29.6.05

Álag og áreiti

Í dagsins önn er margt sem hvílir á okkur. Ekki er hægt að kenna neinum öðrum um hvernig málum er háttað því við veljum okkur verkefni og það er okkar að leysa úr þeim. Oft vill svo verða að við tökum of mikið að okkur. Yfirsýn skiptir miklu máli. Ef við höfum ekki yfirsýn þá veldur það okkur órókeika því við sjáum ekki útum rúðu hugans sem rignir stórum dropum á og rúðuþurrkurnar eru í hægagangi. Við erum okkar erfiðasti andstæðingur og samferðamaður. Góðir siðir skipta hvern mann máli og óreiða í eigin ranni veldur óskipulagi og jafnvel vanlíðan. Þegar svo er komið verður einstaklingurinn að taka til hjá sér og forgangsraða og búa til lista. Nauðsynlegt er að gera allt sem í hans valdi stendur til að fá yfirsýn. Hef staðið í ströngu undanfarið og verkefnalistinn virðist bara lengjast dag frá degi. Ekkert er ógerlegt og hugurinn er það eina sem hindrar okkur frá því að framkvæma það ógerlega því við sköpum okkar eigin ramma og leikreglur til að spila eftir með okkar líf og limi. Hver og einn verður að þreyja þorrann og best er að ráðast í erfiðustu verkefnin fyrst svo þau æri ekki óstöðugan þegar fengist er við hin minni, þannig grynnkar maður á verkefnalistanum. Áreitið geta verið innri og ytri atburðir. Þegar öllu er á botninn hvolft þá erum við bara taflmenn á skákborði lífsins og næsti leikur ákvarðast af því sem undan er gengið og ekki nægir að hugsa einn til tvo leiki fram í tíman heldur þarf einstaklingurinn á fléttu að halda. Skóli, vinna, frístundir og annað sem tengist einkalífi má ekki vera í móðukenndu fari, þá kemur einstaklingurinn engu í verk. Nú er bara að leysa úr flókanum og óreiðan og óvissan hverfur, búta verkefnin lið fyrir lið öðlast heildarsýn fyrir daginn, vikuna eða mánuðinn. Markmiðasetning er lykillinn að skránni, hún veitir þér tilfinningu um vald, tilgang og stefnu. Að setja sér markmið felur í sér að ná stjórn á eigin lífi og að vera ánægður með sjálfan sig.
Hvort þú ert sáttur við sjálfan þig fer eftir því hversu mikla stjórn þér finnst þú hafa á eigin lífi. Breytingar eru óhjákvæmilegar og ef þú hefur stjórn á breytingunum, nærðu óhjákvæmilega betri árangri en ef þú hefur hana ekki og til að ná stjórn á eigin lífi, verður þú að fyrst að ná stjórn á eigin huga – hugurinn er óþrjótandi lind tækifæri.

|




26.6.05

Er seigur!

Já, helgin er ólík virku dögunum, það er nokkuð ljóst. Eins og maður sé í undralandi um helgar. Ef helgar gætu verið virka daga – e.t.v. vitleysa tilbreytingarleysisins allsráðandi, kannski ekki. Ef einstaklingurinn hefur nóg fyrir stafni í fjöri þá er helgarástand á honum. Það er bara öðruvísi stemming yfir helgi. Starfaði á siglinga – og útivistanámskeiðum nokkur sumur. Það kom alltaf helgi í magann þegar ég fór í útilegur á þessum námskeiðum í miðri viku. Eru eilífar helgar hjá kóngafólki og kvótakóngum sem eru hættir að vinna. Ætli kvótakóngar vakni á morgnanna og fái sér tvöfaldan espressó og spekúleri hvað þeir geri við dauða tíman sem er eftir af deginum. Fara þeir í bíltúr á jeppanum og skutla konunni á snyrtistofuna og slappa af og fara svo í golf og bíði svo eftir því að fara að sofa – bíði bara eftir því að deyja eftir 20-30 ár. Nei, þetta er al-einföldun. Peningar eru hreyfiafl margra hluta og hugarflugið eitt takmarkar einstaklinginn í athöfnum. Kvótakóngurinn gæti stofnað sumarbúðir fyrir börn. Man eftir því að Norman Schwartskoff aðalspaði og yfirhershöfðingi úr flóastríði hinu fyrra fór að reka sumarbúðir í slagtogi við aðra menn og konur, man einnig eftir að hafa lesið að hann hefði greindarvísitölu upp á 170 stig. Það verðu enginn maður aðalspaði í hernum með gáfnafar apa.

