25.4.04

Sumarvinna – gleði á móti gagnsemi

Nú fer hver að verða síðastur með að tryggja sér sumarvinnu. Klókir og fyrirhyggjusamir hafa eflaust klárað þessi mál snemma í febrúar en fyrir hina slugsana þá eru síðustu forvöð að tryggja sér eitthvað spennandi og jafnvel feitustu bitarnir horfnir af borðinu.
Fyrir nokkru síðan í góðærinu títtnefnda var enginn maður með mönnum nema hann ynni almennilega í ferlinum og ynni við eitthvað "merkilegt" og námstengt. Átti kunningja sem unnu í verðbréfadeildum og hjá merkilegum fyrirtækjum. Ég aftur á móti vann við að lesa af mælum milli þess sem ég las bækur og horfði á imbann eða þá sigldi gúmmítuðrum, fór í útilegur með grislinga og kenndi siglingar. Ég hálfpartinn afsakaði mig með því að vera að vinna þetta í stað þess að bjarga heiminum inni á skrifstofu á sólríkum sumardegi hjá einhverri bankastofnun.
Þ.a. að eitt sumarið ákvað ég að slá til og sækja um vinnu hjá banka, og fékk vinnu hjá Búnaðarbankanum verðbréfum. Það sumar var erfitt og ég sá greinilega að mikill uppgangur var í mannaráðningum en ekki næg verkefni fyrir allt þetta fólk. Í starfslýsingu minni stóð að ég ætti að vinna við markaðs- og rannsóknarstörf. Vá, sagði ég og hlakkaði til, vissi samt lítið hversu megnugur ég væri, en eitt vissi ég og það er mikils vert að vita það þó. Sem verkfærðinemi vissi ég að ég vissi ekki neitt en hafði ofurtrú, eins og ég hef reyndar enn, að með tilsögn og réttum gögnum þá gæti ég gert allt. En svo kom í ljós að ég var í raun baunateljari, ég safnaði símanúmerum, hringdi í fólk og bauð því rafrænan verðbréfareikning, svo kom fyrir að ekkert var hægt að gera því það var ekkert að gera. Vinnan var súr en staffið fínt, og lítið annað hægt að gera annað en að hlæja að því að vera þátttakandi í óúthugsuðu tilraunaverkefni. Ég kom oft reiður heim úr vinnunni – hvern djöfulinn væri ég að gera þarna. Ég sá það þarna og hef séð það síðan, að oft er lítið gagn í skólafólki annað en að vinna skítverk sem falla til og er nokkuð við því að segja, það byrja allir á botninum. Vinkona mín sem vann sem þjónustufulltrúi leit með goðsagnakenndum blæ til verðbréfadeildarinnar, en hún vissi ekki hvað hún var heppin. Hennar starf var fjölbreytt og mannleg samskipti voru stór þáttur í starfinu. En ef skyggnst er í gegnum þessa goðsagnakenndu móðu sem sumir eiga erfitt með að skýra þá hefur þessi móða samanstaðið af fjörugum starfsmannaferðum, greddu og æskufjöri, því meðalaldur verðbréfadeilda bankanna var frekar lágur – það er ekki vinnan heldur fjörið utan hennar. Hef spjallað við þónokkra kunningja síðan og hafa þeir lofsamað vinnustaðinn og vinnu sína, en lítið talað um hana nema á almennum nótum, þeir fela harm sinn í hljóði í brjósti sér, þeir eru bara baunateljarar. En ég lét þetta sumar nægja og snéri mér að því að gefa “high five”, vera hress, fara í leiki, sigla og ferðast um suðurlandið. En kannski hefði ég bara átt að halda þarna áfram – þá væri hillan komin og sumarvinnan og jafnvel eitthvað meira.

