26.8.04

Maður og tækni

Maður og tækni nálgast óðfluga hvort annað. Maður og tækni eru vinsælt yrkisefni skáldsagnahöfunda, kvikmyndagerðamanna og tónlistarmanna. Sbr. Man Machine (Kraftwerk), Metropolis (var það Eisenstein), Star Trek, Blade Runner, Terminator og Tom Swift. Ætla að setja smá pistil inn um þetta, eða frekar stuttan dálk. Er orðinn formaður Frjálsíþróttadeildar Ármanns. Hvernig get ég nýtt tæknina þar, maður - tækni. Kannski bara heimasíða, eitt stykki. Gagnvirkni gagnvart félagsmönnum - góð síða er andlit út á við ásamt góðum fjölda iðkenda. Jæja, uppbyggingarstarf þar á næsta leiti. Haus í pækil, hristur vel þar ofaní og kannski koma einhverjar hugmyndir - tja, þær eru nú komnar. Sjáum hvað setur. Varðandi iðkendur, þá er þetta alltaf barátta um sama hausafjöldann. Það þarf bara að virkja sófabörnin og nammigrísina. Margir óvirkir sem munu ekki bíða þess bætur að hafa japlað fullmikið nammi þegar sykursýkinn bankar á dyrnar hjá þeim. Kók í bauk og mars er ekki málið, djöfladjús í formi diet-drykkja er betra, eitur í hófi er betra en sykur í algeru óhófi. Lindford Christie er hérna fyrir neðan, Ólympíumeistari í 100 m í Barcelona 1992. Hann hljóp skeiðið á 9,87 s 32 ára gamall. Setti Evrópumet sem var svo slegið af Obikvelu (9,86 s) í úrslitahlaupi í Aþenu fyrir nokkrum dögum. Sá síðarnefndi er fyrrum Nígeríumaður, núverandi Portúgali. Báðir Vestur-Afríkumenn að upplagi. Reyndar er Christie fæddur Jamækumaður rétt eins Donovan Baile, núverandi Kandamaður. Baile setti svo heimsmet í úrslitahlaupi Ólympíuleikanna 1996, 9,84 s. Christie sagði í blaðaviðtali að hámarksárangur hafi staðið á sér unns hann tók mataræðið í gegn. Borðum hollan mat, mæli með Matreiðslubók Nönnu. Hún er bara svo helvíti dýr - 15.000 kr. En viska á hverri blaðsíðu.



Vélrænar hreyfingar manns - þotuhreyfill.


Tvær vélar, önnur lífræn og tók óratíma að þróa, hin á öllu styttri þróunartíma. Báðar þurfa andrúmsloftið, önnur þarf nýlega fæðu úr náttúrunni, hin þarf gamla - olíu. Hvorug eilífðarvél því þær eru ekki til. Lögmál varmafræðinnar ávallt í gildi. Allt tekur einhvern tímann enda.

|




25.8.04

Vandamál heimsins, þá og nú.

Hörð lífsbaráttan skerpir á skilningarvitunum. Allar rásir opnar, hlustað eftir bylgjum, réttri tíðni, spor rakin, hljóðin koma upp um bráðina. Hversu langt er í næsta bita. Auðveldara sunnar, erfiðara norðar. Sunnar þá veita útrétt hönd og létt ganga um skóginn lykil að bráðinni. Norðar þá þróaðri aðferðir - gildrur, söltun og verkun og forði settur í jörðu, í túndruna. Skinn, sinar og bein, allt nýtt til hins ítrasta. Tómur magi veldur gremju og sundrungu, getur einhver betur en foringinn. Eru góð ráð dýr, eru önnur betri á næsta leiti. Reynsla í sarpinn og um fertugt á toppnum, til hvers annars ertu nýtur mikið eldri, þegar styrkur hnígur og sinar verða stökkari og sjón daprari. Meðalaldur samt nokkuð hár og sátt í samfélaginu, enda nóg landrýmið.



40.000 ár, það er langur tími. Gósenland steppunar undan ísaldarjökli bíður upp á risahirti, hesta og smádýr.

En hvað í dag. Hverjir eru þeir hæfustu. Þeir sem fjölga sér hraðast og mest, þeir sem veiða mesta björg í bú. Milljón á mánuði eða 6 börn. Eru það völd eða fjöldi barna. Mörg börn þýða minni völd, meiri tími fer í fæðuöflun sem gefur minna.

