27.7.05

Hipp-hopp Halli, sveitin, leiðinn og lífið

Góður kunningsskapur hafði tekist með þeim Stefáni og Halla. Nú skildi haldið í sveitina um helgina, í heimahaga Stefáns. Þar sem náttúran kallast á við mannfólkið og klettarnir og björgin eru hluti af lífinu rétt eins og blokkirnar og gatnamót Kringlumýrar- og Miklubrautar eru borgarbörnunum. Tröllaskaginn á hægri hönd Skagafjarðarins og bærinn hans Stefáns og áa hans, Hóll, þar einhversstaðar undir. Hvað gerir maður í sveitinni? Hjálpar til og nýtur kraftanna frá fjöllunum og umhverfinu. Sem ungur drengur hafði hann farið í sveit á Brandsstaði. Veit ekki alveg hvað hann var að gera þar en í minningu sjö ára drengs voru þetta þrælabúðir. Foreldrar hans á leið í leyfi. Þá tíðkaðist að koma krógunum fyrir mánaðarpart eða svo á bæi sem drýgðu tekjurnar með nokkrum heimalingum. En þetta var eitthvað skrítið fólk og móður Halla stóð ekki á sama þegar hún veifaði til hans í gegnum bílrúðuna, en pabbi hans var staðfastur á því að drengurinn væri í góðum höndum, það hafa allir gott af því að fara í sveit sagði hann. En sögurnar sem þau fengu þegar drengurinn var sóttur voru allar um arfa. Já, hann var bara út í kálgarði og við bæinn að týna arfa með umkomulausum börnum sem áttu sér ekki annan samastað. Einhversstaðar í Blöndudalnum voru Brandsstaðir, þar sem vísir að barnaþrælkun í formi arfavinnu átti sér stað og feitt ket af sjálfdauðum rollum og beljum var étið. Börnin voru þó ekki látinn borða arfa.



Sveitin blasti við og hressti upp á minninguna um Brandsstaði. Stefán sagði Hól enga Brandsstaði. Útivera góð fyrir þann sem vill vinna á flækjum í höfði og komast á réttari kjöl en áður.

