24.7.07

Böðull

Það er hreint magnað hvað ég eyði miklum aurum í viðgerðir á hinu og þessu. Vikulega fer ég á saumastofu með fataleppa og svona einu sinni í mánuði til skósmiðs. Ég keypti mér jakka um daginn, lét stytta ermar og brúkaði flíkina svo á föstudaginn. Það vildi ekki betur til en svo að í Singstar keppni settist ég upp í gluggasyllu og veit ekki fyrr en reykjarlykt ber að vitum mér og finn fyrir því að slegið er á rass minn. Ég hafði sest upp við kerti og kviknað hafði í jakkanum, lukkan var með mér og snarræði áhorfanda er fyrir að þakka að tjón varð ekki meira. Anna Dóra rassskellti logana í burtu.
Svona skemmdir er hægt að meðhöndla, Jensína, saumakona í Grafarvogi á eftirlaunum kann kúnststoff (ofið úr efninu) og mun laga þetta.

Ég fékk lánaðar forlátar leðurbuxur í vor sem stóðu ásamt eiganda sínum á sviðinu með Eiríki Haukssyni nú um daginn í Finnlandi. Ég fór yfir brækurnar þegar ég skilaði þeim en fékk nú sms-skeyti í dag þar sem tilkynnt var um ryfu í klofi. Þar bætist kostnaður við minn reikning og fer ég með flíkina á leðurvinnustofu í vikunni. Þess má geta að jakki góður í minni eigu er einmitt sem stendur á saumastofu þar sem lagfæring á baki á sér stað, svo þarf einnig að kúnststoffa vegna brunagats. Jensínu er ærið verk á höndum.

Fyrir stuttu þurfti Saumastofan svo að lagfæra tvennar peysur vegna brunagata og sjálfur lagfærði ég eina með nál og tvinna vegna líkkistunagla sem einhver prófaði á peysunni minni. Sömu meðferð fékk Samsöy jakkinn minn góði í fyrravetur.
Fyrir stuttu síðan fór ég með þrenn skópör á skóvinnustofuna í Austurveri. Lagfæringar á hælum og fleiru, svo bíða spariskór þess að vera lagfærðir, botninn rifnaði frá sóla – tvö skipti á Kaffibarnum þurfti til (brúðkaup ástæða skónotkunar) – spánýir skór.

Sl. vetur hljóp ég milli staða í hálku í jakkafötum af dýrari gerðinni en varð fótaskortur og lenti á hné. Það kallaði á kúnststoff með hreint mögnuðum árangri. Stuttu síðar lenti ég á hinu hnénu í sömu buxum og aftur bjargaði Jensína mér.

Sl. sumar hljóp ég á afturenda spjótkastsspjóts sem fór inn hjá hnénu og út við aftanvert læri – heppni í óheppni, hné og læri sluppu en buxur ekki. Lagfæring á saumastofu og buxurnar bara töff með góða sögu á hliðinni.

Ég á silfurlituð jakkaföt sem ég hef ekki notað frá því Kaðallinn brúkaði þau í grímupartíi. Fékk þau fyrir áramótagaul hjá Sævari Karli. Þau urðu lúin. Ég afrekaði það að hlaupa á hraunvegg í þeim og rífa, slædaði ögn á mikilli ferð. Jórunn Thorlacius bjargaði. Ég svitnaði nokkuð í þessi föt. Komst alltaf fram fyrir röð á skemmtistað einum því ég sagðist söngvari bandsins sem spilaði þar – svo kom að sagan varð lúin.

Ég tók eytt sinn þátt í Söngvakeppni framhaldsskóla. Í þeirri keppni lánaði Jónas Þorvaldsson mér forlát brún flauelsföt, eflaust saumuð á fæðingarári mínu. Hann nam þar kvikmyndagerð en hefur nú nýverið látið af störfum sem forstjóri fasteignafélagsins Stoða – hann er einnig verkfræðingur. Buxurnar við fötin voru þröngar og reif ég þær á rassinum. Voru þær lagfærðar og festi Baldur vinur minn Vilhjálmsson kaup á fötunum.
Fyrir svo sem 18 mánuðum í gleðskap við Rauðavatn í sumarhúsi við leik, dans og skál, tók ég upp á því að hlaupa yfir gaddavírsgirðingu. Baldur vinur minn hafði lánað mér fötin. Ég reif buxurnar frá miðju læri og niður. Það varð buxunum til happs að þær rifnuðu við sauminn. Nú hanga fötin inni í skáp (lagfærð af Jórunni Thorlacius saumakonu á eftirlaunum) og bíða þess að verða afhent Baldri.

Ég hljóp eitt sinn í forlátum grænum Dieselfrakka í gegnum dyr í Áburðarverksmiðjunni sálugu, hurðahúnninn fór í vasa og jakkinn rifnaði svo um munaði. Jórunn Thorlacius lagaði það sem svo margt annað.

