31.3.07

Sama tuggan

Er betra að skrifa sama pistilinn hundrað sinnum eða skrifa hundrað pistla einu sinni?
Hverju svara ég – hverju myndi Laxness svara? Ætli hann myndi ekki svara því fyrra og ég veit ekki með sjálfan mig en held ég vilji gera hið síðara en raunin sé önnur. Sýnist ég sé alltaf að skrifa um sömu hlutina. Það er sjálfið, sannleikurinn og innhverf tilvera einstaklingsins. Ég rausa mikið um tilveruna og það endurspeglar sjálfan mig, sífellt mat og efasemdir og þankar um einfalda og ómerkilega hluti, en þannig er nú lífið, eilíf endurtekning með vissum undantekningum. Ég ætla nú ekki að líkja mér við Laxness en tveir menn geta reyndar deilt sömu skoðun þrátt fyrir að fátt sé líkt með þeim.


Tilbrigði við núið...

Vakna – helst til of seint. Oh, er ég samviskulaus gagnvart sjálfum mér...
Æfing, ég er ekki nógu duglegur að æfa, virðist ekki koma mér í nógu góða rútínu. Rútína æfinganna hjálpar á öðrum vígstöðvum.
Ætli það verði ekki 200 m hlaup gegn Þóri í dag. Þórir fær nú yfirleitt að vinna mig. Munar oft bara hálsbreidd þrátt fyrir að ég hlaupi 200 metrana á 3 sekúndum skemmri tíma ef ég keppi við aðra. Hvað er þetta maður, jæja – þarna kemur hann. Hann er orðinn nokkuð góður með sig, gróðurset hann ofan í jörðina í þetta skiptið. Öllum mönnum er hollt smá mótlæti, ef lífið er tilbrigðalaust, fast í sama farinu þá gerist ekkert. Hann má lúta í lægra haldi í þetta skiptið...

Heyrðu – hvað er hann að gera, slær á lærin á sér. Gerir það eitthvað gagn, það er víst gert í sjónvarpinu, þ.e. þeir sem hlaupa og fá borgað fyrir það.
Hann fer af stað, ég næ honum fljótlega. Helvíti tekur hann stór skref, jörðin nötrar, einhver forboði Suðurlandsskjálfta. Seinni beygjan og ég gef í og tek örlitla forystu. Erum jafnir en ég bæti í og tek hann með þremur metrum. Ég heyri urrað að baki og blótsyrði. Fallinn af stalli í bili. Hann tekur mig næst.

Svona gengur þetta fyrir sig í Laugardalshöll.


Undarlegt deit

Já, hef farið á nokkur stefnumót í gegnum tíðina. Fátt slær þó eitt þeirra út. Komst nú ekki að því fyrr en þremur árum síðar.
Það var sundlaugarpartí sem ég vann á, unglingarnir hressir. Svo kom danskeppni í Höllinni og þar var hún aftur að vinna fyrir einhverja auglýsingastofu. Fékk svo hringingu stuttu síðar. Þar kynnti hún sig sú smá knáa sæta litla. Já, hví ekki að hittast, upp með mér að fá hringingu utan úr bæ. Ég bara nokkuð spenntur en slakur þó. Fæ þó hringingu þremur mínútum áður en ég mæti á ákvörðunarstaðinn og hún hvort ekki sé í lagi að vinur hennar kíki líka og vinkona hennar, þau séu þrátt fyrir allt mætt á staðin. Hvaða steik er þetta. Slaufa þessu samt ekki, vil sjá hvort hún sé eitthvað skoffín. Samræður ganga ágætlega fyrir sig, enda fólk með einhverja sameiginlega snertifleti. Vinkonan reykir hreint óhóflega sem er ekki gott kaffi við fyrstu smökkun. Eftir rúmlega klukkutíma spjall læt ég þetta gott heita og læt mig hverfa. Einn hittingur í viðbót þar til ég sé að þetta er ekki alveg mitt leikrit eða okkar.

Svo vill það til að ég byrja að vinna með vini hennar sem ég hitti með henni á kaffihúsinu. Kom þá ekki í ljós að hann var á leið á deit með henni á sama stað og ég og fékk hringingu þar sem hann var spurður hvort það væri ekki í lagi að vinur hennar (ég) yrði líka á svæðinu. Já, þetta er skrítið limbó – spilað á mann án vitneskju manns.

|




20.3.07

Biblían mín

Þegar kvöldlesning er annars vegar ríður á að velja réttu bækurnar. Tja, hvað segi ég! Ég geri nokkuð að því að lesa upp í bæli mínu. Oft vill svo verða að teygist úr lestrinum og klukkan fer hring eftir hring uns ég legg bókina frá mér.

