24.11.05

Gildi borgarans

Hönnunar- og lífstílsþættir eru vinsælir þessa daganna, borgar- og sveitalíf tekið til skoðunar. Það er allt svo fallegt og flott hjá öllum og svo frábærar lausnir í gangi. Auðvitað er sumt gott og annað alls ekki jafn gott - er ég dómbær á gott og vont, hvert er gildismat mitt? Er hægt að kíkja í heimsókn og hrauna yfir húsráðanda. E.t.v. er tekið upp meira efni en sýnt er og það "hörmulega" skorið burtu. Er þáttagerðarfólk dómbært á gott og slæmt, eigum við ekki að gera kröfu til þess að við séum uppfrædd um góð gæði og slæm af þeim sem hafa "rétt" gildismat, sanna þekkingu? Spurning um metnað í þáttagerð. Sumt þáttagerðarfólk með próf upp á vasann og er þá spurning hvort þeirra sýn geti glætt huga okkar meiri þekkingu og aukið innsæi okkar á umhverfinu. En þekking ekki alltaf fengin úr skóla og amatörar geta svosem verið spekingar. Borgin hefur verið vinsælt umfjöllunarefni. Við erum borgin og hún er við, arkitetúrinn er borgin og borgin er arkitektúrinn. Arkitektúr er þekking, ný og gömul og ávalt bætt ofan á fyrri þekkingu. Eftiröpun er ekki list en tveir gamlir þættir geta myndað einn nýjan.

Listrænt samspil í borgum er í raun arkitektúr. Arkitektúr byggir á grunnþekkingu og endurspeglar öll listform. Góður arkitektúr er í raun þrívíður skúlptúr sem snýst um mannlega tilvist. Gildi eru lögð til grundvallar sem byggð eru á faglegum grunni og þekkingu og er þar með tækifæri til að skapa list. Þekking og gæði eru háleit markmið. Ef gildismatið er lágt þá eru byggingarnar ekki áhugaverðar. Ekki er hægt að dæma gæði nema að búa yfir þekkingu og vita hvað er til grundvallar. Hús ekki sama og hús.
Gildi og gildismat er í raun það sem fólk vill lifa, því sem fólk sækist eftir.
Grunneining borgarlífsins er í raun borgin sjálf og sú ímynd sem íbúarnir hafa af henni. Hún endurspeglar íbúana, gildi þeirra, menningu, þekkingu, trú og sögu. Götur og uppröðun þeirra í gatnakerfi, lóðir og samsetningu þeirra í byggðareiti. Byggingar og húsaraðir. Í borgum sækist fólk eftir menningu og mannlífi. Það sem einkennir borgarlíf er einmitt menningin sem þar þrífst. Er því hægt að ganga á skjön gildismati borgarans og sýna bara háleitu markmiðin, skilur borgarinn þau til fullnustu...

|




23.11.05

Góð æfing

Fór hreint út sagt frábæra æfingu áðan þar sem maður gaf allt sitt. Ég æfi frjálsar og þetta prógram hér fyrir neðan er held ég illskiljanlegt en vildi miðla hvað væri m.a. gert á þessum æfingum. Mættir voru ca. 20. Ég mætti með 3 boli og notaði þá alla. Æfingin tók 3 klst.

Upphitun

30 mín skokk á undan æfingu

Hreyfiteygjur

Drillur
2*100 m vaxandi
2*80 m valhopp vaxandi
2*60 m háar hnélyftur
2*40 m háar hnélyftur með teygju
2*60 m hátt valhopp
2*60 m hratt valhopp
2*20 m litlar hraðar hnélyftur
2*100 m vaxandi

Æfing

10*100m á 70%, labb 50 m til baka og svo 50 m háar hnélyftur, hvíld 20 sek

Hvíld 5 mín

Hopp þrekhringur:
Hnébeygjur með áherslu, útskeifar og svo innskeifar – 30 stk.
2*10 stk. Hvor fótur, 120 gr. Hnébeygjur með háu hoppi
20 stk. Löng há skíðahopp
20 stk. Há skíðahopp með feti milli fóta

