28.11.03

Að höndla tilveruna og komast heill frá því

Að hafa hlutina í sér. Að höndla hluti. Að sýna umburðalyndi gagnvart hlutum sem maður höndlar ekki. Að móðga fólk ekki ástæðulausy. Að þræða fína línu. Að ögra ekki. Frelsið, það bíður upp á margt.

Það eru ýmsir hlutir í umhverfinu sem ég verð að læra að höndla betur. T.a.m. þetta neikvæða sem er liggur í loftinu eins og örbylgjur. Það er eitt sem ég hef til að mynda ekki höndlað nægilega vel á þessari önn. Ég fer ekki nógu snemma í bælið. Maður gaufast eitthvað, getur ekki sofnað, gaufast í öðru, les eitthvað, hlustar á tóna og takt og svo er klukkan orðin ég veit ekki hvað.

Það sem ég höndla ekki er ýmis konar lágmenning. En lágmenningin er svo víða – góð og slæm. Ekki það að ég falli flatur fyrir hámenningu – ég les bara held ég betur í lágmenninguna, kem úr Breiðholtinu; kannski málið. Það eru sjónvarpsþættir, útvarpsþættir og ýmis blöð sem eru að æra mig og lýðinn hugsa ég. Ég get lokað hurðinni á þetta, en hef bara ekki agann í það greinilega, eða þá að ég þarf að fylgjast með til að greina, rýna og flokka. Einstaklingurinn verður að vera samræðuhæfur, standa ekki á gati þegar hann er spurður afkáranlegra spurninga um Fólk með Sirrý. Til að geta dissað þá verður maður að hafa flissað??? Það er húmbúkkið sem fer í þær fínu. Ég hef val, ég þarf ekki að horfa. En ef ég vil bæta samfélagið, þá verð ég að vita hvað gengur á. Er okkar vandamál hefðarleysið – er ekkert mótvægi við lufsukúltúr á prenti í snápum. Er nýjabrumsþjóðin enn með vaxtaverki í ört hraðara samfélagi?

Svarti listinn í dag er hér fyrir neðan, maður veit aldrei hvort maður verði kominn á hann innan skamms.

• Fólk með Sirrý
• Herra Ísland
• Séð og heyrt
• Pravda
• Erkitýpa fasteignasalans og bílasalans sem stundar Pravda

Upptalningin er ekki byggð á vísindalegri rannsókn, hún er hugarburður og byggð á innsæi einstaklings sem kemur ekki úr sama umhverfi og Jón Jónsson , á kannski meiri samleið með Guðmundi Guðmundssyni eða Hróðmari eða Helga...
Það er málið með trendí hluti og athafnir að þær virðast hlálegar þegar tíminn hefur tekið svo sem tvö skref áfram og rúnað fortíðan eins og öldur sjávar steina. Hlutir sem fólk lifir fyrir virka fáfengilegir þegar horft er með glyrnum á atburðarás tveggja skrefa fjarlægð í tíma og rúmi. En það er bara söguskekkja. Þá er allt eins hægt að undrast á fólki að hafa ekki áttað sig á þyngdarlögmálinu – eigum við að dæma brennuvarga í Salem hart eða eigum við að setja okkur í spor viðkomandi. Er brennuvargurinn fórnarlamb. Er ekki allt krökkt af fórnalömbum fáfræðinnar. Af hverju gengur fólk í Krossinn, af hverju er til Amish fólk á 21. öldinni? Fátt er klippt og skorið, frekar heldur á gráu svæði. Við viljum einfalda flesta hluti til að gera þá auðskyljanlegri því í einfaldleikanum liggur fegurðin. Það sem er ofhlaðið er stíllaust og jaðrar við klám – ofnotkun – úrkynjun og blablabla....

Heimskur er heima alinn. Hver vegur að heiman er vegurinn heim. Sannleikur í þessu. Lagt upp í ferð á nýjar slóðir. Hvort sem umræðir úr mömmumat í ólagseldhús einhleypingsins, fríkeypis í afborganir, úr ábyrgð í ábyrgð. Þetta eru skref sem maður verður að taka til þess að komast í fullorðinna manna tölu og láta taka mark á sér í fjölskylduboðum. Ég er eitthvað seinþroska hef reynt að halda mér frá því að borga skatta en aðstæðurnar hafa leyft það.

