27.10.06

Tíminn og sjálfið

Tíminn hann er trunta, með tóman grautarhaus... óstöðvandi hjól sem segir til um hvað er og ekki. Gæti malað út í eitt á vefnum en tíminn hann er takmarkaður. Líka spurning um hvernig maður lætur hvað frá sér fara.

Þegar ungmenni á aldrinum ca. 9-15 ára verða á vegi mínum og ég tek þau tali draga þau ýmsar ályktanir. 9 og 15 eiga kannski ekki margt annað sameiginlegt annað en að vera í grunnskóla, barn – unglingur. Er spurður hvort ég sé leikari, söngvari, poppari, jafnvel rithöfundur eða tali inn á teiknimyndir. Þegar ég vann hjá ÍTR komu upp spurningar á fjöldasamkomum þar sem ég var spurður “í hvaða hljómsveit ertu, ég kannast svo við þig”, einhver hélt ég væri Jói Fel.

Er ekki enn orðinn leikari, ekki í poppbandi, ekki rithöfundur en allt getur orðið... vinna, vilji, vinna og aftur vinna eru að megninu til lykilorðin. Tíminn líður, einn fasi tekur við af öðrum. Maður smíðar sín eigin örlög. Maður undirbýr jarðveginn því ekkert blóm blómstrar í hrjóstrugum jarðvegi þótt þess séu nú reyndar dæmi. En örlög þeirra er að blómstra skjótt en láta svo undan veðri og vindum.

Flest höfum við hæfileika til að sinna margþættum hlutum. Sá sem hlustar á tónlist og hefur vott af ágætis tóneyra og tilfinningu getur líkast til samið einhverja tónlist. En við erum framlenging og endurómur þess sem við heyrum, gerum, sjáum og lærum. Það endurspeglar okkur. Þannig að sú tónlist sem ég hefði samið fyrir 5 árum verður ekki samin núna, ég hlusta ekki á sömu tónlist að öllu leiti og þá og eru því ósamin tónlist og meistaraverk að eilífu glötuð. Einnig hefði sú tónlist mögulega komið mér í annan farveg og jafnvel verri hlustunarlega en er í dag. Þ.a. meistarastykki morgundagsins lét kannski bara bíða eftir sér með það í huga að uppsöfnuð áhrif kæmu í ljós, ekki fyrir 5 árum, heldur á morgun.

Hroðvirkni er slæm, gott að hafa bakvið eyrað orð Björns í Brekkukoti að ekkert verk er verra en það sem illa er unnið.

|




17.10.06

Hef ekkert að segja

Þá er súrrealískri helgi lokið, segi ekki meira. Festival í tjaldi sem hópefli með Tödda, systur og fleirum og keila með einbeitingu er ágæt. Svo var mér boðið í skírn með 13 tíma fyrirvara. Var glaður í meira lagi á föstudaginn og fékk þá gleðilegu upphringingu að ég ætti að mæta í skírn, það er vel. Jæja, mætti hress og át og sá fallega stelpu með gott nafn.

En Beck Hansen er bara mitt kaffi. Er að hlusta á The Information, hans nýjasta grip. Ég segi bara amen. Sem áhugamaður um Burt Bacharach, Bítlana og fleiri tónlistarmenn þá fellur þetta að mínu hjarta. Ármannsfundur fór vel. Já, fór það vel að afar lítinn tíma tók að manna fjáröflun/teppalagningu. Hefur ekki gerst áður.

Bíllinn er endurfæddur eftir meðhöndlun Georgs Árnasonar. Ég sem var búinn að vera með hellu við akstur og háan púls, bíðandi eftir því að hjól hyrfi undan bílnum út í móa, ég sem vissi ekki hvort næsta ökuferð yrði sú síðasa. Þessir dagar eru liðnir í bili.

Bíð eftir kaldara veðri svo ég geti farið að rifa nýja larfa úr fataskápnum.

|




6.10.06

Ævintýri eða martröð

Veit stundum ekki hvort ég lifi í ævintýri eða martröð, það kemur í ljós. Munurinn á ævintýri og martröð er oft ekki mikill þannig séð. Ævintýrin enda vel en martraðir illa, svona í stórum dráttum. Bíllinn minn, þessi Bláa þruma, er eitthvað að hiksta. Vélin gengur eins og í sögu reyndar en aðrir þættir eru eitthvað að gefa sig eins og gengur og gerist. Ég trítlaði mér út í bíl eftir vinnu í bankanum og stefna var sett á bókasafnið. Stíg ég upp í bílinn og þeysi af stað, á 40 km/klst hraða niður að Rauðárstíg ætla ég að hægja á bílnum en ekkert gerist, hann er bremsulaus með öllu og ég næ með hraði að gíra djöfulinn niður og beygja inn á gangstéttina hjá Utanríkisráðuneytinu rífandi í handbremsuna þar sem bíll þaut framhjá, hefði endað í hliðinni hefði ég ekki hugsað þessa sittjúasjón fyrir áður eða eitthvað. En þetta var á mánudaginn og ég er hættulegur í umferðinni, gírandi niður – hálf stressaður að lenda á rauðu ljósi. Eina ráðið að gíra niður og nota handbremsuna. Jæja, bíllinn verður lagaður á laugardaginn. Í vikunni þar á undan hélt ég að vinstra framhjólið ætlaði undan bílnum, stoppaði á föstudaginn á ljósum því fákurinn komst hvorki lönd né strönd. Bakkaði eilítið og hann skrölti svo áfram með þvílíkum klingjum og skrumhljóðum, svo var hert á hjólalegunni heima. Talandi um það. Ég var stöðvaður af gæsum (löggum) þegar nokkuð var liðið af nóttinni eftir veru á bókasafni, dæmaskil í gangi. Var eitthvað að hnoða ipod í eyrað og brunandi á 90 km/klst á Miklubrautinni framhjá Lansanum og ökulagið örlítið skrykkjótt. Tek ég eftir því að bíll er hliðina mér og það gæsir, hægi á mér og glotti. Vagninn náttúrulega nokkuð óhrjálegur enda ekki sléttur flötur á honum, hef viðkvæðið ein beygla til eða frá skiptir ekki máli. Löggan hægir á sér og setur blikkljósin á. Jæja, ég í offorsi fjarlægi ipod-inn og bíð þess sem verða vill út í vegakanti. Gæsin kemur og segir ökulagið hafa verið skrykkjótt, spyr mig hvaðan ég hafi verið að koma; safnið. Hann undrast nokkuð á því og spyr mig hver hámarkshraðinn sé, segi hann 80 km/klst – hann er víst 60. Jæja, ég sýni ökuskírteinið og fæ svo að halda leiðar minnar áfram. Til að bæta gráu ofan á svart það rigndi mikið á þriðjudaginn. Bíllinn var víst fimm á á verkstæði norðan heiða og þegar gert var við hann og honum ekið suður nýuppgerðum í seinni jómfrúarferð kaggans var honum velt hálfa veltu í snjó. Þruman var eitthvað hálf beygluð þegar ég keypti hana, ég og kallinn kíldu toppinn upp en eitthvað ólag er greinilega á honum því í miklum rigningum lekur hann og nú sem aldrei fyrr á þriðjudaginn. Ökumannsætið var alblautt að morgni miðvikudags og ég sit því á símaskrá þar sem sætið er ekki enn þornað.

Vona að vikan endi vel, laus við aftanákeyrslu... gíra sig niður í eiginlegri sem óeiginlegri merkingu.

|