World desk reference er hins vegar þannig bók að þú lest ekki of lítið eða of mikið, bara temmilega mikið. Þessi doðrantur greinir á skilmerkilegan hátt frá ríkjum heimsins og tölfræði þeim tengdum. Óskabókin á náttborðinu og nú á netinu.

|




15.3.07

Vertu þú sjálfur,
gerðu það sem þú vilt...


Orðin hér að ofan er úr dægurlagi og víst ekki í eina skiptið sem þau eru tugginn þarna. Í leit okkar að okkur sjálfum og framgangi tímalínunnar, þá fetum við þessa slóð. Vöknum, sofum, borðum og eyðum frítíma okkur milli þess sem við vinnum. En orðin eru oft bundin forsendum hverju sinni, hægt að setja þau í samhengi við stund og stað, langtíma og skammtímamarkmið, án þess þó að missa sjónar á hólnum sem gengið er á hverju sinni.

Willy Brandt kanslari Vestur-Þjóðverja sagði á sínum tíma að sá sem væri ekki kommúnisti fyrir tvítugt væri hjartalaus. Í almennri yfirfærslu má segja að æskufólk sé uppfullt af draumum og eftirsókn eftir ákveðnum gildum sem það telur virðingarverð og það vill lifa eftir. Svo kemur lífsreynsla í pokahornið og þessum fyrri gildum er hagað til og þvælt vegna þess að raunveruleikinn í reynd reynist fólki misauðveldur og markmiðin gömlu misframkvæmanleg.
Einlæg ung sál greinir á milli hvað er rétt og rangt en þegar árin bætast við gerir hún sér grein fyrir því að oft er reynast happadrýgra að haga seglum eftir vindi, tilgangurinn helgar meðalið. En þetta er líka spurning hvort 1000 kall í dag sé betri en 10000 kall eftir vikur, mánuð, ár....

Ég er svo sem ekki gamall en hef hugleitt þetta nokkuð. Það getur verið erfitt að finna sér hillu, en hillan sjálf er ekki aðalatriðið, heldur leiðin að henni. Hillan er ekki lokatakmark, stöðnun er dauði. Ég hef hoggið eftir nokkru þegar eldra fólk ræðir það sem á daga þess hefur drifið, það hamra margir á einhverju í líkingu við orðin í fyrirsögninni. Í leitinni að sjálfinu koma margir sér um kenjum á borð við sjálfumgleði, hroka og hleypidóma sem voru ekki tl staðar áður. Eitthvað sem gripið er til á veginum þegar sjálfið er mótað og fóðrað

Þeir, sem stjórnast að innan, hafa betri tök á lífi og sál en hinir, sem velkjast um eftir vindum samfélagsins. Hver er sinnar gæfu smiður, enginn vill vera öðrum háður hvað orð og gerðir varðar. Það er aldrei of seint að sveigja ásinn til betri vegar. Best er að vera sáttur við sjálfan sig, velgengni er langhlaup, maður tekur bara eitt skref í einu.

|




12.3.07

Verðug keppni

Hef oft hugsað til þess að ég þyrfti að reyna mig í erfiðri keppni. Ég rakst á mynbrot sem ég held að væri kjörið fyrir Hulk.

|




9.3.07

Súkkulaðibitakökur

Hver man ekki eftir þessu... : Ég er hætt að reykja, ég fer reglulega í sund, en ég neita mér ekki um Floridana!!! Jæja, ég hef aldrei reykt og síðar var þessi nammistöng sett á markaðinn frá Góu sem Floridana bitar. Ég sem sagt er duglegur að hreyfa mig en fæ mér við og við súkkulaðibitakökur úr bakaríi oftast nær eða karmeluglassúrsnúð frá Jóa Fel frænda mínum. Ég vil minnast sérstaklega á eftirminnilega snúða í bakaríinu á Sauðárkróki. Þegar ég keppti á Landsmótinu þar árið 2004 tók ég sérstöku ástfóstri við snúðana í bakaríinu þar. Það var einróma bragur gerður að þeim.

Bæjarferðir í leit að súkkulaðibitakökum

Ég hef farið í flest bakarí í borginni í leit að hinni fullkomnu súkkulaðibitaköku. Þessar ferðir hafa ekki lotið neinu skipulagi. Ég hef bara arkað um stræti og götur borgarinnar og nærliggjandi sveitarfélaga í einhverjum erindagjörðum og rambað á bakarí af tilviljuninni einni. Fyrst á Skódanum mínum og svo á Lancernum. Ég tek það fram að báðir þessir bílar eru bláir. Skódan seldi ég á 10.000 kr. og fékk útvarp í kaupæti en Lancerinn á ég enn.

