30.9.06

Hver er ég!!!

Kom á óvart eða ekki. Ég tók ofurhetjuprófið og það kom í ljós að ég er ekki Hulk. Ég tek það kannski aftur og fer í sjálfsskoðun þegar ég svara spurningunum.


You are The Flash
Fast, athletic and flirtatious.



























The Flash
100%
Green Lantern
85%
Wonder Woman
75%
Superman
70%
Iron Man
65%
Spider-Man
60%
Supergirl
60%
Hulk
60%
Batman
50%
Robin
40%
Catwoman
35%

|




24.9.06

Skemmtun... Til hvers er hvað...

Fór út að skemmta mér í gærkvöldi, laugardagskvöld. Ég skemmti mér frekar takmarkað. Er þetta bara búið? Mér leiddist stóran hluta kvöldsins og var einmana umhverfis svo mikinn fjölda af fólki í fansí dansi – á ég ekki bara að hvíla mig... Þetta var svo djúpur leiði. Hann leiddi svo langt niður að ég ákvað að bíða með að fara heim og bíða bara með leiðanum og sjá til hvað yrði... Svo fékk ég mér 1-2 en það hafði takmörkuð áhrif. Ég bara horfði. Svona er þetta, skyn og skúrir. Minn dagur verður kannski bara næst. Ég geri mitt besta allaveganna. Ennio stendur alltaf fyrir sínu. Melankólía í laglínum, sakleysi, það sem varð og ekki varð. Nú legg ég mig.

|




21.9.06

Harka og færni

Þessi linkur er ekki fyrir viðkvæma.

|




19.9.06

Syndin og kaffið

Er búinn að hlusta nokkrum sinnum á Gunnar og setningar hans. Gunnar eins og eimreið á egótrippi - flautan blæs, blæs og blæs. Leiklist í leikhúsum hefði eflaust legið fyrir honum en hann á sitt svið. Að ræða við þennan mann um ýmis málefni er eflaust eins og ræða við tré.

|




15.9.06


Það sem heimurinn beið eftir


Nú hefur það gerst sem allur heimurinn beið eftir og vonaðist til. Whitney Houston (43 ára) hefur beðið um skilnað frá Bobby Brown (37 ára). Alltof lengi höfum við beðið eftir þessu. Ferillinn hefur verið á hægri niðurleið síðan hún giftist honum fyrir 14 árum og er hann nú kominn alveg í vaskinn. Nú er bara að vona að dívan taki sig taki og hætti endanlega á kóki. Við vissum það öll að Bobby væri ekki mikill bógur þrátt fyrir að vera fjarskyldur ættingi Donnu Summer. Ég man fyrst eftir henni á plötuumslagi fyrstu plötu hennar sem systir átti, og ég sá þrátt fyrir ungan aldur að eitthvað væri í hana spunnið og hún hefði aðdráttarafl. Whitney er frænka Dionne Warwick (líkindin sjást á nýlegum myndum) og fékk eitt sinn næstum því hlutverk í Cosby Show. Hún hefur látið hafa ýmislegt eftir sér og hérna kemur gullmoli: "I've got a good man. He takes care of me. I don't have to be scared of anything because I know he will kick every ass... disrespect him and you've got a problem."






Hér sjáið þið dívuna bregða á leik.





Hér er hún í essinu sínu árið 1985, þá 22 ára. En á plötunni sem ber nafn dívunar eru einmitt lögin Saving all my love for you og How will I know.


Stærsti hittari Whitney í plötusölu og útvarpsspilun er Dolly Parton lagið I will always love you

Hin 35 ára gamla Brooke Burke sílíkonstelpa og kynnir á víst von á sér einhvern tímann á næstu mánuðum, held það sé hennar þriðja barn. Fyrir á hún tvö börn með lýtalækningum Garth Fisher. Sá sem skaffaði barnaefnið er einmitt David Charvet sem hún er trúlofuð, en hann er frægur fallegur tónlistarmaður sem selt hefur 2,5 miljónir platna og var einn af burðarásum hins rómaða Bay Watch þáttar. Brooke átti góðu gengi að fagna sem kynnir á E! fyrir Rock Star þáttinn sem stjórnandi hins geysi vinsæla þáttar Wild On... Brooke á tvær góðar vinkonur sem margir gætu þekkt, Neriahu Davis fyrrum leikfélaga Playboy og Nikki Schieler Ziering sem einmitt er gift Ian Ziering, sem lék ljóshærða höskan sem lenti ævinlega í einhverjum vandræðum í Beverly Hills 90210. Hann er gyðingur og áður en þau giftust snerist hún til gyðingdóms til að vera sömu trúar og Ian. Þá vitið þið það.