Menningarreisa í Miðgarð
Stefán þrælaði bæjarrottunni út í sveitavinnu. Flór, heyskapur, traktorar, mjaltavélara og almenn skítverk sem stæla búkinn. Halli vékst hvergi undan og eftir gott dagsverk á öðrum degi tilkynnti Stefán um sveitaball í Miðgarði í Varmahlíð. Borgarbarnið hafði ekki stigið inn í svoleiðis fagnað áður. Stuðmenn og Hildur Vala, eitthvað hægt að tjútta við það. Drengirnir gíruðu sig upp og brunuðu á bílnum á ballið. Þeir hituðu sig upp í kerrunni fyrir utan ballið. Eitthvað misskildi Halli menninguna þegar hann hlóð nokkrum volgum á bakið á sér og í jakkann, því þegar inn var komið hljóp unglingur með gruggugan kókbauk skrítinn á litinn fram hjá honum. Halli útvegaði sér poka og setti varninginn í. Nóg var fjörið um kvöldið, Energí og trú og Gógópartí sáu til þess. Það var svo um miðbik ballsins að leiðin sótti Halla heim, honum fannst sem hann fyndi ekki meiri gleði í húsinu. Á stað fullum af fólki en samt svo einn. Leiðinn bankaði á dyrnar og ruddi þeim upp á gátt. Hann hélt áleiðis að stálfáknum. Þegar hann kom þar að sat aðkomumaður í bílstjórasætinu. Eitthvað undarlegt það. Hann afsakaði sig. Það stóð heima, leiðin hafði sótt hann heim eins og Halla. Rósi sagði honum sína sögu. Hann hafði verið rótari hjá lókal-bandi. Hafði haft augastað á stelpu en hún virtist ekkert vilja með hann hafa. Rósi var ekki af baki dottinn, heldur mannaði sig upp með landa og gekk til hennar. Vissi sem var að sannleikur var í sögunni um að rótararnir fengu leifarnar á eftir söngvaranum og afgangnum af bandinu. En stelpan leit ekki við honum, bara hló þegar hann bað um dans við brjálað teknóið í hléinu. Rósi í rusli skjögraði burt, aumur í hugarvíl. Hljóp svo að bandsbílnum þegar út úr félagsheimilinu var komið, startaði og brunaði af stað. Hann missti svo stjórn á bílnum og út í skurð hann lenti. Rósi líður útaf og rankar ekki við sér fyrr en hann sér Jesú í sitja við hlið sér í hvítum sófa. Rósi segir sögu sína og Jesú segir mennina einnig hafa brugðist sér á krítískum tímapunkti. Rósi segir Jesú frá leiðanum og strögglinu í lífinu. Jesú segir engan mann eyland en prófraunir komi þegar síst skyldi og hann hafi þurft að taka á öllu sínu þegar í harðbakkann sló. Oft var það sem hann vissi hvorki í þennan heim né hinn og hann hafi nú þurft að ganga í gegnum margt, hanga á krossi og svoleiðis. Svo greinir Rósi frá því að hann hafi vaknað upp á Fjórðungssjúkrahúsinu á Króknum og þá voru liðnir þrír mánuðir frá útafkeyrslunni. Þær eru misjafnar raunir mannanna. Greinilega fleiri sem höfðu lifað í teygðri tilveru en Hipp-hopp Halli. Tilveran hjá Rósa teygð í báða enda, hún hafði skroppið saman þegar endarnir slepptu taki sínu á tilverunni og skollið á andliti hans. Rósi sagði Halla að hann hefði oft fundið fyrir leiðanum síðan líkt og Halli nú. En honum hefði hlotnast dýpri skilningur á eigin lífi og sjálfinu. Já, þeir voru á einu máli um að maður leiðir oft lífið hjá sér og lætur það ganga eins og vatnsdælu sem pumpar vatninu hring eftir hring án fyrirsjáanlegra breytinga. Leiðin getur verið dofi, hjólfar einstkalins sem gleymir að hugsa um eigin afstöðu til lífsins og grunngildana sem móta mann og segja hver maður er eða vill vera og líkjast. Einstaklingurinn er alltaf að leita að hinu og þessu sem lætur mann takast á við óreiðuna í höfðinu á sér. Þeir ræddu um heima og geyma og skildu þess sem lifir í núinu að útvíkka sjálfan sig með leit að þekkingu. Nóg að fara á viðburði og lesa bækur. Einstaklingurinn sem hangir heima við lon og don getur allt eins lifað á Svlabarða og fylgst með íslandi í gegnum netið. Sá einstaklingur sem ræktar ekki garðinn sinn, vökvar ekki lífsblómið húkir í stöðnun og fjarlægist umheiminn á eyðieyju hugans. Rætur hugans þorna og skorpna og eftir situr rótlaus maður sem lifir í óttalegu súrelsi, bara týndur og skýjahula á lofti alla daga. Þótt þú vaknir á morgnanna og brosir framan í fólkið þá er ekki allt sem sýnist.
Súrir drengir fyrir utan sveitaball að tala um lífið og tilveruna. Þeir ræddu áfram um rætur leiðans. Spurning með að klippa á þær eða taka þær bara upp með skóflu. Þurrka þær og búa til ginseng, nýta þær á jákvæðan hátt. Fullnaðarsigur í orrustu stríðsins eða bara tímabundinn, því erfiðasti andstæðingur einstaklingsins, hann sjálfur, glímir við sjálfan sig allt lífið. Sálin nærð og breiðari fyrir vikið. Lykill fundinn sem gengur að mörgum skrám sem áður voru læstar. Einstaklingurinn sér sjálfan sig í víðara samhengi og getur sett sig í spor sem áður voru hulin. Leiðin bara hollur eftir allt saman. Þeir leiðin sækir ekki eru fátækari fyrir vikið, en eru það ekki fáir. Fylgisfiskur mannlegrar tilveru að þyngsl hennar sæki mann heim.

