29.12.04

Ofurseldur efnishyggjunni

Þá eru jólin afstaðin. Ég gladdist mjög því ég gaf sjálfum mér jólagjafir og öðrum og aðrir einnig mér. Ég fyllti upp í tómarúmið með búnaði og fötum. Þráin eftir neyslu verður seint fullsvalað og í nægjuseminni býr hamingja, en annað reyna markaðsfræðingar að telja mér trú um. Ég dáist af fólki sem kemst af með tvo umganga af heilklæðnaði. Greinilega fólk sem þarf ekki að fylla upp í tómarúm sitt með einskis nýtum hlutum eins og ég. En hvað hefur þetta fólk sem ég hef ekki? Minni auraráð – varla, meira jafnvægi – veit ekki. En ekki má vanmeta gjafirnar, fólk tengist sterkari böndum með gjöfum. Jólin eru óbreytanlegur fasti fyrir mér.
Ég horfði á biskupinn flytja jóladagsmessuna í Víðisstaðakirkju með Biblíumyndir Baltasars Samper í bakgrunni. Herra biskup hefur mónótóníska ró í sínum talanda. Ég fór að hugsa um að messan hans ætti sterka hefð í hjörtum landsmanna. Ætli helmingur presta trúi einhverju öðru en að himnaríki felist innra með okkur? Einar Bárða gæti spurt sig af hverju herra biskup sé biskup, en ekki Magni Fríkirkjuprestur? Er það kannski málið að hann sé í Fríkirkjunni? En Magni er eflaust fyrirtaks sálusorgari og ráðgjafi en minni fræðimaður en biskupinn, Magni virkar sem einstaklega viðkunnalegur maður og prestarnir kjósa sér biskup. Magni er líka seigur markaðskarl, allir fengu Fríkirkjukálfinn inn um lúguna. Vill mig einhver söfnuður þegar lögheimilið er ekki Fella- og Hólakirkja, er það Dómkirkjan í 101 eða Fríkirkjan.
Ætli sannindi Ólafs Pá eigi ekki við um það sem fyrir ofan er skrifað að betri séu fárra manna góðráð en þeirra heimskari sem fleiri koma saman – ekki sniðugt að láta okkur pöpulinn kjósa sér ríkisbiskup eins og Kanar kjósa lögreglustjóra. En kirkjan á sterka hefð og er grunntónn samfélagsins hvað góða siði varðar, sama hverju hver trúir. Eins þurr í framsögn og biskupinn virðist þá er spjall við hann eflaust efnisríkara.
Kannski maður endurskoði þorstann í efnisgæðinn og leiti fróunar í því sem liggur nær sálinni og dýpra, austurlensk íhugun eða Biblíulestur. Framhald jólasögu Hulks er á næsta leiti. Mun heimurinn farast? Vandi er um slíkt að spá, en svarið fæst í sögunni...

|




28.12.04

Salt-jól

Um hver jól treður fólk söltuðum kræsingum í grímuna á sér heima við og í fjölskylduboðum. Maður er bólginn og bjúgaður og þrútinn og þrúgaður af öllu þessu áti. Fólk þyngist af vökvauppsöfnun vegna alls saltsins í hryggjum og lærum og hvaðeina. En því er svo farið að ég hef að meðaltali borðað einu sinni á dag en þess í milli svolgrað í mig í örfá skipti sykurrusli. Nú reynir maður að ræsta sig og svitna af sér vökvann...

|




17.12.04

Meistarinn, Satann og Gabríel #1

(Vera kann að einhver kunni að hvá við fyrirsögninni. Ég fór áðan yfir pistla mína undanfarið og sá að þeir eru tómt þvaður svo ég ákvað að spýta í lófanna og koma með frekari vitleysu. Fyrirsögnin er stolin að hálfu og efniviðurinn einnig. Bók Búlgakovs Meistarinn og margaríta er meistarastykki svo vægt sé til orða tekið en mín skrif verða líkast til aftanómur af einhverju tagi. Meistarinn og margaríta fjallar um baráttu góðs og ills - það er einmitt það sem ég ætla að gera að yrkisefni mínu. Lovestar er skemmileg bók. Maður er eilíft að pæla í umhverfinu og hvaðan áhrifin komi og allt það sem markar tímann og sporin sem stigin eru. Við eitthvað mismerkilegt verður maður að dunda sér. Saga í nokkrum hlutum kemur inn. Vera má að ég muni eitthvað laga það sem kemur inn síðar.)

