29.9.04

Af Mr. T

Ef ég hugsa til baka og nefni þann blökkumann sem stendur einna helst upp úr minningunni frá því ég var svona 10 ára, þá verð ég að nefna Mr. T. Það var bara eitthvað við þennan garp. Ég átti He-Man kalla og hann var alveg jafn massaður og þeir og ákaflega ákveðinn í fasi. Mr. T fæddist árið 1952 í gettói í Chicago, næstyngstur 12 systkyna. Pabbi hans yfirgaf fjölskylduna þegar hann var 5 ára. Mr. T var meðalnemi en að eigin sögn stundaði hann einkum dagrauma í skóla en það sem bjargaði honum var ljósmyndaminni. Hann komst ekki í kast við lögin því hann vildi ekki valda móður sinni vonbrigðum því hún var og er trúuð kona með einsdæmum.


"Langar þig í gullkeðjur? Fylgdu þá minni hjörð"


Mr. T giftist Phillys Clark árið 1971 en þau skildu. Garpurinn á þrjú börn í dag, Lesu, Eriku og T yngri. Önnur störf sem Mr. T hefur fengist við fyrir utan fjölbragðaglímu ásamt Hulk Hogan, A-Team þáttinn og kvikmyndaleik eru einkaþjálfun, herlögreglumaður, útkastari og lífvörður. Mr. T fékk skólastyrk til að nema í háskóla en var rekinn eftir ársdvöl. Mr. T greindist með krabbamein árið 1995 en hafði sigur 6 árum síðar - hvað annað. Kappinn stundar heilsusamlegt líferni og drekkur ekki og klæðist gullkeðjum sem fyrr eins og bróðir sinn Isaac Hayes.


"Ég tek alla sjómenn í sjómann - hef þykkan arm."


Mr. T fer sínar eigin leiðir og eitt sinn felldi hann öll tré á 100 ekru á landi sínu í Illinois, nágrönnum sínum til mikillar gremju. Í kjölfarið voru sett lög sem banna borgurum að höggva tré án leyfis, jafnvel á þeirra eigin lóð.

Mr. T hefur verið reglulegur gestur hjá Conan O'Brien. Annar vegsauki sem T hefur hlotnast er að hafa tvisvar verið valinn harðasti útkastari Bandaríkjanna.

Hér fyrir neðan eru nokkrar fleygar setningar sem Mr. T hefur notað og notar við hin ýmsu tækifæri:

"I am the best bodyguard, because I'll take a bullet, I'll take a stab wound, I'll take a hit upside the head; I'm like a Kamikaze pilot; The President got shot because his men relaxed." - Mr. T, septemberhefti Playboy, 1983.

"I believe in the Golden Rule - The Man with the Gold... Rules."

"I pity the fool..." [aðalsetning]

"When I was growing up, my family was so poor we couldn't afford to pay attention."

"As a kid, I got three meals a day. Oatmeal, miss-a-meal and no meal."

Þess má geta að í skoðanakönnun sem BBC gerði skoðanakönnun á því hvað Bretum þætti vera sá Bandaríkjamaður hefði haft mest áhrif í sögunni og var Mr. T valinn fjórði á eftir Homer Simpson, Abraham Lincoln og Martin Luther King jr. Þannig að Mr. T skiptir máli.

|




28.9.04

Blaðburðardrengur kynnist þungum hníf...

Það býr ekkert að baki þessari fyrirsögn, en ég vil samt greina frá ótrúlegri atorkusemi blaðburðardrengsins sem ber út Fréttablaðið á Oddagötuna virka daga. Það getur ekki verið sami aðilinn sem ber það út virka daga og um helgar því blaðið á það til að koma um helgar, svona einu sinni til tvisvar. Það liggur við að ég sitji fyrir blaðburðardreng og vakni snemma og vakti götuna milli sjö og níu. Síðustu sjö vikur hef ég fengið blaðið átta sinnum, og hef ég hringt sjö sinnum upp á Fréttablað og tilkynnt um afköst blaðbera. Spurning hvað ég geri við blaðberan, á ég að skvetta ediki á hann eða skola hann upp úr brúnsápu, veit ekki. Nú er ég farinn að verða argur út í þetta satans fréttablað, keðjan er aldrei sterkari en veikasti hlekkurinn. Get nú varla verið með mannalæti, þetta er ókeypis, en það er til lítils að framleiða blað sem enginn fær.