Hopp þrekhringur endurtekinn

80 m hnébeygjulabb með áherslu

Hvíld 1-2 mín

4*100 m 70% og skokk til baka

Hvíld 5 mín

Þrekhringur, engin hvíld

30 armbeygjur
30 magaæfingar
30 armbeygjur
20 magaæfingar með því að snerta fætur með höndum, beinir fætur
20 magaæfingar með því að halla beinum fótum 10 cm frá jörðu bíða í 5 sek og svo upp.
20 magaæfingar, beinum fótum hallað til hægri og vinstri – 20 cm frá jörðu og beðið í 5 sek.
30 armbeygjur
30 mjaðmalyftur – hvílt á olnbogum og hægri fótur beint upp í loft, mjöðmum lyft – svo vinstri fótur upp í loft
30 armbeygjur

Hvíld 1-1 /2 mín

4*100 vaxandi, skokk til baka

Allir fara úr skónum og ganga teygðir með mjaðmir frammi á tánum, hælum, jörkum – 60 m – ca. 8 ferðir.

2*40 m vaxandi – 20 m rúll – 40 m 100%

Hvíld ca 2 mín

4*50 hopp mjög hratt á hægri og skipta svo yfir á vinstri

80 m labbhnébeygjur með áherslu

7*10 hnébeygjur með áherslu og svo langt stökk

Niðurskokk í 10 mín

Teygjur

|




22.11.05

Sápur & samkeppnir

Hver er ég, getur þú sagt mér það...
Fólk heldur að ég sé...
Ég held að ég sé...

Hverjir smíða ímynd okkar önnur en við, hvaða þættir umhverfisins hlaða brotum í mósaíkmyndina mig?

Enn af fegurðarsamkeppnum
Enn mala ég um það sem skiptir ekki máli eða hvað?
Er fegurðarsamkeppni bara gleðilegur viðburður sem ber að fagna og fyllir í tóm okkar, svona eins og frumsýning á nýjum bíl og góð leikhúsferð?
Tja, einhverjir kunna að skrifa undir þessi orð.
Oft eru hlutirnir ekki það sem þeir virðast vera. Er fegurðarsamkeppni góðgerðarstarfsemi sem heldur uppi merki grískrar goðafræði? Grikkir héldu Ólympíuleika og guðirnir á Ólympusfjalli stóðu fyrir fegurðarsamkeppni þar sem Evrópa varð hlutskörpust og hlaut í verðlaun gullepli. Nei, ég kaupi þetta ekki...
Selur fegurðarsamkeppnin? Hverjir græða? Gæti það verið styrktaraðilar keppninnar og aðstandendur? Hvaða vara er seld? Í fegurðarsamkeppnum eru ungar stúlkur söluvaran og fá svo glæsileg millinöfn eins og Oroblu og Maybellin ef þær eru heppnar. Manneskjan, stúlkan, er orðin markaðsvara. En aðeins ef hún uppfyllir kröfu gamallar staðalímyndar og staðfestir þar með úrelt kynjahlutverk. Um keppni er að ræða og ef eðlilegt hugarfar er til staðar er keppt til sigurs. Er því ekki hræsni að segja að einstaklingurinn taki bara þátt upp á fjörið. Ef tekið er þátt bara upp á fjörið eru þá allir að keppa á jafnréttisgrundvelli, ætti þá ekki að skipa fegurðarsamkeppninni upp í 2-3 flokka. Væri ekki betra að vinna í þriggja stjörnu flokkinn heldur en að verma neðri sætinn í fimm stjörnu flokknum?
Ég get ekki með nokkru móti líkt sigri í fegurðarsamkeppni við sigur í ritgerðarsamkeppni. Að taka þátt í keppni sem þessari má líkja við að einstaklingur standi upp á stól og segi fólki í heyranda hljóði að hann sé meiriháttar, sé frábær, hreint æðislegur. Frægðin á ekki að koma af því hver maður er, heldur af verkum manns.