Helgin mín var helgi með réttu. Hljóp hlaup. Afföll á fólki í liðinu vegna veikinda og meiðsla. Var afar sáttur við 400 m grindina, held að þetta sé mín grein – er afar spenntur yfir að hlaupa fleiri hlaup. Ég var sulta í 800 m hlaupinu, hef ekki tekið lengri spretti en 400 m svo ég er ekki formi fyrir þessa vegalengd. Taktíkin var að ná forystu eftir 150 m og hægja á hlaupinu. Ég hægði á mér og náði bara einum fyrir aftan mig en hinir hlupu fram úr mér. Boðhlaupin voru fín og ég hljóp mjög góða legg í 1000 m hlaupinu (tók 400 m). Svona íþróttamót eru eins og ungmennafélagssamkomur. Góður andi í gangi, allir ofur-jákvæðir sem er frábært. Fór eftir keppni í sundbolta með öðrum fullþroskuðum karlmönnum og er allur mjög rispaður sem er nú bara ágætt.

|




24.6.05

Ólga í búknum

Nú á eftir hefst Bikarkeppni FRÍ. Ég hleyp 400 m grindahlaup í dag og 800 m hlaup á morgun auk þess að hlaupa í 4*100 m hlaupi og 300 m legg í 1000 m boðhlaupi (100-200-300-400). Þegar ég keppi þá fyllist búkurinn ef spennu, háspennu. Ég er búinn að vera hálftens frá því á hádegi. Þetta er eðlilegt – gerist alltaf. Málið er að þessar vegalengdir eru erfiðar andlega og gott er að fara yfir hlaupið í huganum nokkrum sinnum og útfæra það vel. Vona að ég detti ekki um grindurnar – maður hleypur yfir þær, stekkur ekki – það myndi draga úr hraðanum. Í bikarkeppni keppir einn keppandi frá hverju félagi og 5 félög eru í 1. deildarkeppninni. Mesta stressið er fyrir hlaupið á morgun þar sem ég á lakasta tíman af keppendunum held ég, eða næst lakasta.

Á næstunni kem ég með fréttir af Hipp-hopp Halla og sagan af baráttu Gabríels og Satans heldur áfram.

Jæja, nú er að drífa sig út...

|




21.6.05

Býr lítill Batman í þér

Hæfileikar eru einstaklingum annað hvort gefnir í vöggugjöf eða þá áunnir. Reyndar þarf að vinna og þroska þá meðfæddu. Maður þráir oft að verða eitthvað sem maður getur ekki orðið og dæmi um það eru ofurhetjur og líkast til á maður aldrei eftir að komast með tærnar að hælum þeirra. Hulk er erfðabreytt efnafræðiviðundur og Súperman fæddur á annarri plánetu. Nördar frá aldamótum hafa getað valið úr ofurhetjum og aldrei hefur úrvalið verið betra en nú þegar kemur að því að velja sér uppáhalds hetju. Ofurhetjan er dægrastytting frá tilbreytingarlausu amstri nörrans. Hugurinn reikar og hið góða sigrast á hinu illa við harðan leik. Sá ræmuna Batman Begins áðan og verð að segja að Hulk sjálfum fannst Batman nokkuð svalur.
Súperman leit dagsins ljós árið 1939 og átti fastan stað í hjarta táningsdrengja. Blaðamaður í dagvinnu og örlítill nörri. Gleraugun eru gervið og ótrúlegt að enginn átti sig á manninum bakvið gleraugun. Spiderman og Hulk eru vísindanemar og Batman er áhugamaður um hagnýt vísindi. En Batman fæddist eins og við hin. Getur eflaust troðið á körfu en án græjanna og jú-jitsúsins er hann bara Jón Jónsson. En getur maður ekki bara unnið í sjálfum sér og orðið nokkurs konar Ís-Batman.