Svo er það eitt. Hvernig væri að meta skattbyrði fólks. Ríkið leggur próf fyrir pöbulinn. Sá sem reykir, borðar óhollan mat, drekkur mikið brennivín, hreyfir sig lítið, er of stressaður, er of feitur og þar fram eftir götunum, það fólk borgar hærri skatta. Alltaf einhverjir sem komast upp með án aukaverkana en þeir eru frávik. Svo eru ýmsir þættir eins og erfðir sem geta spilað inn til að íþyngja fólki skattbyrðina. Lítið um samúð og samkennd í svoleiðis samfélagi. Ég vil setja spurningarmerki við drykkjuna. Láta hana ekki byrja tikka fyrr en eftir þrítugt. Sjö, níu, þrettán – mér finnst að ég ætti að vera skattlaus. Ætti maður að fá skattaafslátt fyrir að ganga með skilti á mér, tattúvera sig auglýsingu frá tóbaksvarnarráði, láta sponsora sig með tattúveraðri mynd frá Baðhúsinu. Allskonar fyrirtæki myndu sjá um skattinn fyrir mann. Ofantalið myndi fría mann að borga undir heilbrigðiskerfið – allaveganna yrðu greiðslur í lágmarki. Ríkið gæti komið á fót hugmyndakassa – góðar hugmyndir sem myndu auka þjóðarframleisðluna myndu lækka skatta. Ef ég kæmi með brilliant hugmynd að nýju kvótakerfi eða stórkostlega uppfinningu þá myndi ég og fjölskylda mín og ættingjar og valdir vinir fá skattleysi, kannski svona í 15 ár. Ekki mikið á móti ávinningnum. Ríkið gæti hlúð undir kvikmynda- og söngferil hæfileikafólks og myndi síðan innheimta lágmarksskatta af fólkinu, gegn því að það skipti ekki um ríkisfang eða flytti lögheimili sitt af landi brott. Margir myndu vera til í freista gæfunnar - allsherjar Idol, kannski þarf bara einn af hverjum 30 að komast eitthvað áfram. Nýsköpun í fólki. Er nokkuð hægt að fá betri starfskrafta en fólkið sjálft í að vinna í sjálfu sér fyrir ríkið. Er ríkinu kannski ofaukið. Best væri að láta einkaaðila sjá um markaðssetninguna og eina sem ríkið þyrfti að gera er að borga brúsann og fá svo skatttekjur í vörubílshlössum.
Það er ekki bara fiskurinn, það er fólkið. Við erum að þróast. Vorum í sauðkyndinni í sveitinni, fórum svo í fiskinn í kauptúnum og kaupstöðum og 21. öldin kallar á hæfileika fólksins í útlöndum þar sem afþreyingarmarkaðurinn fer ört stækkandi í heimsþorpinu. Þetta er rökrétt þróun, stærrri og stærri skref. Sauðkindin stendur fyrir orf, ljá, handafl, söltun og reykingu. Fiskurinn stendur fyrir mótorbáta, frystingu og söltun og örlítið meira hugvit en sauðkindin. Maðurinn stendur fyrir persónleika, ótæmandi hugmyndir og fjöri. Veldisvaxandi ferill.

Ef til vill á maður ekki að örvænta. Það sem maður höndlar ekki líður hjá með tímanum og annað áreiti tekur við, ef til vill bærilegra. Kannski er það sem plagar okkur að það er svo mikið í gangi að erfitt getur verið að fylla stöður vegna fámennis. Afleiðing þess er meira af lággæða efni á landsvísu en gott getur talist. Samkeppnin er holl svo fólk finni fyrir þörf til þess að bæta sig - það þarf oft að sparka í rassinn á fólkinu. Og þetta segir sá sem borgar ekki skatta.

Minnispilla. Fyrir stuttu síðan var fjallað um þróanir á minnispillu. Það væri öltimeit að geta hækkað greindarvísitölu sína. Það býður upp á svo marga möguleika. Hægt væri að fara í gegnum menntakerfið á spani og vera fullburða skattgreiðandi mun fyrr en ella.

