30.3.05

Hver er uppáhalds andstæðingurinn þinn

Ég hef lesið þó nokkur viðtöl við íþróttafólk í gegnum tíðina. Man fyrst eftir þeim í Íþróttablaðinu sáluga, svo eru það dagblöðin og nú síðast netsíður. Fólk nefnir einstaklinga sem gaman er að kljást við. Yfirleitt nefnir fólk krefjandi verkefni, einhvern þar sem allt liggur undir, hámarks frammistöðu þarf til að árangur verði ásættanlegur. Ætt mitt svar þá að vera Bergur sem andstæðingur í 400m/800m því við vorum áþekkir sl. Sumar eða þá Ómar í inniboltanum því það má ganga nokkuð hart í hann án þess að hann væli og ég fer fram á það sama frá honum. Hvert er mitt svar?

Ég er minn uppáhaldsandstæðingur og erfiðasti andstæðingur. Ég er einnig minn helsti óvinur!!! Hvernig getur þetta gengið? Gæti þetta sagt að ég væri haldinn sjálfseyðingarhvöt og ynni gegn sjálfum mér? Hvað er það sem veldur því að við náum ekki settum markmiðum, erum það ekki við sjálf. Við getum ekki kennt öðrum um mistök okkar, svona oftast. Við uppskerum eins og við sáum. Verðum við ekki að sættast við okkur eins og við erum? Hvenær kemur að því? Kallast það ekki uppgjöf ef við segjum “jæja, er þetta bara ekki ágætt – eigum við ekki að segja þetta gott”. Liggur ósætti við sjálfan sig í ofurtrú á sjálfan sig, geta og hugur fari ekki alveg saman. Mögulega, en ef svo er þá rennur það upp fyrir viðkomandi einn daginn og þá er að fara vinna úr stöðunni eins og hún er en ekki eins og viðkomandi vildi að hún væri.

Lífið er vígvöllur, þú þarf að fara út úr húsi á hverjum morgni eins og dagurinn sé þinn síðasti og gefa allt þitt. Hvaða kröfur gerirðu til sjálfs þíns. Maður hefur sett sér markmið í gegnum tíðina og sumum hefur maður náð en öðrum ekki. Allir hafa sinn djöful að draga og sumir eiga beinagrindur inni í skáp heima. Hjá mörgum er vandinn sá að hafa of mörg járn í eldinum og einnig að hafa ekki nógu gaman að því sem maður er að gera – en sitt lítið af hverju gerir það að verkum að árangur verður ekki 100%, heldur kannski 60%-90% - stundum meira og stundum minna.
Þetta með vígvöllinn er dálítið eins og skapa sér stöðu, byrja vel og skapa sér góða stöðu. Þetta er eins í hlaupum – í 800 m hlaupi skiptir máli að hlaupa fyrstu 200 m á góðum tíma og koma sér fyrir á góðum stað í röðinni. Maður verður að koma sér á góðan hraða því það tekur of mikla orku að vera rykkja í og hægja á sér. Taktík skiptir máli. Þetta er svipað í 400 m hlaupi að því leiti að þú sprengir vel fyrstu 30 m, svo rúllarðu vel út úr beygjunni. Þegar þú hefur lagt ca. 70-80 m að baki þá lengirðu skrefin og reynir að halda hraða. Þegar kemur að seinni beygjunni og 200 m eru að baki þá eykurðu skreftíðni, styttir þau og gefur örlítið í. Þegar út úr beygjunni er komið eru ca. 100 m eftir. Þá er bara að reyna að halda út og gefa í. Hreyfa hendur vel og halda öxlum niðri því sýran vill þig og passa verður að maður stytti ekki skrefin um of. Reyna að vera afslappaður. Lykillinn að góðu hlaupi er að hlaupa afslappað. Það er þó nokkur ballett í þessu.


Já, þessi hlaup eru heilmikið puð. Ca. 40 m í mark og 360 m að baki. Byrjaður að súrna örlítið.


En ef við viljum vera að alveg 100% - hvað gerum við þá? Ég vil stjórn yfir mér, og ákveðinn stjórnarformann. Sem minn uppáhalds andstæðingur og helsti óvinur vil ég fá ósýnlega hönd til að stjórna mér. Ég vil ósýnlega hönd sem metur framboð og eftirspurn langanna og þarfa. Eitt stykki grand master sem hefur yfirsýn yfir völlinn og veit hvert skal stefna og hvernig skal stýra. En vandamálið er að þetta eru óskir sem enginn getur orðið við - eins og við fæðumst ein og deyjum ein þá verðum við ein að sjá um þessa hluti sjálf. Breytum og bætum, höldum áfram og einn daginn verðum við nokkuð sátt og það á síðasta degi.

|




Peningar og hamingja

Ég fór í innflutningsgleði á Klapparstíg á páskadag. Vel heppnuð gleði þar sem fólk með fjölbreytilegan bakgrunn safnaðist saman og samfagnaði nýbúum við Klapparstíg. Ég átti spjall við tvo drengi og eina stúlku. Ég setti fram þá fullyrðingu að samhengi væri milli hamingju og peninga. Ekki féll þessi fullyrðing í frjóan jarðveg og öttu þau kappi við að segja hversu rangt ég hefði fyrir mér. Ég bakkaði fullyrðinguna upp með rökum en málsaðilum mikið niðri fyrir og samræður nokkuð háværar en ég hélt ró að skrafaði um hlutina í víðu samhengi og þröngu, en vandamálið var að komast að og þá var bara að tala ofan í fólkið en það er ekki samræðuháttur sem er þægilegur. Ég fékk að heyra það að á Kúbu væri fólk sem ætti ekkert en væri samt hamingjusamt en hérna uppi á klaka væru einstaklingar með fullar hendur fjár í bullandi óhamingju – jú, mikið rétt held ég í einhverjum tilvikum.
En nota bene, er eitthvað samhengi í þessu öllu:

1. Samengi er milli peninga og hamingju.
2. Lykilatriði fyrir einstaklinga er að geta brauðfætt sig og sína.
3. Peningar veit frelsi til athafna.
4. Ef einstaklingur lifir við skort þá finnur hann fyrir vanmetakennd út í sjálfan sig og samfélagið. Einstaklingur þarf þá mögulega á hjálp samfélagsins við að framleita sér.
5. Peningar hafa mismundandi merkingu, frekar má ræða um kaupmátt peninga í því samfélagi sem viðkomandi lifir í.
6. Þegar einstaklingur getur framfleytt sér og sínum þá skiptir ekki máli hvort hann eigi eina milljón í banka eða hundrað milljónir, hamingjan byggir ekki á því.
7. Gildismat byggist á umhverfi og uppeldi.
8. Hamingja er ekki afleiðing peninga, heldur fleiri þátta.
9. Sá einstaklingur sem skortir tæki til að veita sér lífsgæði leitar annarra lausna. Það getur dugað og það getur ekki dugað.
10. Peningar getur mögulega verið orsök vinnusemi. Sá vinnusami getur mögulega vitað hvað hann vill og sá sem veit hvað hann vill veit hvar á að leita, mögulega bæði hamingju og velgengni. Velgengni getur veitt hamingju. Þá eru peningar afleiðing velgengni og peningar afleiðing hamingju.

Afleiðsla:
Ég á 20 milljónir. Ég er hamingjusamur. Ég get keypt mér íbúð, ég get farið á skíði í Austurríki, ég get greitt fyrir nám, ég get farið í nám erlendis og greitt skólagjöld.
Ég á 20 milljónir. Ég þarf ekki að hafa fyrir því að kaupa mér íbúð, ég sólunda aurum í einskis nýta hluti því ég vann þá í lottói og veit ekki hvernig ég á að hafa fyrir því að vinna fyrir aurunum.

Aðleiðsla:
Ég er vinnusamur. Ég þéna vel. Mér áskotnast peningar vegna velgengni sem er afleiðing hæfileika minna. Vegna velgengni og vinnusemi og farsælla ákvarðanna og skynsemi þá verð ég hamingjusamur.
Ég er vinnusamur. Ég þéna vel. Mér áskotnast peningar vegna velgengni sem er afleiðing hæfileika minna. Ég veit ekki aura minna tal. Og vinn og vinn og græði og græði. Ég veit ekki hvað veitir mér hamingju vegna þess að ég sækist bara eftir meiri velgengni og meiri peningum. En peningarnir veita mér ekki hamingju því ég leita ekki réttra gilda, peningarnir varna mér sýn á það sem skiptir máli í lífinu og þess vegna höndla ég ekki hamingjuna.


Ég sagði ekki “því meiri aur, því meiri hamingja”. Í þessu liggur mergurinn málsins. Ég sagði einungis að samband væri milli peninga og hamingju og það er rétt. Það er því línulegt samband milli peninga og hamingju upp að vissu marki, svo má áætla að fallið peningar og hamingja sé fasti – bein lína. Veit ekki um rannsóknir á þessu sviði, kannski segja þær að samband peninga og hamingju sé parabóla, þegar vissu marki er náð stefni línan niður á við. Aurar veit frelsi til athafna og lykilatriðið er að geta notað þá rétt. Uppeldi og umhverfi skipta þar máli. Sælir eru einfaldir og sá sem þekkir ekkert annað veit ekki hvað er handan við hæðina, ekki endilega að það sé eftirsóknarverðara. Einstaklingshyggjumiðaður einstaklingur leitast við að grafa nýja skurði og klífa fleiri fjöll og það hærri og erfiðari. Ég hugsa að málsaðilar hafi verið nokkuð sammála í grunninn en drengjunum og stúlkunni þóttu ég bara vera eitthvað kaldur, köld framsetning hjá mér. Þau styðja ekki sjálfstæðiflokkinn og halda að ég geri það þótt ég hafi ekkert upp gefið. Umræðan var ég og þau, svart og hvítt, kalt og heitt. Líta verður á forsendur í hverju tilviki til að gera sér grein fyrir hverju máli fyrir sig. 100 þúsund á Kúbu er að við 5 milljónir á Íslandi. En þetta voru fyrirtaks krakkar og fínt að spjalla við þau. Það þurfa ekki allir að vera alltaf sammála um hlutina. Ef svo væri hlustuðu allir á sömu hljómsveitina og gengu í eins fötum.

Ég er bara amatör að reyna að átta mig á hlutunum með einhverju tækjum. Kannski máttlaus skrif innslegin á örtíma. Nytjastefnan eftir John Stuart Mill er holl lesning og með merkari siðfræðiritum. Í ritinu greinir frá kenningum Mills um að hamingja felist í ánægju og að siðferðilegt réttmæti athafna ráðist af því að hvaða marki þær auka við eða draga úr ánægju. Sókrates var viss um það að það sem hann vissi fyrir víst var að hann vissi ekki neitt. Þekkingin er þarna úti, nú er bara að ná í hana.

|




22.3.05

Vinna og páskasaga

Vill einhver ráða mig í vinnu. Ég er til í að vinna alveg helling, mikið álag er í góðu lagi og ég get unnið sjálfstætt og í hópi. Starfsmannafélagið má njóta krafta minna.
Spurning hvort einhver hafi samband! Ég bíð við símann. Ráðningarskrifstofur og fyrirtæki með umsókn. Var heldur seinn af stað.

Mig vantar mp3 spilara. Nenni ekki að hlaupa á tónlistar. Veit einhver um leiguíbúð? Er einhver með fasteign á sölu í 101, 107 eða 105 á 11-13 m.kr.?

Páskarnir á leiðinni í bæinn. Það er hiti úti - spurning hvort skíði séu nothæf í Bláfjöllum um helgina. Páskasagan í ár verður framhald af viðureign Gabríels og Satans um Ísland og heiminn.

|




18.3.05

Kynlegir kvistir og jarðsetning

Það hafa allir gott af því að vinna úti í guðsgrænni náttúrunni sem ekki fara í sveit. Forréttindi að komast af malbikinu í gróðursetningu eða stígagerð. En yfirleitt er þetta skoðun sem maður kemst á eftir á, þar sem maður hefur ekki þroska og vit til þess að meta víðáttuna þegar maður er í unglingavinnunni.

