29.7.06

Allt á haus

80. Meistaramót Íslands í frjálsíþróttum er nú um helgina, hvet alla til að mæta í dalinn á laugardaginn kl. 13:45-16:00 og á sunnudaginn kl. 15:00-17:00. Við Ármenningar sjáum um mótið og verða bananar, skyr og safadrykkir útum allan völl enda skiptir máli að allir verði sáttir ef þeir eru ekki að keppi. Öll vikan búin að fara í þetta mót og meira til. Alltaf næg eftirspurn eftir fólki í sjálfboðavinnu.

Hvaða celebum líkist maður?

Nú, eftir ítarlegt vafstur á vefnum góða þá er ég ekki Brad Pitt eða Cary Grant. Ég er meira svona eins og Selma Blair og Jon Bon Jovi. Líkindi með okkur yfir 70% ítrekað. Svo gætu víst Jodie Foster og Jamie Lee Curtis nánast verið systur mínar og Tony Danza frændi minn. Félagi minn er víst sláandi líkur Boris Karlof í hlutverki Frankenstein.

|




19.7.06

Fátt að frétta

Er með nokkrar bækur í handraðanum. Hæst ber þar að nefna bókina Godfather of the Kremlin eftir einn af ritstjórum Economist, Paul Klebnikov. Þar er greint í smáatriðum frá hasar- og mafíósaskap í fv. Sovétríkjunum og Rússlandi upp úr 1990. Þessi bók er hálfgerður reifari. Magnaðar lýsingar þar sem sagt er frá Löduverksmiðjunni Actovaz þar sem bófar tóku alla bíla af færibandinu sem var ekki skilvirkt, rúmlega tveggja kílómetra langt og allt sett saman í höndunum – lóðað og boltað. Enginn mótmælti því þá hefði hann verið drepinn, ef löggan skipti sér að málum var hún söltuð og brytjuð niður í tunnur og stjórnendur verksmiðjunnar héldu verksmiðjunni gangandi með húmbúkkrekstri, seldu bílana með tapi og þáðu mútur undir borðið. Sá sem græddi mest á verksmiðjunni var Boris Berezovksy. Boris var mikill baktjaldamakkari og á stóran þátt í frama Abramamovitz Chealse-eiganda. Eftir að Sovétríkin drógu herafla sinn frá Austur-Evrópu gengu margir foringjar til liðs við mafíósa sem höfðu sínar eigin leyniþjónustur og einkaheri á sínum snærum. Baróninn eftir Kristján Eldjárn er ansi góð og segir frá Baróninum á Hvítárvöllum sem hafði stóra drauma, spilaði manna best á hljóðfæri og reisti fjós við Barónsstíg og hýsir það nú 10-11 verslun. Svo er ég með tvær aðrar – önnur þeirra Faulkner bók en hann hlaut Nóbelsverðlaun 1949 fyrir skáldskap sinn. Ég hef verið duglegur að hlaða niður hljóðbókum og ef ég hef nennu til þá hlusta ég á þær, Noam Chomsky að mala og hljóðbókina An Economist Hitman þar sem John Perkins fv. hagfræðingur hjá Alþjóðabankanum lætur dæluna ganga hvernig bankinn vann að því að ræna þriðja heims ríki auðlindum sínum. Kappinn fékk samviskubit og leisti frá skjóðunni. Hef reyndar lesið um gagnrýni á bankann sem vill að þjóðir selji auðlindir sínar en þegnarnir hafa nú sumir risið upp á afturlöppunum og skammt er síðan íbúar í ríki í Mið-Ameríku mótmæltu kröftuglega þegar vatnsforðabúr voru seld og enginn gat fengið vatn sem var víst nóg af því lítið var um auraráð á þeim bæjunum.

|




5.7.06

Lífið svona almennt séð

Lífið svona almennt, það er undarlegt eða hvað! Kemur það ykkur á óvart? Það er svo gaman að láta koma sér á óvart. Eitt skemmtilegasta sem um getur er að láta koma sér á óvart, svona persónulega séð. Það gerist stundum, en alltof sjaldan en þegar það gerist þá er það alveg frábært. Þegar aldurinn færist yfir þá virðist stuðullinn aðeins hækka varðandi þessi málefni. Hvað kemur manni á óvart?
Eitthvað sem hefur ekki gerst eða það sem maður býst ekki við, svoleiðis dæmi er það sem gerist aldrei og alltaf, eitthvað sem gerist stundum og aldrei. Það er líka gaman að koma fólki á óvart ef það er glatt með það. Maður verður þess áskynja að það þarf virkilega að koma manni óvart ef maður kemur fólki á óvart sjálfur trekk í trekk.

Hver er tónn lífsins...

Ef manni er aldrei komið á óvart þá sækir að manni leiði. Lífsleiði – nei segi það ekki. Bara svona almennur leiði og maður lítur í eigin barm og spyr sig, hvað get ég gert, hvernig get ég glatt sjálfan mig – e.t.v. með því að gleðja sjálfa á annan hátt. Einlægni getur verið falleg ef vel er farið með hana. Mest um vert þykir mér ef fólk hefur til að bera vilja, vinnusemi, eldmóð og gefst aldrei upp, sama hvað gerist – samt nauðsynlegt að gera sér grein fyrir hvernig málum er háttað – fara í naflaskoðun og svona. Leiðinn hefur oft sótt að manni. Hafið þið aldrei lesið um heimspeki leiðindanna? Ég hef skrifað um hana – leitið á síðunni! Nauðsynlegt að dýpka sjálfan sig með smá leiðindum, en öllu eru takmörk sett.


Drottinn gaf og drottinn tók....

Hef unun af því sem kalla mætti gömul húsráð. Einhverjum lífssannleik í Laxnessbókum og samræðum genginna manna í sjónvarpinu hvenær sem ég hef hlustað á þær. Velti því stundum fyrir mér hvað ég eigi að masa um hérna á vefnum. Hvað á ég að gagnrýna og hvað ekki – hef ég eitthvað fyrir mér, verð ég baunaður niður.

Í óvissu um framhaldið sleppi ég kannski öllu saman. Hugsjónir og hugmyndir eru drifkraftur athafnasemi. Auðvitað er hægt að tiltaka eitthvað fleira en í grunninn er hægt að yfirfæra framtakssemina að nokkru leiti á þessi orð. Er það hugsjón að sinna frumþörfum sínum farborða með vinnu, hugsjónin sé fjölskyldan, aurinn úr vinnunni er fjölskyldunni allt...
Þegar maður húkir einn út í horni og á engar alvöru samræður þá einangrast maður. Svo þegar maður hittir á mann og annan og tækifærin til samræðna myndast þá fyllist maður óöryggi og heldur sig til baka. Það er ef til vill eðlilegt í fyrstu, sjá bíða, meta stöðu, safna að sér fróðleik og leggja svo til atlögu eftir yfirvegað mat.

Kláraði Dan Brown bókina Djöfla og Engla áðan. Hef verið að garfast í Sjálfshjálparbók handa hræddri þjóð hans Andra Snæs. Búinn með Djöflana hans Dostojevskís og nú bíður mín trekantur af Richard Dawkins og Don Kíkóti Cervantes. Náði bara að lesa fyrstu bókina fyrir nokkrum árum og skilaði öllum bindunum og borgaði feita skuld.

Það er alltaf hollt að láta hrista aðeins upp í sér. Þá fer fram naflaskoðun og hlutirnir eru skoðaðir úr mörgum áttum.

|