22.8.07

Á mörgum vígsstöðum

Bikarkeppni lauk, við tók Reykjavíkurmaraþon Glitnis, svo Reykjavíkurmeistaramót 14 ára og yngri og teppalagning í Höllinni þar í kvöld. Bakvið þessa fjóra atburði liggja svo klukkutímar við símann mun fleiri en í sjálfa atburðina fóru. Sjálfboðavinna lengir lífið. Svo í vændum er Bikarkeppni 16 ára og yngri sem félagið heldur. Þar á undan markaðsstarf í grunnskólum, skólamót og bæklingagerð og svo vertíð í vinnunni. Læt eina gamla sögu fylgja.

Raunir Haðar

Í mörkinni sem umlukin er jöklum og fjöllum og þar sem eitt sinn riðu hetjur og útilegumenn ráfuðu, skáluðu nú unglingar í landa um helgar og fjölskyldur nutu samvista. Þar bjó einnig lítið lamb sem villst hafði langa leið frá hjörð sinni. Beit var með öllu bönnuð í Þórsmörk en hvað vissi lambið, það yrði ekki ljóst að það væri týnt fyrr en í smölun um haustið rétt fyrir slátrun. Frændur og frænkur færu á innanlandsmarkað, sum til Færeyja og önnur til hinnar stóru Ameríku, markaðssett og seld dýrum dómi sem lúxuslömb.

Lambið átti óljósar vonir og drauma því það þekkti hvorki fortíð sína skilgreinilega og hvað þá heldur framtíð og gat sér móðukenndar hugmyndir um nútíðina sem það lifði í. Lambið lifði fyrir daginn í dag eins og öll dýrin í skóginum nema maðurinn. Maðurinn trúir á einn guð, líkneski, sjálfan sig eða ekki neitt og þekkir skil á fortíð, nútíð og framtíð, því manninum er tungumál og munnleg geymd ásköpuð. Til allrar lukku var lambið ekki af forystukyni því þá hefði það stangað mann og annan og verið hirt fyrir athæfið af landvörðum og sent í sína heimahaga. Lambið var orðið nokkuð feitt því nóg var að bíta og brenna í mörkinni. Lambið var Höður, prins merkurinnar.
Nokkuð vítt var til allra átta fannst Heði því hann þekkti fátt annað og minni sauðfés er stopult. Grasbítar hafa ekki þurft að hafa fyrir máltíðum líkt og rándýrin sem beita klókindum við veiðar og heilastarfsemin því ekki flóknari en raun ber.
Verslunarmannahelgi var í nánd og Höður sá dalinn fyllast af fólki. Óhljóðandi kassarnir frussuðust yfir beljandi jökulfljótið, mikill hávaði var í sumu mannfólkinu en aðrir gengu hljóðlegar um, en allt reisti það litlar hálfkúlur eða þríhyrninga. Tómt vesen þetta að vera ekki vaxið ull og þurfa að klæða sig í marglit efni en það er annar handleggur og eldri saga sem snýr að hinu fullkomna kælikerfi mannsins sem þróaðist þegar maðurinn veiddi sér til matar með því að elta uppi bráð sína í heitari álfu og gat ekki dokað við og andað til að kæla sig líkt og önnur dýr steppunnar, því að tími er matur, tími er líf. Hárlaus líkami var ekki alveg rétta kaffið á norðurslóðum en ekki var hægt að snúa þróunarferlinu við úr þessu.

