30.1.07

London – París – Róm

Hví ekki að byrja færsluna á orðum Páls Óskars. Reyndar verður þetta Amsterdam – Brussel – Köln – París – Antwerpen eittthvað...
Bogi vinur minn segir Belga sérstaka. Á fimmtudaginn fer ég út og hitti hann og Ólafíu og þá kemst ég að raun um hvort rétt sé. Ásgeir Sigurvinsson sagði í bók sem ég keypti á bókamarkaði árið 1986 að Belgar séu rómaðir fyrir góða matargerð. Jæja, ég mun kynnast Brussel, litið verðu við í Köln á sunnudaginn þar sem úrslitaleikir HM í handbolta fara fram. Ekki verður staðar numið þar heldur brunað með lest til Parísar og dvalið tvær nætur uns haldið er á ný til Belgíu. Jæja, nokkrir kílómetrar framundan.

|




25.1.07

Þrjár ræmur

Ég hef sjaldan eða aldrei farið þrisvar í bíó á fjórum dögum, en það gerði ég nú í vikunni. Að fara á góða ræmu getur jafnast á við það að fara í leikhús, þ.e. um virkilega upplifun er að ræða. Jæja, sá Children of men á sunnudaginn, Little Miss Sunshine á þriðjudaginn og Babel á miðvikudaginn.

Babel er mest fyrir augað. Ég er fyrir hægar myndir þar sem myndin líður áfram og þú bíður þess sem verða vill. Ég vissi ekki hvernig myndin endaði en bjóst við því að þrátt fyrir að trúarbrögðin sem sundri fólki, þá sé alltaf von og það sammannlega bindur okkur saman og á erfiðustu stundu þá vinnur fólk ólíkra trúarbragða og siða saman að einu markmiði. Miskunnsami Samverjinn er víða. Myndin segir að það sé von þrátt fyrir að heimur versnandi fari. Leikstjórinn mexíkóski hefur trú á mannkyninu enda kemur hann úr suðupotti þar sem auður er misskiptur og stutt er öfganna á milli.

Little Miss Sunshine er meira fyrir eyrað. Fyndinn ádeilumynd um efni sem ég hef malað um á vef. Í myndinni speglast tilgangsleysi svona gripasýninga í landinu þar sem þær eru hafðar upp á stall og látnar sýnast eitthvað annað en þær eru. Það sem sundrar fjölskyldunni bindur hana svo saman og öfgarnar spegla fyrir fólkinu það sem raunverulega skiptir máli – eining fjölskyldunnar og það að horfast í augu við lífið eins og það er en ekki sem einhvern umbúðapappír utan um falsgoð og ytri byrði mannsins.

Children of men er á kunnuglegum slóðum. Framtíðarmynd sem fjallar um verndun vonarinnar og hana sjálfa. Hún segir frá hetjunni og strögli hennar við fáránleikan og hvernig röng gildi geta leitt okkur út í ógöngur. Myndin er einnig gagnrýni á heiminn sem við lifum í, sérstaklega BNA og öryggisráðstafanir og stefnu sem fylgt var eftir 11. september. En eins og í fyrrnefndu ræmunum þá segir þessi okkur að með rétt gildi að leiðarljósi þá sé von og það sem sundrar okkur sameinar okkur að lokum.

|




11.1.07

Endajaxlar

Systir mín spurði mig á myspace hvort ég hefði verið að missa endajaxla. Svarið er já en það var fyrir 12 árum sem tveir þeirra voru brottnumdir, hefði annars skakka línu tanna í neðri góm. Annars er það svo að þeir endajaxlar eru í óeiginlegri merkingu nauðsynlegir. Yngra fólk (get svo sem talið mig til þess) notar vígtennurnar (augntennur) til að ráðast á viðfangsefnin en skortir e.t.v. þrautseigju til að melta fæðuna í munninum sem er nota bene fyrsti hluti meltingarfasans. Þeir yngri rífa viðfangsefnið á hol með vígtönnunum en spýta svo aftur því sem í skoltinum er út úr sér og leita að nýrri bráð. Með árunum og rúnast svo tennurnar til og bitið verður slappara, þá verður einstaklingurinn að kjamsa á bráðinni með jöxlunum og það gefur betur þar sem hann veltir og meltir og notar tunguna til að ákveða hvort fæðan eigi heima utan búks eða innan.

Systir hefði frekar getað spurt: “Eru vígtennurnar eitthvað bitlausar”. Endajaxlarnir “are going strong” frekar. Þessir tveir sem ég er með eru enn á sínum stað og ekki á förum. Er systir mín að ýja að því að ég velti viðfangsefnum mínum ekki nægjanlega vel fyrir mér og gleypi óhugsað við því sem ég hrifsa til mín?

|




6.1.07

Ótrúlegt....

Símanum mínum var hnuplað úr vasa mínum á 11-unni. Ég var ekki búinn að gera back-up í heilt ár. Þið komið mér þá á óvart sem hringið í mig...

? broskall.. Satan...

