30.4.07

Sóðalinkur

Systir mín sendi mér þennan link og sagði að þetta kæmi fyrir mig eftir tvo daga. Hún er góður vinur greinilega, veit ekki hvor ég á að vera. Oft er nú talað um gerendur sem fórnarlömb.

|




16.4.07

Chivas Regal 12 ára og óvæntur glaðningur

Þau merku tímamót urðu hjá mér að ég fór í söngtíma. Þar með er tæplega sjö ára bið á enda, varð lengri en mig óraði fyrir. Hef svalað söngþörfinni á annan hátt. Ég er svo heppinn að fá inni hjá Alinu Dubik sem mér er sagt að sé ansi fær á sínu sviði, hvort sem um ræðir söngur eða kennsla. Hef heyrt af henni sl. 2 ár, þar sem henni hefur verið hampað og hún mærð sem einmitt söngkennari og söngkona.

Búkurinn hefur verið í góðu standi og æfingar líka. En um helgina hreyfði ég mig á leðursólum. Ingimar vinur minn gaf mér forláta viskíflösku í afmælisgjöf. Opnaði hana á laugardaginn og tók umbúðir utan af. Hann hefði náttúrulega átt að vera viðstaddur en við dreypum á veigunum saman síðar. En mér til undrunar þegar umbúðirnar voru rifnar af flöskunni þá var ekki um falskan pappabotn að ræða heldur tvö lærdómsrit frá Hinu íslenska bókmenntafélagi. Þetta voru ritin Agricola og Germania eftir rómverska sagnfræðinginn Cornelius Tacitus. Kom þetta skemmtilega á óvart. Annars er Flugdrekahlauparinn á náttborðinu þessa daganna eða frekar bara frá því í gær.

Annars er þetta tómt blaður. Ætli ég mali ekki á síðunni næst um neysluna. Bara þessa neysluhyggju sem heldur manni gangandi og er alltumliggjandi og maður fær ekki rönd við reist, bara kaupir og kaupir og finnur fyrir innantómri gleði við að innbyrða ný gæði sem eru greidd út í hönd eða á krít. Best að eyða í sparnað, maður eyðir eins og maður aflar, því ekki að eyða í sparnað. Eyða í sparnað uns maður er svo vel búinn að maður getur fengið að skulda eitthvað að ráði, fengið að skulda hluta af svo sem einni íbúð.

Er ekki enn farinn að kaupa Happaþrennur og Lottó-miða. Eftir frétt sem ég las um tæplega sjötuga konu sem vann 70 miljónir á Happaþrennumiða og það í annað skipti þá má vera að maður stelist til að styrkja gott málefni.

Ég hef aldrei stundað fjárhættuspil, þ.e. peningakassa og póker. Nú er e.t.v. tími til kominn að leggja góðu málefni lið, taka þann pólinn í hæðina að styrkja með klinki það sem getur gefið mér vel í aðra höndina þrátt fyrir að líkurnar séu stjarnfræðilega litlar.

|




11.4.07

Akstur

Ég hef gert nokkuð af því að þeysast um vegi landsins, einn eða með öðrum. Það er víst þannig að ég sit ávalt undir stýri þar sem ég á mestu drusluna og hún er tilvalin til afnota á malarvegum sem öðrum vegum. Maður hugsar allt í markmiðum þegar maður heldur af stað.
Kílómetrar taldir, mínútur og klukkustundir einnig. Gefið í á beinum köflum, tími milli bæja tekinn o.s.frv...

Man eftir ferð norður til Siglufjarðar þar sem náði að keyra á áfangastað á einum tanki án stoppa að mig minnir. Fór eitt sinn á Skódanum yfir Kjöl og lenti útaf vegi á eina staðnum þar sem var ekki stórgrýti á kafla.

Ég hélt austur til Breiðdalsvíkur á föstudaginn langa. Hitti mann sem aumkaði sér yfir mér að ég þyrfti einn í bílnum að vera alla þessa leið. En ég kann því vel að aka einn. Var heppinn með útvarpsþætti á Gufunni og svo var iPodinn við höndina.