Hvað á Batman sem ég gæti eignast mögulega:
1. Svartan plastbúning
2. Breyttan jeppa
3. Höll
4. Peninga
5. Óvini
6. Skikkjur
7. Góðan þjón
8. Alls konar vopn

Reyndar er einn af höfuðverkjum búnaðarins peningar. Þetta er dýr búnaður en góð dótabúð er eitthvað sem ætti að geta bjargað manni fyrir horn. Varðandi peningana þá held ég að best væri að giftast inn í ríka fjölskyldu eða erfa ríkan frænda. Vopnin gæti maður smíðað heima í skúr. En spurning er hvort klakinn rúmi eitt stykki Ís-Batman. Við hverja á hann að berjast? Eru handrukkarar verðug verkefni, skattsvikarar og dópdílerar. Það er ekki nóg að láta sig dreyma ef viðkomandi vill taka á skúrkum landsins. Fyrsta skrefið er að rölta sér út í dótabúð og kaupa sér búning.

|




14.6.05

Í ruglinu!!!

Ansi vel heppnuð helgi að baki þar sem ég dansaði af mér iljarnar á nýjum stað. Andinn var óbeislaður eftir vel heppnaðar samræður í heimahúsi við mann og annan. Annars eru ýmis verkefni að kæfa mig. Íþróttafélagið verður með sölubás á 17. júní í Lækjargötu og nú er ég að skoða tilboð frá pylsuframleiðanda og sælgætisumboði, gosframleiðendum og búnaðarleigu. Talandi um bæklinginn fína sem er kominn út. Hann þarf að komast úr bílnum mínum í dreifingu. Félagsmiðstöðvar og sundastaðir eru ágætis lausn, kjörbúðir ekki síðri. Svo er það mótahald sem er framundan og Reyjavíkurmaraþon. Einnig er félagið að panta nýja keppnisbúninga og mótaþátttaka og fjölskyldudagur er framundan. Ekki má gleyma verkefnum sem þarf að taka saman fyrir starfsmann deildarinnar. Æ, þetta er kannski bara hressandi – ágætt að hafa eitthvað fyrir stafni. Starfsmannaviðtöl og eitthvað framundan.
En hleð batteríin um helgina með útilegu þar sem hægt verður að þramma á fjöll og vaða í ám.

|




8.6.05

Siðferðislegt álitaefni

Fólk þarf að takast á við siðferðisleg álitaefni daglega. Glíman er ekki bara við vandamállin sem standa auglitis við fólkið sjálft heldur þarf það að takst á við sjálft sig og eigin fordóma. Naflaskoðunar getur verið þörf. Er vandamálið virkilega vandamál, kannski bara þröngsýni og fordómar í nösum þess sem taka þarf ákvörðun byggða á forsendum sem samfélagið gefur. Er samfélagið þá réttlátt eða ranglátt og er það þá í verkahring þess sem tekur ákvörðun er orkar tvímælis að stinga á kýlum og ganga þvert á viðtekin viðmið í von um að breyta og bæta samfélagið og lifa þá í sátt við sjálfan sig og fylgja sinni sannfæringu?
Mikið er fjallað um offitu og áunna sykursýki sem er afleiðing hennar. Um er að ræða næsta stóra heilsuvandmálið sem mun taka við af reykingum sem heilsuvandamál númer 1. Tímarit fjalla um þetta, sama hvort sem er Newsweek, Time, New Scientist, National Georgraphic og fagtímarit sem fjalla um viðskipti. Rakst á grein um daginn sem fjallaði um þetta og tók nokkra punkta úr henni.


