25.10.05

Hvað gefur lífinu gildi

Ég fór í tvær útskriftarveislur á laugardaginn, sú fyrri var hjá Kaðlinum og sú seinni hjá Boga Guðmundssyni sem býr rétt hjá Blikastöðum. Báðir voru þeir höfðingjar heim að sækja. Vömb var kýld hjá Kaðli og spjallað við gesti. Bróðir Kaðals, Gestur Sigurbjörnsson vatt fram spurningunni "hvað gefur lífinu gildi". Eflaust bara til að heyra vaðal í mér, hvaða vitleysu ég kæmi nú með - hugsa nú að tannlæknirinn hafi sitt svar á reiðum höndum. Einfalt svar er það að við sáum í akurinn og uppskerum í sífellu. Það gefur lífinu gildi að fylla huga og hjarta með stóru og smáu. Þá er einnig hægt að velta því upp hvort um daglegan basís er að ræða eða hvort til lengri tíma sé litið. Að morgni er dagurinn opinn upp á gátt, útplanaður eða ekki. Venjufesta er góð því ef við fylgjum góðum siðum eftir þá er líklegt að við skilum góðu dagsverki, við erum ekki að finna upp hjólið í flokknum fastir liðir. Þann einstakling sem skortir festu meginstoða hvort sem er einkalíf, vinnu eða skóli ræðir, hann hefur óreiðu í kollinum og hún plagar hann sem fílter sem lokar á frjálsa hugsun því hún á örðugt um vik ef grunnþættir eru ekki í föstum skorðum. Óregla fastra liða getur valdið hugarvílum og hugsun kemst ekki á flug því hún er fangi smáatriða sem vita ekki sinn tilverurétt í lífi einstaklingsins. Listamaðurinn skapar ekki ef allur hans tími fer í brauðstrit, en brauðstritið getur samt sem áður verið innblástur til síðari sköpunar. Við vinnum úr lífinu og því liðna, með fortíðina á farteskinu tökumst við á við framtíðina og núið. Fortíðarlaus maður veit ekki hvert skal stefna því hann veit ekki hvaðan hann kom.

Hauslaus í elhúsinu, ekki er þvotturinn betri
Ég er fortíðarlaus maður að nokkru í þvottahúsinu og eldhúsinu. Er samt allur að vilja gerður en veit samt ekki alltaf hvaða stefnu ég á að taka, ég geri bara eitthvað, nota skæri til að klippa kjötið í stað þess að skera það með hníf. Tökum dæmi. Ég kem heim af æfingu með súr og löðursveitt íþróttaföt. Ég vil nota þröngbrækurnar og dry-fit treyjuna frá æfingunni og set þær því í vask og vind upp úr heitu vatni, helli einhverju í vaskinn, örlítið þvottaefni, jafnvel handsápu í fljótandi formi og mýkingarefni. Læt þetta liggja og vind svo og hendi í þeytivindu, hengi svo upp og nota á næstu æfingu. Þetta er engin regla, væru formæður mínar sáttar við þetta? Ég fengi falleinkunn.
Tökum annað dæmi. Ég mætti í vinnu í Þróttheima fyrr í kvöld. Það er ljóst að hver maður þarf næringu og ég var ekki sáttur við 2 samlokur og djús. Eftir heilan dag og æfingu vil ég meiri fyllingu. Úr varð að ég sótti kjúkling heim, hrísgrjón, Cantonese sósusull og kókoskarrísósu, tómatar og sveppir fengu að fljóta með. Kjúlli var gaddfreðinn svo ég setti hann í örbylgjuna í hálftíma, var hann ofsoðinn eftir það. Setti ég á mig bleika þvottahanska og reif gripinn út, hellti kjúllanum með afvatni í vaskinn og kreisti fuglinn til. Þar eftir á fat þar sem ég úrbeinaði hænsnið og kryddaði með því sem fannst í kryddskápnum – chilli krydd og eitthvað annað sem var til. Kjúlli var tilbúinn í pottinn og sauð þar í 20 mín á meðan grjónin og sveppir og tómatar voru steiktir. Svo var öllu sullinu í hent í minni pott með kókoskarrísósu og hrært. Matgæðingurinn Töddi var ekki alveg að skilja þessi vinnubrögð, hann legði ekki leið sína á skyndibitastaðinn Hulk og baunir. Svo var borðað með grjónum og Cantonese sósu. Ég kann ekki neitt í eldhúsinu og hef engar fastar vinnureglur, þetta er eitthvað sem misfórst í uppeldinu. Ég er fortíðarlaus maður í eldhúsinu, kannski lagast þetta, er að safna í sarpinn. En auðvitað gefur svona djókeldamennska lífinu gildi, allaveganna fyrir þá sem á horfa.

