25.1.05

Gabríel og Satan keppa #2

Þegar kemur að keppni skiptir mótivering keppnismanns miklu máli. Keppnismaðurinn má ekki láta neitt koma sér á óvart, best er að þekkja alla klækina sem má brúka og ekki brúka. Munurinn á görpunum var sá að Satan var ári fjölhæfur – Gabríel einbeittur og einfaldari. Gabríel vann oftar, einbeitti sér að einu í einu. Mistök ekki leifð í keppni. Tímanýting nauðsynleg, gott að þekkja muninn á aukaatriði og aðalatriði. Sjálfsagi dyggð. Þú býrð til tíma og rúm og stjórnar áhættudreifingunni. Í þessu var Gabríel betri.

Guð hafði oft á tíðum dálæti á Satan þótt hann tapiði oftar, hann átti djarfari leiki – spilaði ekki seif – veðjaði á skjótfengin gróða og áhætta, hlutabréf vs. skuldabréf. Munurinn á Satan og Gabríel var eins og á Kasparov og Karpov.

Gabríel og Satan holdgervingar ákveðinna manntegunda. Þeirra sem ná hámarksárangri og þeirra sem ná ekki eins góðum árangri, en árangri samt. Fjölhæfi gutlarinn sem vinnur ómarkvist í sínum ranni og hinn stefnuvirki og stefnumiðaði haukur sem drífur sig áfram af metnaði og sigurvilja.


Margir íkonar, freskur og málverk hafa verið gerð af Gabríel auk þess að vinsælt hefur verið að höggva hann í stein. Sjáið hreinleikan og sakleysið.


Satan hafði oftsinnis setið að sumbli á Kaffibarnum, boðið mönnum í glas og hellt í þá veigum Bakkusar. Kannski hann sé útvíkkuð mynd Bakkusar í annarri trú. Gabríel valdi frekar stutt kaffisamsæti á upplestrarkvöldi Hannesar Hólmsteins eða þá ljóðaupplestur á Súfistanum.


Birtingarmyndir Satans eru greinilega margvíslegar. Hann getur allt eins verið í jakkafötum og verið nágranni þinn og verið í valdamikilli stöðu. Við höfum öll séð þetta í kvikmyndum.


Satan átti engin prinsipp um allt mátti semja. Hjá Gabríel voru prinsipp ofar öllu.
Satan hafði í sér allar hvatir mannsins, slæmar og góðar, en oftast var það freistnin sem rak hann áfram. Hann kunni ekki að neita sér um freistingar og felldi aðra í freistni. Satan svipaði örlítið til Tolstoj, hann var maður manna eins og Trotskí hafði sagt við andlát Tolstoj, allar hvatir mannsins sameinaðar í einum manni. Gabríel var hins vegar hreinn og beinn eins og Pétur Blöndal, sá allt í skýrum línum og það voru engin vafaatriði. Hugmyndaheimur Satans var heldur á gráu svæði, allt nokkuð óljóst og fjölhyggjan hélt honum tangarhaldi og tækifærissemin. Satan var þessi týpa sem sóttist eftir sortuæxlum og msg, fenólín og aspartam. Gabríel frekar með sólhlíf og hvíta húð, át grænmetisrétt ef því var að skipta og lísubaunir. Gabríel hreinn og beinn, einn litur hvítur, sem rúmaði samt alla hina í sínu litrófi. Fágaður á móti óhefluðum Satani. Jákvæður og neikvæður, Satan gat reyndar verið jákvæður, en jákvæðnin hafði skolast að mestu burt eins og dropinn holar steininn. Líf Satans var eins og jarðskjálftalínurit ofan og neðan núll-ássins, líf Gabríels svona eins og sínusbylgja hliðruð allmikið ofan við núllásinn – áferðafalleg og óskeikul en fyrirsjáanleg.

Gabríel hreyfst af fólki sem lifði fyrir einfaldar athafnir og hafði sitt á þurru, hann var ekki endilega af því sauðahúsi, en hann vissi að þær týpur voru árangursmiðaðar, jafnvel örlítið naívskar því misjöfn reynsla hafði ekki mótað það og hrukkulaus andlit báru vott um áhyggjuleysi, sakleysi og fegurð. Það gátu ekki allir verið í hinu útvalda A-liði, ISO-gæðavottunnar Gabríels.