Já, Halla þótti heimurinn öfugsnúinn. Ólíkt hlutskipti mannanna, meðan maður tárast yfir því að kexpakkinn sé tómur missir króatísk stelpa annan fótinn þegar hún stígur á jarðsprengju. En stoða að hugsa um það? Á maður ekki nóg með sjálfan sig flesta daga. Áður en maður vill breyta og bæta heiminn, best að byrja á miðju hans, sjálfum sér. Er svo?


Hann ætlaði að koma sér á réttan kjöl og halda honum réttum með endalausri markmiðasetningu, dag eftir dag. Annars hætta á að báturinn hvolfi og kjölurinn þá ekki lengur sú festa sem hann er heldur bara hanakambur og fyrirliði óreiðunnar sem veldur árangursleysi, óskýrum línum og vandræðum. Kjölurinn sem hanakambur ofaukið, bara til trafala, betra að vera laus við hann og fljúga um eins og helíumblaðra.
Rósi og Halli ræddu um hvort leiðin væri þá kjölfesta hverrar fleytu ef hann bugaði ekki viðkomandi í stormi, rétt eins og gleði sorgir og ögranir. Hvað er heimili án ískáps og sófa? Heimili án kjölfestu eða bara öðruvísi heimili, íslenskt heimili án skynsemi.

Já, afstaða okkar til leiðans er oft eins og hann sé óboðinn gestur, boðflenna í veröld okkar og við reynum að ýta honum burt í stað þess að taka í hönd hans og spjalla og kynnast honum betur. Komast að því af hverju hann kemur og fer. Hvað er orsök og hvað er afleiðing, hvar er hluti mannlegrar tilveru.
En er það rétt að ekki sé hægt að hnýta alla lausa enda og finna lausnir á öllu. Ef maður getur ekki fundið sjálfan sig þá finna upp einhvern annan, eitthvað alter-egó. Í stað þess að vera fastur í einhverjum Halla, hví ekki Jenkil og Hyde eða bara Batman. Leifa dýrinu að komst út og viðra það á einhvern hátt. Fara á byrjunarreit í öðru umhverfi. Engir með fyrirfram mótaðar skoðanir sem lita orð og gjörðir af því sem undan er gengið. Er það svindl? Er það að geta ekki staðið undir því hver maður er? Er það kannski bara ævintýraleit? Í öðrum heimi á núllpunkti eru komment og dómar um orð og gjörðir einmitt ekki byggð á því sem á undan er gengið heldur á því sem gerist í núinu. Það hafa nú ýmsir gert þetta, Jóhannes úr Kötlum sem Anonymus, Helgi Hálfdanarson í ritdeilum við sjálfan sig. Heimst er heimaalið sjálf. Er ekki gott að prófa einn heim eða tvo, kannski þrjá. Þrjú sjálf en sami maðurinn.

Já, það kom enginn botn í þetta spjall milli Rósa og Halla. En lífið kristallaðist í sveitinni hans Stefáns. Stefán var lýsandi dæmi um það. Lífið rennur í gegn og maður reynir að berjast um í stórfljótinu. Ekki nema staðar, þá kemst maður ekki upp ánna til að hryggna hugmyndum og verkum á sinn rétta stað. Halli vissi sem var að það eru engar patent lausnir, bara markmiðasetning og ota sínum tota. Vera sáttur við sjálfan sig. Mæta á fleiri æfingar, koma sjálfum sér í ferli. Stefán myndi gagnrýna en hann var enginn hækja. Hver þarf á hækju að halda. Sjálfstraust skiptir máli og velgegni og góður árangur næst ekki í stökkum heldur smáum skrefum því lífið er samfellt ferðalag en ekki klippimyndir þótt það sýnist stundum vera það. Lífið gengur í bylgjum og línum. Missléttum. Stundum er lífið eins og sínusbylgja, stundum eins og jarðskjálftalínurit. Lífið er ekki bein lína. Bein lína er tilfinningafælni. Það sprettur eitthvað meira upp úr leiðindunum. Tíminn sigrast á þeim. Ekki forðast tíman, fylgdu honum og gerðu hann þér hliðhollan, það er betra því hann fer ekki frá þér, þú losnar aldrei við hann. Lífið er ekki bíómynd eða skáldsaga, lífið er raunveruleiki.

