23.2.06

200 m og Svíþjóð

Systir mín er skiptinemi í Lundi. Kennari hennar í sænskunámskeiði spurði krakkana í hópnum hvað þeir myndu gera ef þeir yrðu slegnir utan undir. Tyrki svaraði því svo að hann myndi slá til baka. Kennarinn var snöggur að svara og sagði það eðlilegt því hann væri múslimi. Tyrkinn var sem mús og hópurinn flissaði. Kennari sagði síðan að rétta svarið væri að bjóða hinn vangann, allaveganna ætti að gera það í Svíþjóð.
Stutt í að ég fari til Sísíar og taki nokkrar æfingar, læri á sænsku bókasafni, fái mér 2-3 kalda og fari í HM og aðrar búðir. Gisti reyndar eina nótt í Köben hjá Önnu Helgu þar sem stefnt er á að fara í jógatíma. Búinn að skoða trendin í vetur og sumar svo ég er öllu viðbúinn. Þarf að freista gæfunnar í Lottóinu, er bara á vonarvöl, vantar meiri eyðslupening. Ég er fjölhyggjumaður. Fjölhyggjumaðurinn veit ekki í hvorn fótinn hann á að stíga, umburðalyndið ber hann ofurliði, getur ekki tekið eigin málstað í rifrildi.

Herinn rannsakar ýmislegt og framleiðir. Sá ameríski finnur eitt og annað upp sem síðar nýtist okkur pöpulnum. Í New Scentist (18. feb.) segir frá vöku- og svefnpillum. Þessar pillur hafa verið í þróun og prófaðar, pillur án aukaverkana sem nokkru nemur. Maður tekur skammt og er allsgáður í fjóra sólahringa. Verið er að þróa þær og fyrr en síðar verða komnar á markað vöku- og svefnpillur sem hægt verður að kaupa, 6 tíma svefn og 42 tímar í vöku, ekki ónýtt það fyrir fólk sem þarf að standa góða vakt í próflestri eða vinnu. Við erum okkar eigin guðir.

Hef stundað heilsutrúboð í nokkurn tíma. Reyni að vera samkvæmur sjálfum mér og vera reglusamur. Það er helst svefnvenjurnar sem eru riðlaðar hjá mér. Erfitt að vera eigin herra oft á tíðum. Ég er að reyna að marka góðan ramma fyrir mig, nauðsynlegt því ég er í tómum leiðindum í skólanum, ekki bugaður en e.t.v. örlítið boginn – hrein stöðnun er ekki góð en á þeim vetfangi er ég nokkuð staðnaður og vonast til að sleppa úr þeirri prísund von bráðar. Mér líður eins og ég sé einn á eyðieyju, peppa sjálfan mig upp með vissu millibili og tek stöðufundi (naflaskoðun). Er orðinn óþreyjufullur að takast á við önnur verkefni. Ástralir hafa náð góðum árangri ásamt Svíum á vettvangi íþrótta m.v. höfðatölu. Þar búa einungis 31 milljón manna til samans. Ástralir hafa greint hæfileika ungviðisins til hámarksárangurs í ákveðnum íþróttagreinum og hefur ungmennum verið plantað í róður, frjálsar og sund, þ.e. þær greinar sem henta best. Það hefur skilað sér vel. Horfði einmitt á listhlaup kvenna á skautum í gær, það var ein stúlka sem bara sig kvenna best, sú ítalska, hélt með henni en hún datt og möguleikar hennar orðnir litlir úr þessu. Ef ég hefði þurft að horfa á 6 tíma skautaæfingu þá hefði ég valið hana, hlutföll búks og fótleggja í mjög góðu jafnvægi. Sumar sem tóku þótt skoruðu vel en ég hefði einnig séð þær fyrir mér sem júdókappa, klofstuttar og ofurstæltar. En þetta mat mitt byggist á einhverri formúlu um hvernig hlutirnir eiga að vera, þarf e.t.v. að fara í gegnum hugsanaferli til að laga þessa hugsanabjögun.

Mig vantar vinnu, þarf að gera eitthvað varðandi þau málefni. Eftir stórsigur nagladekkjaskýrslu hlýt ég að vera eftirsóttur!!! Er hafsjór af fróðleik um þau. Fór í mannfagnað fyrir nokkru síðan, lenti í hörkuspjalli við tvo miðaldra menn um ástand gatnakerfis og gagnsemi nagladekkja. Þessir tveir álitu sig vera frábæra drævera þrátt fyrir að segja það ekki berum orðum. Varðandi gjaldtöku á nagladekkjum voru þeir ekki sammála mér, sögðu þetta ekki ábætandi viðbót við heimilisútgjöldin, konurnar og svona, þær þyrftu sína nagla...