Satann og Gabríel voru ferðafélagar. Þeir voru í heiminum á mismunandi forsendum, annar á réttunni hinn á röngunni. Þeir gátu ekki án annars lifað, þeir vógu hvorn annan upp. Þeir voru par. Vinur – óvinur, góður – slæmur, fagur – ljótur. Þeir stóðu fyrir þessi orð og voru málssvarar fyrir sinn hvorn málstaðinn. Þeir höfðu verið sendir sem keppinautar, því ef engin er samkeppnin þá hneigist einstaklingurinn til að verða værukær og sofna á verðinum. Þeir vissu af hvor öðrum og voru því iðulega á tánum, laumandi inn skilaboðum og ósýnilegum áróðri. Þeir rifust yfir málefnum og toguðu og teygðu umræðuna og það sem hæst bar í deiglunni hverju sinni.

Satan stóð fyrir stríð, erjur, óreiðu, ólgu, samsæriskenningar, vont veður, fúla pitti, ljótleika, Skítamóral, erki-líkamsræktarstöðvar, FM957 og vont háskólarokk og dægurblöðin Vikuna og Séð og heyrt. Það datt engum í hug að Satan væri að vasast í þessu nema stöku efasemdarmönnum sem héldu samsæriskenningum á lofti, en enginn tók mark á þeim. Þeir hinir sömu höfðu orðið vitni ýmissa atburða eða þá áskynja einhvers. Satan hafði komið fyrir daunillum gufum og súrum öndum víðar en á ritstjórnarskrifstofum. Gufurnar voru til þess gerðar að skapa andúð, tortryggni og illt umtal. Sumir voru veikari en aðrir og voru sítuðandi. Satan var hausaveiðari í eðli sínu og hafði þá nokkra í poka sínum. Menn eins og Eiríkur Jónsson blaðamaður og Mikael Torfason höfðu gerst hans skósveinar óafvitandi. Satann hafði gert sér dælt við ýmsa þjóðþekkta einstaklinga og orðið misvel ágengt. Honum líkaði illa hversu reykingar voru á undanhaldi og hafði gert marga atlöguna að Þorgrími Þráinssyni en sá einstaklingur hafði svo sterk innra siðferðisþrek að ekkert beit á honum. Satann hafði stundað handayfirlagningar illra anda á honum í svefni en Toggi ávalt komið tvíelfdari til baka og annað hvort skrifað metsölubók eða hafið nýja árangursríka herferð gegn reykingum. Ástæða fyrir veru ferðafélagana á Íslandi var hversu ginkeyptir og móttækilegir Íslendingar eru fyrir allskyns kukli og nýjungum. Ferðamálaráð alheimsins hafði sent þá Satann og Gabríel á skerið til að búa til nokkurs konar sítengdan veruleikaþátt fyrir guðina. Ef prufuþátturinn myndi skora vel, þá yrði hann keyrður á jörðinni allri. Ástæðan var sú að í guðaráðinu höfðu staðið yfir deilur um hvort hið illa eða hið góða ætti að ráða á jörðinni. Mennirnir höfðu drýgt ýmis afrek á sviði góðmennsku og illvirkja. Jarðabúarnir héldu að þeir væru í eðli sínu góðir og ræktuðu jákvæða eiginleika sína, en leiddu hjá sér hið dökka eðli sitt sem var ríkjandi þáttur, en niðurbældur vegna kæfandi hegðunarþjálfunar frá vöggu til grafar. Tekið var hart á grimmd, ofsa og voðaverkum. Því var ekki farið alls staðar í alheiminum. Á öðrum hnöttum voru menn verðlaunaðir fyrir fólskuverk og fengu að koma kyni sínu áfram með því útiloka aðra.
Guðaráðið hafði tekið eftir því að á jörðinni var eldfimmt ástand og fór það í taugarnar á ráðinu. Ráðið vildi skýrar línur og missklíð manna vegna ólíkra túlkunar á því hvernig ætti að lifa lífinu hafði ollið atburðarás sem ekki sá fyrir endan á. Það var ótrúlegt hvað mennirnir gátu tuðað

Gabríel stóð fyrir einfaldleika, sokkabuxur, ballett, varalit, mannasiði, kærleik, bræðralag, jafnrétti og nekt. Sá munur var á Gabríel og Satan að Satan klæddist kufli en hinn heitfengi Gabríel klæddist engu og sveif um loftin blá ósýnilegur alla jafnan, en þegar hann gerði sig sýnilegan olli það umferðaröngþveiti og yfirliði kvenna vegna hins fagurskapaða Gabríels. Gabríel átti launsoninn Brad Pitt sem lagði stund á kvikmyndaleik. Ungar stúlkur frá tíma til tíma höfðu notið ávaxta aldingarðsins og afraksturinn átti heitar taugar í Gabríel og ein hans helsta ástæða fyrir tíðum jarðferðum.