Vandræði Villa

Umburðarlindi gagnvart jaðrinum, hvað er jaðar?
Villi var í vanda staddur. Pappírsvinnan var að drepa hann og staflarnir á skrifborðinu fóru ekki grynnkandi svo hann var ekki alveg í skapi að takast á við vandamálið sem stóð fyrir framan hann. Hó hó heildarráðgjöf ehf. snérist um það að vera klipptur og skorinn koma rétt fram og landa kúnnum og afgreiða þá, mynda sambönd og skila hagnaði. Fyrirtækið staðsett í húsi Kauphallarinnar, hliðina á japönsku sendiherraskrifstofunni. Villi, virkilega solid gaur og framkvæmdastjóri markaðssviðs. Hó hó var ráðgjafafyrirtæki sem hjálpaði öllum, sama hvort var markaður, stjórnun, sala, bílar, ál eða gos – alhliða ráðgjöf fagfólks. Hó hó átti svör á reiðum höndum, ef ekki þá var þeirra leitað og ávalt fundust þau.
Já, hann er á leiðinni hugsaði Villi, hljóðið villti ekki á sér heimildir. Það var ekki annað en hægt að taka eftir honum, ef þú sást hann ekki þá heyrðir þú í honum, fótatak 200 kg manns er auðheyrt. Silli var of þungur, greinilega, hann smeygði sér inn um skrifstofudyrnar. “Hvernig hangir Silli”, spurði Villi. Villi tók eftir því að Silli var heldur andstuttur, nóg af tröppum í þessu húsi. “Tja, til hægri held ég, þú veist hvernig þetta er, annars gengur bara ágætlega”, svaraði Silli. “Er Halla búinn að spjalla við þig”.
“Ó, já,” Svaraði Villi. “Hún setti umsóknina þína í kerfið, ég ræði við kandídatana í starfið í byrjun næsta mánaðar”. “Fyrirtak”, svaraði Silli. “Þú hefur mig í huga”.
“Já, auðvitað”, svaraði Villi glápandi á tölvuskjáinn. “Ég læt þig vita þegar nær dregur”.
Hann er toppmaður hann Silli, hugsaði Villi með sér í þann mund sem Villi fór útaf skrifstofunni. Kappsfullur starfsmaður sem var veruleg eign í bókhaldi fyrirtækisins, alfræðiorðabók um nánast allt sem snéri að sölu og ráðgjöf á breytistærðum kúnnanna. Það biði hans erfið ákvörðun á næstunni. Ráðning söluráðgjafa var á næstunni og hvernig gæti hann gengið framhjá Silla. Silli hafði starfað hjá fyrirtækinu í 10 ár, lungann af tímanum sem ráðgjafi, maðurinn sem hnýtir lausa enda og kemur sterkur inn í hugmyndavinnunni. Nú vildi hann taka eitt skref uppávið og verða sýnilegri og fá örlítið hærri laun. Söluráðgjafarnir voru ímynd fyrirtækisins útávið, þeir lönduðu kúnnunum og fjölguðu þeim, söluráðgjafarnir voru nánast háðir Silla. Umsókn Silla hafði komið Villa í opna skjöldu og óþægilega stöðu. Silli uppfyllti öll skilyrði, en vandamálið við hann var að hann var svo helvíti feitur. Frammistaða hans var ávalt fyrir ofan meðallag en hvernig færi ef hann þyrfti að hitta kúnna í eigin persónu. Hvað fyndist kúnnanum um Silla?



