25.5.04

Borgarnes

Þá er ég farinn upp í Borgarnes að smíða. Veit ekki hversu lengi, helst 14 tíma á dag og æfa á kvöldin...

Þykku pistlarnir bíða.

|




22.5.04

Satan

Ekki að ég eigi í útistöðum við myrkrahöfðingjann, heldur bara hefur tölvan mín verið logandi í vírusum og ég ekki komist á net og sinnt ýmsu því sem þarf að sinna. Útilegur eru hressandi, sér í lagi ef eitthvað er gert í þeim.

Ég gekk þvers og kruss um Hengilsvæðið á miðviku- og fimmtudaginn. Fór með jaxla (kvk og kk) úr 10. bekk Langó á Vörðu-Skeggja, um 1000 m fjall. Spjallaði mikið og svaf á útflöttum hesti á trégólfi í fjallaskálanum Hreysi, gekk samtals í 9 tíma. Það er hressandi að sofa á trégólfi. Búinn að leigja uppörvandi ræmur. Ingmar Bergman gleði, tók Fanny och Alexander. Úrvals ræma þar sem allt rófið er skannað. Fjölskyldudrama þar sem skin og skúrir skiptast á víxl. Einnig The Candidate með R. Redford, The Company eftir R. Altman og Last Tango in Paris með M. Brando. Ætla að fleigja inn þykkum pistlum á næstunni um eitthvað milli himins og jarðar. Svo fer ég að undirbúa mig fyrir þularstarf sem ég tek mér fyrir hendur á Evrópubikarmóti í frjálsum ásamt Bryndísi Hólm og Gunna Palla - gott mál.

|




16.5.04

Skemmdarverk / klaufska

Einhver hefur komist inn á svæðið mitt og sett myndir á bloggið - hef líklegast skilið tölvuna eftir opna... ...aulaháttur.

|




12.5.04

Letterman er minn negri

Sýn er búin að skreyta jólatréið sitt með enn einni seríunni. Nú glitrar blikkserían Letterman seint á kvöldin. Ég var mikill áhangi hans þegar hann var sýndur hérna síðast. Jay er ágætur, en fullauðmeltur og mér líður eins og eftir að hafa lesið tvö Séð og heyrt blöð eða þá Suðurnesjatíðindi þegar ég horfi á þáttinn; smá velgja. Letterman er öllu kaldarari og hlífir ekki viðmælendum sýnum. Letterman er sagður vel gefinn og vel lesinn, örlítið meiri jaðarmaður en Jay. Þess má geta að baráttan stóð milli Letterman og Leno að taka við þætti Johnny Carson þegar hann lét af störfum. Letterman var vinsælli en Jay, þegar spjallþáttur Carson hætti,en úr varð að Jay tók við af Carson Lettermann færði fór að vinna á annarri stöð. Letterman er í New York, Jay í L.A. Woody Allen segir: Þeir fara ekki út með ruslið í Kaliforníu, þeir setja það í sjónvarpið.
Einnig er Conan O'Brian þéttur, hann var einmitt sýndur á CNBC, sem hékk á Fjölvarpinu um tíma en henni var skipt út fyrir Animal Planet sem er síður mitt kaffi. Sú stöð sem kom mér einna mest á óvart á Fjölvarpinu er BBC Learning - heví stöð inn á milli með úrvals heimildamyndaþætti. Einn dagur eftir. Það er hressleiki núna.

|




11.5.04

Gjaldþrota á sálinni

Oft kemur fyrir að fólki vanti neistan. Það er rétt eins og það mistur, ský eða móða fyrir vitundunum og engu er komið í verk, eða því sem komið er í verk er allt á hálfum hraða. Ég hef upplifað þetta nokkurn vegin fyrir prófið sem ég fer í á morgunn. Hugsa að þetta sé súrasta fagið af þeim um 30 sem ég hef tekið hérna við skólann. Þetta eru svona reynsluvísindi og sniðugheit og fagið heitir Þróun hugbúnaðar. Líklegast markast þetta af því að ég hef ekki áhuga á félagarýni og extreme-programming. Ég er að hnoða upplýsingum inn í haus og fannst áðan, áður en ég tók pásu, að ég væri hreinlega gjaldþrota á sálinni, alveg andlaus. En hvað er þá til ráða.