En ljóst var að ef prufuþátturinn gengi upp, þ.e. einhver sinnaskipti yrðu á Íslandi þá yrði þátturinn prufukeyrður með hliðsjón af útkomunni og kryddaður og úrslit ákveðin í samræmi við það. Möguleg úrslit í stöðunni voru óðaverðbólga, glæpir, gjaldþrot, ofbeldi almennra borgara, upplausn, aukið brottfall úr skólum, vegsauki FM957, aukin tölvuleikjavæðing og gosdrykkja, fleiri plötur frá Á móti sól, stóriðja og mengun sem leiddi til gjaldþrots Íslands eða þá aukinn kaupmáttur, sameining stétta, aukin menntun, Ísland áfram hamingjusamasta þjóð í heimi, áframhaldandi velgengni íslenskra fegurðardísa á erlendri grund, heimsyfirráð Mugison og annarra tónlistarmann og svo síðast en ekki síst ný gullöld frjálsra íþrótta, sem þýddi sigur Íslands, gleðinnar og góðra siða.

Teningunum var kastað og ...

|




13.12.04

Skjölun - ha, spennandi!!!

Á leið okkar eftir tímalínunni þá viðum við þekkingu að okkur. Við reynum að líma doðranta við höfuð og undirbúum okkur sem best við getum fyrir próf með reikningum og lestri. Svo vill bregða við þegar við erum spurð nokkru síðar um jöfnur hneppi og einhverja tegund vaxtaútreikninga að fátt verður um svör. Það er nefnilega þannig að minnið er stopult og ef við hressum ekki upp á það reglulega þá verður þekkingin stopulli með degi hverjum. Manni líður hálf illa yfir því að vera ekki með hitt og þetta á hreinu sem og geta síðan ekki flett því upp eða náð í það þegar þörfin krefst þess. En hvað er til ráða? Maður á ógrynni af bókum, ljósritum og ýmsu öðru sem er staflað hér og þar og maður veit ekki hvað er hvað. Þetta er vandamál. Ég á erfitt með að nálgast mína eigin þekkingu. Bækurnar og blöðin mín eru hluti af mér, útvíkkun, ekki er hægt að geyma allt í höfðinu - heimabókasafnið er í rusli. Svo þegar maður fer að leita að einhverju þá er það andlega erfitt og leitin endar jafnvel þannig að ekkert finnst og skapið er þá hart. Mitt vandamál er skortur á hilluplássi. Mín lausn er kaup á hillum og flokkun og uppröðun á bókum og gögnum. Sortering, henda því sem er gagnlaust og halda því til haga sem einhvers er vert. Hver einstaklingur þarf að eiga sitt bókasafnskerfi og skjölun gagna þarf að vera í föstum skorðum, annað ærir óstöðugan. Mikil óreiða þýðir lítið skipulag og slakur árangur, lítil óreiða þýðir gott skipulag og mikill árangur. Lágmörkum óreiðun, við það fæst betri nætursvefn, minna stess og meiri árangur.

