31.12.03

Hámörkun gleðinnar

Á morgun er lokadagur ársins. Oft hefur maður brennt sig á því að gera heldur of miklar væntingar til lokadagsins, skemmst er að minnast 1999/2000, gríðarleg vonbrigði. Svo ég geri engar væntingar, held ég spari mig fyrir laugardaginn, þá er Nesgleði með fólkinu í Nesinu. Hagfræði gleðinnar snýst um hámörkun gleðinnar snýst um það að njóta augnabliksins en ekki bíða eftir því sem verður eða þess sem við viljum að verði. Taka þeirri gleði sem að höndum ber.

|




20.12.03

Göfugt hugrekki

Það er talið til mannkosta að hafa til að bera hugrekki. En hvað er hugrekki? Hugrekki er nánast alltaf lýst sem karllægu. Það markast af orðræðunni sem átt hefur sér stað. Við sjáum það tilsýndar á filmum og á prenti. Hugrekki er að finna hvarvetna sem við gnjótum um í mannkynssögunni. Sagan greinir frá hugrekki hetja, landkönnuða og trúarpostula. Þegar minnst er á hugrekki kvenna þá er það oft í kjölfar þess að karlhetjan fellur frá og konan hreinsar upp slóðina, hvort sem er að ala upp börnin ein eða reka endahnútinn á það sem karlmaðurinn hóf. Ástæðan er líklegast sú að karlar skrifa þær sögubækur þar sem kemur til kastana að sýna og beita hugrekki. Undantekningar á þessu eru Jóhanna af Örk, Aþena sem stökk fullsköpuð út úr höfði Seifs og fleiri kvenkyns verur sem stóðu í stafni. Nú er ég ekki að segja að þetta sé birtingarmynd raunveruleikans. Í raunveruleikanum sýna bæði karlar og konur hugrekki, hvort sem er við dagleg störf eða í frístundum sínum. Hugrekki felst m.a. í því að mæta örlögum sínum af æðruleysi, hlaupa undir bagga þegar ögurstundu og bara að lifa lífinu við erfið skilyrði. Fólk tekur því sem að höndum ber og leysir málin á sem farsælastan hátt.

Í útvarpinu heyrði ég spjall við Ármann eða Sverri Jakobsson. Þessir kappar eru miklir fræðimenn og oftar en ekki er leitað til þeirra ef fjölmiðlar þurfa að fræðast frekar um afmörkuð málefni sem þeir geta ekki gert skil á sjálfir og eru á þeirra könnu. Í spjallinu var rætt um hugrekki í Hringadróttinssögu Tolkiens. Í Hringadróttinssögu er hugrekkinu lýst sem hugrekki sem birtist í norrænni goðafræði. Borið var saman kristið og norrænt hugrekki. Dómsdagur er óumflýjanlegur í Hringadróttinssögu og er undirliggjandi þráður gegnum söguna. Kristið hugrekki byggist á því að sá sem hefur til að bera hugrekkið veit að hann er hólpinn, hann á vísan sigur og veit það innst inni að hann mun verða hólpinn á efsta degi. Handhafi hugrekkisins er bjartsýnismaður sem veit úrslit kappleiksins. Í norrænni goðafræði eru Ragnarök óumflýjanleg. Þar veit handahafi hugrekkisins að hann mun farast, örlögin verða ekki flúin. Sá hugrakki er svartsýnn einstaklingur sem hefur til að bera bjartsýni. Hann fer til orustu sem hann veit að mun ekki vinnast, en gengur samt á hólminn. Hópar hetja ganga til orustu sem mun tapast, það verður enginn mjöður og engin Valhöll sem býður þeirra. Það er borðleggjandi að erfiðara er að mæta til leiks vitandi þess vits að maður mun bera skarðan hlut frá borði, því við ofurefli er að etja, en samt gefa allt sitt.

Ég vil heimfæra þetta hugrekki á einstakling sem er á leið í próf sem hann veit að hann mun ekki ná. Einstaklingurinn er brattur og mætir í prófið í stað þess að sitja heima, hann mætir örlögum sínum og gerir sitt besta. Ekki það að þetta sé lýsing á þeim væntingum sem ég ber til prófsins sem ég tek sjálfur á morgunn. En oftast er það svo í þessum efnum að svo uppsker hver sem sáir. Örvæntingarfullir próftakendur sem sitja í súpunni treysta oft á happahitt og happaþetta. Kissa krossa, nota sérstakan blýant og ganga í happafötum. Ég játa það nú hér með að ég hef nú sjálfur nokkrum sinnum farið í svona dómadagspróf. Þá hef ég öskrað innra með mér “sonur þú klárar verkið, engan heigulshátt”.