Þetta verður erfittt.

|




3.1.07

Nýtt ár, nýtt... ný hugleiðing

Nú þegar nýtt ár er gengið í garð er ekki úr vegi að líta yfir farinn veg og spyrja sig spurninga. Hefur sálin eitthvað braggast, hefur ljóstýra komið og farið og speglað sál mína og litið inn í áður ólýsta kima. Er svo?
Með vefskrifum gefur fólk oft brot af sér, misstór þó. Ekki þýðir að klifa eilíft á sömu brotunum því lesandi nærist ekki á endurtekningu þótt sama stefið sé eflaust raulað í flestum pistlum. Stefið er rauði þráðurinn í lífi viðkomandi, gildi skrifandans í óræðum heimi sem flýtur, er ekki fastur, er á sífelldri hreyfingu, ekki eins í dag og í gær og enginn veit hvernig hann verður á morgun.
Ég hef varast það að gefa of ljósar upplýsingar um sjálfan mig sem gætu á einhvern hátt svift hulunni af mér – gert mig berskjaldaðan gagnvart lesandanum. Samt er það svo að því betur sem lesið er, því betur sem lesandi þekkir mig, því oftar sem hann hefur hitt mig, hlustað á mig og þekkt mig lengur því skýrari er myndin af mér í hugskoti hans. En það er ekkert öruggt í þeim efnum. Einstaklingar lesa sama textann og leggja allir mismunandi skilning í hann, þannig eru dægurlagatexta, lögin og mannfólkið. Höfundurinn einn veit hina raunverulegu merkingu.

Hvenær skilur þú einhvern til hlítar? Er gott að skilja einhvern til hlítar. Þegar þeim áfanga er náð er ekkert eftir nema að þegja saman. Því þegar tveir einstaklingar skilja hvorn annan út í hörgul er til lítils að ræða saman, þú veist alltaf hvert svarið verður við spurningunni sem þú leggur fram. Úrslit leiksins eru ljós áður en hann er leikinn.

Við rúmum svo margt. Tilfinningar og hugsanir, sagt og ósagt. Myrkrið er þarna líka en því er sópað undir mottu, meðvitað frá blautu barnsbeini. Myrkrið sem við búum yfir er líka svo eyðilegt. Auðn sem ristir djúpt en rákirnar eru lokaðar öllu jöfnu en opnast við og við eftir straumi og stefnu orðsins sem tjáir skilning þegar tvö augu mætast - brýtur ísinn og gefur eitthvað til kynna, upplýsir eitthvað eða allt þar á milli. Eftir að rákin er opnuð er henni lokað jafnharðan en er ekki sú sama, rétt eins og engir tveir bindishnútar eru eins.

Heimurinn er ekki svarthvítur, það lifir enginn í einni vídd, það ríður enginn við einteyming. Einn maður er margir menn. Það fer eftir því hvaðan ljósið skín á demantinn hvaða ásjónu þú færð á hann. Þannig erum við. Þannig er ég. Hver hefur sinn djöful að draga, en oftast lúrir hann undir mottunni þar sem honum var sópað síðast. Er ekki spennandi að eiga einhvern djöful, það kemur róti á hugann og við leiðum hugsanir út á nýjar lendur, þurfum að takast á við mótsagnir í okkur sjálfum og ef við eigum ekki einhverja lausn, þá finnum við bara nýja. Skoðun er bara góð og gild þar til við finnum aðra betri.

Þetta með myrkrið. Í paradís er beikon, hamborgarahryggur og jólaöl etið og drukkið. Líkamsrækt stunduð án strengja. En verðum við ekki bara einhverjir sjálfhverfir biskupar ef við lifum í sífelldu ljósi. Er ekki óráðssía að segja skilið við myrkrið og læsa það endanlega í dýflissu þar sem það á ekki afturkvæmt. Verðum við ekki skynlausar verur án þess.

Ég held að myrkrið sé jafn nauðsynlegt og nótt sé degi. Bara tóna hlutföllin aðeins til, maður er alltaf minnsta kosti einni gráðu hressari á sumrin en á veturna. Haga þessu bara eftir þörfum. Í paradís held ég að myrkrið banki reglulega á gluggann. Held það sé gert þannig að tveimur tylftum af mönnum sé skipt í lið og látin spila eitthvað limbó, jafnvel fótbolta. Eftir eina umferð er stigalægsta liðinu fleygt niður til heljar, helvíti, Bagdad... svo að nokkrum tíma liðnum er spiluð ný umferð. Þú skorar e.t.v. ekki með því að skjóta sláin inn, heldur með handfylli af manngæsku. Ef þú ert einhver Saddam þá gengur þetta lítið og þú ert dæmdur til neðri vistar um óákveðinn tíma, e.t.v. færðu rauða spjaldið. Eftir ítrekuð rauð spjöld endar þetta allt máske með eilífri vist í neðra. En getum við ekki bara kallað þetta jafnvægi. Er þetta er ekki jafnvægi? Svona heppilegur meðalvegur sem sumir þræða fyrir ofan og aðrir fyrir neðan, lífið í hnotskurn.

Ég ætla að reyna að skora grimmt á nýju ári. Ég geri mitt besta og verð vonandi sáttur við sjálfan mig eftir 12 mánuði. Hver vegur að heiman er vegurinn heim. Þannig að ári loknu verð ég kominn nær kjarnanum í sjálfum mér og orðinn meiri ég. Eins og í frjálsum, æfingin skapar meistarann, því fleiri hringhlaup því betri ertu að hlaupa hringinn.

Rétt eins og hóran í Forrest Gump sagði þegar nýtt ár gekk í garð: "Everybody gets a second chance". Þú byrjar aldrei alveg á núlli. Þú tekst á við nýjar ögranir með liðna reynslu í farteskinu. Á þann veg einan byggir þú nýja hæð ofan á húsið.

|