13.12.06

Baktjaldamakk

Vegna atburða síðastliðinna vikna og daga langar mig að dreypa aðeins á nokkrum punktum. Fv. njósnari KGB dó úr geislun og fleiri hafa þurft að finna fyrir pólinýjum. Yfirlýsingar hafa gengið á víxl. Stjórnin í Kreml segir Boris Beresovskí hafa átt hlut að máli og öfugt. Koma mér þessar yfirlýsingar ekki á óvart þar sem ég verslaði mér tvær bækur um Rússland 10. áratugarins fyrir 2-3 árum. Bækurnar Oligarcks: Wealth and power in new Russia og Godfather of the Kremlin. Þar er greint frá uppgangi óligarka, óöld og klíkustríðum. Óligarkarnir ráku einkaheri sem mannaðir voru með foringjum úr hernum sem leist ekki á það sem í boði var eftir að herir Sovétsins snéru heim eftir fall járntjaldsins. Atburðarás síðustu daga er mjög í stíl við það sem kemur fram í bókunum. Athugulir hafa eflaust tekið eftir því að leikreglurnar í rússneskri pólitík og viðskiptalífi eru með nokkru öðru sniði en við eigum að venjast.

Hérna fyrir neðan koma nokkur nöfn sem þið kannist við. Sum þeirra nú nýverið, önnur frá því áður og enn önnur er bara óhjákvæmilegt að hafa komist hjá því að sjá.

Kordakovskí: Rússneskur óligarki sem var eigandi Yukos olíufélagsins. Hann er ekki gamall, 41 árs. Menntaður verkfræðingur og vann ötullega að því að koma sér upp metorðastigann fyrir fall múrsins, m.a. með því að vera í forsvari fyrir Ungmennasamtök Kommúnistaflokksins. Þessi samtök voru tröppur fyrir efnilega einstaklinga sem vildu komast til áhrifa. Hann fór ungur í bankastarfsemi. Sovétríkin rýmkuðu einstaklingsfrelsið en samfara því var lagaramminn óskýr í meira lagi. Bankar Kordakovskí sýsluðu m.a. að hluta til með fé ríkisins og eitthvað af því fór í vasa bankans eins og títt var í þá tíð upp úr 1990. Kordakovskí var einn af þeim sem komust yfir mjólkurkýr rússsnesks iðnaðar með nokkurri og blóðugri fyrirhöfn og aðstoð pólitískra vina. Mig minnir að hann hafi haldið um valdataumana á Yukos upp úr 1995. Þá voru leigumorð tíð á yfirmönnun stórfyrirtækja og þess dæmi að hver forstjórinn á fætur öðrum í fyrirtæki hafi verið sallaður niður. Nokkuð ljóst að kappinn var ekki með hreint mjöl í pokahorninu. En lagaramminn var nánast enginn og aðferðirnar sem hann og hans líkir beittu myndu klárlega flokkast sem siðleysi og glæpir annarsstaðar. Hann féll í ónáð þegar hann vildi komast til áhrifa í pólitík og einhverjum skít var safnað saman og hann dæmdur í 10 ára fangelsi. Þrátt fyrir að ég hafi ekki lesið málsskjölin tel ég víst að eitthvað sé til í sakargiftunum en hann var svo óheppinn að trana sér fram á röngum vettvangi undir það síðasta.