|




23.9.04

Súrt líf - Ísland, a.k.a. Surreal Life - VH1

Á sjónvarpsstöðinni VH1 er í gangi þátturinn Surreal Life. Persónur og leikendur í þættinum leika sjálfa sig, enda raunveruleikaþáttur. Flavor Flav úr Public Enemy, Brigitte Nielsen (sílíkon og x-Sly) og Jordan Knight x-smástirni eru þarna. Fólkið í þættinum hefur náð ótrúlegri persónuleikaþróun í gegnum frægðina. Svona fólk færðu ekki af götunni. Einstaklingarnir hafa þróast með frægð sinni, í gegnum sætt og súrt hefur það orðið algerlega veruleikafyrrt og þráir nú áframhaldandi frægð fyrir nokkra krónur. Fólkið elskar að vera milli tannanna á fólki og stendur sig bara vel. Flav og Birgitte eru að slá sér upp og Birgitte striplast á sílíkonjúllunum sínum, þær eru blurraðar, enda þátturinn í BNA. Kannski sjást þær í Frakklandi ef þátturinn er sýndur eftir 22 á kvöldin. En kannski ekki, má vera að VH1 hafi hræðst málskókn Stéttarfélags lýtalækna Kaliforníu, BNA því framparturinn á henni er ekki góð auglýsing og eflaust orðinn sorglegur enda stórt fals og erfitt fyrir húðina að þola svona þungt gerviefni til lengri tíma, húðin missir víst teygjanleika sinn með aldrinum (staðbundið slit) – eflaust er hún búin að skipta nokkrum sinnum um innihald og svona, jæja nóg af þessum útúrdúr. En það er bara allt að gerast í þáttunum og eins og svo oft sannast þá er veruleikinn ótrúlegri en skáldskapurinn.


Brigitte Nielsen og Flavor Flav í faðmlögum.


En hef leitt hugann að því hvernig væri að hnoða saman íslenskri útgáfu af þessum þætti. Gott væri að nefna hann Súrt líf, finnst það réttari útlegging en súrrealískt líf. Finna þyrfti einstkalinga sem voru eitt sinn millifrægir eða ekki frægir fyrir neitt. Því hinir sem ná ekki á toppinn en reyna að drýgja frægðina með geflum, setu í karlablöðum og asnastrikum hafa e.t.v. minna milli eyrnanna heldur en þeir sem ná á tindinn, en veit ekki – bara vangaveltur. Þetta er ekki algilt – ljóst að Flav var tímamótapiltur í tímamóta grúppu og fyndinn með eindæmum. Íslenski þátturinn mætti ekki vera hrein eftiröpun, enda íslenskur raunveruleiki ekki sá sami og í Stjönuheimi (Hollywood).


Brigitte ekki banginn að fara á bak Sörla


Ég er með nokkra kandítata. Einstaklingarnir verða að hafa verið hluti af íslenskum samtíma og skipt okkur sköpum fyrir svona 15-20 árum. Ég myndi sjá fyrir mér í þættinum Geira Sæm kokk og x-íslenska dægurpopphetju, Agnesi Bragadóttur blaðamann sem sló í gegn í þættinum Á líðandi stundu, Magnús Ólafsson a.k.a Bjössa bollu, Sigurð Pétur Harðarson útvarpströll a.k.a. Landið og miðin. Hver man ekki eftir saumklúbbasamastarfi S. Péturs og sköruglegri framgöngu í máli Sophiu Hansen. Reynir Pétur væri ómissandi, enda greyptur inn í íslenska þjóðarsál eftir hringvegsgönguna, talnaglöggur og með fánana á hreinu. Atli Hilmars væri sterkur póstur með báða fætur á jörðinni og leiðtogi í hópnum, Arnljótur Davíðsson væri boðberi réttra gilda enda Krossmaður í dag og hættur í fótboltanum. Ég á tímamótaviðtöl við hann úr íslenskri útgáfu Knattspyrnuskóla Viel Curvers. Einnig væri fengur í kvenskörungi og frekjuhundi sem myndi vaða yfir fólk, jarða það með skoltinum – þar er Ólína Þorvarðar sú rétta, hvað þá með Flosa Ólafs, við þurfum á hagyrðingi – spéspegli þáttanna. Hólmfríður Karls yrði þarna til að hneykslast og passa lausaleikskróga og Pétur Steinn stórútvarpsmaður af Stjörnunni væri þarna sem forveri FM-hnakkanna. Aðrir kandítatar sem banka á dyrnar eru Jóhann Hjartarson skákstjarna og Illugi Jökulsson sem margir fíluðu í Spurningakeppni kaupstaðanna í umsjón Ómars Ragnarsson. Illugi alltaf í smókingjakka og gallabuxum, rebell þar. Ef einhver væri með múður myndi svo Magga steri lækka rostann í viðkomandi. Og síðast en ekki síst myndu margir gráta það ef Hallur Hallsson væri ekki í þáttunum. Ávöxtunargaurinn sem fór í steininn og semur vinjettur í dag og gengur um með hálsklút og kemur í Fólk með Sirrý er spurningamerki, veit ekki með hann.
Þetta yrði nostalgíuþáttur og fólk myndi viðhafa athafnir sem það var þekkt fyrir á sínum tíma. Geiri Sæm tæki lagið, Hófí myndi segjast hafa köllun fyrir börnum. Flosi myndi kveðast á við sjálfan sig, Arnljótur Davíðs myndi halda uppi bolta og tala um trúmál, Sigurður Pétur myndi hlusta á röddina í sjálfum sér í gegnum söngvarahljóðkerfi og Reynir Pétur myndi sitja á læri Bjössa bollu og sýna fánabókina sína.
Þátturinn kæmi sem innskot inn í fréttir Stöðvar 2 í staðinn fyrir Tvíhöfðafréttir. Stöðin vill fá góðar auglýsingatekjur og mikið umtal – stöð sem fer nýjar leiðir.

