30.3.06

Greiningarkerfi hugans

Maður er oft fljótur að dæma. Myndar sér hálfmótaðar skoðanir á augnabliki. Hugurinn er magnað fyrirbæri og í rauninni maðurinn í heild; hegðun og atferli. Fyrsta mínútan í samskiptum fólks oft mikilvæg. Ef einhver fær neikvæða mynd af manni tekur oft einhvern tíma að snúa henni. Þess vegna er gott að vera meðvitaður og gefa viðmælanda séns þrátt fyrir að hann komi ekki nógu vel fyrir, leyfa honum að njóta vafans.

Ég fór í háskólagymmið fyrir vinnu í dag. Ég er alltaf að reyna að nýta tímann vel, hljóp í 35 mín (15 mín interval) og sippaði svo í 10 mín. Allar hreyfingar mínar eru mjög hraðar og úthugsaðar þegar inn í klefann er komið. Ferlið er: sturta – þvottur – þurrkun – rakstur – vikt - klæðasig’í – greiðsla við spegil. Maður dæmir fólk út frá atferli og ég réð ekki við mig í dag. Var strax búinn að mynda mér skoðun. Ákvað að raka mig fyrir sturtuna, ég geri nefnilega nokkuð af því að raka mig í sturtunni, er ekki með naglabrodda í andlitinu svo sú aðferð dugar oft þótt ekki sé hún góð og Queer-Eyes gaurarnir hafi ímugust á henni – enginn spegill og svona. Ég mæti með mitt hafurtask á klósettið í gymminu sem samanstendur af tveimur vöskum og mjög litlu klósetti. Það er félagi við hliðina á mér að skafa sig. Handbrögðin eru eins og úr kennslubók. Hef aldrei séð þetta efni tekið fyrir en hann gæti gefið út kennslumyndband. Hann skóf þrisvar sinnum og sletti síðan í vaskinn og skolaði með bununni. Þetta voru rosa hæg handtök. Gaurinn ekki nema 27-8 ára en hægur eins og afi. Þetta hægði á mér, vont að sýna slæman stíl – hefði viljað vera einn og taka þetta með hraði. Þess í stað var ég að þessu á hálfum hraða og hreinsaði sköfuna oftar en góðu hófi gegndi að mér fannst. Ég gjóaði augunum við og við á hann. Hann virtist ekki vera með neinn sandpappír á grímunni svo þessi hraði kom mér á óvart, kannski var þetta önnur umferð – hann á kannski eldri pabba sem kenndi honum réttu handtökin við fermingu, þetta virtist vera heilög athöfn meðan mín einkenndist af virðingarleysi gagnvart skegginu, einu höfuðeinkenni karlmannsins. Strax og ég sá þessi handtök hugsaði ég með mér að þetta hlyti að vera svona stíf týpa, öruggar og hægar hreyfingar, hann er örugglega formlegur þessi. Svo þegar ég er að þurrka mér í sturtunni þá sé ég hann útundan mér klæða sig, það stóð þá heima, svartar terlínbuxur og skyrta, ullarpeysa yfir – svo kórónaði hann þetta allt með því að fara í rasssíðan ullarjakka – svona eins og pabbar eru í og maður átti þegar mar’ var í 4. bekk í Versló og greiddi í píku. Jæja, nóg um greininguna. Ég kannaðist við andlitið, svo skaust upp í huga mér hvaðan ég man eftir honum. Þetta var þá gamall spurningaliðsgarpur og margfaldur Gettu betur meistari, MR-ingur. Þetta kom þá allt heim og saman. Spurning hvort greining mín á karakternum sé rétt. Virkar pínu stífur, eflaust nokkuð formlegur í fasi og talanda, beinn í baki, nokkuð örugg skref en líkast til léttur í lund á góðri stundu og vel samræðuhæfur um menn og málefni. Svo fór ég að velta fyrir mér hvað kappinn væri að læra. Lögfræði, e.t.v. sagnfræði eða tengd fræði. Svo bar ég þetta í tal í vinnunni, ég greindi frá vangaveltum mínum og það stóð heima. Ein samstarfsstúlka mín kannaðist við kauða, sagði hann fara yfir verkefni í bókmenntafræðikúrs sem hún nemur. Sem sagt, hann á eftir að festa kaup á íbúð í Vesturbænum ef hann er ekki þegar búinn að því og það kæmi mér ekki á óvart að hann gengi menntaleiðina á enda, þ.e. doktorspróf. Mun starfa sem sjálfstæður fræðimaður og stunda kennslu, tel öruggt að hann muni skrifa nokkrar fræðibækur og fást við bókmenntagagnrýni í blöðum.