Ópíum fólksins!!!
Eru sápur eiturlyf? Ég vil sem minnst af þeim vita en þegar maður dregst inn í sápu, þá ræktar maður hana og erfitt er að slíta sig frá henni. Ástæðan fyrir þessu er að sápur deila með manni þrautum og þjáningum, þær gerast félagar manns. Sápur eru eins og dæmisögur um líf fólks málað sterkum litum. Fólk ávinnur sér reynslu úr þeim raunum sem það upplifir. Sápurnar eru unnar úr umhverfinu og móta það einnig, því má segja að þær séu gagnvirkar, lifandi í samtímaumhverfinu. Sá sem framleiðir getur komið sínum skoðunum á framfæri í gegnum sápuna og ef hann er sannkristinn íhaldsmaður er meginþemað e.t.v. að breyta rétt, þ.a. að sápan er þá í raun orðin Biblíusaga. Fólk spáir lítið í þetta og því smýgur sápan inn í undirmeðvitund fólks. Í Friends-þætti og Sex and The City þætti voru ættleiðingar, eða það að gefa barnið sitt, svona rétt eins og fara með hlut á flóamarkað og selja hann. En það eru nú tvær hliðar á peningnum og sex á teningnum.

Hluti af daglegri tilveru
Unglingar og margt ungt fólk ræðir ekki um fjárlagafrumvarpið og gengi krónunnar, enn síður um veðrið og veðurhorfur næstu daga, ekki gluggar það í Biblíuna. Unga fólkið ræðir sín í millum um einkalíf sitt, slúðrar um fólk í fréttum og hver framvindan sé í hinum og þessum þætti. Hvað er svo sem að því? Er ekki skrafefni okkar allt milli himins og jarðar, allt og ekkert, tóm froða sem léttir okkur stundir og álitaefni og ágreiningsmál tengt froðunni, sápunni, eru tekin fyrir af áhorfendum sem hópa sig saman límdir við skjáinn og spegli sig, sitt og sína! Sápan er svona eins og tromla í þvottavél, snýst hring eftir hring, mismunandi tilbrigði við sama hringinn, mismunandi innihald. Sápan flýtur um á yfirborðinu, ristir ekki djúpt eru hamborgari eða nokkurs konar “one night stand”.

Fyrirmyndirnar
Við eigum okkar fólk í sápunum. Mamma hélt upp á Paul McCartney og mig langar að kunna nokkur tungumál og hafa nokkur háskólapróf upp á vasann rétt eins og James Bond. Vandinn er sá að Bond er óraunverulegur, eitthvað sem margir þrá að verða en enginn getur orðið. Best væri því að ég fyndi mér hetju nærri raunveruleikanum. Munurinn á söguhetjum sápanna og ofurhetjum á borð við Bond og Hulk er sá að við getum samsamað okkur sápuliðinu en tekið okkur Bond og Hulk til fyrirmyndar ef þeir eru þess verðir.

Við erum það sem við upplifum og þess vegna lita sápur og raunveruleikaþættir (fegurðarsamkeppnir) okkur eins og allt annað - bækur, blöð og lífsreynsla. Þetta litar okkur bara mismikið. Sápurnar eru bara uppfyllingarefni í tómlegt líf okkar. Þær eru sem sé ekki lífsnauðsynlegar. Þér leiðist ekki með góða sápu fyrir augunum, en ef þú selur sjónvarpið þitt þá kemur að því að þú þurfir að virkja ímyndunaraflið til að koma þér út úr ógöndum leiðindanna, eða hvað?