1. þáttur.

Hópurinn í bingói í Vinabæ. Reynir Pétur með 15 bingóspjöld á borðinu, Agnes Braga í flegnum bol og Sigurður Pétur einnig, með nokkur grá bringuhár og þykka röddina sem bingóstjóri. Bingóið rúllar áfram með framíköllum og athugasemdum um afturenda og brjóstaskoru Bjössa og Hófíar. Flosi segir bingó, en áréttar svo að um spaug hafi verið að ræða, Arnljótur Davíðs verður reiður og ringlaður, vindur sér upp að Flosa og grípur hann hálstaki, segir Flosa hafa eitthvað súrt karma og er ringlaður. Reynir Pétur fer að skæla, skilur ekki illsku heimsins því hann er svo blindaður af góðmennsku og fegurð Hófíar sem situr í hlébarðasundbol hliðina á honum með 1 bingóspjald – bara svona til að vera með, hún fílar ekki bingó en vill ekki vera gera veður úr þeirri heimskulegu hugmynd að fara í bingó með þennan hóp. Svo kemur Bjössi bolla og grípur í þá báða, vill stilla til friðar, er mannasættir – hoppar þá ekki Atli Hilmars upp á hann, en stekkur yfir hann (mikill stökkkraftur) en festir franska rennilásinn á skónum sínum í höfðinu á Bjössa og hangir öfugur aftan á honum því Bjössi er kominn með afró-permanet til að lífga upp á þáttinn. Geiri Sæm nýtir sér gullið tækifæri og laumast til Ólínu sem hann álítur fyrirtaksfyrirvinnu enda skólameistari á Ísafirði, horfir í græn augu hennar og byrjar að syngja: Mig langar í sanseraðan sportbíl.... því hann langar í hann, getur kokkur keypt sér sportbíl? Tökuvélinni er svo beint að Jóhanni Hjartar, Halli Halls og Illuga sem eru agndofa yfir framkomu hinna, en Illugi hefði svo sem mátt vita þetta, enda drukkið með þessu liði á Næsta bar. Halli líður best með þessum pésum, vill horfa á þetta utan frá til að komast heill frá þessu og getað mögulega greint Davíði Odds frá málavöxtum ef þetta viðkemur þjóðarhag. Pétur Steinn situr bara og skilur þetta allt því hann getur lesið í stjörnurnar. Þátturinn endar svo með því að Magga Steri rífur af sér fötin og á bikiní hleypur hún að þvögunni öskrandi.... svo sést bara stillimynd og öskur og á skjánum stendur bíðið spennt eftir næsta þætti.

Þetta eru nú bara getgátur um hvernig svona þáttur yrði. Einnig væri hægt að búa til svona þátt eftir ca. 15 ár. Hafa þá keppendur eins og Örn Arnarson, Gunnlaugsbræðurna, Ásdísi Rán og Franklín, Geir Ólafs og fleiri. Setjið endilega kandítata inná kommentakerfið.

|




15.9.04

Hver er Svanur Magnús?

Já, einn bróðir er með síðu. Ég mæli með stúdentsprófi Svans Magnúsar, þú verður að sannreyna - ertu úr stáli, ertu dei(gur)...

svanur.tk

|




14.9.04

Tekið á agabrotum

Baldur vinur sagði eitt sinn við mig að ég yrði eftirlátur pabbi og hann harður, veit ekki með það. En í félagsmiðstöðinni er ég ekki pabbi, heldur bróðir í leik - eða eitthvað á þá leiðina. Opnunarkvöld í kvöld og margir mættu og brugðu á leik og dönsuðu og greindu frá sumarglensi og hvað á daga þeirra hefði drifið. Pylsum var sporðrennt og Egilsdjús, hvað haldiði marrr!!! En eitthvað fór einn bróðir röngu meginn fram úr rúminu. Brást ókvæða við þegar ég skarst í leik þegar hann framdi agabrot, ég fékk tóninn og hann straff, í bili. En vonandi sé ég garpinn sem fyrst.

