26.9.05

Gabríel og Satan. Satan vill kollsteypa. #6

Aldrei skaltu vanmeta andstæðing þinn. Það eru mestu mistökin (Kasparov ekki sá eini sem segir það). Mest um vert er að setja sig í spor hans og skilja hvernig hann hugsar, þá getur þú brugðist við næsta leik hans og komið honum í opna skjöldu og skákað og mátað. Þegar andstæðingurinn skynjar hvernig þú hugsar og skynjar að þú skilur hann og lest hann eins og opna bók og það er ekki gagnstætt, þá fyllist hann óöryggi og spilar af sér, heldur ekki einbeitingu því óttinn og efinn um réttmæti eigin ákvarðanna hans taka upp orku frá því sem skiptir máli. Andstæðingurinn er í ójafnvægi og er senn felldur á eigin bragði og það á heimavelli.

Satan les Gabríel, því Gabríel vanmetur Satan. Gabríel er einfaldur en fullkominn, en í fullkomnuninni fellst hans Akkilesarhæll. Sá fullkomni skilur ekki ófullkomleikann því hann hefur aldrei komist í tæri við hann og getur ekki sett sig í spor hans. Sá ófullkomni skilur þann fullkomna og getur sett sig í spor hans þótt hann geti aldrei orðið fullkominn sjálfur.
Sá fullkomni misstígur sig aldrei, en gerir það samt með því að gera það ekki; af mistökum læra menn skoða sig í nýju ljósi, í naflaskoðun. Ekkert ögrar þeim fullkomna, næsta skref er hið sama og hið fyrra og ferill hans bein lína og fyrirsjáanleg, eins og línan í gær og í dag og á morgun. Sá ófullkomni þarf að finna nýja leið til að nálgast fullkomnun, en hún næst aldrei þótt hún færist nær. Í ófullkomleikanum fellst ögrunin. Að vinna á veikleikunum. Sá fullkomni hefur enga veikleika og því enga ögrun og stendur því í stað og stöðnun er sama og afturför, dauði, en samt ekki því línan er sú sama og áður, bein og fyrirsjáanleg.
Á endanum fellur sá fullkomni á eigin bragði, fullkomleikanum.
Stærsta ögrun lífsins er að kljást við sjálfan sig, því við erum okkar erfiðustu andstæðingar. Sá fullkomni þarf ekki að kljást við sjálfan sig því hann þarf engu að breyta og hefur ekki ögrun lífsins, sjálfan sig, sem gulrót. Ögrun sjálfsins endar með dauða en endar samt aldrei.

Satan vinnur með sólskin, gleði og fögnuð, þ.e. styrkleika Gabríels, mælistiku guðaráðsins um fullkomleika. Gabríel vinnur ekki með syndina, svartnættið, kúgunina og allt það sem Satan stendur fyrir.

Guðaráðið – Satan – Gabríel – keppni
Hvað á að gera við jörðina. Mun úrslitakeppnin valda dómínó-áhrifum? Fellur jörðin sem höfuðvígi hugmyndafræðibaráttu, suðupottur andstæðra hugmynda og hugmyndafræðikerfa. Jörðin fellur og ein hugmyndafræði tekur við. Þá er Satan á heimavelli og í svartnættinu er hann sterkastur. Guðaráðið er að prófa sig áfram í hugmyndafræði. Það hefur alltaf einblínt á einfaldleika og fegurð. Í svartnættinu er guðaráðið á hálum ís, það hefur alltaf boðið út skítverkin til undirverktaka á borð við Satan. Þegar Satan situr svo að kjötkötlunum, gefur hann valdasprotann ekki svo auðveldlega frá sér heldur kúgar með ráðgjöf sem leiðir guðaráðið á refilstigu alls sem ráðið hefur unnið á móti. Ráðið festist í feni, því andstæðingurinn, Satan, getur sett sig í spor þess (þar sem hann eitt sinn tiplaði á hvítum ökklasokkum. Guðaráðið getur ekki sett sig í spor Satans.