Þetta er nefnilega spurning um hvort hámarka eigi sumargleðina eða hámarka gagnsemina. Móses þurfti að dvelja í eyðimörkinni áður en hann fann fyrirheitna landið, en ég féll fyrir stundaránægjunni. Og svo er það eitt sem ég setti fyrir mig, ég spurði mig hvort maður yrði einfaldlega leiðinlegur í leiðinlegri vinnu og léti gremju sína bitna á sínum nánustu. Frekar valdi ég gleðina þar sem ég vaknaði á undan vekjarlaklukkunni, sigldi, fór í kayakferðir, sigldi á seglbrettum og lét vindinn leika um lubbann


|




20.4.04

Tíminn hann er trunta!

Já, Egill söng “tíminn hann er trunta með tóman grautarhaus”. Samtímaspekingar rýna í tímann og tómið sem honum fylgir og skrifa um tímana sem eru augljóslega tvennir. Þeir fjalla með glyrnum um líðandi stund og það sem liggur til grundvallar, hvar við erum og afhverju við erum þar sem við erum. Ýmis orð eru notuð og hvað sjálfan mig varðar þá hef ég oftsinnis hnotið um orðið firringu og hef notað það nokkuð í spjalli mínu við félaga þegar við höfum sett á okkur spekingsgleraugu og reynt að fá sem skýrasta mynd af samtímanum og púslað saman mósaíkmynd sem á að endurspegla það sem við og hinir eru. Veit ekki hvernig tekst til en við áreynslu og spjall skerpist myndin. En við of ýtarlega og reglulega naflaskoðun getur amatöraspekingum orðið fótaskortur á svellinu og útkoman orðið sú að við vitum ekki í hvorn fótinn á að stíga í leit okkar að réttum gildum. Sagt er að við séum miðja vegu milli BNA og Evrópu í víðtækari skilningi en landafræðilegum. BNA dregur vagninn og Evrópa veitir aðhald. Í Japan er hafnarbolti og ruðningur vinsæll og þar horfir æskan á Friends og safnar spjöldum af körfuboltahetjum. Í kvöld fór ég í vinnuna og horfði á hinn vinsæla þátt O.C. á Skjá einum, það var O.C. kvöld í kvöld þar sem 8. bekkingar gleyptu við atburðarásinni sem hæfir sápu af þessu tagi. Reyndar þykir þátturinn nokkuð vel heppnaður þar vestra þar sem hann er á sínu öðru framleiðsluári – ekki allar sápur sem ná þeim aldri. Í þættinum lifa unglingarnir áhyggjulausu lífi að mestu, allir hafa nóg að bíta og brenna og þurfa einungis að spá í atburði líðandi stundar ásamt óvæntum uppákomum eins og þegar pabbi Luke reynist vera hommi, Seth kyssir tvær stelpur sem eru hrifnar af honum og allt kemst upp og Luke og Ray eru buffaði af andstæðingum sínum í hinu fótboltaliðinu, þar sem Ray reynist aðalkeppinaut sínum um Söndru betri en enginn. Já, þetta eru vandamál sem unglingarnir þurfa að glíma við eða munu brátt þurfa að glíma við og setja þetta í reynslubankann, hann er nefnilega bæði raun og ímyndaður. Mikið var spjallað yfir þættinum og eftir hann og allir sammála um að best hafi verið fyrir alla að sannleikurinn um pabba Luke hafi komið í ljós því verra sé að lifa í blekkingu og eftir allt saman hafi aðstandendur og vinir komið sterkari út fyrir vikið, þroskaðri og reynslunni ríkari í baráttu sinni gegn sínum eigin fordómum og annarra.