Hvað finnst Rabba?
Villi smellti sér í jakkann sem var á stólbakinu og tölti sér til vinar síns Rabba sem var með skrifstofu ekki fjarri. Rabbi var framkvæmdastjóri sölusviðs ímyndalausna. Rabbi var í símanum, en um leið og tólið fór á viðtækið bankaði Villi létt á hurðina og gekk inn. “Sælir”, sagði Rabbi. “Þú virðist ekki upprifinn, hvað angrar núna? Fiskurinn í hádeginu?”
“Nei, nei, ég ætlaði að fríska mig aðeins upp, það eru staflar á skrifborðinu. Hvað segirðu um fersk loft og smá göngutúr?”
Rabbi stóð samstundis upp og hrifsaði jakkann sinn, þeir héldu að lyftunni. Himininn var þungur, ætlaði sumarið aldrei að koma. Miður maí og rigning og 8 °C, dag eftir dag.
“Rabbi, ég þarf að bera örlítið upp við þig.” Sagði Villi. “Skjóttu”, sagði Rabbi.
“Ef þú biðir um stöðuhækkun og þér væri neitað, myndirðu hætta?”
Rabbi yggldi brúnum, “ha, stefnirðu á aðstoðarframkvæmdastjórann?”
“Nei, nei”, svaraði Villi. “Þetta snýst ekki um mig. Þetta varðar náunga sem vinnur á markaðssviðinu hjá mér. Hann vinnur sem ráðgjafi en lítur hýru auga á söluráðgjafastarf sem var að losna. Hann kann sitt fag en hann langar að breyta til og færa sig upp stigann. Söluráðgjafinn er mun sýnilegra starf og ég veit ekki hvort hann sé maðurinn í starfið.”
“Bíddu, geturðu ekki prófað hann til reynslu? Er ekki hægt að hjálpa honum að komast inn í starfið með aðstoð einhvers úr deildinni?”
“Æ, það eru vankantar á þessu,” sagði Villi. “Hann er nokkuð heilsuveill”.
“Hvað er málið,” sagði Rabbi.
“Nú, hann þjáist af sykursýki,” sagði Villi glottandi. “Hann er vel þéttur, þetta er 200 kg maður og ég hugsa að ef...”
“Bíddu aðeins,” sagði Rabbi. “Þú ert ekki að tala um þennan þétta, Silli er það ekki?”
Þrúgandi þögn Villa svaraði spurningunni. Rabbi hristi hausinn og hló. “Þú ert að grínast. Ertu virkilega að spá í honum í starfið? Hvernig heldurðu að þetta myndi koma út ímyndarlega séð fyrir Hó hó, fyrirtæki þar sem allir eru klipptir og skornir, vel greiddir og bronsaðir?”
“Silli er virkilega viðkunnalegur náungi,” sagði Villi.
“Ég efa það ekki,” sagði Rabbi. “Síbrosandi, ávalt með góðan fimmaur upp í erminni.”
Villi horfði íhugull á Rabba. “Hann þekkir flestar hliðar starfsins betur en lunginn af staffinu í deildinni.”
“Ok, hvað með að færa hann yfir í þróunarvinnu, það gæti svalað þorsta hans,” stakk Rabbi upp á.
“Launin hækka nú lítið við það, er það?” Svaraði Villi. “Hann myndi örugglega segja upp.”
“Ó, hvar fengi hann betri vinnu annarsstaðar?” Sagði Rabbi.

