30.12.05

Slök ræma

Fór með systur áðan á Chronicles of Narnia. Nokkrar væntingar þar sem Siggi vildi ekki bíóferð fyrst King Kong varð ekki fyrir valinu. Bjóst við nokkru af þessari ævintýraræmu. Setning Kolbrúnar lýsir myndinni: "Fannst eins og ég væri mætt tilneydd í sunnudagsskóla". Semsagt ræma sýnd kl. 23:00, siglir greinilega undir fölsku flaggi því nær væri að sýna hana á barnasýningum og helst ekki eftir kl. 20:00. Hentar vel fyrir aldurinn 9-12 ára. Unglingarnir sem björguðu Narníu voru lúðabörn að áliti systur, öll frekar leiðinleg nema yngsta systirinn og ekki var annað hægt að gera en að hlægja á stundum þegar krónprinsinn lyfti sverði - enginn Harry Potter hér á ferð.

|




25.12.05

Jól 2005

Ég sendi hugheilar jólakveðjur til lesenda og óska ykkur gleði- og hamingjuríkra jóla. Ég hljóp á aðfangadag og viktaðist 83,1 kg eftir 50 mín hlaup, rétt eftir miðnætti steig ég á vikt og var 87,1 kg. Hvergi sparað við sig í mat og drykk, þ.e. magni.
Skyrgámur og Hurðaskellir hafa farið víða. Ég gerði ráðstafanir gagnvart frekara heyrnaleysi og er nú með hátalara. Hjörvar og Bína eru að velta upp kostum þessa daganna og segi ég frekar frá þeim sem fyrst...

|




12.12.05

Hjörvar og Bína

Hjörvar og Bína eru óflokksbundið par en langar mikið að taka þátt í umræðunni í stað þess að húka út í horni og mumla með og kóa með þeim sem heyrist hæst í, það eru nú oft bara tómar tunnur en þeir sem vita ekkert vita það ekki.
Þau ætla að velja sér málstað, jafnvel flokk, bara eitthvað sem þau halda að sé fyrir sig, sína línu, það sem sé þeirra, þar sem hjartað slær, þar sem ræturnar liggja. Kannski eru engar rætur, hvert eru þau þá að fara svona almennt í lífinu, er þá ekki málið að planta þeim – jafnvel þar sem vegvísir að lífsstefnu er...
Þau ætla að setja upp jöfnu, vega og meta forsendur sem þau gefa sér og finna svo réttu breytistærðirnar og gefa þeim vægi. Hvað er tekið inn í? Jafnvel, mannúð, mildi, hagvæmni, hegningar, umhverfi, peningar, iðnaður... bara allt það sem lítur að samfélaginu sem þeim finnst vera eitthvað vert að hugsa um og bætir land og þjóð. E.t.v. drekka þau ekki sama kaffið þar sem bakgrunnur þeirra er ekki sá sami.

Hver hefur ekki tekið þátt í kosningum ungliðahreyfinga stjórnmálaflokkanna, ég spyr. Ísland er lítið land og erfitt getur verið fyrir fólk að skorast undan stuðningi við vini og félaga. Fólk er í þessu á misjöfnum forsendum, margir til bara til að koma sér áfram og mynda sambönd sumir af eldheitri hugsjón, svo eru aðrir sem sameina þetta. Kannski fílaði Ellert ekki fótbolta og fór í flokkinn, það er alltaf fjör þar, eldra fólk með skemmtisögur, ókeypis brennivín og sumarbústaðaferðir, nýtt fólk til að kynnast og keppni. Þetta er rétt eins og vera bara í Val, maður vill að sitt lið vinni titilinn og leggur allt í sölurnar innan vissra marka. Þetta með mörkin, þekkjum nú dæmi þess að sumir einstaklingar hafa engin mörk, ég meina ekki endilega á Íslandi...

Meira síðar...

|




9.12.05

Hægri

Spennandi, til hægri!

Já, ég sit alltaf vinstra megin á Þjóðarbókhlöðunni. Sit alltaf framarlega til vinstri frekar ofarlega, þ.e. lengst uppi á vinstri kanti. Ég er réttfættur og mér finnst eiginlega betra að spila á vinstri kanti í fótbolta, sama á við um handbolta, betra að spila vinstri skyttu – eðlilega. Þegar ég fer í bíó þá geng ég vinstra megin inn salinn í bíóinu. Hvað er málið, hvað er málið!!! Málið er að ég sæki alltaf inn á miðjuna í fótbolta, ég er sterkari með hægri fætinum en þeim vinstri. Í handbolta sæki ég af vinstri vægnum inn á miðju. Það er ástæðan fyrir því að ég sit vinstra megin á bókasafninu, í sókninni, fer upp vinstri kantinn í bíóinu. Ég sæki alltaf til hægri inn á miðju...