Hipp-hopp Halli lognaðist útaf og vaknaði ekki fyrr en nokkrum tímum síðar. Rósi var ekki hliðina á honum heldur Stefán. Hann startaði bílnum og ók af stað. Áfram veginn. Já, áfram veginn, ekki í bakkgír heldur bara fulla ferð áfram. Svona eins og við gerum, bakkgírinn er ekki brúklegur þegar þú gengur veginn. Horfðu fram á við.

|




Hali í Suðursveit
Sumir menn vita ekki um annan stað unaðslegri en Suðursveitina. Eiga þeir það oft sammerkt að vera ættaðir þaðan eða tengjast staðnum á einhvern hátt. Er einmitt á leið þangað um helgina. Fæ víst að taka þátt í bústörfum og binda svosum einn rúllubagga. Ríð út á hesti, vélsleða - og hjóli. Talandi um Jökulsárlónið og ball í grendinni. Þrír daga í sælu framundan. En Hali er nú þekktast fyrir að hafa borið og barnfætt Þórberg Þórðarson, þar er nú Þórbergssetur og allskyns menningarstarfsemi.

|




21.7.05

Af orðum
Engin ritstífla þannig séð. Búinn að skrifa og endurskrifa. Ætla að birta Satan og Gabríel í heilu - búinn að skrifa einhvern haug og kominn með meiri heildarmynd. það er dálítið vesen að leggja upp í göngu og vita ekki alveg hvert halda skal. Svo eru það frekari fregnir af tilvist Hipp-hopp Halla sem er nú ekki allur þar sem hann er séður - tilvistarkreppan að éta hann upp. Oft í þyngstu raunum sem reynir mest á. Sá sem stendur réttur upp eftir raunir meiri maður fyrir vikið. Hollt að næra sig með orðum. Las 11 mínútur, át hana í mig og nú er það Blikktromman.

|




8.7.05

Hófar Satans #4

Setti Satan hófa á sig og lék sér með þrífork? Var hann kentár, að hálfu maður og að hálfu hestur? Það voru raunar mennirnir sem höfðu fundið þetta gervi upp, einhver skálskapur úr goðafræði sem hafði svo selst vel síðar. Mennirnir vildu búa til grílur, það voru kirkjunnar menn sem máluðu Satan/Skrattann sem óværu með hófa og hala, klaufir og horn, tvískipta tungu og með þrífork í hendi til að ota í augu, eyru og munn. Þetta var nú ekki alveg sannleikurinn, bara örlitlar sjónhverfingar enda skipti birtingarmynd Satans hann ekki máli, hann gat verið hver sem er, en ef einhver horfði inn í augu hans þá gat sá hinn sami séð sál sína rauðglóandi og feigð ef því var að skipta.

Mennirnir vildu sjá töfrasprota, geislabaug, þrífork, eld og brennstein og vændi. Þetta var allt svo barnalegt. Heldur ófrumlegur skáldskapur skrifaður fyrir lengra komna og börn sem víti til varnaðar í formi dæmisagna.

Nú var komið að keppninni sjálfri, guðaráðið var orðið ansi spennt. Scooter og Satan umhverfis landið á 20 dögum - Bling, bling 2005 var nafnið á herlegheitunum. Gabríel ætlaði að túra með Bylgjulestinni, Nylon og Hildi Völu milli þess sem hún kæmi fram með gleðibjöllunum Stuðmönnum. Sá aðili ynni sem fengi meiri aðgangseyri á sín gigg. Mínus ætlaði að slást í lið með Satan og Scooter ásamt einhverjum rappböndum. Satan yrði skreyttur gullhófum með hala í rauðmálaðri lendarskýlu. Slög og lundir yrðu grilluð upp úr BBQ-sósu fyrir utan böllin og Tommi í rokkinu sæi um kolin og grillið.