Æfing:
- Fór fyrir vinnu áðan í Laugardalslaugina. Dýfði mér í laugina, synti 200 m og fór upp úr, tími lítill.

|




19.2.06

Dómur dagsins

Keppti áðan. Er ég sáttur? Já og nei. Það er alltaf gott að keppa, sjá hvar maður stendur, var búinn að vera stressaður frá því á miðvikudaginn. Hlaupið sjálft var ekki nógu gott, streðaði of mikið, hljóp fyrri hring of hratt og rykkti í út úr beygjunum með fullmiklum hraðabreytingum. Ég var búinn á því eftir 300 m. Er greinilega ekki búinn að taka nógu mikið af sprettum, hef hlaupið langt og er í fínu pústi en vantar meira sprettþol.

Nú er að:

1. Borða minna og betur.
2. Hreyfa sig jafnar.
3. Hlaupa á morgnanna.

Ræddi við þjálfarann, það þarf að setja upp fastara prógram fyrir formanninn. Þýðir ekki að vera bara eins og vindurinn, koma og fara og hlaupa þegar tími gefst. Fastari rammi er nauðsynlegur. Þýðir ekki að æfa minna en hinir.
Annars er kominn nýr þjálfari til félagsins (Fjörmanns), Freyr Ólafsson. Freyr er íþróttakennari og tölvunarfræðingur og mikill happafengur fyrir félagið... blabla...

|




Stund sannleikans nálgast

Já, kemur í ljós eftir nokkra klukkutíma hvernig formið er.

"Less is more."
Mies van der Rohe, einn af höfuðarkitektum 20. aldar og skólastjóri Bauhaus fyrir lokun.


Hvernig væri að eiga svona einbýlishús?



Ekki ónýtir stólar þessir, þið hafið séð þá. Held þeir hafi lækkað í verði, einkaleyfið runnið út á þeim. Hannaði fyrir heimssýninguna í Barcelona árið 1929. Van der Rohe kunni þetta.


"Less is only more, if more is good."
Frank Lloyd Wrigth


Guggenheim safnið í New York, ekki ónýtur spírall það.



Hvernig væri að planta einu svona í Skorradalnum!


Le Corbusier, upphafsmaður módernismans í arkitektúr að ég held.


Höfuðstöðvar Sameinuðu þjóðanna í New York.



Fór fyrir nokkrum arum með mömmu og keyptum við tvo svona án þess að vita nokkuð, gamall SÍS lager, skransala – 2000 kall stykkið. Gunni mágur keypti sex.


Já, þessir vissu muninn á réttu og röngu þegar ráðstöfun rýmis var annars vegar.
Annars 400 m í dag. Er orðinn stressaður. Ég hleyp eins og ég sé með Satan í rassgatinu á mér, hvergi slegið af fyrstu 200 m, sé svo til hvað ég á eftir. Þetta er keyrsla allan tímann.

|




17.2.06

Kex og ÚTÓPÍA

Var að væflast á Hlöðunni í kvöld. Vala systir í áfanga sem heitir Útópía og fasísk hugmyndafræði, nokkuð nærri lagi. Hún veit að ég hef miklu meiri áhuga á efninu en hún (er í M.a. námi í bókmenntafræði). Hún benti mér á greinar og bók. Ég fór að blaða í bókinni Ævintýri sem er þýðing frá 1932 á rússneskri bók. Kverið var heilaþvottur í Sovétinu sáluga fyrir 12-14 ára grisslinga. Þessi bók er ótrúlega fyndin, kannaðist við staðarhætti þar sem ég skrifaði einmitt ritgerð (Er verkfræði vísindi) í kúrs sem kom mikið inn á tæknisögu og hugmyndir Sovétsins á fyrri hluta 20. aldar. BNA og Sovétið eru borin saman, allt á versta veg fyrir kapíalismann. Ég hraut um kafla sem sagði frá amerísku verksmiðjueigendunum Knox, Rox og Pox. Þeir framleiða hatta. Hattasalan gengur vel, þeir framleiða meira, hattasalan minnkar og þeir fara úr tísku, þeir sitja uppi með hattana og fara á hausinn og fyrirvinnur verða atvinnulausar og eymdin blasir við. Dæmið átti að sýna fram á yfirburði miðstýringar framyfir kapílisminn. En það fór nú á annan veg í Sovétinu, ráðamenn týndu sér í miðstýringu og skrifræði. En það var engin dýnamík í miðstýrðu hagkerfi Sovétsins. Ef fjólubláar sokkabuxur komust í tísku þá var farið að framleiða þær, en þær voru kannski til á lager í Síberíu sem enginn vissi af. Svo þegar leið og beið og allar birgðir af sokkabuxum á þrotum sokkabuxunum, þær fáu sem eftir voru gengu kaupum og sölum á svörtum markaði. Svo þegar þær komu á markað og búið var að framleiða heilu farmana af sokkabuxum var sumarið liðið, vetur kominn og sokkabuxurnar farnar úr tísku og enn ein skemman fyllt af gagnslausum varning. Það tók 70 ár fyrir kommúnismann að lognast útaf. Eftir stóð mengað land með innviði iðnaðar og stjórnkerfis á brauðfótum, algerlega ósamkeppnishæft við Vesturlönd, þróunin hafði staðið í stað og var í skjaldbökulíki.
Þýðandi kversins var uppnuminn af kennsluefninu, hver hefði ekki verið það árið 1932.