Landinn var lítt inn í þessum efnum, hann hefði eflaust haldið að Gísli Marteinn væri einn hinna staðföstu sauða Gabríels, en ef þeir bara vissu. Sál hans í skjóðu Satans – samkomulag um eitt stykki forsætisráðherrastól einn daginn. Fleiri fylgismenn Satans en flesta grunaði.
Nú fór brátt í hönd stærsta landkynning Íslands nokkru sinni og þeir vissu ekki af henni. Ferðamálaráð búið að baksa öll þessi ár með lambakjötið, fegurðina og hreinleikan. Á döfinni var bein útsending til alheimsins frá Íslandi, landið yrði aldrei samt.

Guðunum fannst Íslendingar ekki átta sig á því hversu gott þeir hefðu það.
Misskipting heimsins mikil og Ísland sæluríki. Rapparar töluðu fjálglega um ánægju á Kúbu – áttuðu sig ekki á skortinum í landinu þar sem fólk vann, skeit og dó. Það þekkti ekkert annað, eilífur skortur, ellilífeyrisþegar betla, engin millistétt. Bara yfirstétt og fátækir. Rússland var að fara sömu leið.

Það skemmtilega við Íslendinga var hvað þeir voru nýjungagjarnir og snöggir að komast upp á lagið með ótrúlegustu hluti. Sjálfsbjargarviðleitnin greipt í genin – það voru engin tré til að týna ávexti af eins og á öðrum hnitum jarðkringlunnar. Þeir voru oft á tíðum efni í góða brandara, og þá hlógu guðirnir og það lengi, oft dögunum saman. Tíminn er svo afstæður í eilífðinni, þeir sem lifa að eilífu munar ekki um tvær vikur í góð bakföll yfir einhverju ansasköftum mörlandans. Guðunum fannst best að taka því rólega, því að vinna og vinna og vinna þegar þú getur tekið því rólega og frestað því til morguns sem gera á í dag, því hvað er ein klukkustund, dagur, vika eða jafnvel öld fyrir einhverjum sem lifir að eilífu. Íslendingar unnu og unnu og keyptu og keyptu en gátu sjaldnast notið gæðanna sem þeir unnu til. Þeir voru svo frumstæðir en samt svo fjarri hinum sönnu gildum veiðimannsins, hirðingjans, safnarans... Inúítar og veiðimenn sunnan Sahara unnu og hvíldu sig svo, þeir unnu ekki meira en þeir þurftu til. Flestir Evrópumenn höfðu verið á réttri leið, styttu vinnuvikuna svo þeir gætu varið lengri tíma með tærnar upp í loft. En jafnvægið er brothætt, þeir sáu fyrir sér að offjölgun eftirstríðssáranna hafði í för með sér að færri handa nyti við til að vinna fyrir sífjölgandi gamalmennum svo skera þyrfti niður ellilífeyri komandi gamalmenna ef vinnuvikan héldi sömu lengd. Stjórnmálamennirnir sem réðu öllu og voru á miðjum aldri og eldri sáu sér vænstan kostinn að lengja vinnuvikuna því ekki vildu þeir þurfa að líða skort. Reyndar var lífeyriskerfi Evrópumanna meingallað – þeir söfnuðu ekki í forða, þ.e. séreignarlífeyrissjóði, heldur notuðust við skatttekjur hvers tíma til að borga lífeyrinn út. Að því leiti voru Íslendingar sniðugri – vanir því að þurfa að sjá fyrir sér sjálfir og því nauðsynlegt að eiga forða til mögru áranna eins og áður. Íslendingar, höfðu góða tengingu við miðaldir því þær aflögðust nánast af við aldaskilinn þar síðustu.