Hvað með ykkur? Samt spilaði ég miðju upp alla yngri flokka með stuttu stoppi í öðrum stöðum. Í seinni tíð hef ég helst spilað senter og kant í boltanum.

Hjörvar og pólitíkin
Af öðru, já, held ég snúi ásnum aðeins í þessum skrifum. Hef verið innhverfur, verð úthverfari. Pólitík, tala um pólití jafnvel. Segi sögunni af Hjörvari sem er pervisinn kjósandi og áhrifagjarn drengur. Hann veit ekki hvað hann á að kjósa, hann hefur verið skráður í nokkra flokka en hvað vill hann sjálfur og hver er afstaða hans til lífsins og eigin pólitíkur. Villuráfandi sauðurinn Hjörvar og gufurnar í kringum hann verða verða brátt hérna. Lífið er pólitík, til að koma okkur áfram stundum við pólitík og jafnvel hrossakaup, vílum og dílum. Hvað gerum við til þess að taka afstöðu, vel ígrundaða afstöðu en ekki bara eitthvað "af því bara". Hvar stöndum við? Vitum við hvar við stöndum og afhverju? Margir kóa með, fólk þorir oft ekki að tala um málefni, talar samt um menn. Kóið er af því að erfitt getur verið að ræða málefnalega um hlutina, til þess þarf þekkingu. Vinnið heimavinnuna, finnið ykkur útgangspunkt. Ef maður hefur stefnu, má segja lífsstefnu, þá getur maður masað um hitt og þetta. Maður veit ekki alltaf hvar í flokki maður stendur, ofur eðlilegt það...
Ræðum um lífið sem strategíu.

|




8.12.05

Sjónvarp og útvarp á neti

Maður er á ferli oft á ólíklegustu tímum, það er reyndin. Það kemur fyrir að ég og systir mín eigum næðisstund saman og horfum á sápur sem eru á sjónvarpsdagskránni. Satt best að segjast ber ég takmarkaða virðingu fyrir þeim, þetta er eins konar pulsa eða hamborgari sjónvarpsefnisins. Það var svo á þriðjudagskvöldið, rétt eftir endursýningu á Erninum danska, að fyrsti hluti af þremur í sænskri þáttaröð var sýndur, Sólistar (Solisterna). Ég mæli eindregið með að þið reynið að koma ykkur vel fyrir framan imbann næsta þriðjudag og horfið á annan þátt. Þykkur og góður þáttur og hægur, aðdáendur Ingmars Bergman ættu ekki að láta hann fram hjá sér fara.
Ég geri nokkuð af því að horfa á efni á netinu og hlusta á útvarpsþætti á RÚV vefnum. Mæli eindregið með miðvikudags Hlaupanótunni, þá sérstaklega verkinu Jesus' Blood Never Failed Me Yet, eftir breska tónskáldið Gavin Bryars. Verkið er útsetning á hljóðbút sem Gavin varð sér úti um þegar hann gerði heimildarmynd um heimilislausa Lundúnarbúa, flestir voru þeir rónar en þarna var bindismaður sem raulaði bút. Hann notaði svo bútinn sem lykkju og spilaði undir á píanónið sitt, afraksturinn er að heyra þarna auk flutning Tom Waits á verkinu.

Er að hlusta á Boards of Cananda sem koma reyndar frá Skotlandi en dúettinn ólst reyndar upp fyrstu ár sín í Kanada. Hef átt efni með þeim í 2-3 ár en hef aldrei hlustað á. Það var svo fyrir tilstilli hlaupanótunnar sem ég heyrði pælingarnar bakvið tónlistina. BOC skapa stemmingu fulla af eftirsjá, einhverju sem var, tilbrigði við kulinn eld, vatn sem streymdi, símalínurnar sem lágu ofanjarðar en eru nú orðnar að ljósleiðurum í jörðu...