Er farinn að skrifa of oft hérna, þessi æfingadagbók gerir það að verkum. Verð að finna einhvern sublink á hana, stofan nýtt blogg fyrir hana. Keppi í 400 m á MÍ á sunnudaginn svo nú hita ég bara upp og teygi.
Maður er haldinn ákveðnu virðingarleysi, hvers vegna? Bókasafnið - fæ ekki samviskubit þótt ég sé kominn fram yfir á tíma, treysti á góðmennsku bókavarða. Hef tekið greinar með mér, ljósritað og skilað, án vitundar starfsmanna. Ég skilaði og svona, er einhver Hrói höttur í mér!!! Svo maulaði ég svona 12 Homeblest kexkökur áðan og saup á undanrennu, ég er ekkert sérlega mikið fyrir þetta kex. Kannski stressaður útaf hlaupinu á sunnudaginn, þori varla að keppa í 800 m og geri það ekki á laugardaginn.

Æfing:

- 20 mín skokk, ca. 3,7 km
- teygjur

|




15.2.06

Æfing

- 30 mín hlaup, ca. 5,5 km
- 5*100 m hlaup í beygju, startað - upphitun f. 400 m

- 50 mín fótbolti, hlaup ca. 5 km

Magn: 10,9

|




14.2.06

Spegill, spegill herm þú mér...

Spegillinn er hluti af daglegu lífi. Er hann einn helsti áhrifavaldur okkar daga? Segir hann hver erum við? Mótar hann þá hver við viljum vera, hvað aðrir halda að við séum, hvað við höldum að við séum?

Spegilinn sem þarfaþing - værum við betur sett án hans. Við getum ekki falið okkur gegnt honum – andlit, bak, rass, magi, fætur. Allt sést þetta kristalskýrt í honum speglinum.

Allsstaðar eru speglar, heima við, á klósettum, í ræktinni. Ég stend sjálfan mig að því að horfa á spegilmynd mína þegar ég hleyp fram hjá gluggum, tek jafnvel sveigju þegar speglagler er í töltfæri til að horfa á og virða sjálfan mig fyrir mér.

Sjálfsmynd er ekki beint mælanlegt hugtak, er heldur flókið. Þó er hægt að setja staðla um hana.
Sjálfsmyndin er vitneskja um sjálfan sig. Hlutlægar upplýsingar sem maður er búinn að læra um sjálfan sig. Tilfinning um sjálfan sig, vera öruggur - hvað líður mér vel með hjá sjálfum mér. Félagsleg samskipti hafa mikið um það að segja hver sjálfsmyndin er. Þau eru spegill á mann sjálfan, hvernig aðrir bregðast við manni.

Speglar fullkomlega sjálfhverfur maður sjálfan sig í öllu jafnt speglum sem sálu annarra til að komast að því að allt sé á besta veg, réttlæta sjálfan sig á huglægan og hlutlægan hátt.
Speglar fullkomlega meðvitaður og öruggur maður með sjálfan sig ekki. Þurfa þeir sem náð hafa algeru innra jafnvægi að spegla sig, er spegillinn þeim jafnnauðsynlegur og DVD tæki og hárbursti sköllóttum manni?