Þetta leiddi huga minn að grein sem ég las í Lesbókinni sl. helgi þar sem greint er frá bók Beckerman, ungs rithöfundar, Generation S.L.U.T., sem gerir ólifnað bandarískra unglinga að yrkisefni sínu. Greinin er unnin upp úr viðtali við höfundin og gagnrýni á hann sem byrtist á vefritinu Salon.com. Höfundurinn er 21 árs og mitt í allri sódómunskunni. Bókin er víst berorð og fjallar um framhaldsskólanemendur í Ancorage í Alaska þar sem skólafólkið er aðallega í því að sofa saman, fyrirlíta sjálft sig og sletta framan í hvort annað sem safaríkustum og dónlaegustum orðum. Minnst er á fleiri höfunda sem sent hafa frá sér bækur, sem fjalla um firringu ungdómsins, á borð við Bret Easton Ellis sem síðar skrifaði bókin American Psycho. Í greininni er vitnað í blaðamann sem finnst skrif Beckerman illkvittin og grunnhyggin og staðfesti þá skoðun hans að helsta vandamál bandarískra unglinga að þeir hafi alist upp fullkomlega sjálfhverfir og finnst þeir eiga heimtingu á öllu og því megi þeir slá um sig með ljótum, illkvittnumog klunnalegum orðum og að þar með séu þeir snjallir, sniðugir og skarpskyggnir. Í greininni eru orð hans túlkuð svo að hann sé að túlka veruleika ungu kynslóðarinnar, y kynslóðarinnar, í BNA nú á dögum. Hann segi að kynslóð hafi verið alin upp af fólki sem telji siðferði vera afstætt, og þar af leiðandi búi y-kynslóðin ekki að neinum siðferðisgildum. Greinarhöfundur segir að ályktun Beckermans beri kannski ekki vott um að hann sé gæddur snarpri rökhugsun, og að hann rugli þarna saman afstæðishyggju og tómhyggju. Greinilegt að pilturinn þarf að rennari sterkari heimspekistoðum undir heimssýn sína. En heimurinn ferst nú ekki, en kjarni vandans er líklegast að skortur á föstum siðferðislegum gildum. Vandamálið er að við höfum nóg af frítímanum en vitum stundum ekki hvað á við hann að gera og tíminn hann er trunta með tóman grautarhaus.

|




Hver er Giorgio Moroder?

Ítalinn Giorgoi Moroder (1940) er líklegast einn áhrifamesti garpur diskótónlistarinnar. Fáir vita hver kauði er. Ég kynntist honum fyrst þegar ég varð mér úti um 12 mínútna útgáfu af laginu Chase úr mynd Alan Parkers frá 1978, Midnight Express. Lagið hefur síðan þá verið þvælt og samplað og notað sem grunnur í fjölmörgum tónlistarstefnum eins og algengt er með vel heppnuð diskólög. Moroder bjó og starfaði í Munchen þar sem hann kom sér upp sínu eigin hljóðveri, Musicland. Fyrsti singullinn hans var lagið Looky, Looky, árið 1969. Fyrsta platan, Son of My Father kom svo út snemma árs 1972. Hvati velgengni var svo samsuða tríós sem samanstóð af Pete Bellote og Donnu Summer auk Moroder. Þessi hópur átti svo eftir að verða drifkraftur í framþróun diskósins. Tríóið sendi frá sér 17 mínútna smellinn Love to Love You Baby, sem Páll Óskar segir víst að sé fyrsta diskólagið. Helsta vandamál diskótekanna var að hittarnir sem voru spilaðir voru helst til of stuttir, ekki skemmtilegt að vera kominn í heiftarlega sveiflu á gólfinu þegar lagið er svo búið, 10-15 mínútna skammtur er þá betri eða þriggja mínútna. Vert er að minnast á plötuna I Remember Yesterday sem innihélt “I Feel Love” og Donna Summer var diskódíva nr. 1. Moroder fór svo að semja kvikmyndatónlist og smellurinn Chase afrakstur þeirrar vinnu. Hann samdi tónlist við myndirnar Amercan Gigolo með Richard Gere í aðalhlutverki, Cat People, Top Gun og Flashdance. Fyrir lagið “Flashdance... What a Feeling” fékk hann svo óskarinn árið 1983. Moroder sendi svo frá sér fleiri smelli á borð við From Here to Eternity – veit lítið hvað hann sýslar í dag.