Ég er með nokkrar tillögur:

1. Hringdu í einhvern sem þú heldur að sé hugsanlega í skítnum og þér líður betur ef svo er, en honum ver.
2. Farðu í aukatíma hjá fagmanni og hann hjálpar þér og sér til þess að þú eyðir ekki tíma í vitleysu.
3. Hringið í Rikka í síma 899-0952 og blaðrið um vitleysu og hlæið, öskrið.
4. Kíkið í heimsókn í Rottuholuna í VR-3, fáið ykkur vont kaffi og spjallið við þjáningarbræður(/systur).
5. Fáið ykkur bíltúr og hlustið á útvarp.
6. Farið út að hlaupa (þetta er eiginlega besta ráðið), samt ekki taka of erfiða æfingu. Maður er í góðu skapi í svona 3-4 tíma eftir 30-40 mínútna hlaup.
7. Takið hring á Hlöðunni, oft er gott útsýni þar og munurinn er á að læra þar og t.d. í VR-2 er að umhverfið er betra. Er búinn að fá nóg af VR-2. Þetta er eins og með skrifborðið hjá þér, þú villt hafa hreint og fínt í kringum þig - óreiða truflar. Þetta er munurinn á Hlöðu og VR - hreint og órheint.
8. Kíkja í tímarit á klukkustundarfresti, en ekki of lengi. Datt inn í tímarit sem er massagott. Ekki oft sem maður finnur svona, þetta tímarit er Harvard Business Review, örlítill gáfupésastimpill á því, gott að hafa það á borðinu hjá sér, en innihaldið er betra.
9. Svo er hægt að kíkja í kaffi ef þú ert að sofna eða sniðugir geta hlaupið upp og niður tröppurnar eða tekið armbeygjur inni á klósetti...

Ég ætla að fá mér kommentakerfi. En þetta er nú allt í súrara kanntinum hérna á síðunni, veit ekki hvort ég eigi að gera tilraunabreytingar á stíl og setja inn einhverjar smásögur og súrar greiningar á einhverju...

Enda þetta á gullkorni frá Rikka. Í námsferð í Þýskalandi vorum við í heimsókn í efnaverksmiðju þar sem starfa um 20.000. Fylgdarmaður okkar var Mr. Habig. Þéttholda gaur í of litlum jakkafötum á glæsivagni. Mr. Habig var tæplega fertugur og geðugur gaur, doktor í verkfræði, en var alltof mikið í smáatriðunum. Svo var það í hádegismatnum (þetta var 8.00-17.00 ferð) að enginn virðist vera að mingla við gestgjafann að Rikki gefur sig á tal við hann. Segist hafa verið í þýsku í framhaldsskóla og: "when a had 2 in deutch I knew a had to take private lessons"... ...eflaust ekki fyndið nema menn þekki Rikkann...

|




10.5.04

Frekar slakur

Þetta er frekar slakur texti hérna fyrir neðan. Ég verð að fá mér kommentakerfi. Það eru fáir sem lesa þetta en ég er alveg til í að láta drulla aðeins yfir mig. En varðandi nafngiftina þá fíla ég betur nöfn eins og Seifur og Kletturinn, þau eru meira vona rock-solid.

|




9.5.04

Hulk, hvað er málið?


Ég ætla að segja ykkur forsöguna af því afhverju þessi síða heitir hulkinn.blogspot.com en ekki eitthvað annað. Ég er ekki grænt ofurmenni og sé sjálfan mig ekki í spegli sem slíkan og hef ekki áhuga á því. En hérna fyrir neðan er mynd af Gregg Valentino, garpur sem hefur teygt aðeins á mörkunum og er fulleitraður. Held hann verði ekki ekki langlífur. Hann kallar sig “true freak” og byrjaði upp úr ’95 að nota stera að einhverju ráði. Gregg er lágvaxinn, 165 cm, en ummál upphandlegsvöðva hans er mikið, 69 cm. Þessir handleggir eru hálf undarlegir í laginu og Gregg á eflaust erfitt með að ganga á Esjuna og tala í síma. Fróðleiksfúsir geta skoðað síðuna
http://www.greggvalentino.net/