Morgunmatur
Talandi um matarvenjur. Morgnarnir eru eitt havarí. Stundum hleyp ég á morgnanna og er í tímaþröng, fæ mér einn banana og vatnsglas og kaffibolla. Stundum klára ég kexpakka og drekk pott af undanrennu með. Ef blöðin heilla þá kjammsa ég á tveimur Seríósdiskum með bönunum og sporðrenni jafnvel súkkulaðiköku með nokkrum mjólkuglösum eftir það. Jú lýsi og fjölvítamín eru ekki skilin útundan. Ég líð ekki næringarskort held ég.

|




19.10.05

Stjörnurnar

Sem ungur drengur var ég sérstakur áhugamaður um íþróttir og tölfræði. Lét reyndar ekki staðar numið við þau efni en það er nú annað mál. Ég sat límdur við skjáinn þegar heimsmeistaramót í hverju því sem nöfnum tjáir að nefna fór fram og Ólympíuleikar. Upp úr 1990 var Katrin Krabbe spretthlaupari ráðandi á brautinni. Hún keppti undir merkjum Austur-Þýskalands og svo síðar sameinaðs Þýskalands eftir fall múrsins. Mér þótti hún svaka sæt. Það voru mér því mikil vonbrigði þegar kom í ljós að hún var með óhreint mjöl í pokahorninu eða réttara sagt þvagsýnum sínum. Í æfingabúðum í S-Afríku var hún böstuð og bæði A og B sýnin voru jákvæð. Hetjan féll af stalli rétt eins og Ben Johnson hafði gert nokkru áður. Big-Ben hljóp skeiðið á 9,79 sek í Seoul ’88 og bætti sitt eigið heimsmet frá því í Róm á HM þegar hann hljóp á 9,83. Árangur hans var þurrkaður út og heimsmetið féll í skaut Carl Lewis sem hljóp í Seoul á 9,92 sek. Þess má geta að fyrra “löglega” metið átti Calvin Smith 9,93 sek frá 1983. En besti tími Krabbe er gildur í dag, 10,89 sek.
Í tilefni af því að 17 ár eru liðin frá því að Krabbe hljóp sitt besta hlaup 19 ára gömul birti ég myndir af henni. Annars er heimsmetið í dag eign Asafa Powell nokkurs 9,77 sek.



Ég var áskrifandi af íþróttablaðinu á sínum tíma og mig minnir að viðtal hafi birst við hana þar frekar en í íþróttablaði Moggans, þar sem hún greindi frá því að hún hefði sérstakt dálæti á fótbolta sem upphitun.

|




18.10.05

Eitt skref...
Það vill oft verða svo að maður setur lítið á síðu. Ástæðan e.t.v. sú að mikið er að gera og maður hefur bara ekki neitt að segja, daglegar athafnir koma í veg fyrir að eitthvað gerjist í höfðinu og þá er ekki til neins að segjast hafa borðað kornflex eða seríós. Ég á svarta bók. Það er enginn svartur listi í bókinni en kennari í góðum áfanga sem ég tók mælti með því að maður gengi með eina slíka á sér. Hugmyndir koma og fara og þær bestu líta oft dagsins ljós og fara jafnharðann, þá er betra að hafa skriffæri við höndina. Núna er svarta bókin full og engin auð blaðsíða í henni. Á reyndar fleiri bækur, 2 í stærra broti - æfingadagbók og hin svona útfærslubók þar sem gengið er lengra með hugmyndirnar sem koma upp í þeirri minni sem hefur runnið sitt skeið. Já, maður gengur eitt skref áfram og bætir svo öðru við og vonandi ekki afturábak.

Skapandi skemmtidagar eru í gangi í félagsmiðstöðvum borgarhlutans. Árni stendur fyrir Idol akademíu (fann ekki upp á nafninu) ásamt Lísu ópersöngkonu. Árni fékk nokkrum sinnum þá spurningu hvort hann væri í hljómsveit. Nei, ekki er hann í bandi, spurði samt einn drenginn til baka "veistu ekki í hvaða bandi ég er"... Fékk síðast tilboð um að gerast söngvari í bandi þegar ég var 15 ára. Engin tilboð í dag eða gær... Bað reyndar eitt sinn vini mína 2 að læra á hljóðfæri, þeir hafa ekki enn orðið við þeirri bón, ég verð að fara ýta á þá.

|




14.10.05

Taumlaus hamingja

"Lykillinn að taumlausri hamingja er að blóðið renni um æðar okkar með ógnarhraða, annars verður engin hamingja."

