30.8.06

Veran

Dagarnir líða hver af öðrum án fyrirsjáanlegra breytinga. Tilvist okkar markast af stund og stað og sporunum sem undan eru gengin. Áhrifavaldarnir utanaðkomandi eru sem suð í eyrum okkar sem við tökum ekki eftir, reynum ekki að leggja beinan skilning í heldur skynjum og meðtökum sem straumvatn sem líður meðfram bátnum okkar á leið niður fljótið. Lífsstraumur í lífsfljóti.

Merkingarleysa er jafnmerkileg og merkingin í lagsettri tilveru því ekkert getur verið fullþrungið merkingu og ekkert getur verið alsnautt allri merkingu að öllu leiti. Leit að tilgangsleysi felur í sér tilgang.

Ágústmánuður Íslendinga á svipuðu reki er varðar aldur og áhugamál, áhorf og hlustun er áþekkur. Við upplifum áþekkt suð og upplifum svipaða reynslu af miðlunum í kringum okkur. Sjónvarp matar, bíl þarf að þrífa, sokka þarf að þvo, rassgöt þarf að skeina og svo fram eftir götunum. Kaffistofur vinnustaða vega salt milli merkilegs og ómerkilegs. Greiddirðu Magna atkvæði, veistu hver fékk Emmyverðlaun fyrir bestan karlleik í spennu/drama-seríu, Millarnir halda víst stórtónleika næstu helgi, nýjasta skoðanakönnun fréttablaðsins er svo margtúlkuð að enginn veit hvað út úr henni kemur og hvað hver vill sem henni svaraði...
Oft veit ég ekki hvernig ég á að lesa í raunveruleikan, hvort að ég þurfi þess og til hvers það sé nauðsynlegt. Er hinn sanni raunveruleiki ekki óraunverulegur, komust við hjá því að skynja hann, förum á mis við hann því við erum svo alsett óraunveruleika, uppfull af sýnd og tilbúningi.

Þetta er allt gott og blessað! Nú? Já, þetta er frítímanum að kenna og er það ekki bara vel. Við þurfum að fylla upp í frítímann. Við fáum öll efni til búksins svo hann starfi vel, við þurfum ekki að strita til að lifa sæmilega. Þegar þessum frumþörfum er fullnægt er rými fyrir allskonar þarfir. Hvað verður fer eftir vali. Er metnaður val, áskapaður eða lærður eða bæði... metnaður til að velja vel...

Frelsið er erfitt. Agi er dyggð, ekkert upphefst án einskis. Hvað er ég að fara!!!
Skapalón einstaklinga er eins og amaba; aldrei eins. Ég vil samt flokka og flokka og flokka, og það fyrir sjálfan mig jafnvel. Til að skilja heiminn og umhverfið. Svona nánast út í hörgul. Það sem skilur okkur að í skilningsleitinni eru stikar og forsendur.

Samtíminn. Maður leggst of sjaldan niður og hugsar um núið, það bara líður hjá. Þegar við hugsum um núið er það liðið – eina leiðin er að stara bara út í tómið og skynja með skilningarvitunum.
Ég skil "núið" í ágúst ekki til fulls því ég hef ekki hugtök kvikmynda, bókmennta og jafnvel sál-og félagsfræði á hreinu. Í stað þess skynja ég bara og veit ekki alveg hvað er, kem ekki orðum að því, þar sem ég veit ekki hvað skynjunin merkir og finn ekki orð til að tengja svo ég geti velt henni upp. En skynjunin er holdgerð tilfinning. Kannski skortir andstæður til að skerpa á sýninni. Ég er svo samdauna öllu að ég ber ekki skynbragð á hin ólíku lög því þau standa mér svo nærri. Því getum við sagt: Glöggt er gests auga!

Hvernig var ágúst... ágúst bara var....

|




23.8.06

Sápur og afmæli...