Viðurkenningin er alheimsyfirráð og alger völd bakvið tjöldin, en guðaráðið endar sem strengjabrúða Satans, sem situr með alla þræði í höndum sér og gefur ráð í formi falsráða sem leiða til meira svartnættis. Guðaráðið getur ekki fótað sig í feninu með millustein um hálsinn. Satan upplifir sigur sinn í niðurlægingu fyrrum drottnara sinn - sjaldan launar kálfur ofeldið. Dauðir eru þeir gagnslausir, en dauðir geta þeir ekki verið og eru því dæmdir til eilífrar niðurlægingar í hyldjúpu svartnætti, óviðsnúanlegu ferli á krossgötum í sjálfheldur á þaki heimsins.
Þá er bara eitt ráð, senda Gabríel til helvítis og brenna vængi hans. Láta hinn fullkomna í spor sem hann hefur ekki fótað sig í áður, í dýflissu óvissunnar hvar hann mun til að finna til ófullkomleika síns og berjast fyrir tilverurétti sínum í eilífri baráttu góðs og ills. Þú berst með eldi gegn eldi, með illu skal illt út reka. Andstæður heimsins spila saman og ekkert er nýtt undir sólinni. Skrefin sem gengin eru, eru skref annarra og sagan endurtekur sig sem kunnuglegt stef í nýrri mynd, í nýju formi.

Heimurinn er bara verkfæri, tæki. Það skiptir ekki máli hvað verkfærin heita. Þau spila með skynjun og skilning og móta heiminn á mismunandi plönum.

|




21.9.05

Satan og Gabríel. Lærir mannfólkið aldrei. #5

Hvernig gat mannfólkið skilið það sem fram fór. Fullmenntaður öldungur segir ekki aldagömlum gleðigosa hvernig á að lifa lífinu. Það er eins og að spyrja lítið barn um gang himintunglanna og mátt sólarinnar. Framfarir byggðust á því undangengna og samsuðu þekktra stærða í eitthvað nýtt. Lífið er eintóm greining og þjálfun. Fyrir hvað svo? Einu sinni ljós og síðan allt búið og svart. Þjálfun fyrir stórvirki? Mennirnir voru bara eins og flugur í hugum guðanna. Héldu að það væri eitthvað meira, upprisa, endurnýjun lífdaga og hvað datt þeim ekki í hug. Kenningakerfi höfðu verið smíðuð, bækur skrifaðar sem kallaðar voru heilagar svo borin væri meiri virðing fyrir þeim. Þær voru nú ekki tómt húmbúkk, þær voru til þess gerðar að koma skikk á hlutina og sanka fólki saman í hópa til þess eins að ná stjórn yfir þeim. Hópur ósamstærðra manna var höfuðlaus her. Ef hægt var að steypa fólkinu í sama mótið þá var hægt að stjórna því og láta heilu samfélögin lúta vilja eins manns eða nokkurra. Tilgangurinn helgaði meðalið. Heimspekikenningar höfðu ekki virkað á herskáar þjóðir, þær þurftu sameiningartákn. Einn guð, einn páfa, kalífa, bara eitthvað sem héldi fólkinu saman til að lúta vilja valdhafanna. Stórvirkar byggingar byggðar og lífum fórnað. Allir unnu e.t.v. fyrir það eitt að finna sælustað í ósýnilegri paradís sem var ekki til. Lífið var bara spil sem snérist um völd, sagan hafði endurtekið aftur og aftur. Í þeim efnum var ekkert nýtt undir sólinni.

Satan sem hinn útvaldi

Sem tákngervingur þess fullkomna vissi Satan að hann gæti orðið skurðgoð, elskaður og dáður. Hann var allt sem maður gat verið, en var ekki maður. Hann var mikið meira. Reynslan hafði kennt honum margt. Hann ætlaði að verða hæp hæpsins. Leiðin að völdum var kræklóttur stígur sem hinn klóki þekkir betur en nokkur annar. Sem flókin vera vissi hann að styrkleikinn lá í þverfagleikanum, að þekkja alla leikina eins og í skák. Ekki nóg að eiga spretti eins og Gabríel og vinna stöku orrustu. Það er stríðið sem verður að vinnast. Hann valdur höfundur eigin örlaga og hafði nú ákveðið hver þau yrðu. Hann hafði valið sjálfan sig og var því útvalinn.