Reyndar var ein Nylon stúlkan véluð undir Satans mann, einhver hljóðmaður sem Satan hafði borgað með BSDM-klúbbakvöldum undir því fororði að hann spillti stúlkunni í 9 mánaða sambandi en það var annar handleggur. Geirum var att saman. Gleðipopp gegn rokki djöfulsins. Reyndar voru báðir aðilar að reyna að fá Geirmund Valtýsson og Silvíu nótt til liðs við sig til að breikka aldursflóruna sem kæmi á tónleikana. Samningaviðræður við Birgittu Haukdal og Jónsa höfðu runnið út í sandinn.

Satan hafði undirmarkmið. Hann ætlaði að sanka að sér áhangendum og búa til þrælabúðir gleðinnar sem myndu fylgja honum. Skipti ekki máli hverjir það yrðu. Goth-liðið var velkomið og auk hálfstálpaðra unglinga í sjálfsmyndarleit. Satan ætlaði að túra með krúið sitt öfugan hring og byrja á Selfossi – auðvitað, en Gabríel færi réttsælis og fyrsti áfangastaður væri Borgarnes.

Gabríel var sniðugur, hann auglýsti sín gigg sem fjölskylduskemmtun að degi til með trukki og dífu að hætti Bylgjunar og kvölddagskráin fjölsótt af tjald- og sumarbústaðalið, sætaferðir úr bænum ef því var að skipta. Satan vildi bara sjá óeirðir á böllum og slagsmál, drykkju og vesen, íslenskur kotkeill. Hann var sérlega hrifinn af Eldborgarhátíðinni og Uxa, hann vissi hvað landinn var fær um.

Nú var stutt í túrinn...

|




1.7.05

Gamla fólkið, sjónvarpið og sjálfsmyndin

Maður festist oft í einhverju fari sem maður gefur ekki 10 í einkunn. Yfirleitt er þetta tímabundið og svo losar maður um hnúta og kemur sér í betra hjólfar eða fer ótroðnar slóðir. Undanfarna daga hef ég reitt arfa í görðum ellilífeyrisþega og drukkið kaffi með þeim og spjallað um lífshlaup þeirra og hversu miklu máli góð heilsa sé og hvernig tímarnir hafa breyst. Stundum hef ég verið með kaffitremma en þá reiti ég arfann e.t.v. hraðar þegar út er komið. Reyndar veita ekki allir kaffi og sumir eru bara súrir og skammast út í unglinga og segja þá ekkert kunna, hér áður hafi fólk byrjað að vinna 12, 13, 14 ára og þurft að sjá fyrir sér sjálft og kunnað að vinna. En það var á tímum þegar sagt var að bókvitið yrði ekki í askana látið og síðan eru liðin 60-70 ár. Tímarnir breytast og mennirnir með, já sumir kunna ekki að vinna og læra jafnvel eitthvað í vinnuskólanum – svona hlutir eins og vinna í hóp og taka skipunum og klára verkefni sem þeim eru sett fyrir hendur. Sumir eru betri en aðrir. Afbragðs nemendur reita arfa samviskusamlega, það get ég sagt – en allt eru þetta bestu skinn. Unglingurinn í dag þarf að kljást við meira áreiti og meira val en áður. Hann þarf að kunna meira því nú eru það ekki hendurnar sem vinna verkinn heldur hausinn, svona hjá flestum sem ég þekki. Það tekur langan tíma að skóla sig til í eiginlegri og óeiginlegri merkingu.
Sjónvarpsþættirnir bara heltaka mann og ég hef oftast barist gegn því að límast við skjáinn. En ég er einlægur áhugamaður um dæmisögur úr daglega lífinu og mannlega þanka og raunir. Ætla að fara meira út í æfisagnalestur en Blikktromma Nóbelsskáldsins Günther Grass bíður handan við hornið áður en af því verður. Hvar á ég að byrja? Boston Public, Staupasteinn og John Doe. Já, hef bara ekki nennt að horfa á Vini á Sirkus eftir að þeir byrjuðu - þeir eru bara ekki mitt kaffi - of auðveldur húmor, Saupasteinninn fær mig til að hlæja. Boston Public eru merkilegir þættir. Þar sem skólamál eru mér ofarlega í huga og allt er á suðupunkti svo alla jafnan í þessum skóla þá sit ég sem fastast. Vandræðagemsar, einkalífsklúður, daður, ójafnvægi í hormónum og svindl eru allt álitaefni sem koma upp í þessum þáttum. Þarna eru kennarar og nemendur að baksast með sjálfa sig og reyna að komast frá deginum á sem bestan hátt. Það eru endalausar dæmisögur í gangi, liggur við að maður þurfi ekki að lifa lífinu sjálfur heldur fylgjast bara með þáttunum til að læra það sem skiptir máli en það er nú annar handleggur. Kennarar og nemendur reyna að finna hvað þeir vilja fá út úr lífinu og hvernig manneskjur þeir vilji vera, sjálfsmyndin er í molum hjá sumum og alltaf er hjálparhönd sem rétt er fram og úrlausnir mála nást á einhvern hátt, misgóðar reyndar. Geðheilsan er misgóð hjá persónum og leikendum og samskipti við annað fólk fara forgörðum með mismunandi afleiðingum. Stacy má ekki læra á fiðlu því pabbi hennar píanóleikarinn gekk þá braut en það færði honum ekkert nema skuldir og múrverkið er það sem lætur enda ná saman - stúlkan skal fá það sem hann fékk ekki, áhyggjuleysi vegna stöðugs tekjuflæðis. Fólkið lærir skref fyrir skref að bæta sjálft sig og aðra og þegar dagur er að kveldi kominn í þáttunum hefur eitthvað áunnist, brotunum í mósaíkmyndina fjölgar. Veit nú ekki hvert mósaíkmyndin mín er að fara, held hún sé stór og veit ekkert hvernig hún verður þrátt fyrir einhverjar áætlanir og svona. Skólastjóri, ha, úti á landi - verður maður ekki að byrja einhversstaðar, leikari - átti langt spjall við Hilmi aðalspaða og leikara nr. 1 seint á laugardagskvöld - hann snéri mér næstum, ekki það að ég sé eitthvað sem eitthvað verður - orðinn svo gamall en samt ekki kannski fyrir stefnuskipti...