Góðar venjur, góðir siðir

Það er þetta með að vera á réttunni í samfélaginu. Þegar maður markar nýja línu með orðum og gjörðum þá getur oft verið erfitt að færa hana aftur í fyrra horf. Þetta á við í lífi og leik. Oft getur þessi lína verið eitthvað sem við teljum óæskilegt og óásættanlegt. Tökum sem dæmi svefnvenjur mínar. Hef verið að reyna að vakna snemma og sofna snemma undanfarna daga en án árangurs - þetta er samt að koma. Á tímabili fór ég alltaf seinna og seinna að sofa uns þetta gekk ekki lengur, var hreinlega á röngunni. Ég vissi svosem að þetta væri ekki nógu gott en var samt skítsama. Greinilega hafði ég markað mér nýja línu og hafði tapað þeim metnaði eða hreinlega farið útaf sporinu og í mesta basli með að koma mér á það aftur.

Þá komum við að baráttu einstaklingsins við sjálfan sig í frjálsu samfélagi þar sem nánast allt er leyfilegt og engin boð og bönn eru. Í öllu frjálsræðinu ríður á að hafa föst viðmið og prinsip. Yfirleitt eru þessi prinsip eitthvað sem við tökum ekki eftir, enda bara um venjur og hefðir, eitthvað sem við höfum áskapað okkur eða okkur hefur verið áskapað. Við höfum óteljandi valmöguleika sem hreinlega geta ært óstöðugan og leitt til þess að einstaklingar finna ekki fjölina sína og sumir síðar en aðrir. Það er nokkuð ljóst að betra að halda sig á réttunni heldur en röngunni.

Markalínan og frelsið

Við sem sáum Eyes Wide Shut, mynd Stanley Kubrick's, fylgdumst með einstaklingi sem glímir við frelsið. Er grasið grænna hinu meginn, er þess vert að elta forvitni eða girnd? Er ekki eitt að verkefnum okkar að sættast við okkur sjálf og öðlast nægjusemi. Girndin og forvitnin getur keyrt okkur áfram, við höfum ekki föst gildi trúarinnar, fólk lifir í tómi og ákveður sín eigin gildi. Einstaklingar leita gilda og tilgangs og finna þau í hugsjónum, vinnu, trú og heimspeki - þeim veruleika sem við búum í. Þegar þessi gildi bregðast fylgja tómhyggja og tilgangsleysi á næsta leiti. Sumir segja hamingjuna felast í nægjusemi. En forvitnin hefur og þekkingarþorstinn hefur komið okkur á þann stað sem við erum á í dag. Blabla nóg í bili.

Grænmeti

Ég vil bæti einu við. Grænmetisæta sagði mér um daginn að við værum ekki sköpuð fyrir kjötið og sér liði betur eftir að hafa sagt skilið við kjötið og fiskinn. En tilfellið er að heilinn byrjaði ekki að stækka fyrr en við fórum að troða fisk og kjötmeti í grímuna á okkur, það var prótínrík fæða sem varð þess valdandi að heilinn stækkaði.

|




9.9.04

Skemmdarverk

Skil ekki alveg hvernig einhver komst inn á bloggið mitt - vinir, greinilega góðir vinir. Jæja, myndin var ekki minn verknaður.

Vinnuhelgi og stefnumótun framundan í B2 - þ.e. borgarhluti 2. Eitthvert snilldarþema verða fundin og blabla. Er kominn með efni. Hef skrifað um heildarlausnir uppeldis, nú er bara að koma þeim inn í vetrarstarfið og til fjöldans.

|




Bolti hvar hefurðu verið

Ég eyddi stórum hluta barnæskunnar að sparka í tuðru. Mest megnis varði ég tíma mínum úti á skólavelli, svo voru það æfingar, fyrst hjá Leikni, svo hjá Stjörnunni og svo kom hlé. Hef sparkað tuðru hjá Fjölni og Tekk síðan, svo keypti ég mér gaddaskó og fór að æfa frjálsar alveg sturlaður. En oft hefur reynst erfitt að berjast við jöfnuna áfengi + æfingar = árangur. En samt yfirleitt bætingar, ár frá ári. En nú er ég byrjaður boltasparki aftur eftir þriggja ára pásu. Ég var seinn til að stækka sem betur fer! Svo ég einblíndi frekar á tækni sem er ágætt.