Maðurinn glímir við ýmis vandamál frá tíma til tíma. Hans innra vandamál er heilsa hans. Hans ytra er rýmið. Innra vandamálið breytist eftir því sem tíminn líður. Eitt sinn þurfti að seðja hungur til að halda búk gangandi. Í dag eru það reykingar og áfengi og innan seilingar bíður okkar offitan. Það segja allaveganna fyrirsagnir erlendra tímarita. Þ.e. offita dregur á reykingar og áfengi sem stærsti og kostnaðarsamasti hluti heilbrigðiskerfisins, þ.e. á Vesturlöndum. Ytra vandamálið er rýmið. Fólki fjölgar stöðugt og mannfjöldaspár segja að jörðina muni byggja 9 milljarðar árið 2050. En hvað þarf til þess að leysa vandann. Þegar eitt vandamálið er leyst þá tekur annað við. Vandamálið er að þessi tvö hérna fyrir ofan eru innbyrðis tengd. Þ.e. þegar annað vandamálið er leyst þá tekur hitt við, ef við skoðum orsakaþætti vandamálsins.

Fólki í þróuðu ríkjunum fer fækkandi. Og hver er svo ástæðan? Nú, í nútímasamfélagi þarf einstaklingurinn að mennta sig, hasla sér völl á atvinnumarkaði og stofna fjölskyldu - ef hann telur þann kostinn vænstan. Þetta tekur bara allt lengri tíma en áður. Fólk í þróuðu ríkjunum lifir almennt í bómullarhnoðra sé það borið saman við fólk í vanþróuðu ríkjunum. Í samfélaginu er gott heilbrigðiskerfi, ungbarnadauði er lítill og hás meðalaldurs má vænta. Fólk eignast börn síðar en áður og frítími er nægur. Ekki þarf endalaust brauðstrit svo endar nái saman. Á síðasta ári dóu fleiri en fæddust á Spáni og á Ítalíu. Fólki í þessum löndum fækkar. Við höfum meiri frítíma eins og fyrr segir og neysla okkar hefur aukist. Framleiðendur berjast um athygli okkar. Við höfum nægan tíma til að borða. Allir fitna, og í BNA, þeir mest sem minnst eiga en þeir minnst sem mest eiga, það er þversögn. Gæðafæða er ekki alltaf við hendina eða á næsta leiti en hamborgari er kannski í göngufjarlægð, og oft kallar hann á okkur.
Þegar viðskiptamúrar falla og opið hagkerfi og lýðræði er innleitt þá verður þjóð ríkari. Þegnarnir njóta góðs af og hagkerfið stækkar og fólk efnast. Fólk hefur tök á því að mennta sig og getur frekar treyst á hið opinbera. Öryggisnet samfélagsins eflist. Fólk þarf ekki að treysta á barnafjölda til að sjá fyrir sér í ellinni. Meðalaldur hækkar.



Þannig að jafnan er "færra fólk, meiri fita". Við eflum hagkerfi þjóða og færri börn fæðast. Færri byggja jörðina, en þeir sem byggja hana eru feitari. Þetta er allt nokkur einföldun en til þess að fá betri heildarsýn og átta sig á breytistærðum er ágætt að einfalda hlutina. Kannski ríkið þurfi að grípa inn í. Hlutverk ríkisins er m.a. að vernda þegnana. Þarf að vernda þá gagnvart markaðnum sem leikur á þá sem síst skildi. En reglur, boð og bönn flækja hlutina. Við viljum einfaldleika, hann er bestur. En heimurinn er ekki einfaldur, hann er reynsluformúla, svona eins og varmafræðilögmálin. Við þurfum að laga hlutina að okkur, finna bestu lausnir, "trial and error".

Nokkur tvíræðni liggur því í orðalaginu þeir hæfustu lifa. Þeir hæfustu, þ.e. þeir sem afla mestra tekna, lifa best. En þeir sem eru hæfastir í að fjölga sér, koma genum sínum áfram, lifa verst.

|




24.8.04

Rýmispælingar. Smá sósa úr höfðinu.