|




7.12.04

Af sófapoppi og silfurfötum

Já, ég nefndi nokkur lög í pistli fyrir nokkrum dögum. Lög sem festust í kollinum þegar ég var síli eða þá nokkru eldri. Verð að minnast á sófapoppið. Það hóf innreið sína eftir bylgju þar ytra. Ég tölti mér eitt sinn niður í Hljómalind og var að leita að einhverju hressandi efni. Endaði svo með fangið fullt af Isaac Hayes og sófapoppi (easy-listening...) Karminsky bræðra; Inflight og síðar Further-Inflight og Espresso. Við þetta opnuðust heimar fyrir mér. Tónlist sem fékk mann til að brosa og vera léttur, enda undurfagrar melódíur og hljómasamsetningar. Bert Kaemphert, Herb Alpert, Sergio Mendez og fleiri garpar og einhverjar valkyrjur áttu efni á þessum samsettu nostalgíudiskum. Ég hlustaði reifur á tónlistina með félögum. Síðar átti tónlistin eftir að hljóma í auglýsingum í tíma og ótíma. Rétt upp úr þessu er hljómsveitin Casino stofnuð. Ég þekkti nokkra drengi úr bandinu og mætti galvaskur á spilakvöld þeirra á Ingólfskaffi og dansaði af mér iljarnar, lekker og sveittur í gegnum skyrtu og jakkaföt, var með heitari áhangendum - þetta var fyrir daga Páls Óskars í bandinu og það ekki orðið trendí. En á einhvern hátt varð ég að komast inn á staðinn. Oftsinnis var röð þar fyrir utan og stöku sinnum var ég og félagar á gestalista sökum kunningskapar við bandlimi. En í nokkur skipti notaði ég trikk sem gekk nokkuð vel. Ég kom askvaðandi í silfurlituðum jakkafötum, sem mér áskotnuðust fyrir gaul í áramótagleði hjá Sævari Karli, og vatt mér upp að dyraverði - sagðist söngvarinn í bandinu. Hver gat neitað drengnum inngöngu og grunaði mig enginn um græsku. En það var svo kvöld eitt er ég kom og fór með rulluna að kappi einn sem í dyragættinni stóð tók í öxlina á mér þegar ég hugðist ganga inn, hann sagði ekkert hljómkerfi væri fyrir söngvara og gervið var fyrir bí - en inn fór ég því sagan var góð. Eftir þetta lagði ég silfurfötunum í bili.

En opnar dyrnar ekki alltaf í réttri röð. Einhverju eftir sófapopps tímabilið kynntist djassi - latínó og fleiri tilbrigðum. Antonio Carlos Jobim, Gilberto og Getz, Cleo Lain o.fl. Hún er hressandi tónlistin.

|




2.12.04

Tónleikar

Ég legg það ekki í vana að hjala um hversdagslega hluti, en í gærkvöldi smellti ég mér á tónleika með Leaves á Grandrokk. Þeir spiluðu lög af nýrri afurð. Veit ekki hvað platan á að heita. Man að frumraun þeirra, Breathe fékk góða dóma en einnig man ég eftir dómi sem kallaði hana gljáfægðan skít. Ég var mjög hrifin af Breathe enda áhugamaður um fallegar melódíur og góðan hljómagang. Þetta með skítin var víst skírskotun til þess held ég að platan væri of lík frumraun Coldplay, en þess ber að geta að platan var samin á undan debuteringu þeirra Coldplay-drengja, þ.a. við skellum skollaeyrum við öllu skítatali. Sveitina skipa nokkrir vel klæddir drengir, þ.á.m. Arnar Ó, Arnar G. og Hallur Halls jr. Addi G. var einmitt í Vínil á þeim tíma sem Vínill gaf út nokkur mjög góð lög sem voru m.a. á kvikmyndaplötunni Blossa. Addi G. samdi víst megnið af efni Breathe, en nýja efnið semja þeir saman. Í stuttu máli var ég einstaklega ánægður með nýja efnið, kom reyndar á óvart, en vissi ekki við hverju átti að búast. Lög nr. 1,2 og 3 voru mjög, mjög, mjög góð. Fallegar melódíur og flott kaflaskipti og hljómagangur. Einnig voru lög nr. 6, 7 og 8 mjög góð. Uppklappslagið nr. 9 er víst ekki á plötunni en það var kraftur í því og gladdi eyrun. Ljóst er að drengirnir eru á réttri leið, mér finnst nýja efnið hrárra og kraftmeira, bandið er orðið þéttara. Nú er bara að bíða og sjá hvernig Bretinn tekur bregst við, en bandið spilar ytra í kringum áramótin. Eigulegur gripur nýja platan.

