17.2.10

Tími bloggsins og lög æskunnar

Ekki er annað hægt að segja en að tími bloggsins hafi runnið upp á Íslandi í kjölfar hrunsins. Fésbókin búin að taka yfir það hlutverk sem margar bloggsíður höfðu, þ.e. að vera samskiptasíður vinahópa. Fésbókin er góð heildarlausn á því sviði. Sama hvort um ræðir fundarboðun, gleðskapsboð eða önnur samskipti. Í kjölfar hrunsins fór virk umræða og skoðanaskipti inn á bloggið. Margir einstkalingar hafa orðið málsmetandi í þjóðfélagsumræðunni í gegnum bloggið. Ég hef hinsvegar lítið bloggað í kjölfar hrunsins, hafði e.t.v. lítið til málanna að leggja. Hef reyndar bloggað frá sumarbyrjun ársins 2000. Þeir fáu lesendur í kringum mig sem lásu mig hafa eflaust haldið á önnur mið.

Mig langaði samt að greina frá lögum æsku minnar, þ.e. þeim lögum sem greipt eru í huga minn úr æsku minni. Þau eru nokkur og nefni ég þau hér fyrir neðan.

Þegar ég var sjö ára þá sá ég kúrekamyndina 100 riffla. VHS tæki ruddist inn í Vesturbergið og pabbi fékk lánaðar tvær ræmur frá Gústa vini sínum. Önnur þeirra var 100 rifflar, mynd frá 1969 með þeim Burt Reynolds, Raquel Welch og Jim Brown. Þau fyrri tvö þarf vart að kynna, en Jim Brown, helmassaður blökkumaður, var mér meiri ráðgáta lengi vel. Svo þegar ég eignaðist myndina og svo tónlistina úr henni 26 árum eftir fyrsta áhorf gat ég ekki annað en grenslast aðeins fyrir um svarta manninn í myndinni. Jim var hlaupari í NFL deildinni og Wikipedia segir hann vera álitinn einn mesta íþróttamann sem BNA hafi alið af sér !!! Það er ekkert annað. Hann spilaði 9 ár í NFL deildinni og tímaritið The Sporting News útnefndi hann besta fótboltaspilara allra tíma árið 2002. Jim á víst enn nokkur met í deildinni. Á yngri árum virðast flestar þær íþróttir, ef ekki allar, hafa leikið vel í hendi hans. Góður sprepphlaupari, góður spretthlaupari… já, það var hann víst. Ef þú ert það þá lyggja snerpugreinarnar vel fyrir þér. Jim lagði fyrir sig kvikmyndaleik eftir íþróttaferilinn.

Eitt það markverðasta við 100 riffla er að þar brá fyrir á hvíta tjaldinu einni fyrstu ástarsenu svarts manns og hvítrar konu.


1. 100 Rifles – Main Theme. (Höf. Jerry Golsmith)


100 rifflar skildu eftir sig ljúfsára minningu í huga sjö ára drengs, leiðir aðalpersónanna skildu í lok myndar, man það.

Vídeótækið gerði stormandi lukku í Vesturberginu. Fyrir utan að horfa á upptökur af Stikluþáttum með pabba og liggja með Völu systur yfir Matreiðslunámskeið Magneu með Gísla Halldórssyni og The Birds Hitchkocks þá var ein mynd sem ég horfði öðrum myndum oftar á. Pabbi fékk Goldfinger lánaða hjá Gústa vini sínum. Gústi rak vegasjoppu í Húnavatnssýslunni á tímabili, man það – það er annar handleggur. Í Goldfinger urðu fyrstu kynni mín af Shirley Bassey, þau kynni áttu eftir að verða meiri síðar. Ég er áhugamaður um dökkar alt kvenraddir. Cleo Laine er önnur markverð alt söngkona. Sjö ára dreng þótti lasersenan mjög spennandi.


2. Goldfinger – Main Theme (Höf. John Barry)


Ég vissi ekki alveg hvaða band Kraftwerk var árið 1984, en ég fílaði í ræmur lag þeirra Model. Hlustaði aftur og aftur á lagið og þá sérstaklega spólaði ég til baka á kasettunni til að hlusta á millikaflan. Síðar átti ég eftir að sjá Kraftwerk spila lagið í Kapplakrika.


3. Model - Kraftwerk


Þegar ég var átta eða níu ára þá heyrði ég lag sem hitti mig í hjartastað. Falsettan var alveg ómótstæðileg og ég gaulaði hana eftir. Ég byrjaði snemma að gefa frá mér hljóð. Ef foreldrar mínir hefðu verið leikhúsfólk þá hefði ég orðið barnastjarna, en sem betur vann pabbi minn hörðum höndum fyrir sér sem vélstjóri og mamma sá um að fæða mig og ala upp. Ég spilltist ekki, allaveganna ekki þá. Já, lagið, lagið var Hocus Pocus með hlómsveitinni Focus frá Hollandi.


4. Hocus Pocus – Focus


RÚV sýndi kúrekamyndir í gríð og erg í kringum 1986 og gerði það líka fyrr. Tvær myndir sitja fast í minni mér. Fistful of Dynamite Sergio Leone og Butch Cassidy and The Sundance Kid með þeim Paul Newman og Robert Redford. Fistful of Dynamite skartaði þeim James Coburn og Rod Steiger í aðalhlutverkum. James Coburn fyrrverandi IRA maður og í minni mín var Rod Steiger mexíkóskur fjölskyldumaður. Epísk stórmynd. En það sem sat í mér var lokasena myndarinnar, þegar brúin var sprengd og þemalag myndarinnar í lokasenunni. Það liðu 9 ár uns ég heyrði þemalagið aftur, þá í Útvarpi Versló á ljósum Miklubrautar og Háaleitis, enn liðu tvö ár og þá fékk ég disk með Ennio Morricone lánaðan hjá Gumma Njál, vinnufélaga í Áburðarverksmiðjunni. Ég hafði himinn höndum gripið tveim. Hádramatísk tilfinning með votti af eftirsjá, sat eftir í huga 10 ára drengs að sumri til í sófanum í Vesturbergi árið 1986.


5. Fistful of Dynamite – Main theme


Síðasta lagið sem ég nefni komst ég svo yfir um daginn. Ég átti eftir að kynnast bókum Milan Kundera, en fyrstu kynni okkar urðu þegar ég horfði á mynd gerða eftir bók hans, Óbærilegum léttleika tilverunnar. Í byrjun myndarinnar ekur skurðlæknirinn og kvennamaðurinn Thomas bíl sínum í Tékkóslóvakíu árið 1968 og undir hljómar píanóverk Leos Janacek – Pohadka. Myndina sá ég árið 1990. Lagið fann ég á Youtube.


6. Pohadka – Leos Janacek


Man ekki eftir fleiri lögum í svipinn, þau eru eflaust fleiri. Bæti við ef þau poppa upp í hugann á næstu klukkustundum. Bestu kveðjur, lifið heil.

|