Ég vil kalla þetta norræna hugrekki göfugra hugrekki en kristallast í kristindómnum. Það sem fellst í því að mæta til leiks er að mæta örlögum sínum og rétt eins og í Ragnarökum þá eru lok þess gamla upphaf einhvers nýs.

Norræna goðafræðin hefur verið mér hugleikin eftir að ég sá leikna þáttaröð um hana í sjónvarpinu þegar ég var á að giska 6 ára. Ég var súr í bragði yfir því að heimurinn skildi enda en endalokin voru súrsæt því upp stigu Askur og Embla og nýtt upphaf varð raunin.

Rétt eins hóran í Forrest Gump segir, þegar tvær hórur, Gump sjálfur og liðforinginn fótalausi vinur hans fagna nýju ári, það fá allir annan séns, þá fékk tilvistin annan séns með upphafi hins nýja heims með nýjum persónum og leikendum; Aski og Emblu.

Nú styttist í að árið 2003 renni sitt skeið og við tekur nýtt ár. Nú er bara að klambra saman áramótaheitum og mæta bjartsýnn til leiks á nýju ári og læra vel fyrir komandi próf hvar sem þau verða, vera góður við náungann og gefa eitthvað af sér.


Ég biðst velvirðinigar á því ef kommusetning er slök hjá mér. Einnig hefði ég getað notað hún í stað hann víða hér fyrir ofan.


|




18.12.03

Sjúkdómavæðing - meinavæðing

Þegar ég var yngri þá langaði mig í spangir, gifs og hækjur. Þetta var lífsreynsla sem ég þráði þegar ég var svona 11-12 ára. Víravirki og víraflækjur utaná andlitinu, svona heví-spangir, voru eitthvað sem heillaði mig. Mig langaði í gifs á útlim, þá hugsaði ég sérstaklega til þess að fá gifs á fótlegginn fyrir neðan hné eða þá á hægri hönd fyrir neðan olnboga svo ég gæti ekki skrifað og væri löglega afsakaður frá heimaverkefnum um hríð, sem ég var reyndar duglegur við að leysa. Talandi um skólaverkefni þá minnist ég þess hversu mikinn metnað ég hafði þá, maður var í eilífri keppni við að vera fljótastur að reikna dæmablað, gera úrdrátt í tíma og þess háttar og hlaupa síðan með verkefnið upp að borði kennarans svo að við lá handalögmálum, en nóg af því, snúum okkur að spöngum, gifsi og hækjum. Líklega hefur áhugi minn á gifsi frá olnboga og niður að fingrum kviknað þegar ég horfði á Gary Liniker á HM '86 í Mexíkó. Liniker fékk þar að spila með gifs og skoraði vel. Liniker skoraði reyndar 49 mörk fyrir enska landsliðið að mig minnir.
En engar fékk ég spangirnar og ekkert gifs hef ég fengið hingað til. En hækjur fékk ég að prófa. Eftir að hafa snúið mig á ökkla á handboltaæfingu með Stjörnunni þá hoppaði ég allra minna ferð á vinstri fæti og var hálf óður svo ég leigði mér hækjur. Það var lítið fjör svo ég skilaði þeim tveimur dögum síðar. Mér leið hálf asnalega að vera á hækjum í Versló. Ég hugsaði til þess að eitt sinn hefði ég þráð það heitt að prófa hækjur. Maður var alltaf æstur í að prófa hækjur ef einhver náði að vinna sér tjón eða þá að einhver vann einhverjum tjón; sbr. bíll eða hrindingar á svelli. Ég hugsaði um hvort ég fengi meðaumkun samnemenda minna en varð einskis vísari. Það eina sem ég hafði upp úr krafsinu voru óþægindi af blóðugum bjúguðum fæti og það að ég missti af turneringu með handboltaliðinu, þar sem ég spilaði stöðu hægri skyttu. Líklegast var hátindinum náð á handboltaferlinum þetta ár. Var í horninu hjá Fram en skipti yfir og spilaði skyttu þann veturinn. Ég gerðist einnig svo frægur að vera boðið í æfingahóp meistaraflokks Stjörnunnar sem var undir stjórn Viggó Sigurðssonar á þeim tíma. Ég mætti á þrjár æfingar en sleppti svo æfingum vegna anna í nemendamóti og hef ekki mætt síðan.

