29.4.03

Kaðallinn

Ég var búinn að nefna það áður að á leiðinni væri pistill um glens. Stundum hefur maður nú ekkert að segja. Ég keypti mér síma fyrir stuttu. Ég var við skál síðastliðinn laugardag. Tilefnið var ærið enda átti Kafteinn afmæli. Ég var í hópi manna sem gengur í málinn, opnar flöskur og skálar. Klettur kallaði mig kveif og kenndi mig við kvenmann. Var lengi í gang enda óétinn. Ýmislegt var sett niður. Þetta setur strik í æfingar mínar en ég ætla ekki að væla meira um það. Ég æfi harðar. Er það ekki prófraun á sjálfan mig að reyna að ná upp fyrra formi með því að æfa enn harðar.

Það er engin kómík í því sem ég er að sýsla þessa daganna. Fáir segja brandara sem kitla fram hlátur. Allir eru svo helvíti alvarlegir - hvað veldur. Hvað veldur því ef menn er mjög alvarlegir? Ég er ekki að tala um þungir eða rólegir. Að vera alvarlegur það er annað mál. Já, langt síðan ég hef hitt á Kaðalinn, hann er á leið til Noregs, það er missir. Ég var búinn að hlakka til þess að láta vindinn leika um hárið á mér í samsíða línu við Kaðalinn.og fleiri. Segl verða rifuð í sumar.

|




26.4.03

Sly kann ekki að hlaupa

Ég sat stjarfur við imbann þegar Rocky myndirnar voru sýndar yfir hátíðirnar á Sýn. Í mynd númer þrjú tapar Rocky fyrir herra T sem er nefndur eitthvað annað í myndinni. Fyrir bardagann æfir Rocky í glis- og glingursarl þar sem hann brosir í hverja myndavél. Rocky hefur látið glepjast af falsinu sem fylgir frægðinni, umbúðirnar eru orðnar innihaldið. Appolo Creed, sem leikinn er af Bill Weathers, gerir Rocky það ljóst að það sem hann hafi skort þegar hann hafi barist á móti Rocky væri auga tígursins. Appolo fer með Rocky til Kaliforníu að æfa við í dökkum sal með blökkumönnum sem allir hafa auga tígursins. Rocky er þungur í byrjun er braggast svo. Eitt af eftirminnilegri atriðum úr myndunum er þegar Rocky útskrifast með auga tígursins eftir hlaup á strönd með Appolo. En þetta hlaup á ströndinni er magnþrungið. Hollies þemalagið er spilað undir og Rocky skreiðist fram úr Appolo á sprettinum og þeir faðmast í á ströndinni og í sjónum því þeir hafa áttað sig á því að Rocky er til í slaginn. En ég horfði á sprettinn með öðrum augum en áður. Þegar ég sá myndina síðast þá áttaði ég mig ekki á því hversu slakur hlaupari Rocky / Sly er. Ég sá að greinilegt er að Bill Weathers er mjöf frambærilegur hlaupari, hann lyfti hnjám hátt og tók stór skref, einnig voru handahreyfingar hans góðar og staða skrokksins. En þegar ég horfði á Sly hlaupa kom í ljós að hann bifast ekki. Sly var með hendurnar út um allt, lyfti hnjám lítið upp og hann eyddi orkunni í ýmislegt annað en að hlaupa. Ef atriðið hefði ekki verið sýnt í sló-mó þá hefði komið í ljós að Bill Weathers hljóp ekki af krafti. Bill var á rúlli en gretti sig mikið. Aftur á móti rembdist Sly eins og rjúpan við staurinn og bifaðist ekki.

Ég vildi koma þessu á framfæri. Það eru viðhafðar blekkingar í þessari kvikmynd.

|




Sósujafnari fer á flug

Horfi á keppni í gær. Át flatböku með félaga og var í hlutverki málsvara djöfulsins þegar við horfðum á ósóma á Skjá 1 í formi fegurðarsamkeppni. Keppni sem nefnist UngfruIslands.is en hefur ekki heimasíðu. Ég reyndi árangurslaust að kynna mér keppendur mér til dægrastyttingar en varð einskis vísari. Greinilegt að skipuleggjendur keppningar eru ekki mikilir PR-kappar. Hef lítið af keppninni að segja nema það að ekki er hamrað á sömu atriðunum og í upphafi og þrátt fyrir fögu fljóð þá virðist vera að treglegar gangi að safna keppendum nú og verðlaunum hefur fækkað.


Svo mættu femínistar á staðinn. Greinilegt að erfitt getur verið að manna stöður í fámennu samfélagi. Lítil samkeppni leiðir af sér að fólk er síður á tánum og vinnur verk sín ekki af sömu atorku og það annars myndi gera. Það var mikill amatörabragur á þessu og kynnar keppninnar illa undirbúnir. Drengurinn hélt á pappírsblöðum sem hann leit á af og til og spurningar til keppenda einfaldar og grunnar.


Ég hef áður rætt um þá samlíkingu að vaxtaræktarkeppnir og fegurðarsamkeppnir eru mismunandi útfærslur á sama hlutnum. Munurinn er sá að sá sem keppandi í vaxtarækt hefur leggur hart að sér til að ná árangri en í fegurðarsamkeppni þá eru hæfileikarnir sem ráða úrslitum meðfæddir, ef hægt er að ræða um hæfileika. Reyndar skiptir beinabygging og vöðvabygging máli í vaxtarækt. Það sem er einnig líkt er að keppendur beita brögðum til að ná árangri. Andlausar grímur í fegurðarsamkeppnum eru sumar gervi og fylla sig af sílikoni og þáttakendur í kroppasýningu dæla sumir í sig ólyfjan. Ekki merkilegt hjal hjá enda hef ég ekki frá miklu að segja þessa daganna.

|




22.4.03

Eitt er alveg ljóst

Eitt er alveg ljóst að ég hef sýnt slakan árangur í uppfærslu. Stífla milli fingra og höfuðs. Það sem ég ætla að ræða um í næsta pistli er auðmeltanlegur og tormeltanlegur húmor. Ég hef bakgrunn úr raungreinum eftir nám mitt í VR. Í raungreinum byggjast staðreyndir ekki á mati þar sem fyrirfram gefnar forsendur lita ekki útkomuna. Húmorinn er ekki raungrein. Ég ætla að eiga orðræðu við sjálfan mig um húmorinn.

|