|




Grace Jones og magnaða plötualbúmið

Ég sá hana fyrst í View to a kill. Hún var jafnoki karla og hvöss og hörð í horn að taka. Þú veist aldrei hvar þú hefur hana. Grace Jones fædd á Jamaica árið 1948, flutti 12 ára gömul til BNA. Fór eftir tveggja ára háskólanám til Parísar og starfaði sem módel og leik- og söngkona. Hún var góðvinur Andy Warhol. Hún var gift sænska efnaverkfræðingnum Dolp Lundgren sem snéri baki við MIT (Mitchican Institution of Technology) styrk og snéri sér að leik. Hún er aðlaðandi á fráhrindandi hátt, kolsvört og stælt með grimmt augnaráð og fas.
Disneyland setti hana í ævilangt bann eftir að hún flassaði brjóstum sínum þar 1998.



Hér ber að líta albúmið af plötu hennar Island Lifa frá 1985. Held að albúmin gerist ekki magnaðri.




Hér skeytir hún skapi sínu, sem er allhart, á vörð laganna í View to a kill.

|




28.3.06

Skyrið farið!!!

Mér fannst ég vera voðalegur prakkari. En nú er ég hér í Þróttheimum og búið er að fleygja skyrinu. Svona fór það. Sælir eru einfaldir, greinilegt hvað ég er - þarf lítið til að gleðja mitt hjarta.

|




Geymsluþol kannað!

Hef verið spurður að því nokkrum sinnum í gleðskap hvort ég sé úr sveit eða bara utan af landi. Hvað veldur? Kannski orðaval. Ég var allaveganna alinn upp við það að leifa ekki mat. Mér þótti ótrúleg sóun þegar ég horfði upp á Bobby í Dallas fá sér 1-2 munnbita og standa svo upp frá borði skunda á braut. En ég, hvað kemur mér þetta við. Ætti nú ekki að segja frá þessu. Fyrir svona mánuði síðan þegar Heilsudagar voru að hefjast hjá ÍTR setti ég 12 kg skyrdunk með bláberjaskyri út á svalir félagsmiðstöðvarinnar. Úti var hiti rétt fyrir frostmarki. Ástæðan, jú, starfsfólk frístundaheimilisins sem er rekið þarna geymdu skyrið við stofuhita vegna plássleysis í kæliskápunum. Það veit ekki á gott fyrir mjólkurvörur svo ég fór með dunkinn út á svalir. Ég greindi svo við fyrsta tækifæri starfsfólki frístundaheimilisins frá athöfnum mínum. Ég kalla þetta góðverk. En hvað haldiði, rétt fyrir lokun í kvöld þá fór ég út á svalir – dunkurinn var enn á sínum stað. Ég fór með hann inn í eldhús og við mér blasti mygla. Nokkur lykt lagði frá dunknum. En það verðu nú engum meint af smá myglu. Það voru svona 9 kg í dunknum. Ég skóf alla mygluna í burtu af yfirborðinu og gott betur. Setti svo dunkinn inn í ískáp, tók sjálfur c.a. 2 kg. Svo er ætlunin að gæða sér á herlegheitunum á næstu dögum og athuga hvort mér verði meint af. Ég býst við því að ég komist heill frá þessu. Ég er samt spenntastur að sjá hvað verður um viðskiptavini frístundaheimilisins, börn á aldrinum 6-9 ára. Skyrið rann út fyrir hálfum mánuði, ég er spenntur að sjá hvað staffið gerir við dunkinn. Það sem drepur þig ekki herðir þig (7, 9, 13). Ég hringdi reyndar í mömmu og spurði ráða varðandi myglu í skyri. Hún greindi mér frá því að hér áður fyrr hefði þetta bara verið skafið í burtu. Já, á tímum þar sem gerlahræðsla og ofurhreinlæti ræður ríkjum er hér kærkomið tækifæri sletta skyrinu í skálarnar og sjá úr hverju ungviðið er búið til úr...

|




Plötur og celeb-tannsinn

Foreldrarnir á leið í sólina á morgun. Mamma bað mig um að taka saman nokkra diska fyrir sig, hún verður nú að geta hlustað á eitthvað fyrir kvöldmat og eftir ásamt pabba og ferðafélogunum. Hún veit ekki hvað hún var að biðja um. Fór að róta í diskasafninu. Maður lifandi hvað maður á af, ég segi ekki rusli enda ómar svoleiðis ekki í mínum eyrum!!! Jæja, ég fann einhverjar plötur með Engilbert Humperdinck og Johnny Mathies. Svo brenndi ég eitthvað með Villa Vill, Bítlunum, Bó og Abba.