Sumarið eftir 9. bekk unnum við grislingar úr Hólabrekkuskóla við gróðursetningu í Heiðmörk. Unnið frá 7:30-14:30. Flokkstjórarnir Friðrik bassaleikari og Ingólfur Bender, nú dr. í hagfræði og yfirmaður greiningardeildar Íslandsbanka, þá með volgt B.s. skýrteini í höndunum. Þetta sumar var heitt og sólríkt og í húsagörðum voru grillaðir kolaborgarar, rif og steikur kvöld eftir kvöld. Ingólfur ógjarnanan svipti sig klæðum enda tálgaður vel og átti 116 kg í bekkpressu þá – seigur. Hef hitt hann á förnum vegi síðan og held hann hafi bætt sig í bekknum, en af Friðrik hef ég engar spurnir haft.

Hagfræðingurinn var kennismiður þess skipulags að hvílast mætti þegar dagsverki væri lokið og plöntuskammtur dagsins væri gróðursettur. Við unnum eins og sveitt svín og það kom fyrir á tímabili að við fengum að ganga heim í Breiðholtið eftir dagsverkið, þetta var klukkustundarganga. Eitthvað var nú bogið við afköstin hjá okkur, við jarðsettum plönturnar, við gróðursettum ekki. Það fóru heilu bakkarnir af litlum greniplöntum undir grænar torfur, eða þá e.t.v. einum bakka var fleygt í holu og skítur settur yfir og svo ein planta efst – toppurinn á ísjakanum. Eitthvað fór yfirverkstjórann Vigni að gruna að maðkur væri í mysunni, tómar rútur úr Heiðmörkinni. Held að flokkstjórana hafi grunað þetta. Við fengum yfirhalningu og ekki fórum við fyrr heim aftur.

Í árgangnum voru nokkrir kynlegir kvistir. Einna minnisstæðastur var Elli. Pabbi Ella var sendibílstjóri. Elli sagði familíuna eiga O. Johnson & Kaaber, pabba sínum þætti nauðsynlegt að dreifa Cocoa Puffs-inu, fylgjast vel með. Elli var álíka hár og ég (ca. 165-8 cm) og grannur. Júdó var hans sérgrein, hann tókst á við bekkpressutröllin og hafði undir þótt þyngri og stærri væru. Elli sótti athygli hart og eitt af skemmtiatriðum hans var að æla á steina eftir matar- og kaffihlé. Já, fjörugur drengur þar. Það gerðist ýmislegt annað - fjörugir eltingaleikir og ég fékk gat á hausinn og fór ekki með hausinn í sturtu í viku.

Það var svo í desember ’03 að ég kom þangað aftur, sem Hurðaskellir. Hurðaskellir mætti á jólaskemmtun utanríkisráðuneytisins í Heiðmörk og sá að kominn var ágætis skógur.

|




15.3.05

Leikmaðurinn ég

Ég er bara leikmaður, ein rödd. Við viljum breyta og bæta heiminn en sum hver okkar erum bara svo áhrifalaus og erfitt fyrir okkur að koma okkar að. Við pöpullinn getum þó reynt og það er fyrir mestu að reyna og missa ekki móðinn þótt enginn hlusti. Það ómögulega gerðist nú í sumar þegar forsetinn skrifaði ekki undir frumvarp eftir mótmæli margra radda.

Hvað getum við gert? Það hljóta að vera einhverjar aðferðir til þess að koma skoðunum sínum á framfæri og komast til áhrifa. En höfum við svo sem eitthvað að segja. Sumir hafa gengið í stjórmálaskóla. Ég segi, ef maður gengur í einn þá verður maður að ganga í þá alla. Upplýst afstaða hlýtur að markast af því að hafa gott sjónarhorn á viðfangefnið. Best er að kynnast þeim öllum og taka svo vel ígrundaða afstöðu. Það er í þessum efnum sem öðrum, velgengni er langhlaup. Ég er með nokkrar hugmyndir sem þið deilið e.t.v. með mér:

- Skrifa grein í dagblað.
- Ganga í stjórnmálaflokk.
- Skrifa dreifibréf og póstleggja eða dreifa fótgangandi hús úr húsi.
- Mótmæla með spjöldum fyrir framan Alþingishúsið.
- Fara í hungurverkfall.
- Stofna fjöldahreyfingu/þrýstihóp.
- Stofna útvarpsstöð, dagblað eða sjónvarpsstöð.
- Kaupa útvarpsstöð, dagblað eða sjónvarpsstöð.
- Eignast áhrifamikla vini og hafa áhrif á þá.
- Hræða fólk með óhefðbundnum aðferðum, getur verið hættulegt og æruskaðandi.

Þetta er ekki tæmandi listi. Það eru ótal aðferðir sem flestar eru vel þekktar og hafa verið reyndar með misjöfnum árangri. Í Rússlandi eftir fall Sovétsins komust auðmenn til áhrifa með því að beita peningum fyrir sér til að breyta landinu. Hvort sem var að nota sýna eigin fjölmiðla sem þeir stofnuðu eða plotta bakvið tjöldin og koma sínum mönnum í æðstu stöður. Þetta hefur allt verið reynt en eitt sýnilegasta dæmið er hjá þeim Gusinsky, Beresovzky, Smolensky og Kordakhosky. Eins og dagur rís og hnýgur þá risu þeir og hnigu og skildu eftir sig óafmáanleg spor sem Pútín er að reyna að afmá.