Til hvers þurfum við að pæla í rýminu í kringum okkur? Til er ýmiss konar speki. Arkitektar eiga nú að heita sérfræðingar á þessu sviði. Kalla má arkitekta þverfaglega listamenn ef vel tekst til, en í versta falli verkfræðinga eða tæknifræðinga. Arkitektarnir læra allt milli himins og jarðar um virkni rýmisins og samband þess við einstaklinginn. Svo eru aðrir heimaspekingar sem byggja á annars konar arkitektúr – kannski hægt að nefna það arkitektúr sálarinnar. Speki sem fjallar um tengsl húsmuna við sálartetrið. Hvernig hægt sé að hámarka innri ró sína og vellíðan með réttri röðun á húsmunum. Hjá Völu Matt segja Feng Shui spekingar okkur að ekki sé holt að hafa sjónvarpstæki í svefnherbergjum, orka herbergisins (veggirnir og þeir einstaklingar sem eyða tíma þar) fari í hluti sem lágmarki aðra gleði en sjónvarpsgláp. Reyndar vinna verkfræðingar við það að hámarka afköst véla og manna með framleiðsluskipulagi, þá helst uppröðun véla og manna og alls þess sem sem kemur nálægt framleiðslunni. Fóðra þarf sálina svo hún geti afkastað sem mest, sama hvort sem er að mála veggi hvíta, spila Bach, fara í morgunleikfimi eða stafla blómum umhverfis starfsfólk. Vélarnar þurfa annars konar viðhald, þ.e. viðhaldsskoðanir, varahluti og smurningu.


Þetta þykir fínt


Varðandi pælingar mínar vil að fram komi að sjálfur er ég ofanvarp skoðanna mágs míns. Hver maður á meistara í sínu fagi, mágurinn er víst minn meistari á þessu sviði. En alla þekkingu ber að vega og meta með sítengdu aldrifi skynsemi og skilnings og tengja við það sem fyrir er, maður hleður ofan á grunninn eða býr hann til – styrkar stoðir þarf til að þola miklar byrðir.


Þessi er flinkur



En arkitektar eru misjafnir eins og þeir eru margir. Krankleikar arkitekta geta verið að fylgja ekki listrænum sjónarmiðum, kostnaðarsjónarmið ráða ferðinni og arkitektinn er ekki listamaður heldur tæknifræðingar á flugi. Rýmið er kassi. Framleiðsla og gæði skipta víst máli. Afköst á kostnað gæða, lágmarksverð á kostnað gæða, afstætt verðmætamat.



Þessi er flinkur



En þetta eru einungis pælingar amatörs. Rými er nánasta umhverfi okkar. Fyrir hvern er rýmið? Núið og rýmið! Að hverju þarf að huga. Rúm, hvað rúmast í rými – innan þess. Steypa – hólfun. Samskipti á vinnustað, samskipti á heimili. Opin skilrúm, lokuð. Vandamál að eiga samskipti – dyrasímar, stigar, kallkerfi hólfun, álmur og gangar.


Gott stöff



Íbúðareigandi þarf að taka vel ígrundaðar ákvarðanir. Óþarfa hlutir geta ergt okkur. Hvernig þarf lýsing að vera. Lýsum við upp veggi sem rými eða til að sjá betur andlitið á hvort öðru. Hefur veggurinn annað hlutverk en það að afmarka okkur frá ytra umhverfi og búa til okkar innra umhverfi. Er veggur bara skilrúm og umgjörð málverks? Til hvers eru óþarfa smáhlutir, óþarfa styttur og hillur. Hvað veit maður í lúnum gallafötum, reykjandi sígarettur milli þess sem hann drekkur kaffi eða var það öfugt, prangandi styttum og smáhlutum inn á okkur sem bíða þess að vera vörsluþegar gluggakistna og hillna, hvað sé okkur fyrir bestu. Oft erum við bara fólk að leita að sérkennum heimilisins, en byggjum skoðanir okkar á veikum grunni. Hefta smáhlutir samskipti mín , safna þeir ekki bara ryki. Er gras ekki óþarfi sem þarf að slá? Spurning? En þekking er af hinu góða og mennt er máttur í sem víðustum skilningi í þessum efnum sem öðrum.