Það kemur fyrir okkur að við sjáum ekki það í eiginlegum sem óeiginlegum spegli sem rétt er. Einstaklingurinn sér stundum ekki bjálkann í eigin auga, kemur ekki auga á vankanta eigin gjörða og engin leið er að koma vit fyrir hann. Viðkomandi veður villu vegar, sér ekki eigin veikleika og reynir að varpa eigin sök yfir á aðra, er algerlega vammlaus og hefur komið sér upp svo fullkominni sjálfsmynd að hann getur ekki staðið undir henni, minnstu ávirðingar særa. Einstaklingur af þessu tagi þorir ekki að horfast í augu við eigin mistök og varpar þeim af sér en bælir sjálfan sig um leið en kemst með þessu í gegnum daginn nokkuð fumlaust en kemur í veg fyrir framþróun sjálfs síns og raunsætt mat á hver hann er í raun og veru er, þroskast í ranga átt.
Persónur og leikendur í ævintýrum og goðsögnum fara flatt á sjálfsafneitun og sjálfsdýrkun.
Í ævintýrinu um Mjallhvít stendur vonda drottningin gjarnan fyrir framan spegilinn og spyr: "Spegill, spegill, herm þú mér, hver fegurst er á landi hér?" Illa fer fyrir drottningunni og boðskapur ævintýrisins er m.a. sá, að sjálfsdýrkun leiði ekki til velfarnaðar. Í grísku goðsögninni um konungssoninn Narcissus kveður við sama tón. Hann gat ekki elskað nokkra konu, en varð ástfanginn af spegilmynd sinni í vatnsfletinum, festist þar í aðdáun á sjálfum sér og breyttist í vatnalilju. Þetta skapgerðareinkenni hefur verið nefnt sjálflægni og skýrt sem óvenju sterk tilhneiging til sjálfsdýrkunar í þeim tilgangi að breiða yfir djúpstæða vanmetakennd. Sjálflægni er þannig ein leiðin til að viðhalda sjálfsvirðingu sinni og getur m.a. komið fram í því að viðurkenna aldrei sök hjá sjálfum sér.

Við viljum ekki vera hulstur, við viljum að innri maður spegli hinn innri en ekki öfugt. Allt í kringum okkur eru myndskeið og myndir sem gera það að verkum að við viljum ná takmarki sem er meiri ytri fegurð. Oft á tíðum eru þetta óraunsæ markmið sem engin leið er að ná. Þetta eru markmið sem stefna spegla sjálfsmiðun, sjálfsdýrkun og má flokka undir skurðgoðadýrkun. Einstaklingur sem hengir myndir af hálfberum Usher í herbergi sínu byrjar á röngum enda. Þiggjendur myndskeiðanna eru hálfstálpaðar sálir í sjálfsmyndarleit og hrifsa það sem að þeim er haldið og vilja gera að sínu.

Áhrifavaldarnir eru allt um liggjandi. Skurðgoð, skyndibitar og óraunhæfar kröfur. E.t.v. er best að mæta áróðri sem þessum með áróðri. Segja má að krókur á móti bragði sé frekari fræðsla, gera neytendur að betri lesendum. Gera neytendur hæfari til að velja á milli þess sem er "rétt" og "rangt". Fylgikvillar neyslusamfélagsins eru margir. Átröskun og offita m.a. – það er skammt stóra högga á milli.
Leiðin að betri heimi er þyrnum stráð en ekki þýðir að á, heldur halda rakleiðis áfram og takast á við þær hindranir sem settar eru og beita þeirra bragða sem auðið er hvort heldur sé betri fyrirmyndir, áróður eða lagasetningar (þótt ég sé ekki hrifinn af þeim).

Þegar Íslendingar leituðu sjálfsmyndar í sjálfstæðiðbaráttu sinni var þjóðararfurinn endurvakinn og víkingurinn gekk í endurnýjun lífdaga. Prentuð voru póstkort af Jóhannesi á Borg og hvaðeina sem ég get nú ekki nefnt en allt miðaði þetta að því að skapa okkur sterkari vitund og sjálfsmynd sem einstaklingar. Enginn veit sína ævi fyrr en öll er. Aldrei að vita hvort við munum lifa þann dag að sjálfsmyndarstaðlar verði settir fyrir auglýsendur og framleiðendur myndefnis þess leiðis að stjörnur verði að fitta inn í réttan ramma svo öllum líði vel og þeir fari ekki að hafa of háar hugmyndir um sjálfan sig...

Markaðurinn ræður! Það sem selur gengur. Erfitt er um að spá hvað verður...