En af sjúkdóma - og meinavæðingunni. Þarna átti sér augljóslega stað sýki eftir meinum og krankleika svo ég gæti náð takmarki mínu, en svo þegar á hólminn var komið með hækjurnar þá var þetta ekki sú gleði sem ég hafði búist við. Fólk hefur vott eða snert af vænisýki, athyglissýki, eymslum í baki og hálsi, taugaveiklun og ýmsu öðru sem nöfnum má gefa. Á síðustu árum hefur greiningu á allskonar sýki fleitt fram og nú er fólk farið að fá bætur sem átti ekki kost á því hér áður fyrr. En punkturinn hjá mér er ég veit ekki hver. Kannski sá að vandamálin eru oft í höfðinu á okkur sjálfum og útgönguleiðin er auðveldari heldur en við höldum því oft miklum við hlutina fyrir okkur og berjumst við ímyndaða veggi og vindmyllur eins og riddarinn hugumprúði Don Kítóde. Oft er það þannig að aðrir geta ekki gert hlutina fyrir mann og máltækið segir að guð hjálpi þeim sem hjálpa sér sjálfir. Fjölhyggjumaðurinn verður að treysta á sjálfan sig og vinna á sínum takmörkunum sjálfur, blása í sig eldmóði því allt er hægt er viljinn er fyrir hendi.

|




12.12.03

Mögnuð saga

Ég las fyrir nokkrum dögum magnaða sögu hjá Togga Pop. Þekki hann ekki en man eftir honum, hann kemur úr hverfinu. Í sögunni greinir hann frá veikindum bróður síns og raunum fjölskyldunar. Sagan er skyldulesning og sleit ég mig ekki frá henni. Toggi er ritfær og snertir á strengi í sögunni. Þessi saga er ein af fjölmörgum í sagnabálki hans Óhappa-Toggi. Slóðin er http://toggipop.blogspot.com. Ég er búinn að lesa kommentin og kæmi mér ekki á óvart að sagan yrði birt einhversstaðar innan skamms.

En sagan fær mann til að hugsa til þess hversu smávægileg umhugsunarefni manns eru oft á tíðum.

Ég hef rætt við fólk í gegnum tíðina sem hefur sagt skoðanir sínar á öryrkjum, þ.e. hverjir væru öryrkjar og hverjir ekki. Einn viðmælandi minn hélt því fram að helmingur þeirra sem væru á bótum væru vinnufærir menn sem stunduðu svarta vinnu en nýttu sér kerfið og keyrðu um á fínum jeppem og nýttu sér ýmis fríðindi á við ókeypis íbúðir og frí sundkort. Þekki þetta ekki. Sá hinn sami sagði umræðuna viðkvæma því þetta væri eitthvað sem stjórnmálamenn vildu ekki ræða, væri ekki vinsælt. En fólki á bótum hefur fjölgað stórlega á síðustu tíu árum.

Ég ræddi áðan við sjálfstæðimann, einn af þeim heitari í fleiri en einum skilningi. Ungur kappi. Hann sagði Heimdall vera á krossgötum, eða frekar í öngstræti (mín túlkun). En það sem Heimdall vantar er betri ímynd til að laða til sín ungt fólk. Sumir hvá eflaust og spyrja hvort kasta eigi hugsónum fyrir róða til þess að búa til vinsæl félagasamtök ungs fólks. En ég held að það þurfa að virkja grasrótina betur á þessum væng og Heimdellingar hafa ekki staðið sig í stykkinu undanfarið. Ég hef ekki átt samleið með mörgum af skoðunum þeirra á netinu. Ég sé til að mynda ekkert athugavert við það að veita listmönnum heiðursverðlaun. Ofvöxtur ríkisbáknins er ekki af hinu góða en við verðum að hlúa að andlegum verðmætum. Við erum lítið land og ekki veitir af.

|




5.12.03

Langanir fólks

Ef hið óvænta hverfur, þurfum við þá ný mörk, ný viðfangsefni? Sá sem heldur sér á brúninni, vill verðug verkefni til að kljást við hvort sem um ræðir helgarglens í Reykjavík, hraði eða holdlegar langanir. Einkunnarorð ólympíuleikanna eru hærra, hraðar og lengra. En vera má að sá sem lifir á brúninni sé ekki í jafnvægi. En maðurinn leitar og reynir á þanþol sitt til að kynnast getu sinni og takmörkunum. Því þýðir ekki að sitja með hendur í skauti, heldur leita og halda áfram. En hvenær ber að stoppa? Það er eitthvað sem hver og einn verður að eiga við sjálfan sig.