Höður lét lítið fyrir sér fara, fólk virtist hafa gaman af lukkudýri í Slippugili.
Höður átti sér einskis ills von þar sem hann lapti úr læknum. Það var þrifið í afturlappirnar og hann hljóðaði. Heði var dröslað eftir grasinu og hann sá lækinn fjarlægjast og heyrði hróp nálgast. Einhverjir voru illskulegir á svip gagnvart fangaranum en aðrir klöppuðu á bak honum. Fjallalamb komið í tjaldbúðir og snarkandi eldur, sem er ekki vinur neinna lifandi vera annarra en mannsins, var nærri . Heði var lyft upp og slengt til jarðar. Hann heyrði hljóð sem hljómuðu "ég rotaða sem steinbít og grilla í kvöld", en skerandi öskur heyrðist svo "ertu siðferðislega brenglaður, maður fer ekki svona með dýr, láttu lambið vera, farðu aftur með það að læknum". Höður var aumur í annarri afturlöppinni. Fangarinn fjarlægðist og smávaxnara mannfólk ataðist í honum, kvenkyns líklegast eins og sumt hans skyldfólk.
Fangarinn tók Höð upp og gekk með hann að sprænunni sem hann hafði stuttu áður lapið lífsins vökva úr. En eitthvað var ekki eins og það átti að sér að vera. Höður var reikull í spori, hægri afturlöppin var brotin og snéri skringilega. Höður dröslaðist með undarlegu göngulagi á brott frá mannabúðunum. Næstu daga heyrðust skringileg hljóð í fólki og úr trékössum. Svo var dalurinn tómur og umbúðir einar eftir. Höður fylgdist með fólki í samfestingum týna smáhluti og umbúðir af flöt dalsins. Dagarnir liðu og þeir urðu Heði sífellt erfiðari og erfiðari. Höður vissi ekki að hann var með opið beinbrot og sýkingu í löppinni.

Svo var það dag einn að ógnarhvasst var í dalnum. Höður hafði ekki yfirgefið dalinn eftir ófarirnar, hlíðarnar voru of brattar fyrir veika löppina og grjótið við enda dalsins var ófrýnilegt yfirferðar svo hann hafði ekki reynt að kanna frekara beitiland. Vindurinn var mikill og Höður réði ekki við hann. Hann hrökklaðist nær enda dalsins og gat sér ekki rönd við reist. Í grjótinu veltist hann og sá dalinn fjarlægjast og grjótbreiðuna stækka. Höður hringsnerist og sá nú jökulána fyrir framan sig. Hann stóð stjarfur og feyktist nær því. Kindur eru þeim óeiginleika búnar að geta ekki gengið afturábak og Höður átti ekki þann kost vænstan að reyna bakka frá fljótinu, vindurinn hleypti honum hvorki til hægri né vinstri, bara nær fljótinu. Svo kom kviða og Höður léttur og eitt sinn lipur hófst á loft og stakkst ofaní gruggugan strauminn. Hann gat ekkert gert, landið hreyfðist en fljótið ferðaðist á sama hraða og hann. Hann gat ekkert gert. Höður var orðinn máttfarinn og sá brú nálgast. Höður lokaði augunum og gaf upp öndina. Hvítfyssandi jökuláinn breiddi úr sér og ferðalangurinn flaut hreyfingarlaus á yfirborðinu flæktur í trjágrein. Fljótið og lítið lamb sameinuðust hafinu og langt ferðalag tók við. Það var svo á haustdögum að lítið rotið lambhræ kom upp að ströndum Vínlands rétt eins og áar þess höfðu gert með Leifi heppna og öðrum landnemum röskum þúsund árum fyrr, en hann endaði ekki líf sitt á leg, heldur láði.
Þetta er sagan af lambinu sem enginn mun heyra, sagan af lambinu sem ferðaðist ekki með flugfragt eða flutningaskipi til Ameríku. Þetta er sagan af lambinu Heði sem hafstraumar báru til fjarlægrar álfu. Sagan af á sem dó í á.

|




19.8.07

Reykjavíkurmaraþon

Starfaði sem þulur í Reykjavíkurmaraþoni Glitnis. Margir unnu gott starf í sjálfboðavinnu og margir bættu tíma sína í hlaupinu. Það sem kom mér mest á óvart var þegar ég sá rúmlega tvítugan pilt koma í mark í hálf maraþoni. Hann hljóp í Converse skóm takk fyrir. Í hvítum uppháum Converse skóm en samt sem áður í hlaupabol og stuttbuxum. Á dauða mínum átti ég frekar von en sjá keppenda hlaupa í þetta löngu hlaupi í skóm sem þessum...

|