Beresovskí: Hann er maðurinn sem átti í drjúgu samstarfi við Abramovitz og átti þátt í velgengni hans. Var m.a. viðskiptafélagi hans í olíufyrirtækinu Lukoil. Beresovskí var potturinn og pannan í flestu baktjaldamakki sem átti sér stað á 10. áratugnum í Rússlandi, bæði utan og innan Kreml. Hann er stærðfræðimenntaður og með doktorsgráðu í aðgerðargreiningu og ákvarðanatöku og var forstöðumaður slíkrar stofnunar í Sovétríkjunum áður en hann snéri sér að vafasamri bílaframleiðslu. Bílaframleiðslan var yfirvarp yfir allskonar brask sem átti sér stað. En þess ber að geta að bílarnir voru seldir undir kostnaðarverði. Beresovskí gegndi nokkrum embættum í Kreml og lobbíaðist mikið og ávalt til að styrkja viðskiptasambönd sín. Það fór ekki mikið fyrir honum á næturklúbbum nýríkra. Ef fundur eða málsverður átti sér stað var það til þess að víla og díla. Strategía hans var að eiga sem minnst í fyrirtækjum og ráða þeim og mergsjúga fjárstreymi þeirra sér í vil. Hann seldi varning erlendis fyrir ríkið, keypti á gjafaprís og seldi á markaðsvirði. Hann fékk sínar mjólkurkýr nánast gefins. Haldin voru útboð og var séð til þess að hann var eini bjóðandinn og bauð þá iðulega nokkrum krónum yfir lágmarks útboðsupphæð. Útboðin voru á þá leið að þau voru sögð haldinn annarsstaðar en þau fóru fram. Gamall kollegi hans sagði um hann að hann væri svo metnaðarfullur að ef hann hefði ekki farið út í viðskipti væri hann búinn að vinna til Nóbelsverðlauna!
Beresovskí var vinhollur Tétjenum og var það m.a. annars gert til þess að hirða fjölmiðlaumfjöllun þegar hann átti þátt í samningaumleitunum vegna gíslatökumála. Það hversu mikilvægur hlekkur hann var átti að sýna að hann væri ómissandi fyrir stjórnina. En allt var það nokkuð gruggugt. Beresovskí átti fjölmiðla sem hjálpuðu Jeltsín að vinna forsetakosningarnar 1996 í Rússlandi. Hann ásamt öðrum óligörkum sameinuðust um að veðja á Jeltsín. Beresovskí átti hlut í Aeroflot, málmbærðslum, olíufyrirtækjum og bara nefnið það. Hann er núna í útlegð í Bretlandi.

Pútín: Var á mála hjá KGB og ferill hans framan af var tíðindalítill. Eftir fall múrsins fór hann að kenna lögfræði við háskóla í St. Pétursborg. Frami hans var hraður og komst hann til valda fyrir forsetakosningarnar 1996. Engu var hægt að klína á Pútín né tengja hann við spillingu Jeltsínstjórnarinnar. Pútín hefur verið farsælli í starfi útávið en Jeltsín. Arfleið Jeltsíns er ekki góð. Hann “gaf” helstu fyrirtæki landsins óligörkum. Afleiðingarnar voru þær að tekjur ríkiskassans skruppu saman og þeir sem guldu voru þegnarnir sem fengu engin laun og heilbrigðis- og félagsþjónusta snarminnkaði. Afleiðingarnar urðu m.a. þær að Rússum fækkaði og munaðarlausum börnum fjölgaði. Jeltsín var iðinn við að reka og ráða helstu samstarfsmenn sína og ráða suma aftur, sparka þeim svo og ráða svo aftur.

Viktor Gaidar og Anatoly Chubais: Gaidar þessi veiktist fyrir nokkrum dögum og er talið að honum hafi verið byrlað eitur. Gaidar var einn af efnilegustu drengjum sinnar kynslóðar upp úr 1990. Gaidar (doktor í stærðfræði) ásamt Chubais (doktor í hagfræði) höfðu yfirumsjón með mestu einkavæðingu sögunnar sem bar nafnið Shock therapy. Einkavæðingin olli m.a. annars óðaverðbólgu og sparifé landsmanna fuðraði upp. Chubais átti stóran þátt í “voucers for share”, þar sem þegnarnir fengu hlutabréf í mörgum helstu fyrirtækjum landsins en stór hluti þessara hlutabréfa fór aldrei í umferð heldur sátu eftir hjá vörsluaðilum. Svo voru þau sem fóru í umferð keypt á spottprís. Chubais sem var góður verkstjóri og var innundir og útundar hjá óligörkum og Kreml á víxl.

Það er til eitt orð um Rússland eftir lesningu þessara bóka: SPILLING. Spilling, spilling og aftur spilling. En engin á að leggja traust sitt á mann sem trúir bara á eina bók. En þetta er nú margt komið upp á yfirborðið núna.