Sá Ísland tapa og fór á Anchorman. Hef unun af aulahúmor Will Ferrels og svona aulahúmor yfirleitt.

|




8.9.04

Margmiðlun

Já, maður, tækni, nátúra - allt nálgast þetta hvort annað. Við yfirtökum náttúruna og tæknin yfirtekur okkur. En hægt að skoða í margbreytilegu samhengi og útfrá ýmsum sjónarhornum. En hvað er í vændum, jú, pistillinn maður og tækni er í vinnslu, en vei, myndir og hljóð á síðuna. Já, hef ekki myndalink, spurning að ég fari að breyta því, en fólk hefur allaf einhverjar væmnar myndir og börn og hunda og svona, veit ekki, er ég of harður, of kaldur. En mig langar virkilega að setja tvö lög inn á síðuna svo fólk geti nálgast þessi meistarastykki. Fór í afmæli um daginn hjá Skrattanum og varð að gefa honum eitthvað. Nú voru góð ráð dýr, ég gaf honum geisladisk með sjálfum mér. Íslenskur heimilisiðnaður stendur fyrir sínu. Ég hefði getað gefið honum inneign á súpu hjá mér eða nudd, en ég gaf honum frekar eitthvað sem endist og peppar hann upp, og viti menn, kappinn hlustar á diskinn í bilnum. Lögin á disknum eru skreitt nöfnum eins og Hulk, Búkhóð 1 og 2, Geðveik lögga og Tregi, svo einhver séu nefnd. Ég kynntist upptökuforriti um daginn, GoldWave, frekar einfalt og frumstætt, en hægt að fikta við allskonar effekta og bergmál. Lögin á disknum lýsa einherjum hrifum og stemmingu, ef maður vill peppa sig upp fyrir kappleik þá hlustar maður á Hulk til dæmis og ef maður vill bara ekki botna neitt í neinu þá er Geðveik lögga ágætt áhlustunar. Aftur á móti ef maður vill vera hissa þá hlustar maður á Búkhljóð 1, en við erum ekki að tala um neitt aftuendahljóð og svoleiðis. Fyrir lengra komna eru myndskeið tilvaln.

Lífið heldur áfram, tilbreytingaleysið reynir maður að brjóta upp, fékk upphringngu og var beðin um að taka þátt í Kollgátu fyrir hönd verkfræðideildar, en æi, búinn að vera hérna of lengi, búinn að fá nóg af svona, en jú, takk fyrir hringinguna.

|




7.9.04

Lifi Skype, 2.35 klst

Þetta er magnað, hreint magnað. Ég var að klára samtal í gegnum tölvuna til BNA við Jónsa vin. Spjölluðum í tvær og hálfa klukkustund og samtalið kostaði 220 krónur. Já, netið er vinur minn. En hvað er að frétta? Jú, hefðbundin helgargleði, þetta breytist ekkert. Rex er víst vinsæll heyrði ég, sá nokkrar gamlar grímur þar. Ég kláraði þjálfaramál Ármanns fyrr í dag og æfingatöflur. Bókasafnið tekur við mér í fyrramálið og þar bíða mín einhverjar viðverustundir, vakna snemma - sofa snemma. Svo eru það Þróttheimar, kem helhress inn í vetrarstarf og vel undir búinn í að gefa endalaus hæ-fæv, kíkti við í dag og lét taka myndir af mér fyrir vetrarstarfið og drakk djöfladjús (kaffi). Í BNA er að frétta að flestir telja viðhorf og lausnir forsetaframbjóðenda gagnvart terrorisma skipta mestu máli þegar kemur að því að skila atkvæðaseðli í kjörkassann, efnahagsmál eru þar í öðru sæti. Þetta er gagnstætt því sem oftast er, enda aðstæður aðrar. Ólafur Sigurðsson sagði í Kastljósþætti í vor að efnahagsmál yrðu í fyrsta sæti, þannig að ekki er hann sannspár.

|




3.9.04

Gamalt sjónvarpsefni – nostalgía í gangi

Kúrekamyndir voru mikið sýndar í sjónvarpinu þegar ég var ca. 10 ára. Hafa eflaust verið ódrýrar í innkaupum á tímum þegar ekkert fimmtugssjónvarp var og fór maður þá bara út í leiki. Það þurfti ekki sjónvarpsleysi til. Lon og Don fór maður út í leiki eða á skólavöllinn í fótbolta. Enda var Breiðholtið, Hólar, barnmargt hverfi og Hólabrekkuskóli næst fjölmennansti skóli landsins. Fótbolti var spilaður í öll mál, í löngu og stuttu frímínútunum og einnig eftir skóla, allt frá níu ára bekk upp í efsta bekk. En kúrekamyndirnar voru svona 15-20 ára gamlar. Þetta voru spagettívestrar með epísku oft á tíðum.


Lokaatriði Butch Cassidy And The Sundance Kid, 1969, sést hér ljóslifandi. Myndir endar svona, þ.e. í stillimynd.