Nóg í bili af hringsóli.

Ég biðst velvirðingar á stafsetningarvillum, ég les ekki pistlana yfir. Geri það síðar við betra tækifæri.

|




25.11.03

Tónninn hreini og sanni og skrumið


Eftir hverju leitar fólk? Tóninum eina og sanna, þeim hreina. Sumir leita ekki, aðrir vita ekki hvers þeir leita. Leitum tónsins eina. Hvernig förum við að? Leitum og leitum - við finnum hann kannski aldrei, en við komumst alltaf nær honum. Er líka ekki gott að ganga brattann þann hæsta; þegar á toppinn er komið þá liggur leiðin bara niðurávið. Klífum há fjöll. Látum okkur ekki linda hóla og fell. Sá sem kemst nálægt tóninum hreina sér falstónana skýrar. Sá sem klýfur, horfir niður og sér láglendið. Sá sem gengur ekki götuna spyr sig ekki hvort hann hafi gengið hana til góðs. Í kringum okkur er skrum sem vill festa okkur í fen, byrgja okkur sýn með móðu meðalmennskunnar.
Hvað hangir á önglinum, hver er beitan? Viljum við frægð. Ég vil ekki klýfa hóla. Frekar vil ég vera í fámenni á stóru fjalli heldur en í margmenni á litlu felli. Sá sem klýfur aðeins fell og safnar þeim eins og skurðgoðum og hampar þeim er skammsýnn maður, jafnvel nærsýnn. Sá sem er meðal fjöldans á felli fær klapp á bak og hrós, hrósin eru sem þykkar gufur. Gufur eru gegnsæjar og standa fyrir það sem ekkert er.


Þekking er vald. Ment er máttur. Þessi orð eru hvert öðru sannara. En jafnvel sá sem hefur þekkinguna á sínu valdi getur villst í þéttum skógi, vaðið í villu, villst af braut og lent í djúpum helli. Einhæf þekking á bók er ekki ávísun á tóninn hreina og leiðarvísir á mikil fjöll. Ég veit ekki alveg af hverju ég var að leita, en ég held áfram, held það sé best. Ég held göngunni áfram og slæ ekki af, til hvers að slá af; gleðin verður meiri er ég lít við þegar hærra er komið. Sá sem er óþreyttur skal halda áfram.


Þrekæfingar. Rétta hugarfarið er lykillinn að skránni. Ef maður gerir hlutina áreinslulaust þá er það vegna þess að maður hefur gert þá svo oft að maður hefur ekki tölu á þeim. Einbeittu þér og láttu ekki sjóngervingarmenn slæva dómgreind þína. Í rauninin er ekkert ókeypis. En sá sem viðhefur meðalmennskuna á lausnarorðið - ókeypis. Láttu ekki glepast, ekkert er gefið og ferð án enda er ferð sem vert er að fara í.

|




20.11.03

Hjólið

Undanfarna daga hef ég verið að renna í gegnum pistla Jónasar Kristjánssonar ritstjóra með meiru á jonas.is. Upplýsingin liggur víða en hverju eigum við að treysta. Gott er að hafa höfuðáttirnar á hreinu og snúa áttavitanum rétt. Maður veit hvar Jónas stendur nokkurn veginn, en leiðarar hans er kjarnyrtir og gaman oft að lesa gagnrýnina. Tek fram að fleiri netmiðlar eru lesnir af og til, en lesningin kemur í skorpum því ég geri þetta ekki af skildurækni. Jónas leitar víða fanga og fylgist vel með hvað er að gerast í kringum okkur. Ég hef nýtt mér nettilvitninar hans - mæli með því.

Páfagarður maldar í móinn.