Satan í hnotskurn
Efinn ólgaði inni í Satan eins og sjóðandi málmur. Hann var líkt og kjarnasamruni, hreint óstöðvandi, hann fann aldrei sín mörk og neina keppinauta sem gátu stöðvað hann. Aldrei var stoppað, bara vaðið beint áfram. Hindranir voru bara til þess að mölva þær, á ljóshraða eftir framabraut sem hann tók ekki eftir.
Hann var að brenna upp líkt og vængir Íkarusar sem flaug of nærri sólu.

Ólgan brann inni í honum og festu hjartans hafði hann sleppt, hann fann fyrir ódauðleika þess unga sem finnst lífið endalaust en tíminn er takmarkandi til stórra verkefna og smárra. Hann var alltaf ungur því hann valdi sér aldur, gamall eða ungur hafði enga merkingu því lífs hins ódauðlega er allt þar á milli, fæðing – dauði, enginn millikafli, bara lína út í hið óendanlega. Hann var margt, hann var vera, hann var maður, hann var dýr, hann var engill sem féll af himnum ofan, hvað var hann ekki?

Brot úr degi eins og eilífð en samt svo stutt. Hverju er hægt að koma í verk á engum tíma. Hugmyndir, plön, skýjaborgir á traustum grunni, yfir honum sungu valkyrjur Wagners. Góður orðstýr deyr aldrei, lifað fyrir goðsögnina sem þú smíðar eins og dagurinn í dag sé sá síðasti af öllum dögum. Allt lagt undir, allt lagt á eitt spil, dínamík alger. Ég er allra alda maður... endurreisnarmaður á nýrri öld upplýsingarhraðbrautarinnar. Eins og átta arma kolkrabbi stýrði hann afmörkun sinni.
Mannsandinn í sinni dýrlegustu og dýrslegustu mynd, holdi klædd í einum einstaklingi, ríðandi inn í óvissuna líkt og landnemi inn í blóðrautt sólarlagið. Nýjar lendur og sléttur hugans, akur plægður frá sólarupprás til sólarlags.
Helvíti allt, jörðinni allt, umhverfinu allt.
Þeir deyja ungir sem guðirnir elska voru falleg orð, hann var guðunum fallinn og dauður, hann var elskaður eitt sinn en ekki lengur, hann ríkti í sínu ríki. Skúta skerpir skauta, óumflýjanleg örlög þess sem koma skal. Einmitt þetta gerði hann svo sterkan. Í kapp við tíman, eina mannsævi, svo margt að nema svo mörg verfæri að slípa. Í startblokk fyrir hvert hlaup sem fór fram á sekúndu fresti, augnablikið tamið – hámarksárangur.
Svo kom að lokastundinni, endastöð, ekki varð lengra komist en að sólu vængir hans brunnu og hann féll til jarðar, hver var hann – bara draumur. Allir draumar okkar, vonir og þrár til samans. Ást, skefjalaus undur fegurðarinnar í sinni tærustu mynd.
A, 10 – hann var allt sem allir þráðu en enginn gat orðið.
Messías – Jesú nýrra tíma – hann var leikur að orðum.
Satan spurði sig “Hver ert þú”, og svaraði “ég er hann, sá útvaldi. Það vill enginn viðurkenna mig, ég er bara einhver anti, á eftir að fá stimplun og vottorð, það kemur síðar, sagan mun skrifa mig sem raunverulegan Messías en ekki einhvern antímann.”
Hann hlaut ekki náð, en í raun ætlaði hann að sanna sig, of miklar öfgar, ekki herra neins. Hvernig var þá hægt að verða Messías ef maður spilaði ekki eftir leikreglum þess æðsta. Nú, með því að kollvarpa því sem fyrir er og byggja svo nýjan leik og smíða nýjar reglur í nýju ríki heimsins. Það var nú bara það sem var. Þegar öllu var á botninn hvolft þá var hann of stór til að falla inn í heildarmynd guðaráðsins sem vildi forma allt og alla til eftir sínu höfði.
Hann var sá sem allir þrá en engin(n) fær að vera. Hann var maður manna, hann var A-Ö, allt rófið.
Ég er lokatakmarkið, lokalausnin. Merki þess að lengra verði ekki komist og endalokin ein bíði því þegar fullkomnun er náð verður ekki farið lengra. Hann var mannsandinn, fæddur, dáinn og grafinn.
Agi, konuleysi, óheftur, stríð og friður, þetta var eldsneytið sem hélt honum ólgandi, hann var drifkraftur allra verka.