Cliff Hampton hjartaskurðlæknir, viðtal í Science, júní, 1983.

|




4.10.05

Náttborðið

Þetta með farveginn hérna fyrir neðan veldur því stundum að maður á erfitt með svefn, veit bara ekki í hvorn fótinn á að stíga, maður hugsar bara of mikið, tími ákvarðana runninn upp. Er gamblari í mér en er eitthvað svo áhættufælinn. Djúpa laugin bíður.
En hvað gerir maður til að galdra sig upp í rúm. Það er svo oft sem manni finnst dagurinn búinn og eitthvað krydd vanti í tilveruna. Ég ætla að greina frá bókunum á náttborðinu mínu. Tók þær sem eru á því en ekki eitthvað spennandi sem er ólesið upp í hillu. Þetta eru afar ólíkar bækur en maður er misvel stefndur þegar komið er í bælið. Þegar nokkrar bækur eru á náttborðinu þá getur maður valið það sem við á eða tími er fyrir. Ekki gott að einhenda sér í of spennandi lestur, smásögur geta þá verið lausnin eða statistík. En nota bene, ég sef á nóttunni svona yfirleitt og vaki á daginn.

1. World Desk Refernce. Um er að ræða statistík bók sem greinir frá helstu breytistærðum allra ríkja heimsins, stórra og smárra. Ísland fær eina opnu en Rússland 20 blaðsíður. Tæpt er á málum sem eru efst á baugi og öðrum sem standa þjóðum fyrir þrifum. Einnig er fjallað um glæpatíðni og stærð hagkerfi svo eitthvað sé nefnt. Ég er með 2004 útgáfuna, Financial Times gefur hlunkinn út svo eitthvað mark hlýtur að vera takandi á. Búin að vera á náttborðinu í rúmlega ár og verður það þar til útgáfa 2006 leysir hana af hólmi. 700 blaðsíður af smáu letri og þremur dálkum á síðu.

2. Bréf til Láru eftir Þórberg Þórðarson, útgefin árið 1924. Hef reynt að nálgast hana á bókasöfnum nokkuð lengi. Maður er ekki viðræðuhæfur í gestaboðum ef maður hefur ekki lesið Bréf til Láru. Er langt kominn með hana. Fann hana á Borgarbókasafninu fyrir rúmum mánuði síðan. Hún var síðast endurútgefin árið 1973 svo ekki heiglum hent að nálgast hana. Þórbergur tæpir á löstum samfélagsins og mönnum og málefnum og eirir engu og slær hvergi af. Maðurinn er magnaður, hreint magnaður svo ekki sé meira sagt - stílsnillingur. Held að Jói Ben kunni hana utanbókar enda mikill aðdáandi.

3. Hending (The Music of Change) eftir Paul Auster (1990). Auster er meðal fremstu nútímahöfunda og stíllinn góður. Fékk bókin Vertigo eftir sama höfund lánaða fyrir nokkrum árum og þótti afar góð. Las svo í íslenskri þýðingu New York þríleikin sem samanstendur af Glerborginni, Draugum og Lokuðu herbergi. Ekki þótti mér stílsnillin skila sér í þýðingunum samanborið við Vertigo sem ég las á frummálinu. Hending lofar góðu. Paul Auster var einmitt staddur á Klakanum fyrir stuttu í tilefni bókhátíðar og viðtal birtist í Lesbókinni við hann af því tilefni.

4. 100 ófrávíkjanleg lögmál um velgengni í viðskiptum eftir Brian Tracy. Vala systir gaukaði þessari að mér eins og hún gerir stundum, hún er duglegur kaupandi. Henni fannst ég þurfa að skerpa á markmiðasetningunni. Mótíverunarbók sem er ágæt til síns brúks og á við um lífið sem og um viðskipti.

5. Blikktromman eftir Günter Grass frá árinu 1959. Lengi hafði staðið til að leggja í hana þessa. Enda eitt af höfuðverkum 20. aldar las ég einhversstaðar. Nóbelshöfundurinn Grass (1989) segir frá sögu þjóðar sinnar (þýsku) og sjálfsmyndarleitar hennar og tekur á málefnum sem höfðu legið kyrr. Er langt kominn með hana en hún hefur legið í salti í smá tíma. Stóðst ekki mátið og varð mér út um hana þegar hún var gefin út í kiljuformi nú í ár.