Af frekari áhyggjum
Villi sat við skrifborð sitt og dró út umsókn Silla og grúfði sig yfir hana. Hann minntist þess að Silli hefði verið frekar þéttur þegar hann hóf störf hjá Hó hó, en í enga líkingu við það sem hann var í dag. Í fyrstu skjallaði fólk hann með hversu ómótstæðilegar kökurnar sem konan hans bakaði væru, Silli kom oft klyfjaður súkkulaðiklöttum. Þegar árin liðu bættist hver fellingin við hjá honum. Hann hafði reynt ýmsa kúra, Atkins, krosskross-engar-kökur-kúrinn og hvaðeina. Eitthvað hafði honum þá orðið ágengt við þyngdarmissinn en svo féll hann aftur í sama farið. Svo þegar konan fór frá honum gaf sig eitthvað, bæði stólarnir hans og eitthvað inni í honum – fellingarnar uxu eftir veldislegu falli.
Það var svo að veikindadögum Silla fór að fjölga fyrir einum fimm árum. Ekki að um vandamál væri að ræða, en hjá Hó hó heyrði það til undantekninga að fólk tæki sér veikindadaga. Svo kom það á daginn að ástæðan var að mestu að Silli hafði áunnið sér sykursýki. Villi minntist þess að hafa oft haft í huga að minnast á heilsuvandræði Silla í ársfjórðungslegum starfsmannaviðtölum. Villi hafði skipt sköpum þegar hann hjálpaði Höllu að takast á við áfengissýkina sem hún barðist við og var við það að sturta niður ferli sínum hjá Hó hó. Villi hafði sópað áhyggjum sínum varðandi þyngdaraukningu Silla undir mottu. Fannst það ekki jafnaðkallandi og gæti beðið – fannst óþægileg tilhugsun að þurfa að minnast á þetta. Alkóhól og offita greinilega ekki í sömu deildinni.
Það var ekki bara Villi sem hafði tekið eftir þyngdaraukningunni. Silli var extróvert gaur og ávalt til í gott spjall en með tímanum þegar frekari nýliðun varð hjá fyrirtækinu virtust samtölum Silla og samstarfsmanna hans fækka. Silli sem hafði verið fastagestur í grillboðum samstarfsmanna sinna, en var það ekki lengur. Fólk var farið að fjarlægjast og forðast hann þrátt fyrir að Silli hefði ekki glatað hæfileikanum að eiga safarík samtöl við mann og annan. Villa var illa við þá fáránlegu hugsun að þyngdaraukning Silla hefði mögulega áhrif á starfsframa hans innan fyrirtækisins. Svo var það eitt, hefði Silli slæm áhrif á ímynd fyrirtækisins útávið ef hann væri ráðinn í starfið. Villi fór að hugsa hvort hann og hans duldu fordómar væru kannski vandmálið eftir allt saman. Þurfti hann að takast á við sjálfan sig.

Er Silli maðurinn?
Bíll beið fyrir utan Kauphallarbygginguna og Villi leit á úrið. “Ef við dröttumst ekki af stað þá missum við af vélinni,” hugsaði Villi. Í sömu andrá kom hann auga á Silla kjagandi með nestispoka í hægri og ferðatösku í vinstri. Ráðstefna á Akureyri um helgina.
“Huskum okkur,” sagði Villi og opnaði dyrnar á fyrirtækisbílnum. Þegar Silli settist inn kom slagsíða á bílinn. “Hérna eru upplýsingar, ég er búinn að undirstrika nokkra fyrirlestra sem gætu verið gagnlegir,” sagði Villi um leið og hann rétti Silla skjalabunka.
Villi hafði ákveðið að bjóða Silla með norður en hafði áhyggjur að hann liti á það eins og prófraun hvort hann væri starfsins verður.
“Jæja, Villi,” sagði Silli, “hver er lykillinn að því að ganga vel sem söluráðgjafi.”
Villi dró andann djúpt. “Tja, koma vel fyrir, geta kynnt þitt mál og hrifið kúnnann með”, sagði Villi. “Maður er alltaf að byggja og treysta sambönd, daginn út og daginn inn.
“Ég held að þetta sé eitthvað sem ég hef verið að undirbúa mig fyrir og geti farnast vel í”, svaraði Silli uppfullur af eldmóði.

Villi var í vanda, hvað gat hann gert? Silli var feitur göltur en ansi góður í því sem hann gerði, var hægt að hafna honum. Ef hann gerði svo flygi fuglinn úr hreiðrinu og sæist ekki meir, það tæki langan tíma að fá starfsmann eins og hann aftur. Átti að Villi að hætta á að missa kúnna, voru þetta óþarfa áhyggjur?


Hver á sökina?

Hvað finnst ykkur? Á offituvandamál Silla að vera eitthvað vandamál?