Nú átti eftir að ákveða plottið í fyrsta þætti þeirra. Um hvað áttu þeir að keppa – hvað gat farið úrskeiðið o.s.frv. Þetta átti að taka fyrir á næsta guðaráðsfundi, fundarboð höfðu verið send út. Fundarefni voru mörg og að mörgu þurfti að hyggja en meir um það seinna.

|




20.1.05

Leiðindin

Maður heyrir sjaldan af leiðindunum, fólk talar lítið um þau. En öldur ljósvakans færa manni stundum leiðindin en reyndar var fjallað um þau í Víðsjá um daginn, góður þáttur það.

Það rýkur úr sjónvarpstækinu, það er ekkert hægt að gera, maður hefur ekkert fyrir stafni og yfir mann hellast leiðindin, það gerðist ekkert, ekki óhapp, maður var svo glaður fyrir stundarkorni, en nú er ekkert nema tóm – leiðindi. Það eru tóm leiðindi núna. Tíminn silast áfram, eins og aldrei fyrr – þ.e. hann ætlar aldrei að líða og maður finnur svo fyrir honum.

Maður finnur svo fyrir öllum tilfinningum tómleikans í leiðindunum. Stærðfræingurinn og heimspekingurinn Pascal sagði ekkert verra en að hafa ekkert fyrir stafni. Maður finnur hvað maður er vanmáttugur gagnvart tóminu. Hver kannast ekki við þetta, þetta minnir mann á sunnudaga þegar maður var lítill. Sunnudagarnir ætluðu aldrei að líða, sunnudagshugvekjan – með sorglega gítarlaginu. Þegar ég heyri í John Denver þá minnist ég alltaf sunnudagshugvekjunnar, það er eitthvað við aumingjans manninn sem fórst í flugslysi á eigin vél. Leiðindi það.

Stjörnuhrap og gosbrunnur til skiptis, kviknakin tími – berstrípaður, lítil birta, það er janúar núna.

Leiði og leiðindi ekki það sama. Ekkert er jafn mikið feimnismál og leiðindin, allir segjast hafa nóg fyrir stafni, tómt fjör, engum leiðist er það, engin(n) minnist ekki á leiðindi. Öllum leiðist á einhverjum tímapunkti. Hvað gerist þegar manni leiðist.

Tilfinningafælni, heimspekin forðast leiðindi. Sprettur eitthvað annað upp úr leiðindunum.
Snúast um tíma, í leiðindum verðum við tímans áskynja, erum alltaf að hugsa um hvernig við eigum að verja honum og hann fer fram hjá okkur, svo þegar okkur leiðist þá finnum við fyrir honum. Tengsl leiðinda og tímans eru upplifun á tíma, ekki hægt að dreifa athyglinni með því að aðhafast – eru föst í honum tímanum – ferðumst með honum, leiðindi verða þjáningarfull, allt tapar merkingu, kyrrsett í honum, hann vill ekki líða. Þýðir ekki að ilja sér við fortíð, augnablikið er leiðindi og bólgnar út.

Einhverjir heimspekingar segja að Allt lífið sveiflu og við keyrum okkur upp í vonir og væntingar, við keyrum okkur upp í að ná tilsettu takmarki, þegar það svo næst koma leiðindin, við erum svona eins og sínusbylgja. Græðgi og leiðindi sem tengjast, lífið er eins og pendúll sem sveiflast þar á milli. Leiðindi birtingarmynd af einhverju stærra – þyngsl mannlegrar tilveru, eitthvað sem fylgir okkur. Við dettum í doða, föllum í leiðindi og getum ekkert að því gert, þetta kemur fyrir alla. Missum móðinn tímabundið, dettum út frá markmiðunum, leiðindi – dugnaður: andstæður. Geðlæknisfræði, klínískt fyrirbæri, sjúklegt fyrirbæri. Sjúkleg afbrigði af leiðindum, hvenær verða þau það mikil að við þurfum pillu, eru til hæfileg leiðindi. Er hollt að láta sér leiðast meira en við gerum, sprettur eitthvað meira og betra upp úr leiðindunum, nútíminn vill ekkert af leiðanum vita. Hreystimerki að leiðast aldrei, þau eru samt undirliggjandi, skemmtanaiðnaðurinn væri ekki nauðsynlegur ef engum myndi leiðast, við styttum okkur stundir, drepum tímann, þessi orð koma upp um það. Við höfum ofan börnum, þess þarf ekki, ef við leifum leiðindunum að líða hjá börnunum þá verða þau einmitt að láta sér detta eitthvað í hug, þau þurfa að hugsa. Tóm mötun er óholl, þá eiga þau ekki svar við leiðindunum þegar þau hellast svo síðar yfir og þjálfun hugans er ekki til staðar – svarið er fundið innantómum lausnum mötunarinnar. Börn þekkja leiðindi vel, detta ekkert í hug, vera stopp, þau þurfa að láta sér detta eitthvað í hug, leiðindi uppspretta nýrra hugdetta.