Þess má geta að ég var einlægur áhugamaður um kúreka. Átti ógrynni af byssum, kúrekahöttum og meira að segja mögnuð kúrekastígvél sem pabbi verslaði i Frakklandi. Þetta gekk lengra, þar sem frænka mín átti dótabúð var ég snælduóður í playmo - átti virki sem hét Fort Randal, heilt þorp og hesta. Þegar ég var örlítið eldri komu hólkar með gulum skotum og rauðum. Bófahasarinn hélt áfram, ég smíðaði túttubyssur og teygjubyssur. Gekk svo langt að hnupla gúmmíhönskum til að geta búið mér til túttubyssur, 8 ára gamall. Byssur úr löngum rörum og stuttum, mamma fann reyndar afklippta bleika hanska og lét mig borga fyrir þá skömmustulega út í Straumnesi. En aðdáunin þroskaleikföngum dvíanði ekki og maður smíðaði karate-kylfur og boga. Ég átti nefnilega félaga í götunni sem var þremur árum eldri. Lengst var gengið í vopnasmíðinni þegar við útbjuggum Molotov-kokkteila. Aha, tókum bjórflöskur (ólöglegar þá) og sugum bensín úr bíltank pabba hans og fylltum á flöskurnar, settum svo klósettpappír vættan bensíni og kveiktum í og hentum á steina í móanum og allt skíðlogaði - svaka fjör. Verð einnig að minnast á svellgerð fyrir utan brekkuna hjá súra nágrannanum sem kallaði á lögguna.



Þarna er Molotov-kokkteill mundaður. Ekki barnaleikfang. Víða notaður, vinsæll í Palestínu og víðar, vopn óeirðaseggja.


Það var eitthvað við kúrekamyndir. Einna eftirminnilegastar fannst mér Fistful Of Dynamite með þeim James Coburn og Rod Steiger í aðalhlutverkum og Butch Cassidy And The Sundance Kid með þeim Robert Redford og Paul Newman að ég held. Kúrekamyndir voru málið. Það var myndin 100 rifflar sem kom mér á bragðið. Sá hana þegar ég var 6 ára og vídeóið komið í bæinn. En maður fór ekki varhluta af öðrum varningi leiganna, s.s. James Bond myndunum og myndum með leikurum á borð við Dustin Hoffman, Meryl Streep og James Woods, tómt drama og skin og skúrir þar en ágætis fóður. En léttmeti á borð við einhverjar Kung-Fu myndir og He-Man þætti blandaðist inn í. Einnig Hunter, Bruce Willis þættirnir og hornsteinn minn í snilldartalsetningu Guðna Kolbeinssonar, Sú kemur tíð. Sú kemur tíð fjallaði um Pésa liðsforingja og Spá í náinni framtíð, þau voru boðberar hins góða, hrein og sæt, réttsýn og saklaus - greinilegur siðferðisboðskapur á ferðinni. Sú kemur tíð voru samevrópskir þættir sem mikill metnaður var lagður í og á ég helminginn af seríunum tveimur sem gerðar voru. Afskaplega góð tónlist var í þáttunum. Held að sinfóníuhljómsveit franska ríkissútvarpsins hafi leikið inn á plöturnar. Sinfónía og djass. Þarna var mannlífið og dýralífið frá því í árdaga lífs tekið fyrir.


Seinni myndin er úr þætti í fyrri seríunni þar sem Pési og Spá fara í könnunarleiðungar á plánetu sem er á steinaldarstigi - þetta er Krómagnon menn. Það var óður björn sem réðst að þokkafullu konunni og okkar fólk bjargaði málunum.


En flest allt þetta sjónvarpsefni sem maður var sólginn í endurspeglaðist í baráttunni milli góðs og ills. Hugur barnsins sér hlutina í svarthvítu ljósi og var pabbi oft beðinn skýringa á örlögum fólks. Ef pabbi hefur þá gefið mér góðar skýringar þá var þetta sjónvarpsgláp heppilegt í því að hnoða réttu og röngu og góðu siðferði í búkinn rétt eins og heimsóknir í laugardagsskólann sem Hjálpræðisherinn sá um og sýndi teiknimyndir um frelsarann og sagði dæmisögur úr Biblíunni. Þar voru mættir ýmsir sem hafa nú náð nokkrum frama í samfélaginu. Laugardagsskólinn var haldinn á veturna og þeir sem áttu afmæli í vikunni sem leið fengu Biblíumynd. Ég fékk aldrei mynd þar sem ég á afmæli 14. ágúst og fannst það hart. Einnig virtist Hjálpræðishernum fyrirmunað að skrifa Árni Georgsson, á plagginu mínu stóð bara Árni Björnsson. En Herinn fær 5 stjörnur.