Æfing:
-35 mín hlaup, (skokk - fartleikur - skokk) ca. 6,5 km

|




13.2.06

Fólk ver frítíma sínum á ýmsa vegu. Það er hægt að skilgreina frítímann. Ég skilgreini hann þannig að frítími sé tími sem þú átt aflögu þegar þú hefur lokið af dagsverki og hins vegar tími sem þú notar í að gaufast og ert með samviskubit og átt dágóðan verkefnalista fyrir höndum sem þú hefur ekki í þér að byrja á. Finnst ég oft hafa meira af hinum síðari. Kannski of langir verkefnalistar hjá mér.
Gósenfrítímar eru framundan. Ég mikill áhangandi íþróttaviðburða og núna eru hafnir Vetrarólympíuleikar í Tórínó. Mér finnst það vera tímaeyðsla að horfa á sjónvarpsþætti en get hangið lon og don yfir skíðagöngu, listdansi á skautum og Alpagreinum. Núna er Daníel Dalvíkingur að lýsa 2*7,5 km eltigöngu kvenna í imbanum. Afrekaði það merkilega að hlaupa í 70 mínútur í gær. Hef gert það einu sinni áður en hef mjög oft hlaupið í 1 klst. Held ég hafi hlaupið 12-14 km. Það voru svo margir frístundaskokkarar á vegi mínum að ég hallast að því að kílómetrarnir hafi verið nær 14. Það hleypur kapp í mann þegar maður sér í bakhluta hlaupara – ekki annað hægt en að taka fram úr. Hljóp frá Vesturbæjarlaug kringum Seltjarnarnesið, Granda, meðfram miðbænum og endaspretturinn var niður Laugarveginn og að lauginni.
Systir fór á þorrablót í Köben en ég undi mér vel úti á Nesi í Buzz, Singstar og Sannleikanum og kontor. Leynifélagið hélt ársfjórðungslegan fund sinn hjá Heru.
Hringdi í unglinginn Albert sem hafði heitið því að mæta með vaska sveit kl. 8:00 í Laugardalshöllina að taka mottur af gólfi. Æ, æ, Albert tjáði mér að hafa vaknað kl. 7:00 en verið svo þreyttur að hann hefði ekki megnað að taka motturnar af, ég sit í súpunni. Hann varð af safa og mjólkurvörum en segist vera tilbúinn í frekari átök síðar.

Æfing:
- 70 mín hlaup, ca. 13 km

Heildarmagn vikunnar: 46,4 km. Ekki nót, það á að vera 60-70 km. Laga það.

|




11.2.06

Æfing

- 30 mín hlaup, ca 5,5 km
- Þrekhringur í 30 mín (hopp, armbeygjur, hlaup, upptog, magi o.fl.)

|




10.2.06

Uppistand

Enn tala ég með rassgati. Sjálfboðavinnan er ekkert að hverfa. Höllin teppalögð fyrir félagið og uppistand með Úlfari Linnet sem hefur karisma en þeir sem á eftir honum komu ekki. Úlfar kann á þetta. Sirkus með verkfræðikrökkunum Önnu Helgu, Tobbu, Jóa Ben og Rikka. Hlegið mikið, já hlegið. Stoppa eina nótt í Köben og fer í jóga með Önnu Helgu áður en farið verður til Lundar.


Æfing:

- 30 mín hlaup, ca. 5,5 km
- 8*(200 m á 70% (30-32 sek) - 100 m skokk - 50 m 100%)
- 600 m niðurskokk

Magn: 8,9 km

|




9.2.06

Spjall

Hef talað með rassgati á vef í nokkurn tíma, þ.e. hef ekki haft neitt markvert að segja og ekki lagst í pælingar að neinu ráði. Set vonandi eitthvað markvert fram þar sem ég lenti í góðu spjalli í dag. Kannski spurning að setja þetta fram á með betri uppbyggingu, hnoða þessu bara orð fram að orði án þess að spá í upphaf og endi nema e.t.v. upphafsorð og lokaorð.
Fór á Hlöðu í dag. Þegar ég rumsast áfram í átt að þjófahliði hitti ég fyrir Magneu listaskólamær sem tengist götunni minni og Áburðarverksmiðjunni. Hún er að skrifa lokaritgerð í hönnun um spegilinn og áhrif hans á mannkynssöguna og samtímann. Hvað kemur ekki speglinum við í dag, förum ekki út úr húsi án þess að hann komi við sögu, hófst allt með Narkisos og ætlar engan endi að taka úr þessu. Áðan átti ég svo þykkt tveggja tíma spjall við Jóa Ben og er endurnærður. Útgangspunktarnir voru tilverupælingar sem aftur teygja anga sína að speglinum, pælingar úr meistarastykki Dostojevskís Glæpur og refsing voru upphaf að frekara mali og hvað er nú ekki undanskilið, sjálfið og sjálfsmyndin og hvaðeina - voða háfleigt. Jæja, smá eldsneyti á tankinn þar sem mun vonandi skila sér í einhverjum pælingum, nýir fletir komu til sögunnar, maður getur ekki alltaf malað út frá sömu punktunum, engin leið að endurtaka sig sínkt og heilagt.