Við skynja leiðindin betur með því að hlusta á tónlist, AIR, ZERO 7 eða eitthvað álíka, takta, dularfull hljóð, hollt að bíða og höndla leiðindin á annan veg, þau dýpka okkur e.t.v. því okkur kemur svo eitthvað til hugar, hugurinn fer á flug, hvað getum við mögulega gert. Við gætum hlustað á gleðitóna Herb Alperts en það verður síðan leiðigjarnt til lengdar og við verðum að finna nýja tóna, leita nýrra lausna. In-Flight diskarnir eru ekki taumlaus uppspretta.

Já, ágætt að leiðast af og til, það er ekkert við því að gera, þetta fylgir okkur.

|




13.1.05

Himnaríki og helvíti

Já, fyrir þá sem trúa á himnaríki í huga sér eða þá á himnum vil segja ykkur frá mínu. Í raun getum við kallað þetta paradís, aldingarð Edens, guðaríki á Ólympusfjalli - Valhöll er fullharður staður fyrir mig, við höfum önnur gildi í heiðri en þegar norræna goðafræðin var rituð; ekkert fyrir ofbeldi gefinn. Annar hluti af framhaldssögunni er á leiðinni, einnig ætla ég að tala um leiðindin bráðlega. Er ekki hollt að leiðast, óþarfi að vera diet-maður á tilfinningar og líðan, þ.e. forðast ófyrirsjáanlegar og óumflýjanlegar kringumstæður sem skapa leiðindi. Fólk oft hresst, en það þarf nú að burðast með sjálft sig alla jafnan. Sumum steríótýpum leiðist bara ekki, eða það heldur maður. Starfsfólk FM957 er t.a.m. alltaf hresst - fronturinn virkar þannig. Kannski grunnt á því, veit ekki, kannski hyldýpi þarna fyrir innan grímuna...
Pillur eru kostur, fólk getur fengið sé prósak og leitt þetta hjá sér. Það versta við prósakið að þekktar eru 184 hliðarverkanir á því, hef lesið að valíum sé "hollara". Þekki samt ekki muninn, vil ekki detta í díið, best að forðast freistingarnar á þessu sviði.

En himnarríki míns huga er gleðiheimur. Þar borðar fólk beikon, drekkur jólaöl og bleikt kjöt og rautt á víxl. Íþróttaleikar eru tíðir, sumir stunda brimbretti, siglingar, fara á sjóskíði og í fallhlífastökk á þess að þurfa að hafa áhyggjur af því að fallhlífin opnist - maður er eilífur. Maður ríður milli staða á sebrahestum eða ljónum, lætur jafnvel ljón draga vagninn sinn þegar farið er í heimsókn til vinar. Kvikmyndasýningar og leikhúsferðir - skautað á svellum, leshringir, málfundarfélög og blabla... Veit ekki með helvítið, allur matur grillaður þar með örlitlu kolabragði. Kannski að Tommi í rokkinu þurfi að elda þar 3 daga í viku í leyfi frá himnaríki. Satan álítur helvíti vera sína útgáfu af himnaríki. Sumir rúmast bara ekki innan rammans þar og hann féll ofan af himnum. Fólk í helvíti með öðruvísi hvatir og þarfir, eflaust BDSM félag þar og fólk með fetish fyrir skringilegheitum.

|