Tökum Hrafn Gunnlaugsson sem dæmi. Hann velur órækt, flóru illgresis. En hvað er illgresi? Það sem vex í Lauganesinu óheft. Við þurfum að viðhafa rétta nálgun á viðfangsefnum okkar. Getum við gert grískar eftirhermusúlum að fúnksjón á heimili okkar þegar steypustyrktarjárn hafa tekið við hlutverki þeirra. Eru súlurnar ekki bara eftirhermur. Getum við treyst arkitektinum sem teiknaði þessar súlur, er þetta listamaður eða kannski bara iðnaðarmaður sem hefur að engu viðtekin sjónarmið stéttar sinnar. Maðurinn endurspeglar umhverfi sitt. Forðumst það að gera umhverisslys og taka rangar ákvarðanir. Ef við villumst af vegi þá er bara að fara í góða naflaskoðun og meta svo hlutina að nýju.

Enda þennan sósupistil á textabúti og rýmispælingum Hal Davids við lag Burt Bacharach, A House Is Not A Home.

A chair is still a chair
Even when there's no one sitting there
But a chair is not a house
And a house is not a home
When there's no one there to hold you tight,
And no one there you can kiss good night.

A room is still a room
Even when there's nothing there but gloom;
But a room is not a house,
And a house is not a home
When the two of us are far apart
And one of us has a broken heart.

|




19.8.04

Paul Hamm í ham

Já, fimleikarnir á Ól. eru spennandi og Paul Hamm vann rétt í þessu Ólympíumeistartitil í fjölþraut karla. Gerði mistök í upphafi keppni og datt niður í 12. sætið en vann sig upp. Hausinn, það er víst það sem skiptir máli í íþróttum og flestu, svona almennt. Að halda haus, það sem við viljum að handboltalandsliðið geri. Eftir að vera búið að vinna upp forskot andstæðingsins kemur að því að halda stöðugleika. Í gegnum tíðina hefur það reynst erfitt. Við getum unnið upp ævintýraleg forskot en ekki haldið stöðugleika og unnið eftir áætlun sem miðar að því að vinna með 2-5 mörkum. Við erum greinilega vön skorpuvinnunni og göngum í málin þegar aðvörunarbjöllur klingja.
En frekar af Paul Hamm. Paul á tvíburabróður sem er ekki alveg jafn góður og hann, en samt alveg afburða og keppir einnig á Ólympíuleikunum. Það kannast kannski einhverjir við það að standa í skugganum af bróður og/eða systur. Þetta höndlaði einn yngri bræðra Michael Douglas og nú hvílir hann lúinn bein á kistubotni. En það er ekkert við þessu að gera annað en að vera hress og eljusamur - "minn tími mun kom" - blablabla

Maður er manns gaman. Er 20.000 ekki betri tala en 2. Var meðvirkur í stemmingunni og fór á völlinn áðan. Sá eitthvað af leiknum og hoppaði tvisvar upp og brosti til allra sem svöruðu með brosi. Hamingjutilfinningin sveif yfir. Sigurtilfinning sem er af sama meiði og standa sig vel á prófi og leysa erfitt verkefni. Maður sér víst leikinn betur í sjónvarpinu og bestu sætin eru í sófanum, en stemmingin kemur ekki heim í sófa. Hvort sem það er að fara á völlinn eða Klassann eða bara kíkja í saumklúbb og heyra slúðursögur af Sigga og Stínu þá eru það gömul sannindi og ný að maður er manns gaman.

Hef greinilega ekkert að segja + stafsetningin er ekki alltaf upp á sitt besta, les ekki pistlana yfir.

|




16.8.04

Afmæli liðið og Ólympíuleikar

Já, búinn að bæta einu ári í sarpinn. Low-profile afmælisveisla. Það eru nánasta bara slæmar tímasetningar í gangi, fyrst gott veður, svo Ólympíuleikar. Hef fylgst vel með leikunum síðan '88 og er einlægur áhugamaður um statistík. Svo virðist sem hvert lyfjamálið reki annað. Nú virðist sem lyfjaprófin séu samstíga þróun lyfjanna en ekki eftirá og við fáum að lesa og heyra meira en áður. Einstaklingar taka sénsa og peningar eru í húfi. Nú síðast mætti Kenteris, Ólympíumeistarinn í 200 m hlaupi, ekki í próf og er í vondum málum. Munurinn á að vera nr. 15 eða nr. 2-4 getur þýtt fjárhagslegt öryggi og aulýsingasamningar, en fallið verður hærra ef viðkomandi hefur óhreint mjöl í pokahorninu. Þ.a. íþróttamenn ættu að hugsa sig vel um áður en þeir fá sér eitthvað sterkara en c-vítamín.