Fór í HÍ-gymmið. Fólk heldur mig óðan, þarna var 11 ára stelpa með systur og hún horfði á mig allan tímann. Ég unni mér ekki hvíldar í pásum og erfiðaði allan tímann, sippaði í nokkrar mínútur á margföldum hraða. Hef tekið nokkur sipp seesion í höllinni og farið hringi á hlaupabraut.

Æfing:
- 30 mín hlaup, ca. 5,5 km
- Þrekhringur – 25 mín.

|




8.2.06

Bíóferð

Fór í bíó áðan með Kauðunum – fótboltadrengir. Siggi vildi sjá einhverja vellu en ég benti á franska mynd, maður svo menningarlegur! Jæja, allir sættust á ræmuna enda einhverjar stjörnur á henni og svona. Fyrst myndin komst í bíó þá hlaut hún að vera góð. En hvað, það ég beið og beið, það gerðist ekkert, nema maður skar sig á háls, einkar raunverulegt. Myndin var eins hún hefði gerst í rauntíma og aðalsöguhetjan var frekar leiðinleg. Sögupersónur allar að tala um bækur og bókahillur í öllum senum til að sína hversu kúltíveruð menningarþjóðin er. Verð að sjá gagnrýni um myndina, rýnirinn fattaði eitthvað sem ég sá ekki. Myndin hafði hvorki upphaf né endi. Bíógestir áttu eflaust að vera eitt stór spurningamerki og bíða eftir einhverju yfir myndina og rífast síðan um hvað hún fjallaði.

Horfði á Dr. 90210 á E! í gær. Transi fékk brjóstastækkun og einn læknirinn hitti prestinn Brewster ásamt konu sinni og þau ræddu samband sitt við guð. Læknirinn gaf sambandinu við almættið 5 af 10 en konan hans 10. Þetta er víst major issue og doktorinn deildi áhyggjum sínum með öðrum læknum yfir póker. Transinn er kominn í C-stærð núna og allir rosa happí. Svo var þáttur um Usher. Hann er rosalax og biður alltaf fyrir tónleikana, mamma hans stjórnar öllu batteríinu og er hörð í horn að taka.

Æfing:

- 30 mín hlaup, ca. 5,5 km

- 1000-800-600-400-200 (tími - undir 2:51, 2:30, 1:48, 64, 29)
(viðmiðun 3:00, 2:35, 1:55, 67, 30)

- Fótbolti í Sporthúsinu í 50 mín. Hlaup ca. 5 km (ég stoppa ekki)

Magn: 13,5 km

|




7.2.06

Stundum er mikið að gera...

Engar æfingar í fjóra daga, ekki gott. Nú skal prófað 1-2 morgna í viku að fara í sund í Laugardalnum og prófa innilaugina. Ætla að prófa tímatöku í 50 m skriði. Fyrir 6-7 árum tók þrjá 50 m spretti í útilauginni, alla á 28 sek. Geri betur bráðlega.

