvá húsinu. Á boðstólunum var grænmetislasagna. Hún hrósaði því en greindi mér frá því að samstarfsfólk mömmu hefði fussað og sveiað og skroppið í Kringluna. Systir skyldi ekkert í þessu því hún hrósaði réttinum í hástert. Þetta er kunnuglegt stef og nokkuð ljóst að fæst hefur fólkið getu, nennu eða kunnáttu til að galdra svona nokkuð fram.

Ég starfaði sex sumur í Áburðarverksmiðjunni og þar var kokkurinn kallaður stríðskokkur. Hress fýr, léttur á fæti sem klæmdist í öðru hverju orði ef efni stóðu til. Hann átti það nú til að ofsjóða og ofsteikja. En hann lafði, reksturinn var svo ódýr hjá honum. Einhverju sinni var honum gerður grikkur. Skilinn var eftir dauður hestur (eflaut sjáldauður) í kerru fyrir framan eldhúsdyrnar. Voru margir á því að þetta hefði verið hans eigið verk...



En yfir það heila þá sýnist mér þeir sem væla hæst vera frekar vanþakklátir og ekki geta þeir verið svo góðu vanir að agnúast yfir því sem á borð er borið. Margt af þessu fólki hefur haft heldur órætt sköpulag og haft þann ósið að hnýta í umhverfi sitt ónotum og neikvæðni. Ætli það séu ekki pítsur og hamborgarar sem þetta fólk hafi borðað í hvert mál. Þeirra “faðirvor” og amen.

|




13.2.07

Bakarí

Skortur á vinnuafli veldur því að í láglaunastörf veljast einstaklingar sem bera e.t.v. ekki mikla virðingu fyrir starfi sínu - mögulega. Jæja, ég fór í bakarí áðan. Máske íhlaupavinna hjá viðkomandi, jafnvel milli starfa eða bara ég veit ekki hvað. Ég hafði verslað mér súkkulaðibitakökur á stað sem seldi ekki litlar mjólkurfernur svo ég smellti mér í Björnsbakarí.

Ég bíð og bíð. Ein stúlka afgreiðir, 3 bíða, ein stúlka þrífur gler. Svo bíða tveir og ein stúlka ansar gsm símanum sínum. Svo fæ ég afgreiðslu eftir nokkurn tíma og versla mér tvær léttmjólkurfernur á 64 krónur. Ég var ekki alveg ánægður með þetta en súkkulaðibitakökurnar brögðuðust vel.

Ég greini betur frá þeim þætti ævisöguminnar sem átti sér stað fyrir nokkrum dögum og rétt fyrir janúarlok.

|