En hvað er ég að gera með Engilbert og Johnny Mathies. Nú, fékk þessa diska hjá Jónsa. Jónsi er í sveittur að gera við skolta í BNA í framhaldsnámi sínu. En hann er ekki allur þar sem hann er séður. Hann stefnir að því að verða celeb-tannsi í L.A. Við höfum marga hildina háð saman, dúettinn hefur aldrei fengið neitt nafn en komið saman á árshátíðum og hjá einhverjum fyrirtækjum. Jónsi er lunkinn djasspíanisti og hefur stúderað Marvin Gaye og Stevie Wonder nokkuð. Hann nemur í Birmingham, Alabama. Ég heyrði efni sem hann setti saman í Reason forritinu og lofar það góðu. En semsagt, nú er hann orðinn innvígður sem hljómsveitarmeðlimur í blökkumannakirkju í Alabama. Veit ekki alveg hvernig hann fór að þessu. Kirkjan er í einhverjum skúr, þetta er hardcore blökkumannakirkja og er hann eini hvítinginn í söfnuðinum. Það veit náttúrulega enginn að hann trúir bara á sjálfan sig og punktur held ég. Jónsi segir hvern mann í söfnuðinum vera gullbarka sem gæti nánast rúllað upp hvaða hæfileikakeppni sem er. Einnig má geta þess að hann er alspilandi á harmonikku og lunkinn gítarleikari, ekki má gleyma að hann er eftirsóttur leiðsögumaður stangveiðimanna í Soginu, enda búinn að stúdera ánna vel. Ég mun bráðlega stofna bók í banka fyrir væntanlega Alabamaför mína. Jónsi er búinn að lofa mér prufutíma í kirkjukórnum.

Ég er alger haugur. Minna hefur farið fyrir gauli en efni áttu að standa til. Ég er nokkuð einangraður í gaulinu og þ.a.l. með nokkrar ranghugmyndir um sjálfan mig. Ég er með tvo söngkennara í sigtinu en hef saltað að hringja í þá, veit ekki hvor henti mér betur. Egó-ið er slíkt að ég efast ekki um annað en þeir vilji kenna mér. En líkast til verð ég togaður all hratt niður á jörðina eftir símtal við annan hvorn.

Sigurður Örn Magnússon kvartaði við mig að ég hefði ekkert minnst á hann undanfarið. Siggi er hæfileikaríkur félagsfræðingur sem óafvitandi bræðir öll kvenhjörtu sem hann kemur nærri. Einnig er hann vaskur boltagreinamaður og dansari... blablabla....

Í þessari geisladiskaleit minni rakst ég svo á Biblíur athafnamannsins. Bækur sem ég hef leitað nokkuð lengi að. Bækurnar First things first og Priciple-cenetered Leadership eftir Stephen Covey og Do it know eftir William J. Knaus. Vonandi hjálpa þessar bækur mér út úr tilvistarkreppunni “hvað ætlarðu að verða þegar þú ert orðinn stór”. Jafnvel sinna kennslu, ráðgjafastarfsemi og fyrirlestrarhaldi. Þar sem ég verð ekki prestur (ættingjar mínir hafa sagt að fyrir mér lægi að gerast prestur eða skólastjóri) þá verð ég að finna einhverja leið til þess að predika yfir fólki. Mest um vert fyrir fólk að finna sér rullu á leiksviðinu sem hæfir best hæfileikum þess.

|




23.3.06

Plötur og textar

Ég hef gert lítið af því að kaupa plötur undanfarið. Orðið “undanfarið” er nokkuð loðið. Set ekki tímamörk á “undanfarið”. Undanfarin ár? Nei, keypti mér plötur á netinu í fyrra, eitthvað sem fæst ekki á neti. Ég ætla samt að kaupa Plötu ársins með Ég, einnig Leaves plötuna og Benna Hemm Hemm. Þessar sveitir spila melódískt rokk/popp. Flest meistarastykki virka á kassagítar, getum farið 100-200 ár aftur í tímann og þetta próf virkar nokkurn veginn. Með gjafir! Gaf eitt sinn vegstiku í blómapott með vikur. Þetta var vegstika lífsins, stærri gjöf varla hægt að gefa. Viti sem lýsir. Ef þú veður reyk þá þarftu bara að finna réttu áttina með vasaljósi og vegstikan hrópar til þín í gegnum reykinn.