Þegar gamla fólkið sem á garðanna sem ég reiti var ungt voru ekki til unglingar, bara lítið fólk og aðeins stærra. Lenti í gamalli konu fyrir 2 dögum sem var alveg óð. Hún skammaðist út í drengina í garðinum. Þeir höfðu slegið lóðina hjá nágrannanum sem er ekki löggilt gamalmenni og borgar ekki 3000 krónur fyrir garðaþrif. Ég sagði henni að það kæmi henni ekki við hvað gert hefði verið við garð nágrannans sem hefði narrað drengina til að slá garðinn hans. Það sem kæmi henni við væri að garðurinn hennar yrði í toppstandi í vikulok. Ég spurði hana hvort hún vildi að ég tæki 1 tíma af strákunum svo þeir hefðu gert þetta í sjálfboðavinnu en hún svaraði engu og sagðist ekki ætla að borga fyrir garðvinnuna ég bauð henni þá að ég skildi taka garðinn hennar fyrir ef hún treysti þeim ekki, en það kostaði hana ekki 3.000 krónur heldur 20.000 krónur. Ég sagði henni frá því hversu frábærir drengir þetta væru og efnilegir náms- og íþróttamenn og aðrir garðeigendur væru einstaklega ánægðir með framlag þeirra. Svo róaðist hún og við spjölluðum um lífshlaup hennar og skin og skúri sem á hana hefðu dunið og barnabörnin... ...blablabla.... svona er þetta!!!

En nú er að koma sér í nýtt hjólfar því fljótlega eftir helgi byrjar kappinn í nýrri vinna. Umhverfisstofnun borgarinnar mun njóta starfskrafta minna í einhvern tíma. Breytingar eru góðar. Safna á gögnum um notkun nagladekkja á Íslandi og á Norðurlöndunum. Skýrslur og símtöl og skrif. Enda þetta á stuðmannatextabroti “ég fer í háttinn klukkan átta”.

|