Stundum sér maður ekki útum augun vegna anna. Hvað er þá besta að gera? Fara snemma að sofa og vakna snemma. Þegar fólk starfar saman að sameiginlegum markmiðum getur ýmislegt farið úrskeiðis. Það reynir á þolgæðin og jafnvægi er það sem skiptir máli þegar allt kemur til alls. Árekstrar geta orðið en málið er að halda jafnvægi og komast nær markinu. Hvað hefst upp úr þessu öllu!!! Reynsla og eitt skref áfram.
Ármann hélt MÍ 15-22 í frjálsum innanhúss um helgina og nokkur met voru slegin. Svona mót er nokkuð fyrirtæki. Í mörg horn er að líta, smá sem stór atriði. Svona mót eru fastur póstur í tekjuöflun mótshaldara ásamt æfingagjöldum. Félög reyna að snapa vinnu hér og vinna þar til að fá salt í grautinn og fjármagna þjálfara, kaup á tækjum, búningum og æfingagöllum svo sitthvað sé nefnt. Svo má ekki gleyma að nauðsynlegt er að hafa smá buffer ef einhver tækifæri bjóðast. Fræðsla til að auka iðkendafjölda sem skilar sér síðar í jafnara tekjustreymi og betra starfi. Bæklingar, plaköt og skólafræðsla eru dæmi um það. Íþróttir eru nauðsynlegar uppeldi barna og unglinga. Þar takast ungmennin á við sjálf sig og standa og falla með þrautseigju sinni og aga. Æfingarnar eru bara einn parturinn, svo er það félagsskapurinn. Hverjum flokki er hollast að hafa ákveðin massa, félagslegu tengslin eru það sem standa eftir þegar litið er til baka. Mótið um helgina skilaði ýmsu. Það tókst vel og leit vel út fyrir félagið, veitingasala skilaði sínu en skólagisting með morgunmat kom síður út í krónum talið. Undirbúningur við tölvuvinnslu, gjaldkerastörf tóku tíma, gerð mótaskrár, útréttingar og starfsmannamál tóku sinn tíma. Það er ekki allt sem sýnist og ef málin ganga smurð er það merki um góðan undirbúning. Allt er unnið í fórnfúsri sjálfboðavinnu og afraksturinn er bros og betri heimur í sem víðtækustum skilningi.
Nú taka aðrar annir við. Það sem eftir er af skólanum og plögg og undirbúningsvinna vegna Heilsudaga sem eru á næsta leiti. Vonandi verður eitthvað fræðsluefni unnið og klifurveggur smíðaður – það skýrist von bráðar. Vorönnin hjá ÍTR er hlaðin viðburðum og vinnu – Músíktilraunir, Freestyle, Gistinótt og Samféshelgi með balli, sviðsvinnu og söngvakeppni er það sem er framundan svo eitthvað sé nefnt. Nú styttist í Svíþjóðarferð og æfingaferð til Spánar um páskana. Svo verður æfingaferð yngri flokka til Laugarvatns vonandi skotið inn og einni sumarbústaðaferð með boltanum. Þegar er spurður hvað ég sé að stússast þá á ég oft erfitt með að svara, get ekki sagt fólki að ég sé prins, þá birtist það auðsýnilega hversu veruleikafirrtur ég er. Svarið er yfirleitt skóli, áhugamál og vinna - þetta skóladæmi er reyndar að verða þreytt en verður brátt að baki. Prinsar sinna hugðarefnum sínum og skildum!!! Hverjar eru mínar? Svo er að finna út sem fyrst hver vill fá prinsinn í vinnu.
Nú er púsla þessu öllu saman...

Hef greinilega ekkert að segja.

|




5.2.06

Skemmdarverk

Skil ekkert í þessu, þetta hefur gerst áður, þ.e. að eitthvað rusl hafi birst á síðunni. Garpur sagði mér að þetta væri vandamál við þessar blogspot síður. Ég hélt fyrst þegar þetta gerðist að Balli og Maggi hefðu verið að rugla í mér en þá er þetta þekkt vandamál og ekki gleðiefni.

|




3.2.06

Æfing:

- 35 mín útihlaup, ca. 6 km
- Drillur: 5*50 m frjálst
- Vaxandi 3*80 m

- 8*200 m, undir 32 sek, hvíld: 50 skíðahopp
(Tími: 26, 33, 32, 31, 29, 32, 30, 31)

- Hvíld: 10 mín

- 5*(300 m á 60 sek - 50 m labb - 50 m 100% sprettur)

- Svo í lokin smá fjör!!! 4*50 m grindahlaup með 3 skrefum á milli

Magn: 10,29 km

|




2.2.06

Bílaraunir og Ljósvaki – frekar óspennandi...

Ég rakst á nokkrar tilvitnanir sem Hulk hefur sett á netið. Eins og allir vita þá hefur sá græni breytt sögunni til betri vegar!!!

"If you're arrogant, you
find it necessary to prove
If you're confident, you
don't need to prove
anything about yourself."

Hulk
Cosmopolitan, 4 tlb. 1979.


"Balls is a matter of how far
you´re willing to push the
fear factor."
Hulk, National Geographic, júlí 1989.

"Byltingin er ekkert teboð."
Hulk, Verkamaðurinn, 2.tbl. 1959.

"Sameinuðu þjóðirnar eru samtök þar sem alltaf er eittthvað að hverfa. Þegar tvö smáríki eiga í deilu hverfur deilan. Þegar stórveldi og smáríki deila hverfur smáríkið. Þegar tvö stórveldi deila hverfa Sameinuðu þjóðirnar sjálfar."
Hulk, Tíminn í Afríku, endurminningar '73-'76.

"Í Kaliforníu henda menn ekki ruslinu út í tunnu, þeir setja það í sjónvarpið."
Hulk, Málþing um óháðar kvikmyndir í Ohio, september 1991.