Ég las á vef gagnrýni á grunna texta Ég. Það er ekki á allra færi að semja góða texta. Texta sem snerta. Ég vil ekki hlusta á drumbslega texta sem lýsa rökkri og sálarangist. Textar mega vera einfaldir, nánast upphrópanir. Tónlistin gefur orðunum meira vægi og þau standa þá jafnvel ein og sér og hugurinn sér um afganginn. Textar Pink Floyd eru háfleygir en tónlistin ber þá uppi, myndu ekki virka með öðrum tónum. Sungið um tíma og rúm, mig og þig. Það er hrópað og öskrað. Stundum er textinn ekki að fara neitt eins og ljóð Steins Steinarr. Tíminn er eins og vatnið, og vatnið er kalt og djúpt eins og vitund míns sjálfs... jæja, bara einhver stemming, skynja en ekki skilja. Það er ágætt að lifa bara í einhverri skynjun, hugsa og skilja ekki. Skemmtileg tilfinning, tíma vel varið í ekki neitt, augnbliks notið með skynjun. Ennio Morricone hefur bara raddir í sínum bestu verkum, ahhh...
Talandi um Beach Boys, Child is the father of a man/son. Barnið er undanfari. Gjörðir þess marka það sem síðar kemur, fjallað um einn mann, blabla... Svo hleypur maður og dreymir sína stærstu dagdrauma um heimsyfirráð og textar meika ekki sens, bara eru.
Þessi síða sem dæmi. Oft bara blaður með rassgatinu. Ætlaði að klára þessa sögu um Gabríel og Satan fyrir löngu - var kominn með strúktúr á hana, bygginugu sem átti að skýra hlutina í betra samhengi en bara einhver orð út í bláinn. Svo var annað í burðarliðnum - einhverjar æfingar.

|




22.3.06

Herra Ruddi, afmæli og Mr. T

Viskan er ávalt skýrust í einfaldleikanum. Ég fór í tvö afmæli á laugardaginn. Mér var vandi á höndum. Hvað átti ég að gefa. Önnur gjöfin var hópgjöf og höfðum við Töddi rætt um að gefa Billa dömubindi. Ef Billi spyrði hvað hann hefði við þau að gera yrði honum tjáð að hann ætti að troða þeim upp í rassgatið á sér. Okkur Tödda fannst þetta fyndið sem þetta er. Töddi stakk upp á ilmspjaldi. Það er frábær hugmynd, þá þyrfti Billi ekki að fara í sturtu. Eitt í klofinu og sitt hvort spjaldið í krikunum. Jæja, höfum gefið túrtappa og ýmislegt rusl. En ég var að leita að sniðugu smáræði fyrir Björgu. Leitaði einhverrar heimspeki í Máli og menningu Laugavegi. Var kominn í þrot þegar ég hitti á Sigurjón. Sigurjón benti mér á barnabækur, skilaboðin væru skýr og kæmust ávalt til skila. Jæja, ég tölti mér niður í kjallarann og rambaði á stand af Herrabókum. Ég fór að blaða í gegnum Herra Rudda, Herra Subba og Herra Hávaða. Ég átti þessar bækur aldrei og þetta var því frumlesning. Herra Hávær á nokkuð vel við mig. Ég veinaði af hlátri og snéri mér út í horn og skríkti þegar ég sá fólk koma niður. Lendingin var tvær bækur af Herra Rudda. Billi fékk ilmspjald í kaupæti. Auðvitað tókum við ilmspjaldið upp svo fnykurinn yrði viðloðandi gleðskapinn. Svo pakkaði ég gjöfinni hans inn í dagblöð, kramdi þau vel og yst var forsíða bæklings ruslbúðarinnar Tiger. Ég teipaði þetta svo allt fast með dökkteipi. Maður fagnar alltaf afmælisbarninu vel og innilega en auðvitað er hluti af leiknum að slá í gegn með gjöf sem kemur á óvart og hún slær náttúrlega sérstaklega í gegn hjá manni sjálfum. Bókin hæfði Billa ágætlega þótt dagfarsprúður sé. Hann hefur yndi af að vera ósammála og er það vel, enda væri fólksflóran eflaust fátækari ef hans nyti ekki við, segi það sama auðvitað um sjálfan mig. Hitti tvo ótengda einstaklinga nokkuð blellaða um daginn sem sögðu mér þetta, þ.e. að ég væri ekki eins og fólk er flest. Það má skilja til hægri og vinstri.
Herra Ruddi er líka einstakur. Herra Ruddi áttar sig engan veginn á ruddaskap sínum. Segir nefstórum manni að nota nefið sem ryksugu og allir nötra í kringum hann. Svo taka borgararnir til sinna ráða þegar þeim finnst nóg um lætin og kenna Herra Rudda lexíu þar sem hann sér hversu illa hann hefur leikið pöpulinn. Herra Ruddi lærir að koma betur fram við náungann.