Fólskuverk dagsins
Ég hleyp og æfi alla daga vikunnar upp úr fjögur eða fimm en hleyp svo þrjá morgna. Ég hljóp 8 km í morgun, geri það tvo morgna og svo einn morgun heila 5 km. Eftir hlaupin var ég svangur mjög. Seríósdiksur nægði ekki svo ég kláraði jógúrt úr ískápnum og smurði mér 6 samlokur af einhverju spellt/bæjarabrauði, át tvær eftir smurninginn. Át þetta svo auk skyrdollu sem ég tók... já, blabla... systir kom heim í kvöld og var ekki sátt við kvöldmat, ætlaði að smyrja sér eitthvað og borða skyr... allt búið... ég át... hún keypti í gærkveldi... systir öskraði, ég öskra yfirleitt ekki þegar ég er argur, urra frekar og yggli brúnum og anda djúpt, svona er þetta, jæja frekar ómerkileg saga en sönn.

|




6.12.05

Uppeldisráðgjöf heimilanna

Ég hef nefnt þá hugmynd mitt í öllu nýsköpunaræðinu að koma á fót uppeldisráðgjöf heimilanna, nokkurs konar ráðgjöf og skóla fyrir börn og unglinga. Heildarráðgjöf í uppeldismálum fyrir fólk sem á skítnóg af aurum en kann ekki að ala börnin sín upp. Nokkurs konar ráð fyrir þá sem vilja ekki framleiða ofurspillta og lina einstaklinga sem eru öllum byrði og þá sérstaklega foreldrum sínum, við átján ára aldur. Ég vil nú ekki alhæfa um vangetu nýríkra um getu til uppeldis, en hei – afhverju ekki að fá hjálp sérfræðinga sem vita betur en þú. Já, Ingvi Hrafn básúnar um dínamískt hagkerfi og samkeppnishæfni og fallegan lagaramma sem getur af sér fólk með fjárráð sem áður ekki þekktist. Ég hef séð það í stafi mínu hjá ÍTR að víða er pottur brotinn, á það jafnt við um börn foreldra sem eiga lítið sem ekkert á milli handanna og hafa komið lífi sínu í miður góðan farveg og þeim sem eiga allt til alls. Ég hef fussað og sveiað yfir lítilli aðsókn í félagsmiðstöðina frá verkfallslokum en það verður bara að segjast eins og er að hluti þeirra unglinga sem mæta þessa daganna eru unglingar sem virkilega þurfa á félagsmiðstöðinni að halda. Félagsmiðstöðin er vettvangur þar sem hæfileikar unglinga geta blómstrað og fullorðna fólkið sem þar vinnur eru verðugar fyrirmyndir sem marka spor í lífi þeirra sem ná lengra en aðeins þann tíma sem þau dvelja þar.

Heildarpakki í uppeldi

Auðmaðurinn veit ekki aura sinna tal, vinnur mikið er fráskilinn eða í hjónabandi þar sem báðir aðilar sjá lítið af hvort öðru vegna viðhalds höfuðstólsins. Auðmaðurinn (kven- eða karlmaður) hefur lítið spáð í uppeldisrammanum sem skapa þarf sex ára grislingnum sínum. Hann getur gefið króganum allt sem hugurinn girnist og ótal utanlandsferðir og afþreyingartæki. En kannski gleymist hlýjan og tíminn sem þarf til að sinna ungdómnum. Þættir sem ekki fást keyptir. Uppeldisráðgjöf heimilanna starfrækti skólastofnun sem væri fyrir sex til átján ára einstaklinga. Nám þeirra væri sérmiðað að hæfileikum og þörfum hvers og eins, ef allt væri eins og best væri á kosið væri nemandinn altalandi á fjórar tungur, fullfær um að halda uppi samræðum við fullorðið fólk og jafnaldra sína, spilandi á 2-3 hljóðfæri, fullnuma í reikningi, samfélagsfræðum og listum og hefði sterka samkennd með fólki og meðvitund gagnvart sjálfum sér. Sjálfstraust og sjálfsmynd í góðu lagi. Nemandinn ræktaði líkama jafnt sem sál og við átján ára aldur væri viðkomandi allaveganna beinn í baki og vel búinn til íþróttaleikja af öllu tagi. Hver árgangur samanstæði af þrjátíu krökkum, þar af væru tuttugu sem ættu foreldra sem myndu borga brúsann og tíu sem fengu inngöngu sem ættu ekki efnaða foreldra, svona til að halda jafnvægi og búa til eðlilegra samsetningu hópsins, skólinn væri þeim gjaldfrjáls. Mánaðarlegir fundir færu fram með foreldrum þar sem farið væri yfir stöðu mála heima fyrir og foreldrar mataðir með ýtarefni og upplýsingum um uppeldismál. Einnig starfrækti stofnunin uppeldisráðgjöf til handa foreldrum sem vildu að börn sín sæktu ríkisskóla. Fjöldi barna í uppeldisráðgjöf væri í kringum þrjátíu. Stofnunin myndi framleiða foryngja og forgöngu menn starfsgreina og lista – nokkurs konar elíta. Fólk sem myndi glæða samfélagið meira lífi síðar meir.
En það er nú með þetta sem annað, þótt þú rétt hráefni við bakstur og eldamennsku er ekki þar með sagt að útkoman verði eins og að var stefnt, en allar aðstæður samt eins og best verður á kosið. Þetta er nú bara hugmynd og spurning hvort einhver eftirspurn sé fyrir hendi...