|




1.12.04

Þreksalir/lyftingasalir

Fólk talar ótt og títt um ræktina þessa dagana. Ýmsir hafa tekið upp nýjan lífsstíl, snúið baki við þeim gamla og refsa lóðum og skokka á brettum á víxl. Ég hef farið í þær nokkrar stöðvarnar í gegnum árin. Hef raunar hreyft mig linnulaust frá barnsaldri, hvort sem um ræðir bolti, hlaup eða sund. Ég stundaði handbolta og fótbolta upp í meistaraflokk en snéri mér nokkru síðar að frjálsum. Hef synt sem selur frá fjegurra ára aldri. Hef átt kort í Classanum, Mætti og Aerobic Sport. Þetta voru nú bara þriggja mánaða kort, en ég nýtti þau ágætlega. En þessir líkamsræktarsalir skora nú bara **1/2 af fimm í mesta lagi. Það sem mér hefur þótt vanta í þessa sali er afreksandinn. Flestir bestu íþróttamenn heimsins venja ekki komur sínar í þessi "comercial-gym". Andinn býr í hráleikanum, í kompunum þar sem stangir og stök lóð búa. Þeir salir sem ég hef fundið mig best í er gamli salurinn í Baldurshaganum, Júdó-Gym, Háskólagymmið og salurinn hjá Steve - Steve Gym. Maður þarf ekki á helvítis vélum að halda, mér nægja þess vegna steinar og tunnur. Steve Gym er með magnaða síðu http://www.stevegym.net. Afrekshugsjónin er ofar öllu hjá Steve enda er þar á ferðinni fremsti tugþrautarmaður 8. áratugsins. Steve peppar meira en aðrir menn og bætingum er lofað þeim sem þar æfa. Þú finnur allt litróf mannlífsins þar, en margir sem þar æfa rúmast ekki innan veggja venjulegra líkamsræktarstöðva. Júdó-Gym var príðis stöð og heimavöllur Ármanns en grotnaði eitthvað niður og nú eru lóðin staðsett í Baldurshaganum.

Fæðing Hulks. Hulk fæddist í gamla salnum í Baldurshaga. Það var þá, fyrir nokkrum árum að ég átti lausan tíma milli átta og fjögur og langaði að nýta hann í eitthvað uppbyggilegt. Ég og félagi minn, Skrattinn, tókum okkur til og mættum einn morgun í byrjun október með blaster, 9 m langa framlengingarsnúru og HAM diska. Okkur fannst gott mál að fara að refsa lóðum. Blasterinn var botnaður eftir létt skokk og búklyftur teknar og tekið á öllum tækjum með hugan einbeittan. Held ég hafi verið með strengi í hálfan mánuð, en það var hvergi slegið af. Á þriðja degi kemur til okkar skekkjaður öldungur og spyr hvort leyfi sé fyrir hendi, en við komum af fjöllum, höfðum hvorki spurt kóng né prest um leyfi. Við sáum þetta nú fyrir okkur. Það var brugðið á það ráð að hringja í Kolbein Pálsson þáverandi framkvæmdastjóra ÍBR og kríja út leyfi, við værum ekki fyrir þessa venjulegu sali, það væri ekkert hægt að æfa þar fyrir stelpum og enginn notaði Hagann - maður hefði æft þarna í boltanum þegar maður var yngri. Kolbeini þótti skýringin góðra gjalda verð og faxaði á öldungana í Haganum og grænt ljós var gefið á áframhaldandi átök. Öskur heyrðust frá salnum þar sem lóðum var refsað. En þar sem átökin voru slík nægðu okkur ekki borgaraleg nöfn svo við tókum okkur önnur öllu kraftmeiri. Það varð úr að ég kenndi mig við Hulk, enda Hulk rammur að afli og vísindamaður einnig. Skrattinn félagi minn tók sér nafnið Rambó, enda Rambó hagleiksmaður á lóð og menn. En gleðin stóð í svona 6 vikur þar til aðrar annir tóku yfir. En sjaldan hef ég tekið harðar á, þegar æfingu lauk rétt fyrir hádegi var naumast að orka væri til að drattast upp í bíl. Svo var maður í móki fram að nóni. En hvað gekk okkur til, maður fór aldrei að ráði í sveit og missti af sveitastörfunum, í salnum tekur maður á eins og í sveitinni.

Það er þetta sem ræktin snýst um. Rækta anda og líkama, gefa sig allan í átökin - annars má sleppa þessu. Hrá tæki í kompu og öskur og pepp-up, það blívar.

Í dag er æft eins oft og færi gefst. Sérstaklega ánægður með æfinguna sl. fimmtudag. Hefðubundin upphitun stóð í ca. 40 mín. Þá tók við 20*100m, á 13.0-13.5 s (2 síðustu á 12.7), hvíld - ganga til baka. Eftir spretti 5 mínútna hvíld og síðan 25*60 m á 90%, 20 sek hvíld milli spretta. Amen.

|