6. Konan með hundinn eftir Anton Tsjekhov. Um smásagnasafn er að ræða í útgáfu Bjarts í þýðingu Árna Bergmann. Tsjekhov er ávallt nefndur einna fyrstur þegar spurt um fremstu meistara smásögunnar í heimsbókmenntunum. Magnaðar og skarpskyggnar persónulýsingar sem unun er að. Er búinn með þrjár sögur. Verð að klára hana áður en ég fæ sekt á safninu.

7. Saga heimspekinnar (þykkur djöfull) eftir Bryan Magee. Ekki þekki ég þennan höfund en hef haft augastað á henni eftir að hafa séð upp í hillu hjá Jónsa. Er kominn að David Hume. Maður hefur lesið sér eitthvað til í heimspeki en gott að fá betri yfirsýn yfir völlinn með svona riti. Ég hafði gott af áfanganum Þættir úr sögu heimspekinnar, eiginlega sá áfangi sem stendur upp úr hvað skemmtun varðar í háskólanáminu þrátt fyrir að verkfræði komi ekki þar við sögu. Fékk allaveganna skólun í skrifum á heimildaritgerð.

8. Áfangar í kvikmyndafræðum, ritstýrð af Guðna Elíssyni. Nýleg bók sem tæpir á kvikmyndafræðum, þ.e. frægar ritgerðir í íslenskri þýðingu. Er búinn með 3 ritgerðir, lendi örugglega í því að borga sekt af þessari bók.

9. Working With Emotional Intelligence, höfundur Daniel Coleman (1998). Dæmisögur af mismunandi fólki sem nær árangri út úr sér á mismunandi sviðum. Holl lesning sem opnar augun.

10. Um vináttuna eftir Marcus Tullius Cicero, kom fyst út 44 f.Kr. Er nú eiginlega búinn með þessa en í sumar bækur er alltaf hægt að grípa í ef maður nennir ekki að lesa eitthvað annað en langar að lesa eitthvað.

11. The Stories of John Cheever. Smásagnasafn sem ég fékk lánað hjá Völu systur. Er búinn með nokkrar.

12. Matlab – Forritunarmál fyrir vísindalega útreikninga, höfundur Kristján Jónasson. Keypti þessa fyrir nokkrum dögum og búinn að lesa og fara í gegnum fyrir framan Matlab. Ég er haugur í þessu forriti og lærði ekki mikið í Tölulegri greiningu, aðrir aðilar sáu um dæmalausnir mínar sökum tímaskorts. Þar sem ég er einn á eyðieyju í þessum áfanga sem lýtur að Matlabinu þá var ekki annað að gera en að fjárfesta í þessari bók. Það dugar lengi yfir henni.

13. Greinar. Er með haug af greinum héðan og þaðan. Er ekki alveg eðlilegur þar sem ég á þrjú þykk bindi af Best of Vísindavefurinn samantekið af mér og bundið inn af Háskólafjölritun. Bindin eru ekki talin með þar sem þau eru einhversstaðar geymd í kassa.

|




Farvegur

Maður þvaðrar og blaðrar um það sem er efst á baugi hverju sinni í heilabúinu. Oftast eru það hlutir sem eru nauðaómerkilegir en eiga það sameiginlegt að vera sammannlegir - orð, gjörðir, eitthvað sem kannski verður, athafnir sem eru til sóma og aðrar til vansa, eitthvað sem flest heilabú eða ekki öll eiga sameiginlegt. Stöðnun er sama og afturför. Þegar maður stendur á krossgötum og býst til að taka ákvörðun er margt sem maður velkist í vafa með. Ég stend á svona krossgötum og hef setið nokkuð aðgerðalaus eða þannig. Ég fæst við nokkurn veginn sömu hluti og í fyrra og árið þar á undan nema með örlitlum breytingum, örlítil framþróun en kannski ekki nóg. Eins og maður sé leitandi að ljósi í myrkrinu og vonist helst til þess að einhver rétti manni kyndil eða vísi manni sporin áfram, þessi réttu. En það er ekki einhvers að leiða mann áfram, þótt maður vildi glaður fá heildarráðgjöf um næstu skref frá alvitrum mentor. Það eru þyngsl mannlegrar tilveru og happ að þurfa feta sína eigin slóð. Þá eru það skrefin sem á undan voru gengin, einhvern tíman sem marka sporin áfram, það er nú bara þannig, svona í flestum tilfellum. Kannski kem ég með fréttir bráðlega af afdrifaríkum sporum í einhverja átt, vonandi þá réttu...

Það eru veður í íslensku samfélagi. Válynd, veit ekki. Það gerjast eitthvað, svo gerist það.

|