Svo í ofanálag á ég það til að týna vettlingum og treflum og nú finn ég ekki góða peysu. Tími er peningar og oft hleypur maður milli staða. Á það til að týna íþróttafötum, er með fulla tösku og eitthvað dettur úr henni og ég skreyti göngustíg eða götu með hlaupþröngbrókum. Síðustu gleraugu mín notaði ég t.d. á Hverfisbarnum en þau fylgdu mér ekki heim. Svo hafa bolir og hankar á gallabuxum rifnað þegar þotið er fram hjá hurðahúnum. Ég tek það samt fram að skór mínir (50-60 stk.) eru flestir vel burstaðir (sé um það sjálfur), skyrtur mínar straujaðar (sé um það sjálfur), buxur pressaðar (sé um það sjálfur) og önnur föt þvegin (sé einnig um það sjálfur).

Ofantalið er fórnarkostnaðurinn sem ég þarf að greiða fyrir að vera ég.

Ástæðan fyrir því að ég keyri um á druslu er ekki sá að ég sé ávalt að lenda í eða valdur að árekstrum, nei...
Aurinn fer allur í saumakonur...

Ég er fataböðull.

|




13.7.07

Tvíhöfði

Hef verið að hlusta á gamla Tvíhöfðaþætti frá því frá áramótum.
Mæli með þessum

Smásálin er það sem gerir þessa þætti af meistaraverki. Fálkaorðan næst, eina orðu um svírana.
Það virðist annar hver karlmaður um og yfir sjötugt sem hringir inn vera með exem á olnbogum og hnjám, það virðast annars vera til húsráð gegn hverjum kvilla sem borinn er á góma. Hundaskítur í klofið gegn hlandbruna og á olnboga og hné vegna exems. Hundaskíturinn er sagður einnig góður fyrir menn sem hárið er farið að þynnast á.

|




11.7.07

Af engu

Fólk slær oft um sig með speki. Gott að geta vitnað í einhverja íslenska standarda eins og t.d. Alþýðubók Halldórs Laxness eða þá erlenda speki, hvað þá heimspeki. Orðatiltæki eru vinsæl, hann ríður ekki með vitið í þverpokunum er ekki slæmt, slæmt er finnst mér ef ég heyri spurninguna er glasið hálf tómt eða hálf fullt. Ekki hægt að tala um orðatiltæki, frekar bara svona eitthvað sem einhver notar til að lýsa stemmingu. Bjartsýnn maður segir hálffullt eða þá að keppnismaður í drykkju segir hálftómt því honum finnst aldrei nógu mikið áfengi í glasinu.

Ég á nokkrar heimatilbúnar setningar sem ég hef farið með, þetta eru eiginlega runur. Spekingslega lætur maður móðan mása og virðist fyrir vikið betri en maður er. Lét félaga nokkrar í té fyrir veislu sem hann sótti. Manni finnst persónur í myndum Woody Allens alveg hreint yfir meðallagi í greind þegar þær taka orðavaðal hvað eftir annað. Spekin rennur reyndar út úr Noam Chomsky en við hann geta fáir menn borið sig saman við enda á enginn maður núlifandi fleiri tilvitnanir eftir sig en hann, en reyndar fyrir annað en að vera samfélagsrýnir, heldur málfræðingur.

Sóun er slæm. Ég á það samt til með að skilja mjólkurfernur hálf fullar eða að fjórðungi fullar frekar, eftir þar sem ég sit við og drekk mjólk. Ég er nokkur mjólkurkálfur, rjómablandaði hana stundum í Áburðarverksmiðjunni.

Fór á kaffihús áðan og fékk þá spurningu (frá ágætum manni sem ég hafði rétt í þessu kynnst) fyrir hvaða verslun ég sæi um innkaup, hann leit sem sagt á mig sem innvígðan, gerði ráð fyrir því þar sem hann er sjálfur í bransanum.

|




6.7.07

Keppandi á Landsmóti UMFÍ

Ég er skráður til keppni á Landsmóti UMFÍ og það á 100 ára afmæli hreyfingarinnar. Er skráður í 400 m grindahlaup og 400 m hlaup. Hef ekki æft vel í vetur, 2-4 æfingar í viku en bý að áralangri þjálfun. Svo var það í síðustu viku að ég tók sex daga æfingalotu. Nóg um það. Óvíst er um þátttökuna eftir æfinguna í gær. Held ég hafi tognað í hamnum eftir hlaup á grindur. Bætingar á Landsmóti fyrir þremur árum á Króknum. Þetta kemur allt í ljós eftir upphitun á morgun.

Keppni

Keppni er öllum holl. Sem börn og unglingar lærum við leikreglurnar sem nýtast svo í lífinu síðar meir. Keppnin kennir okkur hvernig ber að haga sér gagnvart náunganum, kennir okkur að fagna sigri eftir eftir að akur hefur verið vel plægður og einnig að taka tapi. Öllum er hollt að tapa einhvern tímann en tapið sjálft er skilgreiningaratriði.