|




11.12.06

Tungan

Vala systir benti mér á bók um daginn sem væri skyldulesning. Bókin sú heitir Listin að selja eftir Tom Hopkins. Vala sagði hana vera handbók sem flokkar það sem þarf að flokka - svona grunnflokkun eins og hjá Aristótelesi...
Þar kemur m.a. annars fram að tungan er versti óvinur sölumannsins. En í raun er sama hvort um ræðir einstakling sem vill selja sjálfan sig stúlku og kyssir hana e.t.v. að henni óspurði eða bara hann malar of mikið og kemur sér í vandræði. Tungan getur bakað vandræði og gullkorn. Flest okkar ansastrik eru af völdum tungunnar þegar við segjum ranga hluti á röngum tíma. Einmitt enn ein gullin reglan – tímasetningar. En mín bíður semsagt það stóra verkefni að lesa þessa bók um hátíðarnar og hemja tunguna.

|




9.12.06

Dægursaga

Ég á mér einn eftirlætiskarakter. Reyndar á ég mér marga eftirlætiskaraktera. Þessir einstaklingar eru hreinn tilbúningar annarra manna og kvenna. Oft kemur upp í huga mér Fjóla frænka í meðförum Ólafíu Hrannar.

Ég átti ágætan dag í dag. Fór í klippingu, ljósritaði í tvo tíma og sat við og keyrði heim og át tvisvar. Þar sjáið þið það. Jæja, Hulda frænka hringdi rétt fyrir hálfníu. Ég og Hulda deilum sameiginlegu áhugamáli sem er að versla. Ég hef unun af því í skömmtum að eyða. Það er ekki þar með sagt að ég sé eyðslukló, það er langt í frá. Veit ekki hvort mínir nánustu skrifi undir það. En þegar ég eyði þá kemst ég í ham og gleymi jafnvel því sem ég keypti að morgni dags þegar heim er komið að kvöldi en þá verða fagnaðarfundir. Í útlöndum nota ég 1-2 daga til að skima allt sem til er og ákveða hvað á að kaupa. Jæja, mér og Huldu frænku þykir ekki tiltökumál að slengja út dágóðri summu fyrir álitlegu úri enda er það frábær fjárfesting, segjum nú líka ef úrið lifir mann og einhver erfir það. Reyndar erfði dóttir Huldu þennan frábæra hæfileika og ég er ekki frá því að amma sé á sama bási hvað þetta varðar og systir mín yngri. En nóg um það.

Ég fór heim til að elda mér mat. Til voru hamborgarar í ískápnum. Ég tek franskar út úr frystinum og set í fat sem endar í ofni. 20 mínútur og franskarnar verða brúnar og tilbúnar til átu. Meðan ég ræddi við Huldu um jólasveina, vinnu, nám og kvenfélagið hennar þá urðu franskarnar brúnar og svo svartar enda talaði ég við hana í 30 mínútur. Ég vissi af þessu en gat ekki slitið mig frá símtalinu, var í snúrusíma því ég fann ekki þann þráðlausa.
Frönskunum var fórnað og ekki var annað að gera en að setja annan umgang í fatið og steikja sér svo tvöfaldan borgara. Þetta var ólagsmáltíð. Lít ég á síma minn og sé að ég hef misst af hringingu, slæ á þráðinn til baka. Er það ekki vinur minn einn að fá til sín rjúkandi steik á veitingastað og ég heima nýlokinn við tvöfaldan ofsteiktan. Það er ekki á eina bókina lagt hvað ég þarf að ganga í gegnum á einum degi.

Annars er Jólasveinaþjónustan í einhverjum blóma nú um stundir, sendið mér línu ef þið viljið komast í samband við sveina.

Ég bæti mér daginn í dag upp á morgun með söngstund með söngstjörnu 21. aldarinnar í Háskólabíói og samkundu með Sumarlöggunum.

En með hana Fjólu. Ég hugsaði stöðugt um Fjólu á meðan á samtali mínu stóð. Ég hugsaði bara um mig sem Fjólu, það var ekki annað.

|




7.12.06

Hetjur

Allir þurfa á hetjum að halda, bara mismikið. Ef einhver segist ekki þurfa á hetju að halda þá þurfti hann það eflaust einhvern tímann þegar hann var lítill hnoðri og átti undir högg að sækja ef í harðbakkann sló.