Þarf sá sem losar sig úr viðjum fíknar að fá eitthvað annað haldreipi í staðinn? Reykingamaðurinn fær sér tyggjó, drekkur kaffi, borðar súkkulaði og hvaðeina til að höndla reykleysið. En reykmaðurinn getur farið í sjálfsmeðferð. Hvað þarf fólk að gera til að hugarfarsbreyting eigi sér stað? Kannski að hvolfa við borðum og stólum í huganum, færa málverk - koma á nýrri uppröðum, nýrri forgangsröðun, nýrri sýn.

Ég hef oft velt því fyrir mér samfara verkfræðinámi mínu hvaða gildi fyrirlestur í efni sem ég get allt eins lesið heima hjá mér hafi fyrir mig. Ef til vill er það svo að fyrirlesarinn gefur mér eldmóð sem fæst ekki heima fyrir, því ef þú þarft að peppa þig sjálfur upp þá getur farið svo að þú bara sleppir því og aðhafist ekkert. Punkturinn hjá mér er sá að göfuleikinn þarf ekki að felast í erfiðinu, maður þarf ekki alltaf að fara fjallabaksleiðina þrátt fyrir að maður geri það oftar en hollt er. Kannski er heimskur heima alinn og betra er að taka slaginn en sitja heima. Heimurinn er uppfullur af nýjungum sem manni óraði ekki fyrir, svo hollast er að vera í startholunum og nýta sér þau tækifæri sem bjóðast manni þrátt fyrir að þau sýnist minni en þau svo í raun eru.

Maður verður súr á próflestri eins og sést hér að ofan og kemur manni til að velta sér upp úr einhverju sem maður gerir ekki allajafnan.

|




Enn og aftur af fjölhyggjunni

Þegar ég las fyrst um fjölhyggjuna, þá áttaði ég mig á því hvar ég stóð. Ég hafði velt því fyrir mér hvar í flokki væri hægt að hólfa mig. Þá er ég ekki að tala um stjórnmál, heldur bara svona beina greiningu frá a-ö, þrátt fyrir það sé langt í frá áreiðanleg aðferð að nota þekktar aðferðir á mannshugan og hegðan einstaklingsins. En ég hafði sumsé velt mér upp úr því hvað umhverfið segði um mig, athafnir mínar, hugsanir, langanir og þrár og þar fram eftir götunum. Þegar maður er síli í stórri tjörn er oft erfitt að henda reiður á framboð fæðunnar sem í boði er. Tilviljanir ráða oft ferðinni og ef ég hefði fæðst í Rússlandi upp úr aldamótunum nítjánhundruð þá hefði ég eflaust orðið kommi og verið eitthvað fáfróðari en ég er hefði ég fæðst á Íslandi fyrir 300 árum. En nóf af röfli, áfram með fjölhyggjuna. Það var uppgötvun sem átti sér stað þegar ég las í gegnum tímarit þjóðfélagsfræðinema að sumri eða vetri til í kjallaranum í Vesturberginu og fræddist um fjölhyggjuna. Ég las greinina tvisvar eða þrisvar eftir miðnætti í bæli mínu - minni að Róbert H. Haraldsson hafi skrifað ritgerðina sem ég las.
En fjölhyggjan er ekki trúarkenning og þeir sem flokkast sem fjölhyggjumenn eru ekki í sértrúarsöfnuði, heldur Evrópumenn og fleirri upplýstir nútímamenn. Ég gerði mér grein fyrir því eftir vangaveltur að ég var ekkert sérstakur eða einstakur að vera fjölhyggjumaður, frekar bara að þá vissi ég að fjölhyggjan væri eitthvað sem ég og þú stæðum fyrir.

Ástæðan fyrir því að ég blaðra um þetta núna er sú að Magnús Ársel minntist á stuttan pistil minn á vefnum um málefnið fyrir einhverju síðan. Magnús Ársel er nefnilega fjölhyggjumaður af sömu gerð og ég og þú.

Fjölhyggjumaðurinn er leitandi maður sem veit oft ekki í hvorn fótinn hann á að stíga, því allt orkar tvímælis þá gert er og mælistikan rétt og rangt á ekki alltaf við. Kannski maður eigi erfitt með að greina aðalatriðin eða maður lími sig út í hörgul í smáatriðunum svo maður tapi þræðinum. En það er nú svo sem ágætis leið til að púsla upp heildarmyndinni að garfast í hinu smáa rétt eins því stóra til að fá ekki bjagaða sýn. En eins við vitum þá hefur sjaldan verið jafn gott og jafn erfitt að vera til og einmitt í dag. Ákvarðanatakan og ábygðin sem fylgir því að höndla frelsið er verkefni sem við eigum fullt í fangi með. En nóg í bili.

|