Á tímabili var ég ánægður með súkkulaðibitakökurnar frá Bernhöftsbakarí, en það eru ár og dagar síðan, minnir að ég hafi þá ávalt verið að skutla systur í Kvennó. Þá kostaði stykkið 44 krónur og hún var stór. Svo gerðist eitthvað, þær skruppu saman og skipt var um uppskrift, þær voru ofbakaðar og ég hætti að leggja leið mína þangað. En í dag sendur Iðubakarinn Jón Árelíus upp úr með súkkulaðibitakökurnar sínar og svo vil ég nefna Subway kökurnar. Hvað snúðana varðar þá hef ég stundum verið í hörðu súkkulaði á móts við karmeluglassúrina. Það sem skilur á milli er baksturinn á hveitinu og hvort nægur kanill sé í snúðunum. Reyndar langt síðan ég maulaði snúð. Hef sl. daga troðið ógrynnum af Subway kökum í trantinn á mér. Hvað veldur?
Veit ekki en botninn tók úr atferli mínu þegar ég keypti sex stykki á 298 krónur áðan. Er búinn með fimm stykki núna og held ég salti þá sjöttu.

Formið hefur verið betra og verð ég að segja að eftir sundferðina áðan þá komst ég að því að ég er í sögulega 4-5 ára formleysi. Hef bara hlaupið 3-4 sinnum í viku, þ.e. tekið æfingar sem samanstanda af intervali á braut og útihlaupum. Ekki gott það. En eftir þennan hálfa skriðsundskílómeter var ég fullur af sýru í handleggjunum og ég man bara ekki hvenær það gerðist síðast. Svo nú er stefnan tekin á það að leggja meiri þunga í æfingar og koma sér í ferli á ný. Tók reyndar sextíu armbeygjur korteri eftir sundið en nóg um það. Fyrir nákvæmlega ári var ég í mínu besta formi, svo komu félagsstörfin sem holskefla yfir mig sem og aðrar annir. Nú fullmönnuð stjórn og vinna fyrir mig mun minni svo þetta er ásættanlegt.

|




Plötur

Loftið leikur um huga manns, draumar og ókominn veruleiki sem ekki verður líða um hugskotssjónir manns. Já, eitthvað óumræðanlegt jafnvægi er alltumliggjandi. Staður og stund er óháð því sem hljómar í eyrum. Eitthvað sem var, eitthvað sem verður og verður ekki, eitthvað sem er. Sannleikur, staðreyndir og dagdraumar... Allt þetta liggur í tónum Air. Búinn að hlusta nokkuð á nýjustu plötu sveitarinnar, Pocket Symphony – Vasasinfónía. Réttnefni á plötunni! Jú, hún er best geymd í vasaspilaranum meðan þú röltir um stræti og torg eða í bílnum á ferð út í óvissuna eða á gangi út í sveit. Kyrrðin er góð en Vasasinfónían svíkur þig ekki. Góður gripur, bara djöfull góður. Minnir eilítið sumpart á Brian Eno á stöku stað.

Svo er það Forever með Gus Gus sem ég er búinn að renna einu sinni í gegn. Attention var frábær en þessi þarfnast meiri hlustunar. Lagið Forever reyndar staðsett í nokkurn tíma á MySpace svæði bandsins. Best á dansgólfinu.

Svo er það Booka Shade. Er að taka bandið í sátt. Það féll aldrei í ónáð, bara þurfti að gefa tónlistinni tíma.

|




8.3.07

Hreyfingarleysi og unglingar

Ég hef ekki hreyft mig minna í afar langan tíma. Nú mun ég ráða bót á því. Hef nú samt hreyft mig að staðaldri þrisvar í viku en ekki af sömu alvöru og áður. Þ.e. eitt ár síðan hægjast fór á æfingum vegna anna. Greinilegt að skipulag e.t.v. ekki nógu gott. Það er einhver urgur í manni ef maður fær ekki næga útrás daglega, maður sofnar síður þegar höfuð er lagt á kodda og fleira fram eftir þeim götunum. Ég hef ekki farið í það að mæla hvíldarpúlsinn, man samt eftir að hafa gert það fyrir 3-4 árum og þá var hann 43 slög á mínútu.

Frétt á Deiglunni greinir frá því að mögulega sé í uppsiglingu enn eitt kennaraverkfallið. Veit nú ekki út í hörgul hvort hagur kennara sé bágur og hafi dregist aftur úr öðrum atvinnustéttum en það eru börnin og unglingarnir sem fara verst út úr svona aðgerðum.
Eftir síðasta kennaraverkfall var félagsmiðstöðin sem ég vann í lengi að ná sér á strik. Unglingar eru vanafastir og íhaldssamir hvað margt varðar. Þegar öðrum venjum hvað frítímann varðar, eins og t.d. að spila tölvuleiki og hanga úti í sjoppu er komið á í stað þess að nýta félagsmiðstöðina til tómstunda, þá getur verið erfitt að snúa ásnum. Skólarnir gegna nefnilega hlutverki við að auglýsa þá atburði sem í bígerð eru. Auk þess að öllum ungmennum er reglufesta og föst dagskrá holl til að undirbúa þau fyrir það sem framundan er í skóla og lífi. Rótleysi sem fylgir aðgerðarleysi er slæm og engum til hagsbóta, síst af öllu þeim sem eru á mótunarskeiðinu.