Þykkt í honum

Þetta er maðurinn



Þegar ég var yngri þá las ég myndasögur og fór á bókaútsölur með pabba og fylltum við hillurnar mínar með bókum og myndasögum. Fæ pabba seint þakkað þessar ferðir þar sem vagninn var fylltur af fræðslubókum á borð við Spendýr og Fuglar frá Fjölva og Þróun jarðar, Siðmenningin, Þjóðir heimsins, Risaeðlurnar, Alheimurinn og Efni og orka – allt bækur frá Erni og Örlygi. Ekki má gleyma ævisögum knattspyrnumanna og heimsmeistarakeppnisbókum Sigmunds Ó. Steinarssonar, en einnig flutu með heilu árgangarnir af Tarzan, Tarzan og syni hans, Hulk og síðan Spiderman. Mér fannst Tarzan ágætur, spáði ekkert í það þá að hallað væri sérstaklega á blökkumennina, en Hulk og Spiderman vöktu meiri hrifningu. Gat ekki skýrt það þá en um margbrotnari karaktera var að ræða – einstkalingar sem voru fórnarlömb vísinda og notuðu hæfileika sína til góðs – nokkur boðskapur þar á ferðinni. Hulk var vísindamaður og ég bar mikla virðingu fyrir vísindum, horfði alltaf á nýjustu tækni og vísindi og fræðsluþætti með Gylfa Pálssyni og Jóni O. Edwald. Hulk var líka breiskur og argur, hann réð bara ekkert við sig, það héldu honum engin bönd og hann hlaut samúð mína.
Þessir einstaklingar voru utanveltu jaðarmenn. Veit ekki hvort ég hafi orðið fyrir áhrifum af lestrinum og orðið einum of sjálfmiðaður, því ég var oft ófáanlegur til að senda á samherja mína í fótbolta, það gekk allt út á að sóla vel og sýna takta. Sem dæmi þá var ég eitt sinn settur út úr liðinu og sat á bekknum í 2-3 leiki, ég var afar ósáttur og greindi þjálfara mínum frá gremju minni. Fundur var haldinn þar sem ég, þjálfarinn og fyrirliðinn ræddum málin. Þjálfarinn sagði: “Vandamálið er að þú gefur aldrei boltann”, ég viðurkenndi það og lofaði bót og betru og fékk tækifæri á miðjunni í næsta leik, hann hafði nokkuð til síns máls.


En afhverju Hulk? Fyrir nokkrum árum handlékum ég og Skrattinn lóð í nokkrar vikur í Baldurshaga, íþróttaaðstaða undir stúkunni á Laugardalsvelli. Gamli æfingasalurinn í Hananum var ansi grófur, samanasoðin tæki og stutt á milli þeirra – allt það nauðsynlegasta. Við hlupum og átum svo lóðin. Við spurðum hvorki kóng né prest og mættum á staðinn með blaster og 9 metra langa framlengingarsnúru og spiluðum HAM og annað þungmeti á miklum styrk á meðan á æfingum stóð. Eftir þrjá daga kom svo valllarstarfsmaður og spurði hvað við værum að gera þarna, við þóttumst grænir og sögðumst hafa æft þarna einu sinni í boltanum. Starfsmaðurinn sagði öll tilskylin leyfi vanta og þar við sat. Hringdi ég þá í Kolbein Pálsson þáverandi formann ÍBR. Sagðist ég vera að ná mér af meiðslum og þurfa að koma mér í form, en þessar líkamsræktarstöðvar væru bara ekki mitt kaffi og gott væri ef við gætum fengið leyfi frá honum til að refsa lóðunum. Kolbeinn var hjálpsamur og faxaði um hæl leyfisbréf niður í Haga. Lyftingarnar voru ekkert prófessional held ég. Við vorum með strengi í svona tvær vikur. Við lyftum á öllum skrokknum non-stop í svona 2 tíma og tókum svo langa sturtu á eftir. Eftir æfingar vorum við svo í móki enda átök engu lík. Fyrst átökin voru svo hörð þá fannst okkur tilvalið að gefa okkur styrk með nafngiftum í salnum og Skrattinn varð Rambó og ég Hulk.

Svo var það þegar bloggdæmið fór í gang um 2000 og við byrjuðum með vefsíður að eitthvað þurfti að nefna síðurnar og Rambó setti á laggirnar Munnangur Skrattans og ég Hulk og voru skrifin í þeim stíl – ærumeiðingar og úttektir á einstaklingum og ýmsum mælistærðum samfélagsins. Skrattinn olli nokkrum usla og lenti í ritdeildum við amlóð, fjölskyldufeður, RHÍ, Háskólafjölritun og fleiri. Það gekk svo langt að Skrattinn var kallaður inn á teppið hjá deildarforseta Viðskipta- og hagfræðideildar HÍ, þ.e. HÍ hýsti síðuna og eitthvað fór úttekt á þjónustu og starfsmönnum RHÍ fyrir brjóstið hjá RHÍ og sendu þeir kvörtun til forsetans og lokuðu síðunni. Vera má að Skrattinn hafi stigið línudans sem var á mörkunum. Skrattinn er einstaklega orðheppinn og lunkinn nýyrðasmiður og fær í mannlegum samskiptum, enda með sölumannseðlið í blóðinu. Fundur hans og forsetans byrjaði á stífum nótum, enda hefur forsetinn verið búinn að gefa sér einhverja mynd af þessum sóðakjafti, en myndarlega mannvitsbrekkan komst vel frá fundinum og skildu þeir sem mestu mátar og málamiðlun var niðurstaðan.