|




10.11.05

Fegurðarsamkeppnir

Við dáumst að fegurðinni, hvort sem er innanstokksmunir, hús, andlit, líkamar, dýr og bílar. Þetta eru lifandi og dauðir hlutir sem hafa fyrirfram mótaða fegurðarstuðla eftir svæðum og samfélögum. Hví nefni ég að þessi fegurð sé staðbundin? Nú, menning heimshluta fer að vissu leiti eftir fólkinu og sögu þess. Módel Botticelli fengu ekki inni í American Next Top Model og stúlkurnar á borð við þær sem þar eru yrðu seint fyrirsætur hjá Botticelli. Gullna stýrið er veitt bíl sem hefur fallega hönnun hvort sem er í útliti eða virkni, hestum eru gefnar einkunnir eftir byggingu og gangi, falleg hús eru dýrari en ljót og því eftirsóknarverðari og fallegasta stúlkan fær kórónu.
Ég átti samtal við félaga og greindi ég honum frá þeirri skoðun minni að fegurðarsamkeppnir ungstúlkna væru gripasýningar, hann var á öndverðum eiði. Stúlkan er hlutur sem dæmdur er út frá byggingu, andlitsfegurð og væntingum til lífsins, sem mótast af því sem á daga hennar hefur drifið. Reynt var að spyrða gáfum og framtíðarsýn við fegurðarsamkeppnir hér á Fróni fyrir ekki svo löngu en sú keppni datt upp fyrir. Býst við að það hafi vantað sundbolagönguna sem ég er ætíð spenntastur fyrir, enda missi ég ekki af þessu sjónvarpsefni. Fegurðarsamkeppnir hafa líkast til farið fram svo lengi sem við höfum gengið um jörðina á einhverju formi. Evrópa hlaut gulleplið en voru það ekki karlar sem skrifiðu þá sögu...
Ég spyr: Eigum við að láta aðra mælikvarða gilda um okkur mennina en dýrin, bílana og húsin. Eigum við ekki að kalla hlutina sínum réttu nöfnum. Er rangt að keppa í fegurð á þennan hátt á 21. öldinni? Höfum við ekki mælikvarða eins og ritgerðarsamkeppnir, skák og ýmsar aðrar íþróttir til að sína getu okkar og hvað það er sem skilur okkur frá dauðum hlutum og dýrum. Maðurinn hætti að vera dýr þegar hann gat greint fortíð, nútíð og framtíð og komið þekkingu áleiðis til næstu kynslóðar. Við viljum bæta samfélagið, gera betur í dag en í gær. Eigum við ekki að rækta hluti sem teljast eftirsóknarverðir, eiginleikar sem glæða persónu meira lífi og auka jafnvel á færni hennar í lífsbaráttunni. Fegurðardrottningin er ekki metin af verkum sínum heldur af því hver hún er og fær e.t.v. vinnu í sjónvarpi, Séð & heyrt stelpan fær umtal og augngotur og Bleikt og blátt stelpan fær verra umtal. Það er goggunarröð í þessu sem og öðru - tilgangurinn helgar meðalið, "athæfi" sem tæki til að öðlast athygli sem nýtist á einhvern hátt.
Er heilbrigðara að senda unga stúlku á göngunámskeið fyrir fyrirsætur heldur en í ballettíma eða á fótboltaæfingar. Hefur göngunámskeiðið til lengri tíma betri áhrif á líkama og sál.
Í BNA stunda ungar stúlkur með hjálp foreldra sinna fegurðarsamkeppnir og keppa í þeim frá unga aldri og fram á fullorðinsár, hver er árangurinn, hver eru skilaboðin? Brostu og segðu það sem fólk vill heyra? Er þetta rétti undirbúningurinn fyrir lífið! Finna stúlkur sig í fegurðarsamkeppnum, bæta þær sjálfstraust og sjálfsmat.
Mér finnst vera hliðstæða með vaxtaræktarkeppnum og fegurðarsamkeppnum. Munurinn eru fegurðarstaðlarnir. Karlleg fegurð lítur öðrum stöðlum en sú kvenlega. Í huga níu ára drengs fyrir nokkuð mörgum árum síðan voru Conan, Jón Páll og Hófí hetjur.
Væri ekki ráð að breyta um form á fegurðarsamkeppnunum ef við viljum þær á annað borð. Stilla keppendum upp á súlu þar sem myndavélin tæki eina stúlku fyrir í einu. Stúlkan myndi sýna sjálfa sig í gullbikiníi og án fata, myndi svo ganga ca. 20 m og stökkva yfir 2 hindranir og hlaupa svona 50 m, brosa svo og reyna sýna tilfinningar í andliti sínu á borð við reiði, gleði og sorg.