Hvernig er að vera áhriflaus áhugamaður eins og lunginn af þjóðinni, rembist við að upplýsast og vinna að því að öðlast áhrif á einhvern hátt. Okkur er talin trú um að við getum haft áhrif með því að skrifa í blöðin sem fyrirtækin auglýsa í og við erum áskrifendur af eða fáum gjaldlaust í gegnum lúguna. Held nú samt að fólkið sem við kjósum yfir okkur vinni eftir bestu getu að okkar hag, en oft á tíðum greinir það á um aðferðir. Nú nýverið má vera að röngum aðferðum hafi verið beitt eða er það kannski tómur hugarburður?
Nú ríður yfir okkur alda af mótmælum fréttamanna og álitsgjafa vegna nýráðningar fréttastjóra á RÚV. Ég vorkenni manngreyinu sem í stöðuna var ráðinn, en um allt má deila og þeir sem hæst láta í sér heyra eru á alls kostar ekki sáttir, telja stöðuveitinguna vanvirðingu gagnvart stofnuninni og fólkinu í landinu. Hæfnismat hafi að engu verið haft og Framsóknarflokkurinn hafi enn einu sinni orðið sér til háborinnar skammar og fíflað fólkið. Ég bíð bara eftir fylgiskönnun. Ekkert hefur heyrst frá einum yfirmanni helmingaskiptakerfisins og formanni Framsóknar - best að halda sig til hlés meðan mesta rótið ríður yfir. Nú er spurning, verður Auðun Georg fréttastjóri 1. apríl? Hverju eigum við að trúa, ætli það verði aprílgabb? Auðun er eflaust hæfasti maður, sumir vilja spyrða hann saman við spunameistara Framsóknar. Í Fréttablaðinu birtist grein þar sem Finnur Ingólfs er bendlaður við ferlið og honum og Framsókn fundið flest til foráttu. Það langar alla að hafa áhrif og Framsóknarmenn sagðir vilja ota sínum tota með hjálp Sjálfstæðiflokksins eftir afturkall fjölmiðlafrumvarpsins.

Verður áhrifalaus almúginn fyrir andlegu áfalli 1. apríl? Ég hef velt því fyrir mér hvort og hvernig stjórnvöld spili með okkur, spurning núna hvort múgurinn geti beygt niðurstöður – er múgurinn e.t.v. bara samansettur þessa ferðina af óánægðum fréttamönnum og álitsgjöfum. Eru fréttamenn og álitsgjafar að snúa okkur og upplýsa. Það vantar ekki fjöldan - RÚV, Baugstíðindi og Mogginn. Spunameistararnir þekkja til og vita hvaða aðferðir þarf til bakvið tjöldin til að ná sýnu fram. Vildu þeir ekki koma óhörðnuðum markaðsmanni að sem verður þægur og geldur gjöf með þægilegri fréttamennsku á ögurstundum. Stjórnarherrar orðnir þreyttir á þessari “traustu” fréttastofu sem stingur rýtingum í bak þeirra þegar keyra á erfið mál í gegn. En eru þetta réttu aðferðirnar. Munu spunameistarar fá makleg málagjöld og flokkurinn dæmdur af almenningsálitinu með fylgistapi. Hver spilar með hvern, hver spilar á hvern - snéru þeir á sjálfa sig. Samúðin er fréttamannana. Hvað gerist, spenna í samfélaginu, henni troðið upp á okkur og við getum ekki annað en tekið afstöðu - hver sem hún er.


Varð að láta þessa fylgja með, fann hana á visir.is. Er eitthvað til í þessu?


Ég er bara að reyna að ná áttum og fylgist grannt með.

|




14.3.05

Starfsmaður sædýrasafnins sáluga

Eyrun voru galopin þegar maður var yngri og hlustaði á fullorðið fólk tala í fjölskylduboðum. Menn höfðu frá ýmsu að segja og oftast held ég að fólk hafi farið nokkuð satt og rétt frá. Heyrði eitt sinn sögu um fv. starfsmanni Sædýrasafnins sáluga. Kappinn var í leyfi á Spáni þegar að hann tekur eftir 4 manna hópi af skuggalegum mönnum hinu megin götunnar. Hann gengur áfram og lætur sem ekkert sé. Klíkan hefur með sér vígalegan hund og sleppir honum á okkar mann. Þar sem Íslendingurinn var vanur að kljást við ísbirni og stór kvikindi þá nær hann að grípa um háls hundsins við ólina og stýrir dýrina í nærliggjandi vegg og steinrotar. Hann gekk áfram óáreittur. Mér fannst þessi saga alveg heví. Fór svo að velta því fyrir mér eftir áhorf á japönsku ræmuna Battle Royal hvernig væri að læra sjálfsvörn gagnvart dýrum. Hef séð skilmingarþræla kljást við ljón í tjaldinu og svona. Það væri heví að geta snúið hýenu niður eða tekist á við hlébarða án örðugleika. Við stöndum hér í dag vegna þess hve þverfagleg við erum og aðlögunarhæf. Sérhæfingin hefði kostað okkur tóruna þegar skilyrði breyttust frá tíma til tíma eins og aðra frændur okkar. Held samt að krúsíal búnaður yrði málmól utan um hálsinn og sinar og ökla. Rándýrin leita í hálsinn. En ég hef ekki tuskað til eða látið tuska mig til í sjálfsvarnartímum, ef hætta steðjar að er bara best að hlaupa, skrámuleysi er betra en sár. Ég stofna ekki til illdeilna við fólk svo ég þarf hvorki að hlaupa né hljóta skrámur – best þannig.

|




Amlóð í eldhúsinu og smásteik

Ég borða eins og hestur. Hreyfi mig mikið og þarf þar af leiðandi orku. Ég passa upp á að borða sitt lítið af hverju, grænmeti, ávexti, kjöt og fisk og hvaðeina sem ég get troðið í grímuna á mér hverju sinni. Ég er amlóð í elhúsinu, er uppfullur af áhuga en áorka engu. Síðan ég flutti hingað á Oddagötuna þá hef ég eldað ca. 5 sinnum. Ég tel ekki tilbúna rétti sem skellt er í ofn með. Ég er lítið heima og er tíður gestur í foreldrahúsum þar sem ég hesthúsa ógrynni af mat. Þegar ég var yngri þá vildi ég sýna hversu vel uppalinn ég væri og át það sem á borð var borið, líka fituna og rauðkálið sem hefur aldrei verið efst á vinsældarlistanum. Fólk heldur að ég sé svona maður sem borði allt, hákarl, grásleppu og þorramat. Tökum vilja framar verkinu, en ég er óhræddur að prófa nýjungar.