Skrattinn skipti svo um lén og átti eftir að ögra pöpul með hressilegum skrifum, m.a. um fegurðarsamkeppnir og hét því að mæta aldrei á þess háttar atburði, en varð undan því að láta þegar náfrænka hans tók þátt í einni. Af orðasmíði hans má nefna orð á borð við svellmeikerinn (mikið gel í hári, gel drýpur úr hnakka og myndar svell), leðurtaskan (ofnotkun á ljósalömpum, andlit eins og leður) og kreditkóngurinn (drengur sem straujar kortið sjálfum sér til ógagns). Skrattinn hefur lítið á sér bæra upp á síðkastið, er kannski að safna í sarpinn eða hefur snúið sér að öðru.

En semsagt, fyrst ég byrjaði með þessa Hulk-síðu þá hef ég ekkert látið af því að skýra hana eitthvað annað, eins og teppi, stóll eða seppi. En ég er hrifnari af innihaldsríkum textum heldur en dagbókarfærslum sem greina frá matarboðum og golfferðum...

|




8.5.04

Tómur

Maður endurspeglar að nokkru leiti athafnir sýnar og gjörðir. Viðfangsefni mitt litar mig, og liturinn er grár - áran eflaust grá. Jákvæðni er nauðsynleg og að standa upp á vissum fresti, pissa, borða og laga á sér hárið. Ég lifi fyrir samtölin sem ég á við fólk á förnum vegi og æfingar. Æfing dagsins einhver hlaup eins og vanalega, í Egilshöll að þessu sinni. Hlaupið frá A - B, B - A, B - A ... , með hvíld á milli. 30*100 m og ein mín í hvíld milli spretta, 6 mín eftir 10 spretti og svo aftur 6 mín eftir tíu. Tímar ca. 12,30-13,50 og sá síðasti á 11,90. Mér finnst þetta alveg heví. Tók Halla vin með og var hann ekki amlóð. Smálóð í Baldurshaga og þrautarseta í vatnsgufu Laugardalslaugar. Mikil vatnsuppgufun þar. Andstæður og fjölbreytilegt hlutskipti örva og þroska, ágætt að lifa stundum í mónó, þá sér maður muninn á steríóinu.

Sigurvegarar oftsinnis spurðir: Hver er lykillinn að velgengni þinni? Svörin eru margvísleg, en hef lesið að fólk læri meira á mistökum heldur en sigrum. Sigur kemur eftir að mistök eru leiðrétt. Sigur breytist í tap og þá er krísufundur, mistök leiðrétt og sigur vinnst.

Já, helvíti verð ég ánægður þegar þessi B.s. gráða er komin í hús. Best að ganga fullur orku í smalamennskuna, ekki nógu gott að sinna öðrum verkum um of þegar smalamennskan er annars vegar. Ef smali, stundar náttúruskoðun og ræður í skýin þá fer féð einhvert á flakk og smalamennskan dregst á langinn og verður leiðigjarnari... ...en í hús fér féð.

|




6.5.04

Von á einhverju

Já, segi það. Er von? Já, það er von, von á efni af einhverju tagi. Tenging og tölva heima við á við krankleika í taugakerfi að stríða. Hugur og hönd tölvunnar ekki í lagi. Ég geri eitt, tölva geriri annað.

Kraftwerk tónleikarnir voru upplifelsi. Stóð í rúma tvo tíma á sama staðnum hlustaði og horfði. Þeir tóku flesta slagarana sína, ef um slagara er hægt að tala. Fúnksjón - virkni, það er rétta orðið. Áhrifin af tónlistinni eru skynjun og hugsun - líkast tilgangurinn með henni. Hef nú aldrei dinglað fótum þegar ég hef hlustað á Kraftwerk, frekar legið eða setið, hlaupið, ekið eða hjólað.

Rakst á gott tímarit á Hlöðunni - Harvard Business Review. Það leynist ýmislegt á Hlöðunni. Tveir greinar vöktu áhuga minn og ljósritaði ég. Sú fyrri fjallar um þjálfun alfa-karlmanninn, sem er ráðandi stjórnandi í 90% tilvika við stærstu fyrirtæki heimsins og sú seinni um listina að segja góða sögu, þ.e. saga vs. power-point show í þeim tilgangi að sannfæra ráðgjafaþurfandi aðila að þeir þurfi greinilega á ráðgjöf að halda. En meira síðar.

|




4.5.04

Kraftwerk nálgast

Það á ekki af mér að ganga í tölvumálum. Haugurinn í ólagi og netið líka, laga eftir próf. En nú styttist í Florian Schneider og Ralf Hütter. Garpar sem vítið er vitað um. Góð stefna það að vera ekki flanandi um í fjölmiðlum. Ég vil helst ekkert vita af þeim leikurum leika í bíómyndum sem ég vel að góna á. Það er líka í takt við ímynd þeirra - þ.e. þetta hefur eflaust skapað ímynd þeirra, auk tónlistar - engin viðtöl og ekkert gefið upp um efnið. Þýsk vélmenni, og ég fer á þau í Kapplakrika.

|