|




17.9.05

Syntax Error í hausnum

Ritvilla eða bara of mikið að gerast í hausnum og ekkert verður úr verki. Þá er bara að setjast niður og skrifa lista á blað. Fara svo yfir hann og forgangsraða. Var að gera það. Ekki gott að hugsa um sjö hluti í einu. Fer í brúðkaup eftir 14 tíma og var að fara yfir lög sem ég mun gaula, svo er ég líka veislustjóri. Slæðusjóv bíður morgundagsins. Svo kemur Ármannsdagurinn á sunnudaginn í Laugardalshöllinni. Þar ætlar frjálsíþróttadeildinn að vera með Tarzanleik og sitthvað fleira - tómt fjör og vitleysa, krakkar elska svoleiðis, innan vissra marka. Fæ mér bara pakka af rauðum Ópal þegar ég vakna á sunnudaginn.

Ég týndi réttri útgáfu af Gabríel og Satan #5 en fann hana svo. Set inn endurunnið efni sem segir frá því hversu öfugsnúið lífið getur verið, nú á þessum síðustu og bestu tímum.

Urmull, Jesú og verkfræðin...

Urmull var lengi búinn að velta fyrir sér möguleikum lífsins og hrærði skynsemi og tilfinningum í pott og fann út að verkfæðin væri hans hilla, í bili.
Jesú kom til Urmulls í draumi og þeir sátu saman í hvítum sófa. Urmull sagði honum frá verkfræðinámi sínu og Jesú sagði honum að hann hefði oft efast en Jesú sagði líka að hann hefði hugsað líkt og hlauparinn er flutti fréttir af sigri Aþeninga yfir Persum, hann sá bara heimahöfnina, markið koma bara eitt til greina. En Urmull spurði Jesú um freistingarnar. Jesú svaraði því til að hlauparinn hefði verið sérvalinn og hann hefði ekki trú á því að hann hefði stöðvað til að fá sér ís ef einhver hefði verið og hvað þá að njóta gleðikonu. Jesú sagði Urmul frá því að sjálfsagi væri málið og hann yrði að hengja gulrót á prik og hafa það fyrir augum sér svo hann sæi markmiðið og það væri bara ein átt og engar hliðarstefnur. Jesú sagði Urmul að hann mætti ekki garfast í smámálum sem skiptu hann minna máli en aðra, þá myndi Urmull bara enda uppi sem veggfóður eða gólftuska á óhrjálegum stað.
Jesú sagði Urmul að skemmtanir væru bara flótti frá markmiðinu. En Jesú sagði einnig að gott væri að setja heilan í saltpækil í formi göróttra drykkja á Prikinu, þar gæti Urmull hitt annað skrítið fólk sem væri uppfullt af flækjum og hefði ákveðið að sópa þeim undi mottu svo sem eina kvöldstund. Jesú sagði líka að þar gæti Urmull fengið skæri lánuð til að greiða betur úr sínum flækjum því hans eigin væru orðin bitlaus og Prikið væri góður staður fyrir skærabítti því þar væri mikið um flækjuhausa. Urmull fór á Prikið en gleymdi skærum sínum heima, súrt það, en hann fékk skrúfur að gjöf og skiptilykla með því fororði að hann notaði þá í góða þágu, eigendurnir væru fullhertir og hefðu ekki not fyrir varninginn.
Urmull sagði Jesú að hann hefði prófað að vera páfagaukur. Hann hefði hitt aðra gauka en svo séð að þetta ætti ekki við sig, reynslunni ríkari. Gaukarnir voru á allt annarri bylgjulengd en hann og þeir skyldu hann ekki, hljóðin rímuðu ekki.