Ég vil mæra mömmu og eldamennsku hennar, pabbi er líka ansi slyngur þegar kemur að kjöti og fiski, enda hamhleypa á öll þau verkefni sem hann tekur að sér. Maður þarf á eyrnatöppum að halda þegar hann gengur frá og vaska föt og potta upp. Ég ákvað að smella mér heim í sunnudagssteik í kvöld. Fékk reyndar alla söguna frá gikknum systir minni áðan. Fólk skýrir rétti ýmsum afkáranlegum nöfnum, í kvöld var á borð borin réttur sem mamma nefnir smásteik og pabbi ákvað réttinn. Ég myndir frekar vilja nefna réttinn fuglahræðu í kjólfötum. Orðið smásteik er í raun ekki steik heldur wanna-be-steik. Smásteik er frampartur í ofni, 3. flokks kótilettur og lærisneiðar, feitt kjöt –súpukjöt. Systir mín sagðist nánast hafa kúgast þegar hún sá pabba afþýða kjötið og taka það úr pokanum. Sú fékk sér pítsu í staðinn. En elhúsamlóðið ég valdi smásteikina, enda nauðsynlegt að fá næringarefnin og orkuna í kjötinu. Ég sagði þetta ágætt, maður vill vera í klíkunni þar sem stórir hlutir að fara gerast á næstu dögum. En þess fyrir utan stendur mikið til í eldhúsinu, ég bíð í hádegissúpu í vikunni og við sjáum til hvernig fer.

|




7.3.05

Tötsið

Hef fylgst með Idolinu nokkuð vel. Hef mjög gaman að svo karókíkeppni. Gaman að sjá þróun og fyrst og fremst góðan flutning á góðum lögum, en keppendum tekst misvel upp með lagaval. Hæfileikafólk hefur dottið út í 32 manna úrslitum vegna margra hluta – lagaval ábótavant og t.d. hefur keppandi frá Ísafirði meiri möguleika en Reykjavíkurmær. Nú er lokaþátturinn eftir, virkjanatröllið er dottið út. Hann bætti sig mikið og hafði gott af þessu en er ekki nógu þjálfaður - ekki nógu seigur að tiplast milli tóna á neðra sviðinu. Í byrjun átta manna úrslita hélt ég með henni Heiðu vegna “stunning-performance” sem hún átti þegar hún söng Tatara lagið Dimmar Rósir, reyndar hefur þetta lag vakið lukku eftir dýrðardaga þess því keppandi MR vann söngvarakeppni framhaldsskólanna ’93 með þessu lagi. Heiða átti þar eina bestu frammitstöðu sína í keppninni til þessa og söng með búknum, greinilegt að hún hefur sungið þetta lag áður. Ég hélt nú ekkert ógurlega með Hildi til að byrja með, fannst nátturulegir hæfileikar Heiðu vera meiri, hvernig sem við metum þá. Heiða er með breiða rödd og svoleiðis raddir er erfiðara að hemja heldur en “ready-made” raddir sem þarf minni vinnu til að móta. Heiða hefur ekki náð að fylgja góðri byrjun og er öllu einhæfari. Hennar helsti galli finnst mér að hún nær ekki að fara nógu gætilega milli nótna, stundum örlítið of sein eins og hún hafi ekki fullt vald á hljóðfærinu þegar hún syngur veikt, en röddin er einstaklega falleg þegar hún þenur hana. Hún er kraftmikil söngkona og veit af því en það getur verið hennar helsti galli, hún vill tjalda öllu til, hún á til að mynda ekki að víbra þegar hún klárar setningar sem eru sungnar veikt. Stundum má klippa fyrr á setningar og víbrun og söngur ofaukinn. Óperusöngvarinn hefur bara leyfi til þess og stundum verða óperusöngvararnir hálf asnalegir þegar þeir syngja dægurlög, hafa fullt vald á hljóðfærinu en virðast eins og fílar í postulínsbúð þegar þeir syngja popp og texti og tilfinning sem á að vera í laginu kemst ekki til skila. Hildur Vala hefur flutt lög sín á nær óaðfinnalegan hátt, verður betri með hverjum þætti. Hún er professional, limirnir dansa eftir höfðinu í beinni merkingu. Hún syngur með öllum búknum og sviðhreyfingar hvorki of né van. Ég held hún Hildur Vala taki þetta.

Dæmi um þessa hræðilega notkun á víbrun og krafti er ég sjálfur. Held ég sé nú búinn að skólast eitthvað, en er nú bara amatör og spurning hvenær hr. efnilegur verði eitthvað meira. Sú var tíðin að ég tók þátt í nemendamótununum í Verzló og fékk ég misbitastæð einsöngshlutverk. Söngvarar voru líka í kórnum og á kóræfingum. Ég hafði fengið litla tilsögn og enginn söngvari er í ættinni fyrir utan Hauk frænda sem býr norðan heiða. Ég var t.a.m. notaður nánast sem sýningaratriði 14-15 ára í starfsmannaútilegum foreldra minna þar sem mér fannst magn og kraftur vera ofar öllu, einnig var óskrifuð regla að ég syngi í stórafmælum ættmenna, þetta var engin kvöð – mér finnst gaman að gaula, engin kvöð. Þegar söngleikjalög voru æfð þá var ég stundum eins og foss og Þorvaldur Bjarni fannst þetta eflaust findið, á stundum var þetta ég og kórinn. Tveir magnarar í 100 dB, ég og kórinn. Svona í seinni tíð hefur þetta komið, held ég. Less is more.

|




4.3.05

Vó... Vá...

Það er gaman að upplifa, er það ekki! Skynjun og svona... Prófa eitthvað nýtt, láta koma sér á óvart...