En í síðustu færslu kynnti ég Chuck Norris. Fyrst Chuck er kynntur verð ég að kynna annan meistara og ekki minni. Mr. T er ótrúlegur maður sem berst með kjafti og klóm fyrir betri heim. Bækistöð hans er félagsmiðstöðin og fákur hans van-inn góðu. Mr. T kennir Shakespeare, Bush, Slipknot, Pink Floyd og Tony Blair lexíur. Ef þessir menn stíga útaf þröngum vegi dyggðarinnar og raska ró unglinganna þá mætir Mr. T á svæðið og leiðréttir það sem aflaga fer.


Það elska allir Mr. T og hann á sér aðdáendur úr öllum röðum þjóðfélagsstigans óháð aldri.


Þegar Van Damme rændi Jackson 5 vissi hann ekki hvað hann kallaði yfir sig.

Viðskiptabann BNA á Kúbu hefur leikið Kastró og landa hans grátt. En sá gamli á vini í S-Ameríkuog sendir lækna í kippum til Venezúel og fleiri ríkja þar sem hann á bandamenn sem bera sama hug til stjórnvalda í BNA og hann. Kastró misreiknaði sig þó eitthvað og kom sér í bobba þegar hann böggaði Mr. T. Gullforði Mr. T gæti hæglega opnað margar dyr fyrir Kastró og Kúbu, en bíðið við þetta er gullið hans Mr. T og kappinn sá lætur ekki taka það frá sér.

En það sem Chuck Norris og Mr. T kenna og Herra Ruddi lærir er gagnkvæm virðing fólks í millum. Gullna reglan - komdu fram við náungann eins og þú villt að hann komi fram við þig, er í fullu gildi. Hvatvísi skapsmuna er bagaleg, diplómatískra leiða skal leitað fyrst og fremst, stundum þrýtur nú þolinmæðin samt.

|




21.3.06

Chuck Norris

Chuck er alþjóðleg kvikmyndastjarna. Það eru staðreyndir um Chuck Norris á netinu og þær eru allar sannar. Chuck heitir bara Chuck í myndunum sínum því þær eru heimildarmyndir um hann að bjarga heiminum.

"Chuck Norris doesn´t sleep, he waits." - þessi tilvitnun er lýsandi fyrir manninn.

Þegar skatturinn sendir Chuck greiðsluseðil, sendir Chuck mynd af sér til baka og málið er dautt. Hvar værum við ef við hefðum ekki menn eins og Chuck.

Kvöldlesningin þessa daganna er Freakonomics. Höfundurinn Levitt tekur gögn og dregur ályktanir út frá þeim. Orsaka-afleiðingartengsl eru önnur á ýmsum málum en haldið hefur verið. Kappinn er með próf frá góðum skólum og fékk verðlaun frá Hagfræðisamtökum Bandaríkjanna, orðu sem gefin er hagfræðingi undir fertugu sem skarar fram úr. CIA hefur leitað á náðir hans.

|




17.3.06

Er þróun!!!