Ég las það í grein og hef einnig heyrt þess getið í útvarpinu að vísindaráð Vatíkansins sé ekki nógu ánægð með smokkana sem framleiddir eru víðsvegar á jarðkringlunni - ráðið segir þá gegndræpa - það séu göt á þeim og þeir séu ganglausir gegn smitsjúkdómum. Ráðið segir FDA ekki fara með rétt mál þegar FDA segir að vísindalegar prófanir sýni fram á gangsemi smokksins. Vatíkanið talar um samsæri. Veit ekki hverjir skipa vísindaráðið þar syðra - kappar í kuflum. Eins hefur páfi ekki viljað leggja lið við spornun offjölgunar mannkynsins. En Vatíkanið er á Ítalíu þar sem fæðingartíðni hefur verið einna lægst síðastliðin þrátíu ár. Kirkjan skítur sig í fótinn, segir fáfróðum íbúum þróunarlanda að getnaðarvarnir séu gagnslausar - það eina sem fæst út úr því eru fleiri börn og einnig fleiri munaðarlaus börn. Í grein í Gurdian er tiplað á ýmsu sem gleymdist að minnast á þegar 25 ára stólsetu páfans var minnst. Honum er talið til tekna að hafa barist gegn kommúnisma en sagður fullþröngsýnn gegn samkynhneigðum, getnaðarvörnum og offjölgun mannkynsins. Svo hefur enginn páfi tekið fleiri eintaklinga í dýrlingatölu en JPII.

Því er einnig svo farið að enginn fer í kirkju meir því við Vestur-Evrópumenn erum trúleysingjar, auk þess við höfum annað betra við tímann að gera. Fólk fær betri útrás við það eitt að taka léttann stífluhring. í London er því þannig háttað að meira en helmingurinn af kirkjugestum eru innflytjendur frá Afríku og Asíu, þrátt fyrir að vera tæplega fjórðungur íbúa.

Í annarri grein í Gurdian er Tony Blair gagnrýndur fyrir vináttu sína við Úsbeka. Úsbekar létu bandamönnum í té flugvelli í baráttu sinni við Talíbana. Í staðinn fengu þeir vopn og frið til þess að fara sínu fram og brjóta mannréttindi. Það viðgengst í Úsbekistan að höggva fingur, fjarlægja rifbein og sjóða fólk lifandi. Einstaklinga sem hafa til þess eins unnið að vera ekki réttrar trúar.
Einnig var grein í Gurdian þar sem fjallað var um þagmælsku Bush gagnvart mengandi iðnaði. Bandaríkjamenn menga mest en þeir skella skollaeyrum við niðurstöðum vísindarannsókna - segja vísindamönnum bara að rannsaka aðeins meira og fresta gerðum samningum sí ofan í æ.

Ég mæli með Jónasi.

|




18.11.03

Gamalt perónuleikapróf

EXPERIMENTER
(Dominant Introvert Abstract Thinker )

http://test3.thespark.com/person/person.cgi

Like just 4% of the population you are an EXPERIMENTER (DIAT). Although you're slightly shy (admit it!), you love control. When a problem comes in your way, you stomp on it swiftly and decisively. You are bothered easily by failure in others and failure in yourself. You don't like people that you don't think are intelligent. Rather than arguing with them, however, you would just as soon ignore them altogether.


Jæja, þá hafið þið það. Þeir sem ég matsa við eru Arnar Arinbjarnar, já hann er sá eini. En ég tók massapróf á msn. Þeir hafa ógurlega stefnumótaþjónustu, en nóg um það.