Hér sjáum við unga stúlku veita gulleplinu viðtöku


Þetta eru örlitlar vangaveltur, það sakar ekki að spjalla örlítið um hlutina. E.t.v. væri samfélagið fátækara ef fegurðarsamkeppnir hyrfu af sjónvarsviðinu í núverandi mynd. Skoðanir eru oft á tíðum tímabundnar, þ.e. þar til við fáum aðrar betri. Kannski finnst mér þetta tómt bull hjá mér í desember.

|




8.11.05

Fegurðin er í auga sjáandans

Það er gott að lifa góðar stundir og augnablik, finna fyrir fegurðinni í daglegu lífi, njóta daglegra stunda og athafna sem skilja eitthvað eftir sig.
Stundum held ég að ég sé nokkuð seinþroska, ekki að tala um að ég sé eftirbáti annarra í andlegum þroska, heldur frekar það eru svona vissir hlutir sem eru á teikniborðinu hjá mér sem sumir eru búnir að afgreiða og sópa útaf borðinu. Það er svo sem ekkert að því, eitt líf til ráðstöfunar og réttar ákvarðanir eru betri en rangar þótt þær réttu séu ekki teknar alveg á áætlun. En hver er það svo sem segir að hlutirnir þurfi að vera eftir fyrirfram gefinni áætlun einhvers. Áætlun Meðal-Jóns sem kaupir sína íbúð, hleður niður sínum börnum og vinnur frá níu til fimm. Lífið skiptist í fasa. Þegar einn fasi hefur runnið sitt skeið tekur annar fasi við. Lífið er núna en ekki á morgun. Þessa staðreynd verður að hafa í huga og má e.t.v. ekki bíða endalaust eftir að það komi að fasaskiptum, heldur frekar grípa gæsina, láta slag standa. Ekki forðast áhættu. Áhættan getur gefið ríkulega af sér.

Ég átti aldrei svartan jakka og hermannaskó, ég hef aldrei verið mikið fyrir One með U2 og bílar skipta mig litlu máli. Er ég á skjön eða vil ég skapa mér sérstöðu. Ég lít á mín helstu lífsgæði að þekkja gott fólk og eiga samtöl við það þar sem skilningurinn nær lengra en orðin ein. Ég hef aldrei viljað flokka mig og skilgreina sem hluta af einum hóp, heldur hefur mér þótt ég eiga samleið með mörgum hópum. Einstaklingurinn setur sér markmið og reynir að ná þeim, innihaldslaus frami er lítils virði. Það er ekki gott að eltast við innantóma hluti. Hef horft á dægurþætti sjónvarpsstöðvanna Kastljós og Ísland í dag. Ég spyr mig hvers virði er frægðin ef hún er innantóm og felst í því að vera andlit á skjá. Maður verður frægur, ekki af sjálfum sér, heldur af verkum sínum.

Maður hefur leitað sannleikans víða á prenti, í málum og myndum. Maður finnur brot hér og þar og einhvers staðar las ég grein í tímariti þjóðfélagsfræðinema sem fjallaði um fjölhyggjuna. Fjölhyggjan var mitt kaffi greinilega. En hvað er hún annað en hrærigrautur strauma og stefna. Niðurstaðan úr þeim potti er svo ekkert annað en hrópandi þversagnir á víxl sem sýna það bara hversu erfitt er að vera maður í dag. Ég vil enda þetta mas á því að vitna í viðtalsbút þar sem maður vitnaði í annan mann: „Ég óttast einnar bókar manninn. Enda er það svo að ef ég hitti fólk sem lítur út fyrir að hafa lesið eina bók á ævi sinni og trúir á hana án nokkurra varnagla þá reyni ég að forða mér eins og fætur toga“

Velgengnin er mósaíkmynd samansett úr brotum héðan og þaðan, við erum það sem við gerum og fegurðin skín af myndinni ef við höldum góða siði, vöknum á morgnanna og ræktum sjálf okkur og náungann.

|