Auglýsingaspjald fyrir Fistful Of Dynamite, 1971. John Mallory, sá sem James Coburn lék, leitaði silfurs, ekki gulls. Juan Miranda, persóna Rod Steigers, áttaði sig ekki alveg á því. James Coburn er þekktur margar aðrar myndir, en fáir kannast lílegast við myndtvennuna Our Man Flint. Flint var svar Kananna við James Bond. Coburn var mikill brandarakall í myndunum og hann kunni að slást, enda Kung-Fu meistari.

Metnaðarfull tónlist kúrekamyndanna er þó það sem skildi einna mest eftir sig. Þegar ég heyri í tónlist Ennio Morricone þá nánast sé ég fyrir mér ákveðin atriði. En Ennio Morricone er einmitt einn af jöfrum kvikmyndatónlistarinnar ásamt Henry Mancini, John Barry og Lalo Schifrin, svo einhverjir séu nefndir.


Ennio Morricone með hatt.


En talandi um Ennio Morricone, er einmitt að hlusta á hann núna, þá er hann sennilega eitt frægasta kvikmyndtónskáld 20. aldarinnar. En tónlist hann spannar allt róf kvikmynda- og sjónvarpsefnis. Hann hefur skrifað tónlist fyrir eitthvað í kringum 500 myndir á sl. áratugum. Tónlistin spannar allskonar stíla og allskonar myndir, en þekktastur er hann fyrir tónlistina í spagettívestrum Sergio Leone. Það eru engin landamæri hjá Morricone - klassík, djass, rokk, raftónlist, avant-garde og ítölsk tónlist. Morricone fæddist í Róm árið 1928 og hóf þar tónlistarnám 12 ára gamall og sýndi snemma hæfileika í tónsmíðum. Hann byrjaði ekki að semja kvikmyndatónlist fyrr en í byrjun sjöunda áratugarins, en hlaut ekki alþjóðlega frægð fyrr en samstarf hans við Sergio Leone hófst með myndinni Fistful Of Dollars. Frægðarsól hans hefur stigið jafnt og þétt í gegnum árin og hann hefur unnið með leikstjórum á borð við Pedro Almodovar, Brian DePalma, Roman Polanski, Mike Nichols, Oliver Stone, og Barry Levinson. Warren Beatty sagði eitt sinn að enginn væri betri í að búa til tónlist við eltingaleiki en Morricone. Enn er kappinn að. En nóg um hann í bili. Greinilega smá nostalgía í gangi.

Myndir sem einhver kannast við ásamt ártali og helstu leikurum:

The Good, The Bad And The Ugly, 1966 - Clint Eastwood sem hinn þögli
Fistful Of Dollars, 1967 - Clint Eastwood
Guns Of San Sebastian, 1968 - Anthony Quinn í aðalhlutverki, úrelt mynd
Fistful Of Dynamite, 1971 - J. Coburn, Rod Steiger
For A Few Dollars More, 1971 - Clint Eastwood
Once Upon A Time In The West, 1968 - Henry Fond, Charles Bronson og Jason Robards
Exocist II, 1977
Mission, 1986 - Robert De Niro, Jeremy Irons, Aidan Quinn, Liam Neeson
Untouchables, 1987 - Kevin Costner, Sean Connery, Andy Garcia, Robert De Niro
Frantic, 1988(7) - Harrison Ford, Emmanuelle Seigner
Cinema Paradiso, 1988
In The Line Of Fire, 1993 - Clint Eastwood, John Malkovich, Rene Russo
Once Upon A Time In America, 1984 - Rober De Niro, James Woods
Wolf, 1994 - Jack Nicholson, Michelle Pfeiffer, James Spader
Bugsy, 1991 - Warren Beatty, Annette Benning, Harvey Keitel, Ben Kingsley
Marco Polo sjónvarpsserían - gömul, 1982
Mission To Mars, 2002 - Gary Sinise, Tim Robbins
Bulworth, 1998 - Warren Beatty, Halle Berry
U Turn, 1997 - Sean Penn, Nick Nolte, J-Lo, Joaquin Phoenix, Jon Voight, Billy Bob Thornton
Lolita, 1996 - Jeremy Irons, Melanie Griffith, Frank Langella, Dominique Swain
Disclosure, 1994 - Michael Douglas, Demi Moore, Donald Sutherland,

|




2.9.04

Gjaldþrota á sálinni

Kolbrún systir, sú yngri, tók lítinn leikþátt fyrir mig um daginn, veit ekki afhverju. En þetta var í einhverju gríni, vorum að fíflast og hún lék einstakling sem er alveg búinn á því. Hún gólaði "ég er gjaldþrota á sálinni" og engdist, ég hló. En þetta er málið, ég er nánast gjaldþrota á sálinni, ég nenni ekki að fara í helvítis skólann. En verð víst að hreinsa upp það sem eftir er. Núna er bara að peppa sig upp, vera jákvæður, hlaupa á morgnanna og glugga í tímastjórnunarbæki - David Allen, Stephen Covey og fleiri. Já, aha, hlaupa á morgnanna. Það er eitt besta geðlyf sem um getur. Það hefur ekki komið mér til hugar að slengja í mig töflum þegar erfitt reynist að sofna. Harður, telja lömb, slökunaraðferðir eða eitthvað, það verður að duga.