Sl. fimmtudag hugðist ég hitta Jónsa vin minn ásamt Bensa og öðrum köppum á Óliver vegna þess að Jónsi er við framhaldsnám í tannlækningum í BNA og fær bara 14 daga í frí á ári og sá ég hann síðast um jólin. Jæja, ekki frásögur færandi um það. Bensi hugðist sækja mig og var ég ekki í VR þegar hann hringdi í mig og ekki við síma – skaust í sund. Hann hringdi án afláts í einmana síma en fékk ekkert svar og beið þess sem verða vildi. Jæja, ég náði í hann og fórum við og sóttum Jónsa og var Edda kærasta Bensa í bílnum því vinkonur hennar biðu hennar á sama Óliver. Við töltum okkur upp á efri hæð staðarins. Haldiði ekki að tæplega 20 manns hafi beðið í óvæntri afmælisveislu. Ég átti vart orð en fann nokkur til að lýsa ánægju minni með uppátækið en vissi varla hvernig ég átti að haga mér. Bensi spurði mig í bílnum hvers ég óskaði mér í afmælisgjöf og voru svörin íbúð, kona (íbúð gæti fengist með konunni reyndar), hjól og jafnvel föt. Svo hélt Bensi tölu um þetta og viti menn, kemur ekki Bogi Guðmundsson með Trek hjólfák forlátan ekki af ódýrustu gerð og færir mér að gjöf frá hópnum. Frábært kvöld og veglegt að hálfu hópsins. Samankomið fólk úr öllum áttum, einhverjir komust ekki, einhverjir gleymdust (vona að enginn hafi orðið sár) og ekki náðist í suma. Ég sem var að röfla um það um daginn að manni væri aldrei komið á óvart...

Ég horfði á sápu með systur fyrir 2 dögum. Þetta venjulega, endursýning á Beverly Hills. Ég fussaði og sveiaði yfir þessu öllu. Minnti systur á að margt betra væri við tímann að gera og ég hefði lesið nokkrar bækur undanfarið. Talandi um þessar bækur. Búinn að lesa nokkrar sem gerast á svipuðu tímabili en nú veit ég bara ekki hvort ég nenni að halda því áfram. Bækurnar Baróninn, Brekkukotsannáll, Híbýli vindanna og Heimsljós. Ég er kominn nokkuð inn í Heimsljós og er bara kominn með nóg af sveitarómögum. Það er bara allt í volli hjá sögupersónunum. Maður hlær yfir Laxnesi en Ólafur Kárason á bara svo bágt svo til að peppa mig upp eftir lestur um nokkra hríð tók ég í First things first eftir Stephen Covey – gat bara ekki sofnað við tilhugsunina um sveitarómagana, var næstum farinn að samsama mig við þá...

|




15.8.06


Ári eldri




Ég ákvað að setja inn eina mynd þar sem ég er orðinn ári eldri en ég var daginn áður. Að sálfsögðu klæddist ég sömu peysu á þessari mynd og 13. ágúst svo samanburður yrði þægilegri þeim sem í hann leggja. Með mér á myndina slæddust mágur minn Jesú og pabbi hans, þið vitið nú hver hann er þá. Slaknaði eitthvað á húðinni? Og ef svo er, þá köllum við það bara reynslu. Hver vegur að heiman er vegurinn heim. Allar leiðir eru ákveðinn hringferill, bara eftir því í hvaða samhengi við lítum hlutina og hvaða mynd við drögum af þeim. Upphaf og endir sitthvor hliðin á sama peningnum...

Við skulum vona að ég geri nú eitthvað viturlegt og heimurinn bíður í ofvæni, bíður þess sem verða vill, bíður dögunar nýs morguns - prinsinn stígur sín fyrstu skref í heimi fullorðinna. Það veit enginn hversu frábær maður er nema maður sjálfur. Já, breiða út fagnaðarerindið, fagnaðarerindið sitt. Leyfa öðrum að koma og sjá dýrðina sem er þarna...

|




14.8.06

Afmæli

Ég á afmæli í dag. Nú er stórhátíð, getið hversu gamall ég er...