|




11.11.03

Af því sem ekkert er og metrómaðurinn

Eru engar fréttir góðar fréttir eða eru slæmar fréttir betri en engar? Tíminn líður og stöðnun er sama og afturför, sumir segja dauði. Held það sé ekki of gott að staldra of lengi á sama stað - til að halda sér á tánum er tilbreyting nauðsynleg og ef maður ætla að halda sér á sama stað er nauðsynlegt að krydda tilveruna. Hvað er í deiglunni? Tíminn hann er trunta með tóman grautarhaus. Það var grein í Fréttablaðinu um samtímamálefni - um heterósexual karlmenn. Karlmennskuímyndin er að færa sig upp á skaftið. Hef rætt um þetta málefni áður. Tískuframleiðendur og blaðasnápar skara eld af kökunni og gera pjöttuðum snyrtipinnum hátt undir höfði. Las grein í Mogganum í dag þar sem hálfsjötugur verkfræðingur velti því fyrir sér hvað ætti nú að koma næst á eftir lögsóknum krabbameinssjúkra reykingarmanna í BNA. Hann sagðist vera feitur reykingamaður. Hann sagði að eins og börnin þá hefði fullorðna fólkið það eftir sem auglýsingarnar segðu því; nýir bílar; ný föt; skyndibitar o.s.frv. Hví ekki að lögsækja McDonalds, KFC og snakkframleiðendur segir verkfærðingurinn roskni. Ég er engin undantekning, get verið heltekinn af neyslunni, væri jafnvel harðari ef auravöldin væru meiri. Ég þrái neyslu og hún veitir mér fyllingu. Kannski er maður ekki fullnægður og leitar fyllingar í einhverju til að bæta sér upp fyrir eitthvað annað. Ég er áhugamaður um leppa - fataleppa og umhverfið og samtímann, svo er ókeypis tónlist á neti sem heillar einnig. Frelsið getur verið erfitt að höndla, maður verður að vera sterkur á svellinu. Frelsinu fylgir tíðar ákvarðanataka um eiginn hagi, hvenær á að beygja til hægri, hvenær vinstri og hvenær á að halda rakleiðis áfram - mest um vert að ganga ekki af velli og hætta við að klýfa vegginn sem er framundan.
Eitt sinn var bara opið til þrjú um helgar, nú er opið langt fram undir morgunn og ég þarf oft að ákveða hvort fara skuli heim snemma eða seint, þar sem skilningarvit mín eru oft trufluð um þetta leiti þá vel ég seinni kostinn sem er oftar en ekki síðri fyrir mann í minni stöðu. Þessi ákvörðun veldur oft frekari ölvun sem aftur leiðir til þess að ég læri minna en ella þar sem sá dagur sem morguninn ber í skauti sér fer forgörðum.

Prótótýpa metrósexúal kalmannsins sem nefndur var til sögunnar í Fréttablaðinu er vel til hafður, vel heima víða, er piparsveinn, á nóg af aurum, býr í þakíbúð í stórborg, hefur aðgang að öllum helstu klúbbum/líkamsræktarstöðvum/hárgreiðslustofum og er ákaflega hrifinn af sjálfum sér - má lýsa honum best sem sjálfkynhneigðum enda ósköp sjálfhverfur. Sem dæmi um metrósexual kappa eru nefndir Bill Clinton og Johnny Depp sem skólabókardæmi. Metrósexual karlmaðurinn ræktar hina kvenlegu eiginleika í fari sínu. Ný mörk hafa verið sett. Svo eru nokkrir Íslendingar nefndir til sögunnar, meira að segja Bubbi. Stutt viðtal er við Pál Óskar og Arnar Gauta. Arnar Gauti var eftirminnilega tekinn í þurrt taðið í grein í Stúdentablaðinu fyrir ca. þremur árum eftir viðtalsgrein í Fókus sem birtist við hann, þar dásamaði hann ljóðalestur, spjall við vinkonur og sitthvað fleira. Einnig sagði hann að karlmenn ættu að dekra meira við sjálfa sig. En þegar ég lít á hina íslensku metrómenn (menn í góðum tengslum við hommann í sér) þá detta mér í hug hulstur - hulsturskappar. Við viljum að innihaldið endurspegli ytri myndina, en hjá hulstrum er ímyndin, ytra byrðið innihaldið. Ef við spáum örlítið í þetta þá getur verið að togstreita hins íslenska karlmanns við metrósexúalisma sé jafnvel meiri en annarsstaðar. Lífstílsblöðin hampa honum og birta myndir af fyrirliða metrómanna í hvívetna; David Beckham. Eflaust er ég engu skárri en ofantaldir menn, en flestir þeir sem gengið hafa menntaveginn að einhverju ráði hafa sogað í undirmeðvitund sína Íslendingasögurnar. Þar eru í heiðri höfð ákveðinn gildi og menn eins og Egill, Skarphéðinn og fóstbræðurnir settir á stall sem boðberar karlmennskunar og þess sem verðugt sé að berjast fyrir; heiður; heiður; heiður; heiður. Hver er heiður metrómannsins? Er heiður metrómannsins vel greitt / úfið hár eða að bíða ekki í röð. Egill og Skarphéðinn voru þeir sjálfhverfir? Nei, metrómaðurinn hefði aldrei brunnið inni með foreldrum sínum. Metrómaðurinn hefði haft spegil fyrir framan sig þegar hann, eins og Egill ygldi brúnir eftir fall bróður síns í Vínheiðarorrustunni 1014. Ofannefndir fornkappar eru eflaust dæmi um testósteronhlunka, hvað þá með Gunnar. Gantast hefur verið með það og einnig hafa verið skrifaðar lærðar greinar (veit ekki með fleirtölunar) um kynhneigð Gunnars. Gunnar og Njáll, hvernig var vinfengi þeirra háttað? En greinin segir metrómanninn kominn til að vera, metrómaðurinn hefur læðst að okkur, hann sameinar mjúka manninn og harðjaxlinn. Til sögunnar í greininni er nefnd bandarísk könnun sem leiddi það í ljós nýja kynslóð manna sem sjá ekkert athugavert við það að hrófla við gamalgróinni karlmennskuímynd og gera það sem þeir vilja, kaupa það sem þeir vilja og njóta þess sem þeir vilja án þess að hafa áhyggjur af því að hegðun þeirra þyki ókarlmannleg. Ætli við eigum eftir að líta þann dag að fálkaorða verði veitt metrómanni, manni sem endurspegli metróið og hafi verið hampað fyrir það að lyfta metróinu á einhvern stall? Veit ekki.
Það er ljóst að það er verið að toga karlmanninn til og frá, fyrst Bubbi er orðinn metrómaður þýðir þá að streitast við fyrir meðalmanninn. Kannski er enn einum þroskaáfanga náð í þroskasögu karlmannsins. Ef við teljum upp helstu karlfyrirmyndir eða frekar kvennagull 20. aldarinnar svo sem James Bond, Pablo Picasso, Rudolph Valentino, Gary Cooper, Johnny Weissmuller, Bing Crosby, Errol Flynn, Frank Sinatra, Elvis Presley, Marlon Brando, James Dean, John F. Kennedy o.fl. o.fl. annálaðir snyrtipinnar eða svona hér um bil.