Urmull hafði farið víða og reynt á samhljóm og samstöðu áður en flakkinu lauk og hann snéri sér að hagnýtari hlutum.
Urmull spurði Jesú út í Skrattann. Jesú sagði hann bleyðu sem hefði fallið af himnum og væri sífellt að villa á sér heimildir í formi fólks sem væri tvöfallt í roðinu og meinti ætíð eitt en gerði annað.
Jesú og Urmull spjölluðu um vitundina. Jesú sagði að hún væri bara skráargat hugans og hans biði meira. Urmull spurði Jesú um hlutabréf, græðgi og víf. Jesú sagði að þessi hlutir væru á gráu svæði. Sumir vildu meina að þetta væri allt undan Skrattanum komið og hann væri að vekja upp kenndir og spila með okkur líkt og strengjabrúður í flóknum vef.

Urmull og nýju gaddaskórnir. Jesú sagði Urmul að það væru ekki skórnir og hjólabuxurnar sem kæmu honum áfram heldur hans eiginn styrkur. Kjarninn væri að Urmull mætti ekki sækja styrk í skurðgoð, fæðurbótarefni og orð misvitra manna, ábyrgðin væri hans og skellurinn einnig auk sigrana ef þeir kæmu einhvern tímann.
Urmull spurði Jesú um trúmálin og gang himintunglanna. Jesú sagði Urmul að þessi himintungl og sólir kæmu sér ekki við, vissi raunar lítið um þau, hefði alltof mikið á sinni könnu og enginn tími væri til að fræðst um þau. Jesú sagði Urmul að Biblían væri góð skáldsaga og þetta væru mestmegnis ýkjusögur en hann sjálfur hefði nú verið þokkalegur rokkari í eina tíð en það væri nú með þetta eins og annað, fjarlægðin gerði fjöllin blá. Jesú sagði líka að hann hefði nú ekki alltaf hirt um þessi helvítis boðorð, málið væri að trúin flæktist alltof oft fyrir mönnum. Jesú sagði heilagan sannleik væri hreint ekki að finna í Biblíunni, hann væri bara ekki til, það væri eitthvað mikið að ef menn væru að leggja allan sinn trúnað á eina bók en leggja sitt helsta vopn, skynsemina á rykfallna hillu og taka hana bara af hillunni þegar hausinn væru orðinn illa blóðgaður af steinaíbarning....

....Urmull var hvergi nærri búinn en svo vaknaði hann bara. Það voru fleiri spurningar sem biðu svars. Urmul hefur ekki dreymt neitt undanfarið og er orðinn óþreyjufull, vill komast í tæri við vitundarlyf. Hvað á Urmull að gera? Hann er eitthvað ringlaður í kollinum, hvað gera menn þá. Skola hann aflfræði-ringl burt með öldrykkju einni í vísindaferð? Er það skammgóður vermir?

|




13.9.05

Vinir á hendi...