Já, árin líða, hvers varð ég vísari á því síðasta. Maður setur sér markmið, nær þeim og skilur eitthvað eftir sig – þetta er víst tilgangurinn og margt annað liggur þarna á milli. Hef talað um krossgötur og já þær nálgast og eru þannig sé komnar og ég stend á þeim. Lífið er lína, máli er að hafa hana eins og jarðskjálftalínurit en samt sem mesta fyrir ofan núllásinn. Við viljum ekki sínusbylgju, viljum allra síst beina línu. Ekki gaman ef allt er fyrirsjáanlegt, ekki gaman að vita úrslitin fyrirfram. Ég verð áfram heill og sannur, hef komið mér upp góðum gildum og sigli því áfram mína braut með þau að veganesti.

|




10.8.06

Hjólamassinn 2006

Nú er komið að því. Einn af hápunktum síðasta sumars var Hjólamassinn 2005. Ferðahópurinn samanstóð af 25 hraustum karlmönnum á aldrinum 24-33 ára. Ferðin hefur heimasíðu og munu upplýsingar birtast þar. Ef þú ert verðugur og með pulsu á þér ertu mögulega velkominn, hafðu bara samband. Ýmislegt er gert annað en að hjóla í ferðinni en gott er að eiga ágætis hjól eða hafa aðgang að því. Ef þú getur ekki hjólað 300 km á hálendi Íslands á fjórum dögum þá hvílirðu þig bara af og til í trússbílnum. Læt eina mynd fylgja með af hluta hópsins í Kerlingafjöllum þar sem gist var á þriðja degi ferðarinnar. Fyrir utan snjókast var farið í pott með Hollywoodstjörnu svo aldrei er að vita hvað gerist í ár.



|




8.8.06

Ilmvatnsömmur og Svali

Ég geri nokkuð af því að viðra mig á almannafæri. Ég fletti ekki klæðum af mér, ég fer út og hleyp um Elliðaárdalinn. Þetta geri ég ef ég fer ekki á æfingu á tartanið í Laugardalnum eða í bolta. Ég hreyfi mig daglega. Ég er með 2 varíanta af hringjum sem ég hleyp, gæti virst tilbreytingarlaust en það er það ekki þar sem ég hleyp hringina á mismunandi hraða og við mismunandi tónlist...

Maður mætir oft fólki á hlaupunum. Það eru reiðnámskeið í gangi þarna hjá hesthúsunum nærri Fáksheimilinu. Þegar fólk er í færi þá ósjálfrátt eyk ég hraðann og hlaupastíllinn er góður, hann er það reyndar alltaf, passar í kennslumyndbönd. Fólkið sem hlaupið er framhjá eða fram úr eru pör, vinkonur á táningsaldri á tölti milli húsa og svo konur á miðjum aldri í stafagöngu. Það er gott að hreyfa sig. En málið er með þessa hópa að maður lendir í ilmvatnsrúsi, algeru skýi. Þannig að þegar ég sé konur á miðjum aldri eða eldri ganga saman þá glotti ég ávalt við tönn og krossa mig í bak og fyrir – ég meina, þær svitna varla af því að ganga svona, svo eru þær svo vel klæddar að það getur jú gerst en þá loka þær svitalyktina inni. Við getum flokkað ilmvötnin sem lykt = amma og lykt ? amma. Átta mig ekki á þessum ömmulyktum, herfilega væmnar – maður getur reyndar gengið í gegnum svona ský á Bókhlöðunni. Ef ég sé konur undir fertugu í gönguhópum þá hristi ég hausinn. Veit náttúrulega ekkert um heilsufarið, vil bara að fólk fái pumpuna til að slá hraðar – það er það sem skiptir máli. Læknir sagði víst við pabba að golf væri heilsubót fyrir fólk upp úr áttræðu.

Ég missti ekki af keppninni Sterkasti maður heims 1985. Þar þurfti Jón Páll að lúta í lægra haldi fyrir Geoff Capes, kraftajötunni og kúluvarpara. Jón Páll vann titilinn ári áður og átti eftir að bæta 3 í safnið. En mér hlýnaði um hjartaræturnar þegar ég sá Jón Pál eftir keppnina dreypa á Svala enda falsaði ég komur hans í helstu gestabækur listasafnanna um svipað leiti.

|