En hverjar eru forsendurnar fyrir því að verða allt í einu metrómaður. Fyrrnefndur Arnar Gauti dásamaði eitthvað sem á að vera góð eftirbreytni. Hvernig get ég gert þetta að mínu ef ég er þurs. Fæ ég þá fyllingu út úr þessu ef holningin á mér er ekki sú sama og á gegnumsýrðum metrómanni. Hef ég það bakland og bakgrunn sem þarf til að gerast metrómaður. Ef ég geng skrefið til fulls er ég þá ekki tómt hulstur, er ég þá að afneita arfleið minni og uppruna mínum. Hafði Arnar Gauti það sem til þurfti, geta holt umhverfi og glysljós á Íslandi skapað fullburða metrómann. Veit ekki. Pabba finnst ég allaveganna kominn með allt of mikinn lubba, en strákarnir í blöðunum eru líka með lubba, hver hefur á réttu að standa - er eitthvað rétt og rangt.

Það sem við teljum sem fasta er eitthvað sem er á sífelldri hreyfingu og tekur breytingum frá tíma til tíma. Tímarnir breytast og mennirnir með, en breytingarnar er svo hæggengar að við tökum vart eftir því nema þegar litið er um öxl, þá kemur í ljós að þónokkur spotti er að baki. Það sem hefur einnig haft áhrif á þessa þróun og er samtvinnuð henni er kvenréttingabaráttan. Einnig hefur skemmri vinnutími sem gefur rýmri tíma til frístunda og hugsunar gefið mönnum færi á að athafna sig frekar í frítímanum. En altént þá verður metrómaðurinn ekki flúinn og hann sogast inn í undirmeðvitund okkar án þess að við verðum varir við það. Er metró kominn til að vera?

Ég byðst velvirðingar á stafsetningarvillum, þar sem ég nenni ekki að lesa pistilinn yfir, geri það seinna.

Lfið heil.

|