Hélt klukkustundar fræðslu (pep-up) um gildi hreyfingar og íþrótta á Heilsudögum í Þróttheimum áðan. Unglingarnir voru áhugasamir og hlustuðu með athygli og áttu góða spretti þegar að þeim kom. Efniviðurinn er víða, það þarf bara að virkja og beina í réttar áttir – stoðirnar þurfa að vera til staðar sem hvati til að virkja þróttmikla huga sem þyrstir í upplýsingu og eitthvað nýtt.


|




2.3.07

Föðurbetrungur

Faðir minn hefur ætíð verið áhugamaður um það að ég verði föðurbetrungur. Þ.e. ég bæri utan á mér góð meðmæli til föður míns. En maður heyrir ekki samtímafólk nota orðið í orðræðu sinni og var e.t.v. frekar á færi Bjarts í Sumarhúsum, en ég man ekki til þess að Bjartur hafi notað þetta orð einu sinni í tali sínu. Enda er það ólíklegt því að allt sem ósagt var skynjuðum við og ekki hans háttur að hafa svona orð í flimtingum heldur bera þau ævilangt í brjósti sér og við endalok uppskeran þá sigur eða tap.

Þegar ég var yngri þá gerði ég ýmislegt sem foreldrum mínum hefði ekki dottið í hug í sínum verstu draumum. Bara svona hlutir sem krakkar gera eða, ég veit ekki alveg. En ég var semsagt í Hryllingsklúbbnum og þar teiknuðum við hauskúpur og Frankensteina og hitt og þetta. Kveiktum einhverju sinni í nokkrum ruslafötum við Gerðuberg og sáum skíðlogandi eld gjósa upp og slökkvilið nokkru síðar. Þetta var ekkert meiningin, bara hentum einhverjum eldspýtum ofan í tunnur. Maður bjó til Mólotov kokkteila og vopn og ninja stjörnur og eitthvað sem hrærðist í hausnum eftir maraþonáhorf á Kung-Fu myndir, Chuch Norris og þess háttar. Ég lagði engan í einelti og var ekki í slagsmálum, enda leit ég á mig sem sómapilt.


Leikurinn Þjónn

Þegar ég var yngri og systir mín enn yngri þá stundaði ég það af og til að fara í leikinn Þjónn. Ég var svona 11 ára og systir mín 6 ára. Hún bara jánkaði, hún var þjónninn minn og ég gaf skipanir og hún hlýddi. Ég var ekki hastaralegur. Hún Kolbrún rifjaði þetta einmitt upp áðan. Þetta gekk svona fyrir sig

Árni: Komdu með kex, já og mjólk líka.
Kolbrún: Okei.
Árni: Hmm, farður niður í kjallara og náðu í takkaskóna mína, ég ætla að pússa þá. Komdu líka með skóáburð, hann er líka í kjallaranum. Ég tek tímann á þér.
Kolbrún (í viðbragðsstöðu): Okei.

Orðið Satan var ekki í orðaforða hennar en hún hefði e.t.v. notað það, en ég var eldri en hún og hún bara kom í þennan leik.


Herfilegt mót

Ég tók þátt í Reykjavíkurmóti í frjálsum áðan. Ætlaði nú bara að vinna á mótinu þar sem erfitt var að skaffa staff því ég var búinn að ráðstafa öllu því fólki sem hægt er að hringja í og láta vinna á mótum á Meistaramót Íslands í frjálsum 12-14 ára sem er um helgina og Ármann heldur.
Ég var sem sagt með málbandið í höndunum og mældi. Í þriðju umferð fæ ég þá hugdettu að taka þátt. Hef bara einu sinni tekið þátt í langstökki og ég kann þetta engan veginn – hleyp bara. Jæja, búkurinn ískaldur og ég næ í gaddana og hita ekki upp, heldur fer beint í fjórðu umferðina. Atrennan var skelfileg og stökk ég svona hálfum til heilum meter fyrir aftan plankann. Lengsta stökkið 5,25 m og stokkið hálfum metra aftan við plankann. Skelfing.
Svo spyr Þráinn Hafsteins mig hvort ég taki ekki þátt í 200 m hlaupi. Nota bene, hef stundað æfingar af eldmóði í heilt ár. Ég hljóp og sprakk eftir 100 m og hljóp skeiðið á 26,00 s sem er skelfilegt. Nú er bara að mæta á æfingar að krafti og þurrka þessar hörmungar út úr huganum.

|