Einnig vert að minnast á það að Baldur vinur minn var að eignast stúlku Baldursdóttur með Sólrúnu unnustu sinni. Þetta er það sem ég hef komist næst því að verða pabbi.

|




13.9.06

Lítilmagninn

Já, þeir sem minna mega sín eiga undir högg að sækja lesum við um í blöðunum. Kaupmáttur öryrkja er víst minni en einhvern tímann áður miðað við aðra hópa samfélagsins og fuglar og hreindýr eru skotin niður í soðið og til uppstoppunar. Svo eru víst líka eldisdýr brytjuð niður svo við getum etið eitthvað, því við verðum að nærast og erum efst í fæðukeðjunni. Af því tilefni að ég nefni lítilmagnann hér í fyrirsögn hef ég ákveðið að setja sögu af einum slíkum hérna fyrir neðan þar sem ég hef ekki mikið meira að segja. Gæti svo sem sagt eitthvað af sjálfum mér en sleppi því. Þegar við erum minni þá erum við lítilmagnar samanborið við fulltíða fólk. Vernduð vöxum við úr grasi og einn daginn erum við tilbúin að takast á við heiminn, raunir hans og gleði með þroska og reynslu í farteskinu, með það að leiðarljósi að viðhafa góða meðalhegðun.

Raunir Haðar

Í mörkinni sem umlukin er jöklum og fjöllum og þar sem eitt sinn riðu hetjur og útilegumenn ráfuðu, skáluðu nú unglingar í landa um helgar og fjölskyldur nutu samvista. Þar bjó einnig lítið lamb sem villst hafði langa leið frá hjörð sinni. Beit var með öllu bönnuð í Þórsmörk en hvað vissi lambið, það yrði ekki ljóst að það væri týnt fyrr en í smölun í haust rétt fyrir slátrun. Frændur og frænkur færu á innanlandsmarkað, sum til Færeyja og önnur til hinnar stóru Ameríku, markaðssett og seld dýrum dómi sem lúxuslömb. Lambið átti óljósar vonir og drauma því það þekkti hvorki fortíð sína skilgreinilega og hvað þá heldur framtíð og gat sér móðukenndar hugmyndir um nútíðina sem það lifði í. Lambið lifði fyrir daginn í dag eins og öll dýrin í skóginum nema maðurinn. Maðurinn trúir á einn guð, líkneski, sjálfan sig eða ekki neitt og þekkir skil á fortíð, nútíð og framtíð, því manninum er tungumál og munnleg geymd ásköpuð. Til allrar lukku var lambið ekki af forystukyni því þá hefði það stangað mann og annan og verið hirt fyrir athæfið af landvörðum og sent í sína heimahaga. Lambið var orðið nokkuð feitt því nóg var að bíta og brenna í mörkinni. Lambið var Höður, prins merkurinnar. Nokkuð vítt var til allra átta fannst Heði því hann þekkti fátt annað og minni sauðfés er stopult. Grasbítar hafa ekki þurft að hafa fyrir máltíðum líkt og rándýrin sem beita klókindum við veiðar og heilastarfsemin því ekki flóknari en raun ber.
Verslunarmannahelgi var í nánd og Höður sá dalinn fyllast af fólki. Óhljóðandi kassarnir frussuðust yfir beljandi jökulfljótið, mikill hávaði var í sumu mannfólkinu en aðrir gengu hljóðlegar um en allt reisti það litlar hálfkúlur eða þríhyrninga. Tómt vesen þetta að vera ekki vaxið ull og þurfa að klæða sig í marglit efni en það er annar handleggur og eldri saga sem snýr að hinu fullkomna kælikerfi mannsins sem þróaðist þegar maðurinn veiddi sér til matar með því að elta uppi bráð sína í heitari álfu og gat ekki dokað við og andað til að kæla sig líkt og önnur dýr steppunnar, því að tími er matur, tími er líf. Hárlaus líkami var ekki alveg rétta kaffið á norðurslóðum en ekki var hægt að snúa þróunarferlinu við úr þessu.