Heimdallskosningar eru í fjölmiðlunum enn eitt árið. Þætti saga til næsta bæjar erlendis ef svona nokkuð kæmist í fjölmiðla - hugsa ég. Mér þykir ólíklegt að jafn almenn þátttaka sé meðal jafnaldra erlendis í grasrótarsamtökum af þessu tagi. Ástæðan hér á landi er líkast til tvíþætt, þ.e. óvenju mikill áhugi fyrir pólitík eða þá að þátttakendur telji það nauðsynlegt skref að taka þátt í ungliðastarfi sem þessu til að kinda undir framapot sitt. Hingað til hefur mér þótt þetta vera fámennur saumklúbbur, þ.e. lítið farið fyrir almennri þátttöku hins mikla fjölda sem skráður er í félagið. Nú er víst ný stjórn tekin við - nýr vængur. Ef ég þekki Tómas Hafliðason rétt þá verða hagkvæmustu leiðir bestaðar.

Í nýjasta hefti Time og National Geographic er offituvandinn tekinn fyrir. Offitan er í mikilli sókn og líklegt er talið að hún muni bráðlega skjóta reykingum og áfengisnoktun ref fyrir rass sem alvarlegasti heilbrigðisvandinn. Magaminnkunar- og þarmastyttingaraðgerðir eru orðnar tíðari. Offitusjúklingar eru sagðir fórnarlömb eigin gena og auglýsinga. Við erum þannig hönnuð að við fáum aldrei nóg og ef við komumst í bragðgóðan mat þá viljum við mikið. Skammtar hafa stækkað og gæðafæða er ekki á hvers manns færi sbr. BNA. Þar eru fátæklingar ver á sig komnir, þá sérstaklega fátækir blökkumenn, en 1 af hverjum 3 þjáist af offitu í þeirra hópi á móti 1 af hverjum 4 hvítum fátæklinum, en svo 1 af hverjum 6 í hópi vel stæðra.

|




11.8.04

Fjölmiðlar

Ætli við séum ekki sammála að íslenskir fjölmiðlar séu bara ágætir, sæmilegir til síns brúks, hvorki of né van. Sumt er gott annað slæmt og hitt fetar miðjuslóðan og er hvorki það fyrrnefnda né það síðarnefnda. En ef við horfum þangað sem grasið er grænna – út í heim þá langar mig að dreipa örlítið á umræðu sem vert er að athuga.

Heyrði umræður í útvarpinu um daginn þess leiðis að upplýsing væri að kæfa okkur. Er nokkuð til í þessu? Því er þannig háttað að miðlar ljósvakans hafa aldrei verið fleiri og í því fellst vandinn. Hann er í eigu hverra (þeir erlendu)? Hvert myndskeið má ekki vera lengra en x sekúndur og hraði klyppinga er meiri en áður, meiri spenna og styttri fréttir síendurteknar, svo þú er nánast á nálum. Tækni og þekking eykst dag frá degi. En þetta veldur því að tilsvarandi dýpt vantar í fréttaflutning og skilningur á efninu verður grynnri og skoðanir fólksins einsleitari, því þær endurspegla main-stream fjölmiðla. En sannleikurinn er þarna úti, einhversstaðar – maður verður bara að gramsa eftir honum.


|




10.8.04

Ólympíuleikar

Ný styttist óðum í Ólympíuleikana. Væri til í að fara en það verður að bíða betri tíma. Íslendingar eiga nokkra Ólympíufara og þar á meðal Jón Arnar og Þóreyju Eddu, einnig er vert að minnast á Hafstein Ægi siglingamann að ógleymdu handboltalandsliðinu. Gaman verður að fylgjast með Hafsteini þar sem hann hefur náð góðum árangri í singlingakeppnum undanfarið. En í samanburði við fjölda þátttakenda í frjálsum íþróttum þá getum við svo sem vel við unað ef við förum út í höfðatölureikning, Svíar eiga 12.

