23.8.05

Neysla

Neysluhyggjan heltekur mig. Þá er ég í neyslu. Systir mín yngri er t.a.m. mun virkari neitandi en ég. Hún vinnur vaktavinnu og veður í seðlum, er með lægri lausafjárskuldir en ég og áhyggjuleysið plagar hana ekki. Hún sumsé neytir glöð þess sem umhverfið býður upp á. Við erum þá helst að tala um föt. Þegar ég á leið um verslunarmiðstöðvar þá kvelst ég á stundum ef nokkuð er liðið á mánuðinn, en brátt verður vonandi bragarbót á.

Talandi um neysluna og naflaskoðun. Skera á neyslustreng, hvernig þá? Hollt að gera það, kannski 2 vikur á ári? Finnst ég stundum uppfullur af umhverfissuði. Þ.e. allt húmbúkið sem maður nær ekki að forðast. Dæmi um það er Newlyveds. Systir horfir og dregst inn í áhorfið. Þetta með neysluna, við verðum að passa okkur að dagskammtur okkar sé nokkuð heilbrigður, rétt eins og við reynum að borða grænmeti, ávexti, korn og kjöt í vissu mæli. Það sama á við um afþreyingu, þunga og létta. Kannski frekar þannig að við smíðum okkar fyrirmyndardagsskamt. Ef ljón borðar bara kjöt þá deyr það, ef maður horfir bara á Ingmar Bergman 24/7 þá verður hann þungur. MTV alla daga gerir mann eyrðarlausan og eftirtektarsljóan. Sem fyrr segir þá erum við okkar erfiðasti andstæðingur.

Þarf að setja sögubút um Gabríel og Satan inn. Hreinritun eftir...

|




14.8.05

Magamál

Ég gæti sagt að það væri ákveðin list að kunna sér magamál, eða hvað? Nei, þetta lærist bara, maður verður saddur og vill ekki borða meira. Svo þekkir maður sjálfan sig, ekki borða meira en þú brennir.
Þegar ég var yngri át ég bara hreint út sagt rosalega mikið. Ég át og át en var nú bara nokkuð hreyfanlegur enda stundaði ég íþróttir af kappi. Hreyfing frá morgni til kvöld, fótbolti og handbolti. Var nú alltaf meira í fótboltanum, úti á skólavelli, í frímínútum, talandi um leikina í hverfinu – vetur, sumar, vor og haust. En í seinni tíð, þá sérstaklega eftir að ég fór að æfa frjálsar, þá hef ég verið öllu rólegri í yfirgengilegheitunum. Akkúrat núna er ég að springa. Átti afmæli í dag (14. ágúst) og ég og systir fórum á Pizza Hut og tróðum í grímuna á okkur pítsutilboði fyrir fjögurra manna fjölskyldu. Ekki nóg með það, heldur lá leiðin til Völu systur og þar biðu veitingar líka, ekki nóg með það, þegar heim kom beið kaka sem mamma bakaði og ekki gat ég sagt nei. Svo ég er bara búinn á því og get varla lært núna.
Maður var óður krakki, teljandi ofan í sig bollurnar á bolludag – 10, 12, 14. Fórum oft nokkrir strákar í hlaðborð á Pizza Hut þegar ég var í Versló. Persónlegt met setti ég einu sinni, 13 sneiðar – sá eftirmiðdagur fór fyrir lítið. Maður státar ekki af mannavígum eins og Egill og Þórólfur, bara mannalæti sem tengjast mat. Já, þessar tölur eru ekki grín. Dvaldi ein jól út í Orlando. Fórum á Hooters og ég sporðrenndi 37 hot wings. Var þar í átta daga og náði í 2 kg framan á mig, þrátt fyrir að synda reglulega.
Maður verður að kunna sig, halda gullnu regluna, ekki borða meira en þú brennir...

|




10.8.05

Hvað er svo magnað?