Höður lét lítið fyrir sér fara, fólk virtist hafa gaman af lukkudýri í Slippugili.
Höður átti sér einskis ills von þar sem hann lapti úr læknum. Það var þrifið í afturlappirnar og hann hljóðaði. Heði var dröslað eftir grasinu og hann sá lækinn fjarlægjast og heyrði hróp nálgast. Einhverjir voru illskulegir á svip gagnvart fangaranum en aðrir klöppuðu á bak honum. Fjallalamb komið í tjaldbúðir og snarkandi eldur, sem er ekki vinur neinna lifandi vera annarra en mannsins, var nærri . Heði var lyft upp og slengt til jarðar. Hann heyrði hljóð sem hljómuðu "ég rotaða sem steinbít og grilla í kvöld", en skerandi öskur heyrðist svo "ertu siðferðislega brenglaður, maður fer ekki svona með dýr, láttu lambið vera, farðu aftur með það að læknum". Höður var aumur í annarri afturlöppinni. Fangarinn fjarlægðist og minna mannfólk ataðist í honum, kvenkyns líklegast eins og sumt hans skyldfólk. Fangarinn tók Höð upp og gekk með hann að sprænunni sem hann hafði stuttu áður lapið lífsins vökva úr. En eitthvað var ekki eins og það átti að vera. Höður var reikull í spori, hægri afturlöppin var brotin og snéri skringilega. Höður dröslaðist með undarlegu göngulagi á brott frá mannabúðunum. Næstu daga heyrðust skringileg hljóð í fólki og úr trékössum. Svo var dalurinn tómur og umbúðir einar eftir. Höður fylgdist með fólki í samfestingum týna smáhluti og umbúðir af flöt dalsins. Dagarnir liðu og þeir urðu Heði sífellt erfiðari og erfiðari. Höður vissi ekki að hann var með opið beinbrot og sýkingu í löppinni. Svo var það dag einn að ógnarhvasst var í dalnum. Höður hafði ekki yfirgefið dalinn eftir ófarirnar, hlíðarnar voru brattar og grjótið við enda dalsins var ófrýnilegt yfirferðar svo hann hafði ekki reynt að kanna frekara beitiland. Vindurinn var mikill og Höður réði ekki við hann. Hann hrökklaðist nær enda dalsins og gat sér ekki rönd við reist. Í grjótinu veltist hann og sá dalinn fjarlægjast og grjótbreiðuna stækka. Höður hringsnerist og sá nú jökulána fyrir framan sig. Hann stóð stjarfur og feyktist nær því. Kindur eru þeim óeiginleika búnar að geta ekki gengið afturábak og Höður átti ekki þann kost vænstan að reyna bakka frá fljótinu og vindurinn hleypti honum hvorki til hægri né vinstri, bara nær fljótinu. Svo kom kviða og Höður léttur og eitt sinn lipur hófst á loft og stakkst ofaní gruggugan strauminn. Hann gat ekkert gert, landið hreyfðist en fljótið ferðaðist á sama hraða og hann. Hann gat ekkert gert. Höður var orðinn máttfarinn og sá brú nálgast. Höður lokaði augunum og gaf upp öndina. Hvítfyssandi jökuláinn breiddi úr sér og ferðalangurinn flaut hreyfingarlaus á yfirborðinu flæktur í trjágrein. Fljótið og lítið lamb sameinuðust hafinu og langt ferðalag tók við. Það var svo á haustdögum að lítið rotið lambhræ kom upp að ströndum Vínlands rétt eins og áar þess höfðu gert með Leifi heppna og öðrum landnemum röskum þúsund árum fyrr, en hann endaði ekki líf sitt á leg, heldur láði. Þetta er sagan af lambinu sem enginn mun heyra, sagan af lambinu sem ferðaðist ekki með flugfragt eða flutningaskipi til Ameríku. Þetta er sagan af lambinu Heði sem hafstraumar báru til fjarlægrar álfu. Sagan af á sem dó í á.

|




5.9.06

Þú selur bara ömmu þína einu sinni – það þýðir ekki að kalla “úlfur - úlfur” endalaust...