Átti Skóda og ákvað einn föstudagseftirmiðdag að keyra norður til Siglufjarðar og hitta félaga tvo, Skrattan og Kapteinin. Ók í einum rikk norður, fyllti tankinn rétt fyrir utan borgarmörkin. Ég var 21 árs og hafði aldrei farið á sveitaball. Afhverju Siglufjörður! Jú, Skrattinn var uppsetjari á bæjarsnepli og auglýsti komu okkar, eitthvað var ég efins og tók ekki flugið. Fékk bakþanka, fannst ég svíkja félaga og þriðja kryddið vantaði í hópinn. Fjórir og hálfur tími, það er nokkuð. Ég var hreinlega sveittur og botnaði Bláu þrumuna mína. Það var bíll með sál. Kallar maður ekki druslur bíla með sál. Bílarnir mínir hafa aldrei farið á verkstæði, pabbi kann á þetta og ég og Kafteinninn gengum í viðgerðir undir hans umsjón þegar ógæfusamur dópisti reyndi að fyrirfara sér með því að hlaupa í veg fyrir bíla á Miklubrautinni. Hann var heppinn að við Kafteinninn tókum hann niður á 40 km/klst hraða. Heppinn að Kafteinninn var í togi á númerlausum Fiat Uno með spotta í Skódanum. Ökuferðin sem hófst í Skeljanesi og var á góðri siglingu upp í Breiðholt endaði tímabundið rétt fyrir gatnamót Kringlumýrar- og Miklubrautar. Jeremías, ég sá andlit leiftursnöggt slást í framrúðuna og hægri bílhurðsrúðan smallaðist, ég beygði snöggt til vinstri og hemlaði, sá ógæfusami hentist yfir Bláu þrumuna og endaði þver á grillinu á Unonum, féll niður og flæktist í spottanum milli bílanna, heppinn að lenda ekki undir bílnum, heppinn að dragast eftir götunni flæktur í spottann.

Það eru ekki margir vinir sem lenda í því að aka á sama manninn í sömu andránni og ekki margir menn sem afreka það að láta tvo bíla aka á sig í sömu andránni. Má þrætta um það hvort við ókum á hann, frekar sá ógæfusami sem réðst á bílana. Betra að lenda á tveimur hægfara beyglum en jeppa á fullri ferð. Ég lagði Speedo sundhandklæði undir blóðugan hnakkan. Sjúkrabifreið og löggan skjót á staðinn og Miklubraut lokað. Sjúkraflutningamaður segir enginn púls, við í mínus, hræðilegt. En hann fann púls og á börur fór sá ógæfusami og í snarhasti á bráðamóttöku. Stuttu síðar kom fv. sambýliskona og sagði þetta hafa verið viljaverk þess ógæfusama, hún bjó í blokk á hægri hönd, hún vildi ekki hleypa inn og svo fór sem fór. Hræðilegt en bót í máli - þannig séð. Við fengum okkur ís í Álfheimum til að róa taugarnar. Heyrðum síðar um kvöldið að sá ógæfusami hefði brotnað á höndum og fótum en líðan væri stöðug og bati væri öruggur. Já, þruma úr heiðskýru lofti hitti okkur fyrir.


Þessi er hvítur, minn var blár. Félagar voru súrir þegar ég ákvað að selja hann fyrir 10 þús. og útvarp. Nýi eigandinn hafði takmörkuð afnot þar sem kúplingin gaf sig nokkru síðar. Við félagarnir höfðum nefnilega ákveðið að ganga frá Þrumunni þegar hún hefði sungið sitt síðasta. Sem sárabót fékk Kafteinninn að hnoðast á hurðum og ganga á þaki meðan ég festi á myndband. Svona bílar eru dauðlegir eins og við mennirnir - þeir gefa einhvern tíman upp öndina.


Nóg af útúrdúrum. Þetta gerðist eftir Siglufjarðarförina. Ég í krummaskuðinu og skundað á Stuðmannatónleika, en þegar í félagsheimilið kom þá voru engir tónleikar, bara búnir. Vonbrigði og ég lagðist til hvílu í Þrumunni. Góð ráð dýr, laugardagurinn ekki efnilegur og plássið steindautt. Blöðin skönnuð og Stuðmenn í Varmahlíð um kvöldið. Föggum pakkað og brunað í Varmahlíð. Tókum þrjár vegstikur til minja og festum hraðamæli á filmu í 163 km/klst – uss. Við tjöldum og gírum okkur upp. Hitum okkur upp í Þrumuni fyrir utan félagsheimilið í félagi við tvo bræður af tjalstæðinu. Inn var haldið, vopnaðir gleðiveigum, en hvað þá, svífur ekki unglingur með kókflösku og glæru innihaldi fram hjá. Þetta voru þá reglurnar, við greinilega blautir bakvið eyrun í þessum efnum. Þessi sveitaböll fjörug, fólk uppi á borðum og slagsmál milli sveitunga eftir ballið. Hvað annað en venjulegt sveitaball, hef heyrt að þau séu að daga uppi. Skemmtileg þessi sveitaböll.
Síðar gaf ég mína vegstiku félaga í afmælisgjöf. Plantaði henni í blómapott og sagði hana vegvísi lífsins, vörð hina réttu gilda, sígljáandi og viðhaldsfría.

Það er gaman að prófa eitthvað nýtt og greinilegt að þarna voru nýjar slóðir kannaðar. Hef velt því fyrir mér hvernig þessi tilfinning sé. Upplifa eitthvað nýtt, eða þá skynja án þess að skilja. Þegar við skynjum eitthvað er eins og lífið sé eins og atómljóð. Hver kannast ekki við línur Steins Steinarr:

Tíminn er eins og vatnið,
og vatnið er kalt og djúpt
eins og vitund mín sjálfs.