Í lífinu jafnt sem íþróttum plægjum við jörðina, sáum, vökvum og uppskerum svo. Og uppskeran sýnir svo hversu vel var að öllu staðið. Ef hún er dræm ber að líta í eiginn barm og skoða hvað fór úrskeiðið, læra af mistökunum. Sjálfstraustið eykst svo við sigra og gefur okkur meiri trú á að við getum náð takmörkum okkar, sjálfsmynd batnar ef hún var ekki traust fyrir. Það eru þessi litlu atriði sem skapa sjálfsmyndina - smásigrarnir. Raunhæf markmið eru lykillinn.

Ég keppti í hópíþróttum fram yfir tvítugt en snéri mér svo að einstaklingskeppni. Hef nú æft frjálsar af mismiklu kappi í rúm sjö ár. Ég keppi í 400 m og 800 m. Hef mátt keppa meira en ég hef gert.

Þegar ég et kappi í hópíþróttum trúi ég því sjaldan að ég muni tapa, fer ávalt með því hugarfari að ég muni sigra og þrátt fyrir að horfur séu kannski ekki góðar á tímabili þá trúi ég því alltaf að vel muni fara og aldrei megi gefast upp. Í frjálsunum veit ég hins vegar vel að ég muni ekki vinna hlaup sem ég tek þátt í. Hvað segir mér það – jú tímarnir hjá hinum keppendunum. Maður keppir alltaf við sjálfan sig. Setur sér raunhæf markmið – keppir e.t.v. ekki við þann sigurstranglegasta, Maður gefur sér réttar forsendur. Rétt eins og í lífinu, maður tekur bara eitt skref í einu, maður nálgast heimsmeistarann ekki í fyrsta skrefi. Það eru margar tröppur sem þarf að þramma uppávið ef tindinum skal náð.

|




2.7.07

Fataleppar o.fl.

Þegar ég kem heim eftir vel heppnað kvöld í miðbænum og ríf af mér leppana þá eru skórnir yfirleitt ósáttir, enda búið að traðka á þeim að neðanverðu og ofanverðu. Maður ætti eiginlega alltaf að fara út í skóm á borð við Hi-Tech eða gömlum Converse. En ég læt þessar gáfulegu athugasemdir sem vind um eyrun þjóta og dreg fram það besta sem í boði er fyrir utan þessi hvítu skópör, hef þó rænu á að láta þann lit vera. Á reyndar hvítt skópar sem er úr striga/bómull og hefur það par fengið það óþvegið hvað eftir annað. En það sem bjargar þessu skópari frá glötun er hið ótrúlega efni Vanish. Reyndar eru Vanish auglýsingarnar með því skemmtilegra sjónvarpsefni sem fyrirfinnst á byggðu bóli. Vissi ekki að til væri fólk eins og það sem leikur í þessum auglýsingum.

Ég hef unun af fatakaupum. Skór og yfirhafnir eru lykilflíkur. Maður hefur heyrt þá línu frá snótum að feður þeirra hafi imprað á því við þær að af skónum megi manninn dæma, þannig að ég dreg fram gott par þegar dansgólfssnúningar eru í nánd og pússa vel.

Ég lít á fatakaup sem fjárfestingu og reyni að eyða sem svarar góðri upphæð sem slagar upp í afföll sem eiga sér stað á ágætis bíl á einu ári – nokkuð loðin upphæð. Þar sem mínir bílar hafa aldrei farið á verkstæði og viðhaldskostnaður er í sögulegu lágmarki, þá kemur þetta sér afar vel. Eyði í föt ekki afföll. Tel mig nógu sterkan karakter til að geta verið án gljáfægð stálfáks, vel frekar mattan og beyglaðan fjölskyldubíl á aldur við menntaskólakrakka. Uppákomur eins og bremsuleysi á miðri Miklubrautinni hafa gert vart við sig, ólag í hjólabúnaði á ögurstundu á leið í Viðeyjarferju í árlegan gleðskap einnig. En það bregst ekki að bíllinn er settur inn í skúr og daginn eftir er fákurinn sem nýr. Hvað gerist inni í skúrnum er mér hulin ráðgáta – veit bara að inn í hann fer maður sem ég kalla pabba og hann virðist hafa ráð undir rifi hverju í þessum málum sem og öðrum.

En allir þurfa að horfast í augu við raunveruleikann og ég fresta því oft um 2-3 daga að skoða skóna sem ég djöflast í á gólfinu hvert sinnið sem farið er á galeiðuna.
Núna liggur svart glæsipar frammi í anddyri hjá mér sem bíður skoðunar og pússningar.

Hef haft það fyrir sið að hafa eitthvað sem bíður mín og freistar svo ég geti farið sem fyrst upp í bæli. Ekki er um aðila af hinu kyninu að ræða því miður svo það eru bara bækur þessa daganna. Bókin um heimsvæðinguna eftir Nóbelshafann Stiglitz hefur svæft mig eftir þriggja blaðsíðna lestur svo ég tók mig til í kvöld og verslaði mér reyfarann Skáldið og svo nýjustu bók Coelho. Nú bíða mín vökunætur eða eitthvað...

|