Fólkið í kringum okkur lýsir okkur. Það verður á vegi okkar og tengsl og vinátta myndast. Vinir spegla einstaklinginn rétt eins og augun eru spegill sálarinnar. Spurning hvort maður eigi að velja sér vini eins og fólk sýsli með hlutabréf og skuldabréf. Meiri áhætta í hlutabréfunum en meiri ávöxtunarkrafa, skuldabréfin traustari með lægri ávöxtun – en nota bene vinasafnið kemur handahófskennt í sarpinn. Maður velur sér vini sýna en ekki ættingja, en þar sem taugin er römmust, kristallast stundum gæfa og gjörvugleiki. Ættingjarnir geta einnig sagt til um hver við erum því erfðaefnið lýgur ekki – systkini hafa oft sömu hæfileika að upplagi en þau velja sér mismunandi umhverfi og eru sínir gæfusmiðir. En gests augað er glöggt. Margir hafa sagt að við þrjú, systur mínar og ég, séum eins og svart og hvítt, sérstaklega þær tvær. En sami rauði þráðurinn rennur í gegnum okkur eins og rauð-bláa blóðið sem rennur um æðar okkar.
Ég á einn magnaðan vin. Hann er fágætur og ekki alveg eins og fólk er flest. Hann hefur þá mannkosti sem teljast eftirsóknarverðir, er hreinskiptin, heiðarlegur og réttlátur ásamt því að vera yfirburða jákvæður. Eftir samtal við hann er ekki annað hægt en að vera í góðu skapi og sjá andstæður lífsins í spaugilegu ljósi og hlutskipti sitt. Þessi vinur minn er æfingafélagi minn. Hann greindi mér á dögunum frá því að hann tæki vel eftir því þegar vindurinn blæs, en ólíkt því sem fólkið á hlaupabrautinni gerir þá finnst honum best að hlaupa með vindinn í fanginu. Ég spurði hvað þjálfarinn segði um þetta og fékk þau svör að þetta væri persónubundið. Líkast til meiri ögrun og notast á við allt sem gefur á bátinn.
Ég var í atvinnuleit um daginn. Vinur minn sagði mér að ég ætti að reyna að fá vinnu á sama stað og hann. Mér þótti þetta nokkuð góð hugmynd þar sem vinur minn er eitt af tannhjólum atvinnulífsins, einn þeirra sem samfélagið treystir á að vakni á morgnanna og skili sínu dagsverki. Ég tjáði honum að það væri svo langt að fara upp í Mosó og það sem ég lærði miðaðist við að stýra tannhjólum eins og honum (gerist kannski einhvern tímann). En vera má að ég þurfi að moka skurði og byggja brýr uns af því verði, ekki nóg að ég viti af mínum sannleik sjálfur. Það tekur tíma að byggja skýjakljúfa en maður byrjar alltaf á grunninum, kjallaranum. En alltént er góður vinnuandi á vinnustað vinar míns. Traustir vinir eins og þessi eru vandfundnir og nú styttist í bíóferð hjá okkur og mun ég þá heyra fleiri góðar sögur eins og svo oft áður.

|




3.9.05

Lífið

Eftir hverju leitar fólk? Tóninum eina og sanna, þeim hreina. Sumir leita ekki, aðrir vita ekki hvers þeir leita. Leitum tónsins eina. Hvernig förum við að? Leitum og leitum - við finnum hann kannski aldrei, en við komumst alltaf nær honum. Er líka ekki gott að ganga brattann þann hæsta; þegar á toppinn er komið þá liggur leiðin bara niður á við. Klífum há fjöll. Látum okkur ekki linda hóla og fell. Sá sem kemst nálægt tóninum hreina sér falstónana skýrar. Sá sem klífur, horfir niður og sér láglendið. Sá sem gengur ekki götuna spyr sig ekki hvort hann hafi gengið hana til góðs. Í kringum okkur er skrum sem vill festa okkur í fen, byrgja okkur sýn með móðu meðalmennskunnar.
Hvað hangir á önglinum, hver er beitan? Viljum við frægð. Ég vil ekki klýfa hóla. Frekar vil ég vera í fámenni á stóru fjalli heldur en í margmenni á litlu felli. Sá sem klýfur aðeins fell og safnar þeim eins og skurðgoðum og hampar þeim er skammsýnn maður, jafnvel nærsýnn. Sá sem er meðal fjöldans á felli fær klapp á bak og hrós, hrósin eru sem þykkar gufur. Gufur eru gegnsæjar og standa fyrir það sem ekkert er.

Fólk þekkir ekki alltaf hvort annað. Ef það finnur taugina þá getur það lesið í sálu hvers annars. Fólk sem finnur ekki taugina, finnur ekki dýpt. Taugin segir til um skilning. Það sem er. Sá sem finnur ekki taugina skautar á yfirborðinu. Óöryggi er orsök þess að tengingu vantar og viðkomandi óskar að málum sé háttað á annan veg en er og gerir sér upp tilfinningar og hegðun sem ekki er innistæða fyrir því ytri himnan endurspeglar ekki þá innri.

Þekking er vald. Mennt er máttur. Þessi orð eru hvert öðru sannara. En jafnvel sá sem hefur þekkinguna á sínu valdi getur villst í þéttum skógi, vaðið í villu, villst af braut og lent í djúpum helli. Einhæf þekking á bók er ekki ávísun á tóninn hreina og leiðarvísir á mikil fjöll. Ég veit ekki alveg af hverju ég var að leita, en ég held áfram, held það sé best. Ég held göngunni áfram og slæ ekki af, til hvers að slá af; gleðin verður meiri er ég lít við þegar hærra er komið. Sá sem er óþreyttur skal halda áfram.

|