Lyfjahneyksli hafa hrist upp í umræðunni, þ.e. í Bandaríkjunum, en nú vill svo til að óháðir aðilar sjá um lyfjapróf þar í landi í stað bandaríska frjálsíþróttasambandsins og nú virðist sem Torry Edwards, 100 m hlaupari sé dottin úr leik. Hún var úrskurðuð heimsmeistari eftir að Kelly White féll á lyfjaprófi á mótinu í fyrra. Fyrst svo er hlýtur Marion Jones sæti í 100 m sveit Bandaríkjamanna. En Jones hefur ekki farið varhluta af lyfjaumræðunni og hefur hún verið útilokuð í sumar frá þátttöku í gullmótunum. Vert er að minnast þess að fyrrverandi sambýlismaður hennar kúluvarparinn þétti C.J. Hunter sem er í lyfjabanni segir hana hafa innbyrgt lyf í massavís meðan á sambandi þeirra stóð. En núverandi sambýlismaður og barnsfaðir Jones er sakaður um meinta lyfjanotkun og sætir rannsókn, en heimsmethafinn núverandi hefur lítið getað í ár og komst ekki í bandaríska liðið. Maurice Greene er hress sem aldrei fyrr, en hann ásamt Jamækumanninum Asafa Powell og samlanda sínum Gantlin munu heyja harða baráttu um gullið.

|




5.8.04

Satan(n) - sami fasi enn


Þessi rýmispistill lætur bíða eftir sér - reyndar glundroðapælingar, en allt rúmast það í rými og er minni óreiða í rými nokkuð betri en meiri - er óreiðufunkismi hámarksnýting á rými hvort sem er huglæg eða hlutlæg. En þannig er það samkvæmt varmafræðinni að huglæga óreiðu, stormurinn í höfðinu, í lífinu, er hægt að lágmarka með skipulagi eða öðru slíku - en þessi raunverulega, þ.e. óreiðan í himingeimnum, er ekki hægt að minnka, hún eykst dag frá degi á fyrirsjáanlegs endis.

Hvað er málið með O.C. Ég vissi þetta þegar ég sá byrjunina á endursýningunni á lokaþættinum. Siðferðislegur boðskapur þáttarins yrði sá að vinkonan sem er ólétt (sennilegast) eftir Ryan myndi vilja eiga krógann. Framleiðendur þáttanna telja það skildu sína við áhorfendur, þrátt fyrir alla þá óreiðu í lífi söguhetjanna, að koma ekki siðferðislega "réttum" boðskap áleiðis, vinkonan skal ekki í fóstureyðingu - gæti kallað á flóðbylgju kvartana. En hvað gerist í næstu seríu? Ég tel það ljóst að annað hvort er Ryan ekki pabbinn eða þá að vinkonan missir fóstur.

Svo er það Alias - hef beðið lægri hlut fyrir græðgi minni þar sem ég horfi á hvern þáttinn á fætur öðrum - niðurhalaðir þættir, ný sería. Allt sem viðkemur kalda stríðinu, njósnum og samsæriskenningu fær góðan hljómgrunn frá mér. Það er nú einu sinni þannig að James Bond er sá sem allir vilja vera en enginn getur verið.

Talandi um ofurhetjur. Klói2 var seigur. Tilurð og eiginleikar ofurhetjanna má rekja að einhverju leiti til ártalsins sem þeim er hnoðað saman. Tarzan er hvítur karlmaður sem er blámönnum fremri, enda skapaður í lok 19. aldar að mig minnir. James Bond síns tíma. Superman er fullkominn. Myndarlegur, vel greiddur og feiminn ungur maður að upplagi eins og lesendur sínir árið 1939. Svo eru það Hulk og Spiderman, seinni tíma afsprengi. Þeir eru raungreinanemar, eflir dáð ungra áhangenda og sálarflækjur þeirra eru dýpri en fyrirrennaranna, þeir eru ófullkomnari, Hulk t.a.m. hamslaus og skapstyggur.

Hef tekið til notkunar upptökuforritið GoldWave á tölvugarmnum og nú hef ég varið nokkrum tíma í að hljóðrita söng minn ofaní grúví lagstúfa. Íslenskur heimilisiðnaður er allra meina bót og gott sparnaðarráð. Hef ég nú útbúið allnokkrar afmælisgjafir sem minna gjafþega ávallt á mig. Fólk vill alltaf slá í gegn á einhvern hátt, nú er spurning hvort um vindhögg sé að ræða. Um 5 lög og eitt stef er að ræða. Stefið er Hulk-stef og lögin eru Armani1 og Armani2, þegar heimasíða verður bætt verður hægt að nálgast þessar hljóðskrár að sjálfsögðu.

Satan, súr prófatími kominn í gang, vonandi í síðasta skipti í bili.

|