Vísindamenn hafa velt því fyrir sér hvort við séum að breytast. Genasamsetningin sé önnur en fyrir 10.000 árum. Settar hafa verið fram kenningar sem greina frá því að þróun hafi staðið stöðvast fyrir 60.000 árum síðan og því sé erfðafræðilegir eiginleikar kynstofnanna þeir hinir sömu, sama hvert litarhaftið sé. Skrifaði ritgerð um þróun mannsins í framhaldsskóla - 20 bls þvaður. Heimildir sem ég fann gátu þess að tennur hefðu minnkað frá því fyrir 15.000 árum, ég taldi mig hrósa happi yfir því að vera með þær í stærri kanntinum. Betra að hafa þær stærri en minna þegar þær eyðast og sargað er á beinum og hráu eða seigu hálfelduðu kjöti. Það fór saman við hugmyndir mínar að ég kysi frekar að fara aftur 40.000 ár í tíma en fram. Gæti Hulk litli með skoltinn sinn og búk staðið jafnfætis Cro-Magnon manni? Í einni bókinni sem ég las mér til í var sagt að ef hvítþvoðungur frá Cro-Magnon í Frakklandi yrði fluttur til okkar daga gæti hann stundað leik og störf, numið kjarneðlisfræði en sökum kraftalegra líkamsburða ynni hann fyrir sér sem statisti í hetjumyndum sökum öflugrar líkamsbygginar, karlmenn af þessu kyni voru að jafnaði 185 cm, beinaleifa greina frá því. Svo er talið að Neanderdalsmaðurinn sem ekki er að fullu ljóst hvernig tengist okkur hafi haft þrefalt sterkara grip en við og lærleggurinn á þeim var sveigður sökum öflugra lærvöðva. Neanderdalsmaðurinn dó út fyrir 30.000 árum. Hann hafði vitið í vöðvunum. Var ekki jafn fær í að veiða í hópum og ekki ljóst hversu þróuð talfærin voru.
Hef velt þessu fyrir mér. Ef þróun á sér stað og hefur verið síðan samfélag mannanna fór að flækjast og blöndun að aukast. Skiptir það sem þú gerir og hugsar máli þar til þú hleður niður grislingum. Ef svo er, þá er gott að nota hugarflug og reikna flókin dæmi, hugsa djúpar hugsanir og stunda líkamlegt erfiði af einhverju tagi til að viðhalda þeim burðum, andlegum sem líkamlegum sem okkur þykja eftirsóknarverðir. Las grein þessu tengdu í nýjasta hefti New Scientist. Vísindamenn sem dunda sér við þessi fræði finnst sú kenning hræðandi að breytingar eigi sér stað eftir að leiðir tóku að skiljast. Einn kynþáttur sé þá með meira af eftirsóknarverðari eiginleikum en einhver annar kynþóttur. 70% manna eru með gen sem þróaðist fyrir 15-30.000 árum, fjórðungur er með gen sem talið er hafa þróast fyrir 1.000-15.000 árum. Gyðingar af Askhenazy stofni eru sagðir fá að jafnaði 15 sigum meira á greinarprófum en gengur og gerist. Ástæðan er sú að frá 800-1600 e.Kr. máttu þeir ekki vinna eðlilega vinnu í samfélaginu og þurftu því að nota hugvitið meira og fóru m.a. út í viðskipti. Blöndun hafi þá orðið sem leiðir til að einstaklingar með þessa eiginleika hafi parast saman. Þetta er viðkvæmt mál. Uns við vitum ekki hvað raunverulega er, virkjum hug og búk fyrir barneignir og veljum “heppilegan” maka.

|




Er allt varningur sem hönd festir á? Er lífið þjónusta?

Eftir þessi kaup mín í Malmö leið mér eins og á jólunum. Innantóm kaupgleði tók völdin. Besta leiðin til að tala við innfædda, auðvitað að versla, afgreiðslufólkið fær borgar fyrir að sýna manni áhuga og spjalla, systur fannst stundum nóg um. Mér fannst eitthvað merkilegt hafa gerst en það var samt hólf tómt samt. Nýr varningur í minni eigu í skiptum við uppskeru yfirvinnutíma í mars. Ég þjónustaði sjáflan mig með varningi, með kynnum af afbragðsfólki og því að vera til í öðru umhverfi. Önnur menning en samt lík. Svipað fólk en önnur tilbrigði, meira af hinu og meira af þessu. Stelpurnar með freknur eftir ljósaböð sem eru víst útbreidd. Ljóst hár, aflitað eða ekki. Vængir a.k.a. “Bold and the beautiful” greiðslur. Allir vel til hafðir, allir grannir, ekkert af fólki í yfirþyngd nema það hafi haldið sig innandyra.

Ég fór með systur í tíma, sænskar kvikmyndir eða eitthvað, tíminn féll niður svo ég missti af fróðleik. Bókasafnið kannað, góðar byggingar. Stelpurnar vel til hafðar, strákar í skyrtum, v-hálsmálspeysum, leðurskóm og blazerjökkum... margir í þröngbrókum. Þrektíminn stendur upp úr. 90 mínútna hart púl í stóru íþróttahúsi, 100 manns í tíma.