Ekki hægt að botna í þessu, bara reyna að skynja en ekki skilja, einhver stemming í gangi. Önnur nálgun á skynjuninni eru heimadæmi í áföngum eins og aflfræði eða stærðfræðigreiningu. 12 tímar í skil og viðkomandi ekki búin(n) að fara í efnið, svaf af sér fyrirlesturinn og engin(n) til að ráðfæra sig við. Bara þú og heimadæmin í daunillu feninu og enginn bakki í nánd, bara hægt að göslast áfram í leit að bakka og svörum. Maður áttar sig ekki alveg á þessum jöfnun en blaðar í bók og blöðum, hugsar og skrifar. Eins og ferð án enda, ef þú leggur bækur frá þér þá taparðu, þú verður að halda áfram, það er eina leiðin. Það er engin leið framhjá múrnum nema yfir hann. Heimadæmin smækkuð mynd af lífinu. Þrep fyrir þrep skýrast línur og ef dæmið klárast þá ertu hólpin(n) á bakkanum, fegin(n), dagsverki lokið og þú uppgötvaðir eitthvað nýtt - vá, nokkuð seig(ur). Það sem var skynjun án skilnings verður skynjun með skilningi. Þá gætu línur Steins verið eitthvað á þessa leið:

Tíminn er eins og vatnið,
vatnið eilíft og kalt
eins og varmahringur ískáps.

Já, hvernig getum við komist yfir skilning á skynjuninni? Reynsla annarra getur verið holl. Hvað er þá betra en ævisögur. Samt ekki bókastaflar ævisagna íþróttamanna - þeir eru oft í tómu tjóni. En gott samt að hafa alla flóruna, góðar þær sem innihalda einstaklinga sem hafa gengið götuna til góðs. Ég vil ekki líkja þessu við að kíkja á svörin aftast í bókinni og sleppa við trial and error aðferðina. Margir gera þetta óafvitandi. Reynsla er raun, ímynduð, lærð og lesin. Unglingarnir horfa á O.C. sem siðapostular ritstýra – kristið siðferði er það sem skiptir máli hverri söguhetju þegar upp er staðið í lok þáttar, lexía lærð.
Ögranir eru hollar - stöðnun er sama og dauði. Djúpa laugin er víða.

|




3.3.05

Ópera í skókassa

Jónas Sen tónlistargagnrýnandi segir Íslensku óperunni þröngur stakkur sniðinn og valtar yfir nýlega sýningu hennar, spyr í grein í Lesbókinni sem er ólesin af mér hvort Ísl. óperan sé í dauðateygjunum. Í Silfrinu kemur hann að því að Óperan sé vanmáttug til stórra verka en betri til hinna minni. Húsnæðið geri verkin flöt, gryfjan sé of lítil og sviðið einnig, svo sé salurinn af þeirri stærð að innbyggt tap sé af hverri sýningu. Hann segir, nýtt er ekki endilega betra en gamalt. En ég spyr, er framsókn möguleg með gömlum slögurum. Markaðsstarf óperunnar heldur falið í nýsköpun og að treysta á nýtónsmíðar, samstarfi ólíkra listgreina, ekki endilega þeirra uppskrúfaðri. Senan er önnur í dag en fyrir 20 árum. Nútímatónlist hefur liðið fyrir fordóma almennings sem líkast til þekkir ekki betur. Þú þekkir ekki Rússland þó þú þekkir einn Rússa.

Íslenski dansflokkurinn fór ekki að rúlla almennilega fyrr en íslensk verk voru sett á efnisskránna. Flokkurinn er í útrás og ég las það að mig minnir að tekjur hans kæmu að stórum hluta erlendis frá – sel það ekki dýrara en ... ... Dansflokkurinn farinn að þykja nokkuð fínn. Ég sjálfur hef verið að spá í að verlsa mér miða – systir var í ballet. Talandi um það þá var ég næstum búinn að taka upp tólið (sím-) og hringja í Ernu Ómarsdóttur og biðja hana að koma á Heilsuvikukvöld í Tónabæ til viðbótar þeim Jóni Arnari íþróttahetju og efnilegu Margréti Láru boltasparka. Sá hana Ernu í imbanum og þótti hún sjarmerandi – hef alltaf verið hálf veikur fyrir balletpíum – góð fótavinna hjá þeim og svona. Ekki varð að símhringingu, kannski sem betur fer.

Ekki gott að ala upp andlega fátæka æsku. En æskan hefur sjaldan verið betur uppfrædd held ég að mörgu leiti. Netið og tónlistin. Ekki er allt sem sýnist, útvarpið endurspeglar ekki það sem allir hlusta á. Eitt sinn gátu menn unglingar aðeins keypt fáeinar plötur - nú er þetta allt á netinu og ungar sálir sækja og hlusta sólgnar á nýtt efni og mótast. Þverfaglegum einstaklingi sem vill bæta heimin er hollst að sækja föng víða, endurreisnarmaðurinn á sér stað í okkur. Hver vill ekki breita og bæta heiminn, byrjum á miðju hans, sjálfum okkur. Hlúum að menningunni. Best ef hún getur staðið á eigin fótum, en landið er lítið. Búum til ný trend.


Óperudraugurinn og kvinna. Er Ísl. óperan draugur?


Gömlu slagarnir seljast best erlendis, stórtenórar og þeir minni syngja í óperuhöllum heimsins best of stykki óperusögunnar, en erum við kannski búin að fá nóg af þeim. Stofuáheyrn kemur aldrei í stað raunveruleikans, gleymum því ekki. Ég vil fá óperuna inn í nútímann, held það eigi við þar sem annarsstaðar, varnarsstaða breitist í sóknarstöðu þegar sprotastarfssemi er aukin og veitt meiri athygli – en ekki þýðir að púkka upp á það sem ekkert er. Sókn er samt besta vörnin. Meira samstarf og djarfari stjórnendur og plöggara. Hvernig selst óperan betur, koma svo, fáum nefnd í málið til að fá betra húsnæði (hálfsalur í nýja tónlistarhúsinu á leiðinni). Vinnum í grasrótinni, söngvarar þurfa ekki að vera með prik í rassinum og hárkollu á höfðinu á sviðinu – hvað með afró og spandex, þarf ekki að hrista upp í þessu. Þekking þrýtur. Held ég skrái mig í Söngskólann næsta vetur.
En Óperan er í skókassa og líður hálf illa þar.

|




Djúpa laugin

Ég ræddi um orð og gjörðir um daginn. Já, hvað maður gerir, það er nú ráðgáta. Maður er alltaf að rausa um sömu hlutina. Ég fór síðan að velta því fyrir mér um daginn, þegar svefninn sótti seint á mig eins og oftar, hvað ég ætlaði að gera, hvað ég ætlaði að verða.