Magnað þetta líf, það er magnað. Já, nú er svo komið að allar dyr standa opnar, möguleikar óteljandi eða svona nokkrir allaveganna. Já, nú er komið að því. Líf, ó, líf. Eins og ég hafi alltaf ætlað að hafa nokkrar í hálfa gátt en nú standa þær fullopnar og hvert á vinstri fóturinn að stíga og hvert sá hægri.
Eftir allar þessar bækur um árangur og ákvarðanatöku og veit varla hvort eigi að stíga í hægri eða vinstri. Er beinagrindin í skápnum mínum, minn djöfull sem ég dreg, er það áhættufælni. Hef velt því fyrir mér hvort búið sé að draga úr mér vígtennurnar. Ég er smá gamblari í mér og þessi áhættufælni veldur því að ég er að springa, svona næstum því. Og svo líður tíminn bara og mér fannst ég varla taka eftir því en sé hann tifa nú. Kannski er þetta eðlilegt, eðlilegt þegar kemur að krossgötum og breytingum sem maður sér varla fyrir og veit ekki hverjar eru en veit samt.

Skáldskapur loftsins – ævarandi líf án efnis...

Lærdómsmenn trúarbragða eru íhaldssamir og trúin er afl stöðugleika og bindur ástand þar til þörf fyrir breytingar brýst út. Samleikur lærðra og leikra tekur dýfur í sitt hvora áttina og við öðlumst öryggi með trúnni, en tökum upp vonda siði með leikmönnum; svo verða leiðindi að sjúkdómi, sem yfirtekur allt; þá fer fólk að leita að gildum. Mikið af iðju nútímans fer í baráttu gegn leiðindum, en áður fyrir var baráttan háð fyrir tilverunni sjálfri, að haldast á lífi. Leiðindin eru eins og þögult rándýr á baki framfara gandreið; þau knýja áfram framleiðslu og kapp fram á gjábarma á öllum sviðum, aukning alls er sjálfstætt markmið og hagvöxtur í gömlum stíl. Mórall vinnunnar er þrælanna, en nútíma velferðarþjóðfélag hefur enga þörf fyrir þræla. Leiðindi eru meira vandamál í heimi lífskjara en sjúkdómar; þeir herja að vísu stöðu
Jónas Bjarnason, efnaverkfræðingur. Smásaga í Lesbók Morgunblaðsins 6/8 ’05.

Öryggi eða vondir siðir. Hver eru hin réttu gildi? Haldast á lífi eða berjast gegn leiðindum? Byrja á því fyrra.

Það er um margt að hugsa í þessum heimi og ekki hægt að komast yfir alla þekkingu sem áhugi er fyrir að öðlast. Frelsið veldur ólgu, valkreppa knýr á dyrnar. Ekkert er ákveðið fyrr en ákveða þarf en þá er valið af handahófi og handahóf er óígrundað og í besta falli frábært en annars kannski í meðallagi.
Ekki gott að hafa allan sannleik í panil, betra að hafa hann lagskiptan eða á tré eða rótum. Svona eitt kemur á eftir öðru en ekki sundurleit uppröðun eins og í panil. Finnst nú eins og fyrirliggjandi ákvarðanir liggi allar í panil. Engin forgangsröðun á gnægtarborði frelsisins, hver valkosturinn um annan þveran í kássu á panil. Svartsýni á kvöldin, bjartsýni á morgnanna. Já, þetta líf er magnað. Samfara frelsinu er valkreppa. Skemmtanir, vinna, æfingar, lestur, gaul, tómstundir.... ...hvað er númer eitt, hvað er númer tíu. Það er mitt að ákveða, það er mitt að forgangsraða.

|




3.8.05

Hali
Sótti heim bæinn Hala í Suðursveit sl. helgi. Þar er 30-40 manna samfélag á sumrin. Nærði sál með veiði og öðru. Sat og lá á melum í nágrenni Jökulsárlóns með hrikalega sýn jökuls og fjalla. Kynslóðir á sveitaballi saman komnar. Ferðaðist í rútu í 150 mín. til að komast á ball - fjörið var nú mest í rútunni. Aldur þar 15+ ...
Svo má ekki gleyma hljómsveitarskúrnum, uppfullum af hljóðfærum. Fegurðin mikil og fólkið gott.

|