Jesú var hetja enda eru margir hrifnir að honum. Að gera eins og Jesú þýðir að breyta rétt og vera góður maður, viðhafa góða siði og svona. Ég man eftir myndunum af Jesú í Laugardagsskóla Hjálpræðishersins sem haldinn var í Hólabrekkuskóla. Þar voru margir sem fetað hafa stigann. En jæja, þar voru sagðar dæmisögur og sýndar teiknimyndir. Skólinn var yfir vetrartímann og þeir sem áttu afmæli í vikunni fyrir tímann fengu mynd af frelsaranum eða vinum hans og mömmu. Ég var svo óheppinn að eiga afmæli 14. ágúst svo ég fékk aldrei Biblíumynd. Allir fengu mætingarskýrteini, á mitt var ritað Árni Björnsson en ekki Georgsson - Ádni Gjorson...

Þannig að segja mætti að Jesú væri fyrir mér rétt eins og Trans-Formers eru fyrir sumum og He-Man öðrum. Allir að breiða út hið góða, bara mismunandi sögusvið og persónur og leikendur - önnur hylki.

Hetjan hefur oftar en ekki gengið í gegnum raunir sem gerðu hann að sterkari manni. Í tilfelli Jesú má segja að krossfestingin hafi verið hans raun og fyrir vikið varð hann stærra nafn því hann komst í næsta borð – til himna (stendur í Biblíunni), Móses ráfaði um eyðimörkina í 40 ár uns hann fann fyrirheitna landið. Ódysseifur ætlaði aldrei að komast heim frjá Trjóju. Barðist við Kýglópa, var fangi Sírena og hreppti slæmt veður m.a. uns hann komst heim til að taka þátt í tvífarakeppni. Jóhanna af Örk var brennd á báli 16-17 ára og fékk að launum sess í sögubókum. Samtíminn á nóg af hetjum en sumar eru stærri en aðrar. Mig langar að segja ykkur aðeins af Mr. T.

Ég geri eiginlega engan greinarmun á teiknimyndahetjunni, manninum úr A-Team, boxaranum úr Rocky II og þeim sem birtist hjá Conan O’Brian. Allaveganna þá var Mr. T yngstur 7 systkina og faðir þeirra yfirgaf þau snemma rétt eins og pabbi Tu-pac gerði. Oft voru harðir tímar á heimilinu en það herti aðeins drenginn unga. Hann var göfugur dyravörður og eftirsóttur lífvörður og í dag er hann Mr. T. Maður sem hjálpar mörgum í gegnum daginn og hægt er að fá dúkkulíki af honum, plaköt, bolla og myndir og nánast allt sem hugurinn girnist því að til eru góðir verksmiðjueigendur sem vilja gera okkur kleift að eignast brot af goðinu. Hann er jafnvel vinsælli en Jesústyttur í BNA. Mr. T styttu fyrir ofan hvurn arinn. En ekki eru allir jafn vandaðir. Sumir verksmiðjueigendur búa til líki af íþróttamönnum sem bryðja stera og eru falsgoð/skurðgoð og eru í raun ekki það sem þeir virðast vera, heldur einhver heimatilbúin brynja sem ekkert stendur á bakvið. Þeir gefa slæmt fordæmi en allir vilja græða en sumir gera það á vafasaman og ósiðlegan hátt.

Jæja, nóg í bili. Vegna þess að tími einnar hetjunnar er að renna upp finnst mér ekki úr vegi að birta mynd af annarri að samfagna á afmælisdegi hinnar fyrri.


Það fer engin(n) svekkt(ur) eða tómhent(ur) heim eftir stund með Mr. T.

|




4.12.06

Dans

Hef lengi haft hug á því að læra dansa. Fox trot, jive, tangó eða bara hvað sem er, helst eitthvað með svingi.

Skemmtilegur linkur hérna fyrir neðan með Lindy Hop sem er sving dans frá um 1930. Hakan sendi mér hann. Hakan er magnaður um margt, talar 11-12 tungumál, 9 af þeim afar vel eða kannski 5 eða 6. Voru það ekki tyrkneska, enska, íslenska, þýska, spænska og gríska og svo slarkfær í frönsku, serbnesku, rússnesku, norsku og dönsku. Hann er duglegur að ferðast og var í Íran í einhvern tíma um daginn, ég tek það fram að það var ekki af trúarlegum ástæðum.
Hakan er verkfræðimenntaður saxafónspilari og er langt kominn með tyrkneska-íslenska/íslenksa-tyrkneska orðabók. En nú um stundir er hann að þýða bók eftir tyrkneska Nóbelsskáldið Ohram Pamuk. Hakan fer á ráðstefnu og í kennslu á þessum dansi í Svíþjóð 26. desember...

|