En vinur í framhaldsnámi bað mig um að gera upp sumarið á síðunni hérna. Gott að fara stöku sinnum í naflaskoðun - hef ég gengið götuna til góðs og svona. En hef nú verið afkastameiri yfir sumartímann. En nú verð ég bara að fara í söngtíma. Hef nokkuð samviskubit að rækta ekki þennan hæfileika sem ekki öllum er gefinn. Hálfgert virðingarleysi gagnvart sjálfum sér. Svo er ég ekki kominn með undirleikara eftir að Jónsi vinur fór til Alabama í framhaldsnám í tannlækningum. Svo er ég ekki búinn að kaupa mér gítar, en samt búinn að kaupa ýmislegt annað.

En spjall um manninn og tæknina er á leiðinni og svo langar mig að þvaðra aðeins um orkumál síðar, enda eru þau ávalt ofarlega á baugi. Ekki langt síðan orkunefnd BNA þings kom til landsins. Í nefndinni eru laxar á borð við stríðshetjuna, öldungardeildarþingmanninn og fv. forsetaframbjóðandann John McCaine og Hillary Clinton öldungardeildarþingmaður. Vetnið blívur og Jón Björn Skúlason er ötull talsmaður þess, enda forstjóri Nýorku. Fyrirtæki veðja á mismunandi hesta. BMW býr til sprengihreyfla sem knúnir eru áfram með vetni en Daimler-Chrysler (Bens) byggir á efnahvörfum. En víst er vandi á höndum enda vesen að geyma vetnið. Framleiðslukostnaður vetnisins í vetnisstrætóinum er nokkurn veginn þannig að jafn mikið kostar að búa til vetnið og þjappa því á nýtilegt form. Hef ekki farið í vetnisstrætó en þegar ég spjallaði við Jón Björn við fjórða mann sagði hann að mögulega þyrfti að setja hljóð í hann, hann væri "silent killer". Ekki gott að fá strætó í bakið. Efnasamruni gefur ekki frá sér hljóð og enginn hiti fæst út úr honum svo orka efnahvarfsins fer einnig í að hita vagninn upp. Vetni er dýrt en því til bóta má nefna að nýting efnahvarfsins er nánast alger á móti ca. 30% hjá sprengihreyflum, betri hjá dísel- en bensínvélum. Vetnisrannsóknir voru stundaðar á meðan Áburðarverksmiðjan framleiddi enn frumframleiðsluefni, á borð við vetni, köfnunarefni, ammóníak og saltsýru. Í verksmiðjunni vann ég og átti sælustundir. Einnig gerði ég hagkvæmnisrannsókn á rekstri vetnisrafgreina á Íslandi. Vetnisrafgreinar voru í Áburðarverksmiðjunni, en nú úreldast þeir.
Arabaþjóðir sem standa í olíuframleiðslu eru mikilvirkar í uppkaupum á fyrirtækjum á vesturlöndum, en einnig í pælingum á orkugjöfum framtíðarinnar, enda tilvalið að teppaleggja eyðimerkurnar með sólarspeglum. Olían varir ekki að eilífu, tankurinn tæmist.


Margur verður af olíu api! Eða er Yukosforstjórinn saklaus?


Hvenær er bensínið búið? Fjölmargar spár hafa verið gerðar og nokkrar olíukreppur hafa riðið yfir í tímans rás. Yfirleitt segja þessar spár að olían sé búin eftir 30 ár, en alltaf eru að finnast nýjar olíulindir og einnig betri tækni til að sjúga olíuna úr gömlum borholum. Þar eru frændur okkar Norðmenn framarlega, enda eiga þeir ógrynni af borholum í Norðursjónum. Stærsta iðnveldi okkar tíma, BNA, þrífst á olíu og á nokkuð af henni. Í bókinni Falið vald (samsæriskenningabók frá ca. 1980) segir að Kanarnir eigi alltaf 30 ára birgðir af olíu. Enda varningur BNA, þ.e. iðnaðarframleiðsla, fataleppar og hvaðeina, unninn úr olíu.


Hér klæðist Marion Jones því sem eitt sinn var olía.


En nóg af þvaðri og svartagulli í bili.


Það er nóg af þessum í Norðursjónum

|