Grunnspurningin er sem maður hefur verið spurður í fjölskylduboðum og af eldri vinnufélögum er: Hvað ætlar þú nú að verða kappi. Útgáfur af þessari spurningu eru margar eins og t.d. hvað ertu að sísla, hvenær klárarðu, hvað langar þig að gera. Svo er þetta vinsæl spurning til handa leikskólabörnum. Svörin eru þá slökkviliðsmaður, flugfreyja, læknir, það sama og mamma eða pabbi, leikari eða söngvari – svo fátt eitt sé nefnt.

Maður er svo sem alltaf með svörin á hreinu, misloðin eftir tilefni og spurningum. Já, ég hef hugsað um það nokkuð lengi hvað ég ætla að verða. Þegar ég velti vöngum yfir námi þegar ég var yngri sá ég það út að þægilegast væri að velja grein með verndað lögheiti, greinin lýsti því sem ég gerði og ég væri bara nokkuð seif, myndi dúlla mér í þessu og hlutirnir væru bara í nokkuð föstum skorðum. Var hrifinn af E.R. en sem betur fer reyndi ég ekki við læknadeild, kennari í framhaldsskóla sagði mig efni í lögfræðing. 12 ára fannst mér svalt að vera viðskiptafræðingur eins og Kristján Ara. 15 ára fór ég í starfskynningu á blaðamennsku og svo hjá efnaverkfræðingi upp á Iðntæknistofnun. Efnaverkfræðingurinn var ekki alveg mmitt kaffi – kappinn var bara úti á þekju.
Ég hef farið í tvö áhugasviðspróf og það var allur fjandinn sem kom út úr þeim. Framhalds- og háskólakennari, prestur, kokkur, söngvari, leikari, ritstjóri vísindatímarits, auglýsingamaður, eitthvað skapandi, eitthvað virkt og margt fleira. En ættingjar mínir hafa sagt við mig prestur eða skólastjóri ef þú verður þá ekki óperusöngvari. Ekki verð ég prestur en skólastjóri, tja, engin(n) veit sína ævi... Nú orðið segir mamma mér að fela mig inni í kústaskáp ef spurula gesti ber að garði og nennu skortir mig til að heimsækja þá hina sömu – samt allt besta fólk.


Hvað ætli gamli maðurinn sé að segja þeim yngri að verða - verðbréfamiðlari, prestur, hermaður, yfirmaður í hergangnaiðnaði, vísindamaður eða tölvukall - markaðsfærin eru jafnvel þar.


Svo vill til að ég hef átt fáar samræður við mér eldra fólk um einmitt þetta mál – hvað ætlaðuðu smellirnir að verða þegar þeir voru yngri. E.t.v. hefði verið fátt um svör, fátt var í boði. En vinna, já allir fóru að vinna, bara missnemma, það leiddi eitt af öðru og já, allt í einu var X komin(n) frá A til B.

Ég hef heyrt eina sögu fjórum sinnum. Tvisvar frá frænda viðkomandi sem sagan snýst um og tvisvar frá söguhetjunni. Sögupersónan er fv. forstjóri og borgarstjóri, en hann er einnig verkfræðingur. Mér þótti nokkur fengur í sögunni, ekki endilega lífshlaupið sjálft heldur um hvað hún snérist og það sem sögupersónan hamraði á. Fyrst heyrði ég söguna frá Páli Valdimarssyni frænda Þórólfs og varmaverkfræðingi. Hún snérist m.a. um það af hverju maður ætti að fara í verkfræði og hví hún væri svarið við spurningunni hvað maður ætlaði að verða þegar maður yrði stór..
Þórólfur var ungur maður og vissi bara hreint ekki hvað hann ætti að læra, nýbúinn með stúdentinn. Hann hitti fyrir frænda sinn, Pál, og sagðist ekki vita í hvorn fótinn hann ætti að stíga, hann vissi ekkert hvað hann ætlaði að læra eða þá hvað hann ætlaði að verða. Páll svaraði um hæl, farðu í verkfræði, þar er nóg um að vera. Þórólfur fór í verkfræði og að henni lokinni vissi hann ekkert hvað hann ætlaði að gera. Við tóku sölu- og markaðsstörf hjá fyrirtæki sem ég man ekki hvað heitir, svo kom Marel, svo olíufélag og þá forstjórastaða hjá Tali. Þegar ég heyrði söguna úr hans munni í fyrra skiptið gengdi hann þeirri stöðu og klikkti í lokin út með því að hann vissi ekkert hvað hann ætlaði að verða og þannig hefði það alltaf verið. Svo í seinna skiptið var hann borgarstjóri og þá vissi hann ekkert hvað hann ætlaði að verða og nú í dag eflaust sem aldrei fyrr. Verkfræðin væri fyrir þá sem vissu hvað þeir vildu verða og hina sem hefðu ekki hugmynd um það.

Hef velt því fyrir mér hvort félagsstörf séu flótti frá raunveruleikanum eða leitun fróunar í einhverju sem starf manns getur ekki veitt manni, engin maður ríður við einteyming og enginn maður lifir í einni vídd. Það er fátt bogið við það að vilja þróa og þroska sig og fylgja áhuga sínum í frístundum í áhugaleikhúsi, íþróttafélögum eða öðru sem ekki fæst milli 9 og 5. En á maður að vita hvað maður ætlar að verða, er nokkuð gaman að vita úrslit leiksins, málið bara að spila eftir bestu getu og leggja sig fram. Svo eru það meðfæddir og áunnir hæfileikar sem skila árangri ásamt réttri staðsetningu sem er fólki misvel í blóð borin. Við komumst frá A til B með því að stinga okkur í djúpu laugina og taka kröftug sundtök, ekki viljum við sökkva til botns.

Ps. Stutt í fjórða hluta sögunar um baráttu Gabríels og Satans um Ísland og umheiminn. Hlutinn ber nafnið Hófar Satans.

|