26.6.07

Gott á grillið

Það er með grín að það tekst misvel upp eða ég er þá bara ekki að ná því eða þá bara að ég er of ungur eða þá bara sitt af hvurju tagi. Á mánudögum á Rás 2 kl. 13:30 er grillþáttur í umsjón Tvíhöfða á dagskrá, þar glóa allar línur.

Eftir að hafa hlýtt á fólkið í landinu eru nokkrir karakterar sem ég væri til í að eiga stund með.
Þetta er fólk eins og Halli frá Ísafirði sem stjórnar grillfélaginu þar. Grillar naggrísi og dauða labradorhvolpa – krakkarnir hafa svo gaman af þessu. Öryrkinn stráir pillum yfir maríneraðar pakkakódilettur meðan hann grillar þær á rauðglóandi eldavélavélarhellunum, Umferðar-Einar sem varar fólk við gasi – segir okkur frá hjólhýsum sem eru sprengjur á hjólum og minnir á g-in fjögur (Gas, gleði, gát og bros); Fúsi bóndi í Mývatnssveit sem grillar spóa, álftir og fálka. Svo verð ég að minnast á manninn sem á átta brennara grill sem grillar ekkert á grillinu, vill ekki sóða það út. Maðurinn kveikir á brennurunum og horfir á þá ásamt öldruðum karlægum föður sínum. Saman horfa þeir á brennarana og pabbi hans sem hefur engan maga vegna aðgerðar fær næringu í æð, þeir stara inn í logana og tárin hrynja niður vangana og sonurinn hvíslar í eyra föður síns "fáðu þér næringu pabbi minn, sjáðu logana pabbi minn".
Margir eru handhafar sannleikans, aðrir hafa ekki fundið hann.

Hægt er að hlusta á þáttinn á ruv.is.

Þáttur sem kemst nærri Tvíhöfða er svo símatími Arnþrúðar Karlsdóttur. Það er eiginlega sama fólkið sem hringir inn til Arnþrúðar og í grillþáttinn.

Það er með þessa þætti að mér finnst þeir fanga einhvern tón í þjóðarsálinni, einhvern tón sem mér finnst eða held að sé þarna. Heyri hann reyndar aldrei en það er þetta með þennan tón, þennan tón sem Laxness nær í bókum sínum, bara annað fólk enda annar tími. Ég heyrði aldrei þennan tón í fólki Laxness enda hélt það á vit feðra sinna áður en ég komst til vits og ára.

|




22.6.07

Grensásvegur

Hvað aðhefst einstaklingur eins og ég. Hillan færist nær. Geri ég samfélaginu gagn?

Ég hef átt erfitt með að setja eitthvað sem máli skiptir mig eða að ég telji að geti verið kómískt eða vitrænt á síðuna. Hvað veldur?
Málið er að ég var á tímabili að lesa svo góðan skáldskap að mér fannst bara ekki taka því að setja orð á vef... ekki að ég væri í keppni enda ekki burðurgur til þess að veita samkeppni. Bara þegar þú hefur kannað Everest þá finnst þér Keilir ekki vera eins spennandi.

En margt upplifir maður nú í hversdagsleikanum. Ég tók upp á því í lok apríl að taka upp þráðinn hvað söngnám varðar. Er þarna á fjórðu hæð í húsi á Grensásvegi. Nýi tónlistarskólinn kallast leigjandi húsnæðisins. Er hjá kennara sem ég hafði haft fregnir af í tæp tvö ár og eftir áeggjan nemanda kennarans sló ég á þráinn til kennarans og ég viti menn enn í tímum.

Grensásvegurinn er nokkuð sérstakur, þá í allnokkru mæli í námunda við þetta musteri söngs og hljóðfæraleiks sem er þarna á fjörðu hæðinni. Köllum það birtuskil, fæ nánast í augun þegar ég hugsa til þess. Maður leggur bílnum í stæði og við manni blasir Kebab-hús sem sýnir bolta í beinni og með ótrúlegan fjölda af álímdum orðum eins og “chefs”, Kebab-hús, “bolti-í-beinni” o.fl. Þar við hliðina á er svo BK kjúklingur, staður uppfullur af iðnaðarmönnum í hádeginu – hef bara aldrei bondað við þann stað. Svo til að toppa allt er sólbaðsstofa við hlið BK. Þarna er allt sem maður þarf til að lifa, bolti í beinni, kjúklingastaður til að mingla á og ljósabekkir til að halda sér bronsuðum.

En þessir söngtímar eru alveg heví. Er að höndla þá held ég.

Grein um agavandamál í unglingavinnunni í Blaðinu í dag. Innistæðulausar hótanir grafa undan leiðbeinendum. Ég stóð við mitt sem leiðbeinandi held ég, sendi heim, dró tíma af fólki og gaf tiltal undir fjórum augum. Virðing er það sem leiðbeinandi á að ávinna sér. Allaveganna vilja fv. unglingar þar hafa tal af mér þegar ég á vegi þeirra verð og mala, hvort sem er að degi til eða að næturlagi um helgar...

|