|




19.4.04

Viðskiptaáæltanir, hnakkar og ráðgjafastarsemi

Ég var í áfanga hjá Páli Kr. Pálssyni, Nýsköpun – vöruþróun og markaðssókn. Þetta var príðisáfangi, einn sá skásti sem ég hef setið við skólann. Ég og félagi minn fórum í hugarstorm og fengum ýmsar hugmyndir og ein þeirra var sú að bjóða upp heildarlausnir í persónuleikaþróun, Betri maður ehf. Hvernig einstaklingurinn ætti að komast frá sínum tilverustað sem væri A til samansoðins áfangastaðar sem væri B. B væri box uppfullt af gildum sem einstaklingi og ráðgjafa þættu ásættanleg. Ef um væri að ræða forfallin hnakka þá væri hann þarfagreindur. Hann fengi leslista sem spannaði það sem hann þyrfti til þess að vera þverfaglegur, einnig væri útlitsráðgjöf. Hnakkinn myndi svo vinna að þessum gildum á sínum eigin forsendum skref fyrir skref. Og ef vel myndi takast myndi hnakkinn hækka sig um deild, færi jafnvel úr C-deild upp í B-deild. Hnakki myndi ekki taka tvær deildir í einu, því mistök við markmiðasetningu eru þau að strengja bogan um of. Útkoman getur orðið sú að hnakki nær ekki markmiði og missir trúna á sjálfan sig og markmiðin og hefur samviskubit og leiða í kaupætið og situr eftir með sárt ennið og brotnari sjálfsmynd en áður.
En ekki fór svo að búin var til viðskiptaáætlun fyrir heildarlausnir á sviði persónuleikaþróunar, heldur bjuggum við til viðskiptaáæltun fyrir þróun, hönnun og framleiðslu á tæki sem mælir endurkast ljóss af vegstikum. Félagi minn var venslaður Vegagerðinni, vann þar á sumrin. Við gerðum viðskiptaáætlun og unnið var að tækinu í öðrum kúrsum. Svo sendum við inn umsókn til RANNUM, Rannsóknarsjóðs fyrir betri umferð. Við fengum vænlegan styrk sem við svo notuðum til að hanna og þróa tækið sem við settum svo í framleiðslu. Aðilum sjóðsins þótti það mikið til tækisins koma að við fengum meira að segja veglegan framhaldsstyrk. Líklegast er þetta helstu afrekum mínum. Nú er bara að bíða og sjá hvort eitthvað verði úr þessu tæki og RANNUM hafi ekki hent aurunum í sjóinn. En það er aldrei að vita hvort ráðgjafafyrirtækið Betri maður ehf. verði sett á laggirnar. En ráðgjafastarfsemi á sviði gæðastjórnunar, þjónustustjórnunar og betri rekstrar og þjónustu er svo til það eina sem mér lýst á eftir veru mína í þessu 90 eininga iðnaðarverkfræðinámi. Aldrei að vita nema að þetta sé hillan mín.