Er vandinn stærri en Silli einn, liggur vandinn hjá fyrirtækinu að bjóða ekki bara upp á heilsufæði og gulrætur. Fyrirtækið hefði átt að skerast í leikinn og kaupa líkamsræktarkort fyrir Silla. Fyrirtækið á að hafa stefnu í þessum málum, hagur þess að starfsmenn séu heilsuhraustir og fyrirtækið sé nokkurs konar þjálfari sem haldi staffinu í formi, jafnt andlega sem líkamlega – fyrirtækið sé hið raunverulega vandmál. Fyrirtækið gæti umbunað staffinu ef það kæmi vel út úr þrekprófum og greitt því bónusa fyrir. Silli gæti mögulega farið í Séð og heyrt og DV og sært ímynd fyrirtækisins ef hann fengi ekki starfið, lögsókn væri möguleg - fórnarkostnaðurinn að hafna honum um starfið væri hár. Á ekki að taka fólki eins og það er og standa með því í gegnum súrt og sætt? Er lagalegt réttmæti í því að hafna Silla á þeim forsendum að hann sé spikfeitur og taki sig ekki vel út í jakkafötum? Er Villi hræddur um að ráðning Silla komi illa niður á honum? Silli verði bara veikari með árunum, missi kúnna, þurfi endalaus flugsæti og ráði bara ekki við starfið sökum offitunar og sykursýkinnar? Er ekki bara eðlilegt að taka þyngdina sem stóran faktor fyrir því að ráða ekki göltinn?

Endilega segið ykkar skoðun í kommentakerfinu.

|




2.6.05

Dægur- ...

Þessa daganna er margt að gerast, líklegast er svo hjá flestum. Sumarið að ganga í garð og plön gerð varðandi sumarið, bæði einkalíf og vinnu. Ég er ótrúlega fróður um hvað Paris Hilton gerir þessa daganna eða á að vera að gera. Ég er mjög forvitinn hvað varð þess valdandi að Paris og Nicole Ritchie eru ekki vinkonur lengur. Svo er það brúðkaupið hjá Loga og Svanhildi og einhver stelpa er ólétt og það koma myndir af henni víðsvegar. Stopp...

Maður er alltaf í markmiðasetningu. Dagurinn gengur út á að ná tilteknum markmiðum sem maður setur sér. Óþægilegt að hafa óljós markmið þannig að maður veður úr einu verki í annað og veit nánast ekki hvort maður hafi rekið endapunktinn á það sem maður vinnur í hverju sinni. Afmörkun, hólfun, stikur, forsendur. Þetta er það sem hjálpar manni í gegnum verkefnin, að búta þau niður. Óreiðan er óþægileg. Í lagi er að hafa óreiðu í því verkefni sem maður vinnur að, það er óhjákvæmilegt á vissum stigum enda er maður stundum clueless þegar maður byrjar á einhverju verki, það er eðlilegt. En húbúkkið og dægurþrasið, það er hættulegt og getur varnað sýn á aðalatriðin. Óþægilegt að hafa fyrir sjónum sér dægurmenningu af lægra taginu bakvið eyrað þegar maður á að einbeita sér að öðru. Nú er DV komið með Séð & heyrt snepil. Annað tölublað kom með blaðinu í dag. Ég blaðaði í gegnum það og var argur á eftir, slök tímanýting. Ég reyni eftir fremsta megni að einbeita mér að vinnu´- og íþróttamálum auk annarra smámála sem umkringja mig. Svo stend ég í afar spennandi tiltekt. Maður þarf að henda drasli og blöðum af og til því rýma þarf fyrir öðrum blöðum og drasli.

Ánnar hluti Hipp-hopp Halla er á leiðinni og svo er ég með dæmisögu af starfsmanni sem er fangi eiginn líkama og langar í stöðuhækkun en hann er svo feitur að yfirmaður hans óttast að hann fæli kúnna frá. Siðferðislegt álitaefni þar.

|