Ég var í þrítugsafmæli fyrir stuttu síðan. Stórvinur minn sem kennt hefur sig við ýmislegt hélt upp á áfangann með glæsilegri veislu. Ég var hress og gaulaði en hélt mér á mottunni enda nokkur verk sem ég þurfti að sinna daginn eftir, háttsemi þarf að viðhafa að nokkru leiti þegar maður er Íslands sómi, sverð og skjöldur. Erfitt var um vik að komast á salerni sökum vinsælda þess og greip ég til þess ráðs að vökva beð eða garða nærliggjandi húsa. Gleðskapurinn endaði svo á því að brunað var í bæinn og hann málaður rauður og skósólar skrensuðu á trégólfum.

Jæja, í símtali sem ég átti við vin minn stuttu síðar segir hann að móðir gestgjafans hafi tjáð sér í spjalli með bros á vör að ég hafi ákallað frelsarann þegar ég hafi létt af mér í nærliggjandi húsgarði. Ég kannast náttúrulega ekki við þetta, enda helber þvættingur og spuni með öllu úr munni vinar míns. Hann heldur áfram að stanglast á þessu eins og hans er vani en ég nenni ekki að ræða þetta, segist bara hafa verið að æfa mig fyrir stofnun sértrúarsafnaðar – mig hafi nefnilega alltaf langað til að verða prestur...

Svo er það í hádeginu í dag að ég hitti afmælisbarnið sjálft og vin minn sem bar upp söguna um meint hróp mín til frelsarans. Fer þá ekki afmælisbarnið að minnast á þetta, að móðir hans hafi heyrt mig ákalla messías í hvívetna og ekki dregið undan meðan flöt var vökvuð.
Svona tilvik. Ef það hefði ekki verið fyrir það að ég bílinn var ekki alltaf í lok skóladags í Versló þar sem ég lagði honum að morgni, ef það hefði ekki verið fyrir skyndibitagreinina sem ég var skráður fyrir í DV og ótal annarra klækja sem ég tók þátt eða varð fyrir barðinu á, þá hefði þessi saga e.t.v. gengið upp. Þessi léttgikkur var bara of fyrirsjáanlegur – ég vissi alltaf að ég myndi heyra afmælisbarnið bera þetta upp í háðsömum tón, og það gerðist í dag. Ef ég les þetta eitthvað vitlaust þá eru komnar glompur í minnið og það verður bara að hafa það.

|




4.9.06

Hjólamassinn 2006

Jæja, þá er Hjólamassanum lokið þetta árið. Ferðin byrjaði ekki efnilega því Bogi Guðmundsson hringir í mig kl 17:15 á fimmtudaginn (brottför var tilkynnt 18:00) og segir allt vera í ólagi. Hann og kærastan eigi að afhenda íbúðina til leigu og þetta náist ekki og hann komist ekki með. Jæja, hverju er hægt að svara. Ég hraða mér upp í Mosó, flutti þar húsgögn til, skúraði og þreif veggi í 2 ½ tíma. Svo var lagt af stað kl. 21:00. Allir að bíða eftir Boga.
Fyrsti áfangastaður var Kerlingafjöll en enginn vildi kannast þar við sólgeraugu í óskilum og Sísí var ekki á staðnum en okkur boðið upp á súkkulaðiköku 500 kr/stk. Þaðan var 1 klst akstur að Setrinu, skála í eigu 4x4. Gistum þar og hjóluðum svo áleiðis í “suðreftir” framhjá Sultartangalóni að Búrfelli og niður í Þjórsárdal, þar sem gist var á Ásólfsstöðum. Grill og pottur svo eftir þennan 100 km legg. Dagurinn var tekinn snemma að morgni laugardags og keyrt upp hjá Búrfelli og hjólaðir 70 km að Úthlíð. Sjaldan hefur búkurinn verið jafn tómur og þá. Pottur, grill, gaul og gleði þar sem 13 pulsum. Lokaleggurinn á sunnudaginn var svo að hjólað var upp fyrir Úthlíð og áleiðis að Hlöðufelli – 30 km leið torfarin.
Þá er þessari ómerkilegu upptalningu lokið og lýsingin var ekki upp á marga fiska því ég þekki ekki öll kennileiti. Var samt í örlítið betra formi í fyrra en nýja hjólið reyndist vel...

|