|




Heimspeki og trúarbrögð

Ég hef spjallað oftsinnið um það á þessari síðu um hversu stóra rullu heimspekin hefur í að leggja okkur lífsreglurnar nú þegar guðsótti er á undanhaldi í hinum vestræna heimi og kirkjusókn fer minnkandi ár eftir ár. Í grein í þriðjudagsblaði Moggans er einmitt fjallað um þetta. Fólki fjölgar sem gengur í smiðju heimspekinga til að leita svara sem trúin hefur lengst af veitt. Í greininni er sagt frá auknum áhuga á heimspekinámi, en afhverju þessi áhugi? Lengst af hafa mörg heimspekirit verið geymd rykfallinn í bókahillum bókasafna og bókabúða en er nú rifin út af áfergju. Heimspekin fyllir í tóm sem mörgum finnst einkenna líf sitt. Helsta vandamál Vesturlandabúa nú á dögum er skortur á sameiginlegum siðferðisviðmiðunum. Með fráhverfu almennnings á kirkjunni og aukinni umræðu um fjölmenningarhyggju hafa siðferðismörk orðið óljósari og margir hverjir standa á hálum í þessum efnum. Fólk er ringlaðra en nokkru sinni fyrr, það er ekki lengur fyrir hendi eitt siðferðisviðmið sem allir eru sammála um, nema að okkur finnst öllum að barnagirnd sé siðleysi. En um allt annað má semja. Kjarni vandans er skortur á föstum gildum. Sem börn þurfum við á því að halda að okkur séu sett mörk (sbr. Þegar mamma fór með mig út í búð og lét mig greiða fyrir gúmmíhanskana sem ég stal og ég lærði mína lexíu og hef ekki stolið úr búð síðan), og með sama hætti má segja að ef við vitum ekki, þegarvið komust á fullorðinsár, hvað við getum leyft okkur, fari okkur að skrifa fótur. Fyrr á tímum sáu kenningar kirkjunnar okkur fyrir svörum við spurningunum um rétt og rangt. Í dag er það svo að hópar fólks með trúarrit sem lífsförunaut er tilbúið að fórna lífi sínu fyrir verðlaun sem getið er um í ritinu. Þetta fólk býr sjálft yfir mjög skýrum og afdráttarlausum siðferðisgildum, gildum sem eru svo sterk að fólkið er tilbúið að fórna lífi sínu fyrir þau. Ef við ætlum að svara þessari ógn verðum við á Vesturlöndum að standa saman um okkar eigin gildi. Ef við ætlum að búa í veraldlegu samfélagi þurfum við veraldleg siðferðisgildi.

|




7.4.04

Starsky og Hutch

Hljóðdeyfir á rantinn á mér væri allra hagur þegar ég lendi heiðra kómíska mynd með nærveru minni. Fór á ræmuna Starsky og Hutch áðan. Aulahúmor og tvíræðni kitla ætíð hláturtaugar mínar. S & H er endurmatreiðsla á þekktum best of mómentum úr lögguþáttum áttunda áratugarins. Ég veit ekki hvernig stjörnugjafar handleika myndina en eflaust smella þeir tveimur á hana. Maður getur verið ginkeyptur fyrir efni sem höfðar til hvatanna, hvort sem um spennu eða glens er að ræða. Hef nefnt áður hversu sólginn ég er i kaldastríðs-, njósna- og samsæriskenningamyndir, sama á við um rómantískar gamanmyndir, epískar stórmyndir og myndir á borð við Dumb and Dumber, Fear and Loathing in Las Vegas, Idioterne o.fl. Hrifnastur er ég ef mynd ögrar mér á einhvern hátt og vekur mig til umhugsunar. Ég vil mæla með The Adventures of Sebastian Cole og Ice Storm. Fór einnig á myndina Ten Whole Yards, mér þótti hún afbragsslök og leiddist á henni, er ekki fyrir fíflalæti M. Perry. Gamanmyndir verða að þræða þessa fínu línu kómíkur sem slær á strengi hörpu hjartans.

|




6.4.04

Er vit í óvitinu

Ég var í prýðilegri fermingarveislu á sunnudaginn og festi á filmu hreyfimyndir af fólki. Ég beindi vélinni að dyragætt þegar inn stigu löggilt gamalmenni og rúmlega það. Ég heyri útundan mér þegar þau (kvenkyns) ganga fram hjá “þetta er illa gert, finnst þér það ekki”. Ég hafði semsagt farið yfir strikið, ég ungdómurinn kunni mig ekki. Fór ég því að velta fyrir mér húsráðum og hjátrú. Hef lesið um og horft á fólk í sjónvarpi sem segir frá lífsreynslu sinni í æsku og ræðir um hversu gömul húsráð hafi gefist vel; ekki borða saltaða kjöt á sunnudögum fyrir hádegi; signa sig sex sinnum áður en farið er yfir skarðið því annað boði ólukku og bjarg geti hrunið á mann og fleira í þessum dúr. Eflaust margt gott og gilt en spekin kannski gömul og runnin undan rifjum einstaklinga sem ólust upp við stopula farandskólakennslu og svara við furðuverkum nátturunar leitað af eigin rammleik.