Eitt kvöldið var farið út að dansa. Til mikillar lukku var atvinnumaðurinn Védís með í för. Við vorum sveitt sem er gott. Gólfið á okkar helming var hálf tómt þegar við byrjuðum, við smituðum með dansgleði – það heyrðist í Svía að við fengum ekki afgreiðslu á barnum. Þetta er e.t.v. munurinn á okkur og þeim. Við erum meira utan rammans, óhrædd að fara utan hans, víkingurinn stríðsmaðurinn er sterkari í okkur. Þeir meira svona eins og hermaurar sem ganga í beinni röð. Miljónasamfélag má ekki við of mörgum einstaklingshyggjumönnum sem fara sínar eigin leiðir. Við skvettum vatni á gólfið og snérumst í hringi taktfast.
Svo var gleðskapur á laugardaginn, liðstyrkur hafði borist frá Köben. Bergling og Karen komu til að versla og dansa og spjalla, maður er manns gaman. Sænskt þema. Vængir og kynnalitur, blásið hár. Ég rannsakaði gaurana á föstudeginum, þurfti að skoða smáatriði svo ég yrði mér ekki til skammar innan um systur og stelpurnar sem voru allar með hárvængi og kynnalit. Já, drengir margir með blásið hár og allt virkar svo natural sem þýðir að mikil vinna fer í þetta allt saman. Ég notaði 3 tegundir af hárjukki og hárblásara til að fá þessa hárið sleikt aftur en samt ekki gjaldþrotagreiðslu. Svo var ég alltaf að sýna passann minn, skilríkjaæði í gangi. Góð ferð, holt að breyta til, kúpla sig út úr hringiðu fyrir aðra í skamman tíma.

|




10.3.06

Alí baba og búðarferðir

Sambýlingur systur kallar pítsugerðarmennina á horninu í Lundi Alí Baba og pítsurnar þeirra Alíbaba. Þessir Alí Babar eru Tyrkir og ekki skildir Alí Baba svo nokkru nemir. Svo heyrir maður um Alí Baba á skemmtistöðunum og í pulsusjoppunum. Þannig að greinilegt að hjá sumum er fólk, upprunnið frá og með Tyrklandi að Marokkó allt einhverjir Alí Babar.

Ég lagði land undir fót fyrir nokkru síðan og það Túnis. Á fyrsta degi var ég kaupglaður, hungraður eins og krásingar sem bornar eru á borð fyrir sveltandi mann. Ég að vegandi salt hvort kaupa ætti þennan eða hinn serkinn, þessa tösku eða þetta krydd. Allt strax á fyrsta degi að skoða mig um nágrennið og kanna varning. Já, ég lét einhvern Alí Baba taka mig í rassinn algerlega og selja mér inniskó og serk á margföldu verði.

Þegar út úr flugstöð var komið á þriðjudaginn gekk ég rakleiðis að leigubíl. Þar hitti ég fyrir Ný-Dana eða Tyrkja, gildir einu. Hann skutlar mér. Hann vill fá kreditkortið mitt, nota bene, hafði spurt djöful hvort hann tæki ekki kort (leigubílstjórar eiga víst að taka erlend kort) og hann jánkaði. Hann tekur kortið mitt á miðri leið og rennir í gegn og ekkert gerist. Góð ráð dýr. Ég í taxa og ekki með danskar krónur. Jæja, ég var þó með sænskar. Ferð sem átti að kosta 200 krónur danskar endaði í 350 krónur sænskum. Alí baba tók mig í þurrt taðið og það á fyrsta degi og ekki á heimavelli.

Jæja, hef nú samt fengið fínar bökur hérna hjá innflytjendum.
Hitti fyrir fólk í Köben, allt gamlir draugar úr VR, nú á öðrum vettvangi, sumir byrjaðir að vinna, aðrir komnir lengra í námi. Ég gisti hjá Önnu Helgu og vinkonu hennar. Anna er seig og er byrjar brátt í doktorsnámi í stærðfræðilegri verkfræði – gott hjá henni. Við fórum í jógatíma og ég verð að segja að ég skoraði engin stig í liðleika. Var nauðbeygður að fara í jóga því ég sagði það fyrir kerlingar en Anna sagði mig þurfa prófa....

Rúnta um í lestum milli Lundar og Malmö. Alveg búinn að versla mér nýja skó og eitthvað meira. Fékk næstum því fyrir veskið þegar búðum lokaði sem betur fer kl. 18:00 og ég var úr leik í bili.
Svíarnir eru hressir. Enginn feitur og allir á hjólum eins og í Köben. Það er víst einhver heví ljósakúltúr hérna. Allir með freknur (margir) og stelpurnar með aflitað hár. Flestir voða snyrtilegir.

Segi meira síðar.

|




7.3.06

Svíþjóð, hér kem ég...

