27.10.07

Þrekhringir og 300

Á daga mína hefur fátt drifið undanfarið. Æft eitthvað en ekki nógu mikið, lesið nokkuð. Hef stundað þrekhringi sl. ár bæði á frjálsíþróttaæfingum og í HÍ gymminu. Hef mikla unun af slíku enda hluti af heilbrigðum lífsstíl. Öllum er hollt að stunda góðar æfingar og það sem ávinnst af þrekhringjum er bæði styrkur og úthald. Mikill akkur er t.d. í einstaklingum sem stunda þrekhringi þegar kemur að búslóðaflutningum. Hef mælt púlsinn þegar þrekhringir eru teknir og er hann í kringum 140-180 slög á mínútu.

Missti af umræðu um þjálfun leikaranna í kvikmyndinni 300 ef hún var þá einhver. En svona umræður skapast eflaust þegar kvikmyndir eru sýndar þar sem líkamlegs atgervis er þörf eða þá kunnáttu af einhverju tagi, sbr. myndir eins og Striptease eða Fight Club. Man nú reyndar ekki eftir súlumeyjanámskeiðum. En fór á netið og fann æfingapróf sem sett var fyrir áhættuleikara og leikara sem að komu að ræmunni 300. Aðeins einn leikari tók prófið og ekki var það víst Gerald Butler en nóg um það. Æfingarnar eru hér fyrir neðan, engin hvíld er milli æfinga.

1. Upphífingar (breitt grip) – 25x
2. Deadlift 60 kg – 50x
3. Armbeygjur – 50x
4. Hopp á 60 cm bekk – 50x
5. Magi (legið á gólfi og haldið stöng = 60 kg, fætur beinir hífðir frá gólfi að vinstra/hægra lóði, svo niður aftur) 50x
6. Ketilbjöllulyfta 16 kg (með einum handlegg, clean & jerk) – 50x
7. Upphífingar – 25x

Maður þarf a vera nokkuð harður nagli til að klára þetta.
Margar íþróttagreinar byggjast á þjálfun áþekkri þessari, m.a. frjálsíþróttir. Hef í gegnum árin farið á fjölda æfinga þar sem lóð hafa verið höndluð – æfingar eins og 6-8 æfingar 5-6 hringir, þrekhringir með hoppum og ýmsum æfingum eins og armbeygjum, dipsi, upphífingum, maga- og bakæfingum, mediciboltaæfingum, hnébeygjum, skíðahoppum og mörgum fleirum. Æfingar sem byggjast á upphitun í formi 30 mínútna skokks, 10 mínútna sippi, þrekhring og svo jafnvel sprettum á eftir. En fólk gerir sér oft ekki grein fyrir hvað þessar æfingar gefa.
Ég er nokkuð brattur að eðlisfari. Hvað gæti ég?

1. Upphýfingar – 15x
2. Deadlift 60 kg – 50x (hlýtur að vera eftir þessi hlaup öll)
3. Armbeygjur – 50x (kannski 40x eftir undangengið erfiði)
4. Hopp á 60 cm bekk – 50x
5. Magi – 20-30x
6. Ketilbjöllulyfta – 25x
7. Upphífingar – 10x

Já, nokkuð brattur. Nú er bara að láta slag standa og prófa þetta.

|