Um gamalt fólk og speki. Pabbi sagði mér eitt sinn að gömlu karlarnir norður á Siglufirði hefðu haft á að skipa djúpri lífsspeki, þeir hefðu verið heilmiklir heimspekingar. Vatnið er kalt, sólin kemur upp og sest - svör við öllum spurningum umhverfsins. Já sumt breytist ekki, reynsla er dýrmætt veganesti og oft gott að sækja í brunn sér vitrari manna þegar við á. Bjarni Kristinn Torfason skrifaði á síðuna http://graennskitur.tk, þar allir pistlar eru langir, um armæðu sína gagnvart sunnudagsheimildamyndum á RÚV. Hann lætur í minni pokann fyrir foreldrum sínum og horfir á þessar heimildamyndir. Þegar ég hugsa til baka þá finnst mér eins og oft á tíðum hafi ég verið ofurseldur lotningu fyrir þjóðlegum háttum og íhaldssemi á borð við hversu góð og gild gömul speki sé og hversu merkileg lífsreynsla liðinna hákarlaformanna sé. Ekki það að ég hafi tekið undir með það að ungmenni í dagsins í dag séu á vonarvöl, heldur hef ég bara gefið þessu gaum og dokað við, en það er nú nokkuð um liðið síðan það var. En hver er ástæðan? Hvað er málið?
Ég vann eitt sinn við mælaaflestur í efnaverksmiðju, nánar tiltekið sýru-, ammóníksverks-, köfnunarefnis- og vetnisverksmiðju. Ég kynntist lút/sóta ágætlega. Þar fann ég mér ýmislegt til dundurs milli þess sem ég las af mælum á klukkustundarfresti og horfði á sjónvarpið. Ég setti saman lista af heimsbókmenntum sem áttu að vera möst lesning – svo sallaði ég niður listann. Ég fór meira að segja á kvikmyndina Verstöðin Ísland í háskólabíó í þroskaleit. Hafði velt fyrir mér tíðarandum í samfélaginu og vildi athuga hvort ég gæti fangað stemminguna, finna fyrir Íslendingnum í mér. Ég var semsagt að leita að þessari römmu taug sem svo oft er talað um. En það er eins með þennan fasa og aðra. Þeir koma og fara.

Líklegast markmiðið með þessum heimildamyndasýningum að gera hvunndagshetjur liðinna tíma kunnar almenningi. Koma lífshlaupinu fyrir á fimmtíu mínútum; kannski verið að gefa okkur von. Við fáum jafnvel okkar þátt í sjónvarpinu einn góðan veðurdaginn, þar sem sýnd verður að lítilfjörleg lífsbarátta okkar hafi einhverja merkingu og samsvörun við það sem aðrir upplífa. Kiddi í Skeljungi og Bjöggi í Eimskip þurfa ekki að vera einráðir um sviðið.

En frekar af sjónvarpsefni. Ég hef velt fyrir mér (ógnar)tökum gyðinga í Hollywood á kvikmynda- og sjónvarpsbransanum. Annað hvert brúðkaup í rómantískri gamanmynd er brúðkaup gyðinga og svo hlaut að fara með Sex and the city. Samsæriskenning mín núna snýr að barnaættleiðingum. Í S & C og nýlegum Friends þætti veltir fólk á fertugsaldrinum fyrir sér barnaættleiðingum, fólk sem hefur beðið of lengi með þetta og er runnið út á tíma. Í Friends þættinum er það ung móðir sem er íhugar það að gefa ófæddan króga, allir eru vinir og allt í góðu. Það er spurning hvort um samsæri gyðinga (framleiðendurnir) um að gera það trendí að ungt fólk sem gengur ekki heilt til skógar tímabundið ættleiði börn svo barnlausir geti fengið barn sama litarháttar, svona eins og þetta sé ekkert mál.

En nóg af þessu, hef greinilega ekkert að segja.





|