Ég var búinn að gefa mér ákveðinn hraðatakmörk, ekki upp fyrir ákveðinn hraða, bíllinn þyldi ekki við. Jæja, athugaði olíu og hún var eitthvað lítil á vélinni. Engin var inni í skúr. Stoppa í Árbæ en nenni ekki að bíða í röðinni svo ég held af stað og Klaustur er góður staður til að fylla á vélina. Þegar þangað er komið og ég opna húddið þá sé ég ekki betur en ekkert er lokið á innfyllingarstaðnum og vélarhúsið skreytt með biksvartri leðjunni. Athuga olíuna mér til skemmtunar og sé að hún er engin. Helli tveimur brúsum á og sé þá lokið skorðað svo ekki þurfti ég að nota dökkteip, sem ég nota bene tek með mér í allar svona ferðir auk sjúkratösku.

Öræfin, Suðursveitin og norðan Hafnar eru svæði sem gaman er að fara um svo ég ók á beinum vegum þar eins og druslan dreif. Ætlaði reyndar að fá mér bita á Höfn en þar var engin á sveimi og öll ljós slökkt á helstu búllum bæjarins enda krossfestingin hörmuð eða syrgð.

Brúðkaup með gauli og veisla með ræðu og gauli voru upplífgandi fyrir mig og snúningar á leðursólum þar á eftir.

Svo á leiðinni heim þá keyri ég eins og fákurinn og aðstæður leyfa. Er þarna á siglingu utan í fjalli þegar ég lendi í slabbi og hægi á bílnum en það dugar ekki til og ég bremsa og ég og stálfákurinn snúumst hálfhring og framendi bílsins nærri þverhnípinu. Maður verður að passa sig.
Bíllinn hafði verið eitthvað skringilegur þegar hraðinn var aukinn og nálgaðist annað hundraðið að hálfu, gerist það svo að það springur. Gat verið, afturdekkið í mauki og búið að vera það báðar leiðirnar, vagninn allt annar eftir skiptingu.

|




2.4.07

Tónar

Ég fer ekki á bílasölur. Fátt fyrir mig að gera þar, enda haldið tryggð við druslurnar mínar. Ein versta fjárfesting sem um getur eru bílakaup. Jú, eitthvað finnst fólki gott að vera í þeim. Sjálfur dvel ég svona 30-40 mínútur á dag í bílnum. Ég er meira fyrir það að fara stöku sinnum í leppabúðir (maður er víst í leppunum allan daginn) og skoða og vita hvort ég hafi reynst forspár í kaupum mínum erlendis, ekki að ég sé að sýna mig, hverja á ég að sjá. Fór í eina sem varst víst á topp 7 yfir þær bestu í heimi samkvæmt áliti einhvers tískublaðs einhvern tímann, ætli það hafi ekki verið í fyrra. Á leið minni í búðina sem er í hliðargötu Laugarvegs varð ég að þræða aðra til að leggja við hlið búðarinnar. Á Frakkastígnum sé ég dreng tölta yfir götuna. Mundi eftir smettinu frá því ég átti kort í World Class í fyrndinni. Leppar fá 3.0 í einkunn en í huga mér skaust sú hugsun að hann væri örugglega á veglegum stálfák. Það stóð heima, maðurinn rennir sér að gylltum Volkswagen jeppa. Við lifum e.t.v. eftir öðrum forsendum og áherslum. Sá ekki barnabílstól í bílnum - veiðir á jeppa.

Nóg um það, ég máta einhverjar brækur í búðinni, kemst varla í þær – það er víst trendið, þrengslin ávöxtur hlaupanna...
Heyri þá unaðstóna. Hafði heyrt eitthvað þessu líkt áður. Orð eins og ríða verður frekar njóta ásta, maður segir svífa um gólfið í dansi í stað þess að segja trampa af sér iljarnar. Hef heyrt eitthvað í líkingu við tónana 10 ára, 15 ára, 20 ára og ég veit ekki hvenær. Þeir hafa sem sagt glumið í eyrunum áður.

Áður en bómullin var borguð grennslaðist ég eftir hvað það væri sem ómaði um búðina. Þetta voru Swingle Singers. Raddaður söngur karla og kvenna. Algerir unaðstónar, alveg ótrúlegir, hreint magnaðir, engu líkir.

Seinna þann daginn heima við halaði ég nokkrum plötum niður af Soul Seek. Vá...
Back, Mozart, Handel, jazz, Bítlarnir, kvikmyndatónlist og spænsk tónlist rödduð í allri sinni dýrð. Jæja mæli með Swingle Singers, Swingle Singers, Swingle Singers, Swingle Singers, Swingle Singers...

|