Vert er að minnast á að rússneskir auðmenn áforma að byggja bæ uppfullan af sínum líkum, samfélag í samfélaginu. Er eftirsóknarvert að hafa samfélag í samfélaginu. Er þetta sá jöfnuður sem við viljum?

|




5.12.05

Íslenskir auðmenn og peningarnir þeirra

Ingvi Hrafn hefur sagt okkur í þáttum sínum að fjöldi auðmanna fari sívaxandi vegna aukinna tækifæra sem ríkisstjórnarsamstarf Sjálfstæðiflokks við Alþýðuflokkinn og Framsókn hafi gefið af sér. Rammi laganna sé breyttur og bættur frá því sem áður var. Það vel að einstaklingar geti hagnast á eigin hyggjuviti og vinnusemi. Erum við Ingvi á eitt sáttir um að vel sé að dugandi einstaklingar komist til áhrifa í krafti sjálfs síns.

En fjöldi auðmanna á íslenskan mælikvarða hlýtur að gefa af sér fleiri tækifæri fyrir þá sem á þeim nærast. Lífsstílsblöð og –þættir eru fyrirferðarmeiri en áður og úrval bókabúðanna er gott dæmi um það. Íslendingar eru líka skemmtanaglaðari en áður og sulla þeir meira í sig en nokkru sinni fyrr. Undirheimarnir fara ekki varhluta af þessu en óvíst er hvort að fjölda auðmanna sé hægt að tengja við aukna hörku þar. Allaveganna segir í Statistic-Biblíunni minni, World desk reference, að glæpir séu að aukast í hinum vestræna heimi og nær í heiminum öllum. Fátt kemur okkur á óvart, leynifangelsi BNA út um allar trissur þar sem rammi pyndingarlaga er ekki fyrir hendi, enda pyndingar þar jafn samofnar sögu landanna og vatn rennur niðurávið og sól rís að morgni. Líklegast er þetta sem fyrr, bara meira upp á yfirborðinu þessa daganna – við sjáum bara toppinn á ísjakanum. Atvinnumenn kunna að dylja slóð sína.

Starfsgreinum fjölgar og bera titlar háskólamanna- og –kvenna vitni um það. Gráður í mannauðsstjórnun og vefræðum af einhverju tagi eru dæmi um það. Færri nota haka og skóflu sér lífsviðurværis en áður, verkfærin eru á öðru formi í dag.

Mér til dægrastyttingar þá geri ég nokkuð af því að hitta mann og annan á föstudags- og laugardagskvöldum á skemmtistöðum bæjarins. Maður er manns gaman og oftar en ekki fer maður út í hópi fólks og hittir þá nýtt fólk og annað sem maður þekkir fyrir. Foreldrar mínir segja mér að þeir hafi gert minna af þessu en ég hér áður fyrr, e.t.v. hafa þessi skemmtikvöld mín leist af hólmi spilafélög og vísnakvöld sem einhvern tímann nutu hilli. Tímarnir breytast og mennirnir með. Það vill oft verða að maður verði viðskila við vini og kunningja þegar líða tekur á kvöldið, heldur maður þá heim einn í stað þess hóps sem fyrr um kvöldið gekk samhentur um gólf.