Það eru nokkrir tímar í flug núna. Flýg til Köben og hitti fyrir Önnu Helgu og vinkonur hennar. Planað að fara í jógatíma og eitthvað annað sem ég veit ekki hvað er. Ætla ekki að versla á fyrsta degi, hef flaskað á því. Sælla minninga var ég tekinn í þurrt taðið af gráðugum sölumönnum í Túnis á fyrsta degi, full kaupglaður, það var allt hvort eð er ódýrt þótt ég greiddi fjórfalt verð. Er reyndar í úlfaldaskinnsinniskónum sem ég keypti á 1500 kall í stað 350, talandi um serkinn. Eitthvað verður verslað í Lundi og Malmö. Vona að systir sé búinn að græja forgang í röðum á helstu búllum, er ekki hægta að falsa sér einhver skilríki... get sagst starfa hjá MTV eða eitthvað.
Menningarreisa framundan. Kominn með uppáskrift um að ég nemi við HÍ svo ég geti fengið ódýrar máltíðir með systur og lært á bókasafninu. Var 15 mín að pakka. Gat ekki notað töskuna frá Völu systur svo ég er með svart hrúgald sem ég nota í útilegur... með kynstrin öll af einhverju fyrir systur. Tek lítið með mér út nema æfingaföt og eitthvað sem maður getur ekki verið án. 400 m tartan braut fyrir utan húsið hjá systur.

Vona að það verði “Heja Sverige” eftir ferðina... er þetta ekki skrifað svona? Hef séð skrifað “Heja Norge”, ætli það sé ekki svipað á sænsku.

|




2.3.06

Tilvistin

Stundum er eins og sótt sé að okkur úr öllum áttum. Það eru 10 boltar á lofti og erfitt getur verið að jöggla með þá alla. Kannski bara spurning um skipulag. En það getur ært óstöðugan að sinna of mörgu í einu. Þessa daganna eru Heilsudagar að fara í gang hjá ÍTR. Þeir hafa ekki skilað nægilega miklu, þótt merkja megi aukna aðsókn. Mikil vinnutörn framundan, Samféshelgi framundan með uppsetningu sviðs og Músíktilraunir stuttu síðar. Mikið að gera hjá íþróttafélaginu fyrir utan það eitt að æfa. Sjálfboðavinna hér og þar, auknar tekjur fyrir félagið. Svo er það skólinn, vá... það er haugur af skilaverkefnum. Einhver sem ég hef trassað og önnur sem bíða skiladags. Talandi um vinnumál. Tilveran getur verið sósa þegar næstu skref í tíma og rúmi eru óljós, ekki gott að vita hvort skuli stefna til hægri, vinstri eða beint áfram. Það veldur því að ekkert er farið, engin skref tekin.
Er að hnoða í pistil um tilvistina. Það hefur ýmislegt kviknað í huganum samfara lestri Glæps og refsingar og nú Djöflanna. Sagt hefur verið um höfundinn Dostojevskí að þar fari mesti tilvistarheimspekirithöfundur bókmenntasögunnar. Hann á fjórar bækur á topp 100 lista sem gerður var yfir mestu skáldverk allra tíma, Don Kíkódi Cervantesar tróndi þar á toppnum. Rétt eins og Tolstoj, þá kom Dostojevskí með sín stærstu meistaraverk á síðustu metrunum. Reynslan skilar sínu, sjáum það vonandi í komandi borgarstjórnarkosningum.

Já, tilvistin. Hver við erum, hvað myndar okkur. Tilvistin er flókið púsluspil. Minningar, fólk, tilfinningar, skapgerð, útlit, hugsjónir, vonir og væntingar, álit þitt á sjálfum þér og annarra, heilsa, sigrar, töp, dyggðir, sambönd, vinir og fjölskylda, starf, tekjur, búseta og þar fram eftir götunum. Hver er hornsteinn lífsins? Hver er hornsteinn tilveru þinnar? Sannleikurinn er vandmeðfarinn. Stundum er maður nokkuð grillaður. Maður er að reyna hugsa út fyrir ramman, vera frumlegur. Manni finnst maður nú samt sjaldan frumlegur. Kannski finnst öðrum það. Eðlilega – tveimur gömlum hugsunum lýst niður í huga manns og ein ný lítur dagsins ljós. Þetta var þarna allan tímann, það varð bara smá blöndun, háð stund og stað. Þekking er forsenda nýrra hugmynda. Varmafræðin stendur fyrir sínu, ekkert verður til úr engu. Það töltir enginn um völundarhús hugans nema þú sjálfur. Um að gera að hræra nóg í sér af og til.

Eitt til viðbótar. Stéttaskipting er allsstaðar, köllum það frekar goggunarröð. Goggunarröð, virðingarstiginn - eftir atvinnu, afrekum, aurum. Engir tveir eru eins sagði Íslandsbanki - já, konur eru frá Venus og menn eru frá Mars... (Hallur Hallsson þýddi samnefnda bók á íslensku). Þegar ég er spurður hvað ég geri þá vefst mér nánast tunga um tönn. Hvað maður gerir, svarið er þannig: það merkilegasta fyrst, svo koll af kolli.

|