Bílaviðhald hefur verið fremur stopult hjá mér. Nú er svo komið að ég hreint get ekki skorast undan að veita Bláu þrumunni minni faðmlög með tjöruhreinsi, þvottakúst, bóni og Rust-convertor sem ég keypti í dag í vel falinni risaverslun Bílanaustar á Bíldshöfða. Þegar ég útrétti smámál í formi og kaupa á ryðeyði, safa, fatnaði og ritföngum þá besta ég leiðangurinn. Óþarfi að skjótast bæjarhorna á milli bara upp á fjörið brennandi bensíni að óþörfu. Maður er umhverfislega sinnaður og lágmarkar bensínið. Í sakleysi mínu réðst ég í það langfrestaða verkefni að kaupa mér Rust-convertor fyrir beygluna mína. Ég þrumaði mér á ógnarhraða niður í Borgartún, hvað heldur að hafi blasað við mér þegar ég kom að Bílanausti? Það var bara risa hola í jörðinni, engin verslun bara gröfur í jörðinni. Þá hringdi ég í Baldur og á hinum endanum hló mörðurinn og sagði verslun flutta fyrir löngu upp á Höfða. Í dag renni ég eftir Bíldshöfðanum og finn ekki helvítis verslunina. Hringi þá í 118 og þegar ég fæ samband við Skrána sé ég glitta í falið skilti. Þá er hún til húsa í gamla Hampiðjuhúsinu.

Ég á vini sem skilja ekki af hverju ég virði ekki bíla mína meir. Ég þurfi að koma mér á betri vagn. Ég er á fjölskyldubíl og get átt hann lengi, það er viðgerðar og verkstæðisþjónusta í skúrnum heima sem heitir pabbi. Kosturinn við að eiga beyglu er að þú getur skilið hana eftir hvar sem er og ert ekki næmur fyrir grjótkasti utan vegar og stöku rispa og dælda sem myndast þegar óprútnir aðilar skella utan í þig eða bakka á þig að þér fjarverandi.

Ég er að hallast að þeirri skoðun þrátt fyrir að vera prins að ég sé nægjusamur, er ég þá hamingjusamur? Félagi minn fárast yfir hávaða í tölvunni minni, vill ég kaupi mér nýja viftu. Það skiptir ekki máli, ég er heppinn að heyra hálf illa og heyri ekkert í viftunni svo ég get sparað mér kaupin.

Ég var í áfanga fyrir einhverju sinni. Ég og Kiddi Páls ákváðum að gera viðskiptaáætlun fyrir tæki sem mældi endurkast ljóss af vegstikum. Við sóttum um aragrúa styrkja svona í djóki, fengum ekki Nýsköpunarsjóðsstyrk en enduðum með RANNUM styrk upp á 800.000 kall. Við sögðum vá, í augum sumra speglaðist öfund. Jæja, það fór allsherjar tími í hönnun og þróun tækisins. Við létum smíða gripinn fyrir formúgu fjár. Fengum forlátan hólk og pólerað brennipunktslok. Við klóruðum okkur í hausnum lengi, vissum ekki alveg hvernig ætti að útfæra þetta. Versluðum okkur forlátan kastara sem ætti að vera áfastur tækinu sem átti annað hvort að hanga utan á hurðinni eða vera fest á toppgrind. Tækið átti að vera þægilegt í notkun. Svo erum við að prófa Satans tækið og forrit til að nema ljósmerkin. Við fundum gott forrit eftir mikla eftirgrennslan. Við fórum eins vísindalega að og við gátum og vorum stoltir af. Kom þá upp úr dúrnum að ekki var þörf á ljóskastaranum því ljóstopparnir sem forritið sýndi af endurskininu voru nægjanlega miklir. Svona tæki er í raun mikið þarfaþing fyrir þá sem eru í svona mælingarmálum. Við kláruðum tækið og fórum að spá í festingum. Vorum komnir með gott forrit og farnir að rúnta um Heiðmörkina og Vatnsendan, ég hálfur út úr bílnum, haldandi á tækinu að safna gögnum. Þetta var allt á góðri leið. Komumst að því að betra hefði verið að búa til tæki úr plasti sem væri pólerað að innan því þetta var helvítis klumpur. Jæja, við fengum framhaldsstyrk og stefnt var á frekari landvinninga en þá fór Kiddi til náms í Köben og tækið bíður frekari sigra og þróunar.
Vinnuferlið á Ljósvaka var ekki ósvipað meistaraverkefni Rikka vinar sem forritaði í Matlab án þess að vita hvort hann væri að koma eða fara í 6-7 mánuði og ekki vissi leiðbeinandi hans Palli Valdimars mikið meira. Nú er verkefnið hans Rikka í höfn en ekki tækið Ljósvaki.

Aum æfing:

- 30 mín hlaup, ca. 5,5 km
- Stuttur þrekhringur

|