Fylgdarþjónusta auðmanna

Það er skemmtilegra að vera í hópi fólks en einn á báti. Sumir sitja fremur auðum höndum heima við og telja aurana sýna og skoða ávöxtun og kanna ný tækifæri en skunda út einir síns liðs í leit af fagnaði og nýjum kynnum. Ávöxtur erfiðins ætti nú m.a. að var að gera sér glaðan dag, en það er erfitt að standa einn við eikarborðið og leita vinskaps. Mitt í nýsköpunaræðinu hafa einkamálasíður, þar sem viðskipti fara fram á mannlegu nótunum, sprottið upp eins og gorkúlur. En það er ávalt rými fyrir góðar hugmyndir. Ég hef ekki heyrt af fylgdarþjónustu auðmanna, er hún til?
Það er kalt á toppnum og e.t.v. hafa íslenskir auðmenn slegið burtu vini og fjölskyldur á leið sinni á toppinn. Auðmenn íslenskir eru konur og menn á breiðum aldri. Hvernig væri að bjóða upp á fylgd og félagsskap til handa einmana sálum sem vilja hefja ný kynni við mann og annan á skemmtistöðum bæjarins. Það er sterkari leikur að vera í föngulegum hópi en einn á ferð. Fólk tekur frekar eftir hópi fólks sem hlær dátt saman en einsömum einstaklingi – ekki þýðir fyrir hann að tala við sjálfa sig.

Fylgdarþjónusta hefði ekkert með samræði að gera. Fylgdarþjónusta einmanna auðmanna væri hlutastarf fjölbreytts hóps fólks. Starfsmenn fylgdarþjónustunnar væru kennarar, háskólafólk á borð við, bókmennta-, mann- og verkfræðinga, arkitektar, búðarfólk, smiðir og íþróttamenn svo eitthvað sé nefnt. Um væri að ræða þjónusta sem fæli í sér áhugaverðar samræður sem færu fram til að byrja með í heimahúsi auðmanns til að koma honum í gírinn, svo væri haldið á skemmtistað í fjögurra til sex manna teymi. Auðmaður myndi auðga anda sinn með upplífgandi spjalli um heima og geima. Fólk myndi laðast að auðmanni því hann myndi blæða við eikarborðið, vera spaðinn á staðnum. Auðmaður myndi kynnast nýjum einstaklingum af báðum kynjum, pottþétt lygasaga væri fyrir hendi um náin bönd fylgdarfólks. Allir myndu græða, kennarinn gæti notið gæða lífsins betur vegna aukavinnunnar og auðmaðurinn tengdist nýju fólki böndum á einn eða annan hátt. Eftir góð viðskipti í nokkurn tíma væri svo auðmaðurinn útskrifaður af fylgdarþjónustunni því hann væri búinn að koma sér upp nýjum vinum og nýju tengslaneti í gegnum þá.

Fylgdarþjónusta sem þessa er hægt að útfæra á ýmsa vegu, þetta er nú bara létt hugmynd vegna gruns um fjölda einmanna einstaklinga úti í samfélaginu og peninga þeirra sem liggja í fasteignum, hluta- og skuldabréfum og inni á óhreyfðum bankareikningum. Eitthvað þarf að gera við þessa aura í málaflokknum félagslíf og skemmtanir og þessi hugmynd er ekki verri en hver önnur. Kannski er búið að hleypa einni slíkri af stokkunum, svona hlutir fara auðvitað ekki hátt. Svo myndu blaðasnápar fá frekara umfjöllunarefni ef þeir kæmust á snoðir um vaxandi atvinnugrein, prestar fengu efni í sunnudagshugvekjur um versnandi heim og misjafnt siðferði.
En ég og Ingvi Hrafn eru samt á einu máli um það að einkaframtakið blívur og afhverju ekki í þessum geira eins sem öðrum.

|




1.12.05

Fullveldisdagur

Ég hef aldrei farið á Austurvöll 1. desember og það voru 30 steinar í mandarínunni sem ég borðaði áðan.

|




Nýir tímar!

Nýir tímar hvað! Hjá mér, í borginni, hjá ykkur...

Já, það er þannig að maður er búinn að röfla um sömu hlutina 10x á þessari síðu. Kannski einhver stöðnun í gangi eða þá að ég er bara meitla viðfangsefnið til. Gott að skrifa sömu línurnar 10x áður en þú hættir því og ert sáttur. Ég á svo erfitt með að ganga frá hlutunum, hætta því sem ég hef verið að gera. Er gamblari í mér en skil ekki áhættufælnina - áunnin áhættufælni.

Fór í jakkaföt á þriðjudaginn - opnun Laugardalshallar og skóflustunga Ármannshúss þar á undan. Mig langart í mánaðarlegar greiðslur hærri en þær sem ég er með. Ég er til í að þræla.

|